Tvíeggjuð niðurstaða.

Greinar

Með samningi Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins og félagsmálapakka ríkisstjórnarinnar á í stórum dráttum að vera tryggður vinnufriður í landinu í heilt ár. Það er alténd árangur af tíu mánaða samningaþófi.

Ekki má heldur gleyma, að samningamenn gáfu sér tíma til að samræma og einfalda launaflokka. Hér eftir fá nær allir félagsmenn Alþýðusambandsins laun eftir stiga 25 virkra launaflokka, hvar í aðildarfélagi sem þeir standa.

Þriðja mikilvæga atriðið er, að aldrei þessu vant tókst að semja um heldur rýmri hækkanir hinna lægst launuðu. Komið var í veg fyrir, að hinir betur settu mökuðu krókinn á síðustu klukkustundum taflsins fyrir undirritun samnings.

Neikvæðast við samninginn er, að hann mun magna verðbólguna, ef ekkert verður að gert. Að óbreyttu er nú gert ráð fyrir 80-90% verðbólgu á næsta ári. Því valda grunnkaupshækkanir og ýmis sjálfvirkni í kerfinu.

Sjálf kauphækkunin um næstu mánaðamót verður að meðaltali um 10% eða rúmlega það. Einum mánuði síðar eða 1. desember mun svo verðbólgureikningur valda svipaðri kauphækkun til viðbótar. Þessi hraði kann ekki góðri lukku að stýra.

Málsaðilar hafa samning ríkisins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sér til afsökunar. Þar var gefinn tónninn, sem spilað var eftir í samningnum á hinum almenna vinnumarkaði. Vinnuveitendur urðu að halda til jafns við ríkið.

Að gerðum þessum tveimur verðbólgusamningum á ríkisstjórnin þann einan kost að taka rösklega til höndum við marglofaða niðurtalningu verðbólgunnar. Að öðrum kosti missir hún stjórn efnahagsmála gersamlega úr höndum sér.

Félagsmálapakki ríkisstjórnarinnar verður ekki til að auðvelda henni verkefnið. Með honum hefur hún í ýmsum þáttum bundið hendur sínar og meðal annars lofað aðgerðum, sem í framkvæmd mundu leggjast á verðbólgusveifina.

Félagsmálapakkinn felur í sér ríkisútgjöld upp á nokkra milljarða á ári á núverandi verðlagi. Ríkisstjórnin verður væntanlega að skera aðra liði á móti til að koma í veg fyrir, að bólgin ríkisfjármál auki verðbólguhraðann.

Á hinn veginn er auðvelt að sjá, að pakkinn felur í sér mannréttindi, sem flestir munu telja æskileg og sumir sjálfsögð. Ber þar hæst loforðið um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn á næstu tveimur árum eða fyrir árslok 1982.

Ríkisstjórnin hefur gert sér mjög erfitt fyrir á þessu sviði með því að semja við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja um lífeyrisréttindi, sem eru töluvert umfram það, er hinar ríku nágrannaþjóðir okkar telja sig hafa efni á.

Sífellt endurteknir félagsmálapakkar eru mjög hættulegir. Þeir leiða til hraðrar aukningar félagslegrar velferðar, án þess að undirbygging atvinnulífsins eflist nokkuð til að standa undir þeim. Og svo er einmitt komið hér á landi.

Félagsmálapakkinn er tvíeggjaður eins og raunar hinar beinu kauphækkanir hins nýja kjarasamnings. Hvort tveggja leggur ríkinu á herðar skyldur til samdráttar um leið og það bindur hendur þess til slíkra andsvara.

En svo má líka segja, að verðbólgusamningur sé betri en enginn samningur, ófriður og vinnustöðvanatjón. Menn gættu hagsmuna hinna lægst launuðu, einfölduðu launakerfið og tryggðu þjóðinni vinnufrið í heilt ár.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið