Allsráðandi Sjálfstæðis

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn ræður öllu, stóru og smáu, í ríkisstjórninni. Einstakir ráðherrar annarra flokka mega bulla út og suður, jafnvel dögum saman. Bjarni þegir bara og sólar sig í fríinu. Þegar Benedikt frændi er búinn að tala sig hásan um fráleitan búvörusamning, segir Bjarni bara: Samningar munu standa. Og málið er úr sögunni. Litlu flokkarnir í ríkisstjórninni mælast ekki með neinn þingmann í könnunum. Stundum segir Björt eitthvað óljóst, en Bjarni nennir ekki einu sinni að segja henni að halda kjafti. Proppé er alveg horfinn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins ræða heilsumálin. Fólk gerir ekki ágreining við Flokkinn.

Teflon-Katrín

Punktar

Katrín Jakobsdóttir er ein af þessum fáu teflon-húðuðu í pólitík. Getur ekkert rangt gert og siglir áfram í brosmildu aðgerðaleysi, jafnvel sem menntaráðherra. Hún er að losna við Björn Val. Steingrímur J. flýgur vonandi í kjölfarið. VG þurfa að slíta náin tengsl við kvótagreifa og gerast alvöru vinstri flokkur. Það mistekst í þjónustu við ríkasta prósentið. Og í tryggð við nýfrjálshyggju banka og fjármála. VG þurfa að brjóta nýfrjálshyggju niður og stöðva einkavinavæðingu grunnstoða samfélagsins, heilsu, velferðar, skóla og húsnæðis. Fyrst og fremst þurfa Vinstri græn að slíta sig frá fjórflokknum, sem er undir stjórn bófa.

Endurholdgun Samfylkingar

Punktar

Hef enga trú á, að fylgi Samfylkingarinnar hressist við að breyta nafni hennar í Jafnaðarflokkinn. Líði flokksmönnum eitthvað betur eftir breytinguna er tilgangi hennar náð. Samfylkingunni fylgir fnykur af valdaskeiði Ingibjargar Sólrúnar og Árna Páls. Þá gerðist hún hægri flokkur Blairista. Gleymist ekki, en dofnar í tímans rás. Hafi eitthvað af fylgi hennar farið á hægri flokkana Viðreisn og Bjarta framtíð, skilar það sér ekki til baka í könnunum. Jafnaðarflokkur þarf að keppa við Vinstri græn og aðra vinstri flokka um hylli alþýðunnar. Kannski hefur Logi Einarsson þann kjörþokka, sem dugi flokknum til pólitískrar endurholdgunar.

Íslenzka lifir

Punktar

Íslenzka deyr ekki, þótt bókakaup hafi skyndilega minnkað um þriðjung. Höfum nóg að lesa, þótt bóklestur hafi minnkað. Að vísu hefur lestur sumpart færst yfir á ensku. Íslenzkir bókaútgefendur eru of hræddir við rafbækur. Við lesum auðvitað heilmikið á skjá, fréttir og frægð, margt af því á íslenzku. Og ekki gleyma, að við skrifum margfalt fleiri en áður gerðu. Fésbókin er full af skemmtilegum sögum úr lífi fólks. Fyrir aldamót skrifuðu bara skriftlærðir. Nú skrifa allir, hver á sinni íslenzku. Það er flott, þótt kennarar mínir í skriftarskólanum MR snúi sér í gröfinni. Íslenzka er notuð hversdags, stundum í nýstárlegu formi.

Beðið eftir Bjarna

Punktar

Í vor lagði Sigurður Ingi, formaður Framsóknar, fram fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar forsætis. Fjallaði um sex atriði í starfsháttum Seðlabankans. Sigurður segist hafa beðið of lengi eftir svari. Sé málið viðkvæmt, beri aðilum málsins að segja svo, í stað þess að þegja. Gefur hann kost á, að þingmenn fái að vita svarið, þótt almenningur fái það ekki. Þarna kemur fram eitt dæmið um, að fjórflokkurinn lítur á almenning sem afgang. Að samtöl innan fjórflokksins komi almenningi lítið við. Sigurður Ingi tekur þó fram, að hann telji betra, að almenningur fái að vita um efni þessara starfshátta. En enn er beðið eftir Bjarna.

Grafið undan rekstri

Þjóðleiðir

Þrettán hundruð störf eru laus við leikskóla landsins. Mikill skortur er líka á kennurum á skyldunámsstigi. Fólk með réttindi fær sér vinnu annars staðar. Það stafar auðvitað af, að kjörin eru of bág í samanburði við aðra hópa. Eru þetta þó brýnni störf fyrir þjóðfélagið en ýmis önnur, til dæmis stjórnunarstöður í bönkum. Þetta er eins og í heilbrigðiskerfinu. Þar vantar víða réttindafólk til starfa, auðvitað af bágum kjörum í samanburði við aðra. Þegar þannig er búið að svíða ríkisrekstur til óbóta og gera óvinsælan, koma nýfrjálshyggjugaurar á borð við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Hún kallar eftir einkarekstri á óvinsælum ríkisrekstri.

Hugsjónaeldur Ísorku

Punktar

Ísorka hóf í dag að selja rafmagn í bíla á nokkrum hleðslustöðvum. Mbl.is segir frá þessu, en svarar ekki spurningunni um, hvað rafmagnið eigi að kosta. Blöð eru fyrir almenning og eiga að svara spurningu um kostnað, fyrstan allra. Mbl.is feilar þar, en eyðir þó plássi í bla-bla viðtöl við forstjóra og ráðherra. Þar kemur m.a. fram, að fjárheimtan sé innblásin af innilegri hugsjón Ísorku. Hana dreymi næturlagt um að efla þjónustu við eigendur rafbíla. Þegar komið er út í slíkar upplýsingar, er skrítið að láta liggja milli hluta, hvað þjónustan kosti. Vitum öll hvort sem er, að íslenzk fyrirtæki eru rekin af innri eldi hugsjóna.

Snarbilaðir menn

Punktar

Lífeyrissjóðirnir eru komnir í blindgötu í innlendum fjárfestingum. Innherjar og lykilstjórnendur í Högum sturtuðu hundruðum milljóna króna í hlutabréfum sínum í fyrra. Samt héldu lífeyrissjóðir og fjárfestingarfélög þeirra áfram að kaupa þar hlutabréf. Samt var fyrir löngu vitað, að Costco væri handan við hornið. Sams konar aðilar hafa keypt hlutabréf í ýmsum frægustu hallærisfyrirtækjum landsins. Til dæmis keyptu sjóðir nýlega hálfan milljarð í United Silicon, sem komið er í greiðslustöðvun og stefnir lóðbeint í gjaldþrot. Snarbilaðir menn, líklega á kókaíni, ráða stjórnlausri ferð á lífeyrissjóðum okkar og fjárfestingarfélögum þeirra.

Allt í plati

Punktar

Fyrir mér hefur James Bond alltaf verið góðlátlegt grín. Með kankvíslegt bros Roger Moore í augum. Þannig virkar annars ótrúverðugur fulltrúi hátignarlegrar leyniþjónustu skrítinna sérvitringa. Á síðari árum hefur Bond verið anti-Bond, fýluleg og broslaus drápsmaskína, Daniel Craig. Af og til var Sean Connery ósköp þreytulegt gamalmenni, sem öllum þótti vænt um. Sagður vera bezti Bond allra tíma. Að öðru leyti höfum við haft ótal leikara, hverra nafni ég hef fyrir löngu gleymt. Og nú á hinn fýldi Craig aftur að leika Bond. Hörmuleg fúlasta alvara. Eini nothæfi Bondinn var sá, sem sagði með svipbrigðum sínum: „Allt í plati“.

Endalaus hækkun í hafi

Punktar

Meðan auðgreifar koma fé undan hagkerfinu yfir í skattaskjól á aflandseyjum, er hér klofið þjóðfélag. Hækkun í hafi er aðferðin. Vörur hækka í hafi í inn- og útflutningi. Frá ómunatíð hafa heildsalar tekið umboðslaun erlendis. Álfabrikkur hækka báxít á leið til Íslands og greiða endalausar þóknanir til erlendra pabba. Ferðaþjónustan er nánast skattfrjáls. Pólitíkusar og skattayfirvöld gera aldrei neitt í þessum málum. Afleiðingin er að hundruð milljarða koma árlega ekki fram í hagkerfinu og ríkið verður af tugum ef ekki hundrað milljörðum í sköttum. Hér þarf að innheimta árlega hundrað milljarða í auðlindarentu. Og handrukka skatta.

Vinstri græna íhaldið

Punktar

Vinstri græn eru íhaldsflokkur, sem mun næst fara í stjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Ég sé ekki þau mál, sem séu Vinstri grænum sameiginleg með annarri stjórnandstöðu. Menn eins og Björn Valur Gíslason og Steingrímur J. Sigfússon munu ekki styðja frelsun kvótans undan kvótagreifum; nýju stjórnarskrána, sem falin er niðri í skúffu; né heldur brottnám vinnslustöðva landbúnaðarins undan pilsfaldi ríkisins. Vinstri græn hafa verið og verða áfram sátt við, að fríðindi sérhagsmunahópa fái að halda sér. Þau munu taka að sér hlutverkið, sem Framsókn hefur leikið frá ómunatíð, að styðja hornstein spillingar, Sjálfstæðisflokkinn.

Ræflarnir gengu út

Punktar

Fjórir stjórnarþingmenn stjórnskipunarnefndar gengu út í skelfingu, er þeim var gefinn kostur á að sjá nöfn valinkunnra meðmælenda með uppreist æru barnaníðings Sjálfstæðisflokksins. Settu hendur fyrir augu og þutu af fundi til að þurfa ekki að afbera nöfnin. Og þurfa ekki að afbera, að aðrir viti, að þeir viti nöfnin. Nefndin er því orðin óstarfhæf, þar sem hálf nefndin vill ekki vita, hvert er umræðuefni hennar. Þannig er komið stuðningi Sjálfstæðisflokksins við frægasta barnaníðing sinn. Upplýsingar eru tíndar ein og ein úr þvergirðingi ráðuneytis. Ósannaðar fullyrðingar út í loftið eru bornar fram níðingi flokksins til varnar.

Á allra vitorði

Punktar

Af texta fólks á pappír og vef sést, að frá hruni hefur nánast öll þjóðin áttað sig á stéttaskiptingu landsmanna. Hugmyndir síðustu aldar um stéttlaust samfélag  hafa hrunið. Fólk er farið að sjá, að allur hagvöxtur fer í að bæta hag hins eina prósents sem gnæfir á toppi píramídans. Þeir, sem skipa neðstu 10% eigna- og tekjuskalans, bera skertan hlut frá borði. Þetta er hinn napri sannleikur á einu mesta hagvaxtarskeiði sögunnar. Með auknu ríkidæmi hefur þjóðin ekki lengur efni á ókeypis heilsu og menntun. Aðgerðir ríkisstjórna hafa einkum stefnt að meiri stuðningi við 1)skattsvik, 2)hækkun í hafi og 3)verðlaunuð skil á þýfi.

Evrópska mamman

Punktar

Eftir tiltölulega jafna stöðu þýzku flokkanna í vor, hefur Angela Merkel aukið bilið í sumar. Hefur núna fjórtán prósentustig yfir Martin Schulz kratanna. Það er talið stafa af, að þýzkir kjósendur meti staðfestu og öryggi umfram önnur atriði í pólitík. Heribert Prantl, leiðarahöfundur Süddeutsche Zeitung, segir það vera „vegna þess að hún er ekki sturluð, heldur hæf og reynd.“ Leiðtogar um allan heim, með Donald Trump í fararbroddi, láta eins og fífl og eru fífl. Frú Merkel er eins og klettur í hafi pamfílanna. Hún siglir ekki bara Þýzkalandi, heldur líka evrunni og Evrópusambandinu, um lífsins ólgusjó. Evrópska mamman.

Stolið með krónufikti

Punktar

Sveiflur krónunnar valda óróa við áætlanir um framvindu fyrirtækja. Þegar gengi hennar hækkar, fást færri evrur fyrir vörur þeirra og þjónustu. Þegar gengið lækkar, fást fleiri evrur, en krónur starfsfólks lækka í verðgildi. Vandinn er fólginn í hinum miklu sveiflum, sem sumpart stafa af smæð gjaldmiðilsins og sumpart af fikti Más í Seðlabankanum. Bezt væri að hafa hér fastan gjaldmiðil, evru, eða fasta gjaldmiðla, evru og dollar. Okkar myntir í erlendum viðskiptum ættu að vera það líka í innlendum. Evran hefur staðizt sveiflur í Evrópu. Fikt með íslenzku matador gervipeningana er bara aðferð til að stela fé af fólki.