Fútúrísk Essensia

Veitingar

Essensia neðst við Hverfisgötu gegnt Arnarhóli er fyrsta dæmið, sem ég sé um vel heppnað þema-matarhús. Allt innihaldið, stórt og smátt, kemur frá Ítalíu í fútúrískum stíl úr silfruðu stáli og speglum. Mjög róttækt, mjög flott, slípuð útgáfa af Mat & drykk og Von. Hákon Már Örvarsson býður í eldhúsinu upp á einfalda nútímamatreiðslu Miðjarðarhafsins. Steinbíturinn var rétt grillaður, borinn fram í undursamlegri sósu með kjúklingabaunum. Fyrstu vikurnar var þjónustan lakari, skafin ómenntuð upp af götunni og sigað á gestina. Nú hefur hún jafnað sig og kann betur til verka. Verð er sanngjarnt i hádeginu, 2.200 krónur fiskréttur dagsins. Eitt af fimm beztu matarhúsum borgarinnar.

Það er enginn gangráður

Punktar

Mannkynið hefur engan gangráð til að stjórna ferli okkar. Hitnun jarðar og mengun hafsins eru óviðráðanleg. Barátta menningarheima er orðin stjórnlaus í Sýrlandi og nágrenni. Fólk streymir tugþúsundum saman yfir landamæri í leit að betra lífi. Banksterar hafa tekið völd af pólitíkusum og eiga raunar næstum þá alla í Bandaríkjunum. Aldarfjórðungi eftir hrun kommúnismans er kapítalisminn að hrynja líka, orðinn að sjálfvirku skrímsli. TISA afskaffar lýðræði. Prentun verðlausra aura leikur lausum hala. Hér og þar er fólk farið að sjá storminn, Bernie Sanders í Bandaríkjunum, Jeremy Corbyn í Bretlandi, Píratar á Íslandi.

Endurræsing samfélagsins

Punktar

Endurræsa þarf margt eftir kosningarnar. Endurræsa þarf allt heilbrigðiskerfið eftir misþyrmingar og einkavinavæðingar Sjálfstæðisflokksins. Endurræsa þarf markaðshagkerfið, til dæmis í veiðiheimildum, raforkuverði til stóriðju og gjöldum af ferðaþjónustu. Endurræsa þarf samstöðu þjóðarinnar og hætta að skilja þá veiku og varnarlausu útundan. Ógeðslegri auðmannastefnu Sjálfstæðis og Framsóknar þarf að varpa í yztu myrkur. Taka upp gamla slagorðið: Frelsi, jöfnuður, bræðralag. Siðblind stefna mannhaturs og spillingar hefur runnið sitt skeið á enda. Nú tekur við endurræsing og nýtt Ísland fæðist í kjölfarið.

Ákveðinn ómöguleiki

Punktar

Ýmis samtök hafa rukkað inn svör flokkanna um stefnu þeirra í hagsmunamálum samtakanna. Síðan borið saman innihaldið. Hlýtur að teljast nokkuð skondið að bera saman stefnu flokka, sem ætíð, oft, sjaldan eða aldrei svíkja stefnuna. Án þess að vita um fyrri ósannindi flokkanna er marklaust að bera saman stefnu þeirra. Sjálfstæðis og Framsókn ljúga alltaf, fyrir því er reynsla. Um aðra flokka er flóknara að dæma, því þeir hafa ekki verið í valdaaðstöðu til að efna loforð. Ég mundi fara varlega í að treysta orðum Sjálfstæðis og Framsóknar, sem hafa fundið upp orðin „ákveðinn ómöguleiki“, þegar spurt er um efndir.

Dauðadæmd fabrikka

Punktar

Verksmiðja kjördæmispotaranna á Bakka er dauðadæmd. Aðstandendur hennar hirtu ekki um að afla sér nauðsynlegra leyfa. Óðu bara áfram í fullkomnum skorti á dómgreind. Ein afleiðingin er Vaðlaheiðargöng, sem kosta milljörðum meira en áætlað var. Nú hefur úrskurðarnefnd umhverfismála ógilt samþykkt Mývetninga á raflínu Landsnets frá Þeistareykjum til Húsavíkur. Framkvæmdir stöðvast við línuna og Bakkaver. Ljóst er, að hér hafa æðikollar vaðið áfram í stað þess að bíða eftir réttum pappírum. Þar á meðal ríkisfyrirtæki eins og Landsnet, sem hvað eftir annað lendir í svona frekjugangi. Þá rándýru drjóla þarf að reka.

Stjórnlausar hamfarir

Punktar

Stjórnvöld hafa misst tök á landsmálum. Í góðærinu hefur ungt fólk ekki lengur efni á að koma yfir sig þaki. Stjórnin sparkar ítrekað í öryrkja og aldraða, tryggustu fylgismenn sína. Hlutafélagavæddar ríkisstofnanir leika lausum hala, allt frá Landsvirkjun yfir í Isavia. Biðlistar lengjast hratt á Landspítala. Stjórnleysi magnast líka erlendis. Hundruð farast í hryðjuverkum. Tíuþúsund börn hafa horfið sporlaust í Evrópu á nokkrum árum. Verðsveiflur olíu eru ekki lengur viðráðanlegar. Einnig mengun hafsins og hitnun jarðar af mannavöldum. Við þurfum nýtt fólk með nýja yfirsýn og nýjar lausnir. Við þurfum pírata.

Engin endurræsing þar

Punktar

Fylgisaukning Viðreisnar stöðvaðist í tæplega 10% fylgi, þrátt fyrir ágætis almannatengsli. Líklega eru þetta aðallega ósáttir sjálfstæðismenn. Forustan tekur fyrirtæki fram yfir fólk eins og móðurflokkurinn. Býður væntanlega hins vegar upp á minni spillingu, en það nægir ekki miðjufólki. Ef Sjálfstæðis skutlar út gerspillta sætabrauðsdrengnum, fer þetta lið aftur í gamla flokkinn sinn. Þetta er semsagt framboð ósáttra sjálfstæðismanna með ýmis fyrirmenni atvinnulífsins í boði. Viðreisn endurreisir ekki samfélagið, en gæti síðar endurreist skipreika Sjálfstæðisflokkinn. Miðjuflokkur er hún engan veginn.

Einstæður kjörþokki

Punktar

Ég hef enga skýringu á fylgissveiflu Vinstri grænna nema Katrínu Jakobsdóttur. Hún hefur einstæðan kjörþokka og yrði friðarhöfðingi sem forsætisráðherra. Hún hefur allt, sem gamla gengið í Samfylkingunni hefur ekki. Hún þyrfti bara að losna við Steingrím J. Sigfússon, sem er grunaður um stuðning við kvótagreifa og hvers kyns kjördæmispot. Að honum frátöldum hafa vinstri grænir yfirbragð vistvænna græningja. Það er málaflokkur, sem er frekar veikur hjá pírötum, þótt þeir séu sammála um að friða miðhálendi Íslands. Það er eitt af stóru málunum í endurræsingu samfélagsins, sem við væntum á komandi kjörtímabili.

Þægilega innivinnan

Punktar

Mér hefur aldrei fundizt Björt framtíð vera áhugaverður flokkur. Meira svona aðferð við að komast í þægilega innivinnu. Í sumum sveitarfélögum myndar hún meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Einn þingmaður flokksins flutti lofræðu um kvótagreifa á landsþingi þeirra. Svo eru þeir flottir í tauinu, sem mér finnst ekki til bóta. Í þessari kosningabaráttu eru þeir opnir í alla enda. Þannig að ég vissi ekkert um, hvað ég fengi, ef ég styddi þá. Ég efast um, að næsti stjórnarmeirihluti þurfi á þrem-fjórum þingmönnum Bjartrar framtíðar að halda. Og finnst það bara í góðu lagi. Björt framtíð endurræsir ekki samfélagið.

Stóridómur nálgast

Punktar

Bara vika er til kosninga og kannanir komnar bærilega nálægt því, sem kemur upp úr kössunum eftir viku. Moggakönnunin nýja er stór, tekin fyrir viku og staðfestir þróun undanfarinna vikna. Sýnir þrjá turna með 19-22% fylgi hver, Pírata, Sjálfstæðis og Vinstri græn. Samtals hafa þeir 62% alls fylgis og 13-15 þingmenn hver. Síðan koma smáflokkarnir í hóp með 6-9% hver og 4-6 þingmen hver. Flokkur fólksins er með 3,8 og gæti hæglega náð inn þingmönnum í síðustu viku stríðsins. Gífurlegt fylgi pírata sýnir, að með litlu rekstrarfé er hægt að ná betri árangri en með milljóna mútufé úr ofursjóðum kvótagreifa.

Píratar massa fésbókina

Punktar

Ekki kemur á óvart, að unga fólkið í Pírötum er fyrirferðarmest á vefmiðlum á borð við Facebook. Ekki kemur heldur á óvart, að Vinstri græn eru daufust á þeim vettvangi, bara einn þrettándi af þátttöku pírata. Píratar eru á kafi í nútímanum, en vinstri græn klóra fé sínu og bíða eftir vinnu hjá stóriðjunni á Bakka. Þátttaka stuðningsfólks Bjartrar framtíðar, Samfylkingar, Viðreisnar og Framsóknar er litlu skárri en Vinstri grænna. Viðreisn hefur faglega unnið efni á fésbókinni, en viðbrögð notenda eru dauf. Stutt er í, að hér verði tveir turnar í pólitíkinni, Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar, og er það vel.

Óhæfar taugahrúgur

Punktar

Símtal Davíðs og Geirs Haarde á síðustu mínútunum fyrir hrun er sagnfræðilegur minnisvarði. Sýnir tvo menn ráða ekki við hlutverk sitt. Davíð áttar sig skár á stöðunni. Telur sig þurfa upptökubúnað til að varðveita símtalið. Þannig getur hann reynt að haga talinu þannig, að sökin á hruninu beinist frekar að Geir. Áratug síðar kennir hvor hinum um, þótt hvor eigi sinn þátt. Ef símtalið er skoðað í samhengi við taugaveiklaða innrás Davíðs á ríkisstjórnarfundinn, sjást hrunskýin hrannast upp. Óhæfar taugahrúgur brenndu tugi ef ekki hundruð milljarða í fyrirsjáanlega gagnslausum mokstri þjóðarsjóðsins í glæpabankana.

Þrír andvígir markaði

Punktar

Kosningamálin skýrðust verulega í dag. Björt framtíð er hægri flokkur, sem vill áfram hafa kvótakerfi í fiskveiðum. Hún hafnar beinlínis frjálsu uppboði veiðileyfa, hafnar frjálsum markaði eins og aðrir hægri flokkar. Hér eftir flokkast Björt framtíð með Sjálfstæðisflokkum sem varadekk í stað sprungins framsóknardekks. Viðreisn útskýrði líka stöðu sína frá í gær. Hún er alls ekki andvíg stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum. Er bara á móti því að verða þriðja hjól í samstarfi Sjálfstæðis og Framsóknar. Vill ekki heldur uppboð veiðileyfa, hafnar frjálsum markaði. Þrír hægri flokkar andvígir markaðsleið.

Viðreisn talar í kross

Punktar

Nú eru þeir farnir að tala í kross, höfðingjarnir í Viðreisn. Enda er loftið farið að síga úr blöðrunni, fylgið komið niður fyrir 7%. Þorsteinn Víglundsson segir flokkinn opinn í alla enda eins og Björt framtíð. Benedikt Jóhannesson segist ekki ætla í stjórnarsamstarf við Framsókn eða Sjálfstæðis. Vill hins vegar viðræður við Pírata EFTIR kosningar. Ætli þessi krossdans endist ekki fram undir kosningar, Viðreisnarfólki til vansældar. Frambjóðendurnir þurfa kannski að hittast og koma sér saman. Vinstri græn eru hins vegar komin í sveiflu og nálgast fylgi Pírata og Sjálfstæðis sem þriðji turninn í pólitík.

Viðreisn sér ljósið

Punktar

Fundarboð Pírata um viðræður um hugsanlegt stjórnarsamstarf hefur þegar haft markverð áhrif. Eftir daufar móttökur í fyrstu afneitaði formaður Viðreisnar Sjálfstæðisflokknum í morgun. Yfirlýsing hans er skýr og henni verður trúað, þegar Benedikt hefur afneitað Bjarna þrisvar. Í stað ríkisstjórnar Sjálfstæðis og Viðreisnar fáum við stjórn Pírata og Viðreisnar og væntanlega Samfylkingar og Vinstri grænna, sem óneitanlega hljómar betur. Auðvitað er allt þetta háð því, hvað kemur upp úr kjörkössunum. Við bíðum nú eftir nánari útlistunum á, gildi afneitunar Viðreisnar. Samkvæmt orðanna hljóðan fer að birta í pólitík.