Færeyska auðlindarentan

Punktar

Uppboð á fiskikvóta gefast vel í Færeyjum. Þar er boðinn upp kvóti á kolmunna, mak­ríl, síld og Barents-þorski. Niðurstaðan er stóraukin auðlindarenta ríkisins fyrir hönd skattgreiðenda og almennings. Hér aukast kröfur um hliðstæða rentu. Píratar hafa nákvæma útfærslu á rentunni á stefnuskránni. Hefur vakið skelfingu kvótagreifa, sem arðræna þjóðina í skjóli Sjálfstæðis og Framsóknar. Flytja inn hvern málsvara gjafakvótans á fætur öðrum  til að villa um fyrir fólki. Þjóðin veit samt, að Færeyingar gátu. Og veit, að við líka getum fengið auðlindarentu. Á uppboði neyðast greifar til þess að gefa sjálfir upp verðmæti veiðiheimilda.

Ríkisbankinn rotinn innan

Punktar

Landsbankinn er svo rotinn innan, að hann tekur ekki mark á eigin útboðum. Um áramótin setti hann 69,8 milljónir króna á einbýlishús í Hafnarfirði. Tilboð kom í húsið upp á 64 milljónir. Bannkinn gerði gagntilboð upp á 67,5 milljónir. Mánuði síðar fékk bankinn tilboð frá forsvarsmanni Borgunar upp á 61 milljón króna og tók því boði. Landsbankinn er í ríkiseigu, svo þarna eru umboðssvik á ferðinni. Bankinn hefur beðist afsökunar á svindlinu. Og Ríkisendurskoðun vinnur nú að úttekt á allri eignasölu Landsbankans á árunum 2010–2016. Verður niðurstaðan send Alþingi í nóvember næstkomandi. Vonandi fækkar þá bankabófum.

Framsókn í tímahraki

Punktar

Framsókn er læst í slæmu tímahraki. Þarf að halda ýmsa fundi til að komast að raun um, hver verði formaður. Hefðbundnir framsóknarmenn hafa horft á framgöngu Sigurðar Inga sem forsætisráðherra. Hafa séð týpuna, sem þeir eru vanir frá ómunatíð. Vilja fá hann sem formann. Ruslið, sem flaut inn á Alþingi í kjölfar Sigmundar Davíðs, er búið að gefast upp. Sér enga möguleika á að halda þingsæti sínu. Sigurður getur leyst málið með að slá í borðið og flytja margflutta ræðu valdaræningjans um kallið frá fólkinu í flokknum. Annars situr Framsókn uppi með Sigmund og ruglið úr einkaheimi hans. Framsókn dettur þá kannski af þingi.

TISA er dautt

Punktar

Sigmar Gabriel, efnahagsráðherra Þýzkalands, segir TTIP samning Bandaríkjanna og Evrópusambandsins hafa farið út um þúfur. Sama hlýtur að gilda um hliðstæðan TISA-samning Bandaríkjanna og EFTA-ríkjanna, þar með Íslands. Þetta strand markar tímamót í brotthvarfi Evrópu frá Thatcher-Blair nýfrjálshyggjunni. Ríki Evrópu munu hætta að reka erindi fjölþjóðlegra auðhringja. Munu ekki veita þeim réttarstöðu þjóðríkja. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn er líka fallinn frá fyrri þjónustu við bankamafíu Vesturlanda. Puð Martins Eyjólfssonar í Genf er orðið að foksandi til minningar um lægsta punkt í sögu íslenzkrar utanríkisþjónustu.

Fyrir norðan sumar

Punktar

Íslenzkir fataframleiðendur eru nokkurn veginn sammála um, að leiðin að hjörtum viðskiptavina felist í sérstæðum plakötum. Sýna kuldalegt eða tómlegt fólk með fýlusvip. Geysir leggur áherzlu á langdregin andlit í stíl 17. aldar hollenzkra málara. 66° fara alla leið með plakati aftan við dómkirkjuna. Sýnir þjáðan og líklega heimilislausan mann og titilinn: „Just north of summer“. Sennilega er reiknað með, að túristum sé almennt skítkalt og þeir þurfi að kaupa hlýrri föt. En gaman væri að vita, hver er hugsunin á bak við þessa samræmdu sókn í vasa túrista. Að hér sé „Fyrir norðan sumar“ gæti verið bókartitill eftir Guðberg.

Moskur verða leyfðar

Punktar

Þótt stjórnvöld í Evrópu séu að þrengja pólitískt svigrúm múslima, eru þau ekki að banna þeim moskur. Krafan er að mestu um aukna aðlögun þeirra að reglum og landsiðum. Stjórnvöld líta líka til fylgis róttækra hægri flokka á borð við Þjóðfylkingu Marine Le Pen, sem gæti náð forsetastól Frakka. Stjórnvöld eru að mestu klemmd milli krafna slíkra flokka og fjölmenningarflokka, sem vilja bæta móttöku flóttafólks. Stemmningin í þjóðfélaginu er andsnúin flóttafólki og mun leiða til formlegs banns við sharia, kvennakúgun og barnaníði. En moskur verða leyfðar og reistar, þótt múslimahatarar hér hafi bann við slíku á oddinum.

Ekkert samsæri

Punktar

Sigmundur Davíð átti umtalsverðar eignir í skattaskjóli á aflandseyju. Stal sennilega undan skatti. Seldi þessar eignir konu sinni á einn dollar á elleftu stund fyrir gildistöku nýrra laga um slíkar eignir. Leyndi því fyrir þjóðinni. Leyndi líka fyrir þjóðinni, að eignirnar áttu kröfur í föllnu bankana. Leyndi einnig, að hann sat beggja vegna borðs, þegar ríkið skipulagði meðferð slíkra krafna. Hljóp út úr sjónvarpsviðtali, þegar allt þetta bar á góma. Það var ekki samsæri 300 innlendra og erlendra blaðamanna og George Soros gegn Sigmundi. Var bara staðfesting á ótíðindum um, að Sigmundur Davíð væri undarlega siðblindur.

Trúlausa þjóðin

Punktar

Frakkar hafa í tvær aldir verið andstæðari trúarbrögðum en aðrar þjóðir Evrópu. Blóðug bylting þjóðarinnar gegn aðli og klerkum lifir góðu lífi. Algerlega er skorið milli ríkis og trúar. Bannað er að bera trúartákn utan á sér. Bannað er hafa kross um háls eða á vegg. Í framhaldi af þessari eindregnu trúarandúð Frakka koma tilraunir til banns við búrkum og búrkini. Slíkt er talið vera mótmæli múslima gegn banni við flöggun helgisiða, sem  tengjast kúgun kvenna. Nú hefur dómstóll snúist gegn búrkini-banni sem opinberum afskiptum af klæðnaði kvenna. Sambúð ríkis og róttækra trúarbragða mun áfram vera erfið í Frakklandi.

25% duga ekki

Punktar

Álitsgjafar virðast sammála um, að Píratar verði stærsti flokkur kosninganna, Aðeins hærri en Sjálfstæðisflokkurinn, hvor tveggja nálægt 25%. En er ekki nóg. Hætta er á, að þjófaflokkurinn geti náð meirihluta með samstarfi við Framsókn og Viðreisn. Píratar þurfa helzt að fá 30% til að hafa skýra forustu í stjórn. Þurfa samt að semja við tvo aðra flokka um nýju stjórnarskrána, uppboð á kvóta, björgun heilsu og velferðar. Sennilega dugar að afgreiða kvótann, heilsuna og velferðina með breytingum á fjárlagafrumvarpi fyrir 2017. Þá væri út fyrir sig hægt að hafa þingið stutt, ef meirihluti er um þá leið. En mikið þarf samt að díla.

Prófkjör eru til bóta

Punktar

Dálítið er fyndið, þegar reikniglöggur frambjóðandi prófkjörslauss flokks gagnrýnir annan flokk fyrir þá tegund Schulze útreiknings, sem þar var valin. Önnur aðferð Schulze útreiknings hefði verið heppilegri, segir Pawel Bartoszek. Sjálfsagt rétt hjá honum. Ekki kom þó fram, hvort hann hafi hvatt til prófkjörs í sínum flokki, sem óneitanlega er galli á gagnrýni hans. Hvað um það, píratar hafa birt, hvernig atkvæði féllu í hvert sæti, svo allir sjá aðferðina. Málinu er lokið. Viðreisn Pawels mætti hins vegar þora að hafa prófkjör. Sama er að segja um Bjarta framtíð. Ætti meiri séns á þingmönnum, ef hún notaði prófkjör.

Ekkert málþóf – allt frosið

Punktar

Þingstörf eru meira eða minna frosin. Ekki vegna málþófs stjórnarandstöðu. Vegna fjarvista stjórnarþingmanna þarf að fresta atkvæðagreiðslu um mál, sem eru komin úr umræðu. Í nefndum flækjast mál, sem stjórnarþingmenn eru ekki sammála um, svo sem tíu ára búvörusamningur. Tvö húsnæðismál, sem stjórnin sagði skipta miklu máli, eru ekki einu sinni komin til alþingis. Þessa dagana er Alþingi bara að drepa tímann. Frambjóðendur í prófkjörum eru byrjaðir að slást um atkvæðin. Stjórnarflokkarnir eru byrjaðir að skerpa á sérstöðu sinni í umdeildum málum og Eygló ráðherra farin að afneita málum ríkisstjórnarinnar.

Frosti neitar staðreyndum

Punktar

Frosti Sigurjónsson er stundum sagður skásti þingmaður Framsóknar. Er þó jafn lyginn og aðrir flokksbræður. Neitar til dæmis, að Framsókn hafi fyrir síðustu kosningar lofað þjóðaratkvæði um, hvort halda skyldi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Flokkurinn gerði þetta ítrekað, þegar hann var í minnihluta. Þegar hann komst í stjórn, gleymdist loforðið umsvifalaust. Þótt kannanir hafi ítrekað sýnt, að meirihluti þjóðarinnar vildi þá og nú hætta viðræðum. Framsókn og Frosti treystu bara ekki þjóðinni. Nú er kominn til sögu nýr flokkur pírata. Hann treystir þjóðinni til að úrskurða um deilumál á borð við aðildarviðræður.

Stinkandi rauðspretta

Veitingar

Ýmis mathús hafa verið í kjallaranum á Lækjargötu 6b, andspænis Menntaskólanum í Reykjavík. Nú er þar Messinn, sem segist vera sjávarréttastaður. Samt ekki með neinn fisk dagsins. Mest verkaðir réttir, franskt bouillabaisse fisksúpa, franskur ratatouille fiskigrautur og couscous Norður-Afríku, auk íslenzks fiskiborgara og plokkfisks. Ég prófaði allt of gamla, stinkandi rauðsprettu, borðaði meðfylgjandi kartöflur, tómata og klettasalat. Rauðspretta eldist hratt og er vandmeðfarin á mathúsum. Hefði betur valið eldisbleikjuna, hún geymist lengur. Já, eða saltfiskfroðuna. Innrétting hugguleg og þjónusta frambærileg.

Misgóðir frambjóðendur

Punktar

Pawel Bartoszek og Þorsteinn Víglundsson fara í framboð fyrir Viðreisn, því að þeir eru Evrópusinnar. Hluti af þeim fjölmenna hópi, sem skilinn var eftir úti í kuldanum, er Davíð dáleiddi Sjálfstæðisflokkinn í frægri landsfundarræðu. Pawel er vel metinn af hægri greindarlegum skrifum í fjölmiðlum. Þorsteinn er hins vegar þekktur sem grátkarl atvinnurekenda í kjaraviðræðum og einn af höfundum hins illræmda Salek-samkomulags. Pawel er happafengur fyrir Viðreisn, en Þorsteinn er hins vegar óþekkjanlegur frá helztu bófum Sjálfstæðisflokksins. Engu máli skiptir hvoru megin hryggjar hann lendir, en Pawel mun afla atkvæða.

Galnir banksterar

Punktar

Stjórnendur Eignarhaldsfélags Kaupþings, aðaleiganda Arion-banka, eru endanlega gengnir af göflunum. Helztu deildarstjórar hafa þegar fengið milljónir í bónus. Nú stendur til, að 20 manns skipti með sér 1,5 milljarði í enn einn bónus. Að meðaltali um 75 milljónir á mann og nær auðvitað engri átt. Sama ruglið og á veltiárunum fyrir hrun. Stjórnendur bankanna telja vinnu sína og félaga sinna margfalt merkari en hún er í raun. Reynslan sýnir, að bankar fara á hausinn á kostnað ríkisins. Samt skilja stjórnendur ekki, að þeir eru bara venjulegir fálkar. Stjórnendur Kaupþings eiga heima á lokuðu hæli fyrir sjúka afbrotamenn.