Starfssaga

1940-1953 Barnið

Starfssaga

Barnið

“Þetta er kommúnismi”, sagði mamman í næstu götu. “Kennarinn hefur látið þig gera þetta”. Hún hafði frétt af blaði, sem ég handskrifaði í fimm eintökum. Þá var ég ellefu ára gamall og bjó í Drápuhlíð 27. Hún hafði þó ekki séð blaðið. Það var tvær síður A4 og var allt soðið upp úr fimmaurabröndurum í tímaritinu Æskunni. Kennarinn var kommúnisti, en hafði ekki hvatt mig eða aðra til blaðaútgáfu. Ég man viðbrögð mömmunnar í Barmahlíð. Mér þótti þau henni til smánar. Að því leyti var ég þroskaður, tók reiðilestur hennar ekki inn á mig. Horfði bara á hana stórum augum barnsins, sem skilur ekki neitt.

Á fullorðinsárum hef ég oft haft tækifæri til að kynnast sömu flumbruhugsun og mömmunnar. Í starfi hef ég sífellt rekizt á fólk, sem Halldór Laxness lýsir svona í Innansveitarkróniku: “Því hefur verið haldið fram, að Íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðhengilshátt og deila um titlingaskít, sem ekki kemur málinu við, en verði skelfingu lostnir og setji hljóða, hvenær sem komið er að kjarna máls.” Orðhengilsháttur kemur á Íslandi í stað rökhugsunar.

Íslendingar telja hagkvæmt að fullvinna hráefni sjávarútvegs, þótt fiskur sé ekki hráefni. Vilja hafa vexti sanngjarna, þótt einhverjir verði að fást til að lána. Vera sjálfum sér nógir í búvöru, þótt það kosti valútu. Framleiða mat handa hungruðum heimi, sem ekki borgar. Ferðamenn vilji koma og skoða hreint og óspillt land, þétt skipað álbræðslum. Allt landið skuli vera byggt. Stöðva þurfi elfur fjármagnsins suður. Að fyrirtæki fái fyrirgreiðslu ríkisins. Ráðherrar setji reglugerðir fyrir sérhagsmunahópa. Eigendur húsa fái 20% afslátt af skuldum. Skattgreiðendur borgi alla slíka óskhyggju.

Þetta er ekki ævisaga, heldur starfssaga. Hún fjallar um feril í fjölmiðlun. Í leiðinni reyni ég að gera grein fyrir áhrifum, sem ég varð fyrir. Og því fólki, sem hafði áhrif á mig. Áður hefur verið fjallað um þetta í tveimur viðtalsbókum. Í “Lífsviðhorf mitt” (1991) skrifar Sigmundur Ernir um mig. Og í “Íslenskir blaðamenn” (2007) skrifar Ásgeir Tómasson um mig. Kaflar eru líka í bókunum “Fjölmiðlar nútímans” (1989) eftir Hannes H. Gissurarson. Og “Nýjustu fréttir” (2000) eftir Guðjón Friðriksson. Ég er sáttur við það, sem þar stendur og reyni hér að skauta frá þeim textum. Bæta við einhverju öðru.

Hér verður ekki sagt frá fjölskyldu minni, konu og börnum, né heldur ýmsum einkavinum. Þetta er opinber saga, ekki einkasaga. Ég er fylgjandi einkalífi innan veggja heimilisins, rétt eins og ég er andvígur einkalífi utan þess. Hér er að vísu ekki fjallað um fjármál mín, því að þau eru hversdagsleg. Skattar mínir hafa verið birtir opinberlega árum saman og er það vel. Ég hef það fjárhagslega bærilegt, takk. Við hjónin eigum skuldlaust hús og tvo bíla, hálfa jörð í Hreppunum og þriðjung í húsi norður í landi. Hef alla ævi verið hátekjumaður, meira óvart en af ásettu ráði. Reyki hvorki né drekk.

Fyrsta skref mitt í blaðamennsku í barnaskóla var engin frásagnarlist. Allt efni blaðsins var hirt upp úr tímariti. Enda var mér þá ekki kunnugt um siði eða siðareglur í meðferð texta. Framlag mitt fólst í að pakka texta saman í blað til að gleðja aðra krakka. Frami minn í blaðamennsku löngu síðar byggðist á ritstjórn, en ekki á texta. Þegar ég steig mitt fyrsta skref í blaðamennsku ellefu ára gamall, kom ég fram sem ritstjóri. En ekki sem höfundur. Þá strax rak ég mig líka á þjóðareinkenni, sem ég átti oft eftir að fjalla um í leiðurum: Flumbrugang Íslendinga og skort á rökhugsun.

Fram að menntaskóla bjó ég í húsum móðurbróður míns, Pálma Péturssonar. Hann var skrifstofustjóri rannsóknastofnana atvinnuveganna, mikill bókamaður. Heima voru margar bækur, meðal annars frá róttækum útgáfum Ragnars í Smára og Kristins E. Andréssonar. Pálmi kaus Sjálfstæðisflokkinn, en keypti samt bækur, sem voru langt til vinstri. Fór með mig á miðilsfund til Þórbergs Þórðarsonar. Ég var lítið fyrir fótbolta og kúrði oft inni við bóklestur. Þar las ég Kommúnistaávarpið eftir Marx og Engels. Og þar las ég Blekkingu og þekkingu eftir Níels Dungal. Varð samt fljótt miðjumaður í pólitík.

Einu sinni fór Pálmi með mig til skólabróður síns úr Menntaskólanum á Akureyri, Geirs Jónassonar bókavarðar. Sá bjó á Melunum, rétt hjá Þórbergi Þórðarsyni rithöfundi. Þetta var snemma á barnaskólaárum mínum. Meðal gesta var Þórbergur og gestirnir fóru í andaglas að hans frumkvæði. Ekkert gerðist í glasinu fyrr en ég fór að hreyfa borðfótinn með fætinum. Út úr því kom ekkert af viti, bara rugl. Upp komst um strákinn Tuma og ég var skammaður pínulítið, þó minna en efni stóðu til. Ég hafði á tilfinningunni, að viðstaddir hafi fremur litið á andaglasið sem samkvæmisleik en sem alvöru.

Bernskuvinur minn var Sigurður Steinþórson, síðar jarðfræðiprófessor. Hann var sonur Auðar, dóttur Jónasar frá Hriflu Jónssonar. Með Sigurði fór ég oft til Jónasar að Hnitbjörgum á Hávallagötu. Fyrir mér var það höll. Ég var sex ára, þegar Jónas fékk mig að fara með sér og Sigurði heim til Jónasar afa míns Kristjánssonar að Gunnarsbraut 28. Þeir höfðu átt í illu á Alþingi, þar sem afi minn sagði Hriflu-Jónas geðveikan. Hittum afa minn og þeir nafnar fóru í göngutúr eftir Gunnarsbraut. Ég man eftir baksvipnum á þeim. Fullar sættir náðust í göngutúrnum. Þetta var fyrsta skref mitt í diplómatíu.

Pálmi bjó með foreldrum sínum á Ásvallagötu 13. Síðan með ráðskonum og loks með sænskri eiginkonu að Drápuhlíð 2. Pétur Pétursson, afi minn, kenndi mér fjögurra ára gömlum að lesa á verzlunarskilti. Ég man enn, að mér þótti erfitt að lesa mig fram úr skiltinu Pfaff neðst á Skólavörðustíg. Kunni að lesa, áður en ég kom í smábarnaskóla og allt barnaskólaefnið kunni ég áður en ég komst í barnaskóla. Á sumrin var ég í fóstri á Reynistað í Skagafirði, hjá Jóni Sigurðssyni alþingismanni. Þar var líka allt í föstum skorðum. Nóg var af bókum á báðum stöðum. Þetta voru góðborgaraleg bókaheimili.

Ég var í smábarnaskóla á horni Hringbrautar og Tjarnargötu fimm ára gamall. Ári síðar fór ég til Kristínar að Bárugötu 11, þar sem ég lærði landafræði og Íslandssögu ásamt fleiri greinum. Á því ári var ég líka sendur í dans hjá Rigmor Hansen í Gúttó. Það fannst mér afleitt, þar voru stelpur. Fór bara í fyrsta tímann, en faldi mig síðan við Landakotskirkju í skoti milli súlna. Dansmenntin varð aldrei meiri en þessi eini tími. Í Melaskóla var ég látinn hoppa úr sjö ára bekk upp í níu ára bekk, kunni allar bækur. Fór upp á þau býti í Austurbæjarskóla og dofnaði þá samband mitt við krakka í Ásvallagötu.

Sem barn fékk ég væga söfnunaráráttu á ýmsum sviðum. Eftir föður minn erfði ég frímerkjasafn, sem ég setti í þar til gerð albúm. Bætti við safnið til að byrja með, en áhuginn lognaðist út af á gagnfræðaskólaárum. Ég safnaði líka prógrömmum kvikmyndahúsa, þegar ég var ellefu ára, en það datt upp fyrir. Betur gekk með Basil fursta, sögur af einkaspæjara. Ég átti þær komplett, áður en ég sagði skilið við barnaskólann. Löngu seinna brauzt áráttan út í söfnun góðra reyfara. Ég á ennþá hundrað bækur eftir George Simenon og flestar bækur Graham Greene. Eiðfaxa og Hestinn okkar á ég ennþá komplett.

Pálmi átti Eimreiðina frá upphafi, tímarit frá fyrri hluta tuttugustu aldar. Þetta var einn lengdarmetri í stórum bókaskáp. Þetta las ég allt, þegar ég var á barnaskólaaldri. Meiri vigt var þó í danskri alfræðibók. Hún var ekki skrifuð í stafrófsröð, heldur kaflaskipt eftir málefnum og fræðigreinum. Hana las ég alla og lærði mikið. Við Pálmi sátum oft hvor sínu megin við borðstofuborðið og lásum bækur. Á sunnudagsmorgnum fórum við í gönguferð um Reykjavíkurhöfn. Á Reynistað sátum við Jón Sigurðsson hvor sínu megin við borðstofuborðið og lásum bækur. Ég var orðinn fagbókabéus strax sem barn.

Þá var ég minnugur, þótt það færi fljótt af mér fullorðnum. Pálmi fór einu sinni með mig í hópi vina sinna í lítilli rútu austur í Fljótshlíð. Á leiðinni talaði fólkið um sveitabæina og fólkið, sem þar bjó. Á bakaleiðinni var ég í gamni spurður, hvað bæirnir hétu. Í ljós kom, að ég mundi öll bæjarnöfn frá Fljótshlíð til Reykjavíkur. Þetta þótti ferðafélögunum undur og stórmerki. Sjálfsálit mitt fór um víðan völl. Minni mitt var þó ekki varanlegra en svo, að sem fullorðinn maður gleymdi ég flestu. Símanúmerum, pin-númerum sem öðru. Ég mundi aldrei neitt og varð að skrásetja alla hluti.

Minnisleysið rak mig löngu síðar til að skrifa um ættir hrossa. Á mannfundum hestamanna mundi ég aldrei, hver var undan hverjum og hver var langafinn í móðurætt. Ég var tæpast gjaldgengur í þeirri heillandi umræðu. Því skráði ég ættir hrossa í fjölvíðan gagnagrunn, fyrst í Helix, ógnarfínan hugbúnað. Þannig gat ég í fljótheitum kallað fram ættir hrossa fram og aftur. Gat fundið forfeður og afkvæmi. Þetta bætti minnið að vísu ekki neitt. En varð til þess, að ég gat ungað löngum ættarþulum gagnagrunnsins út í hugbúnað í grafagerð. Hin fallegu ættargröf urðu grundvöllur ættfræðibóka um hross.

Á Reynistað var rekinn umfangsmikill búskapur með þrjátíu kýr, 400 kindur og tuttugu dráttarhesta. Þar var unnið eftir klukku með klukkustundar hléum í hádegismat og síðdegiskaffi. Á sunnudögum var jafnan frí, þótt unnið væri í þurrki um allan Skagafjörð. Jóni varð ekki hnikað í reglusemi, lagði sig alltaf í kortér. Ég var enginn átakamaður til vinnu sem unglingur, en þótti iðinn. Ég sveikst ekki um og fékk meira að segja kaup eftir sumarið. Á Reynistað lærði ég að halda mig að verki. Það hef ég æ síðan gert. Ég hef aldrei látið verklok standa upp á mig og það hefur auðveldað mér lífið.

Næsti kafli

1953-1961 Unglingurinn

Starfssaga

Unglingurinn

Foreldrar mínir fluttust til Bandaríkjanna, er ég var nýfæddur. Faðir minn var þar í læknisnámi. Ég vissi lítið af þeim fyrr en að stríðinu loknu, þegar ég var orðinn fimm ára. Ég bjó samt áfram hjá móðurbróður mínum. Vegna slysfara varð móðir mín, Anna Pétursdóttir, ekkja fljótlega eftir komuna til landsins. Ég var orðinn unglingur, þegar ég fluttist til hennar. Þar var sama góðborgaralega andrúmsloftið. Hjá henni lærði ég, að heimurinn væri opinn og víður. Þar væri nóg pláss fyrir fólk að sinna því, sem það vildi sinna. Hún var bjartsýn, sagði börnum sínum, að þeim væru allir vegir færir.

Ég veit ekki, hvort föðurleysið angraði mig. Í minningunni er svo ekki. Þótt ég væri feiminn og barnalegur, var ég upplitsdjarfur. Í Gagnfræðaskóla Austurbæjar tók ég þátt í málfundum og var framsögumaður um abstrakt list og atómvopn. Lét yfirleitt ekki neitt raska ró minni. Ég á til dæmis enn mjög erfitt með að verða sár, þegar einhver er ósáttur við mig. Mér líkar einnig vel við að vera einn á báti. Læt mér ekki bregða, þótt ég sé aleinn um skoðun. Ég fann aldrei til þess, að ég þyrfti föður til að líta upp til. Ég var frá barnæsku vanur að standa á eigin fótum og standa fyrir máli mínu.

Framsaga í málfundum í gagnfræðaskólanum hafði áhrif á mig. Ég kynnti mér bækur um kjarnorkuvopn og um abstrakt og atóm í menningu. En framsagan festi ekki fyrstu hugmyndir mínar í sessi. Ég hélt fram, að Bandaríkin hefðu ekki átt annan kost en að varpa atómsprengjum á Nagasaki og Hiroshima. Ég efaðist þó þá þegar um það og efast raunar enn. Þá talaði ég í annarri framsögu harðlega gegn abstrakti og atómi í list og ljóði. Fljótlega síðan snerist mér hugur. Átti þá þegar auðvelt með að skipta um skoðun og hef það raunar enn. Ég hef aldrei skilið andúð manna á að skipta um skoðun í nýju ljósi.

Í gagnfræðaskólanum varð ég fyrir handarslysi. Var að sveifla mér milli ráa í fatahengi. Missti takið og skall út í glugga. Fékk stóran skurð á hægri úlnlið, sem tók Snorra lækni átta tíma að sauma á Landspítalanum. Var lengi handlama út af þessu, en lagaðist með árunum. Frænkur mínar í föðurætt voru skelfingu lostnar. Hörmuðu, að ég gæti ekki orðið skurðlæknir, en gæti þó líklega orðið venjulegur læknir. Í huga þeirra kom aðeins til greina, að ég yrði læknir, þar sem faðir minn og afi voru læknar. Ég tók þetta óstinnt upp og ákvað, að hvert sem yrði ævistarfið, yrði ég örugglega ekki læknir.

Samt heimsótti ég oft afa minn og alnafna, sem var þekktur læknir. Einhvern veginn man ég eftir að hafa fallið í vök á Tjörninni, skriðið upp úr henni af sjálfsdáðum og gengið heim til hans. Jónas læknir bjó þá á Gunnarsbraut 28 og hafði þar stofur, þar sem fólk lá í heitum böðum og svaf síðan vafið inn í lök. Síðan stofnaði hann heilsuhæli í Hveragerði, þar sem fólk lá í leirböðum. Þangað kom ég oft með rútunni, sat inni á skrifstofu afa míns og skoðaði útlendar læknisfræðibækur. Ekki man ég samt eftir miklu spjalli við afa minn. Hann var orðfár. En heilsuhæli hans er orðið að stórri stofnun.

Eini kennarinn í gagnfræðaskóla, sem ég man eftir, var Guðrún P. Helgadóttir íslenzkukennari. Hún bar sig sem drottning, er dáleiddi lítilmótlega þegna sína. Kenndi einkum í formi undirbúnings fyrir landspróf. Lét okkur taka hvert gamla landsprófið á fætur öðru. Hamraði inn varnir gegn algengustu villum. Ég lærði rosalega vel hjá henni, hlustaði opinmynntur á allt, sem hún sagði. Útkoman var, að nemendur hennar fengu flestir háar einkunnir á samræmdu landsprófi í íslenzku. Í menntaskóla tók hún aftur á móti mér og sagði í fyrsta tímanum: “Nú loksins er hægt að fara að tala við yður.”

Menntaskólaárin 1955-1959 bjó ég hjá móður minni að Hólmgarði 1. Ég tók þátt í opinberu lífi skólans. Talaði á málfundum og bauð mig fram sem ritstjóra Skólablaðsins 1957. Keypti stundum Tímann í frímínútum á Skalla, dáðist að nútímalegri fréttastefnu Hauks Snorrasonar ritstjóra, sem höfðaði til mín. Af pólitískt meðvituðum nemendum var ég talinn með Framsókn. Sem ritstjóri þurfti ég að ganga milli andstæðra fylkinga, þegar hægri menn kvörtuðu undan yfirgangi vinstri manna í málfundafélaginu Framtíðinni. Ég birti sjónarmið beggja í Skólablaðinu og hélt góðum kunningsskap við alla málsaðila.

Snemma á menntaskólaárunum fór ég í stjórnmálaskóla hjá Félagi ungra framsóknarmanna. Það var fyrir misskilning. Hélt, að þar væri fjallað um samvinnuhreyfinguna og Framsóknarflokkinn. Svo var ekki. Þetta var kennsla í ræðumennsku, nánar tiltekið kennsla í að ljúga fyrir flokkinn. Ég var ekki tilkippilegur sem vonarpeningur í þingmann. Hrökklaðist því af námskeiðinu reynslunni ríkari. Alla tíð síðan hef ég tekið málstað þess, sem ég réttast vissi. Þetta var fyrsti árekstur minn við veruleikann. Var alinn upp við, að rétt skyldi rétt vera, en þarna kynntist ég fyrst hreinni tækifærismennsku.

Á Skólablaðinu vann ég meðal annarra með Sigurjóni Jóhannssyni, síðar leiksviðshönnuði, sem teiknaði skopmyndir af fólki. Og Ómari Ragnarssyni, síðar fréttamanni, sem teiknaði fyrirsagnir. Skólablaðið var pólitískt hlutlaust, birti mikið af ljóðum nemenda og smásögur þeirra. Athygli vakti smásagnasamkeppni, þar sem Ragnar Arnalds vann með sögunni: “Ég, faðir minn og fjórða ríkið.” Skólablaðið var hjá mér snyrtilegt tímarit í hefðbundnum stíl íhaldssömum, sýndi enga framúrstefnu í blaðamennsku. Ég samdi sjálfur lítið af texta, var bara ritstjóri eins og ég hafði verið ellefu ára.

Ritgerðir, sem ég skrifaði í menntaskóla, voru ekki bókmenntalegar. Ég skrifaði þó ritdóm um íslenzkar þýðingar á Rubaiyat eftir Omar Khayyam. Bar þær saman við ensku útgáfuna. Fékk bágt fyrir hjá Þórhalli Vilmundarsyni kennara, sem vildi ekki sjá texta á ensku. Þórhallur var einn séríslenzkra þöngulhausa, sem spilltu fyrir áhuga ungs fólks á námsefninu. Með Halldóri Guðjónssyni skrifaði ég líka langa ritgerð með tillögu um bylt námsefni skólans. Hún komst í umræðu á kennarastofunni. Þar kom Ólafur Hansson okkur til varnar. Nakin röksemdafærsla var sameiginlegt einkenni ritgerða minna.

Kennsla menntaskólans í ritgerðum var mér framandi. Okkur var kennt að skipta ritgerðum í þrennt, upphaf, meginefni og niðurlag. Meginefninu átti svo líka að skipta í þrennt. Hér og þar átti að strá inn tilvitnunum í ljóð höfuðskáldanna. Mér fannst hlægilegt að byrja á að segja, hvað maður ætlaði að segja og enda á því að segja, hvað maður hafði sagt. Mér fannst réttara að byrja í miðju kafi og spinna út frá því. Ég minnist þess ekki að hafa fengið háar einkunnir fyrir ritgerðir, en ég treysti sjálfum mér. Ég var góður í íslenzku og hafði tilfinningu fyrir málsögu. Kunni að skrifa zetu.

Mér leiddist flest kennsla í skólanum. Undantekningar voru Ólafur Hansson, sem kenndi sagnfræði, og Sigurður Þórarinsson, sem kenndi jarðfræði. Ég stóð mig líka vel í þeim greinum á stúdentsprófi, varð efstur í árganginum og fékk verðlaun. Í öðru var ég í meðallagi. Ólafur og Sigurður voru lifandi kennarar, stunduðu ekki hinar hvimleiðu yfirheyrslur í tímum. Ólafur lagði mikla áherzlu á fjölfræði, kenndi okkur helztu hugtök í upplýstri umræðu um samfélagsmál. Hann var yfirvegaður og fordómalaus, tók málstað nemenda, þegar lærifeður voru ósáttir á kennarastofunni. Ég naut góðs af því.

Fékk hastarlega skákfíkn í menntaskóla. Tók þátt í taflmótum og eignaðist smám saman einn lengdarmetra af skákbókum. Adrenalínflæði skákmóta heltók mig. Undir lok næstsíðasta bekkjar áttaði ég mig á, að ég var á rangri hillu. Seldi taflborðið, skákklukkuna og bækurnar á einu bretti og snerti ekki á skák í aldarfjórðung. Lét þá plata mig í innanhússmót á DV og lenti í 1.-2. sæti. Úrslitum réði æsiskák í síðustu umferð, þar sem klukkan féll á báða og annar varð mát. Hringja varð í Guðmund Arnlaugsson skákmeistara til að úrskurða sigur. Adrenalínið flæddi um mig, ákvað þá að láta gott heita.

Ég held, að framtíð mín hafi verið ráðin á þessum árum, þótt ég gerði mér ekki grein fyrir því. Hélt ég yrði rólegur embættismaður, en undir niðri lá leið mín til ritstjórnar. Ég vildi pakka efni saman í fjölmiðil og gefa út. Síðasta árið í menntaskóla hafði ég þó hug á að pakka arkitektúr saman í borgarskipulag. Kynnti mér menntunarmöguleika á því sviði. Mér fannst ekki koma annað til greina en að fara til útlanda. Mér fannst menntaskólinn vera langstaðnaður og úreltur. Ég bar heldur enga virðingu fyrir Háskóla Íslands sem menntastofnun. Vildi heldur komast beint í erlendar uppsprettulindir.

Menntaskólaárin var ég undir áhrifum frá Birtingi, tímariti um listir og menntir þess tíma. Ég á enn öll tölublöð tímaritsins allt aftur til 1952. Það var boðberi nýrra tíma. Ég leit ekki á mig sem listaspíru, en var með á nótunum í abstrakti þess tíma. Í tímaritinu voru greinar um arkitektúr og þar á meðal um borgarskipulag. Þaðan held ég að hafi risið tímabundinn áhugi minn á því fagi. Þegar til kastanna kom, fældist ég tæknilega og listræna þætti borgarskipulags sem háskólafags. Hefði samt tekið borgarskipulag sem sérgrein í félagsfræði, ef ég hefði lent í að gera hana að ævistarfi mínu.

Að lokum varð félagsfræðin ofan á. Fór til Vestur-Berlínar 1959 að læra hana við Freie Universität. Var þar í þrjú misseri, lauk 1961 forprófum fyrir lokapróf. Tók próf í tölfræði og skoðanakönnunum, sem kom sér síðar vel í starfi. Vestur-Berlín var góður kostur. Þar voru námsgjöld engin, húsnæði fáanlegt, skólahald frjálslegt, verð lágt, krár opnar allan sólarhringinn. Ég sá þar fyrst alvöru vinstri stúdenta, sem kveiktu í húsum og slógust við lögguna. Einnig alvöru hægri stúdenta, sem skylmuðust á leynifundum. Að koma til Berlínar var eins og að hefja nýtt líf eftir verndað íslenzkt umhverfi.

Æ síðan hef ég haft fordóma í garð þess hluta yfirstéttarinnar, sem fór úr menntaskóla í embættisnám við Háskóla Íslands. Ég leit á þá sem heimalninga, sem ekki höfðu andað að sér ilminum af hinum víða umheimi. Viðbrigðin hjá mér voru eins og svart og hvítt. Mér fannst ég endurfæðast erlendis. Æ síðan hef ég haft efasemdir um ýkta þjóðernishyggju, sem kom fram í andstöðu við viðreisn. Andstöðu við breytingar á kjördæmaskipun. Andstöðu við afnám stuðnings við landbúnað. Andstöðu við aðild að fjölþjóðasamtökum á borð við Evrópusambandið. Ég efaðist um hinar séríslenzku lausnir heimalninganna.

Næsti kafli

1961-1962 Tíminn

Starfssaga

1961-1964: Tíminn (33)

Árlegar kvikmyndahátíðir Berlínar vöktu athygli á þessum árum, þegar nýja, franska línan lék á als oddi. Mig langaði til að sjá bíómyndirnar. Sendi bréf til Ólafs Gauks tónlistarmanns, sem þá stjórnaði síðu með léttu efni í Tímanum. Spurði, hvort hann vildi ekki fá fréttir af Berlínarhátíðinni. Hann vildi það. Ég skrifaði nokkrar fréttir af kvikmyndum og hátíðinni. Þær birtust í Tímanum. Nokkru síðar skrifaði ég Ólafi aftur og spurði, hvort Tíminn vildi ekki fá mig í sumarvinnu. Hann taldi það líklegt. Sumarvinnan reyndist verða lengri en til var stofnað, varð að ævistarfi mínu.

Á endanum var það Andrés Kristjánsson ritstjóri, sem réð mig sumarblaðamann við Tímann. Hann og Jón Helgason ritstjóri tóku vel á móti mér, líklega 1. febrúar 1961. Jón var fréttaritstjóri, yfirmaður minn. Andrúmsloftið á Tímanum var notalegt fyrir mig sem byrjanda. Menn voru þægilegir og vildu allt fyrir mig gera. Ég skrifaði stirt og hægt, en kom samhengi fréttanna til skila. Fyrst var ég lögreglufréttaritari. Haukur Hauksson blaðamaður arfleiddi mig að því hlutverki og setti mig vel inn í það. Hann fór með mig í hringferð milli deildarstjóra í löggunni og kynnti mig fyrir þeim.

Hjá ritstjórunum lærði ég strax að hafa rétt fyrir mér og afla heimilda úr ýmsum áttum. Að þessu leyti fékkst blaðamennskan við sömu markmið og hún gerir enn þann dag í dag. Að svo miklu leyti sem Tíminn var skrifaður af blaðamönnum studdist hann við helztu lögmál siðfræðinnar í blaðamennsku. Að öðru leyti skiptu Jón og Andrés sér lítið af starfsmönnum. Leyfðu þeim að þroskast á eigin hraða. Þeir voru ekki ákafir lærifeður og starfsmennirnir ólu hver annan upp að mestu. Hins vegar voru þeir hinir mestu sögumenn og áttu sviðið í kaffitímunum. Einkum var Jón Helgason mikill sagnaþulur.

Ég varð fljótlega afar stoltur af starfi mínu á Tímanum. Ég hafði fundið minn rétta vettvang í fyrstu atrennu. Feimni á háu stigi rann af mér og ég gat horft framan í stórbokka af einurð í fyrsta sinn. Þetta var endurfæðing í svipuðum mæli og gerðist, þegar ég kom til náms í útlöndum. Ég varð raunar fullorðinn fljótlega eftir komuna á Tímann. Tvö ár voru liðin frá því að ég tók stúdentspróf og ég var orðinn gerbreyttur maður, tilbúinn að takast á við lífið. Ég var töluvert úti á galeiðunni, en það vakti litla athygli. Samstarfsmenn mínir sumir hverjir voru enn harðari púlsmenn Bakkusar.

Á Tímanum var ég innan um tóma snillinga, rithöfunda og ljóðskáld og menningarpostula. Þeir skrifuðu fínan texta, miklu betri en minn. En þeir voru lausir í rásinni, skiluðu verki á ýmsum tímum og voru stundum fjarri dögum saman. Þarna voru menn eins og Jökull Jakobsson, Baldur Óskarsson og Ólafur Jónsson, sem kallaður var vitsmunavera. Einnig menn, sem síðar urðu rithöfundar, svo sem Birgir Sigurðsson. Með svona menn umhverfis mig varð ég fljótlega hornsteinn á fréttastofunni. Ég nennti að sitja frameftir og loka síðum, fara með þær niður í prentsmiðju og standa yfir umbrotsmönnum.

Stundum urðu menningarvitarnir skrautlegir á Tímanum, en aldrei leiðinlegir. Einu sinni kom Jökull Jakobsson á kvöldvaktina hjá mér. Hann var með eitthvað, sem líktist riffli. Með ógnarhraða barst sú frétt í prentsmiðjuna, að Jökull væri á leiðinni og ætlaði að skjóta Tedda prentara. Hvers vegna vissi ég ekki og veit ekki enn. Jökull kom hávær inn í prentsmiðjuna og spurði: “Hvar er Teddi”. Prentarinn sá sér þann kost vænstan að skríða undir prentvélina og fela sig þar. Þegar Jökull áttaði sig á, hvers kyns var, kallaði hann: “Komdu Teddi, ég ætla bara að skjóta þig pínulítið í fótinn.”

Jökull var greinilega upprennandi skáld og rithöfundur á þeim tíma, prins í augum ungra menningarvita.  Leit niður á mig, taldi mig lélegan til drykkju. Hann var eins og dr. Jekyll og mr. Hyde. Stundum frábær textasmiður og stundum alger róni. Tvíeðlið kemur fram í bókum um ævi hans. Samstarfsmenn Jökuls fóru eitt sinn með hann illa fyrir kallaðan á tröppur föðurgarðs hans í Hlíðunum. Þeir skildu hann þar eftir í hrúgu við dyrnar, hringdu bjöllunni og földu sig í næsta garði. Innan skamms kom séra Jakob Jónsson til dyra og sagði: “Æ, æ, Jökull minn, voru strákarnir að láta þig reykja”.

Ég tók strax eftir, að ég hafði önnur viðhorf til frétta en rithöfundar hafa. Einu sinni kom snillingur með myndskreytt baksíðuviðtal við erlendar ferðakonur. Birtingardaginn játaði hann fyrir mér að hafa skáldað viðtölin. “Þetta er miklu betra svona,” sagði hann, “það er stíll yfir þessu. Þetta er bókmenntaverk, sem er sannara en veruleikinn.” Mér varð orðfall. Ég skildi þetta ekki þá og skil ekki enn. Fyrir mér hefur alltaf verið alfa og ómega, að fréttir í dagblöðum væru dagsannar, en ekki skáldaðar. Hef raunar aldrei tekið snillinginn í sátt, svo hneykslaður var ég. Sannleikurinn blífur.

Mér fannst notaleg blýlykt af prentsmiðjunni. Blýið var þá einkenni allra prentsmiðja. Textalínur voru framleiddar í blýsetningarvélum, sem voru afar flókin og dýr tæki. Umbrotsmenn tóku þessar línur í kippum og lögðu niður í mót af síðum. Nauðsynlegt var, að einhver af ritstjórninni væri á vakt í prentsmiðjunni til að leiðrétta villur og vera til taks, ef eitthvað fór úrskeiðis. Ég sá ekki eftir mér að taka þessar prentsmiðjuvaktir. Gerði það, sem aðrir nenntu ekki að gera. Áhugi minn á hönnun og umbroti endaði með, að ég var gerður að fréttastjóra eftir rúmlega tveggja ára starf.

Fréttastofan var góður og heiðarlegur vinnustaður án pólitískra afskipta. Ég geri ráð fyrir, að ég hafi verið ráðinn út á framsóknarstimpil. Sama held ég að hafi gilt um samstarfsfólkið. Menn voru taldir frekar hliðhollir Framsókn og það var látið nægja. Þegar leið að kosningum, fengum við ekki pólitískar byrðar. Í staðinn tóku kommissarar yfir forsíðuna og við fréttamennirnir héldum áfram að skrifa óhlutdrægar fréttir á aðrar síður. Tíminn var búinn að koma upp algerum aðskilnaði milli frétta og áróðurs. Þórarinn Þórarinsson datt í hús til að skrifa leiðara, en sinnti alls engri verkstjórn.

Þórarinn var eins og þjóðsagnapersóna á Tímanum, en ekki starfsmaður. Hann leit stundum inn á morgnana og skrifaði þá venjulega leiðara næsta blaðs. Síðan kom hann aftur fyrir eða eftir fimmbíó og las prófarkir af leiðara. Herbergið hans var fremst á ritstjórnarganginum og ég man ekki eftir því, að hann hafi stigið fæti lengra. Hann bauð engan velkominn til starfa og kvaddi engan. Hann var alveg lokaður inni með leiðara sínum og öðrum skrifum um flokkspólitík. Ég kom nokkrum sinnum inn til hans og var hann þá hinn alúðlegasti. En aldrei vildi hann tala um nein fagleg málefni blaðsins.

Tíminn var auðvitað flokksblað og því varð ekki breytt. Ýmsar fréttir, sem nú þykja sjálfsagðar, voru þá alveg óþekktar. Rannsóknarblaðamennska var engin. Það tíðkaðist ekki að grafa upp viðkvæmar upplýsingar um viðkvæm mál í efnahagslífi eða stjórnmálum. Meðan ég var fréttastjóri á Tímanum var ég hluti af þessu gamla kerfi. Ég var ekki sáttur við nærveru flokksins, en sá enga leið frá því. Þegar Framsókn vann eitt sinn kosningasigur á þessum tíma, ráðguðust menn um fyrirsögn. “Ferlegur sigur Framsóknarflokksins” sagði ég. Pólitíska deildin starði á mig, taldi mig líklega vanþroskaðan.

Smám saman náði ég tökum á hönnun dagblaðs. Ég átti þátt í að gera útlit blaðsins nútímalegra. Beitti andstæðum stórra og lítilla fyrirsagna á þann hátt, að lesendur voru sáttir. Gamlir lesendur mótmæltu ekki og nýir lesendur komu til skjalanna. Ég mældi líka nákvæmlega allar lengdir, svo að prentsmiðjan gat notað hönnunarblöðin áreynslulaust. Segja má, að útlit og umbrot hafi verið það fyrsta, sem ég náði tökum á í starfinu. Skipulag á fréttaöflun lá ekki eins vel fyrir mér og framfarir mínar voru mun hægari á því sviði. Tíminn stóðst ekki samanburð við Moggann í almennum fréttum.

Ég var samt enginn framúrstefnumaður í hönnun. Gísli Ástþórsson gerði á þessum tíma nútímalegri hluti á Alþýðublaðinu, sem var í uppsveiflu þessi árin. Mínar endurbætur voru hversdagslegri, hentuðu betur lesendum blaðsins og Framsóknarflokknum. Voru sumpart sniðnar eftir erlendum götusölublöðum. Ég held, að flokkurinn hafi verið ánægður með breytingarnar. Hafi talið þær auðvelda flokknum að ná til unga fólksins. Það var þá í tízku. Flokkurinn var líka sáttur við skemmtilegri fréttir, sem hann taldi hafa sama tilgang. Breytingar útlits urðu örlítið hraðari eftir komu Indriða G. Þorsteinssonar.

Tíminn var þá næststærsta blað landsins, háði samkeppni við Morgunblaðið, sem var gamaldags á þessum árum. Frá síðari hluta árs 1961 til ársloka 1964 urðu hægfara útlitsbreytingar. Indriði G. Þorsteinsson varð fréttaritstjóri 7. janúar 1962. Hann tók um tíma sumt af þessari vinnu, hafði svipuð viðhorf og ég. Af Indriða lærði ég margt. Hann hafði djúpan skilning á almenningi og hvernig framsetning hentaði honum. Engar stórar útlitsbreytingar urðu samt við komu hans, hægfara lagfæringar héldu áfram. Formlega var ég svo gerður að fréttastjóra 19. júní 1963, en var þá raunar búinn að vera það um skeið.

Næsti kafli

1962-1964 Indriði

Starfssaga

Tíminn var þá næststærsta blað landsins, háði samkeppni við Morgunblaðið, sem var gamaldags á þessum árum. Frá síðari hluta árs 1961 til ársloka 1964 urðu hægfara útlitsbreytingar. Indriði G. Þorsteinsson varð fréttaritstjóri 7. janúar 1962. Hann tók um tíma sumt af þessari vinnu, hafði svipuð viðhorf og ég. Af Indriða lærði ég margt. Hann hafði djúpan skilning á almenningi og hvernig framsetning hentaði honum. Engar stórar útlitsbreytingar urðu samt við komu hans, hægfara lagfæringar héldu áfram. Formlega var ég svo gerður að fréttastjóra 19. júní 1963, en var þá raunar búinn að vera það um skeið.

Indriði kom af bráðhressu Alþýðublaði Gísla Ástþórssonar og fylgdi mildri götusölustefnu í fréttastjórn. Lagði áherzlu á aðeins eina frétt á dag, lét aðrar fréttir afskiptalausar. Lagði áherzlu á hverja forsíðu sem nýtt listaverk, ólíka fyrri forsíðum, sinnti lítið öðrum síðum. Vildi, að forsíðan væri spánný á hverjum degi. Ég vildi hins vegar byggja á fimm-tíu formum fyrir hverja síðu, þannig að hefðir mynduðust, sem lesendur tækju eftir og væru sáttir við. Indriði var mikið fjarverandi í bókaskrifum og á Borginni, svo að hugmyndir mínar höfðu meiri áhrif en ella hefði verið.

Raunar var framhaldssagan sá þáttur blaðsins, sem átti hug Indriða óskiptan. Þegar sá efnisþáttur var á útleið í dagblöðum, fjölgaði hann sögunum úr einni í tvær á dag. Heil síða var lögð undir framhaldssögur á degi hverjum. Hann bætti við metsölubókum á sviði sagnfræði síðari heimsstyrjaldarinnar. Svo sem dagbókum Alanbrooke lávarðar. Um þetta mál talaði hann á mörgum fundum. Áhugi hans á hönnun fréttasíðna blaðsins minnkaði fljótt. Hönnunin féll meira eða minna í mínar hendur. Ári eftir komu hans á Tímann, í upphafi árs 1963, var mín stefna í hönnun orðin ráðandi á fréttasíðum blaðsins.

Indriði samþykkti aldrei tillögur fólks um uppslætti. Björn Þ. Guðmundsson, síðar lagaprófessor, skrifaði erlendar fréttir. Þegar hann var búinn að því og velja aðalfrétt, skrifaði hann aðra til vara. Með hana fór hann niður til Indriða og sagði hana vænlega aðalfrétt. Það fannst Indriða ótækt og spurði, hvort ekkert væri til skárra. Björn minntist þá á málið í földu fréttinni. Indriða leizt vel á það, Björn fór upp og beið í tíu mínútur. Kom svo með fréttina, sem hann hafði alltaf ætlað í uppslátt. Indriði varð kátur og áttaði sig aldrei á sjónhverfingunni. Björn kunni lagið á honum.

Indriði var fyrsti maðurinn, sem talaði um fréttastíl í mín eyru. Hann var harðsoðinn rithöfundur eins og Ernest Hemingway, skrifaði smásögur í stíl lögreglufrétta. Indriði kunni vel við stuttar og snarpar málsgreinar. Hann vandaði sig við texta, lá stundum yfir honum. Ég held, að Hemingway og Halldór Laxness hafi verið hans helztu fyrirmyndir. Undir áhrifum frá Indriða fór ég í fyrsta skipti að hugsa um textastíl fjölmiðla. Ég var þó seinþroska á þessu sviði. Náði ekki skipulegri stílstefnu fyrr en ég var hættur að vera ritstjóri og farinn að kenna blaðamennsku við háskóla.

Indriði var fyrst og fremst ritstjóri síðdegisblaðs, götusölublaðs. Á blaði, sem samt var morgunblað og var selt í áskrift. Hjá honum kynntist ég fyrst sjónarmiðum götusölublaðs: Mögnuðum fyrirsögnum, aðeins einum uppslætti á hverjum degi og daglegri byltingu í útliti. Ég held þetta hafi ekki hentað Tímanum þá og ég flutti þessi sjónarmið ekki yfir á Vísi. Á þessum tíma var ég raunar nær fortíð Tímans en Indriði. Það tók mig nokkurn tíma að átta mig á sjónarmiðum götusölublaðs og læra að meta þau. Nú tel ég, að götublöðin geti betur nálgast sannleikann heldur en stofnanavædd dagblöð hefðbundin.

Indriði var mikill áhugamaður um bíla. Enda spila slíkir stóra rullu í 79 af stöðinni og sumum smásögum hans. Hann sagði mér, að ekkert væri varið í bíl, nema heill lítri færi inn á vélina, þegar stigið væri á benzíngjöfina. Hann átti langa, ameríska eðalvagna, sem þá voru orðnir sjaldséðir eftir löng kreppuár Eysteinskunnar. Ræður Indriða um kosti bíla urðu mér minnisstæðar og ég þráði að eignast þátt í frelsinu. Ég taldi samt ólíklegt, að ég mundi nokkru sinni hafa ráð á stórum dreka. En ég fór á bílasölur til að leita mér að gömlu farartæki. Það varð að vera gangfært og hafa stimpil upp á skoðun.

Sem forríkur blaðamaður kom ég mér upp bíl 1962, Morris frá 1946. Eini bíllinn í minni eigu, sem angaði af leðurlykt. Þá bjó ég hjá móður minni og stjúpföður á Kársnesbraut 107. Ég lagði bílnum efst á Borgarholtsbraut. Lét hann renna niður hana, yfir Kópavogsbraut og síðan hrökk hann í gang. Ef umferð um hana hamlaði ekki för. Framsætið var laust og hrökk til baka á aftursætið, ef ég hélt ekki fast í stýrið. Á þessum forláta bíl fór ég vítt um sveitir, bræddi tvisvar úr vélinni. En bíllinn stóð jafnóðum upp aftur af sjúkrabeði. Á endanum seldi ég hann tugthúslim, sem framleiddi sælgæti.

Sælgætisframleiðandinn borgaði ekki bílinn. Samt heimsótti ég hann stundum í sælgætisgerðina, sem var í garði bak við hús við Ásvallagötu. Þar stóð hann og hrærði í potti, hvernig sem viðraði. Að lokum hvarf hann og fannst ekki fyrr en á Litla-Hrauni. Þá hirti ég bílinn aftur og seldi hann öðrum manni. Þannig tókst mér að tvíselja bílinn og hef ekki í annan tíma stundað þvílíka fjárglæfra. Ég keypti næst Volkswagen, átti nokkra slíka. Þegar fjölskyldan stækkaði upp fyrir hann, keypti ég risastóran Jeep Wagoneer. Slíkir heita nú Cherokee. Hef síðan eingöngu átt slíka bíla. Ég er íhaldssamur í bílamálum.

Algert frelsi var að eignast bíl. Ég komst þá næst ameríska drauminum. Að geta sezt upp í bíl og keyrt hvert á land sem er. Það var alveg nýtt fyrir mér. Held raunar, að einkabíllinn sé vanmetinn þáttur í sálarlífi nútíma Íslendinga. Mér er minnisstætt, þegar ég þeyttist á flatbotna fólksvagni upp langan snjóskafl í Öskju, þar sem rúta lá föst. Fólksvagninn fór allt, sem jeppar fara nú. Hef grun um, að Sigfús í Heklu hafi vitað um dálæti mitt á þeirri gerð bíla. Kannski réði það úrslitum um, að hann hringdi bjöllunni hjá mér klukkan sex að morgni og heimtaði, að ég yrði ritstjóri Vísis.

Árin mín 1961-1964 á Tímanum voru ár Viðreisnarstjórnarinnar, sem blaðið var mjög andvígt. Ég hins vegar sá í henni glætu og gekk smám saman til fylgis við meginstefnu hennar, frjálsa verzlun. Vegna aðskilnaðar frétta og stjórnmála á síðum blaðsins hafði það ekki áhrif á starf mitt. En auðvitað sést á fólki, ef það tekur sinnaskiptum í pólitík. Ég var kannski gálaus í tali um pólitík og kom við spenntar taugar kommissara. Þetta truflaði þó ekki samstarf mitt við aðra í húsinu, enda voru þetta allt ágætis menn, líka kommissararnir. En Indriði var sá eini, sem ég lærði eitthvað af.

Af blaðamönnum átti ég mest samskipti við Magnús Bjarnfreðsson, sem síðar varð sjónvarpsmaður. Sigurð Hreiðar, sem síðar varð kennari á Bifröst. Birgi Sigurðsson, sem síðar varð leikritaskáld. Tómas Karlsson, sem síðar varð sendifulltrúi. Runólf Elentínusson, sem síðar varð ljósmyndakennari. Magnús, Birgir og Runólfur voru utan sambúðar um þetta leyti og leiddu mig um völundarhús skemmtistaðanna. Þá var barinn á loftinu í Naustinu samkomustaður þeirra, sem töldu sig menningarvita. Um skeið varð ég svo auðugur, að ég borðaði kvöldmat í Naustinu nánast öll laugardagskvöld.

Meðal fastakúnna barsins á Naustinu voru guðfræðinemar áberandi. Fremstur og fyrirferðarmestur var Ágúst Sigurðsson, kenndur við Möðruvelli, hvers manns hugljúfi. Hann var þá þegar orðinn þjóðsagnapersóna. Einu sinni var ég að fara í Glaumbæ, sem þá var helzti skemmtistaður landsins. Var þá Ágúst þar mættur með séra Rögnvald Finnbogason á öxlinni. Vildi Ágúst fá inngöngu í Gómorru skemmtanalífsins. Voru þeir báðir reikulir í spori. Dyravörðurinn maldaði í móinn og taldi ólíklegt, að þeir gætu lengi staðið í fæturna. “Láttu ekki svona”, sagði Ágúst. “Gamli maðurinn er bara svona hrumur.”

Til marks um lágt menningarstig veitingahúsa þess tíma var, að Naustið var frægast fyrir körfukjúkling. Hann var þá alger nýjung, en er núna fastur liður á matseðli skyndibitastaða. Ég vandist fljótt af kjúklingi þessum og sneri mér að virðulegri rétti, svonefndum Chateaubriand. Það var nautalund þunnt sneidd með Béarnaise sósu og frönskum kartöflum. Við ungu hjónin átum hana á laugardagskvöldum. Virka daga fórum við hins vegar eftir vinnu á Bæjarins beztu og átum pylsur. Fórum síðan vestur í ísbúðina á Hjarðarhaga, þar sem Steingrímur Hermannsson hafði kynnt Dairy Queen fyrir þjóðinni.

Kunningsskapur minn við þessa starfsfélaga dofnaði, þegar ég hætti að vinna á Tímanum. Kristján Bersi Ólafsson var eini blaðamaðurinn, sem ég hafði persónuleg samskipti við eftir starfslok þar. Hann varð síðar ritstjóri Alþýðublaðsins og loks skólameistari í Flensborg í Hafnarfirði. Hann var mikill frásagnarmaður, tók óspart í nefið og skildi eftir hreint far í stólnum, þegar hann stóð upp. Við ryksuguðum alltaf, þegar hann fór. Kristján var týpa, sem öllum líkaði vel við, hæfilega meinfyndinn, en lagði alltaf gott til manna. Samkvæmismaður var hann fram í fingurgómana.

Ég tala hér um allt þetta fólk í þátíð. Ekki vegna þess, að það sé búið að vera eða komið í grænni haga. Ég er ekki búinn að jarða þessa vini mína. Þetta eru minningar mínar og þess vegna eru þær í þátíð. Alla ævi mína komu að málum menn, sem á einhvern hátt áttu þátt í að móta blaðamennsku mína. Mér finnst mikilvægt að geta þeirra, því að enginn er eyland. Starfssaga hvers manns er öðrum þræði sagan af kynnum hans af öðru fólki í starfi. Allt er þetta hluti af tilraun til að skýra, hvernig nútíminn varð til. Óbeint varð hópur manna að hluta af fortíð minni og því tala ég um þá í þátíð.

Á Tímaárum mínum tók ég þátt í að stofna klúbb með mönnum, sem höfðu verið í háskólum í Þýzkalandi, einkum í Berlín og Stuttgart. Klúbburinn hélt mánaðarlega fundi á miðvikudögum og kallaðist því M-klúbburinn. Hann er enn á lífi, en er núna orðinn rólegri en hann var í fyrstu, enda allir félagar komnir á eftirlaun. Klúbburinn fór í ýmsar útrásir, meðal annars nokkrum sinnum í Húsafell. Þar sé ég fyrir mér Sigurð Richardsson, stærðfræðikennara  við Iðnskólann, meðhöndla dýrindis steikur með logsuðutæki. Hann var mikill meistarakokkur og lét ekki tækjaleysi aftra sér frá snilldarverkum.

Sigurður var mikil félagsvera og átti alls staðar aldavini. Þegar við áðum á Langasandi í Hvalfirði fór hann alltaf bakdyramegin, þar sem rútubílstjórar átu rjómatertur að launum fyrir stoppið. Einu sinni fór hann með öðru fólki í bíltúr til Akureyrar. Áð var í Hreðavatnsskála, þar sem ball var í gangi. Þar fundu hann nokkrir nemendur úr Iðnskólanum. Þeir töldu ófært, að hann væri þar tjaldlaus og vistalaus. Tróðu honum upp í bíl, sem keyrði hann heim til Reykjavíkur. Sigurður harmaði lengi síðan að hafa vaknað upp við vondan draum í Reykjavík, þegar hann hélt sig eiga að vera kominn til Akureyrar.

Þegar ég hóf störf við Tímann, hvarf ég frá náminu í félagsfræði. Ég bætti mér það upp með því að hefja nám í sagnfræði og landafræði við Háskóla Íslands. Ég lauk BA-prófi í þeim greinum undir lok ferils míns á Tímanum. Kennarar mínir voru hinir sömu og ég hafði áður litið upp til, Ólafur Hansson og Sigurður Þórarinsson. Ég tók líka eina gráðu í ensku, þar sem kennari var Gunnar Norland. Hann hafði ég einnig áður haft í menntaskóla og kunni vel við. Ég var í þessu samhliða vinnu og hafði að mestu leyti gaman af. Ég var samt feginn, þegar þessu tvöfalda vinnuálagi mínu lauk.

Næsti kafli

1964-1966 Fréttastjóri Vísis

Starfssaga

1964-1966: Fréttastjóri Vísis (22)

Þannig liðu nokkur ár í velsæld. Ég festi ráð mitt, eignaðist konu og börn og fór að hafa áhyggjur af fjármálum. Vildi fá hærra kaup, en útgáfuráðið stóð fast fyrir. Er hvorki rak né gekk, sagði ég upp, gekk út 12. nóvember 1964. Ég skildi í góðu við alla þar á bæ, hafði ekki brotið neinar brýr að baki mér. Labbaði inn á Vísi til Gunnars G. Schram ritstjóra, sem réð mig samstundis sem fréttastjóra. Formlega titlaður frá 2. marz 1965. Sem slíkur var ég undirmaður Þorsteins Thorarensen, “senior” fréttastjóra blaðsins. Þeir voru fínir blaðamenn. Loksins hófst þáttur minn í nútíma blaðamennsku.

Gunnar G. Schram kom bratt að Vísi sem dauðvona blaði. Hann tók með sér valinkunna fréttahauka af Mogganum. Var búinn að gera Vísi að útbreiddu nútímablaði, þegar ég varð þar innanbúðarmaður. Gunnar var höfðingi í framkomu og bar litla virðingu fyrir fjármálamönnum. Þeir áttu að útvega honum fé til að reka gott blað og hafa mikla þolinmæði. Rekstur blaðsins varð mjög dýr og tekjurnar uxu hægar. Það leiddi til ágreinings milli hans og stjórnarinnar. Gunnar hélt áfram sínu striki og bætti Vísi í sífellu. En hann kenndi blaðamönnum fátt, vildi, að þeir sæju um sinn þroska sjálfir.

Þorsteinn Thorarensen var hamhleypa, skrifaði margar fréttir sjálfur. Því miður höfðu þær tilhneigingu til að vera langar, jafnvel lengri en heil síða. Hann mundi orðrétt allt, sem hann las og heyrði. Síðar varð hann sagnfræðingur, sat í Árnasafni og skrifaði langa kafla upp úr bókum eftir minni. Þorsteinn varð kennari minn, afar þægilegur maður í viðkynningu, heiðarlegur fram í fingurgóma. Síðar átti hann eftir að verða útgefandi bóka minna um framandi heimsborgir. Þegar ég var búinn að skrifa um átta borgir, sendi hann mér lista með 21 borg, sem hann vildi fá skrifað um. Helzt strax.

Þótt þessir tveir væru snillingar á sínum sviðum, höfðu þeir ekki tímaskyn og skildu ekki tækni og tíma í blaðaútgáfu. Mitt hlutverk varð að finna þá þræði og gera úr þeim haldreipi. Gunnar var einkum stjóri og Þorsteinn var einkum rithöfundur. Ég tók að mér að hafa daglegt samband við blaðamenn og prentsmiðju. Þannig féll ég fljótt í sama hlutverk á Vísi og ég hafði haft á Tímanum. Var eins konar “night editor”, sem sá um, að blaðið kæmist út. Starfshættir voru hinir sömu og á Tímanum, sönn blaðamennska í heiðri höfð. En svigrúm hennar var miklu víðara á Vísi. Þar var enginn flokks-kommissar.

Séra Emil Björnsson var stjörnublaðamaður Vísis. Var mikill skúbbari og hafði ríkar tilfinningar til vinnunnar. Kallaði og hrópaði, þegar vel gekk að draga inn fréttanetið. Einu sinni gladdist hann svo við árangur í einu símtali, að hann fór á handahlaupum um ritstjórnarganginn og stakk sér kollhnísa með siguröskrum. Var hann þó þungavigtarmaður í bókstaflegum skilningi. Hann var þá í hálfu starfi sem blaðamaður og í hálfu sem prestur óháða safnaðarins í Reykjavík. Skömmu síðar var ríkissjónvarpið stofnað og séra Emil varð þar fréttastjóri. Þar var réttur maður á réttum stað.

Þorsteinn Jósepsson var lögreglufréttaritari Vísis. Var eini maðurinn, sem handskrifaði fréttirnar. Ég hafði aldrei séð það áður og átti aldrei eftir að sjá það. Samtal við Þorstein Thorarensen leiddi í ljós, að ekki mundi þýða að bjóða Þorsteini Jósepssyni að skrifa um neitt annað efni. Hann ynni bara sitt fasta starf og snerti ekki á öðru. En biðja mætti hann með lagi um ljósmyndir frá ýmsum stöðum á Íslandi. Ég veit ekki, hvernig Þorsteinn varð blaðamaður, en hann var greinilega of sérhæfður og sérvitur fyrir nútíma blaðamennsku. Var minnisvarði aftan úr fyrri áratugum aldarinnar.

Axel Thorsteinsson skipti deginum milli útvarps og Vísis. Skrifaði og las erlendar fréttir á morgnana í útvarpið. Kom síðan með þær inn á Vísi til endurbirtingar. Sérkennileg skipan, var vafalaust ein gamalla hefða, sem blaðið burðaðist með. Þægilegur maður í viðkynningu, en ekki vandvirkur í blaðamennsku. Skrifaði bók í tilefni 75 ára afmælis Vísis. Hún var hroðvirknisleg, þótt hún fengi vandaðasta prófarkalestur sem hugsast gat. Axel var kominn yfir sjötugt og leyndi á sér. Sem ungur maður lenti hann í ýmsum ævintýrum, var meðal annars kanadískur hermaður í fyrra heimsstríðinu.

Meðan ég var fréttastjóri hafði ég lítil áhrif á útlit blaðsins. Þorsteinn var ekki gefinn fyrir uppslætti. Hugsun hans og Gunnars snerist eingöngu um dagblað sem form fyrir texta og myndir. Þeir höfðu ekki áhuga á nýjungum í útliti og myndskurði, sem höfðu þá komið fram á Alþýðublaðinu og Tímanum. Enn síður höfðu þeir áhuga á stríðsfréttasíðum dagblaðsins Myndar, sem átti skamma ævi 1962. Voru sumpart menn gamla tímans og sumpart menn nýs tíma. Þessi ár, frá 1961-1966, fyrstu fimm blaðamennskuár mín, voru ár mikillar undiröldu í blaðaútgáfu landsins. Dagblöð stunduðu tilraunir á ýmsan hátt.

Mynd var misheppnað dagblað, sem kom út nokkrar vikur árið 1962. Það var í stóru broti, stæling á Bild Zeitung í Þýzkalandi. Þaðan kom formið, sem var ágætt út af fyrir sig. En innihald götusölublaðs vantaði. Fyrsta fyrirsögnin með stríðsletri var: “Flugið til Eyja stopult næstu áratugina”. Innihaldið og ljósmyndirnar voru engu líflegri en á öðrum dagblöðum þess tíma. Margt fleira stuðlaði að skjótum ævilokum þess, en skortur á innihaldi var nægileg ástæða. Þar á ofan bættist ónýt prentvél og eitt af þessum löngu verkföllum prentara. Afdrif Myndar voru ekki hvetjandi fyrir nýjungar í blaðamennsku.

Guðmundur Benediktsson prentsmiðjustjóri var í stríði við ritstjórn Vísis. Bölsótaðist yfir seinum og lélegum skilum ritstjórnar, lét staðreyndir sig engu varða. Ég greip til þess að tímastimpla allar fréttir í stimpilklukku prentsmiðjunnar. Þannig gat ég með einu höggi slegið vopnin úr höndum Guðmundar. Sýndi fram á, að öll skil voru í lagi. Valdahlutföllin snerust mér í hag og óyndi sótti að Guðmundi. Hann hvarf af vettvangi, stofnaði sína eigin prentsmiðju. Einn góður skipulagsmaður var í prentsmiðjunni, Ólafur I. Jónsson, mikill öðlingsmaður. Ég fékk hann ráðinn sem prentsmiðjustjóra.

Þrátt fyrir árekstra okkar Guðmundar áttum við góð samskipti lengi eftir þetta. Held hann hafi respekterað harðskeytta aðgerð mína til að koma á eðlilegum samskiptum milli prentsmiðju og ritstjórnar. Ólafur varð svo einn af vinum mínum, alltaf reiðubúinn til að leysa allan vanda. Er Blaðaprent var stofnað sem sameiginleg prentsmiðja margra dagblaða barðist ég fyrir því, að hann yrði þar verkstjóri. Síðan varð hann prentsmiðjustjóri Dagblaðsins. Féll því miður frá vegna veikinda löngu fyrir aldur fram. Í minningu minni er hann einn bezti maður, sem ég hef átt samskipti við.

Gunnar og Þorsteinn áttu í erfið samskipti við stjórn blaðsins. Fóru sínu fram eftir eigin höfði. Ég var sjálfur utangarðs í deilunum, talaði ekki við neinn stjórnarmann. Að lokum var ákveðið sumarið 1966 að ýta þeim út. Sigfús Bjarnason í Heklu bankaði upp á hjá mér klukkan sex að morgni. Við fórum í morgunkaffi á Hótel Loftleiðir. Hann vildi mig sem ritstjóra. Ég sá á því öll tormerki, ég væri of ungur og óreyndur. Hefði mest lagt fyrir mig tæknileg atriði. Sigfús hló og sagði, að það væri einmitt kosturinn við mig. Morgnarnir á Hótel Loftleiðum urðu fleiri og að lokum sló ég til.

Ég hitti Gunnar og Þorstein sameiginlega og bar ritstjóramálið undir þá. Þeir löttu mig ekki að ganga að tilboði Sigfúsar. Skilnaður okkar var í friði, þeir sáu, að ég átti engan þátt í brottför þeirra. Löngu síðar varð Þorsteinn útgefandi minn, þegar ég fór að skrifa ferðabækur um erlendar stórborgir. Hann rak þá útgáfufélagið Fjölva með miklum sóma sem einyrki. Við vorum þá hinir beztu vinir. Hann vildi, að ég skrifaði margfalt fleiri bækur en ég hafði getu og tíma til að sinna. Gunnar átti líka eftir markverðan feril sem sérfræðingur í landhelgismálum og prófessor í lögum.

Næsti kafli

1966-1967 Ritstjóri

Starfssaga

1966-1972: Ritstjóri Vísis (20)

Ritstjóri varð ég 1. september 1966. Fyrstu vikurnar voru stífar. Starfsmenn voru að hætta eða að fara í frí. Ég vann nótt sem nýtan dag við að koma blaðinu út á réttum tíma á degi hverjum. Það bjargaði, að ég fann Jón Birgi Pétursson, sem hafði verið íþróttafréttamaður. Gerði hann að fréttastjóra 1. desember 1966. Hann var hamhleypa til verka, setti hressan anda í fréttirnar og átti auðvelt með mannleg samskipti við blaðamenn. Samstarf okkar Jóns var farsælt um langt skeið og persónuleg samskipti okkar voru mikil. Mér féll það afar þungt, þegar leiðir okkar skildu löngu síðar af öðrum ástæðum.

Jón Birgir Pétursson var íþróttablaðamaður okkar. Skrif hans vöktu athygli mína, voru læsilegri og fjörlegri en annarra blaðamanna. Að því leyti var Jón Birgir á svipuðum nótum og aðrir íþróttafréttaritarar þess tíma. Við flokkspólitískar aðstæður þroskaðist nútíma blaðamennska hraðar í skrifum um íþróttir en í öðrum fréttum. Jón Birgir var líka kjarkmaður, treysti sér til að standa í eldlínunni, þótt á honum stæðu spjót pólitískra varðhunda. Hann náði strax góðum tökum á fréttastjórastarfinu. Án framlags hans hefði Vísir ekki gengið upp sem líflegt, heiðarlegt og fjárhagslega öflugt fréttablað.

Valdimar Jóhannesson blaðamaður varð ritstjórnarfulltrúi 1. janúar 1968. Hann var einstaklega hæfur, hvort sem var við skrif eða stjórn. Ég þekki engan mann höfðingdjarfari en Valdimar. Hann miklaði ekki fyrir sér ráðherra eða aðra stórbokka og hafði hvaðeina upp úr hverjum, sem blaðið þurfti. Með Jón Birgi og Valdimar mér við hlið fannst mér Vísi vera allir vegir færir. Valdimar var samt dýr í rekstri, hætti 9. ágúst 1973 og leitaði grænni haga í rekstri tízkuverzlana og síðar í fasteignasölu. Ég er sannfærður um, að hann hefði náð lengra í fjölmiðlun, ef hann hefði haldið þar áfram.

Ritstjórnarskrifstofum Vísis var skipt í tveggja manna herbergi meðfram ritstjórnarganginum. Valdimar var um tíma í tveggja manna herbergi með Eddu Andrésdóttur, sem síðar varð fréttaþula Stöðvar 2. Allir blaðamenn elskuðu Eddu, sem var glæsilegasta kona eins og hún er enn. Lítt gekk mönnum þó að fara á fjörur við hana. Að lokum fór svo fyrir Valdimar, að hann kom til mín og bað um vistaskipti. Hann héldi ekki lengur út að vera í herbergi með svo fagurri konu. Hún truflaði sig svo, að sér yrði ekkert úr verki. Valdimar varð að ósk sinni og allt varð áfram með eðlilegum hætti á ritstjórninni.

Samskipti mín við stjórn Vísis voru mjög góð. Stjórnarformaður var Kristján Jóhann Kristjánsson í Kassagerðinni. Hann var mikill heiðursmaður og allur af vilja gerður til að koma fleyinu fyrir vind. Aldrei reyndi hann að hafa nein áhrif á efni blaðsins. Og ekki heldur Sigfús Bjarnason í Heklu, sem hafði mikil samskipti við mig. Við Sigfús áttum marga morgunverðarfundi klukkan sex á Hótel Loftleiðum. Ætíð var hann með hugmyndir um, hvernig við gætum aukið sölu blaðsins. Hann hafði mikinn drifkraft, sem smitaði út frá sér. Án daglegs stuðnings Sigfúsar hefði ég hreinlega gefizt upp á puðinu.

Ég sagði Kristjáni í Kassagerðinni og Sigfúsi í Heklu, að tengsl dagblaðs við stjórnmálaflokk væru úrelt fyrirbæri. Aðrar þjóðir væru fyrir löngu komnar út úr því tímabili. Tími væri kominn á breytingar hér. Þeir voru mér sammála, en töldu, að breytingar ættu að gerast hægt. Þannig varð líka þróun mála á Vísi. Það tók mig árabilið 1966-1973 að hreinsa blaðið af óeðlilegu sambandi við Sjálfstæðisflokkinn. Ég þurfti að losa mig af þingflokksfundum og ég þurfti að losna við Heimdallarsíðu, svo dæmi séu nefnd. Það átti ekki að koma neinum á óvart, að Vísir var á hægri siglingu út úr flokkspólitík.

Sigfús í Heklu andaðist 19. september 1967, er endurreisn Vísis var í miðjum klíðum. Andlátið var mikið áfall fyrir mig. Aðrir stjórnarmenn voru ekki tilbúnir til að verja eins miklum tíma í blaðið og hann hafði gert. Um leið varð fráfall Sigfúsar til þess, að ég varð að læra að standa á eigin fótum. Einnig varð það til þess, að stjórnin áttaði sig. Sá, að framkvæmdastjórar blaðsins á þessum tíma voru ekki nógu miklir kraftaverkamenn til að tryggja framtíð blaðins. Við fráfall Sigfúsar var eins og slæðu væri svipt af ófullnægjandi rekstri. Allir, sem að málinu komu, sáu vandann nakinn.

Árangur björgunarstarfanna var góður, en ekki nógu góður. Okkur tókst að ná niður hrikalegu tapi, en ekki alveg að ná sléttum sjó. Framkvæmdastjórar voru nokkrir árin 1966-1968, en enginn þeirra hafði burði til að snúa rekstrinum við. Augljóst var, að vandinn var ekki ritstjórnarinnar, heldur framkvæmdastjórnarinnar. Það sem okkur vantaði fyrst og fremst var hæfur og duglegur framkvæmdastjóri. Ég tróð marvaðann á blaðinu þessi tvö ár, hélt skipinu á floti, en gat ekki hindrað lekann. Fátækt blaðsins hindraði, að hægt væri að kosta söluhvetjandi aðgerðir. Þetta var slítandi ástand.

Mér varð hugsað til vinar míns, Sveins R. Eyjólfssonar, er ég hafði sem menntaskólastrákur kynnzt í skurðgreftri við Sogsvirkjun. Hann var um þessar mundir sölufulltrúi Skeljungs og hafði rosalegt vit á viðskiptum. Ég spurði hann, hvort ég mætti stinga upp á honum sem framkvæmdastjóra blaðsins. Eftir langa umhugsun féllst hann á það. Ég sagði Kristjáni í Kassagerðinni frá hugmyndinni. Hann tók henni fagnandi og seldi hana stjórninni. Koma Sveins sem framkvæmdastjóri 1. apríl 1968 var kraftaverk. Á örskömmum tíma tókst honum að snúa við rekstri blaðsins og gera það að eðlilegu gróðafyrirtæki.

Samstarf okkar Sveins varð í alla staði frábært. Þegjandi samkomulag var um, að við létum hvor annan afskiptalausan. En við stóðum saman, þegar á reyndi. Aldrei varð ég var við, að Sveinn hvikaði frá þessari vinnureglu. Samgangur okkar var mikill í einkalífinu, grunnmúraður með gagnkvæmum kvöldheimsóknum, sem sumar stóðu fram á morgun. Samskiptin við stjórnina lentu einkum á Sveini, en ég hélt mig meira til hlés. Helztu áhugamenn í stjórninni um velferð blaðsins voru Björn Þórhallsson, sem var fyrir Kassagerðina, og Pétur Pétursson fyrir Lýsi. Voru þeir báðir hinir mestu drengskaparmenn.

Næsti kafli

1967-1972 Hægfara byrjun

Starfssaga

Smám saman varð starf mitt flokkspólitískara. Jóhann Hafstein varð ráðherra og hætti að skrifa leiðara. Víglundur Möller dró sín skrif saman um helming. Ég varð að taka yfir pólitísk verkefni í leiðaraskrifum. Á þessum tíma sat ritstjóri Vísis á þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins. Það tengdi mig nánar við flokkinn og stefnu hans. Um leið varð þetta kveikjan að síðari ágreiningi. Þegar pólitísk skrif mín fóru að vafra út fyrir það, sem sumir töldu vera kórrétt. Ég skrifaði miður vel um herforingjastjórnir í Chile og Grikklandi. Einkum skrifaði ég þó óviðurkvæmilega um hernaðinn í Víetnam.

Ég sat þingflokksfundi Sjálfstæðis sem ritstjóri Vísis undir lok sjöunda áratugarins. Tími Viðreisnar með Bjarna Benediktsson sem forsætis. Mér kom Bjarni fyrir sjónir sem harðstjóri. Þingmenn hoppuðu kringum hann eins og hræddir þrælar kringum húsbónda. Hann stjórnaði með harðri hendi, lét vita, ef þeir brugðust væntingum. Suma lagði hann í einelti, svo sem Þorvald Garðar Kristjánsson. Sá kveinkaði sér, gat aldrei setið né staðið eins og Bjarni vildi. Mér sýndust fundirnir andlýðræðislegt gerræði þrælahaldara. Ég fílaði aldrei Bjarna. Sjálfstætt hugsandi fólk hefði aldrei þolað hann.

Vísir batnaði ekkert fyrstu tvö árin undir minni stjórn. Fyrst var ég við það eitt upptekinn að koma blaðinu út á degi hverjum með mun minni kostnaði en áður. Ég var ritstjóri niðurskurðar, heltekinn af sparnaði. Smám saman batnaði þó hagur blaðsins. Til starfa komu menn, sem áttu eftir að hafa mikil áhrif í blaðamennsku. Ólafur Jónsson gagnrýnandi, af sumum kallaður vitsmunavera, kom 1969 og Haukur Helgason hagfræðingur kom 1970. Fjórum árum eftir upphaf ritstjóraferilsins var ég kominn með mannskap til að lyfta blaðinu úr fyrri stöðu. Velgengni þess var síðan mikil 1970-1975.

Ólafur Jónsson gagnrýnandi var sérstæð persóna, hataður af mörgum. Skrifaði greinar, sem gerðu menn brjálaða. Ég hef hvorki fyrr né síðar haft eins mikið fyrir nokkrum starfsmanni. Stóð alltaf þétt við bakið á Ólafi, neitaði öllum tillögum um brottrekstur. Ég vissi nefnilega, að Ólafur hafði oftast rétt fyrir sér í skrifum um leiklist og bókmenntir. Hann var bara óvæginn, meðan aðrir gagnrýnendur þjónustuðu meira eða minna þá, sem þeir skrifuðu um. Enda varð Ólafur auglýsing fyrir þá staðreynd, að Vísir var að þróast í frjálst og óháð dagblað. Ólafur varð einskonar vörumerki óháða blaðsins.

Samfélagið þarf ekki jámenn í fjölmiðlun. Þarf ekki leikhúsrýni, sem þjónar leikhúsfólki. Samfélagið þarf óvægin skrif. Samfélagið sefur yfirleitt og lætur allt yfir sig ganga. Hrista þarf upp í því. Til þess eru rýnar og kjallarahöfundar. Til þess eru leiðarar og blogg. Ráðast þarf gegn bannhelgi á orðum og hugsunum. Ef einhver lýgur, þá á að segja það, ekki læðast eins og köttur kringum heitan graut. Samfélag á að vera gegnsætt, ekki lokað og leyndó. Fjölmiðlar eiga ekki að þjónusta sérhagsmunahópa, svo sem leikhús. Þeir eru fyrir almenning og eiga að opna honum glugga að umheiminum.

Haukur Helgason var einstæður snillingur, viðskipta- og hagfræðingur, sem ekki blómstraði við blýantsnag í opinberum stofnunum. Hann kom af tilviljun til okkar og varð strax að hornsteini blaðsins. Varð fyrstur blaðamanna til að skrifa þéttar og óháðar fréttir af pólitík og efnahagsmálum. Öll vinna var honum undravert létt í hendi. Tvö símtöl plús kortér og uppsláttur dagsins var kominn. Um allan bæ tóku valdamenn mark á honum. Hann gaf líka góða nærveru á ritstjórn, var hinn ljúfasti við alla. Hann átti eftir að verða aðstoðarritstjóri minn og hægri hönd mín um nokkra áratugi.

Ég vakti litla athygli í samfélaginu. Leiðarar mínir voru illa skrifaðir og nafnlausir, bezt gleymdir. Jónas Jónsson frá Hriflu hringdi þó stundum í mig. Þegar Kristín tók símann, sagði Jónas: “Er nafni minn þarna, við erum gamlir vinir.” Síðan ávarpaði hann mig ekki, sagði ekki blessaður, heldur fór á kaf í pólitíkina. Hélt fyrirlestur yfir mér í símanum meðan hann hafði ræðuþol og lagði síðan á án þess að kveðja. Var ekki að drepa tímann með aukaatriðum. Ég sagði ekki orð í þessum samtölum. Hann var þá hættur að gefa út stjórnmálaritin Ófeig og Landvörn. Þurfti að fá útrás fyrir skoðanirnar.

Breytingar á Vísi voru hægfara. Fyrst og fremst var lögð áherzla á að gera fréttir léttari og læsilegri en áður. Vísir varð betra lesefni en önnur dagblöð þess tíma. Skopmyndafígúran Boggi blaðamaður eftir Ragnar Lárusson teiknara kom strax til sögunnar og varð táknmynd ritstjórnarinnar. Framhöld frétta á innri síðum voru afnumin 1969 á Vísi, fyrstum íslenzkra dagblaða. Farið var í febrúar 1970 að merkja fréttir upphafsstöfum höfundar. Ég tel þá breytingu hafa snarbætt allan texta blaðsins. Kvennasíða var lögð niður í marz sama ár, leyst af hólmi af fjölskyldusíðu, sem hafði víðari skírskotun.

Vísir var illa prentaður í gamalli og lélegri prentvél þessi árin. Bættum okkur það upp með því að gefa út Vísi í vikulokin, glansandi tízkumagasín á glæsipappír. Þar var litadýrðin allsráðandi í mótsögn við svartan drunga meginblaðsins. Við gáfum líka út sérhannaðar möppur til að safna í þessu fylgiriti. Dreifingin á möppunum var ótrúlega mikil. Vísir í vikulokin var nýjung í bransanum eins og aðrar breytingar okkar á þessum árum. Engin nýjung okkar á þessum árum var þó eins afgerandi fyrir velgengni blaðsins og birting skoðanakannana. Þær voru þá alger nýjung í fjölmiðlum landsins.

Skoðanakannanir blaðsins hófust í ársbyrjun 1969. Við það naut ég lærdóms míns í könnunum í Vestur-Berlín. Í stað þess að nota þjóðskrá, sem hefði leitt til mikillar rýrnunar úrtaks, notuðum við símaskrá. Í trausti þess, að sími var þá orðinn almenningseign á Íslandi. Kannanir okkar komu eins og sprenging í pólitíska samfélagið. Áður höfðu kommissarar sagt trúuðum frá almenningsálitinu, en nú kom það beint af skepnunni. Fyrst var sagt, að við skálduðum kannanir frá grunni. En samanburður við úrslit kosninga slátraði slíkri gagnrýni fljótlega. Loksins vissi þjóðin, hvað hún sjálf hugsaði.

Næsti kafli

1972-1973 Endurreisn

Starfssaga

1972-1975: Ritstjóri Vísis (26)

Mesta bylting blaðsins á þessum árum var offset-prentunin í Blaðaprenti, sem hófst 24. janúar 1972. Í heilt ár höfðum við Sveinn Eyjólfsson verið meira eða minna uppteknir af breytingunni. Málið hófst í Noregi, þar sem dagblöð krata höfðu sameinast um einn tæknikontór í Osló. Þar réð ríkjum Johan Ona stórsnillingur. Hann var að tæknibylta dagblöðum krata um þessar mundir. Íslenzkir kratar fengu hann til Íslands í ársbyrjun 1971 til skrafs og ráðagerða. Haldinn var fundur á Hótel Sögu með öðrum dagblöðum en Mogganum. Þar var eðalkratinn Pétur Pétursson og kynnti Ona fyrir fjölmiðlungum.

Fljótlega fóru menn að geispa á fundinum og viku af hólmi einn af öðrum. Að lokum vorum við Sveinn R. Eyjólfsson orðnir einir með Johan Ona. Sátum við með honum allan dag fram á nótt og síðan áfram eldsnemma að morgni næsta dags. Tillögur hans, sem ollu syfju annarra, voru eins og opinberun fyrir okkur Svein. Við ákváðum að taka upp merkið, vinna málið áfram og afla því fylgis. Framtíðin var í offset-prenttækni að okkar mati. Við áttum síðan í góðu samstarfi við Ona og skrifstofu hans í Osló. Kratar grínuðust með, að kratar hefðu flutt inn Ona og kapítalistarnir á Vísi hefðu svo gleypt hann.

Við settum okkur inn í öll smáatriði tækninnar, sem var gerólík þeirri, er fyrir var. Settum upp framleiðsluáætlun, sem sýndi betri prentun, meiri lit og minni kostnað. Bjuggum til verðlagningarkerfi, sem tók tillit til stærðar dagblaða, prentmagns, litanotkunar og svo framvegis. Smíðuðum greiðsluplan, sem gerði ráð fyrir, að fjárhagsvanda dagblaðanna yrði ekki velt yfir á sameiginlegu prentsmiðjuna. Þetta gerðum við Sveinn einir. Planinu tróðum við upp á stjóra hinna dagblaðanna, Tímans, Þjóðviljans og Alþýðublaðsins. Stofnuð var prentsmiðjan Blaðaprent. Ég var fyrsti stjórnarformaður hennar.

Rekstur prentsmiðjunnar hófst 24. janúar 1972 og gekk nákvæmlega eins og til var sáð. Samstarf málsaðila varð gott frá upphafi. Hugmyndafræðin gekk upp, blöðin greiddu gjöld sín skilvíslega. Prentunin var bylting í dagblaðaútgáfu landsins. Hún var hrein og skýr, hönnun varð auðveldari og frjálslegri, litanotkun jókst hröðum skrefum, myndir urðu ódýrar, blöðin stækkuðu. Fjögur dagblöð komust á einum degi úr vítahring úreltrar tækni. Þar sem öll tæknin var spánný var þetta ein fullkomnasta dagblaðaprentun heims. Ég hef aldrei verið viðriðinn ráðagerð, sem gekk upp eins fullkomlega og Blaðaprent.

Sambúðin versnaði, þegar Kristinn Finnbogason varð framkvæmdastjóri Tímans. Hann vildi ýta fjárhagsvanda blaðsins yfir á Blaðaprent. “Textar verða ekki hækkaðir,” sagði hann. Var þó skýrt kveðið á um þau atriði í stofnsamningi Blaðaprents. Þetta var stundum þreytandi, en inni við beinið var Kristinn hinn bezti karl. Mér lynti ágætlega við hann, en innan Tímans var eilífur eldur umhverfis kraftaverkamanninn. Fulltrúi Alþýðublaðsins í Blaðaprenti var ljúfmennið Ásgeir Jóhannesson í Innkaupastofnun ríkisins, sem mig minnir að hafi orðið næsti formaður Blaðaprents. Hann lægði öldur í fyrirtækinu.

Kristinn bauð mér einu sinni að loknum stjórnarfundi í Klúbbinn, helzta skemmtistað landsins. Kristinn var þar meðeigandi með ýmsum þekktum Framsóknarmönnum og kraftaverkamönnum. Hann fann dálítið til sín, fór með mig á einn af sjö börum hússins, bauð mér koníak. Barþjónn kom með risavaxið belgglas og hellti í botninn á því eins og lög gera ráð fyrir. “Meira” sagði Kristinn og þjónninn bætti öðrum sjússi ofan á. “Meira” sagði Kristinn og þjónninn hellti upp í belginn, þar sem hann var breiðastur. “Fylla” sagði þá Kristinn. Glasið var hellt fleytifullt og rúmaði treikvart flösku.

Nýjar ritstjórnarskrifstofur Vísis voru innréttaðar á hæðinni ofan við Blaðaprent í Síðumúla 21. Húsnæðið var allt á langveginn og vistuðust menn í básum við langan gang. Við annan enda gangsins var opinn salur, þar sem komið var fyrir hringborði. Það kölluðum við Pottinn, því að þar var hrært í pottum ritstjórnar. Fundir voru haldnir þar og þar sat fréttastjóri eða staðgengill hans með hönnuði blaðsins og raðaði inn á síður. Potturinn var miðlægur í starfi ritstjórnar, þar voru mikilvægustu störfin unnin. Æ síðan var pottur þungamiðjan í fyrirkomulagi ritstjórna, þar sem ég kom að verki.

Erfiðasti þátturinn í undirbúningi Blaðaprents voru samskiptin við Hið íslenzka prentarafélag. Þar var þá formaður hinn mesti þverhaus, sem ég hef kynnzt, Þórólfur að nafni. Hann rak brezka stefnu, vildi hafa gamla menn á fullu kaupi við að horfa á nýja tækni, sem átti engar rætur í gamla blýinu. Við þurftum hins vegar fólk til að vélrita á eins konar ritvélar og til að brjóta um með skærum og reglustriku. Ótal fundi átti ég með Þórólfi án þess að neitt kæmi út úr því. Að lokum kaus ég að leiða hann hjá mér og semja beint við verðandi starfsmenn. Ekkert verkfall hlauzt af þessari spennu.

Þessi árin tók ég þátt í ýmsum fínimannsleik. Var forseti og formaður hér og þar. Til dæmis forseti Rótarýklúbbs Seltjarnarness. Löngu síðar áttaði ég mig á, að allt var þetta misskilningur, sem höfðaði ekki til mín. Seint á níunda áratugnum var ég kominn út úr öllu félagastússi. En á þessum tíma ævinnar, árin upp úr 1970, kunni ég ekki að velja og hafna. Var á bólakafi í ýmsum málum, sem ég hélt, að kæmu mér við. Ég fór meira að segja að leika golf og fá einkatíma í golfi. Á Seltjarnarnesi á þessum tíma var mikill samgangur milli heimila og við hjón vorum um hverja helgi í slíku stússi.

Magnús Erlendsson var á þessum tíma áhrifamaður á Seltjarnarnesi, um tíma forseti bæjarstjórnar. Hann var mikill húmoristi og grínari, tók pólitíkina mjög frjálslega. Hann fékk mig til að taka þátt í bæjarmálum, gerði mig að skólanefndarmanni, síðan formanni skólanefndar og loks formanni fræðsluráðs Reykjanesumdæmis. Á þessum árum var byggður Valhúsaskóli, einstaklega vel heppnað og glæsilegt skólahús frá 1974. Ég hafði frumkvæði að ráðningu Ólafs Óskarssonar landfræðings sem skólastjóra. Var hann þar skólastjóri allt til loka ævistarfsins, vel virtur af öllum, sem kynntust honum í starfi.

Sem formanni skólanefndar tókst mér að sannfæra meirihluta sjálfstæðismanna í bæjarstjórn um hvetjandi greiðslur til kennara. Þeir fengu greiðslur fyrir að sækja námskeið, sem áttu að efla þá sem kennara. Vitað var, hvað þetta mundi kosta og voru menn samþykkir. Magnús Erlendsson bar þetta mál fram í bæjarstjórninni. Þegar til kastanna kom, fékk Sigurgeir Sigurðsson bæjarstjóri hland fyrir hjartað og féll frá samkomulaginu. Ég hafði þá ekki lengur stuðning annarra í meirihlutanum. Þeir þorðu ekki að sitja og standa öðruvísi en með samþykki hins einráða bæjarstjóra. Ég hætti auðvitað.

Ég var í Rótarý á Seltjarnarnesi, meira að segja fyrsti kjörni forsetinn í félaginu. Smám saman gerðist ég þó fráhverfur. Ólafur Ragnar Grímsson var þá búsettur á Nesinu. Ég vildi fá hann sem félaga. Því höfnuðu menn alveg, af pólitískum ástæðum. Ég vildi fá konur í félagið, sem þá var nýbúið að leyfa. Félagsmenn voru ekki heldur á því. Það var ekki fyrr en löngu síðar, að konur voru teknar inn í félagið. Loks var ég ósáttur við, að sjóðurinn Rotary Foundation var rekinn með 25% kostnaði við stjórnun. Ég taldi það sjóðsrán, en félagsmenn voru á öðru máli. Ég átti ekki heima þarna og hætti.

Ég tók 12. júní 1973 upp á að merkja leiðara með upphafsstöfum höfundar. Það tíðkaðist ekki í þá daga og olli raunar smávægilegri geðshræringu innan stjórnar blaðsins. En ákvörðunin fékk að standa. Allir leiðarar mínir frá þeim degi og æ síðan eru aðgengilegir á vefsvæði mínu, www.jonas.is. Það er orðinn mikill bálkur 4000 leiðara og ber vitni um hægfara breytingar á skoðunum um langt skeið. Að lokum fór svo, að ég heillaðist af þessu formi, sem ég hafði verið svo fráhverfur í upphafi. Þegar ég var seztur í helgan stein, hélt ég áfram að skrifa daglega örleiðara í afar knöppu formi.

Næsti kafli

1973-1975 Uppgjör

Starfssaga

Arftaki Sigfúsar í Heklu, Ingimundur Sigfússon, var ósáttur við breytingar  á leiðurum, þótt hann bæri fyrst harm sinn í hljóði. Löngu seinna sagði hann mér, að hann hafi litið svo á, að ég væri kommúnisti. Hann var líka ósáttur við skrif mín um landbúnað og við menningarrýni Ólafs Jónssonar. Hann fékk til liðs við sig tvo aðra stjórnarmenn, Guðmund Guðmundsson í Víði og Þóri Jónsson í Ford. Saman mynduðu þeir meirihluta í fimm manna stjórn Vísis. Breytingar okkar Sveins voru hins vegar studdar af Birni Þórhallssyni og Pétri Péturssyni. Meirihlutinn náði engu fram að sinni, en beið færis.

Eitt lítið dæmi um pirringinn var leiðari, sem ég birti 9. júlí 1973. Þá hafði höfundurinn Jóhanna Kristjónsdóttir birt grein í Mogganum. Þar stóð, að Grikkir væru svo barnalegir, að þeir þyrftu herforingjastjórn. Lýðræði hentaði þeim ekki. Jóhanna var á þeim árum mjög höll undir herforingja. Mér ofbuðu fordómar hennar. Benti á, að Grikkir voru orðnir hámenningarþjóð heimsins þúsundum ára fyrir fund Íslands. Þetta pirraði Ingimund Sigfússon, sem taldi andstöðu við herstjóra vera eina útgáfu af kommúnisma. Af þessu mátti ráða, að hann var alls ekki viðræðuhæfur um útgáfu dagblaða.

Guðmundur Guðmundsson í trésmiðjunni Víði var merkilegur afreksmaður, rak umsvifamikinn húsgagnaiðnað, þótt blindur væri. Á stjórnarfundum blaðsins hafði hann sig lítið í frammi, hafði mestan áhuga á að þreifa á húsbúnaði. En hann var greinilega mjög hægri sinnaður í pólitík. Þórir Jónsson í Ford-umboðinu kom undarlega fyrir, gamall skíðakappi. Hann sagði líka fátt, en flissaði stundum. Ég hélt satt að segja, að hann væri þroskaheftur. Enginn í meirihlutanum bar neitt skynbragð á dagblöð, dagblaðaútgáfu eða prentun. Enginn gerði tilraun til að skilja innri og ytri aðstæður blaðaútgáfu.

Einhvern tímann á þessu tímabili gerði Ingimundur tilraun til að komast að raun um, hvort ég væri húsum hæfur. Hann bauð mér í lax í Víðidalsá. Sendi eftir mér flugvél í bæinn og sótti mig á jeppa upp á einhverja mela. Á leiðinni ók hann yfir hund í Víðihlíð. Þar voru nokkrir stórbændur á ferð. Ég seig niður í sætinu og Ingimundur stundaði diplómatíu í vegkantinum. Hann kom dasaður til baka og náði sér síðan ekki í túrnum. Í veiðinni lagðist ég í mosann og svaf, bleytti aldrei línu. Ingimundur komst fljótlega að raun um, að ég væri ekki húsum hæfur í fínum kreðsum, sem snerust um laxveiði.

Vísir var í ársbyrjun 1975 orðinn vinsælt dagblað með traustan fjárhag. Í stað þess að treysta mig í sessi sem ritstjóra varð það til að grafa undan mér. Ingimundur Sigfússon og aðrir andstæðingar mínir í stjórn blaðsins höfðu ekki treyst sér til átaka meðan fjárhagurinn var erfiður. Þegar það breyttist, töldu þeir sér alla vegi færa. “Nú get ég”, hugsaði Ingimundur. Smám saman kólnaði kringum mig í stól ritstjórans. Allt hneig í átt til uppgjörs, sem varð 6. ágúst 1975, þegar ég var rekinn. Um uppgjörið hefur áður verið fjallað í bókunum Nýjustu fréttir og Fjölmiðlar nútímans.

Ég hef fáu við það að bæta, sem þar er sagt. Meginorsök uppgjörsins var, að Ingimundur Sigfússon í Heklu, síðar sendiherra, var ósáttur við mig, taldi mig meðal annars vera kommúnista. Valdamenn landbúnaðarkerfisins kvörtuðu líka við hann yfir skrifum mínum um landbúnað. Skrif mín um útlenda herforingja í pólitík og um stríðið í Vietnam pirruðu hann líka. Loks var Ólafur Jónsson gagnrýnandi eilífur ásteytingarsteinn. Í engu af þessu var ég tilkippilegur til að slá af leið. Ég vissi snemma árs að dagar mínir voru taldir á Vísi. Gerði ekkert til að draga úr líkum á uppgjöri um starfið.

Andstæðingar mínir töldu sig vita, að ég væri ekki fráhverfur því að hætta störfum. Í júlíbyrjun hringdi Sveinn Eyjólfsson í mig norður í land og sagðist styðja mig eindregið. Í versta tilviki myndum við báðir ganga út og efna til nýs dagblaðs, sem væri frjálst og óháð. Ég hraðaði mér suður og fór þegar að undirbúa nýtt dagblað með Sveini. Velja þurfti allan búnað og útvega hann, jafnvel prentvél. Ráða þurfti starfsmenn, finna hús og svo framvegis. Upprunalega reiknuðum við með að fá inni í Blaðaprenti. Það reyndist flóknara og háð annmörkum, sem gerðu það lítt fýsilegan kost.

Andstæðingar okkar Sveins voru í meirihluta í Reykjaprenti, útgáfufélagi Vísis. En stuðningsmenn okkar voru í meirihluta í hlutafélagi um eignina í Blaðaprenti, Járnsíðu. Við Sveinn áttum því aðgang að fjórðungi hlutafjár Blaðaprents. Töldum við, að það mundi auðvelda okkur samkomulag um prentun í því ágæta fyrirtæki. Það varð raunar niðurstaðan, en Blaðaprent taldi sig samt vera ábyrgt fyrir óbreyttum prentunartíma Vísis. Dagblaðið varð því að fara í götusölu tveimur klukkustundum á eftir Vísi, sem að okkar mati var ótækt. Leiddi það fljótt til samnings við Árvakur um prentun Dagblaðsins.

Uppgjörið á Vísi endaði á fyndnum stjórnarfundi 22. júlí 1975 að Bárugötu 11. Fyrst var samþykkt tillaga Alberts Guðmundssonar um að hvetja mig til að starfa áfram. Samþykkt gegn hlutleysi meirihlutans. Svo samþykkti meirihluti fundarins að losa sig við mig. Fundurinn varð því tvísaga um fundarefnið. Minnihlutinn kom svo saman heima hjá mér í framhaldi af aðalfundinum. Þar var ákveðið að stofna nýtt dagblað. Að stofnuninni stóðum við Sveinn og helztu samstarfsmenn okkar í fyrirtækinu, svo og helzti stuðningsmaður okkar úr gömlu stjórninni, Björn Þórhallsson, sem var fulltrúi Kassagerðarinnar.

Björn Þórhallsson varð ótrauður baráttumaður Dagblaðsins. Stjórnarformaður þess og ævinlega einn af helztu forvígismönnum. Kunni aldrei betur við sig en einmitt í miðjum bardaganum. Átti árum saman eftir að eiga náið samstarf við okkur Svein. Alls staðar var hann hrókur alls fagnaðar, þegar menn hittust til að ræða málefni Dagblaðsins. Hann hafði fín áhrif á andann á skrifstofum blaðsins. Menn urðu kátir við að sjá hann, vinna lagðist niður meðan hann sagði sögur. Mér fannst Björn alltaf koma eins og hvirfilvindur inn á ritstjórn beint út úr Íslendingasögunum sem einn af köppum þeirra.

Pétur Pétursson í Lýsi hafði verið eindreginn stuðningsmaður okkar Sveins í gömlu stjórninni. Nú vildi hann ekki vera með lengur. Sagðist hafa stutt okkur Svein allt á leiðarenda, en mundi hvorki taka þátt í nýja dagblaðinu né hinu gamla. Pétur Pétursson var einstakt ljúfmenni og kunni aldrei við sig í átökunum innan Vísis. Hann var fyrst og fremst friðsemdarmaður, sem þjáðist í ófriði milli manna. Var sammála þeirri stefnu okkar Sveins að gera blaðið að frjálsu og óháðu dagblaði. Að slíta leifarnar af tengslum þess við gamla flokkinn. Vildi samt ekki fara yfir skilgreind strik.

Uppgjörið tengdist átökum innan Sjálfstæðisflokksins, en stýrðist ekki af þeim. Andófsmenn innan flokks löðuðust að Vísi og síðan að Dagblaðinu, því að Mogginn frysti þá úti. Albert Guðmundsson hvatti okkur Svein til dáða, en Gunnar Thoroddsen hitti ég hvorki né heyrði. Þeir, sem lesa Vísi síðustu misseri tíma míns og Dagblaðið fyrstu misseri þess, geta ekki fundið hlutdræga afstöðu í garð hópa í Sjálfstæðisflokknum. Hvorki í fréttum né í leiðurum. Við vildum reka frjálst og óháð dagblað. En að okkur drógust óhjákvæmilega þeir, sem halloka fóru í manngreinaráliti Moggans.

Albert Guðmundsson bauð sig síðar fram til forseta. Í aðdraganda þess bað hann um fund með okkur Sveini Eyjólfssyni. Þar spurði hann okkur álits á hugsanlegu forsetaframboði. Við hvöttum hann eindregið til að falla frá framboði. Hæfileikar hans væru aðeins vel metnir af hluta samfélagsins. Vinsældir hans væru takmarkaðar við þann hóp. Í þjóðaratkvæðagreiðslu mundi hann fara halloka fyrir óumdeildu fólki. Síðan bauð Albert sig fram “eins og þið mæltuð með” og kolféll auðvitað. Hann heyrði bara það, sem hann vildi heyra. Slíkt hlýtur að teljast galli. DV studdi hann ekki í baráttunni.

Næsti kafli

1975 Stofnun Dagblaðsins

Starfssaga

1975-1979: Ritstjóri Dagblaðsins  (22)

Heimili mínu að Fornuströnd 2 var breytt í skrifstofu. Þar söfnuðust menn til að undirbúa nýja dagblaðið. Einkum voru það blaðamenn. Eftir vinnu á Vísi komu þeir, sem þaðan ætluðu að koma: Aðalsteinn Ingólfsson, Ásgeir Tómasson, Ásgrímur Pálsson, Atli Steinarsson, Bjarnleifur Bjarnleifsson, Björgvin Pálsson, Bolli Héðinsson, Erna V. Ingólfsdóttir, Hallur Hallsson, Hallur Símonarson, Haukur Helgason, Helgi Pétursson, Jóhannes Reykdal, Jón Sævar Baldvinsson, Jónas Kristjánsson, Ómar Valdimarsson. Þó ekki Jón Birgir Pétursson og Ólafur Jónsson, þeir komu að málinu við upphafið nokkru síðar.

Aðalsteinn Ingólfsson var nýlega tekinn við menningarrýni á Vísi og varð frá upphafi hornsteinn hjá hinu nýja blaði. Hann var sjálfur verkmaður og átti líka auðvelt með að fá lausapenna í hliðargreinar menningar. Frá honum var komin hugmyndin að Menningarverðlaunum Dagblaðsins, sem áratugum saman voru árlegur lykilatburður í menningarlífinu. Aðalsteinn var hámenntaður maður í sinni grein. Hann hélt svo vel utan um sín mál, að ég þurfti ekki að hafa nein afskipti af þeim. Ég vissi, að Aðalsteinn var einfær og að hans mál væru í lagi. Aðalsteinn starfaði svo með mér nánast alla mína ritstjóratíð.

Þremenningarnir Ásgeir Tómasson, Helgi Pétursson og Ómar Valdimarsson voru hinir ungu popparar Dagblaðsins. Þeir héldu svo vel uppi merkjum ungs fólks, að Dagblaðið náði frá upphafi hjörtum þess. Þeir efndu til Stjörnumessu, hressilegrar uppákomu, sem árlega var hliðstæð menningarverðlaunum blaðsins. Þeir þrír komu saman á minn fund einhvern tíma árs 1979 og hvöttu mig til að skipta um fréttastjóra af gildri ástæðu. Ég spurði þá, hver þeirra vildi taka við. Ásgeir og Helgi bentu á Ómar, sem varð svo fréttastjóri blaðsins upp úr þessu. Ómar var ungur og greindur, hafði verið aðstoðarfréttastjóri.

Ásgrímur Pálsson sá um prófarkalestur Dagblaðsins og síðan DV. Hann réð starfsfólk í þeirri deild. Kom oft á vikulega gæðafundi ritstjórnar og rakti villur, sem rekið hafði á fjörur hans. Oft þurfti hann að ítreka sig. Ég man ekki, að annar fjölmiðill hafi þá verið betur lesinn en Dagblaðið. Svo var Ásgrími fyrir að þakka. Umvandanir hans höfðu þó ekki eins mikil áhrif á blaðamenn og æskilegt hefði verið. Lengi hafa íslenzkir blaðamenn þráast við að taka mark á aðfinnslum um málfar og stíl. Áhugaleysi þeirra á sjálfu atvinnutæki sínu er einhver illskiljanlegasta þverstæða í sögu fjölmiðlunar.

Hallur Símonarson hafði verið í reiðileysi á Tímanum, en flutt sig yfir á Vísi, þegar ég var búinn að vera þar skamma hríð. Undir hans stjórn urðu íþróttafréttir Vísis að stórveldi í bransanum. Hann var á ritstjórninni einn eindregnasti stuðningsmaður nýs dagblaðs. Þar gerði hann síðar enn betri hluti, enda urðu íþróttir að flaggskipi hjá Dagblaðinu. Hallur var sérstakur meðal blaðamanna að því leyti, að hann safnaði hlutabréfum í fyrirtækinu. Átti væna gommu, þegar hann löngu síðar seldi þau Sveini Eyjólfssyni. Þegar á reyndi, stuðlaði Hallur ævinlega að friði og spekt á ritstjórn blaðsins.

Hönnuður blaðsins var Jóhannes Reykdal. Milli okkar var mjög gott samband og skilningur á meginlínum hönnunar. Við vorum nákvæmlega sammála um, hvernig útlit ætti að vera á blaðinu. Frá fyrsta degi var það eins og við ætluðumst til. Það var hreint og klárt, hugsað í boxum, með áherzlu á fjórdálka og eindálka. Í samanburði við þá hönnun, sem var á fyrri blöðum, sem ég hafði starfað við, bar hönnun okkar Jóhannesar á Dagblaðinu af eins og gull af eiri. Þetta var hvorki hönnun erlends fréttablaðs hefðbundins né nýstárleg hönnun erlends götublaðs. Þetta var millistig, bara hönnun Dagblaðsins.

Jóhannes Reykdal varð einn af helztu lykilmönnum Dagblaðsins. Hann varð tæknistjóri þess, jafnan í miklu samstarfi við mig, því að tæknimál voru á herðum ritstjórans. Var fljótur að átta sig á nýrri tækni. Var ódeigari en ég að ferðast um heiminn að kynna sér nýja tækni. Var beztur, þegar mest var um að vera, til dæmis þegar við stofnuðum óháða útvarpsstöð 1983 í löngu verkfalli. Jóhannes lét aldrei neitt koma sér á óvart. Það var stolt hans að vera alltaf með á nótunum. Þegar ég sagði honum, að ljós væru á bílnum hans fyrir utan húsið, svaraði hann að bragði án umhugsunar: “Ég veit það.”

Ekki bara blaðamenn komu á fundi á Fornuströnd. Þar var líka Benedikt Jónsson, kallaður Benni í Shell. Hann var gamall vinur Sveins og varð hans hægri hönd á Dagblaðinu. Ásgeir Hannes Eiríksson var auglýsingastjóri. Hann átti eftir að standa frábærlega að smáauglýsingum, sem slógu met hvað eftir annað. Hann var mikill stemmningsmaður og var mönnum til góðrar hvatningar. Ég átti góð samskipti við hann alla tíð og einnig við Má E.M. Halldórsson dreifingarstjóra. Meðal starfsliðs Dagblaðsins var gott samband, þvert á deildir fyrirtækisins. Þetta var eins og vel þjálfað keppnislið í fótbolta.

Fyrsta tölublað Dagblaðsins kom út 8. september 1975, aðeins sex vikum eftir brottreksturinn af Vísi. Fæddist fullskapað í smáatriðum eins og við vildum hafa það. Það hélzt í föstum skorðum alla þess tíð, eins að innihaldi og útliti á síðasta degi sem á fyrsta degi. Við bjuggum hvorki til hefðbundið götusölublað né hefðbundinn Mogga. Heldur eins konar norrænt milliblað að innihaldi og útliti. Áherzlan var ekki á persónufréttum, heldur á fjörugri og hressilegri útgáfu frétta af málefnum. Þessi tegund af dagblaði hélt síðar áfram í sameinuðu blaði, DV, sem tók við af Dagblaðinu sex árum síðar.

Við lögðum áherzlu á sambúðina við lesendur. Strax á fyrstu opnu blaðsins voru lesendabréfin. Þau náðu yfir heila opnu. Hvorki fyrr né síðar var annar eins kraftur í útgerð lesendabréfa. Sama hugsun var að baki kjallaragreina, sem áttu virðingarsæti í leiðaraopnu blaðsins. Þar fékk litróf þjóðarinnar birtar greinar sínar. Það var nýjung í blaðaútgáfu. Kjallararnir urðu að einu af einkennistáknum Dagblaðsins, táknmynd af stöðu blaðsins í æðaslætti þjóðarinnar. Þetta var frjálst og óháð dagblað og reyndi að vera það á hverjum degi. Lesendabréf og kjallaragreinar voru alfa og ómega Dagblaðsins.

Við lögðum einnig áherzlu á smáauglýsingar, ekki bara af því að við vildum tekjurnar. Þær eru auglýsingar litla mannsins, sem vill kaupa eða selja hús eða bíl, húsbúnað eða gæludýr. Fyrstu dagana reyndu allir starfsmenn að fá vini og ættingja til að kanna háaloftið hjá sér. Til að finna hluti, sem þeir gátu verið án og vildu selja. Þegar til kastanna kom, reyndist þetta óþörf fyrirhyggja. Sprenging varð í smáauglýsingum á fyrstu dögum blaðsins. Síðan minnist ég alltaf smáauglýsinga um leið og ég minnist lesendabréfa og kjallaragreina. Þetta voru þrír þættir sambandsins við fólkið í landinu.

Upphaflega átti DV að vera eðlilegt framhald Vísis, hinn sanni og rétti Vísir. Þegar til átti að taka, vorum við búnir að hanna alveg nýtt blað, frjálst af gamla Vísi. Það réði úrslitum um velgengni blaðsins. Það sló í gegn frá fyrsta degi. Þjóðin tók þessu nýja blaði fagnandi. Lesendabréf, kjallaragreinar og smáauglýsingar voru hornsteinninn. Þjóðin taldi sig með þeim efnisþáttum hafa fengið aðgang að eigin fjölmiðli. Þetta var sameinað afrek allra þeirra, sem tóku þátt í undirbúningsfundunum á Fornuströnd. Ég átti auðvitað drjúgan þátt í útkomunni, en ég átti hana langt í frá einn.

Næsti kafli

1975-1979 Fyrstu ár Dagblaðsins

Starfssaga

Upphaflega átti DV að vera eðlilegt framhald Vísis, hinn sanni og rétti Vísir. Þegar til átti að taka, vorum við búnir að hanna alveg nýtt blað, frjálst af gamla Vísi. Það réði úrslitum um velgengni blaðsins. Það sló í gegn frá fyrsta degi. Þjóðin tók þessu nýja blaði fagnandi. Lesendabréf, kjallaragreinar og smáauglýsingar voru hornsteinninn. Þjóðin taldi sig með þeim efnisþáttum hafa fengið aðgang að eigin fjölmiðli. Þetta var sameinað afrek allra þeirra, sem tóku þátt í undirbúningsfundunum á Fornuströnd. Ég átti auðvitað drjúgan þátt í útkomunni, en ég átti hana langt í frá einn.

Við lentum í þæfingi við stjórn Blaðaprents um vinnslu Dagblaðsins. Fengum prentun næst á eftir Vísi í tíma. Það tók af okkur lausasöluna um miðjan daginn og hefði drepið blaðið. Við reyndum að útvega okkur eigin vinnslu. Sem betur fer náðist samkomulag við Árvakur um prentun. Fyrir tilstilli Völundarbræðranna Leifs og Haraldar Sveinssonar. Þeir voru heiðursmenn í viðskiptalífinu, tóku viðskipti fram yfir pólitík. Við þurftum því bara að útvega forvinnslu. Við útveguðum setningartæki, sem Steindórsprent keypti og  plötuvinnslu, sem prentsmiðjan Hilmir keypti. Við losnuðum við fjárfestingu.

Steindór Hálfdánarson í Steindórsprenti var gott dæmi um þann góða anda, sem umvafði Dagblaðið. Hann sagði: “Kaupið bara strákar það, sem þið þurfið og setjið upp hjá mér, ég borga.” Viðskiptin við hann voru snurðulaus sem og viðskiptin við Hilmi og Árvakur. Ferillinn var þannig, að hönnuðir okkar unnu í Steindórsprenti, þar sem blaðið var sett. Það fór síðan í plötugerð í Hilmi, prentsmiðju Vikunnar, og endaði í Árvakri, prentsmiðju Moggans. Þessi umskipti urðu 2. febrúar 1976. Útkomutími blaðsins færðist fram á eðlilegan tíma í hádeginu. Bjargaði götusölu blaðsins og um leið fjárhag þess.

Letur Steindórsprents hentaði ekki dagblaði. Við pöntuðum dagblaðaletur hjá Compugraphic, framleiðanda setningarvélanna. Þegar það kom á síðustu stund, reyndist uppsetningin á leturdiskunum vera gölluð. Ákveðið var, að ég hoppaði upp í flugvél til Boston. Tók leigubíl til Wilmington og sat á tröppum Compugraphic, þegar fólk kom til vinnu. Mér var vel tekið. Smám saman áttuðu menn sig á, að ég ætlaði að sitja á kontórnum, þangað til ég fengi diskana. Þeir vildu allt gera fyrir mann, sem kom um hálfan hnöttinn og sat á tröppunum. Allt var sett í gang og ég fékk nýja diska fyrir kvöld.

Á leiðinni út á flugvöll var ég í góðu skapi og ákvað að fá mér humar á Anthony’s Pier 4. Þegar kominn var tími til að fara út á völl, voru engir leigubílar fyrir utan. Smám saman kom í ljós, að leigubílar í Boston voru komnir í verkfall frá klukkan fjögur síðdegis. Vandræði mín bárust til eyrna eiganda staðarins, Anthony. Hann sagði bara: “Ég skutla þér út á völl”. Þangað var klukkutíma ferð og ég náði flugvélinni heim. Þetta var nánast eins og allir aðrir erfiðleikar okkar við stofnun Dagblaðsins. Hvarvetna voru menn reiðubúnir að rétta okkur hjálparhönd, hvar í álfu, sem þeir voru.

Anna Bjarnason kom fljótt til starfa á ritstjórn Dagblaðsins. Hún tók að sér að fleyta af stað neytendasíðu blaðsins, sem hóf göngu sína 13. júní 1978. Síðan var daglegur hluti blaðsins, ævinlega á virðulegum stað á bls. 4, næst á eftir opnu lesendabréfanna. Anna gaf neytendasíðunni vítt svigrúm. Þar var fjallað um félagsþætti og skólamál. Beztar voru uppskriftirnar, sem voru verðreiknaðar svo nákvæmlega, að kryddið var metið til fjár. Með þessari síðu vildum við nálgast almenning frá þeirri hlið, sem öllum kemur við. Neytó átti að hjálpa fólki til að lifa og lifa af. Anna sá um, að svo varð.

Neytendasíðan kannaði verðlag í matvörubúðum og birti vísitölu matarverðs. Vísitala Dagblaðsins var fundin úr heimilisbókhaldi kunningja blaðsins um allt land. Þeir sendu blaðinu mánaðarlega upplýsingaseðla með niðurstöðum heimilisbókhaldsins. Sú vísitala stakk í stúf við opinberu vísitöluna, þar sem vörur voru teknar inn og út. Á tveimur árum hækkaði vísitala Dagblaðsins um níu prósentustig umfram opinberu vísitöluna. Geðþótti stjórnvalda réði nefnilega opinberu vísitölunni. Þegar vísitala Dagblaðsins var orðin föst í sessi, treystu pólitíkusar sér ekki lengur til að falsa opinberu vísitöluna.

Frægt varð tómatamálið 1978. Þá birti blaðið mynd af stórum breiðum góðra tómata, sem fleygt hafði verið á haugana. Baráttan í kjölfarið leiddi til tímabundins útsöluverðs, sem síðan hefur verið á grænmeti á hátíma framleiðslunnar. Þröngsýnir forsvarsmenn framleiðenda héldu fram, að stórlækkun tómataverðs mundi auka söluna um 5-10%. Reynslan varð samt, að salan jókst um 300%, þegar garðyrkjumenn létu undan herferð Dagblaðsins. Og blaðið bar ekki bara saman verð, heldur birti líka umfangsmikinn samanburð á gæðum. Neytendasíða Önnu Bjarnason varð stórveldi í baráttu fyrir neytendur.

Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur sá um, að umfjöllun blaðsins um listir og menningu væri því til sóma. Hann átti hugmyndina að Menningarverðlaunum Dagblaðsins, sem veitt voru árlega í sjö-átta flokkum um langt árabil. Á þeim tíma var fátt um slík verðlaun, silfurlampi leiklistargagnrýnenda hafði andast. Menningarheimurinn tók verðlaunum þessum vel. Um langt árabil voru þau bezt metnu listaverðlaun landsins. Verðlaunin voru afhent á Hótel Holti. Ég tók með kokkum staðarins þátt í að velja sérstætt hráefni og sérstæða matreiðslu í hádegismatinn. Margt af því fékk lengri lífdaga á matseðlum.

Ómar Valdimarsson varð fréttastjóri Dagblaðsins 7. maí 1979, hafði áður verið varafréttastjóri í nokkur ár. Jónas Haraldsson varð varafréttastjóri og átti eftir að verða fréttastjóri DV nokkrum árum síðar. Jónas var einn minna beztu samstarfsmanna, ákaflega hæfur maður, bæði sem blaðamaður og stjórnandi. Stýrði mönnum rösklega með mildri hendi. Jafnframt var hann mikill húmoristi, meinfyndinn og ósmeykur við að gera grín að sjálfum sér. Eftir mína tíð fór hann yfir á Viðskiptablaðið, þar sem hann var ristjóri um skeið. Síðan fór hann á skoðanavefinn AMX og skrifaði þar beittasta háðið.

Þegar ég vann á Tímanum var þar fullt af sérvitringum, sem fóru aðrar leiðir en samferðamenn. Á Vísi og Dagblaðinu var dálítið af slíkum, svo sem hér hefur komið fram. Á Dagblaðinu voru baráttumenn, sem lögðu nótt við dag til að koma út efni, sem ekki þekktist annars staðar. Til dæmis Anna Bjarnason á neytendasíðunni. Dagblaðið vann kraftaverk í fátækt sinni. Sameinað DV var öðru vísi en Dagblaðið, hálfgerð stofnun. Þar var þyngra að kveikja áhuga fólks. Kannski var ég orðinn of gamall til að vekja eldmóð manna. Stofnun hefur tilhneigingu til að lifa eigin þunglamalífi án tilverknaðar yfirmanna.

Dagblaðið var frjálst og óháð dagblað. Það studdi engan stjórnmálaflokk og gekk í kosningabaráttu ekki til liðs við neinn þeirra. Það hafnaði einnig ríkisstyrkjum, sem þá voru mikilvægur liður í rekstri dagblaða. Annars vegar voru beinir styrkir og hins vegar kaup á hundruðum eintaka af hverju dagblaði. Hagsmunir blaðsins áttu að fara saman við hagsmuni borgaranna, sem flestir fjölmiðlar meðhöndluðu eins og ósjálfráða börn. Blaðið vildi birta fréttir af viðkvæmum málum. Þau höfðu oftast legið í þagnargildi hjá flokkstengdum fjölmiðlum, sem höfðu annarra hagsmuna að gæta en lesendanna.

Dagblaðið var ekki bara frjálst og óháð gagnvart pólitíkinni. Það var líka óháð helztu þrýstihópum og hagsmunaöflum samfélagsins, svo sem aðilum vinnumarkaðarins. Við gerðum auglýsendum ekki heldur neina greiða, lögðum í fyrstu áherzlu á smáauglýsingar almennings. Smám saman komu líka stórar auglýsingar, en það tók langan tíma. Oft hættu menn við auglýsingasamninga, því að þeir fengu ekki aukaþjónustu með auglýsingunum. Lesendur blaðsins áttuðu sig á þessu. Þeir skildu, hvað við áttum við með “frjálst og óháð”. Var þá nýjung í fjölmiðlun landsins, sem er núna talinn sjálfsagður réttur.

DV hélt áfram að öllu leyti sömu stefnu og Dagblaðið. Það var líka óháð og frjálst. En fólk tók því ekki á sama sjálfsagða hátt. Samfélagið leit svo á, að Dagblaðið hefði risið upp úr grasrótinni. Það leit hins vegar á DV sem fjölmiðlarisa, sem lifði sjálfstæðu lífi ofan við hagsmuni almennings. Fólk leit á DV sem hálfgerða stofnun, fremur en sitt eigið almenningsblað “litla mannsins”. Þrátt fyrir velgengni DV í lestri og tekjum varð aldrei eins náið samband milli blaðsins og fólksins í landinu og áður hafði verið. Ég sá það af fækkun lesendabréfa. En ytri velgengni blaðsins deyfði þessa sýn mína.

Næsti kafli

1979-1981 Dagblaðið fullburða

Starfssaga

1979-1981: Ritstjóri Dagblaðsins (37)

Dagblaðið háði grimmilega baráttu við Vísi, sem varð að feta í fótspor Dagblaðsins í átt til frjáls og óháðs blaðs. Slagurinn varð dýr, blöðin gáfu bíla í áskrifendaverðlaun. Samt var Dagblaðið rekið með ofurlitlum hagnaði öll sín æviár. En ekkert var afgangs til að byggja upp framtíðina. Við vorum ofan á, höfðum mun meiri sölu en Vísir. En þar voru sterkir peningamenn að baki, sem höfðu burði til að borga tap. Á endanum fóru menn að ræða saman að tjaldabaki um sameiningu síðdegisblaðanna. Einokun var auðvitað auðveldari leið til góðrar afkomu heldur en blóðugt stríð á samkeppnismarkaði.

Mér var sagt frá þessum hugmyndum mánuði áður en þær urðu að veruleika. Ég setti mig strax á móti þeim. Sagði Sveini R. Eyjólfssyni, að siðferðileg staða Dagblaðsins væri einstök í sinni röð. Ekki væri hægt að sjá, hvernig okkur reiddi af í almenningsálitinu eftir sameiningu. Hins vegar taldi ég engin tormerki á góðu samstarfi milli starfsbræðra á dagblöðunum tveimur. Á endanum sá ég, að sameining yrði ekki stöðvuð með góðu móti. Fjárhagslegar væntingar voru yfirþyrmandi og ég hafði sjálfur fullyrt, að samstarf mundi takast milli manna. Sameining varð svo að veruleika 26. nóvember 1981.

Spá mín reyndist rétt. Samstarfið gekk prýðilega frá fyrsta morgni. Menn unnu vel saman og peningar flæddu í hús. DV varð að stórveldi. En úti í bæ töldu margir okkur hafa svikið almenning. Ómar Valdimarsson vildi ekki vera fréttastjóri lengur. Í rauninni varð DV betra blað en Dagblaðið hafði verið, en það naut aldrei sömu hylli almennings. Í augum fólks var DV ekki blað “litla mannsins”, heldur fjölmiðlarisi, sem laut lögmálum viðskiptalífsins. Við hefðum betur puðað áfram í fátæktinni, á endanum hefðum við sigrað. En þægindi einokunarinnar voru freistandi og trufluðu dómgreind okkar allra.

Hagvangur mældi lestur dagblaðanna í fjölmiðlakönnun um allt land í febrúar og mars 1981. Þá mældist Morgunblaðið með 67% lestur, Dagblaðið með 48% lestur, Vísir með 39% lestur, Tíminn með 29% lestur, Þjóðviljinn með 19% lestur og Alþýðublaðið með 6%. Þetta sýndi líflegan fjölmiðlamarkað, þar sem staða Dagblaðsins var sterk, mun betri en Vísis. Niðurstaða sameiningar síðdegisblaðanna varð líka sú, að nýja blaðið líktist meira Dagblaðinu en Vísi. Var líkast því sem Dagblaðið hefði gleypt Vísi með húð og hári. Að vísu var raunveruleikinn ekki svona einfaldur. Vísismenn höfðu líka áhrif.

Ég bar aldrei neina virðingu fyrir Mogganum. Vissi of mikið um fréttir, sem blaðið birti ekki af pólitískum og öðrum ástæðum. Fyrirleit þá, sem sníktu sér gott veður þar á bæ. Var hissa á vinstri pólitíkusum, sem álitu heimsókn á miðilsfundi Styrmis Gunnarssonar vera þrep á framabraut sinni. Mogginn var að mínu viti ekki fjölmiðill, heldur stofnun með trúarlegu ívafi. Þar voru ritstjórarnir æðstu prestar. Þótt ég skrifaði yfir tuttugu bækur, voru þær aldrei ritdæmdar í Mogganum. Því að ég átti að koma skríðandi til Styrmis eða Matthíasar, sem ég gerði ekki. Ég skil ekki hátt álit manna á Mogganum.

Góðkunningi minn, Magnús Óskarsson húmoristi fékk mig með í að ráða Geir Hallgrímssyni heilt fyrir kosningarnar 1979. Ekki man ég ráðin. Hafa ekki verið merkileg, því Geir tók ekkert mark á þeim. Hittum Geir af því tilefni. Kom fyrir sem maður, er ætti ekki heima í pólitík. Virtist ekki geta tekið ákvarðanir, líkur Geir H. Haarde að því leyti. Ég held, að ættirnar, sem nú heita kolkrabbinn, hafi dubbað Geir upp í pólitík, því að hann var kurteis, kom vel fyrir. Líkt og síðar var gert við Bjarna Benediktsson yngri. Geir var persóna, sem hafði ekki roð við pólitíkusi á borð við Gunnar Thoroddsen.

Við Magnús gáfum í framhaldi af þessu Birgi Ísleifi Gunnarssyni borgarstjóra ráð fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 1982. Við vildum, að Birgir yrði grænn borgarstjóri. Legði græna trefla um borgina, til dæmis milli Elliðaárdals og Laugardals. Slíkt var þá ekki enn komið í tízku. Hittum Birgi, sem virtist vera alveg mállaus og skoðanalaus. Ég hef aldrei hitt pólitíkus, sem kom eins aulalega fyrir og Birgir. Það var eins og hann væri í öðrum heimi og heyrði ekki orð manna í umhverfinu. Mér kom ekki á óvart, að hann féll í kosningunum. Hann fór ekki eftir neinu, sem við Magnús ráðlögðum honum.

Þessi ár umgekkst ég pólitíkusa. Sem ritstjóri fékk ég boð um að mæta í hanastél sendiráða og í ráðherraveizlur. Framan af hafði ég ekki vit á að forðast slík samkvæmi. Sama fólkið mætti við öll þessi tækifæri og leit á sig sem eins konar lávarðadeild samfélagsins. Mér er fátt minnisstætt úr samkvæmum af þessu tagi. Ég náði ekki einu sinni fréttapunktum úr þeim. Snerust einkum um smámuni, “small talk”, milli skrifstofustjóra ráðuneyta. Þegar ég þroskaðist hætti ég að sækja slík boð og datt löngu síðar út af boðslistum. Einstaka atriði eru mér þó enn minnisstæð frá þessum tíma.

Fyrst man ég eftir Davíð Oddssyni sem borgarstjóra í boði hjá Steingrími Hermannssyni í Ráðherrabústaðnum, líklega 1983. Tilefni hanastélsins er löngu gleymt, en myndin lifir enn. Menn voru tveir og þrír saman á stangli í stofunni, fimm umhverfis Steingrím og tólf kringum Davíð. Hann stóð sperrtur og sagði skemmtisögur, hverja á fætur annarri. Menn mændu á sögumann, hlógu óskaplega. Hann átti partíið eins og hann átti síðar landið allt. Þarna kom hann fram sem fullgerður dáleiðandi, skyggði meira að segja á gestgjafann. Þá þegar fór ég að efast um, að Davíð væri heppilegur greifi fyrir þjóðina.

Davíð varð forsætis og hafður í miklum metum hjá meirihluta þjóðarinnar. Ég hafði þó alltaf efasemdir, enda tel ég greifa vera hættulega. Kunni hann mér litlar þakkir fyrir, en kallaði mig þó aldrei inn á teppi eins og suma aðra. Né fylgdist hann með stöðunni á bankareikningi mínum, enda eftir litlu að slægjast. En almennt þroskaðist hann ekki við upphefð sína, heldur gekk sömu götu og flestir aðrir greifar mannkynssögunnar. Hann ofmetnaðist, taldi sig einan eiga öllu að ráða í samfélaginu öllu. Taldi aðra sitja á svikráðum við sig. Slíkar breytingar til hins verra einkenndu síðari hluta ferils hans.

Reiðiköst Davíðs Oddssonar urðu síðar fræg og ágerðust með aldrinum. Voru verri í Seðlabankanum en þau höfðu verið í ríkisstjórninni. Ólafur Arnarson segir frá sumum þeirra í Sofandi að feigðarósi. Í auknum mæli snerist hugsun Davíðs um fjölmarga óvini og hvernig hann gæti klekkt á þeim. Sjúk hugsun fléttaðist við störf hans sem ráðherra og einkum í Seðlabankanum. Ég líkti Davíð snemma við Mussolini og hegðun hans staðfesti það. Samanlagður ferill Davíðs er skelfilegur. Einkabankar án eftirlits, þúsundmilljarðarugl í bankamálum. Enginn orsakavaldur hrunsins kemst nálægt Davíð Oddssyni.

Næsti kafli

1981-1983 Upphaf DV

Starfssaga

1981-1990: Ritstjóri DV (22)

Ritstjórnarskrifstofur Vísis og Dagblaðsins voru á annarri hæð samliggjandi húsa við Síðumúla 12 og 14. Nóttina fyrir 26. nóvember 1981 var borað gat í brandvegginn milli fyrirtækjanna. Ritstjórnin var orðin ein, þegar fólk mætti til vinnu um morguninn. Menn voru steini lostnir, ráfuðu um gangana í leiðslu. Búið var að ganga frá tölublaði dagsins, svo að flestir höfðu tíma til að jafna sig. Fyrsta daginn og fyrstu dagana voru tölublöðin bastarðar af útlitsstefnu tveggja blaða. En smám saman komst skikk á málin og DV fékk sitt eigið form. Lífið hélt áfram, þótt samkeppnin væri komin í eina sæng.

DV varð áskriftarblað, ekki götusölublað eins og Dagblaðið. Það var raunar helzti munurinn á fyrra og síðara ástandi. Nýja blaðið var eins uppsett og með sams konar efni og eldra blaðið. Bara með fleiri síðum. Það kom líka út á sama tíma, í hádeginu. Allt átti þetta að vera ávísun á lausasölu. Engin kerfisbreyting hefði átt að verða á lestri þess. Samt gerðust menn unnvörpum áskrifendur. Lausasala dróst saman á móti, þó ekki í sama mæli. En tími götusölublaða leið snöggt undir lok, þegar Dagblaðið og Vísir voru lögð niður. Smám saman dró mjög úr köllum sölubarna, sem áður einkenndu miðbæinn.

Ellert B. Schram var ritstjóri Vísis og við urðum saman ritstjórar hins nýja blaðs. Þetta samstarf fór vel af stað og átti eftir að verða langt. Ellert var þægilegur maður í umgengni, allt öðru vísi en ég. Hann var fyrst og fremst stjórnandi, sem sá stóru línurnar, meðan ég var á kafi í smáatriðum. Ellert setti sig aldrei inn í tæknilega þætti blaðamennskunnar, en hélt góðu sambandi við starfsfólk. Hann undirbjó sig aldrei neitt, settist bara niður og skrifaði. Hann undirbjó sig ekki fyrir fundi eða ræður. Hann hafði gott sjálfstraust og vissi, að eitthvað mundi koma í hugann á réttu andartaki.

Ellert var jákvæður að eðlisfari, sá góðu þættina í starfsmönnum. Hann hélt uppi góðri stemmningu á ritstjórn. Þannig gerði hann ekki minna gagn á ritstjórn en ég gerði með því að anda niður í hálsmál á fólki. Okkur gekk vel að vinna saman, af því að við vorum svo ólíkir. Aldrei var ósamkomulag milli okkar. Við skiptum aldrei skapi í umgengni hvor við annan. Frá fyrsta degi var samstarf okkar heilt. Við gátum því snúið okkur óskiptir að verkum, sem komu nýja dagblaðinu að gagni. DV fór á beina siglingu frá fyrsta degi. En ég öfundaði Ellert alltaf pínulítið af meðfæddu sjálfstrausti hans.

Hörður Einarsson og Sveinn R. Eyjólfsson voru saman útgáfustjórar hins nýja blaðs. Við Ellert hittum þá á vikulegum fundum. Persónuleg samskipti voru líka utan funda. Samstarfið gekk snurðulaust árum saman. Hörður var þægilegur í umgengni, en átti stundum erfitt með ákvarðanir, hallaðist að því að fresta vandamálum. Á það reyndi fyrst og fremst í samstarfi þeirra Sveins. En ég tók ekki eftir öðru en það væri jafnan með ágætum. Við reyktum allir vindla á þessum árum. Fundarherbergi okkar var svo sannarlega eitt af þessum reykfylltu bakherbergjum, sem hafa orðið táknmynd hins hulda valds.

Tæpum tveimur árum síðar var árangur samrunans kominn í ljós. Morgunblaðið var þá með 70% lestur, DV með 64% lestur, Tíminn með 29% lestur, Þjóðviljinn með 16% lestur og Alþýðublaðið með 4%. DV var komið í sama stærðarflokk og Morgunblaðið. Við vorum í rífandi góðum gangi og tekjurnar sópuðust að blaðinu. Mælt í lestri og tekjum var ekki hægt að segja annað en að dæmið hafi gengið upp fullkomlega. Ritstjórnin var fjölmenn og hafði burði til að stunda nútíma blaðamennsku. Til dæmis eigin rannsóknir, sem voru nýjung hér á landi. Við vorum tíu árum eftir Watergate, en við vorum komin í gang.

Árið 1983 var konan mín, Kristín Halldórsdóttir, kjörin á þing fyrir hönd Kvennalistans. Ætla mátti, að það mundi skapa mér erfiðleika í starfi, en svo varð ekki. Enginn gat grafið upp, að DV gætti hagsmuna Kvennalistans eða Kristínar umfram aðra. Enginn fann höggstað á mér. Kristín hefur vafalaust lent í óþægindum mín vegna, en ég lenti aldrei í óþægindum hennar vegna. Ef eitthvað hefði verið athugavert við framgöngu DV, hefði ég án efa verið látinn finna fyrir því. Ég held, að allir hafi áttað sig á, að við höfðum skörp skil milli flokks og blaðs. Frá upphafi til enda þingmennsku hennar.

Fljótt varð hönnun Dagblaðsins ofan á í samstarfinu. Efnisval varð svipað og þar, en DV var mun stærra blað. Stóra laugardagsblaðið frá Vísi bættist við. Fljótlega urðu yfirmenn sömu og á Dagblaðinu. Við Ellert vorum ritstjórar, Haukur Helgason var aðstoðarritstjóri. Jónas Haraldsson varð fréttastjóri 1. júlí 1982, fyrst með Óskari Magnússyni, sem síðar varð kaupsýslumaður. Elías Snæland, áður ritstjóri Tímans, varð aðstoðarritstjóri 1. apríl 1984. Þá var mönnun lykilhlutverka komin í það form, sem hún var fram undir aldamót. Þetta var að mínu viti bezta teymi íslenzkrar fjölmiðlunar á þessu árabili.

Elías Snæland Jónsson var frábær stjórnandi, harður í horn að taka. Hann lét sér ekki líka við neitt fúsk. Hann var herforingi ritstjórnarinnar, ól menn upp sem agaða fagmenn. Elías var langreyndur, hafði verið í faginu alla sína starfsævi. Allt stóð eins og stafur á bók hjá honum og tímasetningar allar stóðust fullkomlega. Hann var rétti maðurinn til að keyra það flókna batterí sem ritstjórnin var orðin. Því miður misstum við Elías 11. ágúst 1997 út í tilraun til að gera Akureyrarblaðið Dag að sameiginlegum arftaka Tímans, Þjóðviljans og Alþýðublaðsins. Þaðan kom hann ekki til baka á DV.

DV var vel sett, þegar yfirstétt blaðsins var skipað aðstoðarritstjórunum Hauki Helgasyni og Elíasi Snæland Jónssyni, fréttastjóranum Jónasi Haraldssyni, menningarstjóranum Aðalsteini Ingólfssyni, hönnuðinum og tæknistjóranum Jóhannesi Reykdal og prófarkastjóranum Ásgrími Pálssyni. Mér var næsta ofaukið í þessari vel smurðu vél. Á hennar grunni gekk DV vel sem fjölmiðli. Lítið var um breytingar, en gott úthald í hlutverkum ritstjórnar. Enda er kannski ekki ástæða til að gera við það, sem ekki er bilað. Eða breyta því, sem er góð söluvara. Þannig varð DV að eins konar fjölmiðlarisa.

Við Ásgrímur prófarkastjóri settum upp inntökupróf blaðamanna. Það prófaði mest kunnáttu í íslenzku, en snerti líka athyglisgáfu og almenna þekkingu. Prófið vandaði valið á sumarblaðamönnum og nýjum blaðamönnum. Enginn komst í gegn, án þess að kunna íslenzku. Það vakti hins vegar athygli mína, að menn höfðu lítinn áhuga á að bæta sig síðar. Endurteknar tilraunir til að benda blaðamönnum á gallaðan texta báru ótrúlega lítinn árangur. Sömu villurnar voru endurteknar sí og æ. Ég hef ekki enn fundið leið til að fá blaðamenn til að hverfa frá meinlokum sínum. Þótt íslenzka sé atvinnutæki þeirra.

Einhvern tíma á þessu skeiði hannaði ég tölvukeyrt dagbókakerfi blaðamanna. Á daglegum ritstjórnarfundum voru verkefni skráð á starfsmenn og sáust síðan í dagbók hvers manns. Þetta var á frumbýlingsárum tölvunnar og tölvukeyrð dagbókakerfi voru þá ekki komin í almenna útgáfu. Ég samdi hugbúnaðinn á einföldu forritunarmáli, HyperTalk. Þessar dagbækur voru í notkun á DV í meira en áratug. Þær auðvelduðu verkstjórn og hjálpuðu blaðamönnum að muna verkefni sín. Ýmis aukageta var í dagbókakerfinu. Þar var til dæmis hægt að raða verkefnum í mikilvægisröð. Ljósmyndarar fengu myndbeiðnir úr kerfinu.

Næsti kafli

1981-1995 Veitinga- og ferðarýni

Starfssaga

Ég hafði mikinn áhuga á veitingahúsum þessi árin og sótti þau stíft. Fór að skrifa veitingarýni, fyrst 1979 fyrir konu mína, sem var ritstjóri Vikunnar. Síðar færðust þessar greinar yfir á DV og nú síðast yfir á veraldarvefinn. Þegar þetta er skrifað, eru greinar með veitingarýni orðnar 488 talsins. Ég hef alltaf tekið þetta starf alvarlega. Boðaði aldrei komu mína fyrirfram og greiddi alltaf mína reikninga. Á þann hátt einan taldi ég líkur geta verið á, að reynsla annarra gesta yrði svipuð og mín. Flestir aðrir gagnrýnendur boða komu sína og láta gefa sér matinn. Þeir eru því sjálfkrafa ómarktækir.

Þetta eru þær reglur, sem ég lagði til grundvallar mati mínu á matstöðum: Aðeins eru notuð fersk hráefni árstíðarinnar. Lítið er notað af frystum hráefnum og ekkert af niðursoðnum. Grænmeti og fiskur er notað í stórauknum mæli. Hörð fita og sykur er notað í hófi og gætt er að hitaeiningum. Hveiti er ekki notað í sósur og súpur til þykktar. Afnumin er forvinna og upphitun. Borin er virðing fyrir eðlisbragði og næringarefnum hráefna. Matseðlar eru stuttir og breytilegir eftir árstíðum og fáanlegum hráefnum, helzt hreinir seðlar dagsins. Eldamennskan tekur tillit til staðbundinna hráefna og hefða.

Ég fór að skrifa veitingarýni, af því að ég hafði lesið fullt af erlendri veitingarýni. Hafði séð, að hún var oft einskis virði. Hafði sjálfur látið hana blekkja mig inn á heimsfræg veitingahús. Fannst þessi rýni vera svik við mig. Vildi skrifa veitingarýni, sem ekki var blaður, spuni, ímynd, almannatengsli. Vildi skrifa rýni, sem almenningur gæti notað. Vildi lýsa stöðum eins og þeir myndu reynast fólki. Leit á mig sem umboðsmann fólks. Fór stundum háðulegum orðum um suma veitingastaði. Af þessu varð stundum hvellur. Ég hélt mínu striki, því að ég hafði góðan grunn til að standa á.

Veitingarýnir þarf ekki að vera menntaður í faginu. Hann þarf að elska mat og hafa einhvern skilning á, hvernig hann verður til. Reynslan ein gerir gagnrýnanda marktækan, smám saman þekkja menn hann af skrifum hans. Sá, sem rýnir í veitingahús, gerir í fyrsta lagi ekki boð á undan sér. Í öðru lagi borgar hann fyrir matinn. Ef annað hvort skilyrðið vantar, færist reynsla gagnrýnandans ekki yfir til almennings. Skrif hans nýtast fólki ekki. Það fær ekki sérþjónustuna, sem rýnirinn fær. Að lokum þarf veitingarýnir að átta sig á, hverjar eru forsendur veitingahúsa og hvað eru bara stælar.

Hef skrifað veitingarýni í þrjá áratugi. Kollegar eru fáir. Steingrímur Sigurgeirsson skrifar of jákvæðar greinar í Morgunblaðið, en sjaldan. Hans helztu áhugamál eru fín veitingahús og fín vín. Hann fær frítt að éta og er því marklaus. Skemmtilegri, en samt málefnaleg, var gagnrýni Hjartar Howser á vefnum, hhowser.blogspot.com. Hún hefur legið niðri um skeið. Ég missti oftast af veitingarýni í Gestgjafanum. Hún var grunsamlega jákvæð. Duglegast í veitingarýni er enskumælandi ritið Grapevine. Þar hafa fjölmargir skrifað. Ég er ósammála þeim flestum. Tel rýnina í Grapevine vera kerfislægt rugl.

Um þessar mundir hafði ég fleira á minni könnu. Þorsteinn Thorarensen, fyrrverandi yfirmaður minn, fékk mig til að skrifa bækur fyrir forlag hans, Fjölva. Vissi, að ég hafði flækzt töluvert í stórborgum Evrópu og vildi fá ferðabækur um það efni. Við sættumst á bækur um Kaupmannahöfn og London og á efnistök bókanna. Þetta var upphafið að löngu samstarfi og mörgum bókum, sem komu út árin 1981-1996. Þær fjölluðu um Kaupmannahöfn og London, sem áður segir, líka um Amsterdam, París, New York, Madrid, Dublin, Róm og Feneyjar. Sumar komu út í nokkrum prentunum og tvær fyrstu bækurnar í tveimur útgáfum.

Ég gisti á öllum hótelum og borðaði á öllum veitingahúsum, sem ég sagði frá í bókunum. Borðaði úti tvisvar á dag og skipti um hótel daglega. Þrjár vikur af þessu líferni voru skammturinn fyrir hverja borg. Í bókunum fjallaði ég um hótel og veitingahús, skoðunarverða staði og gönguferðir milli þeirra. Þetta var töluvert átak og hentaði mér verr, þegar ég eltist. Síðar lagði Þorsteinn fram lista yfir 21 bók, sem hann vildi fá skrifaða. Þá áttaði ég mig á, að ég var orðinn of fullorðinn fyrir þetta líf. Það leiddi til, að þessi ágæti bókaflokkur hlaut hægt andlát. Áfram komu þó út endurprentanir.

Ég skrifaði leiðsögurit um erlendar stórborgir á sömu forsendum og ég ritaði veitingarýni. Tók ekki fríar ferðir, fría gistingu, fríar veitingar. Vildi vera óháður stofnunum, sem fjallað yrði um eða ekki fjallað um. Vildi, að reynsla mín gæti endurspeglazt hjá öðrum ferðamönnum. Til þess voru refirnir skornir. Árni Bergmann spurði mig á blaðamannafundi, hvers vegna lesendur bókarinnar ættu að fá betri herbergi en aðrir. Vegna þekkingar, sem þeir hafa aflað í bókinni, svaraði ég. Árni leit svo á, að með þessu væru sumir teknir fram fyrir aðra, sem væri sósíalistískt óréttlátt. Mér varð orðfátt.

Auðvitað hafði ég lesið fullt af erlendum leiðsögubókum og efazt um leiðsögn þeirra. Þetta var sama sagan og í veitingarýninni. Vildi skrifa bækur, sem ekki væru spuni, blaður, ímynd, almannatengsli. Sleppti frægum hótelum og veitingahúsum og skemmtistöðum, sem mér fannst lítils virði. Benti frekar á staði, sem áttu að mínu viti erindi til fólks. Skipulagði gönguferðir, sem lesendur gátu endurtekið, þrætt sig milli skoðunarverðra staða. Margir sendu mér póstkort í þakkarskyni frá þessum stöðum, oftast til að þakka ábendingar um veitingastaði. Þessi kort héldu uppi dampi hjá mér í hálfan annan áratug.

Ég vann ferðabækurnar í smáatriðum. Kristín mín tók að vísu myndirnar, en ég bjó þær síðan undir prentvinnslu. Kortin bjó ég til frá grunni. Hönnun og umbrot voru líka mitt verk. Ég var stoltur af þessu verki. Það sýndi mér, að ég var ekki bara ritstjóri. Ég kunni líka að fást við sérgreinar, sem fylgja blaðamennsku, myndvinnslu, grafík, hönnun og umbroti. Þetta voru ekki nein meistaraverk, en snyrtileg úrvinnsla á takmörkuðu svigrúmi vasabrotsbóka. Ég tók svo síðar upp sama þráð við gerð bóka um hrossarækt. Skilaði öllum mínum bókum tilbúnum til prentunar. Þetta lækkaði tæknikostnaðinn umtalsvert.

Síðla árs 1986 áttaði ég mig á, að ég stýrði ekki áfengisneyzlunni. Hvorki hvort ég drykki né hversu mikið. Ég sá fram á vandræði af þessum sökum og hætti notkun áfengis 1. apríl 1987. Tíu mánuðum síðar hætti ég að reykja. Hvort tveggja hafði góð áhrif á heilsuna, en þurrkurinn dró úr félagslyndi mínu. Ég hætti líka að skrifa vínrýni, sem áður var þáttur í starfi mínu við veitingarýni. Um leið fékk ég aukinn tíma, sem ég notaði til að steypa mér út í hestamennsku. Síðan hef ég hvorki snert áfengi né tóbak og sé alls ekki eftir því. Verst er að geta ekki hætt að éta til að koma vigtinni í lag.

Næsti kafli

1981-2001 Erlend áhrif

Starfssaga

Einu sinni var mér boðið til Þýzkalands að hitta þarlenda mektarmenn. Átti meðal annars viðtal við Willy Brandt, sem þá var borgarstjóri Berlínar. Brandt var drukkinn í viðtalinu, en komst samt sæmilega frá því. Ég hitti líka menn úr utanríkisráðuneytinu í Bonn, þar á meðal ráðuneytisstjórann. Við vorum í hádegisverði á veitingahúsi með Pétri Eggerz sendiherra. Ráðuneytisstjórinn og ég töluðum á fullu gasi, en Pétur sagði ekki orð allan tímann. Spakmælið segir, að fæst orð hafi minnsta ábyrgð. En sendiherra, sem segir bara alls ekki stakt orð, er áreiðanlega sérstæður í stétt sinni.

Haustið 1974 kom Olof Wahlgren til landsins, útgefandi Sydsvenska Dagbladet. Hann var þá í framboði sem forseti International Press Institute, félags ritstjóra um allan heim. Reyndi að afla samtökunum félagsmanna á Íslandi og fékk meðal annarra mig í lið með sér. Olof var einstakur atfylgismaður, öll áhugamál tók hann með trompi. Við hjónin áttum eftir að verða kunningjafólk hans og nutum gestrisni hans í Málmey. Í framhaldi af aðild minni að félaginu fór ég á ársþing þess í Zürich vorið 1975. Sú ferð var lærdómsrík og leiddi til brennandi áhuga míns á starfi og sjónarmiðum samtakanna.

Einu sinni var ég í Kaupmannahöfn og Olof Wahlgren bauð mér í kvöldmat yfir til Málmeyjar. Við fórum þrenn hjón á fínasta og bezta veitingahúsið. Sú veizla átti að vera mér til heiðurs sem nýjum formanni Íslandsdeildar Alþjóðasambands ritstjóra, IPI. Með í för var nýráðinn ritstjóri Sydsvenska Dagbladet, Ulf Ryttarborg og kona hans. Að veizlu lokinni var farið heim til Olofs. Þar byrjaði önnur veizla sama fólks og hún var til heiðurs nýráðnum ritstjóra blaðsins. Við afrekuðum að borða kvöldverð tvisvar sama kvöldið. Wahlgren var þekktur fyrir að tvínóna ekki, heldur taka hlutina með trompi.

Árið eftir fór ég á ársþing International Press Institute til Fíladelfíu í Bandaríkjunum og síðan nánast árlega um langt árabil. Að vori fór ég á ársþingið og á haustin á sérstakan fund deilda félagsins á Norðurlöndum. Þarna var ég kominn í félagsskap manna, sem ég leit upp til. Margir þeirra höfðu miklu mótaðri hugmyndir en ég um starf ritstjóra. Og um siðferðileg álitamál, sem ritstjórar standa andspænis. Sumir höfðu mikil áhrif á mig með ræðum sínum á fundum félagsins eða í einkasamræðum. Aðild mín að félaginu opnaði mér nýjar víddir í viðhorfi mínu til starfsins. Þetta var opinberun.

Þarna var Harold Evans, sem þá var ritstjóri The Sunday Times. Frægur af skrifum blaðsins um Thalidomide-börnin, sem fæddust vansköpuð vegna mistaka opinberra aðila. Ég hitti hann nokkrum sinnum og borðaði með honum. Hann var eldstólpi af hugsjónum blaðamennskunnar. Síðar hrökklaðist hann úr starfi og gerðist útgefandi tímarita í Bandaríkjunum. Meiri urðu kynni mín af Mort Rosenblum, ritstjóra International Herald Tribune. Að ráði hans skrifaði ég nokkrar greinar í blað hans, einkum um blaðastyrki og afskipti stjórnvalda af fjölmiðlum. Af greinunum varð ég sæmilega kunnur í bransanum erlendis.

Jørgen Schliemann, fréttastjóri Rásar tvö í Danmörku, var mestur ræðumaður á fundum International Press Institute. Hann hafði mjög hrein og óspillt viðhorf til blaðamennsku. Kom nokkrum sinnum til Íslands og hitti mig þá gjarna. Af öðrum Dönum hafði ég bezt kynni af Arne Eyjbye-Ernst, sem var þá rektor blaðamannaskólans í Árósum. Kom ég nokkrum sinnum heim til hans. Þá má nefna Alf Schiött-Christensen, ritstjóra Ålborg Stiftstidende, sem jafnan hélt sambandi við mig. Einnig má nefna Íslandsvininn Bent A. Koch,sem var vinur Bjarna Benediktssonar og Morgunblaðsins, bað ætíð að heilsa Matthíasi.

Í framhaldi af kynnum mínum af Arne Eyjbye-Ernst var ég beðinn um að kenna. Smátíma á hverjum vetri við Norræna blaðamannaháskólann í Árósum. Kenndi þar í nokkur ár. Hafði af því mikla fyrirhöfn og fann mig ekki í starfi. Einn veturinn var ég úrskurðaður af nemendum sem bezti kennarinn, en næsta vetur fékk ég athugasemdir þeirra um skort á undirbúningi. Niðurstaða mín var, að þetta væri ekki starf fyrir mig. Hún tafði löngu síðar fyrir, að ég féllist á hugmynd um að fara að kenna blaðamennsku við Háskólann í Reykjavík. En þá hafði ég raunar fengið reynslu og yfirsýn, sem ég hafði ekki í Árósum.

Nokkrir Norðmenn urðu vinir mínir á þessum árum. Nánust urðu kynnin við Kjell Einar Amdahl, ritstjóra Adresseavisen í Þrándheimi, með gagnkvæmum heimsóknum. Og Svein Døvle Larsen, ritstjóra Tönsberg Blad, sem er einhver skemmtilegasti maður, sem ég hef kynnzt. Enn fleiri Finnum kynntist ég, einkum Keijo K. Kulha, sem þá var ritstjóri Helsingin Sanomat. Og Olavi Rantalainen, ritstjóra tímarits útgefenda. Lengi gekk á með gagnkvæmum heimsóknum. Bezt minnist ég kvöldverðar með Kulha í siglingaklúbbi Helsinki, þar sem við sátum hvor við sinn enda feiknarlangs borðs og kölluðumst á.

Ég nefni alla þessa menn, af því að þetta voru starfsbræður mínir og þetta var í fyrsta skipti, sem ég hafði náið samneyti við slíka. Hugmyndir mínar um starf ritstjóra mótuðust auðvitað af þessum kynnum. Mest samskipti hafði ég við framkvæmdastjóra International Press Institute, fyrst við Peter Galliner og síðan við Johann P. Fritz. Sem formaður Íslandsdeildar IPI átti ég raunar þátt í hálfgerðu samsæri um að losna við Galliner. Þá var hann orðinn of einræðishneigður. Vildum fá Fritz í staðinn. Hvorki fyrr né síðar hef ég tekið þátt í fjölþjóðasamsæri, enda ekki hneigður til undirhyggju.

Peter Galliner var óvenjulega hæfur maður, sem þeyttist um heiminn til að losa ritstjóra úr fangelsum. Árum saman var hann frábær í starfi. Smám saman varð hann upptekinn af sjálfum sér og hæfileikum sínum. Setti samasemmerki milli samtakanna og sjálfs sín. Sagði stjórnarmönnum að éta það, sem úti frýs. Neitaði að hitta formann samtakanna. Hætti að taka mark á félagsmönnum og úthúðaði þeim, sem hann taldi sitja á svikráðum við sig. Varð að lokum svo illa haldinn af vænisýki, að hann varð óstarfhæfur. Davíð Oddsson minnti mig löngu síðar á Galliner. Slík hafa verið örlög sumra hæfileikamanna.

Ég minnist áhrifanna, sem ég varð fyrir í Vestur-Berlín, þegar ég fluttist þangað eftir stúdentspróf. Þar var ilmur hins stóra umheims eftir innilokun í forpokuðum menntaskóla í Reykjavík. Sömu tilfinningu fékk ég, þegar ég fór að hitta erlenda starfsbræður mína. Þar var ilmur hins stóra umheims eftir innilokun í forpokuðum viðhorfum á Íslandi til fjölmiðlunar og blaðamennsku.  Í báðum tilvikum var um eins konar endurfæðingu að ræða. Þess vegna hefur mér orðið hér svo tíðrætt um áhrifin, sem ég varð fyrir. Þegar ég fór að taka þátt í alþjóðasamtökum ritstjóra og hitta fólkið, sem bar það uppi.

Tengslin við alþjóðasamtök ritstjóra breyttu viðhorfum mínum til pólitíkusa og forstjóra. Ég hneigðist til aukinnar tortryggni. Áður hafði ég trúað, að menn gættu oft almannahagsmuna, þegar þeir réðu ríkjum og fyrirtækjum. Nú hitti ég fólk, sem taldi svo ekki vera. Fólk með meiri reynslu í fjölmiðlun en ég hafði ræktað með sér heilbrigða efahyggju. Vissi, að valdamenn reyndu að villa um fyrir fólki með hjálp almannatengla, blaðafulltrúa, spunakarla, ímyndarfræðinga. Ég áttaði mig á, að ritstjórar voru nánast eina vörn fólks gegn lygavefjum. Sem spunnir voru á æðstu stöðum viðskipta og stjórnmála.

Á alþjóðaþingum ritstjóra var oft talað um áhrif stjórnmála, eigenda og auglýsenda á ritstjórnir fjölmiðla. Ég gat miðlað reynslu af pólitískum afskiptum á Íslandi. Og hlustaði á, hvernig snúizt hafði verið við tilraunum eigenda og auglýsenda til að hafa áhrif á ritstjórnir. Samráð um þessi mál voru áreiðanlega gagnleg fyrir alla aðila. Ég hafði hins vegar ekki kynni af slíkum vandræðum. Ég hafði alltaf verið andvígur samskiptum við auglýsendur. Ýmis tímarit geta leyft sér slíkt, en kaupendur dagblaða láta ekki bjóða sér það. En margir eiga erfitt með að átta sig á því. Ekki sízt á síðustu árum.

Eftir Kosovostríðið tóku alþjóðasamtök ritstjóra saman bók um það. Þar kemur skýrt fram sú meginniðurstaða, að ekki bara stjórnvöld og her í Serbíu lugu yfirleitt. Einnig Atlantshafsbandalagið og stjórnvöld aðildarríkja þess. Stefna bandalagsins í fjölmiðlun var þessi: Komum á fót kviksögum, ýkjum botnlaust og endurtökum í sífellu rangar fréttir og ranga spádóma. Paul Watson frá Los Angeles Times sá þetta í Pristina. Fréttafundir bandalagsins neituðu fréttum, sem hann vissi, að voru réttar, og fullyrtu aðrar, sem hann vissi, að voru rangar. Réttlætingar bandalagsins breyttust í sífellu.

Bókin um Kosovo var nákvæm í smáatriðum og hafði mikil áhrif á mig, þegar hún kom út 1999. Þar var svo rækilega flett ofan af Nató, að ekki stóð þar steinn yfir steini. Síðari kynni mín af öðrum stofnunum, til dæmis Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, sýndu mér, að Nató er ekkert einsdæmi. Valdamenn heimsins leggja hart að sér við að dreifa lygum og óhróðri. Blaðamenn heimsins megna ekki að andæfa gegn lygaflóðinu. Og hætta atvinnu sinni, ef þeir reyna það. Íslenzkir blaðamenn hafa oft verið reknir fyrir að segja satt, Árni Snævarr, Kristinn Hrafnsson, Jóhann Hauksson, margir fleiri, ég sjálfur þrisvar.

Næsti kafli