Skrið á sósíalistum

Punktar

Sósíalistar eru komnir á bezta skrið í kosningabaráttunni. Birta í fésbók stutta lýsingu á lífshlaupi frambjóðendanna, eins á hverjum degi. Líklega skrifar Gunnar Smári þetta sjálfur. Af lýsingunni má sjá harmsögur hversdagshetjanna. Oftast fætt á landsbyggð, missti af langskólagöngu, lenti í láglaunastarfi, barneignum, skilnaði, sumt í veikindum eða slysum. Þetta er fólkið, sem veit á eigin skinni hvað er að í samfélaginu. Vita það betur en langskólagengið fólk í Samfylkingunni eða Vinstri grænum. Á betur heima í borgarstjórn en flestir aðrir frambjóðendur. Ég fylgi áfram Pírötum, en óska hversdagshetjum sósíalista góðum kosningatölum.

Löng saga Eyþórs

Punktar

Eyþór Arnalds á langa sögu í braskinu. Lék stórt hlutverk í glannalegri siglingu OZ lóðbeint á hausinn. Stofnaði Becromal á Akureyri, sem situr uppi með neikvætt fé upp á hálfan fimmta milljarð. Hugðist virkja rafmagn við Hagavatn með því að halda fram gróðureflingu af völdum sandfoks. Efndi til búgarðahverfis milli Selfoss og Eyrarbakka, en sárafáir urðu þar kaupendur að lóðum. Var forseti bæjarstjórnar Árbogar, þið munið kúkinn í Ölfusá. Erindi Eyþórs í borgarstjórn Reykjavíkur er að efla verðgildi ýmissa lóða og fyrirtækja í Örfirisey og víðar í borginni. Hann er raunar frambjóðandi fjárglæframanna og kennitöluflakkara.

Flest er við það sama

Punktar

Skoðanakannanir eru sammála um, að litlar breytingar verði á fylgi flokkanna í Reykjavík. Vinstri græn tapa litlu, þrátt fyrir U-beygju sína í fang íhaldsins. Frambjóðandi Jehóva og íhaldsins reynist ekki vera pólitísk söluvara og verður ekki borgarstjóri. Þrátt fyrir tvíeggjaðan feril, liggur beint við, að Dagur verði áfram borgarstjóri. Hann getur tryggt það með því að fela Hjálmar á dimmum stað. Píratar eru á jaðri þess að auka fylgið og áhrif sín í borgarstjórn. Stóra spurningamerkið er Sósíalistaflokkurinn, eins manns flokkur margra manna maka. Kjósendur þurfa svo að útrýma bófaflokknum, en munu því miður ekki gera það núna.

Aðeins tveir kostir

Punktar

Flestir frambjóðendur Sósíalista eru fátækir eins og umbjóðendur þeirra. Gæti vel hugsað mér að kjósa þá í bæjarstjórnir og alþingi, ef ekki væri fyrir forskrifaða stefnu frá Karli heitnum Marx. Ég óttast forskriftir, einnig þær sem eru frá Friedrich Hayek eða Milton Friedmann. Veit þó, að versti vandi Íslendinga felst í ört vaxandi ójafnaði ríkra og fátækra. Af þeim sökum hef ég frá upphafi kosið Pírata. Þeir fara ekki eftir aldargömlum forskriftum, heldur skoða kosti og galla þess, sem hægt er að framkvæma. Ég held það leiði til sömu niðurstöðu um, að jafna þurfi lífskjörin. En gott er fyrir mig að hafa tvo flokka til að velja um.

Leiðbeiningar um þjófnaði

Punktar

Þyngstar refsingar eru fyrir stuld á bjórkippu, sé refsing borin saman við verð þýfis. Gott væri að birta auglýsingar, sem skýra fyrir okkur, sem höfum hug á að fremja glæpi, hvernig og hvar verða örlagaskipti í þjófnaði. Hvað þurfi til dæmis að stela miklu til að fangelsisdómur verði skilorðsbundinn og hversu miklu til að mál fyrnist. Gott væri líka að birta auglýsingar, sem skýra fyrir okkur, hvað borgi sig bezt, hækkun í hafi, hulin umboðslaun, kannski kennitöluskipti eða þá aðild að ónefnanlegum stjórnmálaflokki. Gott væri loks að vita, hvað ég þarf að fara í mörg milljarðaþrot til að teljast tækur sem borgarstjóra-kandídat bófanna.

Brosið helmingi styttra

Punktar

Brosið á Katrínu Jakobsdóttur var tíu sentimetra breitt fyrir áramót. Nú er það skroppið saman í fimm sentimetra. Og horfið úr augunum. Hefur fattað eitthvað, sem hún fattaði ekki fyrir áramót. Komin undir beltið á skriðdreka bófaflokksins. Á enga útleið aðra en að segja stjórnarsamstarfið hafa brugðizt. Er ennfremur heiðarlegast. Þetta voru mistök. Bófaflokkurinn fer ekki eftir neinum reglum, þær eru bara fyrir aðra. Foringi flokksins er margfalt gjaldþrota fjárglæframaður. Nú á foringi xD í Reykjavík að vera annar eins margfalt gjaldþrota fjárglæframaður.

Hitnar undir kalda stríðinu

Punktar

Styður Ísland loftárásir Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands á Sýrland? Norðmaðurinn Jens Stoltenberg, forstjóri NATÓ, hefur svarað spurningunni, sem Katrín Jakobsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson hafa bullað sig út úr að svara. Já, Ísland styður loftárásirnar, þótt forsætis- og utanríkisráðherrar okkar hafi ekki getað komið því skiljanlega frá sér. Við höfum raunar alltaf stutt Nató og Bandaríkin gegn áður Sovétríkjunum og núna Rússlandi. Við höfum enn ekki horfzt í augu við þá staðreynd, að forseti Bandaríkjanna er vangefinn brjálæðingur, sem á eftir að verða Vesturlöndum margfalt dýrari. Það hitnar undir kalda stríðinu.

Samstarf étur börnin sín

Punktar

Birgitta Jónsdóttir skrifaði fyrir helgi umtalaða grein um pólitískan feril sinn. Segir stærsta vanda pírata og annarra breytingasinna vera að reyna að breyta hinu inngróna þjófræði innan frá. Með samstarfi á alþingi um breytingar. Komið hefur í ljós, að sú ætlun er erfið í framkvæmd. Stjórnmálamenn falla smám saman inn í þau form, sem fyrir eru, áratuga gömul. Vinstri græn fara í stjórnarsamstarf með bófaflokknum og hafa þar engin áhrif. En draga smám saman dám af bófunum. Þetta er túlkun mín á orðum Birgittu. Þau falla saman við skilning minn á því sérstæða lýðræði, sem felst í þjófræði bófaflokksins. Sá vandi leysist bara með byltingu.

Lygin einkennir bönker-ista

Punktar

Fyrrum forstjóri FBI, bandarísku alríkislögreglunnar, James Comey, var á sínum tíma frægur fyrir að rústa Gambino-fjölskyldunni, sem stjórnaði mafíunni í New York. Donald Trump rak hann út embætti í fyrra. Comey hefur nú skrifað bókina, A Hig­her Loyal­ty, sem lýsir bilun Trumps. Sá er haldinn af bunker-sýki, sem lýsir sér í fleiri pólitíkusum, eins og Hitler og Erdoğan. Slíkir stilla heiminum upp í með-og-móti hópa, sjá alla sitja á svikráðum við sig, reka menn á tvist og bast, safna um sig jábræðrum, sem magna heimssýn foringjans. Ljúga í sífellu, krefjast óbilandi hollustu við sig, gegn siðferði og sannleika. Trump er alger hælismatur.

Flogið í hreiður gauksins

Punktar

Fljúgðu ekki í The Coocoo’s Nest á Grandanum til að borða. Þú ferð út af erlendu gestunum og rustalegum innréttingum í einni verbúðanna. Í hádeginu er allt fullt af gestum, sömu týpu Íslendinga og útlendinga, einkum Bandaríkjamanna. Hér tala allir við alla, þvert á borð. Þetta er samfélag menntaðs farandfólks. Ekki einu sinni vegna hamborgara eða pizzu, því slíkt fæst ekki þarna. Þarna eru súpa og samlokur á boðstólum, líklega fjölþjóðlegur samsetningur. Súpan var matarmikil og góð. Samloka dagsins óæt, líklega með skemmdu nautakjöti, en brauðið sjálft var þykkt og gott. Geri ekki ráð fyrir að mæta í selskapið öðru sinni. Þjónustan fín.

Eyþór Arnalds selst ekki

Punktar

Borgarstjóraefni bófaflokksins er ekki söluvara. Hans aðalmál er fagurt mannlíf í þéttbýlli Örfirisey. Þar á hann lóðir, sem hann hyggst koma í hátt verð. Hann á víðar lóðir, sem hann hyggst gera verðmætar í borgarpólitíkinni. Eyþór er bara billegur braskari, svo sem sést langar leiðir. Langtum lakari en forverar hans í oddvitastöðunni. Hann fær þau 25%, sem bófarnir féllu í, þegar kjósendur áttuðu sig á glæpahneigð flokksins. Lægra kemst xD ekki, nema hægt og bítandi, þegar öldruð og ofsótt flokksfífl deyja smám saman út. Lága fylgið á ekki að duga flokknum til neinna valda, en ýmsir flokkar girnast enn hlutverk greifahækjunnar

Framboð umfram eftirspurn

Punktar

Fjórtán flokkar hafa hótað aðild að borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík í vor. Meira framboð en eftirspurn. Kannanir lofa nýlegum flokkum ekki góðu. Segja sex-átta flokka af fjórtán ná inn fulltrúum. Flokkur fólksins og Framsókn komast varla á blað. Ekkert sést heldur til Alþýðufylkingarinnar og Sósíalistaflokksins, né heldur til Íslenzku þjóðfylkingarinnar, Höfuðborgarlistans, Frelsisflokksins og Kvennaframboðsins. Sumir þeirra kunna að ná framgangi á kostnað gömlu flokkana og annarra flokka, sem hafa náð fótfestu. Kraðak verður í kosningabaráttunni. En kjósendur þurfa bara að átta sig á á, að eitt er stefna, en verkin ein tala. Samanber VG.

Lífið er lygi

Punktar

Engum er lengur treystandi. Íhaldsstjórnin í Bretlandi kenndi Pútín um tvöfalt morð í Bretlandi. Engin gögn voru birt því til stuðnings. Ýmsir létu þó ginnast til trúgirni. Þar á meðal ríkisstjórn Íslands, sem neitaði að senda fulltrúa sína á íþróttamót í Rússlandi. Komið er í ljós, að hin myrtu feðgin eru sprelllifandi. Styrjöldin í Sýrlandi ætti líka að vara fólk við trúgirni. Fullyrt sitt á hvað, hverjir noti eitursprengjur og hvort þær séu yfirleitt notaðar. Traustið er týnt. Nató margstaðið að lygum og líka vestræn stórveldi. Hér á landi laskaðist traust verulega, þegar Vinstri græn, þvert ofan í loforð, fóru í stjórn með bófunum. Allt lífið er lygi.

Allt er upp í loft

Punktar

Ný könnun sýnir meirihluta borgarstjórans fallinn. Samfylkingin með Vinstri grænum og Pírötum með alls 11 af 23 borgarfulltrúum. Speglun ríkisstjórnarinnar  með Sjálfstæðisflokknum, Framsókn og Vinstri grænum næði samt ekki nýjum meirihluta. Viðreisn gæti valið, með hvorum hópnum hún vildi standa, og þannig búið til 13 fulltrúa meirihluta. Flokkur fólksins, Framsókn og Miðflokkurinn gætu í staðinn hver um sig myndað 12 fulltrúa meirihluta með hvorum hópnum sem er. Þá er ekki gert ráð fyrir, að Sósíalistar eða Kvennaframboðið næðu fulltrúa. Það er þannig ljóst, að rétt fyrr kosningar er allt í óvissu um næsta borgarmeirihluta.

Sex afturhaldsflokkar

Punktar

Miðflokkur Sigmundar Davíðs er klofningur úr Framsóknarflokknum og Viðreisn er Evrópuklofningur úr Sjálfstæðisflokknum. Flokkur fólksins kennir ekki aukinni stéttaskiptingu um fátæktina, heldur hælisleitendum. Mun hlaupa í faðm auðgreifa, þegar til kastanna kemur. Vinstri græn hafa alltaf stutt auðgreifana. Þessir sex flokkar hafa meirihlutafylgi í Reykjavík og á landinu öllu. Þess vegna er þjóðin í kreppu milli auðgreifa annars vegar og valdalauss almennings hins vegar. Þjófar og aðrir bófar munu áfram stefna að aukinni stéttaskiptingu og einkavinavæðingu. Þessir sex flokkar standa í vegi framfarabrautar og óska alls þorra þjóðarinnar.