Author Archive

Grænlandssjóður.

Greinar

Fastlega má búast við, að Grænlendingar gangi úr Efnahagsbandalagi Evrópu í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu, sem haldin verður eftir tvö ár. Þeir telja sig réttilega hafa orðið fyrir nokkrum búsifjum af hálfu bandalagsins.

Grænlendingar greiddu á sínum tíma atkvæði gegn þátttöku í bandalaginu, en urðu samt að sæta inngöngu sem hluti af danska ríkinu. Afleiðingin er sú, að þeir þurfa að fara til Bruxelles að sækja um að fá að veiða á eigin miðum.

Grænlendingar eru búnir að fá heimastjórn og stefna lengra. Búast má við vaxandi spennu í samskiptum Danmerkur og Grænlands. Danahatur fer vaxandi, einkum meðal ungra Grænlendinga. Dönsk tunga hefur þar ekki sama sess og áður var.

Grænlendingar óttast, að Danir og Efnahagsbandalagið séu að reyna að ná auðlindum landsins í olíu, ótal málmum og fiski. Óvíst er um gildi sumra þessara auðlinda. Ljóst er þó, að Grænlendingar hafa verið sárt leiknir í fiskimálum.

Dönsk stjórnvöld benda hins vegar á, að gífurlegt tap sé á Grænlandi, greitt af danska ríkinu. Grænland geti engan veginn staðið á eigin fótum. Hin nýju lífskjör þar í landi byggist á fé danskra skattgreiðenda.

Ekki alls fyrr löngu fengu Grænlendingar loks sömu laun og Danir fyrir sömu vinnu í Grænlandi. Enn eru þeir þó undirstétt í eigin landi, þar sem Danir skipa flestar helztu stöðurnar. Og lítið er um langskólamenntun Grænlendinga.

Allt þetta veldur spennu og erfiðleikum við stjórn Grænlandsmála. Íslendingar geta þar orðið að liði, til dæmis í menntun og tækni, ekki til að seilast til áhrifa, heldur sem góður nágranni, laus við nýlendustefnu.

Auk þess er ljóst, að Grænlendingar og Íslendingar verða sem nágrannar að taka upp samstarf í fiskimálum. Sennilega yrði það á breiðum grundvelli með aðild Færeyinga og Norðmanna. Verndun fiskimiða er þar efst á baugi.

Frumvarp um Grænlandssjóð hefur verið lagt fram á alþingi. Fyrsti flutningsmaður er Matthías Bjarnason og aðrir þeir Halldór Ásgrímsson, Benedikt Gröndal og Garðar Sigurðsson, þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum.

Frumvarpið gerir ráð fyrir, að árlega leggi ríkið til sjóðsins gengistryggðar 75 milljónir króna. Vöxtunum verði varið til kynnisferða, námsdvala, listsýninga, íþróttasýninga og annarra hliðstæðra samskipta þjóðanna.

Í greinargerð minna þingmennirnir á, að Grænlendingar hyggist minnast þess hátíðlega árið 1982, að þá verða liðin þúsund ár frá fyrstu heimsókn Eiríks rauða til Grænlands. Þingmennirnir vilja, að Íslendingar minnist þess einnig.

Oft eru þingmenn gagnrýndir fyrir það, sem þeir gera eða gera ekki. Þeim mun meiri ástæða er til að fagna frumvarpi, sem rís upp úr meðalmennskunni og dægurþrasinu. Frumvarpi, sem horfir langt fram eftir vegi.

Frumvarpið segir einfaldlega, að við eigum að reyna að verða næstu nágrönnum okkar að liði í erfiðleikum þeirra eftir töku landsmála í eigin hendur og að við eigum að reyna að koma á samstarfi um að efla sameiginlega hagsmuni.

Alþingi má ekki gleyma þessu litla frumvarpi í milljarðaskógi þingmála. Það er ekki bara einn blóðmörskeppur í sláturtíðinni. Það er framtíðarmál, sem alþingi hefði sóma af að ræða og afgreiða sem allra fyrst.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Forstokkaðir forsjármenn.

Greinar

Okkur finnst núna broslegt að hugsa til þess, að fyrir nokkrum árum var mjólkursölubann í matvöruverzlunum afsakað sem sérstök umhyggja fyrir neytendum. Bannið átti að tryggja neytendum betri og ódýrari mjólkurvörur.

Neytendur kærðu sig auðvitað ekki um þessa forsjá og börðust fyrir mjólkursölufrelsi. Þeim tókst að koma forsjármönnum á kné og hnekkja einkasölu í sérstökum mjólkurbúðum. En slagurinn stóð lengi og var harður á köflum.

Mjög víða í valdakerfi landsins eru menn, sem eru sannfærðir um, að þeir viti, hvað sé fólki fyrir beztu. Auðveldast er að finna þá í valdakerfi landbúnaðarins, því að þar er íslenzkt skrifræði á holdugasta stigi.

Sem lítið dæmi má nefna eggja-, kjúklinga- og svínarækt. Forsjármenn þykjast vita, hvernig bú heppilegast sé að reka. Þau skulu vera fjölskyldubú í stíl hins hefðbundna landbúnaðar. Stórbúin skulu hins vegar ofsótt.

Forsjármenn þykjast líka sjá, að heppilegt sé að jafna niður flutningskostnaði, svo að ekki þurfi að hafa áhyggjur af, hvort búin séu nálægt markaði eða fjarri. Þar kemur blessuð byggðastefnan til skjalanna.

Í öllum smáatriðum þykjast forsjármenn vita, hvernig skipuleggja skuli eggja-, kjúklinga- og svínarækt. Draumur þeirra er, að koma megi þessum greinum inn í lokað kerfi á sama hátt og hinn hefðbundni landbúnaður er í.

Hér hafa verið tekin dæmi úr landbúnaði, því að hann er sú grein, sem fjarlægust er þróunarlögmáli frjálsa markaðsins. En af nógu öðru er að taka, til dæmis spottprísaflugi með útlendinga milli Luxemborgar og New York.

Stjórnvöld fóru fram á, að þessu gersamlega vonlausa flugi yrði haldið áfram og buðust til að borga tapið. Ekkert mark er tekið á hinum frjálsa markaði, sem segir, að fátt sé til fáránlegra en þátttaka í þessu flugi.

Við mættum gjarna velta fyrir okkur, hvernig færi fyrir sjálfstæði Íslendinga, ef hugsunarháttur forsjármanna réði í sjávarútvegi, fiskvinnslu og fisksölu. Þá mundi molna sá hornsteinn, sem á að bera alla vitleysuna.

Hinn frjálsi markaður ákveður, hversu mikið neytendur í Bandaríkjunum borga fyrir freðfiskinn. Á þeim grundvelli vita menn hér heima, hvað hagkvæmt er að gera og hvað ekki. Þeir þykjast ekki vita betur en neytendur.

Í fiskinum eru engir búnaðarmálastjórar og ráðunautar, sem ákveða, hvernig fisk bandarískir neytendur skuli borða og á hvaða verði. Sannleikurinn kemur bara í ljós í hinum harða skóla lífsins, á hinum frjálsa markaði.

Þeir, sem læra á slíkar aðstæður, verða samkeppnishæfir. Þannig hefur sjávarútvegurinn gert Íslendinga að auðugri þjóð. En það er ekkert, sem bannar okkur að beita markaðshugsun á fleiri sviðum, sem að gagni gætu komið.

Draga þarf úr valdi forsjármanna á opinberum og hálfopinberum skrifstofum. Þeir ganga með þá grillu, að þeir sjálfir geti hugsað betur og hraðar en frjálsi markaðurinn. Þeir segja allt í einu, að nú þurfum við prjónastofur.

Kennslubókardæmið um dragbítana sjáum við í stofnunum landbúnaðarins. Þar sitja menn, sem jafnan eru reiðubúnir að ákveða, hvað sé framleiðendum og neytendum fyrir beztu, og óttast ekki neitt meira en einmitt frjálsan markað.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Tvíeggjuð niðurstaða.

Greinar

Með samningi Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins og félagsmálapakka ríkisstjórnarinnar á í stórum dráttum að vera tryggður vinnufriður í landinu í heilt ár. Það er alténd árangur af tíu mánaða samningaþófi.

Ekki má heldur gleyma, að samningamenn gáfu sér tíma til að samræma og einfalda launaflokka. Hér eftir fá nær allir félagsmenn Alþýðusambandsins laun eftir stiga 25 virkra launaflokka, hvar í aðildarfélagi sem þeir standa.

Þriðja mikilvæga atriðið er, að aldrei þessu vant tókst að semja um heldur rýmri hækkanir hinna lægst launuðu. Komið var í veg fyrir, að hinir betur settu mökuðu krókinn á síðustu klukkustundum taflsins fyrir undirritun samnings.

Neikvæðast við samninginn er, að hann mun magna verðbólguna, ef ekkert verður að gert. Að óbreyttu er nú gert ráð fyrir 80-90% verðbólgu á næsta ári. Því valda grunnkaupshækkanir og ýmis sjálfvirkni í kerfinu.

Sjálf kauphækkunin um næstu mánaðamót verður að meðaltali um 10% eða rúmlega það. Einum mánuði síðar eða 1. desember mun svo verðbólgureikningur valda svipaðri kauphækkun til viðbótar. Þessi hraði kann ekki góðri lukku að stýra.

Málsaðilar hafa samning ríkisins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sér til afsökunar. Þar var gefinn tónninn, sem spilað var eftir í samningnum á hinum almenna vinnumarkaði. Vinnuveitendur urðu að halda til jafns við ríkið.

Að gerðum þessum tveimur verðbólgusamningum á ríkisstjórnin þann einan kost að taka rösklega til höndum við marglofaða niðurtalningu verðbólgunnar. Að öðrum kosti missir hún stjórn efnahagsmála gersamlega úr höndum sér.

Félagsmálapakki ríkisstjórnarinnar verður ekki til að auðvelda henni verkefnið. Með honum hefur hún í ýmsum þáttum bundið hendur sínar og meðal annars lofað aðgerðum, sem í framkvæmd mundu leggjast á verðbólgusveifina.

Félagsmálapakkinn felur í sér ríkisútgjöld upp á nokkra milljarða á ári á núverandi verðlagi. Ríkisstjórnin verður væntanlega að skera aðra liði á móti til að koma í veg fyrir, að bólgin ríkisfjármál auki verðbólguhraðann.

Á hinn veginn er auðvelt að sjá, að pakkinn felur í sér mannréttindi, sem flestir munu telja æskileg og sumir sjálfsögð. Ber þar hæst loforðið um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn á næstu tveimur árum eða fyrir árslok 1982.

Ríkisstjórnin hefur gert sér mjög erfitt fyrir á þessu sviði með því að semja við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja um lífeyrisréttindi, sem eru töluvert umfram það, er hinar ríku nágrannaþjóðir okkar telja sig hafa efni á.

Sífellt endurteknir félagsmálapakkar eru mjög hættulegir. Þeir leiða til hraðrar aukningar félagslegrar velferðar, án þess að undirbygging atvinnulífsins eflist nokkuð til að standa undir þeim. Og svo er einmitt komið hér á landi.

Félagsmálapakkinn er tvíeggjaður eins og raunar hinar beinu kauphækkanir hins nýja kjarasamnings. Hvort tveggja leggur ríkinu á herðar skyldur til samdráttar um leið og það bindur hendur þess til slíkra andsvara.

En svo má líka segja, að verðbólgusamningur sé betri en enginn samningur, ófriður og vinnustöðvanatjón. Menn gættu hagsmuna hinna lægst launuðu, einfölduðu launakerfið og tryggðu þjóðinni vinnufrið í heilt ár.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið

Fáum hlutlausan dómara.

Greinar

Rétt er að taka undir með Ólafi Dýrmundssyni landnýtingaráðunauti, að íslenzk umræða um landbúnað á að snúast um, hvernig beri að stunda hér landbúnað og hversu mikinn, en ekki hvort leggja skuli hann niður.

Dagblaðið hefur löngum bent á hlutlausan aðila, sem geti skorið úr um, hversu mikinn landbúnað heppilegt sé að stunda. Sá aðili er ekki fulltrúi þrýstihóps, né verður hann sakaður um meinfýsi í garð landbúnaðar.

Þessi aðili er hinn frjálsi markaður. Dagblaðið befur lagt til frjálsan innflutning landbúnaðarafurða, að vísu ekki í einu stökki, heldur í áföngum og að loknum undirbúningsaðgerðum á öðrum sviðum landbúnaðar.

Við innflutningsfrelsi mundi nokkuð hár innflutningskostnaður bæta samkeppnisaðstöðu innlends landbúnaðar. Annarri vernd hafnar Dagblaðið, þar á meðal útflutningsuppbótum, niðurgreiðslum og innflutningstollum.

Á þessu sviði eins og öðrum þurfum við að færa okkur úr ofsetnum greinum í fásetnar. Við eigum að læra af, hvernig Bretar festust í kola- og málmiðnaði, bíla- og klæðaiðnaði, meðan Japanir hossuðu sér á hinum nýja rafeindaiðnaði.

Alveg eins og iðngreinar rísa og hníga á misjafnan hátt, þá rísa og hníga greinar landbúnaðar á misjafnan hátt. Við eigum að forðast hefðbundnu greinarnar sem mest, þegar þær mæta stöðugri offramleiðslu á alþjóðlegum markaði.

Þessu hafa talsmenn landbúnaðar andmælt með því að benda á, að þjóðinni sé nauðsynlegt ákveðið matvælaöryggi á hættutímum á borð við styrjaldir. Hingað til hafa þeir neitað að sjá fiskinn í geymslum fiskvinnslustöðvanna.

Ástæða er til að þakka Hákoni Sigurgrímssyni fyrir að hafa fyrstur talsmanna þrýstihóps landbúnaðar viðurkennt tilvist fiskjar í þessu landi. Það er veruleg framför frá fyrri blindni í röðum þeirra, sem hingað til hafa varið landbúnaðinn.

Á styrjaldarárum spyrjum við ekki um, hvort fæða sé leiðigjörn til lengdar. Við viljum lifa af og spyrjum því, hvaða efni við fáum úr fæðunni. Og á því sviði er fiskur enginn eftirbátur kjöts og mjólkur, hvað sem Hákon segir.

Dagblaðið hefir oftar en einu sinni rökstutt þá skoðun, að verulegur samdráttur hins hefðbundna landbúnaðar og innflutningur hliðstæðra afurða muni ekki draga úr nauðsynlegu matvælaöryggi þjóðarinnar.

Við frjálsan markað landbúnaðarafurða má telja líklegt, að töluverð framleiðsla mjólkur, grænmetis og raunar fleiri afurða muni haldast hér á landi. Því valda dýrir og viðkvæmir flutningar frá útlöndum.

Einnig er ástæða til að ætla, að innflutningsfrelsi landbúnaðarafurða muni ekki eyða dilkakjötsframleiðslu hér heima. Þar er um að ræða sérstæða afurð, sem íslenzkir neytendur kunna flestir vel að meta.

Þá hefur Dagblaðið bent á, hvernig draga megi saman seglin í hinum hefðbundna landbúnaði á þann hátt, að röskunin verði mun sársaukaminni en flóttinn frá landbúnaði hefur verið á undanförnum áratugum.

Aðalatriði er þó, að hinn hlutlausi, frjálsi markaður, (en ekki Hákon), ákveði, hvernig landbúnað og hversu mikinn við stundum. Alveg eins og neytendur geti ákveðið frjálsir, hversu mikið þeir kaupi af innlendum og erlendum dagblöðum og þá hverjum!

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Offramleiðslan er varanleg.

Greinar

Varnir hins hefðbundna landbúnaðar gegn kröfum um kúvendingu komust á hærra og raunar umræðuhæft stig með nýlegri kjallaragrein í Dagblaðinu eftir Hákon Sigurgrímsson, fyrrum aðstoð- arráðherra landbúnaðarmála.

Hákon vefengir, að verðlagsþróun landbúnaðarafurða á heimsmarkaði verði með þeim hætti, sem haldið hefur verið fram í leiðurum Dagblaðsins. Er þetta í fyrsta skipti, sem talsmaður þrýstihópsins fjallar af viti um kjarna málsins.

Hákon telur miklar líkur á, að landbúnaðarstefnu Efnahagsbandalagsins verði fljótlega breytt í þá átt, að offramleiðslufjöllin fari að rýrna. Bendir hann á, að bandalagið hafi þegar lækkað niðurgreiðslur á korni til Íslands.

Enginn vafi er á, að ráðamenn bandalagsins vildu gjarna losna úr viðjum landbúnaðarstefnu, sem minnir mjög á hina íslenzku. Hins vegar er ekki ástæða til að vera eins bjartsýnn fyrir hönd bandalagsins og Hákon er.

Við getum tekið sem dæmi hinn nýja og mjög svo stórtæka niðurskurð á fjárlagafrumvarpi bandalagsins. Þar voru allir liðir skornir miskunnarlaust, nema landbúnaðarfarganið. Það eitt reyndist ekki hægt að skerða.

Staðreyndin er sú, að þrýstihópar landbúnaðarins eru svo öflugir í löndum Efnahagsbandalags Evrópu, að þeir ráða ferðinni í öllum atriðum, sem varða landbúnað. Á því er ekki fyrirsjáanleg nein breyting á næstu árum né áratugum.

Væntanleg innganga Portúgals, Spánar og Grikklands í bandalagið mun enn breyta hlutföllum í því, þrýstihópum landbúnaðar í hag. Þessi þrjú lönd eru öll fremur lönd landbúnaðar en iðnaðar, einkum þó Portúgal og Grikkland.

Ef við víkkum svo sjóndeildarhringinn frá Efnahagsbandalaginu, getum við séð, að niðurgreiðslur þess og útflutningsuppbætur eru að verulegu leyti neyðarsvör gegn gífurlegri framleiðni og lágu afurðaverði bandarísks landbúnaðar.

Meðan íslenzkur starfsmaður í landbúnaði brauðfæðir 10 manns og vesturevrópskur 20 manns, brauðfæðir hinn bandaríski 60 manns. Þennan aðstöðumun eru Efnahagsbandalagið og Ísland að reyna að brúa með útflutningsuppbótum.

Þess vegna er hér því enn haldið fram, að um ófyrirsjáanlega framtíð muni heimsmarkaðsverð á kjöti, grænmeti og mjólkurvörum mótast af lágum framleiðslukostnaði í Bandaríkjunum og offramleiðslu beggja vegna Atlantshafsins.

Í þessum afurðum verður ekki mikið um verðsveiflur upp á við. Talsmönnum íslenzkrar landbúnaðarstefnu dugir ekki að benda á sveiflur í korni, sykri og kaffi, því að þar er um að ræða vörur, sem við framleiðum ekki.

Hákon Sigurgrímsson er einn þeirra, sem telur, að innlend framleiðsla landbúnaðarafurða eigi að vera í samræmi við svokallaðar þarfir þjóðarinnar. Miðar hann þá vafalaust við hinn lokaða búvörumarkað hér á landi, en ekki frjálsan markað.

Dagblaðið telur hins vegar, að innlend framleiðsla hefðbundinna landbúnaðarafurða eigi að vera mjög miklu minni en þarfir hins lokaða markaðar. Við aðstæður offramleiðslu á heimsmarkaði er mun betra að vera kaupandi en seljandi.

Af öryggisástæðum er ekki rétt að leggja hinn hefðbundna landbúnað niður. En framleiðsla hans ætti þó ekki að vera meiri en svo, að hún standist frjálsan innflutning án annarrar verndar en fjarlægðarverndar þeirrar, sem felst í mismuni flutningskostnaðar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Kunna ekki að stökkva af.

Greinar

Stjórnmálaflokkarnir fjórir eru í þann veginn að taka saman höndum um alvarlegustu og dýrustu mistök síðustu ára. Þeir ætla sér að þjóðnýta Luxemborgarflugið og bæta þannig nýjum “landbúnaði” á herðar skattgreiðenda.

Deilurnar á þingi snúast nærri eingöngu um, á hversu frjálslyndan hátt ríkið skuli grýta peningum skattgreiðenda í þrotabú Luxemborgarflugsius. Fyrir hönd skattgreiðenda er stjórnarandstaðan mun greiðsluglaðari en ríkisstjórnin.

Þingmenn eru auðvitað angurværir út af miklum afla í aldarfjórðungs Luxemborgarflugi. Þar er á ferðinni svipuð rómantík og gagnvart landbúnaði, sem þó hefur verið stundaður ekki í einn aldarfjórðung, heldur fjörutíu.

Útilokað hefur reynzt að berja inn í timburhausa þingmanna, að flugforstjórinn Laker og forsetinn Carter hafa gulltryggt öllum flugfélögum gífurlegan taprekstur á flugi yfir Norður-Atlantshafið um ófyrirsjáanlega framtíð.

Þingmönnum er kannski vorkunn, því að sama ályktunartregða hefur komið í ljós hjá þeim mönnum, sem bezt áttu að þekkja til málanna, stjórnendum Flugleiða. Þeir hafa verið átakanlega úti að aka alla ævi hins sameinaða fyrirtækis.

Fyrir fimm árum sáu þeir ekki, að eldsneyti mundi halda áfram að hækka í verði næstu áratugina og að farþegum mundi fækka vegna dýrari farseðla. Og fyrir þremur árum sáu þeir ekki, að Bandaríkjastjórn var að gefa flugið frjálst.

Fyrir tveimur árum sögðu ráðamenn Flugleiða, að ástandið væri tímabundið og viðráðanlegt. Fyrir einu ári byrjuðu þeir fyrst að segja upp fólki. Og í ár fóru þeir fyrst að ráði að draga úr hinu afdrifaríka flugi yfir Norður-Atlantshafið.

Afleiðingarnar urðu þær, að Flugleiðir töpuðu á núverandi gengi þremur milljörðum króna árið 1978, ellefu milljörðum króna árið 1979 og sex milljörðum króna árið 1980. Samtals eru þetta um tuttugu milljarðar króna.

Stjórnendur Flugleiða mega þó eiga, að í haust ákváðu þeir að leggja niður Luxemborgarflugið og minnka Bandaríkjaflugið niður í þarfir íslenzka markaðsins. Þar með hefðu þeir forðað sér úr frumskógi flugveldanna.

En þá komu stjórnmálin til skjalanna. Ráðamenn þjóðarinnar heimtuðu Luxemborgarflug og engar refjar. Gullið og grænu skógarnir, sem þeir bjóða, eru bara upphafið að botnlausri hít og ríkisrekstri af versta tagi.

Í stað þessa hefði ríkið getað sagt sem svo: Samgönguöryggi þjóðarinnar krefst þess, að ekki séu aðeins daglegar samgöngur til Evrópu, heldur einnig til Ameríku. En það krefst ekki, að við greiðum með flugi annars fólks milli heimsálfa.

Rökrétt framhald slíkrar hugsunar væri að greiða niður farseðla til Bandaríkjanna um t.d. þrjá milljarða á ári, þar sem íslenzki markaðurinn stendur ekki undir daglegu flugi. En sú leið hefur því miður ekki verið valin.

Framþróunarlögmál markaðsins segir, að menn og þjóðir skuli forðast gamlar og þéttsetnar atvinnugreinar á niðurleið, en hins vegar hraða sér sem mest inn í nýjar og fámennar atvinnugreinar á uppleið.

Fyrir 25 árum var Norður-Atlantshafið gullkista flugsins. Eins frábærlega sniðugt og Loftleiðaævintýrið var á þeim tíma, þá er Luxemborgarflugið jafn fáránlegt nú. Menn þurfa líka að kunna að stökkva af á réttum tíma.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Digur svör og gisin

Greinar

Mikið og frítt lið hefur á síðustu vikum í kjallaragreinum Dagbllaðsins snúizt til varnar hinni opinberu landbúnaðarstefnu. Höfundarnir eru orðnir átta og greinarnar tíu. Þær eiga því sennilega að vera tilraun til gagnsóknar.

Höfundarnir eru fyrrverandi aðstoðarráðherrar landbúnaðar, búnaðarmálastjórar, formenn framkvæmdastjórar, blaðafulltrúar og aðrir starfsmenn samtaka og stofnana landbúnaðarins. Þeir eru allir úr einum og sama þrýstihópnum.

Í hópinn hafa nú bætzt menn með nýjan tón. Þeir Hákon Sigurgrímsson og Ólafur Dýrmundsson hafa ekki birt leikmannsþanka í sálgreiningu, né fjallað í uppnámi um hið voðalega hugarfar, sem hljóti að ríkja á ritstjórn Dagblaðsins.

Þar sem þeir tveir hafa eingöngu fjallað um efni málsins, verður að telja þá viðræðuhæfa. Það verður reynt við fyrstu hentugleika, en hér má fyrst afgreiða restina af hópnum í einni kippu, svo að hún sé ekki að flækjast fyrir.

Um kippumenn má segja í mjög grófum dráttum, að greinar þeirra séu að þriðjungi sálgreining og hugarfarshneykslun, að þriðjungi hreint rugl og að þriðjungi andstæðar skoðanir við Dagblaðið á því, hvernig beri að túlka staðreyndir.

Aðeins á tveimur stöðum í tíu greinum hafa í alvöru verið dregin í efa atriði, sem sett hafa verið fram sem tölustaðreyndir í leiðurum Dagblaðsins. Þau eru fjármunamyndun í landbúnaði á þessu ári og fækkun bænda á undanförnum áratugum.

Á blaðsíðu 41 í skýrslu Þjóðhagsstofunnar, “Úr þjóðarbúskapnum”, sem gefin var út 8. júlí í sumar, er því spáð, að fjármunamyndun í landbúnaði muni nema 16 milljörðum króna á þessu ári. Búnaðarmálastjóri telur þetta of háa tölu. Hann um það.

Dagblaðið notaði tölur Þjóðhagsstofnunar og mun nota áfram, unz annað reynist sannara. Sama er að segja um tölur, sem Reynir Hugason tók saman úr Árbók landbúnaðarins um fækkun bænda á Norðurlöndum árin 1960-75.

Ágreiningur Dagblaðsins og talsmanna þrýstihóps hinnar opinberu landbúnaðarstefnu um þessar tvær tölur skiptir þó litlu í heildarmyndinni. Þær eru hvort eð er ekki nema brot af þeim staðreyndum, sem æpa á nýja landbúnaðarstefnu.

Meira máli skiptir ágreiningurinn um túlkanir eins og þá, hvort Ísland sé eða sé ekki vel fallið til landbúnaðar, hvort niðurgreiðslur komi landbúnaði við eða ekki og hvort stefnan hér eigi að vera hin sama og í nágrenninu eða ekki.

Dagblaðið hefur rökstutt í nokkru máli, að Ísland sé mun verr til landbúnaðar fallið en þau lönd, sem ráða heimsmarkaðsverði, svo og að hér sé landbúnaður í senn þrældómur og rányrkja. Þessu mótmæla talsmenn þrýstihópsins.

Dagblaðið hefur rökstutt í nokkru máli, að niðurgreiðslur falsi matvælamarkaðinn og dylji hinn ofboðslega, sumpart margfalda framleiðslukostnað kjötvara og mjólkurafurða. Þessu virðast talsmenn þrýstihópsins mótmæla, þótt óljóst sé.

Dagblaðið hefur rökstutt í nokkru máli, að heppilegra sé að nota, fremur en stæla, mistök annarra þjóða í landbúnaði, hagnast á lágu heimsmarkaðsverði, fremur en tapa á því. Þessu mótmæla talsmenn þrýstihópsins.

Niðurstaða Dagblaðsins er, að í áföngum beri að hætta stuðningi við fjárfestingu í hefðbundnum landbúnaði, svo og útflutningsuppbótum og niðurgreiðslum og gefa loks frjálsan innflutning landbúnaðarafurða. Að slíku hníga staðreyndir og rök.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Friðarverðlaun handa Reuter.

Greinar

Stjórnarfar í Mexíkó þykir ekki í frásögur færandi hér á slóðum. Við höldum, að þar ráði sæmilega hæfir menn, sem séu að leiða þjóðina úr myrkri fátæktar inn í birtu olíuauðs og láta reisa falleg hús í leiðinni.

Þess vegna kemur okkur á óvart brezk heimildarmynd í sjónvarpi um raunveruleikann í Mexíkó. Við trúum því varla, að lögregla ríkisstjórnarinnar láti ræna tveggja ára barni til að þagga niður í verkalýðsleiðtoga.

Sannleikurinn er sá, að glæpamenn ráða ferðinni í Mexíkó eins og í velflestum ríkjum þriðja heimsins. Þeir hafa látið hundruð manna hverfa á kvalafullan hátt til varnar völdum sínum, græðgi og spillingu.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og sérstofnana þeirra mæta hámenntaðir og snyrtilega klæddir menn frá þriðja heiminum, kvartandi um vestræna heimsvaldastefnu, menningarlegan, pólitískan og efnahagslegan yfirgang Vesturlanda.

Að baki þessara fínu herra eru harðstjórar þriðja heimsins, grimmir og gráðugir. Þeir arðræna þjóðir sínar sem mest þeir mega og safna fé á bankareikningum í Sviss. Jafnframt kenna þeir Vesturlöndum um ástandið.

Einstaka sérvitringar lesa um framferði harðstjóra þriðja heimsins í ársskýrslum frá Amnesty og hliðstæðum stofnunum. Einu dagbundnu upplýsingarnar koma frá fréttariturum hinna alþjóðlegu fréttastofnana.

Það er mönnunum frá Associated Press og Reuter að þakka, að við getum, ef við viljum, séð raunveruleikann í löndum þriðja heimsins. Þeir sjá skuggahliðarnar og segja frá þeim, eins og þeir segja frá andófinu í Austur-Evrópu.

Ef einhverjir menn eiga skilið friðarverðlaun Nóbels, þá eru það ekki valdshyggjumaðurinn Kissinger eða skæruliðinn Begin, heldur hinir nafnlausu fulltrúar alþjóðlegra fréttastofnana, sem starfa við hin erfiðustu skilyrði.

Hatrið á hinum alþjóðlegu fréttastofnunum sameinar valdhafa þriðja heimsins og Austur-Evrópu. Þeir sjá, að þar hafa þjóðir þeirra tvinnaþráð, ef ekki haldreipi, í átt til siðmenningar þeirra 20-30 ríkja, sem mega kallast vestræn.

Baráttan gegn Associated Press og Reuter fer nú einkum fram á vettvangi Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Þessa dagana er fundað í Belgrað, þar sem fínu herrarnir kvarta um menningaryfirgang Vesturlanda.

Undir forustu M’Bow, framkvæmdastjóra UNESCO, vilja þeir koma á skráningu blaðamanna og takmörkunum á rétti alþjóðlegra fréttastofnana til að segja frá skuggahliðum lífs almennings í löndum þriðja heimsins.

Þeir segja, að vestrænar leikreglur gildi ekki í þriðja heiminum. Hlutverk fjölmiðla sé að stuðla að uppbyggingu, friði og vináttu, en ekki að segja fréttir. Fjölmiðla eigi að virkja, en ekki láta þá ganga lausa.

Þetta kjaftæði hefur haft nokkur áhrif á grunnhyggna menn í menntamálaráðuneytum og UNESCO-nefndum á Vesturlöndum, mennina, sem sjá ekki grimma og gráðuga valdhafana að baki hinna sléttgreiddu umboðsmanna í Belgrað.

Í UNESCO eiga Íslendingar að nota atkvæði sitt til að stuðla að því, að Reuter og Associated Press fái áfram tækifæri til að segja okkur frá því, þegar valdhafar í Mexíkó ræna smábörnum til að þagga niður í almenningi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Verður vélritun að iðngrein?

Greinar

Ritvélin er penni nútímans, enda er farið að kenna vélritun í grunnskólum og framhaldsskólum. Samtök verzlunarmanna hafa ekki krafizt einkaréttar eða forgangs að öllum hinum margvíslegu störfum, sem fela í sér vélritun.

Þannig hafa verzlunarmenn t.d. ekki heimtað, að blaðamenn hættu vélritun og færu að lesa verzlunarlærðu fólki efni sitt fyrir til vélritunar. Verzlunarmenn hafa ekki heldur krafizt forgangs að tölvuritvélum prentsmiðjanna.

Samtök prentara hafa aftur á móti krafizt aðgangs að núverandi störfum félagsmanna Blaðamannafélags Íslands og Landssambands íslenzkra verzlunarmanna. Þeir vilja forgang að skermaritvélum á ritstjórnum og auglýsingadeildum.

Skermaritvélar eru komnar í notkun í blaðamennsku og kunna síðar að verða teknar í notkun hjá starfsfólki auglýsingadeilda. Samkvæmt gildandi kjarasamningi bókagerðarmanna má utanstéttarfólk nota þessi tæki.

Nú vilja samtök bókagerðarmanna hins vegar ná forgangi að þessum tækjum, einkum þó í auglýsingadeildum. Um það stendur mesti styrinn í kjarasamningunum. Allt sáttastarf á vinnumarkaðnum strandar á þessu atriði.

Málmþræðir flytja hið vélritaða efni skermaritvélanna inn í tölvuminni. Þaðan er hægt að kalla efnið og viðbótarupplýsingar tölvunnar til skermaritvéla verkstjóra, handritalesara og hönnuða til breytinga og fullvinnslu.

Hönnuðir velja efninu letur og mál á skermaritvélum, senda það síðan aftur til tölvunnar og láta hana skrifa efnið í formi, sem er tilbúið til umbrots. Þannig hverfur úr sögunni eiginleg setning í gömlum stíl.

Í auglýsingadeildum gegna þessar tölvur víðtækara hlutverki. Þær eru bókhaldsvélar og ganga frá auglýsingareikningum. Þær höggva ekki aðeins á setningu, heldur einnig á bókhaldsvinnu og vélritun reikninga.

Talsmenn prentara hafa haldið því fram, að meðferð skermaritvéla sé flóknari en meðferð venjulegra ritvéla og sé á þeirra verksviði. Samt eru lærðir bókagerðarmenn ófáanlegir til að vinna við tölvuritvélar prentsmiðjanna.

Formaður Blaðamannafélags Íslands hefur sagt, að vinnan við skermaritvélarnar geri starf blaðamanna mun auðveldara en áður var. Byggir hann þar á þeirri reynslu, sem þegar hefur náðst hjá blaðamönnum hér á landi.

Þá hefur formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur lýst undrun sinni yfir, að samtök bókagerðarmanna skuli seilast til starfa, sem hingað til hafa verið unnin af félagsmönnum í samtökum verzlunarmanna.

Í ljósi þessara ummæla er ekki auðvelt að sjá, hvernig samtök prentiðnaðarins geta staðið í viðræðum við samtök bókagerðarmanna um störf blaðamanna og verzlunarmanna, um vélritun, sem bókagerðarmenn hafa ekki viljað læra hingað til.

Í gildandi kjarasamningum um þessa tækni, sem þýddir eru úr norrænum samningum, eru ákvæði um atvinnuöryggi bókagerðarmanna og endurhæfingu, þeim að kostnaðarlausu. Þessi ákvæði eiga að hindra atvinnuskort bókagerðarmanna.

Hingað til hefur ófaglært fólk orðið að taka að sér störf við tölvuritvélar prentsmiðja vegna skorts á vilja lærðra bókagerðarmanna. Það er því mikið spé, ef gera á vélritun að löggiltri iðngrein hinna áhugalausu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Klukkan tifar.

Greinar

Ungir og óþolinmóðir áhrifamenn í Framsóknarflokknum eru farnir að minna ríkisstjórnina á, að einhvern tíma verði hún að byrja þá niðurtalningu verðbólgunnar, sem hún lofaði í stjórnarsáttmála sínum.

Klukkan tifar á ríkisstjórnina í tafli hennar við verðbólgu, lífskjararýrnun og taprekstur. Stundum er eins og stjórnin telji heppilegast að leika alls ekki, ef þannig mætti koma í veg fyrir fingurbrjóta.

Skákin hlýtur þó að hafa einhvern enda, til dæmis þann, að ríkisstjórnin falli á tíma. Hún hefur hingað til teflt mjög hægt. Það þarf þó ekki að leiða til taps, ef þaulhugsaðir leikir birtast meðan klukkan gengur enn.

Áhorfendur eru ekki sammála um gang þessarar skákar. Sumir þeirra hafa sjálfvirkt flokkspólitískt mat á stöðunni. Á útskýringum þeirra verður lítið að græða fyrr en þeir læra mannganginn, sem verður seint.

Almenningur er á báðum áttum. Hann skiptist helzt í þolinmóða og óþolinmóða. Hinir síðarnefndu eru fjölmennir í hópi þess þriðjungs kjósenda, sem ekki hefur afstöðu til ríkisstjórnarinnar, samkvæmt skoðanakönnun Dagblaðsins.

Hinir óákveðnu voru aðeins fimmti hluti kjósenda í febrúarkönnun blaðsins. Fjölgun þeirra upp í þriðjung er til marks um hina óljósu stöðu í skák ríkisstjórnarinnar. Og með vaxandi tímahraki getur þeim fjölgað enn.

Hagstæðar tölur ríkisstjórnarinnar í síðustu skoðanakönnun Dagblaðsins geta horfið eins og dögg fyrir sólu í raunveruleika næstu kosninga, ef mikill hluti hinna óákveðnu áhorfenda sannfærist um, að ríkisstjórnin hafi tapað skákinni.

Hinir þolinmóðu valda því, að ríkisstjórnin hefur nú 41% fylgi meðal kjósenda gegn 26% fylgi stjórnarandstöðunnar. Þetta bendir til, að andstöðunni hafi ekki tekizt að sýna fram á, að allt sé hér á hverfanda hveli.

Almenningur er orðinn næsta ónæmur fyrir þrýstihópum, sem hrópa “úlfur, úlfur”. Slík köll eru orðin svo gamalkunn, að fáir mundu átta sig á komu úlfsins. Það eina, sem menn heyra, er, að stjórnarandstaðan er orðin hás.

Hinir þolinmóðu líta í kringum sig. Þeir sjá alls staðar fulla atvinnu. Þeir sjá vinnudálka smáauglýsinga lengjast. Þeir telja sig langt frá sulti og seyru, þótt vextir og afborganir sígi í eins og fyrri daginn.

Hinir þolinmóðu svipast um eftir atvinnuvegunum, sem margsagðir eru farnir á kúpuna. Þeir sjá ekki gjaldþrotin, heldur vaxandi eftirspurn eftir starfsfólki. Hví skyldu þeir trúa, að úlfurinn sé kominn?

Staðreyndin er þó sú, að ríkisstjórnin hefur einkum leikið biðleiki í tafli sínu við verðbólgu, lífskjararýrnun og taprekstur. Senn verða alvöruleikir nauðsynlegir, hvort sem þeir reynast fingurbrjótar eða leikfléttur.

Að loknum hveitibrauðsdögum má ríkisstjórnin vel við una 41% fylgi á móti 26% andstöðu. En jafnframt á hún mjög svo óvísa hlutdeild í hinum 33% kjósenda, sem ekki hafa tekið afstöðu. Hún má því fara að gæta sín.

Að minnsta kosti má taka undir með þeim, sem telja mjög svo tímabært, að ríkisstjórnin hefji hina margumtöluðu niðurtalningu verðbólgunnar, svo að einhver árangur sjáist á verðbólgutölum þessa árs.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Risi á brauðfótum.

Greinar

Við venjulegar aðstæður hefði mátt búast við, að stjórnarandstaða formanns Sjálfstæðisflokksins og alls þorra þingflokksins mundi leiða til stjórnarandstöðu almennra sjálfstæðismanna og einangrunar ráðherra flokksins.

Klofningur flokksins í afstöðu til ríkisstjórnarinnar hefur nú staðið tæpa átta mánuði. Skoðanakönnun, sem Dagblaðið birtir í dag, sýnir, að flokkurinn skiptist nokkurn veginn jafnt í stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga.

Af þessu má sjá, að engan veginn eru aðstæður venjulegar. Ekkert samræmi er milli stjórnarandstöðu alls þorra þingflokks sjálfstæðismanna og hinnar jöfnu skiptingar almennra stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins.

Stjórnarandstaðan í þingflokknum á sér ekki sterkar rætur meðal stuðningsmanna flokksins. Hún hefur að vísu Morgunblaðið að bakhjarli. En sá bakhjarl er mun minna virði en áður var, þrátt fyrir allan berserksganginn.

Enn alvarlegri eru viðhorf sjálfstæðismanna til formanns flokksins. Skoðanakönnun Dagblaðsins sýnir, að í hugum stuðningsmanna flokksins er hann aðeins hálfdrættingur á við uppreisnarmanninn og forsætisráðherrann.

Þetta þýðir, að valdastofnanir flokksins endurspegla flokkinn enn síður en þingflokkurinn gerir. Formaðurinn hefur aðeins tæplega 30% fylgi á móti rúmlega 50% fylgi varaformannsins og forsætisráðherrans.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins skiptast raunar í fjóra hópa. Í einum eru þeir, sem ekki hafa tekið afstöðu til vandamála flokksins. Í öðrum eru þeir, sem styðja formanninn og eru fylgjandi stjórnarandstöðu hans.

Í þriðja hópnum eru þeir, sem styðja varaformanninn, en eru andvígir ríkisstjórn hans. Í fjórða og langstærsta hópnum eru svo þeir, sem bæði styðja varaformanninn og ríkisstjórn þá, sem hann hefur myndað í trássi við þingflokkinn.

Ofan á þennan klofning er líklegt, að í forsetakosningunum hafi þjappazt saman fimmti hópurinn, sem sé að einhverju leyti öðruvísi en hinir fjórir. Slíkt þyrfti að reyna að mæla í síðari skoðanakönnunum um afstöðu sjálfstæðismanna.

Af öllu þessi má sjá, að Sjálfstæðisflokkurinn riðar á brauðfótum. Hann er ekki lengur neitt þjóðfélagsafl og verður ekki, fyrr en hann hefur greitt úr þeim innri flækjum, sem hér hefur verið lýst og sannaðar eru.

Merkilegast af öllu er þó, að þessir hópar telja sig allir eiga heima í Sjálfstæðisflokknum fremur en annars staðar. Klofningurinn hefur ekki klofið neinn frá flokknum. Þvert á móti sogar flokkurinn að sér fylgi.

Samkvæmt skoðanakönnun Dagblaðsins telur næstum hálf þjóðin sig standa næst Sjálfstæðisflokknum af stjórnmálaflokkunum. Hann gæti því orðið mikið þjóðfélagsafl, ef hann rúmaði sína mislitu hjörð í sama friði og áður var.

Sjálfstæðisflokkurinn á nú ýmissa kosta völ. Hann getur hreinsað flækjurnar á þann hátt, að eftir standi fámennur leiftursóknarflokkur undir forustu núverandi formanns og arftaka hans, með um það bil 15% fylgi meðal þjóðarinnar.

Hann getur líka endurnýjað sig undir forustu utanklíkumanna, sem hafa lag á að rúma hina mislitu hjörð undir einu þaki. Það yrði enginn leiftursóknarflokkur, en ætti aftur á móti von í 40-50% fylgi meðal þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Þeir túlka sundur og saman

Greinar

Bráðskemmtilegt er að fylgjast með viðbrögðum flokkspólitísku blaðanna við síðustu skoðanakönnunum Dagblaðsins. Nokkrir lengdarmetrar i leiðurum endurspegla þau gamanmál, sem hér á landi eru kölluð stjórnmál.

Leiðarahöfundar hafa sýnt undraverða leikni við að túlka niðurstöðurnar þeirra flokki í hag. Þar sannast enn einu sinni, að ekki er til sú tala, sem ekki megi túlka á minnst tvo gagnstæða vegu, ef óskhyggjan er takmarkalaus.

Barnalegast er Morgunblaðið eins og venjulega. Á fimmtudaginn kvartar blaðið um, að Þjóðviljinn sleppi hinum óákveðnu úr dæminu, þegar hann segi 61,4% þjóðarinnar styðja ríkisstjórnina. Rétt tala sé raunar 41,2%.

Daginn eftir hafði dæmið heldur betur snúizt við hjá Morgunblaðinu. Þá kippti blaðið hinum óákveðnu út aftur til að sýna fram á, að fylgi Sjálfstæðisflokksins með þjóðinni væri ekki 27% heldur 46%. Gaman, gaman!

Það sem Morgunblaðið kallaði “furðulega bíræfni” á fimmtudegi var orðið að sjálfsagðri reikningsaðferð í blaðinu á föstudegi. Þetta heljarstökk sýnir í hnotskurn markleysi flokkspólitískra leiðaraskrifa.

Formúla Morgunblaðsins er þessi: Við teljum hina óákveðnu með, þegar tölurnar fjalla um illu öflin í þjóðfélaginu, það er ríkisstjórnina, hina stjórnmálaflokkana og Gunnar Thoroddsen. Þá verða þær ekki eins óþægilega háar.

Þegar töltlrnar fjalla svo um allt hið góða í tilverunni, það er Sjálfstæðisflokkinn og Geir Hallgrímsson, þá eru hinir óákveðnu hins vegar allt í einu ekki nothæfir lengur. Og þá verða tölurnar skemmtilega háar.

Að óskhyggju slepptri er augljóst, að hvorug reikninglsaðferðin dugir ein út af fyrir sig. Enda voru báðar aðferðirnar notaðar í niðurstöðum Dagblaðsins til að sýna sæmilega heillega mynd af viðhorfum þjóðarinnar.

En fleiri fjölmiðlar hafa stundað heljarstökk út af skoðanakönnunum Dagblaðsins. Þjóðviljinn reiknaði út fvrirfram, hversu mikill hluti Sjálfstæðisflokksins styddi Gunnar Thoroddsen og ríkisstjórnina.

Þetta gerði blaðið með handahlaupum á forsendum, sem ekki standast. Nær hefði verið fyrir Þjóðviljann að bíða með óskhyggjuna eftir réttum tölum Dagblaðsins, sem birtust sumpart í gær og birtast sumpart á morgun.

Þjóðviljinn gerði ranglega ráð fyrir, að allir fylgjendur Alþýðubandalagsins og Framsóknarflokksins styddu ríkisstjórnina og að allir fylgjendur Alþýðuflokksins væru henni andvígir. Ef lífið væri svo einfalt!

Tíminn hefur forðazt heljarstökk systurblaðanna og er raunar dálítið úti að aka eins og stundum áður. Í öðrum leiðara blaðsins um kannanir Dagblaðsins er nöldrað um, að þær fjalli ekki um klofning Sjálfstæðisflokksins.

Nú eru það einmitt tvenn af markmiðum kannana Dagblaðsins að finna, hvernig Sjálfstæðisflokkurinn skiptist í afstöðunni til Gunnars Thoroddsen og ríkisstjórnarinnar. Á þessu hefur Tíminn verið lengi að átta sig.

Viðbrögð systurblaðanna í heild sýna ekki áhuga á að koma staðreyndum á framfæri, heldur að túlka þær sundur og saman, unz þær verða óþekkjanlegar, til matreiðslu ofan í fólk, sem leiðarahöfundar virðast telja fávita.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Trúir við tæpasta vaðið

Greinar

Hafrannsóknastofnunin á fremur bágt um þessar mundir, sjávarútvegsráðherrum þjóðarinnar til óblandinnar ánægju. Þeir telja sig nú geta losnað úr skammarkrók óhóflegra togarakaupa og annarra stundarhagsmuna í sjávarútvegi.

Hafrannsóknastofnunin hefur neyðzt til að viðurkenna galla í fyrri mælingum sínum á stærð hrygningarstofns þorsksins. Nýjar mælingar hafa leitt í ljós, að stofninn er ekki í eins bráðri hættu og áður var talið.

Til skamms tíma var haldið, að hrygningarstofninn væri að komast niður að 100 þúsund tonnum. Þar af leiðandi var talin hætta á, að þorkstofninn mundi hrynja á sama hátt og norsk-íslenzki síldarstofninn.

Nú er hins vegar haldið, að hrygningarstofninn sé rúm 200 þúsund tonn og að heildarstofninn sé 1600 þúsund tonn. Þar með er orðin úrelt sú kenning stofnunarinnar, að bara megi veiða 300 þúsund tonn í ár

Stofnunin segir nú, að 350 þúsund tonna ársafli muni á aðeins fimm árum leiða til stækkunar heildarstofnsins upp i 2200 þúsund tonn og til hámarksafraksturs við 450 þúsund tonna þorskafla á ári eftir að því marki er náð.

Jafnframt telur stofnunin, að 400 þúsund tonna ársafli muni leiða til mjög hægrar aukningar stofnsins, þannig að hámarksafrakstur náist ekki fyrr en á miðjum tíunda áratug aldarinnar eða ef til vill aldrei.

Í þetta sinn hefur stofnunin orðið við tilmælum stjórnvalda um að gefa ekki bara upp eina tölu sem æskilegan ársafla á þorski, heldur setja fram kosti með mismunandi afleiðingum, þegar horft er fram á veginn.

Með þessu hefur stofnunin tekið tillit til réttmætrar gagnrýni Jóns Sigurðssonar, fyrrum ráðuneytisstjóra fjármála. Í fyrravetur hélt hann því fram, að fiskifræðingar hefðu tekið að sér hlutverk pólitískra krossfara.

Jón benti á, að framtíð þorskstofnsins ætti að hvíla í höndum Alþingis og sjávarútvegsráðherra, sem bæru ábyrgð gagnvart þjóðinni. Fiskifræðingar bæru ekki slíka ábyrgð og ættu að halda sig við rannsóknir.

Í rauninni hafði stofnunin sveiflazt milli öfga. Þegar ráðamenn hennar áttuðu sig á, að þeir höfðu um of gengið erinda stjórnvalda og vanmetið hætturnar, gerðust þeir allt í einu baráttumenn í fiskveiðipólitík.

Því miður ætlar núverandi sjávarútvegsráðherra að notfæra sér þetta með stuðningi fyrrverandi sjávarútvegsráðherra hinna flokkanna. Þeir segja, að hér eftir sem hingað til sé óhætt að veiða 70 þúsund tonn umfram meðmæli.

Á þessu ári verður ársaflinn ekki aðeins 400 þúsund tonn, heldur 420 þúsund og sennilega meiri. Þar með er komið í veg fyrir, að þorskstofninn þróist í eðlilega stærð og geti orðið traustur hornsteinn framtíðarinnar.

Sjávarútvegsráðherrarnir vita allir upp á sig skömmina af gífurlega óhóflegum fiskiskipakaupum allan áttunda áratuginn. Þeir breiða yfir þá sök með því að hleypa þesssum flota allt of grimmilega á þorskinn.

Skyldi nokkrum þeirra hafa dottið í hug að velta því fyrir sér, hvað hefði gerzt, ef Hafrannsóknastofnunin hefði reiknað 50 þúsund tonn vitlaust í hina áttina? Þeir hafa teflt og tefla enn á tæpara vað en ábyrgð þeirra leyfir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Harðstjóraklúbburinn UNESCO.

Greinar

Stuðningsmenn lndiru Gandhi forsætisráðherra stöðvuðu í síðustu viku dreifingu fjögurra dagblaða í Bangalore. Sögðu þeir, að blöðin hefðu móðgað Gundo Rao ráðherra. Lögregla frú Gandhi horfði á og aðhafðist ekki neitt.

Blöðin fjögur höfðu skýrt frá þeirri staðreynd, að þorpsbúar í nágrennninu höfðu grýtt sandölum sínum í ráðherrann til að mótmæla verðhækkunum og vatnsskorti. Stuðningsmennirnir sögðust vilja vara blöðin við slíkum fréttum.

Þetta er smávægilegur atburður og einmitt þess vegna dæmigerður. Hann fréttist ekki til Íslands eins og sú ákvörðun nýrrar stjórnar Suður-Kóreu að loka nærri 200 blöðum og tímaritum og reka meirihluta blaðamanna landsins.

Alls staðar er sökin hin sama. Blöðin birta of mikið af svokölluðum vondum fréttum um vandamál og um getuleysi og spillingu valdhafa. Með þessu eru þau sögð trufla einingu þjóðarinnar við uppbyggingu undir forustu stjórnarinnar.

Niðurstaðan í þriðja heiminum er yfirleitt hin sama og hún varð í Austur-Evrópu. Öll blöð eru lögð niður önnur en þau, sem bergmála nákvæmlega sjónarmið valdhafa og birta aðeins fréttir, sem þeim eru þóknanlegar.

lndira Gandhi hefur nú í annað sinn fengið tækifæri til að koma í framkvæmd áhugamálum sínum á þessu sviði. Hún er þó komin mun skemmra á veg en Chun Doo Hwan, forseti Suður-Kóreu. Hann er harðstjóri, en hún vill verða það.

Vestræn fréttamennska fer ákaflega í taugar slíkra valdhafa. Þeir eru búnir að hafa mikið fyrir að skrúfa fyrir óháða fjölmiðlun heima fyrir, en þá birtast bara í vestrænum blöðum fréttir af svipuðum toga.

Þess vegna er það núna eitt helzta áhugamál mikils fjölda valdhafa í þriðja heiminum að takmarka og helzt útiloka starf vestrænna fréttastofa og vestrænna fréttamanna. Sök þeirra er sama og hinna innfæddu starfsbræðra.

Margir valdhafar þriðja heimsins eru gráðugir og gerspilltir. Þeir mergsjúga þjóðir sínar og ljúga út vestræna styrki, hvort tveggja til að efla innistæður sínar í svissneskum bönkum. Þar á ofan eru þeir ólýsanlega grimmir.

Fyrir mörgum árum myndaðist hagsmunabandalag allra valdhafa, sem eru andvígir frjálsum straumi upplýsinga og skoðana innan lands og frá landi. Í þessu bandalagi er Austur-Evrópa, arabaríkin og þriðji heimurinn.

Þetta bandalag hefur mjög beitt sér í Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Og því hefur tekizt að fá embættismenn stofnunarinnar á sitt band að nokkru leyti. Það kemur fram í nýjum tillögum framkvæmdastjórans.

Á þingi UNESCO, sem nú er hafið í Belgrað, á að fjalla um tveggja milljarða króna fjárveitingu til aðgerða í fjölmiðlun, sem sumpart munu rýra möguleika okkar á að frétta, hvað raunverulega gerist utan Vesturlanda.

Meðal annars er stefnt að skráningu blaðamanna, svo að auðveldara verði að meina þeim landvist. Einnig á að auka eftirlit með því, að alþjóðlegar fréttastofur séu ekki of mikið í vondum fréttum frá þriðja heiminum.

Yfir vötnum UNESCO svífur hugsjónin um, að upplýsingar og skoðanir þjóni þróunarhagsmunum viðkomandi þjóða. Og það eru grimmu og gráðugu harðstjórarnir, sem á hverjum stað ákveða, hvað sé í samræmi við “hagsmuni þjóðarinnar”.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hveitibrauðsdögum lokið

Greinar

Hveitibrauðsdögum ríkisstjórnarinnar er lokið. Kjósendur horfa ekki lengur á hana með gleraugum stjórnarkreppu síðustu áramóta. Þeir eru farnir að líta berum augum á störf hennar í rúmlega hálft ár og dæma hana eftir þeim.

Samkvæmt skoðanakönnun Dagblaðsins skömmu eftir myndun stjórnarinnar í febrúar naut hún þá stuðnings 71% þjóðarinnar. Aðeins 8% voru henni andvíg. Þessi ofsastyrkur endurspeglaði þreytu þjóðarinnar á stjórnarkreppunni.

Í gær voru tölurnar orðnar gerbreyttar. Þá sýndi skoðanakönnun Dagblaðsins 41% stuðning við ríkisstjórnina og 26% andstöðu. Stuðningurinn hefur fallið úr 71% í 41% og andstaðan hefur risið úr 8% í 26%.

Jafnframt hefur fjöldi hinna óvissu aukizt úr 21% í 33% eða í réttan þriðjung kjósenda. Þar í hópi eru auðvitað fjölmennir þeir sjálfstæðismenn, sem hvorki vilja stíga í fót Geirs né Gunnars, heldur bíða átekta.

Í stórum dráttum má segja, að ríkisstjórnin njóti stuðnings kjósenda Framsóknarflokksins og Alþýðubandalagsins og sæti andstöðu kjósenda Alþýðuflokksins. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins dreifast hins vegar á ýmsa vegu.

Lítill minnihluti sjálfstæðismanna styður ríkisstjórnina. Nokkru stærri minnihluti er andvígur henni. Þriðji hlutinn og hinn fjölmennasti er svo varfærinn í klofningsmálinu, að hann getur ekki tekið afstöðu.

Ríkisstjórnin má vel við þessar tölur una. Hún gat aldrei búizt við endalausum hveitibrauðsdögum. Hún býr enn við mun meiri stuðning en andstöðu, mun meiri en sem svarar naumum meirihluta hennar á Alþingi.

Tölurnar sýna, að Sjálfstæðisflokkurinn er lamaður í stjórnarandstöðu. Hin harða afstaða mikils meirihluta þingflokksins endurspeglar ekki almenna flokksmenn, sem hreinlega hafa enn ekki tekið afstöðu til ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin er sæmilega traust í sessi við upphaf nýrrar alþingisvertíðar. Af ýmsum svörum í skoðanakönnuninni má þó ráða, að fylgi stjórnarinnar muni rýrna ört, ef hún reynist ekki röggsöm eða ræður lítt við verðbólguna.

Um þessar mundir eru kjósendur ánægðir með, að ráðherrar ólíkra flokka skuli geta unnið saman í friði og ekki stinga rýtingi í bak hver annars, svo sem var í fyrra. Þeir fagna því líka, að vinnufriður hefur haldizt í landinu.

Kjósendur hafa enn ekki tekið afstöðu til gagnstæðra fullyrðinga um verðbólgustigið. Líklega vilja þeir sjá, hvernig verðbólga alls ársins verður í samanburði við árið í fyrra. Sú útkoma mun vafalaust hafa mikil áhrif á fylgið.

Einn þáttur hins tiltölulega mikla fylgis ríkisstjórnarinnar er spurningin um, hvað kæmi í stað hennar. Sú óvissa var áleitin í svörum margra kjósenda. Þeir bentu líka á stjórnarkreppuna, sem ríkti um miðjan fyrravetur.

Skoðanakönnun Dagblaðsins sýnir stöðu ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu eins og hún er um þessar mundir. Þessi hlutföll eiga eftir að breytast í vetur. Skoðanakönnunin kristallaði aðeins eitt andartak í stjórnmálastraumnum.

Hún sýnir öruggan meirihluta ríkisstjórnarinnar hjá þeim, sem ákveðna skoðun hafa. En hún sýnir líka, að sumpart ristir þessir stuðningur grunnt. Loks sýnir hún, að hinn óákveðni þriðjungur mun ráða miklu, þegar hann ókveður sig.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið