Að þéna 83 milljarða

Punktar

Mesti reiknimeistari íslenzkrar fjölmiðlunar segir, að ríkissjóður mundi þéna 83 milljarða á ári á uppboði veiðileyfa. Gunnar Smári Egilsson byggir á tölum úr uppboðum veiðileyfa í Færeyjum og færir yfir á íslenzkt aflamagn. Uppboð eru auðvitað hið markaðsvæna mat á réttlátri auðlindarentu. Hér á landi ríkir hins vegar pilsfaldavænt mat upp á aðeins 5 milljarða króna. Að kröfu kommúnistanna í Sjálfstæðisflokknum og Framsókn. Uppboð veiðileyfa mundi leysa öll vandræði þjóðarinnar við að halda uppi norrænni velferð, heilsumálum og menntun.

Fréttatíminn

Tvífari ráðherrans

Punktar

Skemmdarvargar hafa gert Kristjáni Þór Júlíussyni þann óleik að senda tvífara hans á athafnir af ýmsu tagi. Senda síðan fjölmiðlum ljósmyndir af tvífaranum í viðkvæmum aðstæðum. Ýmislegt bendir til, að þeir hafi árum saman stundað slíka glæpi. Kristján Þór er þekktur fyrir hástemmdan vilja til að sjúkir verði sem fyrst og bezt læknaðir. Bófarnir hafa inn á milli sent tvífarann inn á alþingi að greiða atkvæði þveröfugt á vilja ráðherrans. Nú síðast var tvífarinn sendur inn á fund auðkýfinga, sem vilja reisa spítala fyrir ríka. Ráðherrann segist aldrei hafa hitt þá kóna, en tvífarinn stendur keikur á sínu á ljósmyndinni.

Myrkrið er komið

Punktar

Neyðarlögin í Tyrklandi afnema mannréttindi í landinu. Lögreglunni er heimilt að gera hvað sem henni þóknast. Hún má fyrirskipta útgöngubann, fundabann, tjáningarbann, og umferðarbann. Því er tímabært að vísa ríkinu úr Nató. Einnig að binda enda á samninga um inngöngu í Evrópusambandið. Undir stjórn Recep Tayyip Erdoğan er Tyrkland komið á róttækan miðaldaveg íslamista. Erdoğan segir til dæmis sjálfur, að karlar séu konum æðri. Á fimmtán árum hefur Tyrkland fært sig frá Evrópu inn í miðaldamyrkur íslams. Fyrir fimmtán árum var Istanbul vestræn og frjálsleg, en nú eru flestar konur komnar með þrælsmerki slæðunnar.

Eyjapeyjum fatast vörnin

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn á Vestmannaeyjar með húð og hári. Stjórnarfarið er eftir því. Lögreglustjórinn er kosningastjóri bæjarstjórans til þingsetu og maki lögreglustjórans var gerður að stjóra hjá bænum. Lögreglustjórinn er andvígur stefnu fagaðila um meðferð nauðgana á þjóðhátíð og vill ekki, að þær séu raktar í fréttum. Hljómsveitarfólk finnur til samábyrgðar, neitar að mæta í þöggunina. Í stað þess að redda málinu, fara klíkustjórar Eyja að tala um annað, bjóða Landspítalanum og áður brottreknum Stígamótum að skoða undirbúninginn. Þessir ágætu aðilar hafa þó ekki boðvald yfir „latté-lepjandi“ fólki úr „hverfi 101“.

Húsnæðisvandinn er launavandi

Punktar

Hagsmunir unga fólksins felst í að komast í varanlegt heimili fyrir hóflegan hluta launa sinna. Minni hagsmunir felast í, hvort það eigi húsnæði eða leigi. Enn minni hagsmunir felst í sjónhverfingum um húsaleigubætur, vaxtabætur eða smíði smáíbúða, sem verða Airbnb fyrir túrista. Vandinn er allt annar, að laun eru of lág. Því að hundrað milljörðum er árlega stolið undan skiptum og falið í skattaskjólum. Lágmarkslaun þurfa að hækka í sama og gerist í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Þau geta hækkað í 400.000 krónur á mánuði með því að ná falda fénu inn í þjóðarbúskapinn. Húsnæðisvandinn snýst bara um of lág laun Íslendinga.

Sælutími álitsgjafa

Punktar

Kosningabaráttan er hafin með skeytasendingum Eyglóar Harðardóttur ráðherra og nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Deiluefnið er, hvort bófarnir hafi grafið undan tillögum Eyglóar til lausnar húsnæðisvandans. Tillögurnar voru í smíðum allt kjörtímabilið. Læt milli hluta liggja, hvor aðilinn hafi rétt fyrir sér. Staðnæmist bara við, að stjórnarflokkarnir eru farnir að rífast. Kenna hvor öðrum um ófarir kjörtímabilsins. Bráðum fáum við meira að heyra um annan ágreining, svo sem um stjórnarskrána, uppboð veiðileyfa og hrun heilbrigðismála og velferðar á kjörtímabilinu. Þá verður sko engin gúrkutíð hjá álitsgjöfum.

Ófaglegur löggustjóri

Punktar

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í nauðganabæ Íslands, hefur tvö áhugamál. Annað er, að Elliði Vignisson bæjarstjóri verði þingmaður. Hitt er, að þöggun ríki um nauðganir á þjóðhátíð í Eyjum. Hún tók upp þá tilskipun fyrir ári, en hafði ekki erindi sem erfiði. Fagfólkið tók ekki mark á lögreglustjóranum, svo einfalt er það, neitaði að hlýða. Sama er uppi á teningnum núna. Neyðarmóttaka Landspítalans segist ekkert mark taka á tilskipunum lögreglustjórans. Skrítin staða stjórans, sem sendir út tilskipanir til óviðkomandi aðila í kerfinu. Og tekur að sér að stjórna kosningaslag innan pólitíska andverðleikaflokksins.

Sérstæð loforð

Punktar

Kosningaloforð verða sérstæð að þessu sinni. Bjarni Ben telur helzt til ráða að stæla stefnu pírata í heilsumálum. Láta árásirnar á heilsu landsmanna á þessu kjörtímabili ganga til baka á því næsta. Viðreisn stælir stefnu pírata í útboði á kvóta. Meiri athygli vekur, að ýmsir frambjóðendur í prófkjörum pírata eru andvígir meginstefnu pírata, nýju stjórnarskránni, sem liggur niðri í skúffu. Áhugalausir um stefnu pírata á útboði veiðikvóta og að allur fiskur fari á markað. Áhugalausir um stefnu pírata í auknum framlögum til heilsumála. Þetta prófkjörsfólk tók feil á flokkum, ætti að vera í nýfrjálshyggju Davíðista.

Árekstur menningarheima

Punktar

Stjórnmálafræðingurinn Samuel P. Huntington birti fræga grein, The Clash of Civilizations, árið 1993 í Foreign Affairs. Og samnefnda bók þremur árum síðar. Í skrifum sínum hélt Huntington fram, að þessi öld mundi einkennast af baráttu menningarheima. Einkum milli íslam annars vegar og vestrænu hins vegar. Bókin var óbeint andsvar við frægri bók Francis Fukuyama, The End of History. Hingað til hafa atburðir frekar hallazt að Huntington en Fukuyama. Ófriður í heiminum er mikill og nánast bara á mærum íslam eða innan íslam. Byltingarblóðbaðið í Tyrklandi er í beinu framhaldi af hryðjuverkum í Evrópu og landhlaupi á Balkan.

Barátta menningarheima

Þjófræði bófaflokkanna

Punktar

Stjórnmál á Íslandi snúast ekki mest um misgóðar stefnur flokka eða misgóð kosningaloforð. Allir vita, að ekkert er að marka stefnur og loforð. Stjórnmál snúast um annað og einfaldara. Snúast um, hvort áfram eigi að vera þjófræði bófaflokka eða hvort það skuli afskaffast. Rangt er gefið í spilunum. Greifum eru árlega afhentir hundrað milljarðar króna framhjá skiptum. Síðan er rifizt um 2% hækkun láglaunafólks, öryrkja og aldraðra. Annað hvort segja kjósendur, að nú sé nóg komið af ruglinu. Eða þeir þræla áfram undir greifunum að fornum sið. Píratar eru þeir einu, sem gefa von um frjálsa þjóð í frjálsu landi.

Núna mínir – næst hinir

Punktar

Í fjárlagaáætlun næstu fimm ára gerir Bjarni Benediktsson hvergi ráð fyrir, að greiðsluþátttaka sjúklinga verði minnkuð. Hvergi er þess getið í tölum, að heilbrigðisþjónusta ríkisins verði efld. Enda er það í samræmi við stjórn hans á fjárlögum ríkisins á þessu kjörtímabili. Heilbrigðisþjónustan hefur verið skert verulega og greiðsluþátttakan aukin. Samt lofar Bjarni mikilli eflingu heilsuþjónustu á næsta ári. Reglan er: Á yfirstandandi fjárlagaári hverju sinni hugsar Bjarni Ben bara um ættingja og auðgreifa. Á næsta  kjörtímabili hverju sinni ætlar hann bara að hugsa um almenning. 25% kjósenda ætla að kaupa þetta.

Aumasta byltingin

Punktar

Af fréttum að dæma var þetta ein aumasta byltingartilraun sögunnar. Menn létu hjá líða að gera höfuðóvininn óvígan strax. Menn föttuðu ekki, að Erdoğan hafði stuðning götunnar. Menn töldu, að nóg væri að loka flugvöllum og stórbrúm og þá mundi ríkið falla sér í hendur. Skildu ekki mátt nýmiðla, sem forsetinn nýtti sér. Einnig var hann tilbúinn með langa handtökulista, þar á meðal lista yfir þúsundir dómara og saksóknara. Öll var atburðarásin eins og klæðskerasaumuð fyrir forsetann. Vekur grun um, að þetta hafi verið skálduð byltingartilraun. Til þess hönnuð að losa einræðisherrann á einu bretti við alla efasemdarmenn.

Kunningjaveldi dómstólanna

Punktar

Tvær konur, sem störfuðu á sviði héraðsdómstóla, sögðu af sér samvizku sinnar vegna. Áslaug Björgvinsdóttir hætti sem héraðsdómari, þegar það rann upp fyrir henni að hún treysti ekki lengur dómskerfinu. Hún telur að slæmir misbrestir séu á stjórnsýslu og innra eftirliti dómsvalds. Elín Sigrún Jónsdóttir var framkvæmdastjóri dómstólaráðs í áratug. Hún hætti í kjölfar harðra deilna við tvo ráðsmenn. Þau hófust, þegar hún hvatti til, að íslenskir dómstólar þægju aðstoð Norðmanna við að betrumbæta stjórnsýslu og starfshætti . Hreinsa þarf til í héraðsdómi, reka gömlu karlana, sem stýra Kunningjaveldi dómstólanna.

Enn hefjast loforð

Punktar

Bjarni Benediktsson hefur rústað öllum þáttum opinberrar heilsuþjónustu á þessu kjörtímabili. Við ferðalokin lofar hann að endurreisa alla þætti opinberrar heilsuþjónustu á næsta kjörtímabili. Loforð eru ódýr. Eins og þau voru fyrir síðustu kosningar. Þá lofaði Bjarni ekki að rústa heilsuþjónustunni. Nú hefur hann skyndilega fattað langa biðlista, óhóflega greiðsluþátttöku, spítalahrun. Jafn skyndilega mun hann gleyma loforðinu, þegar búið er að telja atkvæðin upp úr kössunum. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar verða enn að sætta sig við verðgildislaus loforð á borð við þau, sem þeir sættu sig við síðast.

Byltingin bilaði

Punktar

Veikluleg bylting tyrkneskra herforingja rann út í sandinn. Fóru eftir gömlu kennslubókinni, hertóku brýr og flugvelli. Áttuðu sig ekki á nýmiðlum, einkum á Facetime. Þar hvatti Erdoğan landsmenn til að hunza byltinguna og fara út á torg og götur. Fólkið gerði eins og hann sagði og byltingin fór út um þúfur. Nokkur hundruð yfirmanna í hernum hafa verið tekin höndum og forsetinn fær færi á að kúga herinn til hlýðni. Herinn hefur reynt að varðveita arf Atatürks og gera Tyrkland að vestrænu veraldarríki. Flokkur Erdoğan hefur reynt að efla íslam að nýju og hefur enn reynst sigursæll. Hér eftir er hann einræðisherra.