Fastlega má búast við, að Grænlendingar gangi úr Efnahagsbandalagi Evrópu í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu, sem haldin verður eftir tvö ár. Þeir telja sig réttilega hafa orðið fyrir nokkrum búsifjum af hálfu bandalagsins.
Grænlendingar greiddu á sínum tíma atkvæði gegn þátttöku í bandalaginu, en urðu samt að sæta inngöngu sem hluti af danska ríkinu. Afleiðingin er sú, að þeir þurfa að fara til Bruxelles að sækja um að fá að veiða á eigin miðum.
Grænlendingar eru búnir að fá heimastjórn og stefna lengra. Búast má við vaxandi spennu í samskiptum Danmerkur og Grænlands. Danahatur fer vaxandi, einkum meðal ungra Grænlendinga. Dönsk tunga hefur þar ekki sama sess og áður var.
Grænlendingar óttast, að Danir og Efnahagsbandalagið séu að reyna að ná auðlindum landsins í olíu, ótal málmum og fiski. Óvíst er um gildi sumra þessara auðlinda. Ljóst er þó, að Grænlendingar hafa verið sárt leiknir í fiskimálum.
Dönsk stjórnvöld benda hins vegar á, að gífurlegt tap sé á Grænlandi, greitt af danska ríkinu. Grænland geti engan veginn staðið á eigin fótum. Hin nýju lífskjör þar í landi byggist á fé danskra skattgreiðenda.
Ekki alls fyrr löngu fengu Grænlendingar loks sömu laun og Danir fyrir sömu vinnu í Grænlandi. Enn eru þeir þó undirstétt í eigin landi, þar sem Danir skipa flestar helztu stöðurnar. Og lítið er um langskólamenntun Grænlendinga.
Allt þetta veldur spennu og erfiðleikum við stjórn Grænlandsmála. Íslendingar geta þar orðið að liði, til dæmis í menntun og tækni, ekki til að seilast til áhrifa, heldur sem góður nágranni, laus við nýlendustefnu.
Auk þess er ljóst, að Grænlendingar og Íslendingar verða sem nágrannar að taka upp samstarf í fiskimálum. Sennilega yrði það á breiðum grundvelli með aðild Færeyinga og Norðmanna. Verndun fiskimiða er þar efst á baugi.
Frumvarp um Grænlandssjóð hefur verið lagt fram á alþingi. Fyrsti flutningsmaður er Matthías Bjarnason og aðrir þeir Halldór Ásgrímsson, Benedikt Gröndal og Garðar Sigurðsson, þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum.
Frumvarpið gerir ráð fyrir, að árlega leggi ríkið til sjóðsins gengistryggðar 75 milljónir króna. Vöxtunum verði varið til kynnisferða, námsdvala, listsýninga, íþróttasýninga og annarra hliðstæðra samskipta þjóðanna.
Í greinargerð minna þingmennirnir á, að Grænlendingar hyggist minnast þess hátíðlega árið 1982, að þá verða liðin þúsund ár frá fyrstu heimsókn Eiríks rauða til Grænlands. Þingmennirnir vilja, að Íslendingar minnist þess einnig.
Oft eru þingmenn gagnrýndir fyrir það, sem þeir gera eða gera ekki. Þeim mun meiri ástæða er til að fagna frumvarpi, sem rís upp úr meðalmennskunni og dægurþrasinu. Frumvarpi, sem horfir langt fram eftir vegi.
Frumvarpið segir einfaldlega, að við eigum að reyna að verða næstu nágrönnum okkar að liði í erfiðleikum þeirra eftir töku landsmála í eigin hendur og að við eigum að reyna að koma á samstarfi um að efla sameiginlega hagsmuni.
Alþingi má ekki gleyma þessu litla frumvarpi í milljarðaskógi þingmála. Það er ekki bara einn blóðmörskeppur í sláturtíðinni. Það er framtíðarmál, sem alþingi hefði sóma af að ræða og afgreiða sem allra fyrst.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið