Braskvæðing húsnæðis

Punktar

Húsnæðisstefna ríkisstjórnarinnar kemur skýrt fram í sölu Íbúalánasjóðs frænku Davíðs Oddssonar. Íbúðalánasjóður hefur í kyrrkaþey selt leigufélagið Klett til braskarafélagsins Gamma. Í pakkanum eru 450 íbúðir. Áður leigði Klettur þessar íbúðir út til fjölskyldna til langs tíma á tiltölulega sanngjörnu verði. Skilaði samt arði til íbúðalánasjóðs. Nú verður fátækum leigjendum sparkað og fengnir aðrir, sem vilja leigja áfram til túrista. Leiguverð hækkar, leigutími styttist og öryggi minnkar. Gamma stjórnar leiguverði á húsnæði í Reykjavík og gerir ungu fólki ókleift að hefja búskap. Auðvitað með aðstoð lífeyrissjóða.

Davíð er búinn

Punktar

Þetta er búið. Davíð Oddsson nær engu flugi í forsetakosningunum. Nær varla í allt þrælafylgi Sjálfstæðisflokksins og alls engu fylgi venjulegs fólks. Hann er búinn að vera sem pólitíkus fornaldar. Getur snúið sér alfarið í Moggann að verja kvótagreifa gegn fólkinu í landinu. Skítadreifarar Davíðs náðu engum árangri síðustu daga. Lygasögur úr fortíðinni virka ekki lengur. Ógeðstímar Davíðismans eru að líða undir lok. Vonandi ryðja ófarir Davíðs veginn að sigri pírata í næstu kosningum. Aflendingar hafa þó enn tíma til að ræna og rupla landsmenn næstu mánuði, kannski ár. En klukka endurreisnar Íslands tifar allan tímann.

Skoðanakönnun MMR

Andverðleikar í hafrétti

Punktar

Forstjóri Hafréttarstofnunar hótaði fræðimanni, ef hann breytti ekki niðurstöðu í ritgerð um hafréttarmál. Tómas H. Heiðar skilur ekki grundvallarforsendur vísinda. Telur þau eiga að þjóna ríkjandi hagsmunum. Um slíkt eru fræg dæmi í mannkynssögunni, sem ættu að vera víti til varnaðar. En hér gildir séríslenzka andverðleikaþjóðfélagið. Smámenni sitja á valdastólum í skjóli siðblindra stjórnmálaafla og vilja haga sér eins og Davíð Oddsson. Smámennin útiloka hæfni og reynslu. Sem betur fer eru hæfari menn í stjórn stofnunarinnar. Þeir hafa harmað hótunina og Tómas hefur beðizt afsökunar. Ísland er ekki alvont.

FRÉTTIN

Helmingurinn er fátækur

Punktar

Meirihluti íslenskra heimila safnar skuldum eða nær með naumindum endum saman samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Fimmtungur þessa fólks safnar skuldum og annar fimmtungur gengur á sparifé sitt. Sá veruleiki fólks er ólíkur sýndarveruleika í áróðurstöflum úr excel. Verst leikið er fólk á fertugsaldri, sem oft glímir við húsnæðiskostnað. Fleiri búa við fátækt en nokkru sinni. Fjórir af hverjum tíu sögðu einhvern í nánustu fjölskyldu búa við fátækt. Nú þarf að snúa af leið dekurs við auðgreifa. Innheimta aflandsfé, endurvekja auðlegðarskatt, ná fullri auðlindarentu. Hækka laun á línuna og koma upp norrænni velferð og heilsugæzlu.

Lilja á skrípafundi

Punktar

Allir mannréttindafundir á vegum Sameinuðu þjóðanna eru svínarí. Einkum haldnir í löndum, sem vilja breiða yfir andúð sína á mannréttindum. Slíkur er í gangi núna í Istanbul. Einmitt þegar Tyrkland stundar loftárásir á  byggðir Kúrda og sviptir þingmenn þeirra þinghelgi. Frægust var ráðstefna í Peking 1995, þar sem Vigdís Finnbogadóttir fór flatt. Frægari var sú í Jeddah í Sádi-Arabíu 2015. Í því ríki, sem hefur heimsins versta ástand mannréttinda. Hvergi hafa slíkir fundir haft hin minnstu áhrif á stjórnarfar gestgjafans. Lilja Alfreðsdóttir hefði í Istanbul betur átt að fjalla um mannréttindabrot Erdoğan Tyrkjasoldáns.

Græningi varð forseti

Punktar

Græningi varð forseti Austurríkis, marði þjóðrembing á síðustu metrunum. Miðjan er að hverfa þar, annað hvort eru menn yzt til vinstri eða hægri. Frambjóðendur krata og íhalds náðu ekki inn í úrslit. Merkilegt er, að Alexander van der Bellen skyldi ná kjöri. Jaðarvinstri pólitíkusar hafa ekki náð langt í hægri sinnuðu Austurríki. Einnig er athyglisvert, að andstæðingur flóttafólks og múslima fái 50% atkvæða. Dæmi um flekahlaup í evrópskri pólitík. Fólk hefur fattað þöggun fjölmenningarsinna og trúir frekar þjóðrembingnum Norbert Hofer.

Sigmundur vill stríð

Punktar

Hingað til hefur ríkisstjórnin getað haldið stjórnarandstöðunni uppi á snakki um kosningar í haust. Margir vöruðu við þessu sem tálsýn til að vinna tíma til að knýja fram fleiri óvinsæl mál. Ekki fékkst dagsetning, en í lok vikunnar var farið að tala um október. Svo reis Sigmundur Davíð úr rekkju um helgina. Sagði haustkosningar aldeilis óþarfar. Að vísu er sjaldan neitt að marka hann, en hann er þó enn flokkformaður og dýrlingur þingmanna flokksins. Hann hefur því slegið forsætisráðherra sinn út af borðinu og ógilt tálsýnina um kosningar. Í augum andstöðunnar hlýtur þetta að teljast stríðsyfirlýsing gegn kjósendum.

Mjúkmáli tuddinn

Punktar

Mestu tuddar stjórnmála síðustu áratuga eru Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson, stangandi allt og alla. Munur þeirra er, að Ólafur Ragnar er ég-um mig-frá mér-til mín, en Davíð er við-um okkur-frá okkur-til okkar. Ólafur hugsaði aldrei um neitt annað en sjálfan sig, skipti um stuðningsmenn á færibandi. Davíð hugsar alltaf um litlu, ljótu Eimreiðarklíkuna sína. Hún tók völdin undir lok síðustu aldar og steypti sér bankadreka án járnabindinga. Allt endaði það með ósköpum og er raunar enn ekki lokið. Að réttu er Davíð mest hataði refur landsins. Skyndilega mjúkmáll og dísætur, fer senn að kyssa börn.

Fjórða rústun í sigti

Punktar

Davíð Oddson lagði ríkissjóð í rúst. Með því að opna fyrir gjaldeyrisbrask og gera aflendingum kleift að komast í skattaskjól. Með því að gelda eftirlit með bönkum og leggja Þjóðhagsstofnun niður í einu af þessum frægu reiðiköstum. Með öllu þessu olli hann ríkissjóði stórtjóni. Lagði líka Seðlabankann í rúst með því að ausa út gjaldeyri í frægu taugaveiklunarkasti. Ríkissjóður varð að koma bankanum til bjargar. Loks lagði hann Morgunblaðið í rúst. Fækkaði lesendum um helming með frægum reiðitextum. Nú vill þessi vanstillingur komast í aðstöðu til að leggja forsetaembættið í rúst. Maður stjórnar engu með því að fá köst.

22569 skoðanir mínar

Punktar

Einn þeirra, sem telja má atvinnumenn í álitsgjöf. Hef á ævinni haft skriflega skoðun 22569 sinnum, misjafnlega rækilega. Sigmundur Davíð mundi kalla það heimsmet. Oft vissi ég varla, hver skoðunin var, fyrr en ég var búinn að lesa hana. Textinn leiðir oft að niðurstöðu. Dytti einhverjum í hug að lesa ósköpin, sæi hann, að skoðun frá 1975 er önnur en frá 2015. Ég er enginn Björn Bjarna með grunnmúraða flokksskoðun frá því fyrir fæðingu. Hversu lengi enn, veit ég ekki. Langar til að sitja yfir höfuðsvörðum verstu ríkisstjórnar lýðveldisins. Að því búnu má síga á endasprett þrautseigasta álitsgjafa lýðveldistímans.

Eigendur ofmetnist ekki

Veitingar

Eigandi matarhúss á að vera á staðnum. Ofmetnist ekki af velgengni og freistist til að opna fleiri. Þá fer allt í steik. Því hætti ég að leita nýrra staða, rúnta milli sjö-átta, sem bjóða festu, jafnan í hádegi. Þar er úrvalsmatur með persónulegri þjónustu. Svo sem Sjávargrillið, Matur og drykkur, Kopar og Verbúð 11. Einnig Restó, sem má kasta gamalli innréttingu úr frauðplasti. Minnka þrengsli í básum og afskaffa lóðrétt sætisbök. Fiskfélagið og Grillmarkaðurinn þurfa festu í sal og nærveru eiganda, ekki síný andlit inspektora. Holt er líka gott. Átta gæðastaðir alls, þarf að nefna fleiri? Kannski Tilveruna og Von í Hafnarfirði, varla fleiri.

Ítrekað upp í kok

Fjölmiðlun

Einu sinni skrifaði ég mikið um landbúnað. Ætli það hafi ekki verið á æviskeiði Dagblaðsins. Því meira, sem ég skrifaði, þeim mun skrautlegra varð ástandið á þessu gæludýri undralandsins. Ég gat bara ekki skrifað meira, hvergi var heil brú í veruleikanum. Löngu síðar skrifaði ég mikið um Ísrael. Því meira, sem ég skrifaði, því skrautlegri varð firring Ísraels. Þar kom, að ég gat ekki skrifað meira, veruleikinn versnaði sífellt. Hef nú verri óþægindi í vélindanu eftir að hafa skrifað ógrynni um skrautlegustu ríkisstjórn sögunnar. Búinn er að segja allt ótal sinnum um ríkisstjórn bófaflokkana, sem hraðversnar samt með hverri viku.

Ögmundist ekki

Punktar

Nota hugtakið ögmund um sérstaka tegund stjórnmálamanns. Það er einleikari, sem gruflar mikið, hefur heimafengnar skoðanir og trúir á samræðustjórnmál þeim til sigurs. Fyrirmyndin er Ögmundur, sem fór í og úr síðustu stjórn eftir málefnum hverju sinni. Sem formaður Stjórnskipunarnefndar í lok síðasta kjörtímabils leitaði hann samkomulags við sjálfstæðismenn með samræðum. Sem tókst auðvitað ekki. Bófarnir héldu fast við sitt og málið féll á tíma. Í næstu þingkosningum ber að forðast að velja ögmunda. Með grufli, sérvizku og samræðum mun þeim ella takast að tefja framgang stjórnarskrár fólksins og uppboða á leigu auðlinda.

Þetta er þjófabæli

Punktar

Ísland hefur sérstöðu í viðhorfi til aflendinga í skattaskjóli. Ríkisstjórn og stjórnarflokkar styðja slík undanskot og leynimakk. Forsætis segir beinlínis að erfitt sé að eiga fé á Íslandi. Á Vesturlöndum fordæmir pólitíkin aflendingana einróma. Hér verja stóru dagblöðin tvö, Mogginn og Fréttablaðið, aflendingana í skattaskjóli. Á Vesturlöndum fordæma dagblöð aflendingana einróma. Fráfarandi forseti er aflendingur og fyrirferðarmesti frambjóðandinn er málsvari þeirra. Þriðjungur kjósenda lýsir stuðningi við flokka aflendinga. Brenglað fólk vinnur gegn almannahagsmunum í þágu auðgreifa. það er von, að fólk flýi þjófabælið.

Neyðarráð Landlæknis

Punktar

„Landspítalinn verður að fá skýr fyrirmæli um að sérfræðingar verði framvegis einungis ráðnir í fullar stöður. Stefna verður að því að vaktabyrði sérfræðinga sé ekki meiri en 3–4 vaktir á mánuði. Setja verður reglur um aukastörf lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks. Jafnframt verður spítalinn að fá fyrirmæli um að auka dag- og göngudeildarstarfsemi spítalans svo að hægt sé að auka aðgengi sjúklinga með króníska sjúkdóma að þjónustu, hvort sem þeir hafa legið inni á spítalanum eða ekki. Segja verður upp samningi Sjúkratrygginga Íslands við samtök lækna og setja reglur um það að SÍ geri framvegis aðeins samninga við opinber eða einkarekin heilbrigðisfyrirtæki sem vinni samkvæmt ákveðinni kröfulýsingu og veiti þjónustu sem greiðandinn, ríkið, sér þörf fyrir.“

LANDLÆKNIR