Smáir og stórir

Punktar

Einn er munurinn á Pírötum og ýmsum smáflokkum, sem sumir hverjir bjóða fram í annað skipti að þessu sinni. (Viðreisn er utan þessa samanburðar sem klofningur út úr Sjálfstæðisflokknum.) Skoðanakannanir sýna að Píratar eru alvöruflokkur með fjöldafylgi. Hefur fjölda manns á sínum snærum við að semja stefnu og vinna að undirbúningi kosninga. Dögun, Alþýðufylkingin, Flokkur fólksins og fleiri framboð hafa ágæta stefnu og góða frambjóðendur, en virka samt eins og klúbbar kunningja, er hafa takmarkaðan kjörþokka út fyrir hópinn. Ég gæti vel hugsað mér að kjósa Ingu Snædal, en óttast, að engin von sé til, að það komi að gagni.

Siðblinda í heiðum augum

Punktar

Lilja Alfreðsdóttir getur horft heiðum augum í augu þér og sagt af sannfæringu, að enginn ófriður sé í Framsókn. Þótt orrustan þar sé í fullum gangi. Hún er nefnilega eins siðblind og lærimeistarar hennar í flokknum, Alfreð Þorsteinsson og Sigmundur Davíð. Stungið verður upp á henni sem formannslausn flokksins, þegar frambjóðendurnir tveir liggja óvígir á velli. Til skamms tíma virkar siðblinda ágætlega, eins og Framsókn sannar. En til langs tíma hafa vefmiðlar breytt leikreglum. Nú rifjar fólk sjálft upp heimildir og kaffærir tilraunir til að hanna söguna upp á nýtt. Pólitíkusar geta ekki lengur bullað út í eitt.

Gigg með rakettum

Punktar

Framsókn er klofin. Sumir eru búnir að gleyma skattaskjóli Sigmundar Davíðs á aflandseyju. Búnir að gleyma hátimbruðum loforðum, sem hann stóð ekki við og gat það ekki. Búnir að gleyma undarlegri framgöngu hans við ýmis tækifæri og sífelldum kvörtunum um loftárásir. Nú er hann búinn að undirbúa nýtt gigg með rakettum á landsþingi Framsóknar. Þar mun hann yfirbjóða alla aðra í loforðum. Mun leggja til stefnu pírata um uppboð veiðileyfa og með tekjum, er renni til sjávarplássa. Og fleira góðgæti, sem hrífur hugann. Hugmynd hans er, að hægt sé að selja kínalífselixíra á sama hátt og fyrir rúmlega þremur árum. Spennandi.

Þau fara á haugana

Punktar

Bezt er, að hægri sinnuð yfirstéttarpólitík framleiði ekki sérstök íbúðahverfi sérstakra stétta. Til dæmis ekki skattsvikahverfi aflendinga í Garðabæ og fátækrahverfi í Breiðholti. Þetta hefur tekizt, að minnsta kosti í Breiðholti. Stéttaskipting á að hverfa með valdatöku pírata og flutningi stjórnarflokkanna á sorphauga stjórnmálanna. Börn eiga að hafa sömu möguleika í öllum hverfum, sömu möguleika á menntun og heilsu. Við höfum í þrjú ár orðið að þola yfirgang ráðherra með skattsvikareikninga í aflandseyjum. Um helgina fer Sigmundur á sorphaugana og þau Bjarni Ben og Ólöf Nordal vonandi í kosningunum 29. október.

Sænsku afbrotahverfin

Punktar

Staðreyndavaktin á KJARNANUM hefur hrakið fréttir um, að múslimar ráði um 50 hverfum í Svíþjóð. Þetta eru fátækrahverfi og í slíkum hverfum er meira um afbrot og skort á öryggi. Ofbeldisgengin eru ekki sérstaklega tengd múslimum. Fréttir af þessu sem múslimavanda, er birzt hafa í norska ríkissjónvarpinu og  fleiri erlendum fjölmiðlum, sýna ekki dæmigerðan vanda. Staðreyndavaktin segir þó ekki frá fyrirmælum yfirmanna í löggunni um að þegja um þjóðerni og trú ofbeldismanna. Tölur frá kerfinu eru því ófullnægjandi. Samt segir þetta okkur, að ríki og sveitarfélög þurfa að hindra tilvist sérstakra fátækrahverfa.

Næsti forsætisráðherra

Punktar

Mér lízt vel á Smára McCarthy sem forsætisráðherra samsteypustjórnar á vegum pírata. Hefur skynsamleg rök fyrir góðum skoðunum og kann að setja hugsun sína fram á skiljanlegu máli. Hefur lengi starfað erlendis að mikilvægum efnum. Er einn fárra Íslendinga, sem eru alþjóðlega samkeppnishæfir á sínu sviði. Getur fundið málamiðlanir milli samstarfsaðila, þannig að allir standi sáttir frá borði. Þeir, sem eru orðnir landþreyttir á svæsnum lygum og græðgi hefðbundinna landsfeðra, fá góðan forsætis í Smára. Brýnt er, að allir kjósi og að píratar fái sem mest fylgi. Vísasti vegur okkar úr spillingu og ógeði fortíðarinnar.

Ísland í efsta sæti

Punktar

Skýrsla alþjóðlega læknatímaritsins LANCET um lífsgæði og heilsu fjallar um margt fleira en heilsuþjónustu líðandi stundar. Ísland er í efsta sæti, ekki vegna lengri biðlista, aukinnar aðildar sjúklinga að kostnaði, skorts á lyfjum og tækjum og einkavæðingarsýki valdhafa. Ísland er í efsta sæti vegna annarra þátta. Svo sem langlífis, mataræðis, lítilla reykinga, minna ölæðis, færri slysa, minni offitu, ungbarnaverndar, minni mæðradauða. Jákvæðu atriðin stafa af opinberum aðgerðum fyrri áratuga, ekki af niðurrifi ríkisstjórnar síðustu þriggja ára. Eftir kosningar þarf að hindra, að Ísland hrapi niður stigann.

Reginslagur í Framsókn

Punktar

Spennan verður þrúgandi þessa viku fram að flokksþingi Framsóknar um helgina. Sigurður Ingi hefur boðið sig fram til formanns gegn Sigmundi Davíð, í óþökk mikils meirihluta þingmanna flokksins. Hann fór í gær af þingflokksfundi eftir klukkustund. Lýsti þannig frati á undirmálslið þingmanna flokksins. Þeir duttu óvart inn fyrir þremur árum í kjölsog Sigmundar Davíðs. Eftir rugl Sigmundar er flokkurinn fylgislaus á lokavikunum fyrir kosningarnar. Styrkur Sigurðar er í flokksfélögunum utan Norðausturlands. Hann virkar eins og formaður í samanburði við heimsfrægan spraðurbassa. Nái hann kjöri, verður Framsókn normal að nýju.

Hvimleitt sjónvarp

Punktar

Kappræður flokksformanna í sjónvarpinu voru kjósendum til lítillar hjálpar við að ákveða sig. Allt í hefðbundnum stíl. Ábyrgðarmennirnir á hruni heilsugeirans lofuðu og lugu öllu fögru á næsta kjörtímabili. Ekki þýðir að spyrja pólitíkus, hvað hann vilji gera. Það verður að spyrja hann, hvað hann geri. Að vilja er annað en að gera. Sigmundur hrokaðist að venju, þóttist ekki vita, hver Kári væri. Einkum kynnti fundurinn formenn lítilla flokka, sem hafa varla mælst með fylgi. Þeir stóðu sig betur en kjaftaskúmar stóru flokkanna, sérstaklega Inga Snædal hjá Flokki fólksins. Illa stóðu sig Benedikt og Oddný Harðar. Hvimleitt sjónvarpsefni.

Fólk getur sagt bless

Punktar

Þrír formenn Landsambands sjálfstæðiskvenna hafa sagt sig úr flokknum til að mótmæla íhaldssemi Flokksins í jafnréttismálum. Sjálfstæðisflokkurinn hafnar konum í prófkjörum og kýs í staðinn miðaldra karla, þótt rotinborulegri séu. Úrsagnirnar skipta máli. Þær sýna sauðtryggum flokkssauðum, að stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn er ekki náttúrulögmál. Enginn verður fyrir bíl, þótt hann kveðji flokkinn. Hafi fólk ógeð á greifadýrkun, spillingu, aflandseyjum og skattaskjólum og endalausum svikum, getur það sett hnefann í borðið. Það getur til dæmis valið Viðreisn, sem gefur sig út fyrir að vera minna spillt og fúl.

Næsta bófastjórn

Punktar

Óhugsandi er, að aflendingarnir Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal fari aftur í stjórn með Sigmundi aflendingi til að framlengja skattskjólið. Sigmundur er til alls vís eins og drottningin í Undralandi. Sjálfstæðis vill frekar endurheimta útibúið í Viðreisn, þar sem er bara ein kúlulánadrottning. Til viðbótar þarf líklega bara Vinstri græn. Þau eru sum höll undir kvótagreifa eins og raunar Viðreisn líka, sem vill, að bara 3% aflans fari á uppboðsmarkað. Þessir tveir flokkar ættu að geta komið í stað Framsóknar. Ættu að geta tryggt möguleika Flokksins til að halda áfram að ræna af fátækum til að gefa hinum ríkustu.

Plagg Vigdísar einnar

Punktar

Guðlaugur Þór Þórðarson hljóp undan plagginu og skildi Vigdísi Hauksdóttur eina eftir með byrðina. Baðst embættismenn afsökunar á að hafa sakað þá um landráð. Haraldur Benediktsson nefndarmaður fékk hland fyrir hjartað, er honum var bent á, að plaggið fæli í sér lögbrot. Sakaði ráðuneytisstjóra fjármála um að hafa ævareiður hótað sér öllu illu fyrir aðild að málinu. Haraldur sór plaggið af sér. Það hóf göngu sína sem skýrsla meirihluta fjárlaganefndar og endaði sem óþinglegt plagg á vegum Vigdísar einnar. Orðið fremur snautlegt upphlaup, sem forseti alþingis hefur að sjálfsögðu skóflað burt sem óþinglegu fyrirbæri.

Níðingsmjólk

Punktar

Vegna búvörusamnings og einokunarverzlunar í landbúnaði er Ísland helfrosið í úreltum verkferlum. Ekki fæst upprunavottuð vara, nema kannski svæðisvottuð á borð við Fjallalamb. Haldið þið ekki, að það væri munur, ef kostur væri á Gunnarsstaðalambi með mynd af Steingrími J. Sigfússyni. Hér er enginn ostur framleiddur, bara eftirlíkingar af krydduðum smurosti og gúmmíosti. Öfugt við Frakkland, sem framleiðir 400 mismunandi osta og rauðvín með vottaðan uppruna frá tilgreindum hluta einnar fjallshlíðar. Hér fer allt í eina súpu, venjuleg mjólk og mjólk frá dýraníðingum, sem við viljum ekki þurfa að kaupa. Neytendur eiga enga aðild að búvörusamningi. Burt með hann.

Stjórntækir flokkar

Punktar

Æskilegt og líklegt er, að eftir kosningar verði mynduð ríkisstjórn, sem ýtir áfram nýrri stjórnarskrá. Sem kemur á heildstæðu kerfi uppboða á veiðiheimildum og annarri auðlindarentu. Sem notar þessar auknu ríkistekjur til að endurreisa fyrst heilsumálin, lífskjör aldraðra og öryrkja, og húsnæðismál unga fólksins. Píratar hafa þegar lagt fram metnaðarfulla stefnu á þessum sviðum. Í algerri andstöðu við ríkisstjórnarstefnu síðustu ára. Ætti að hafa hljómgrunn í öðrum flokkum, Vinstri grænum, Viðreisn, Samfylkingunni og Bjartri framtíð. Gott er, eð þessir flokkar fari að sýna kjósendum lit, svo að þeir teljist stjórntækir.

Bomban sprakk í andlitið

Punktar

Kosningabomba Vigdísar Hauks og Guðlaugs Þórs sprakk í andlit þeirra sjálfra. Viðtökur á þingi og utan þess eru undantekningarlítið neikvæðar. Þingmenn stjórnarmeirihlutans í fjárlaganefnd kannast ekki við aðild að málinu. Sjálfur forseti alþingis segir plagg þeirra Vigdísar og Guðlaugs bara vera samantekt utan við allar reglur þingskapa og því Alþingi með öllu óviðkomandi. „Aumingja maðurinn“, sagði þá Vigdís af sinni alkunnu hófsemi. Guðlaugur hefur beðist afsökunar á kjarnyrtum landráðabrigzlum plaggsins um nokkra embættismenn. Nú verður reynt að prófarkalesa plaggið og koma því í þolanlegt horf fyrir þingið.