Úreltur einkaréttur

Punktar

Með fyrirvara um smáa letrið hrósaði ég um daginn Þorgerði Katrínu fyrir lausn kvótagreifadeilunnar. Hefur síða reynzt vera ótímabært hrós. Hún hótaði. Hótaði sjómönnum neyðarlögum á verkfallið. Hafa raunar flestar ríkisstjórnir gert, en Þorgerður lét svo sem þetta væri ekki hótun. Raunar hafa sjómenn ekki getað gert neina samninga í fjölda ára, því ríkisstjórnir draga ætíð taum greifanna. Þeir geta látið veiða, þegar þeim sýnist, og látið stöðva veiðar, þegar þeim sýnist. Þeir hafa nefnilega úreltan einkarétt á veiðunum. Geti þeir ekki nýtt einkarétt, ætti að leyfa öðrum að leysa þá af hólmi. Brjóta þarf kvótagreifana á bak aftur.

Fésbókin er gölluð

Punktar

Ég nota fésbókina. Ekki því hún sé svo góð, heldur því hún er svo stór. Stærsti fjölmiðill heimsins. Gerir mér kleift að birta skoðanir á ýmsum sérsvæðum, til dæmis pírata. Gerir fólki kleift að dreifa skoðunum mínum með því að tengja þær inn á sín svæði. En fésbókin er ekki mín eign. Má loka á mig, hvenær sem er. Má sóa tíma mínum við að komast aftur í samband. Fésbók sýnir mér það efni, sem hún telur mig vilja sjá. Magnar þannig hugsanlega fordóma mína. Bloggið er að mörgu leyti betra. En nafnlausir „virkir í athugasemdum“ ganga þar um á skítugum skóm. Svo ég loka á þá, hef opið á fésbókinni. Bloggið er líka mín eigin geymsla, mín fortíð. Þar er allt, sem ég hef skrifað um ævina. Og ég á það sjálfur.

Lífeyris-sjóðasukkið

Punktar

Trygg­inga­fræði­staða Líf­eyr­is­sjóðs verzl­un­ar­manna versn­aði 2016 úr 8,7 pró­sent í 4,2%. Kaup sjóðsins á hlutabréfum í dapurlegum rekstri Icelandair lék þar stórt hlutverk. Þetta er stærsti lífeyrissjóður landsins og segir mikið um bransann í heild. Stjórnir þeirra eru illa skipaðar, jafnvel bröskurum, og hafa lítið vit á hlutabréfabraski. Lífeyrissjóðir eiga ekki að taka þátt í braski, heldur vera í traustum og hægum lánum, til dæmis ríkisskuldabréfum. Þau hæfa bezt traustri tryggingarfræðistöðu þeirra. Til langs tíma þarf að taka stjórn þeirra úr höndum spilltra milliliða. Og fela hana hlutlausum fræðimönnum og svo sjóðfélögunum.

Kvalaþrá kjósenda

Punktar

Hvað eftir annað sýna kannanir, að Íslendingar hafa mestar og auknar áhyggjur af stöðu heilbrigðismála. Síðan koma áhyggjur af spillingu í fjármálum og pólitík, af fá­tækt og fé­lags­leg­um ójöfnuði. Hálf þjóðin deilir þeim áhyggjum. Þetta eru stóru málin okkar, þótt fjölmiðlar birti meira um bús í búðum. Í kosningunum í nóvember lofuðu núverandi stjórnarflokkar öllu fögru og hafa svikið það allt. Kjósendur vissu þetta. En það nægir nægum fjölda, að bófaflokkur lofi himnaríki á jörð og fari svo umsvifalaust að vinna fyrir kvótagreifa. Kjósendur, sem vita betur, láta bófana sína taka sig ósmurt í rassinn, kosningar eftir kosningar.

Matur – þjónusta – umhverfi

Veitingar

Eftir áramótin eru tíu veitingahús á gæðalista mínum. Fyrst og fremst vegna eðalgóðrar matreiðslu, vingjarnlegrar þjónustu og notalegs umhverfis. Hóflegt verð í hádeginu (1900-2700 kr) skiptir líka máli, ég tími ekki að borga 9.000 kr að kvöldi. Þrír nýliðar eru á listanum, Matwerk, Matarkjallarinn og Essensia. Sjávargrillið trónir á toppnum eins og verið hefur undanfarin ár. Röðin á listanum skiptir þó minna máli en veran á listanum. Þetta eru allt frábær hús:

1. Sjávargrillið
2. Matur & drykkur
3. Fiskfélagið
4. Kopar
5. Matwerk
6. Matarkjallarinn
7. Holt
8. Essensia
9. Kaffivagninn
10.Ostabúðin
10.Grillmarkaðurinn

Þyrla upp ryki

Punktar

Þegar ráðherrum líður illa út af gagnrýni á gerðir þeirra eða iðjuleysi, þyrla þeir upp ryki. Láta koma fram getgátur um náttúrupassa, er reita fólk til reiði. Eða hugmyndir um bús í búðir, sem hafa sömu áhrif. Af  nógu er að taka, svo sem vegaskatt kringum Reykjavík. Halldór Laxness lýsir slíku vel í Atómstöðinni: Að grafa upp hugsanleg bein Jónasar Hallgrímssonar. Við þekkjum tillögur um breytta klukku. Allt fer á hvolf, því allir hafa vit á slíku. Fáir skilja alvörumál á borð við einn og sama vask á allt, allan fisk á markað, frjáls uppboð kvóta, gistináttagjald, nýja stjórnarskrá og einkavinavæðingu. En við vöðum bara reyk.

Gott hjá Þorgerði

Punktar

Gott er, að kvótagreifar og sjómenn sömdu án fjárhagslegrar þátttöku ríkisins. Ekki er heil brú í, að skattgreiðendur borgi hlut í kjörum sjómanna og nú hefur það verið aflagt. Að vísu gerðist það með því að ráðherra veifaði hótun um enn ein lögin á sjómenn. Og svo vitum við ekki enn um smáa letrið í samningunum. En á þessu stigi upplýsinga hefur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ráðherra haft sóma af festu sinni við að hafna aðild skattgreiðenda. Hefðbundnir kjarasamningar eru tilgangslausir, þegar annar aðilinn hefur einkarétt á veiðikvóta og getur flýtt eða frestað útgerð að vild. Miklu stærra mál er að afnema þessa úthlutun kvóta.

Misstu stuðning miðjunnar

Punktar

Þeir, sem hafa yfir milljón á mánuði, telja Ísland á réttri leið, kjósa Viðreisn eða Sjálfstæðisflokkinn. Hins vegar telur fólk með meðallaun, 400-600 krónur, Ísland á rangri leið. Meirihluti þjóðarinnar hefur þá skoðun. Vegna spillingar í fjármálum og stjórnmálum, félagslegs ójafnaðar og hnignunar velferðar, siðferðis og menntunar. Einkennishópur þessa miðstéttarfólks eru Píratar, sem höfðu að kjörorði: „Endurræsum Ísland“. Hins vegar var Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur yfirstéttarinnar, með slagorðið: „Á réttri leið“. Allur þorri kjósenda Bjartrar framtíðar telur Ísland á rangri leið. Samkvæmt könnun MMR og þjóðarpúlsi Gallup hefur stjórnin misst stuðning miðjunnar.

Lækkun ríkisvaxta

Punktar

Óskynsamlegt er að einkavinavæða ríkisbankana þrjá. Við vitum, hvernig síðast fór. Miklu nær er að ná vöxtum niður á ríkisskuldum. Smári McCarthy, þingmaður Pírata, hefur lagt það til. Þeir eru núna að meðaltali rúm 5%. Lífeyrissjóðirnir telja sig þurfa minnst 2,5% til að halda verðgildi inneignar sjóðfélaga. Þeir eru í vandræðum með að finna ábyggilega skuldunauta og sumir hafa fíflast til að kaupa í Icelandair. Miklu nær er að lána ríkinu á 3% vöxtum. Þetta hefði líka þá hliðarverkun, að Seðlabankanum væri ei lengur stætt á margföldum vöxtum annarra seðlabanka. Vaxtastýring bankans hefur hvort sem er aldrei nein áhrif haft.

30.000 fátæklingar

Punktar

70% gamlingja hafa það gott, samkvæmt Félagsvísindastofnun. Þýðir á íslenzku, að 7.000 gamlingjar hafa það ekki gott. 10% íslenzkra barna teljast fátæk, samkvæmt Unicef. það eru um 10.000 börn. Alls má telja, að tæplega 30.000 Íslendingar séu fátækir. Prósentan er ekki há, en beinar tölur segja betur, hvað er að. Það er, að hluti Íslendinga er fátækur og þúsundir þeirra eiga ekki fyllilega fyrir mat. Þetta gerist á sama tíma og hinir, sem hafa það nokkuð gott, hafa misst áhugann á fátæklingum. Þeir eru vonda fólkið. Hafa tekið trú á nýfrjálshyggju Hannesar Hólmsteins. Telja græðgi vera góða, kusu núverandi stjórn í síðustu kosningum.

Andstaðan til hjálpar

Punktar

Ráðherrarnir Sigríður Andersen og Jón Gunnarsson hafna frumvarpi stjórnarinnar um jafnlaunavottun. Sama gera Brynjar Níelsson og Óli Björn Kárason þingmenn. Þetta eru fjórir þingmenn Sjálfstæðis. Sigríður og Óli Björn eru ofsatrúarfólk Hannesar Hólmsteins. Jón og Brynjar eru hins vegar kúgunarsinnar og vilja sýna Viðreisn valdið. Þorsteinn Víglundsson ráðherra þarf því að leita stuðnings úr stjórnarandstöðunni til að frumvarpið nái fram að ganga. Þann stuðning fær hann, en eftir sitja sárindi í nýmyndaðri ríkisstjórn. Vafalaust mun Viðreisn hafna hliðstæðum stórmálum Sjálfstæðis til að sýna, að fleiri en einn séu að spila.

Þöggun er viðkvæm

Punktar

Tilefni pistils míns í gær var evrópsk skoðanakönnun, er sýndi mikinn meirihluta allra þjóða andvígan aðflutningi útlendinga. Ég tel mislukkaða þöggun vandamála við aðflutninginn hafa hraðað þessu ferli. Margir sjá þessa þöggun og hugsa í samræmi við það. Gunnar Smári hefur áður orðið reiður mínum málflutningi og varð að þessu sinni enn æstari. Reiðilesturinn má sjá á þræði Sósíalista í gær. Ég er að tala um framgang hægri öfgaflokka sem vandamál, en GSE túlkar orð mín sem rasisma. Telur tal um þöggun vera rasisma minn og engan raunveruleika. Ég tel mikla reiði hans afsaka orðnotkun hans og ekki leiða til frekari skoðanaskipta.

Þöggunin stórtapar

Punktar

Mér sýnist af skoðanakönnun í helztu ríkjum Evrópu, að mikill meirihluti fólks í öllum löndum sé andvígur komu múslima. Mér sýnist þetta munu leiða til mikils kosningasigurs róttækra flokka á hægri kanti. Sumir þessara flokka munu einnig hafa á stefnuskrá að leggja niður skatta. Þöggunin margumtalaða hefur ekki snúið þessu við. Kratar verða næsta fylgislausir í Svíþjóð og Svíþjóðardemókratar verða stærsti flokkurinn. Þannig innleiðist Trumpismi í Svíþjóð og öðrum löndum, þar sem kratar og aðrir fjölmenningarsinnar hafa hingað til oftast haft völdin. Breytingin verður hörðust í Svíþjóð, þar sem þöggunin hefur verið ákafast keyrð.

Framtíðin ekki búin

Punktar

Mér sýnist doði hlaupinn í stuðningsmenn Pírata. Væntu 30% fylgis, en fengu 15%. Þeim finnst það vera ósigur. En sá kann allt, sem bíða kann. Nú fá 10 þingmenn Pírata tækifæri til að læra á þingræðið og skrafið í hornunum. Þeir fá færi á að fara um kjördæmin og átta sig betur á viðbrögðum kjósenda. Öðlast skilning á því, hvers vegna 15% þjóðarinnar daðraði við Pírata fyrir kosningar, en brast kjarkinn í kjörklefanum. Í næstu kosningum verða Píratar málefnalega betur undir baráttuna búnir. Skilja betur ris og hnig í áhuga á stjórnarskrá og mikilvægi þess að mæta sjónhverfingum og lygum af fullri hörku. Framtíðin er alls ekki búin enn.

Fjárfestar kokka arðinn

Punktar

Verði auðlindaarður kreistur út úr greifunum, sem hafa einkarétt á nýtingu auðlindanna, mun hann ekki renna til þjóðarinnar. Bjarni Ben yfirbófi hefur stofnað nefnd fjárfesta og hagspekinga til að finna leið til að koma arðinum í hendur einkavina. Bankarnir verða seldir á einkavinaverði til skattsvikara, sem fá 20% afslátt, ef peningarnir koma úr skattaskjóli. Afgreiðslustofnun auðlindaarðs fær heitið stöðugleikasjóður. Alltaf góðir í nafngiftum, bófarnir. Hins vegar hefur stjórnarandstaðan hugsað sér, að auðlindaarðurinn fari í að halda uppi alvöru norrænni velferð og heilsu almennings. Þjóðin vill fá að nota arðinn sjálf.