Bilið breikkar áfram

Punktar

Hér eftir sem hingað til verða öll hrun á kostnað almennings. Vöxtur efnahags hefur allur lent í vösum hinna allra ríkustu. Ekkert hefur lent í vösum hinna fátæku og þeir allra fátækustu búa við rýrðan hag. Þannig hefur bilið breikkað milli ríkra og fátækra og mun breikka áfram við óbreytta hagstefnu. Auðmenn nota fjölmiðlaveldi sín til að kenna múslimum og útlendingum um vandræði fátæklinga. Þannig eru kjósendur, sem áður kusu verkalýðsflokka, farnir að kjósa öfgaflokka á hægri jaðri. Þannig náði Trump kjöri, þannig vann Brexit og þannig varð le Pen að öflugasta pólitíkusi Frakklands. Þrælarnir fatta ekki, hverjir eru þrælahaldarar.

Bölvað útlandið

Punktar

Vanhæfum pólitíkusum er léttast að kenna útlendingum um eigin glæpi og heimsku. Þannig urðu Balkanstríð að stórfelldu blóðbaði, þegar Júgóslavía féll fyrir borð. Þannig komst Trump til valda í Bandaríkjunum og Erdoğan varð einræðisherra í Tyrklandi. Báðir fjölyrtu um helvítis útlendingana og samsæri þeirra. Nú er fólk að átta sig á, að um áratugi hefur fámenn yfirstétt sankað að sér öllum hagvexti, án þess að láglaunafólk hafi fengið neitt. Því er reynt að kenna útlandinu um öll vandræði til að beina reiði fátæklinga frá pólitískum bófaflokkum innanlands. Þá öldu sigla margs konar skrumarar á borð við Trump, le Pen, Farage og Bjarna Ben.

Flokkar hér og flokkar þar

Punktar

Flestir stjórnmálaflokkar hafa fæðst með stefnuskrá, er boðar rosa góðvild í garð gamlingja, öryrkja, sjúklinga og húsnæðislausra. Ókeypis aðgang að heilsuvernd og skólagöngu. Skattahækkanir á auðgreifa borgi kostnaðinn. Hingað til hafa flokkar ekki efnt slík loforð, ekki einu sinni Samfylkingin og Vinstri græn. Allir vita, að svipuð loforð Sjálfstæðis og Framsóknar eru einskis virði. Nú er komið í ljós, að slík loforð eru einnig marklaus hjá Viðreisn og Bjartri framtíð. Þess vegna er full ástæða til að fara varlega í að trúa sömu loforðum nýja flokksins. Við höfum þegar einn flokk með stefnu, er skýrir, hvernig loforðin verða framkvæmd, Pírata.

Vinstri glæpurinn

Punktar

Glæpur vinstri stjórnarinnar 2009-2013 fólst í að endurreisa banka í fyrri mynd. Við höfum séð, hvernig þeir urðu til: Sjálfstæðismenn fengu lán í Búnaðarbanka Framsóknar til að kaupa Landsbankann. Framsóknarmenn fengu lánað í Landsbanka Sjálfstæðis til að kaupa Búnaðarbankann/Kaupþing. Í stað þess að nota hrunið til að láta bankana deyja, voru þeir lífgaðir við. Ráðnir voru sams konar bófar til að stjórna þeim á sama hátt og bófarnir, sem áður stjórnuðu. Þannig einkenndist vinstri stjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna af útburði fátækra úr íbúðum, sem fátæklingar höfðu ekki lengur efni á að borga niður. Það verður lengi munað.

Sósíalismi er dauður

Punktar

Sósíalismi dó fyrir aldamót og nýfrjálshyggja tók völd víðs vegar um heim, þar á meðal hér. Til dæmis eru stéttafélög valdalaus viðhengi við samtök atvinnurekenda og fjárfestingar lífeyrissjóða. Nýfrjálshyggja er líka dauð, þótt hún sé enn við völd. Það sést bezt á sífelldum kreppum, vaxandi stéttaskiptingu og áhrifaleysi fólks. Engeyingar haga sér eins og þeim þóknast. Svarið felst ekki í að lífga við sósíalisma í nýjum flokkum. Til sögu er kominn nýr og ofsaflókinn tækniheimur, sem mun valda atvinnuleysi fátækra. Í þeim heimi felst lýðræði í gegnsæi funda og fundargagna og í frelsi til að vinna lítið eða ekkert. Frelsi fæst gegnum Pírata.

Latir andstöðuþingmenn

Punktar

Stjórnarandstaðan veldur mér vonbrigðum. Hún er ekki nógu mögnuð. Af nógu er að taka, eins og upplýst er í fréttum. Nokkrir þingmenn standa sig vel, til dæmis Smári McCarthy og ýmsir úr þeim flokki. En nánast hálf stjórnarandstaðan er nærri ósýnileg. Auðvitað verður andstaðan að sýna sig að verki. Hún þarf að tæta í sig hin stöðugu slys og illvirki ríkisstjórnarinnar. Við völd er fanatísk ríkisstjórn auðhyggju, sem þjónar aðeins hinum 1% ríkustu. Stjórnarandstaðan þarf að starfa meira saman og leita samstarfs við áhugahópa úti í bæ. Við húsnæðislausa, við atvinnulausa, við öryrkja, sjúklinga og aldraða. Sjóða þarf upp úr daglega.

Óháðir á vegum Engeyings

Punktar

Nefnd Bjarna Benediktssonar um fjárlög kallast í fjölmiðlum „Óháðir sérfræðingar á vegum stjórnvalda“. Heitið er dæmigert um hlýðni óháðra fjölmiðla við orðaval úr tilkynningum óháðra blaðurfulltrúa á vegum stjórnvalda. Þarna hefur BB safnað hópi nýfrjálshyggjufólks til að skýra, hvernig og hvers vegna þurfi að skera á velferðina. Þörfin meinta stafar af óbærilegum niðurskurði gjalda á 1% ofurríkra, sem stjórna þrælabúðunum Íslandi. Flóknara er það ekki. Nýfrjálshyggja tók völdin í pólitískum trúarbrögðum á vesturlöndum nokkru fyrir aldamót. Hefur síðan ungað út dæmum um „græðgi er góð“ og skrapað upp limið í samfélögum vestrænna þjóða.

Hafna lækkun skatta

Punktar

Samkvæmt rannsókn á vegum Huldu Þórisdóttur, dósents við Háskólann, vilja mjög fáir Íslendingar lækka skatta á kostnað almannaþjónustu. Íslendingar eru þannig mjög velferðarsinnaðir. Andvígir boðorði nýfrjálshyggjunnar: Græðgi er góð. Þá sýnir rannsóknin, að flestir skilgreina sig pólitískt á miðju frekar en hægri eða vinstri. Fjarlægð milli pólitískra skoðana fólks er minni hér á landi en á öðrum Norðurlöndum. Fólk ber traust til annars fólks, þótt það vantreysti stofnunum. Til dæmis er fólk hér með svipaðar, rólegar skoðanir á innflytjendum. Ungt fólk hefur áhuga á stjórnmálum, helzt óhefðbundnum og fjölþjóðlegum stjórnmálum.

Ráðherra upp á punt

Punktar

Landlækni og heilsuráðuneytinu greinir á um hvort ráðherra geti haft afskipti af starfsemi einkaspítala fyrir legusjúklinga við Ármúla. Ráðuneytið telur slíka breytingu sjálfvirkt heimila með samningi Steingríms Ara Arasonar við Læknafélag Íslands. Landlæknir segir stöðuna valda mikilli óvissu, þar sem framtak forstjóra Sjúkratrygginga geti leitt til sjálfvirkrar einkavæðingar spítalaþjónustu. Vill Landlæknir, að Óttarr Proppé heilsuráðherra komi úr felum og kveði upp úrskurð um einkavæðingu sérhæfðrar spítalaþjónustu með legudeild eða ekki. Þetta er gott dæmi um, að pólitísk tilvera Proppé er eingöngu upp á punt og að hann veit það.

Böðlast gegn spítala

Punktar

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra seldi í gær Garðabæ ríkislóðina umhverfis Vífilstaði. Áður hafði Benedikt Bjarnason, þáverandi fjármála, tekið þær lóðir úr höndum Landspítalans og flutt yfir til ráðuneytisins. Með aðgerðunum hefur ríkið ákveðið, að nýr landsspítali verði ekki byggður á Vífilstaðasvæðinu. Margir hafa fjallað um slíkan flutning undanfarna mánuði. Flestir hafa talið skynsamlegra að reisa hátæknispítala þar, fremur en á þröngu lóðinni við Hringbraut. Ákvarðanir Engeyinga slá á þá umræðu. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans mótmælti í gær harðlega þessum yfirgangi, sem rýrir svigrúm spítalans til uppbyggingar.

Fimm ára áætlun bófa

Punktar

Fimm ára áætlun bófaflokkanna snýst um að halda útgjöldum niðri til að eiga fyrir skattalækkunum þeirra auðugustu. Byrjar með því að lækka eða afnema auðlindrentu, auðlegðarskatt, tryggingagjald og sitthvað fleira, sem ríkir borga. Öll lækkun skatta er miðuð við þá tekjuhæstu. Síðan er rýrnun ríkistekna notuð til að segja, að ótímabært sé að efla heilsuþjónustu, tekjur öryrkja, aldraðra og sjúklinga, svo og lausnir húsnæðisvanda unga fólksins. Peningarnir séu ekki til. Og þeir eru ekki til, af því að bófaflokkarnir hafa lækkað skatta auðgreifa. Þetta dæmi er alltaf eins og leiðir ævinlega til breiðara bils milli auðgreifa og annars fólks.

Eru og þykjast vera

Punktar

Nýir flokkar bætast sífellt við, einkum á jaðri stjórnmálanna. Sérkennilegt, því skoðanir flestra eru svipaðar. Vilja, að ríkið ábyrgist velferð öryrkja, aldraðra og sjúklinga og sjái ókeypis um meðferð þeirra. Vilja, að ungt fólk fái þak yfir höfuð sér. Þessi almenna skoðun heitir sósíaldemókratar. Merkilegt, að enginn flokkur skuli heita það. Hægri flokkar eru svo einkum þeir sem þykjast vera sósíaldemókratar í kosningum, en eru það ekki milli kosninga. Þeir eru gerðir út og kostaðir af þeim allra ríkustu, sem árlega stela tugum milljarða af þjóðinni. Alls er helmingur flokka landsins sósíaldemókratar og hinir þykjast vera það.

Gagnrýni er ekki hatur

Punktar

Nú til dags er farið að skilgreina gagnrýni kruss og þvers sem hatursorðræðu. Til dæmis er gagnrýni á trúarbrögð, á þjóðskipulag, stöðu stjórnmála, á lélegt eða rangt mataræði, gagnrýni á klæðaburð. Ég er sagður múslimafóbi fyrir rökstudda gagnrýni á bókstafstrúnað sumra múslimaklerka. Álitsgjafar eru oft sagðir stunda hatursorðræðu fyrir að gagnrýna jafnlaunavottun, gagnrýna ofát og offitu og svo framvegis. Samfélagið verður að þola vel rökstudda gagnrýni. Fólk þarf að þola umræðu, sem er þeim ekki að skapi. Stundum eru rétttrúuð að reyna að stöðva umræðu, sannfærð um ágæti eigin skoðana. Þau eiga eftir að þurfa að þola mikið.

Sérhópar á fésbók

Punktar

Sérhóparnir á fésbókinni eru þægilegir og koma mér að góðu gagni. Skemmtilegast finnst mér að skoða „Gamlar ljósmyndir“. Þær sýna mér, hvað betur hefði farið í skipulagi Reykjavíkur, ef borgarstjórn hefði ekki legið marflöt undir verktökum. Pólitískt er mest vit í „Pírataspjallinu“. Þar er bezt framtíðarsýnin og öflugur stuðningur við þá, sem minnst mega sín. Eigandi „Sósíalistaflokksins“ bað mig ekki trufla nýja flokkinn með nærveru minni. Þótt ég hafi þannig ljúflega verið rekinn úr flokknum, kíki ég stundum þangað. Skrítið er, að eigandi flokks skuli samtímis segja 300.000 kr. vera há laun blaðamanna og vill samt ekki borga þau.

Hatrið á aumingjum

Punktar

Á síðasta kjörtímabili gaus upp hatur á öryrkjum, gamlingjum og sjúklingum. Vegna þvættings frá ríkisendurskoðanda um svindl og svínarí í greiðslum til aumingja. Sturluð þingkona í forsæti fjárhagsnefndar alþingis fór mikinn um fláttskap öryrkja, gamlingja og sjúklinga. Vigdís Hauksdóttir blómstraði. Sjúkratryggingar Íslands tóku upp hatrið, undir stjórn Steingríms Ara Arasonar. Aumingjar landsins voru teiknaðir upp sem skúrkar. Í vetur kom í ljós, að tölurnar voru þvættingur, sem ríkisendurskoðandi afsakaði. Enn byggir ríkisstjórnin á þessum grófu mistökum og notar hvert tækifæri til að níðast á öryrkjum, gamlingjum og sjúklingum.