Bráðskemmtilegt er að fylgjast með viðbrögðum flokkspólitísku blaðanna við síðustu skoðanakönnunum Dagblaðsins. Nokkrir lengdarmetrar i leiðurum endurspegla þau gamanmál, sem hér á landi eru kölluð stjórnmál.
Leiðarahöfundar hafa sýnt undraverða leikni við að túlka niðurstöðurnar þeirra flokki í hag. Þar sannast enn einu sinni, að ekki er til sú tala, sem ekki megi túlka á minnst tvo gagnstæða vegu, ef óskhyggjan er takmarkalaus.
Barnalegast er Morgunblaðið eins og venjulega. Á fimmtudaginn kvartar blaðið um, að Þjóðviljinn sleppi hinum óákveðnu úr dæminu, þegar hann segi 61,4% þjóðarinnar styðja ríkisstjórnina. Rétt tala sé raunar 41,2%.
Daginn eftir hafði dæmið heldur betur snúizt við hjá Morgunblaðinu. Þá kippti blaðið hinum óákveðnu út aftur til að sýna fram á, að fylgi Sjálfstæðisflokksins með þjóðinni væri ekki 27% heldur 46%. Gaman, gaman!
Það sem Morgunblaðið kallaði “furðulega bíræfni” á fimmtudegi var orðið að sjálfsagðri reikningsaðferð í blaðinu á föstudegi. Þetta heljarstökk sýnir í hnotskurn markleysi flokkspólitískra leiðaraskrifa.
Formúla Morgunblaðsins er þessi: Við teljum hina óákveðnu með, þegar tölurnar fjalla um illu öflin í þjóðfélaginu, það er ríkisstjórnina, hina stjórnmálaflokkana og Gunnar Thoroddsen. Þá verða þær ekki eins óþægilega háar.
Þegar töltlrnar fjalla svo um allt hið góða í tilverunni, það er Sjálfstæðisflokkinn og Geir Hallgrímsson, þá eru hinir óákveðnu hins vegar allt í einu ekki nothæfir lengur. Og þá verða tölurnar skemmtilega háar.
Að óskhyggju slepptri er augljóst, að hvorug reikninglsaðferðin dugir ein út af fyrir sig. Enda voru báðar aðferðirnar notaðar í niðurstöðum Dagblaðsins til að sýna sæmilega heillega mynd af viðhorfum þjóðarinnar.
En fleiri fjölmiðlar hafa stundað heljarstökk út af skoðanakönnunum Dagblaðsins. Þjóðviljinn reiknaði út fvrirfram, hversu mikill hluti Sjálfstæðisflokksins styddi Gunnar Thoroddsen og ríkisstjórnina.
Þetta gerði blaðið með handahlaupum á forsendum, sem ekki standast. Nær hefði verið fyrir Þjóðviljann að bíða með óskhyggjuna eftir réttum tölum Dagblaðsins, sem birtust sumpart í gær og birtast sumpart á morgun.
Þjóðviljinn gerði ranglega ráð fyrir, að allir fylgjendur Alþýðubandalagsins og Framsóknarflokksins styddu ríkisstjórnina og að allir fylgjendur Alþýðuflokksins væru henni andvígir. Ef lífið væri svo einfalt!
Tíminn hefur forðazt heljarstökk systurblaðanna og er raunar dálítið úti að aka eins og stundum áður. Í öðrum leiðara blaðsins um kannanir Dagblaðsins er nöldrað um, að þær fjalli ekki um klofning Sjálfstæðisflokksins.
Nú eru það einmitt tvenn af markmiðum kannana Dagblaðsins að finna, hvernig Sjálfstæðisflokkurinn skiptist í afstöðunni til Gunnars Thoroddsen og ríkisstjórnarinnar. Á þessu hefur Tíminn verið lengi að átta sig.
Viðbrögð systurblaðanna í heild sýna ekki áhuga á að koma staðreyndum á framfæri, heldur að túlka þær sundur og saman, unz þær verða óþekkjanlegar, til matreiðslu ofan í fólk, sem leiðarahöfundar virðast telja fávita.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið