Tvísaga um kosningar

Punktar

Ríkisstjórnin er tvísaga um skilyrðingu kosningamánaðar. Einstakir ráðherrar eru jafnvel tvísaga. Framsókn keypti stól forsætisráðherra út kjörtímabilið í skiptum fyrir haustkosningar. Bomba draugsins sprakk svo í miðri skák. Engin svör fást við spurningum um skilyrðin. Listinn lengist og dregst saman á víxl. Stundum er sagt, að friður um þrjár greinar í stjórnarskrá sé meðal skilyrða. Tillaga nefndarformanns er þó svo fráleit, að aldrei næst samkomulag um hana. Ráðherrar og flestir þingmenn Sjálfstæðisflokks eru sáttir við haustkosningar, en þingfífl Framsóknar fá grænar bólur við hugsunina um yfirvofandi fall sitt.

Draugur gengur aftur

Punktar

Eftir langa ljúfa sumardaga kom myrkur og steypiregn. Gamalkunnug kjósendafæla kom á skjáinn. Draugurinn er útskrifaður enn einu sinni og genginn aftur til að ganga endanlega frá Framsókn. „Kominn heim“, ekki að eyðibýlinu Hrafnabjörgum, heldur í Garðabæinn. Ég er búinn að leita sóknarfæra, segir hann, látið það ekki slá ykkur út af laginu. Ekkert liggi á að kjósa fyrr en með nýju vori. Væntanlega er hann með í farteskinu ný ógnarloforð, sem slá út fyrri heimsmet hans í lok síðasta kjörtímabils. Hvað með hálfa milljón handa sérhverjum í borgaralaun? Hvað skyldi kveikja vonarneista í síðustu framsóknarhjörtunum?

Dularfullar skúffur

Punktar

Einkarekna auðmanna-sjúkrahúsið fyrirhugaða í Mosó hefur dularfullar hliðar, sem Lára Hanna Einarsdóttir hefur rakið á fésbókinni. Eigendur eru nafnlausir í skúffufyrirtækjum og draumórafyrirtækjum. Heimsfrægi læknirinn, Pedro Brugada, hefur ekki komið við sögu læknisfræði. Stjórnarformaður er Hendri Middeldorp fasteignasali í smáum stíl. Fyrirtækið starfar bakvið fölsuð símanúmer og litla skúffu til heimilis að Weegschaalstraat 3, Eindhoven. Við sögu kemur braskarinn Gunnar Ármannsson ráðgjafi, sagður hafa góð sambönd við íslenzka valdamen. Og svo er þarna einhvers staðar tvífari Kristjáns Þórs, sem ekki hefur fundizt.

Lára Hanna

Ást á einkavæðingu

Punktar

Skortur á hreinu vatni er eitt stærsta vandamál mannkyns. Nærri milljarð manna vantar aðgang að öruggu drykkjarvatni. Á hverju ári deyr hálf önnur milljón barna af þess völdum. Sums staðar, einkum í Rómönsku Ameríku, hafa fégráðugar ríkisstjórnir selt einkafyrirtækjum vatnsréttindi. Hafa þannig kallað hörmungar yfir íbúana. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti nýlega, að aðgangur að hreinu vatni teldist til mannréttinda. 122 aðildarríki studdu ályktunina. Hjá sátu 41 ríki, þar á meðal Bandaríkin og Ísland. Engar skýringar hafa fengizt á hjásetu Íslands. Líklega stafar hún af ást ríkisstjórnarinnar á einkavæðingu.

Glæpir margborga sig

Punktar

Fyrirtæki verða ekki fyrir miklu tjóni, þótt upp komist um svindl og svínarí. Europol hefur reiknað út, að sektir slíkra fyrirtækja í Evrópu nema bara 2,2% af hagnaðinum af glæpum þeirra vegna haldlagningar eða kyrrsetningar. Glæpir borga sig og bezt borga sig fjárglæfrar. Við höfum séð þetta á Íslandi, þar sem bankar og bankastjórar hrunbankanna fá aðeins málamyndadóma fyrir tugmilljarða svindl og svínarí. Þessir glæpir eru nefnilega taldir yfirstéttarglæpir og þá eru viðurlög mest til að sýnast. Nærri 98% þýfisins situr eftir hjá þjófunum.

Óljós ómöguleiki

Punktar

Bjarni Ben kallaði það „ákveðinn ómöguleika“ að efna loforð um þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Hann skýrði ekki, hvernig væri mögulegt að gefa ómögulegt loforð. Svona tala siðblindir stjórnmálamenn. Lilja Alfreðsdóttir temur sér svipaðan talsmáta. Hún segir það „of óljóst að spyrja“ þjóðina um framhald aðildarviðræðna. Skýrði auðvitað ekki, hvernig eða hvers vegna það sé óljóst. Siðblindan heldur áfram, þótt skipt sé um andlit á henni. Um þessar mundir þarf þjóðin ekki á þess konar endurnýjun í pólitík að halda. Hún biður frekar um að talað sé við sig eins og fullorðið fólk.

Að þéna 83 milljarða

Punktar

Mesti reiknimeistari íslenzkrar fjölmiðlunar segir, að ríkissjóður mundi þéna 83 milljarða á ári á uppboði veiðileyfa. Gunnar Smári Egilsson byggir á tölum úr uppboðum veiðileyfa í Færeyjum og færir yfir á íslenzkt aflamagn. Uppboð eru auðvitað hið markaðsvæna mat á réttlátri auðlindarentu. Hér á landi ríkir hins vegar pilsfaldavænt mat upp á aðeins 5 milljarða króna. Að kröfu kommúnistanna í Sjálfstæðisflokknum og Framsókn. Uppboð veiðileyfa mundi leysa öll vandræði þjóðarinnar við að halda uppi norrænni velferð, heilsumálum og menntun.

Fréttatíminn

Tvífari ráðherrans

Punktar

Skemmdarvargar hafa gert Kristjáni Þór Júlíussyni þann óleik að senda tvífara hans á athafnir af ýmsu tagi. Senda síðan fjölmiðlum ljósmyndir af tvífaranum í viðkvæmum aðstæðum. Ýmislegt bendir til, að þeir hafi árum saman stundað slíka glæpi. Kristján Þór er þekktur fyrir hástemmdan vilja til að sjúkir verði sem fyrst og bezt læknaðir. Bófarnir hafa inn á milli sent tvífarann inn á alþingi að greiða atkvæði þveröfugt á vilja ráðherrans. Nú síðast var tvífarinn sendur inn á fund auðkýfinga, sem vilja reisa spítala fyrir ríka. Ráðherrann segist aldrei hafa hitt þá kóna, en tvífarinn stendur keikur á sínu á ljósmyndinni.

Myrkrið er komið

Punktar

Neyðarlögin í Tyrklandi afnema mannréttindi í landinu. Lögreglunni er heimilt að gera hvað sem henni þóknast. Hún má fyrirskipta útgöngubann, fundabann, tjáningarbann, og umferðarbann. Því er tímabært að vísa ríkinu úr Nató. Einnig að binda enda á samninga um inngöngu í Evrópusambandið. Undir stjórn Recep Tayyip Erdoğan er Tyrkland komið á róttækan miðaldaveg íslamista. Erdoğan segir til dæmis sjálfur, að karlar séu konum æðri. Á fimmtán árum hefur Tyrkland fært sig frá Evrópu inn í miðaldamyrkur íslams. Fyrir fimmtán árum var Istanbul vestræn og frjálsleg, en nú eru flestar konur komnar með þrælsmerki slæðunnar.

Eyjapeyjum fatast vörnin

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn á Vestmannaeyjar með húð og hári. Stjórnarfarið er eftir því. Lögreglustjórinn er kosningastjóri bæjarstjórans til þingsetu og maki lögreglustjórans var gerður að stjóra hjá bænum. Lögreglustjórinn er andvígur stefnu fagaðila um meðferð nauðgana á þjóðhátíð og vill ekki, að þær séu raktar í fréttum. Hljómsveitarfólk finnur til samábyrgðar, neitar að mæta í þöggunina. Í stað þess að redda málinu, fara klíkustjórar Eyja að tala um annað, bjóða Landspítalanum og áður brottreknum Stígamótum að skoða undirbúninginn. Þessir ágætu aðilar hafa þó ekki boðvald yfir „latté-lepjandi“ fólki úr „hverfi 101“.

Húsnæðisvandinn er launavandi

Punktar

Hagsmunir unga fólksins felst í að komast í varanlegt heimili fyrir hóflegan hluta launa sinna. Minni hagsmunir felast í, hvort það eigi húsnæði eða leigi. Enn minni hagsmunir felst í sjónhverfingum um húsaleigubætur, vaxtabætur eða smíði smáíbúða, sem verða Airbnb fyrir túrista. Vandinn er allt annar, að laun eru of lág. Því að hundrað milljörðum er árlega stolið undan skiptum og falið í skattaskjólum. Lágmarkslaun þurfa að hækka í sama og gerist í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Þau geta hækkað í 400.000 krónur á mánuði með því að ná falda fénu inn í þjóðarbúskapinn. Húsnæðisvandinn snýst bara um of lág laun Íslendinga.

Sælutími álitsgjafa

Punktar

Kosningabaráttan er hafin með skeytasendingum Eyglóar Harðardóttur ráðherra og nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Deiluefnið er, hvort bófarnir hafi grafið undan tillögum Eyglóar til lausnar húsnæðisvandans. Tillögurnar voru í smíðum allt kjörtímabilið. Læt milli hluta liggja, hvor aðilinn hafi rétt fyrir sér. Staðnæmist bara við, að stjórnarflokkarnir eru farnir að rífast. Kenna hvor öðrum um ófarir kjörtímabilsins. Bráðum fáum við meira að heyra um annan ágreining, svo sem um stjórnarskrána, uppboð veiðileyfa og hrun heilbrigðismála og velferðar á kjörtímabilinu. Þá verður sko engin gúrkutíð hjá álitsgjöfum.

Ófaglegur löggustjóri

Punktar

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í nauðganabæ Íslands, hefur tvö áhugamál. Annað er, að Elliði Vignisson bæjarstjóri verði þingmaður. Hitt er, að þöggun ríki um nauðganir á þjóðhátíð í Eyjum. Hún tók upp þá tilskipun fyrir ári, en hafði ekki erindi sem erfiði. Fagfólkið tók ekki mark á lögreglustjóranum, svo einfalt er það, neitaði að hlýða. Sama er uppi á teningnum núna. Neyðarmóttaka Landspítalans segist ekkert mark taka á tilskipunum lögreglustjórans. Skrítin staða stjórans, sem sendir út tilskipanir til óviðkomandi aðila í kerfinu. Og tekur að sér að stjórna kosningaslag innan pólitíska andverðleikaflokksins.

Sérstæð loforð

Punktar

Kosningaloforð verða sérstæð að þessu sinni. Bjarni Ben telur helzt til ráða að stæla stefnu pírata í heilsumálum. Láta árásirnar á heilsu landsmanna á þessu kjörtímabili ganga til baka á því næsta. Viðreisn stælir stefnu pírata í útboði á kvóta. Meiri athygli vekur, að ýmsir frambjóðendur í prófkjörum pírata eru andvígir meginstefnu pírata, nýju stjórnarskránni, sem liggur niðri í skúffu. Áhugalausir um stefnu pírata á útboði veiðikvóta og að allur fiskur fari á markað. Áhugalausir um stefnu pírata í auknum framlögum til heilsumála. Þetta prófkjörsfólk tók feil á flokkum, ætti að vera í nýfrjálshyggju Davíðista.

Árekstur menningarheima

Punktar

Stjórnmálafræðingurinn Samuel P. Huntington birti fræga grein, The Clash of Civilizations, árið 1993 í Foreign Affairs. Og samnefnda bók þremur árum síðar. Í skrifum sínum hélt Huntington fram, að þessi öld mundi einkennast af baráttu menningarheima. Einkum milli íslam annars vegar og vestrænu hins vegar. Bókin var óbeint andsvar við frægri bók Francis Fukuyama, The End of History. Hingað til hafa atburðir frekar hallazt að Huntington en Fukuyama. Ófriður í heiminum er mikill og nánast bara á mærum íslam eða innan íslam. Byltingarblóðbaðið í Tyrklandi er í beinu framhaldi af hryðjuverkum í Evrópu og landhlaupi á Balkan.

Barátta menningarheima