Viljir þú bæta Ísland

Punktar

Viljirðu breyta Íslandi í betra land, þarftu að taka þátt í kosningum. Einnig í forsetakosningum. Þær varða stjórnmál. Of lengi höfum við verið í herkví tveggja flokka, sem hafa smám saman breyzt í bófaflokka. Gæta ekki hagsmuna almennings, heldur auðgreifa. Ungt fólk þarf líka nýju stjórnarskrána, sem þjóðin mælti með. Reynslan sýnir, að forseti landsins hefur pólitískt vægi. Brýnt er fyrir ungt fólk að nenna að mæta á kjörstað. Baráttan er um þína framtíð í þessu landi. Veldu einhvern, sem horfir til framtíðar. Þeirrar framtíðar, sem ungt fólk þarf að lifa við lungann úr þessari öld. Mundu eftir Andra Snæ Magnasyni rithöfundi.

Dæmi um andverðleika

Punktar

Einn þekktasti málflutningsmaður í fjölþjóðarétti er Philippe Sands, prófessor í London. Hann segist ekki skilja, að forstjóri Hafréttarstofnunar geti líka verið dómari við Alþjóða hafréttardómstólinn. Málið snýst um Tómas H. Heiðar, er hótaði vísindamanni, ef hann breytti ekki niðurstöðum rannsókna sinna. Gerði það með tölvupósti og á fundi, með aðstoð formanns lögfræðingafélagsins, Kristjáns Andra Stefánssonar. Stjórn Hafréttarstofnunar baðst afsökunar á forstjóra sínum. En búast má við, að Tómasi verði vísað úr hinum fjölþjóðlega dómstóli. Í kringum okkur eru siðuð samfélög, en hér hagar andverðleikafólk sér eins og því þóknast.

Flekahlaup í flokkafylgi

Punktar

Bófaflokkurinn hefur klofnað í tvennt. Eftir situr gamla þjófafélagið með 19,7% fylgi samkvæmt Félagsvísindastofnun. Burt er farin siðvæðingin Viðreisn með 9,7% fylgi. Samtals leggst þetta á 29,4%, svipað og Píratar. Hin fréttin í könnun stofnunarinnar er, að Vinstri grænir eru höfuðflokkurinn til vinstri. Þeir hafa 17,5% fylgi á móti 9% Samfylkingarinnar. VG hefur losað sig við Ögmund og þarf að losna við Steingrím. Samfylkingin og Björt framtíð þurfa að losna við toppana og leita skjóls hjá Pírötum, Viðreisn eða Katrínu Jakobs. Þá eru aftur hreinar línur: Þjófafélagið, siðvætt og ekki siðvætt, til hægri; VG til vinstri; Píratar á miðju. Framsóknar verður ekki saknað.

Brexit – frétt aldarinnar

Punktar

Sigur Brexit í Bretlandi, 52%-48%, veldur hamförum um allan heim. Brezka pundið hríðféll og hlutabréfavísitölur féllu í Asíu og Ástralíu. Markaðir höfðu ekki verið opnaðir í Ameríku og Evrópu, þegar þetta er skrifað. Skotar kunna að vilja sitja eftir í Evrópusambandinu og Danir kunna að vilja losna úr því. Ringulreið verður þó mest í Englandi. Enginn getur spáð framhaldinu þar. Bretar högnuðust eins og aðrir á sambandinu og pundið gæti fallið áfram. Cameron neyðist til að segja af sér, þótt hann segist núna ætla að halda áfram. Í Evrópu magnast krafan um siðbót í Evrópusambandinu, sem geti dregið úr miðstýringu frá Bruxelles.

Pólitík er ekki fótbolti

Punktar

Gott fyrir sálina að standa sig vel. Gott fyrir þjóðarsálina, þegar landsliðið stendur sig vel í samkeppni við helztu þjóðir Evrópu. Vinna jafnvel leik, þegar mest er í húfi. Gaman væri, ef fólk stæði sig eins í pólitík. Það er ekki allt gefið á þessari jörð. Við skulum fagna því, sem vel gengur. Samt ekki ofmetnast og ekki telja Íslendinga mesta í heimi. Í stjórnspeki, hagspeki og lögspeki erum við aðhlátursefni. Heimsmet fyrrum forsætis í sjónvarpsþætti varð sorglega frægt um allan heim. Sömuleiðis Evrópumet fyrrum seðlabankastjóra í ryksugun seðlabanka. Verst er, að andverðleikafólkið játar aldrei villur síns vegar.

Davíð orðinn fjórði

Punktar

Davíð er dottinn niður í fjórða sæti í nýjustu könnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis. Guðni heldur dampinum í langefsta sæti. Halla er á mikilli siglingu og Andri Már er kominn upp fyrir Davíð. Tölurnar eru þessar: Guðni 49%, Halla 19,6% Andri 12,9% og Davíð 12,4%. Samkvæmt gamalli reynslu af þessum könnunum verða lokaúrslitin í kjörklefanum ekki fjarri þessum tölum. Fylgið streymir frá Davíð til Höllu. Þjóðin hafnar Davíð áþreifanlega. Hann er í villu í þessari samkeppni, Bauð upp á það eina, sem hann kunni, smjörklípurnar. Þetta er stórt skref á allt of hægri vegferð þjóðarinnar frá andverðleikum gamla tímans.

Tregar skattrannsóknir á aflandsfé

Punktar

Krónuútboðið olli Seðlabankanum og ríkisstjórninni vonbrigðum. Alls seldust 72 milljarðar af 178 milljörðum, sem átti að selja. 300 milljarða snjóhengjan mun því hanga fram yfir ævilok ríkisstjórnarinnar. Aflendingar eiga mikið af fénu í bandarískum hrægammasjóðum. Lítið heyrist samt af rannsóknum á skattsvikum, sem liggja að baki aflandsfénu í skattasjólum. Þarna liggja hundruð milljarða af skattsviknu fé. Einfaldast er að efla skattrannsóknir sem mest. Setja þá fremst í röð rannsókna, sem tregastir eru til að kaupa sig úr hengjunni. Því miður hafa bófaflokkar stjórnarinnar einmitt dálæti á skattsvikurum í skattaskjólum.

Ráðherrar æla á ykkur

Punktar

Siðanefnd sveitarfélaga hefur kveðið upp úrskurð um eign kjörinna fulltrúa á huldum reikningum í skattaskjóli aflandsfélaga. Telur eignarhaldið stríða gegn reglum um hagsmunaskráningu. Feli þar að auki í sér misnotkun á almannafé vegna áhrifa á skatttekjur yfirvalda. Þetta snýst um borgarfulltrúana Júlíus Vífil Ingvarsson og Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur. Slíkar siðareglur gilda ekki um þingmenn, bara um hagsmunaskráningu þeirra. Þrír ráðherrar voru uppvísir að eignarhaldi á slíkum reikningum. Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal sitja enn sem ráðherrar. Það jafngildir því, að þau tvö æli daglega framan í borgarana.

SIngi teygir lopann

Punktar

Forsætisráðherra kemst enn upp með að nefna ekki kosningadag, þótt október sé nefndur. Af ásettu ráði til flækja málin og halda stjórnarandstöðu í gíslingu óvissunnar. Þrátt fyrir ringulreiðina eru flestir farnir að undirbúa kosningar í október. Óvíst er, að langan tíma taki að mynda ríkisstjórn. Það fer auðvitað eftir úrslitum kosninganna. Með viljandi töfum má lengja tímann upp úr viku í heilan mánuð. Þá er farið að síga á seinni hluta nóvember og óvíst að þing komi saman fyrr en í byrjun janúar. Þá þarf að gera breytingar á fjárlagafrumvarpi fráfarandi stjórnar, þegar fjárlagaárið er hafið. Það er Sigurði Inga að kenna.

Almenningsálit er stjórnlaust

Punktar

Aðstæður fólks sem kjósenda eru miklu betri en þær hafa áður verið. Internetið geymir allt. Davíð getur ekki lengur strikað yfir fortíð sína og búið til nýja. Gamlar staðreyndir og nýlega opnuð leyndarmál eru aðgengileg fólki. Á hverju strái eru túlkanir, sem eyða smjörklípum á dagsparti. Hefðbundnir fjölmiðlar hafa glatað stjórn á almannarómi. Málgögnum er vantreyst. Áður dýrkaðar hetjur stjórnmálana opinberast nú sem lygarar og þjófar. Fólk veit, að þeir gæta ekki almannahagsmuna, heldur þrengstu sérhagsmuna. Almenningsáliti á vefnum verður ekki stýrt, það er stjórnlaust í eðli sínu. Lýðræði ber loksins að dyrum okkar.

Hér þarf byltingu

Punktar

Við höfum svo sem ekki gengið langt götuna fram eftir veg þessi þúsund ár. Hér var reist þjóðfélag á baki þræla og búandkarla. Og hér er enn rekið þjóðfélag á baki almennings og innfluttra þræla. Vegna frönsku byltingarinnar 1789 og náðar danska kóngsins lærðu forfeður okkar að lesa og fengu að kjósa. Sá réttur hefur raunar verið notaður hálfvitalega í heila öld. Við urðum aldrei að láta blóðið renna til að fá það, sem okkur var gefið, mest frá Dönum. Nú flæða upplýsingar og leyniskjöl um tölvur. Allir, sem vilja vita, geta vitað, að aflendingar ráða hér ríkjum og fela árlega tugi milljarða í skattaskjólum. Hér þarf byltingu.

Auðvitað enginn ábyrgur

Punktar

Böndin berast að Sigurði Inga forsætis. Lögreglan vísar á ráðuneytið, sem vísar aftur á lögguna. Hugsanlega er þó á ferðinni vænisýki Haralds Johannesen. Þungt er að bera ábyrgð á afnámi þjóðhátíðar á Austurvelli. Allir vísa frá sér allri ábyrgð. Í fyrra voru mótmæli boðuð, en ekki að þessu sinni. Taugaveiklun á að leysa á annan hátt, með viðtali við sálfræðing, en ekki á kostnað almennings. Einu sinni var þetta þjóðhátíð, en nú er það prump fyrir pamfíla og sendiherra. Austurvöllur táknaði 17. júní þá gjá, sem myndast hefur milli þjóðarinnar og bófaflokkanna tveggja. Í haust getur þjóðin gert upp sakirnar við glæpahyskið.

Óvinur þjóðarinnar

Punktar

Ríkisstjórnin hefur örfá markmið og ekkert þeirra hjálpar almenningi. Hún vill tryggja, að auðgreifar geti stolið fjármagni undan skiptum í þjóðarbúskapnum og komið því fyrir í skattaskjóli. Vill tryggja, að 1% þjóðarinnar njóti rentunnar af auðlindunum. Vill lækka launin í landinu með því að flytja inn þræla, sem fá 400 krónur á tímann. Vill auka svigrúm glæframanna til að okra á túristum og losna við opinber gjöld. Brýtur niður innviði samfélagsins með vanfjármögnun heilbrigðisstofnana, vegagerðar og skóla. Í kjölfarið siglir einkavæðing með auknum kostnaði. Ríkisstjórnin er óvinur þjóðarinnar númer eitt, tvö og þrjú.

Tilfærslur á fylgi

Punktar

Davíð hefur engu gleymt og ekkert lært. Reynir að leiða kosningabaráttuna aftur til fortíðar. Smjörklípurnar virka bara ekki lengur, verða eins og bjúgverpill. Fólk áttar sig á, að hann er búinn að vera. Atkvæði munu því dreifast meira. Til dæmis gætu Andri Snær og Halla farið upp fyrir Davíð. Andri Snær er bezta forsetaefnið, fulltrúi Nýja Íslands. Guðni er fremur fulltrúi þess hluta Gamla Íslands, sem vill endurheimta siðferðið í pólitík og viðskiptum. Ekkert bendir til, að hann muni hjálpa til við að breyta Gamla Íslandi í grundvallaratriðum. Það væri þó í samræmi við stjórnarskrána, sem bíður fullbúin niðri í skúffu.

Viðskiptablaðið segir bú-hú

Punktar

Viðskiptablaðið hefur tekið að sér að fæla kjósendur frá Pírötum. Að venju fer blaðið mikinn í skáldskap. Sakar pírata um þá vinstri villu að setja heilsuna í forgang. Hækka framlögin um tugi milljarða. Getur þess ekki, að það á að gera í samræmi við markaðslögmál með uppboði á kvótum og öllum lönduðum afla. Með því að láta eðlileg viðskiptalögmál auðlinda ráða ferð. Sakar pírata um að undirbúa borgaralaun handa óverðugum. Staðreyndin er hins vegar, að píratar vilja skoða erlendar tilraunir með borgaralaun. Ekki er meiningin að framkvæma neitt án fjárhagslegra stoða. En Viðskiptablaðinu hentar bezt að reyna að hræða fólk.