Siðblindur dómari

Punktar

Markús Sigurbjörnsson er hæstaréttardómari og fyrrum forseti Hæstaréttar. Stóð árin fyrir hrun í víðtæku braski með tugi milljóna. Án þess að tilkynna það allt fyrir sérstakri siðaefnd, sem honum bar að gera. Yfirmaður siða á Íslandi hélt braski sínu leyndu. Margt hef ég lesið um spillingu og siðblindu yfirstéttarinnar á Íslandi. Þetta mál slær önnur út vegna stöðu hans í ríki laga og réttar. Hinn séríslenzki viðbjóður nær alveg upp i topp píramída valdakerfisins. Yfirstétt landsins, þetta eina prósent, sem öllu ræður, er gegnrotið upp í topp. Hafi ekki áður komið tími til að stokka upp þetta eina prósent, er sá tími kominn núna.

Erfiðar skýringar

Punktar

Kosningar í vor verða sumum flokkum erfiðar. Í nóvember halaði Sjálfstæðis inn nærri 30% kjósenda þrátt fyrir Viðreisn. Nærri þriðjungur þjóðarinnar hélt tryggð við aflendinga í skattaskjóli. Það er fólkið, sem telur stuðning við kvótagreifa umfram almannaheill vera í lagi. Sættir sig við skattasniðgöngu fjárglæfrafólks og eftirlitsleysi fjármála. Þessi tæpi þriðjungur þjóðarinnar er alvarlega þjáður af pólitískum sjúkdómi siðblindunnar. Framsókn á eftir að ljúka uppgjöri við Sigmund Davíð. Viðreisn á eftir að skýra hopp frá Blairisma yfir í Thatcherisma. Vinstri græn eiga eftir að skýra sterka leyniþræði sína til auðgreifa kvótans.

Tilgangslaus byggðastefna

Punktar

Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að koma á beinu flugi til útlanda frá Akureyri og Egilsstöðum. Ævinlega mistekizt. Landsbyggðarfólk vill heldur fljúga frá Reykjavíkursvæðinu og ferðamenn vilja heldur fljúga til Reykjavíkursvæðisins. Tilraunir hins opinbera til að styðja þessa byggðastefnu hafa ekki haft áhrif á óskir flugfarþega. Flugmarkaðurinn verður í Leifsstöð um ófyrirsjáanlega framtíð. Gatwick flugið frá Egilsstöðum var lagt niður í haust. Og ekkert millilandaflug er frá Akureyri. Kenningin um að dreifa beri ferðamönnum betur um landið gengur bara ekki. Ferðamenn verða ekki knúnir til að sjá Goðafoss, Dettifoss og Mývatn.

Óttast eigin loforð

Punktar

Eðlilegt er, að Viðreisn sé hrædd við samninga undir forustu Pírata. Þeir halda nefnilega fast í stefnu Viðreisnar og það eru þingmenn hennar dauðhræddir við. Stefnuskrá hennar var bara til kosningabrúks. Til að ginna ístöðulitla krata til fylgis við sig. Í raun hafa þingmenn Viðreisnar engan áhuga á bættri heilbrigði og bættum kjörum aldraðra og öryrkja. Enn síður hafa þeir áhuga á fjármögnun með hærri auðlindarentu. Svipaður vandi er uppi hjá Vinstri grænum. Þingmenn þeirra á Norðausturlandi vilja fresta öllu tali um auðlindarentu og benda ekki á aðra fjármögnun heilsu, öryrkja og aldraðra. Voru líka að lofa upp í ermina, enda eru Vinstri græn hægri flokkur.

Öngþveiti flutt milli bæja

Punktar

Gert er ráð fyrir nýju 1200 íbúða hverfi vestast á Kársnesi í Kópavogi. Smíðin er þegar hafin. Samkvæmt skipulagi verður fyrirsjáanlegt öngþveiti á Kársnesbraut leyst með því að reisa brú yfir Fossvog að suðurenda löngu flugbrautarinnar vestan Nauthólsvíkur. Þaðan á umferðin að fara austan og vestan flugvallarins inn á Hringbraut og Miklubraut. Verður fagnaðarefni borgarstjórninni í Reykjavík, sem getur komið upp áhugaverðu umferðaröngþveiti á mestu álagsbrautum Reykjavíkur. Þannig má flýta hinum bíllausa lífsstíl, þegar reiðhjól og strætó taka við auknu álagi. Strætó fær þá sérakreinar fyrir sig og verður endurskírt sem Borgarvagnar.

Hraðahindranir á göngustígum

Punktar

Hópar yfirgangsamra reiðhjólakappa eru lífshættulegir á göngustígum. Áður ríkti þar þögn og íhugun. Nú má á hverri stundu búast við köppum á 40 km hraða. Meiri  hraða en leyfður er á bílabrautinni við hliðina. Verstir eru þeir sérútbúnu til klæða og hjóla, svokallaðir spandex-kappar. Telja sig ofar lögum og rétti. Eins og raunar í umferðinni, þegar þeir skipta á nokkurra sekúndna fresti milli gangstétta, gangbrauta og bílagatna. Ástandið skánar, þegar settar verða upp hraðahindranir á göngubrautum. Nægilega öflugar til að knýja reiðhjólakappa niður í tiltölulega þægilegan hraða, 10 km á klukkustund, tvöfaldan gönguhraða.

Ný vinnubrögð núna

Punktar

Eftir mánaðar japl og jaml og fuður er loks komin röðin að Birgittu Jónsdóttur. Frá flokki, sem fyrstur hvatti til nýrra vinnubragða við myndun ríkisstjórnar og til hverra vinnubragða. Tími var til kominn. Kannski kemur röðin að Benedikt um jólin og þá verður hann glaður. Þá verður líka kominn hringurinn af flokkum með umtalsvert fylgi. Enginn ætlast til, að Sigurður, Óttarr eða Logi myndi stjórn. Raunar mun framvegis verða eðlilegt, að sjö flokkar séu á þingi, svo margslungin er sálin kjósenda. Hægri og vinstri dekka ekki lengur pólitíska sviðið. Við erum að feta okkur til norræns ástand. Því fyrr, sem við lærum það, þeim mun betra.

Lausnamiðuð stjórnarmyndun

Punktar

Pattstaðan í stjórnarmyndun ætti að leiða til nýrra leiða, svipað og flokkar hafa gert á Norðurlöndum. Þar eru flokkar margir og samstarf flókið. Með lausnamiðaðri hugsun er hægt að fara slíkar leiðir hér. Píratar hafa lengdi hvatt til þess og í dag tóku Katrín Jakobsdóttir og Benedikt Jóhannsson undir það. Flokkarnir verða að fara að hugsa um, hverju þeir þurfi að fórna á einu sviði til að sækja fram á öðru sviði. Áhugamálin eru misjafnlega sterk. Nú liggur mest á að finna fleti á niðurstöðum fjárlaga. Fyrir hvaða útgjöld þarf að sækja hvaða tekjur. Forsetinn á ekki að láta taka sig á taugum, heldur gefa flokkunum þann tíma, sem þeir þurfa.

Pólitísk pattstaða

Punktar

Niðurstaða kosninganna varð patt milli kyrrstöðu og endurbóta. Sjálfstæðis hélt stöðu sinni, þótt hann sé bófaflokkur undir stjórn Panama-fjárglæframanns og gæti hagsmuna kvótagreifa. Framsókn er rotuð eftir helreið Sigmundar Davíðs. Píratar fengu mikið fylgi, en ekki nærri eins mikið og kannanir bentu til. Íslendingar hafa nefnilega í þúsund ár verið huglausir þrælar húsbænda sinna. Viðreisn fékk mikið fylgi út á að þykjast vera krataflokkur án þess að vera það. Hún og Björt framtíð eru hægri flokkar. Samfylkingin er rotuð af ýmsum ástæðum. Vinstri græn reynast vera meira íhald en fólk gerði ráð fyrir. Þetta leiðir skákina í patt.

Hættulega orðið

Punktar

Hatursorðræða er hættulegt orð. Dómstólar hafa gefið sér, að andlag haturs geti ákveðið, hvað sé móðgandi. Þannig má gefa sér, að hatur felist í gagnrýni á konur, múslima, öryrkja, reykingafólk, drykkjurúta, trúaða, og svo framvegis. Íslenzk lög banna illt umtal um alls konar minnihlutahópa og minnimáttarhópa að viðlögðum sektum og tveggja ára fangelsi. Dómum af því tagi er samt kastað út af fjölþjóðlegum Evrópudómstólum. Það sýnir, að íslenzk lagahefð og dómahefð er talin vera úrelt. Samt er enn verið að kæra fólk fyrir meiðyrði, nú síðast útvarpsstjóra Sögu. Kominn er tími til að hætta þessu rugli um hatursorðræðu.

Gamlingjastjórnin

Punktar

Skrítin blanda Vinstri græn. Þar eru eins konar Möðruvellingar eða þjóðrembingar. Gætu verið á jaðri Framsóknar. Þaðan kemur viljinn til að fara í ríkisstjórn með B og D. Svo eru eins konar bæjarradíkalar í þéttbýli. Gætu verið í krataflokki, væri hann ekki dauður. Listamenn og rithöfundar eru þéttir í þessum hópi. Þannig spanna Vinstri græn ýmsa hópa vinstra megin við miðju. Raunar er þetta eini vinstri flokkurinn um þessar mundir. Fjórða horn fjórflokksins. Jafnvel er farið að tala um ríkisstjórn gamlingjanna BDSV gegn stjórnarandstöðu nýflokkanna PC. Svona spöglasjónir drepa tímann, meðan bófaflokkurinn þreytir þjóðina til sátta.

Að missa sambandið

Punktar

Hrun Samfylkingarinnar er flókið fyrirbæri. Hófst með því, að gamla undirstéttin breyttist. Útlendingar tóku yfir erfiðu störfin úti í skurðum eða inni á hótelum.  Stéttarfélög höfðu lítinn áhuga á vanda þeirra. Samband flokks og stéttarfélaga rofnaði og hvort tveggja datt úr tengslum við fátæklinga. Láglaunafólk nútímans er annað en áður og leitar ekki skjóls hjá verkalýðsleiðtogum, sem totta vindla með atvinnurekendum. Hafa engan áhuga á stéttabaráttu. Og auðvitað ekki frekar á Samfylkingunni, sem er núna griðastaður háskólamenntaðra kvenna. Þær hafa áhuga á hagsmunum undirhópa og bíllausum lífsstíl. Samfylkingin svífur því um í tómarúmi.

Trúboðastellingin

Punktar

Las í veffréttum, að nokkrir fræðimenn hefðu uppgötvað, að trúboðsstelling væri nautnalegasta aðferðin til viðhalds mannkyni. Ekki kom fram, hvernig þetta uppgötvaðist. Sýndi þó, að sívökul þekkingarleit og vísindahugsun fræðir fólk um ótal atriði, sem okkur voru óljós í skóla. Ég fór að velta því fyrir mér, hvort kirkjan gæti ekki nýtt sér þessi fræði til að sýna fram á notagildi kristilegra forskrifta. Daginn eftir las ég, að hafin væri rannsókn á, hvort klósettrúllur ættu að snúa fram eða aftur á rúllustandinum. Innan tíðar kemur niðurstaða, sem leysir ákveðinn vanda við dagleg heimilisstörf. Heimur batnandi fer, vísindalega.

Sókn inn á miðjuna

Punktar

Framsókn víkur frá öfgahægri stefnu Sigmundar Davíðs. Stefnir í átt til miðju stjórnmálanna, sem flokkurinn gumaði af hér áður fyrr. Í stað ofsa Sigmundar er komin sáttatónn Sigurðar Inga. Eftir kosningarnar lítur flokkurinn á víxl til vinstri og hægri og kannar möguleika á að losna úr sóttkví öfganna. Ætti að vera létt verk, því komnir eru tveir flokkar, sem dekka hægri kantinn. Og miðjan er í upplausn, þar sem Björt framtíð fylgir Viðreisn til hægri og Samfylkingin hefur glatað sjálfri sér. Framsókn gæti einnig nagað úr dreifbýlisfylgi Vinstri grænna. Það eru þekktar slóðir, þar sem Framsókn undi sér vel hér áður fyrr.

Eftirlit í molum

Punktar

Fjölmargar athugasemdir hafa verið gerðir á búum Brúneggja frá árinu 2007. Það var ekki fyrr en eftir þvingunaraðgerðir Matvælastofnunar að fyrirtækið fór að lögum um dýravelferð. Matvælastofnun var seinþreytt til aðgerða og Brúnegg tók ekki mark á þeim. Bæði framleiðandi og eftirlit brugðust. Lengi hefur legið það orð á eftirlitinu, að það þjónaði framleiðendum fremur en neytendum. Og eigandinn er siðblindur. Annað mál annars eðlis kom upp í Crossfit. Tveir keppendur neituðu lyfjaeftirliti og hótuðu eftirlitsfólki ofbeldi. Fengu samt verðlaun, sem síðan voru afturkölluð. Auðvelt er að sjá, að þessir keppendur eru siðblindir. En svona verður Ísland. Með eftirlit í molum. Sérhver gengur fram í siðlausri hrokablindu.