Stjórnarfar í Mexíkó þykir ekki í frásögur færandi hér á slóðum. Við höldum, að þar ráði sæmilega hæfir menn, sem séu að leiða þjóðina úr myrkri fátæktar inn í birtu olíuauðs og láta reisa falleg hús í leiðinni.
Þess vegna kemur okkur á óvart brezk heimildarmynd í sjónvarpi um raunveruleikann í Mexíkó. Við trúum því varla, að lögregla ríkisstjórnarinnar láti ræna tveggja ára barni til að þagga niður í verkalýðsleiðtoga.
Sannleikurinn er sá, að glæpamenn ráða ferðinni í Mexíkó eins og í velflestum ríkjum þriðja heimsins. Þeir hafa látið hundruð manna hverfa á kvalafullan hátt til varnar völdum sínum, græðgi og spillingu.
Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og sérstofnana þeirra mæta hámenntaðir og snyrtilega klæddir menn frá þriðja heiminum, kvartandi um vestræna heimsvaldastefnu, menningarlegan, pólitískan og efnahagslegan yfirgang Vesturlanda.
Að baki þessara fínu herra eru harðstjórar þriðja heimsins, grimmir og gráðugir. Þeir arðræna þjóðir sínar sem mest þeir mega og safna fé á bankareikningum í Sviss. Jafnframt kenna þeir Vesturlöndum um ástandið.
Einstaka sérvitringar lesa um framferði harðstjóra þriðja heimsins í ársskýrslum frá Amnesty og hliðstæðum stofnunum. Einu dagbundnu upplýsingarnar koma frá fréttariturum hinna alþjóðlegu fréttastofnana.
Það er mönnunum frá Associated Press og Reuter að þakka, að við getum, ef við viljum, séð raunveruleikann í löndum þriðja heimsins. Þeir sjá skuggahliðarnar og segja frá þeim, eins og þeir segja frá andófinu í Austur-Evrópu.
Ef einhverjir menn eiga skilið friðarverðlaun Nóbels, þá eru það ekki valdshyggjumaðurinn Kissinger eða skæruliðinn Begin, heldur hinir nafnlausu fulltrúar alþjóðlegra fréttastofnana, sem starfa við hin erfiðustu skilyrði.
Hatrið á hinum alþjóðlegu fréttastofnunum sameinar valdhafa þriðja heimsins og Austur-Evrópu. Þeir sjá, að þar hafa þjóðir þeirra tvinnaþráð, ef ekki haldreipi, í átt til siðmenningar þeirra 20-30 ríkja, sem mega kallast vestræn.
Baráttan gegn Associated Press og Reuter fer nú einkum fram á vettvangi Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Þessa dagana er fundað í Belgrað, þar sem fínu herrarnir kvarta um menningaryfirgang Vesturlanda.
Undir forustu M’Bow, framkvæmdastjóra UNESCO, vilja þeir koma á skráningu blaðamanna og takmörkunum á rétti alþjóðlegra fréttastofnana til að segja frá skuggahliðum lífs almennings í löndum þriðja heimsins.
Þeir segja, að vestrænar leikreglur gildi ekki í þriðja heiminum. Hlutverk fjölmiðla sé að stuðla að uppbyggingu, friði og vináttu, en ekki að segja fréttir. Fjölmiðla eigi að virkja, en ekki láta þá ganga lausa.
Þetta kjaftæði hefur haft nokkur áhrif á grunnhyggna menn í menntamálaráðuneytum og UNESCO-nefndum á Vesturlöndum, mennina, sem sjá ekki grimma og gráðuga valdhafana að baki hinna sléttgreiddu umboðsmanna í Belgrað.
Í UNESCO eiga Íslendingar að nota atkvæði sitt til að stuðla að því, að Reuter og Associated Press fái áfram tækifæri til að segja okkur frá því, þegar valdhafar í Mexíkó ræna smábörnum til að þagga niður í almenningi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið