Punktar

Mánaðarlegar lífskrísur

Punktar

Í annað sinn á síðustu hef ég haft þá ánægju að rúlla sem viðskiptavinur gegnum bráðadeildir og líknardeildir Landspítalans. Þar er þröng á þingi, sjúklingar í ofsetnum herbergjum, á göngum og lagerum. Kringum þá stendur þyrping ættingja og koma þá oft ekki bara sjúkdómar við sögu. Kliðurinn berst til annarra hópa og frá einum hópi til annars. Heimsleikarnir eru fólki ofarlega í huga, brauð og leikir fátæka mannsins. Næst kemur lífsbarátta sumra ættingja. Fólk, sem skrapar á 250 þús kr strípuðum taxtalaunum, atvinnuleysisbótum, örorku, eða ellilaunum, er mánaðarlega í óviðráðanlegum lífskrísum. Í gær var það bílaverkstæðið. Þessu þarf að breyta með því að útrýma bófaflokknum og setja 500 þús kr lágmarkslaun.

Ísland er svart og spillt

Punktar

Evrópska stofnunin gegn spillingu, GRECO, gaf í vikunni út svarta skýrslu um bófa Íslands. Þar er kvartað um, að landið hafi lítið mark tekið á fyrri skýrslum um lélega stöðu landsins í pólitískri spillingu. Almennt ræðir skýrslan vanefndir Íslands á tíu mikilvægum sviðum. Þar er tekið á skorti á hagsmunaskráningu og á skorti á reglum um samskipti ríkisins við sérhagsmunaaðila. Ríkisstjórninni er gefinn kostur á að koma átján athugasemdum í lag fyrir 30. september í haust. Komið verði upp góðu eftirliti og settar skýrar reglur um verndun uppljóstrara. Sérstaklega er bent á lausagang lögreglunnar í reglum um meðferð siðferðismála.

GRECO

Ramba um á elliheimilinu

Punktar

Gamli fjórflokkurinn hefur árum og áratugum saman raðað sér á garðann. Undir því yfirskyni, að þeir dekkuðu pólitískar hreyfingar. Eins og í útlandinu, vinstri og hægri, sveitó og kratar. Komnir eru á vettvang nýir flokkar, sem dekka í alvöru pólitísku hreyfingarnar. Viðreisn hefur klofnað út úr bófaflokki Sjálfstæðis. Sósíalistar taka við flóttamönnum, er flýja undan Katrínu úr ekki-vinstri og ekki græna flokknum VG. Píratar hafa komið sér vel fyrir, þar sem kratar voru á fleti fyrir. Framsókn hefur klofnað. Ferlið er mislangt komið, Vinstri græn og Framsókn eru í andarslitrunum, en Sjálfstæðis og Samfylkingin ramba um á elliheimilinu.

Trump rokinn burt

Punktar

Donald Trump fór snemma af sjöveldafundinum í Québec. Allir aðrir forsetar og forsætisráðherrar voru ósammála honum í öllum einstökum atriðum. Þeir vildu ekki bjóða Rússlandi Pútíns aðild að sjöveldafundunum. Og skömmuðu Trump óspart fyrir að efna til tollastríðs við bandalagsríkin; að falla frá Parísarsamkomulaginu um varnir gegn eitrun andrúmsloftsins. Aldrei hefur verið annað eins ósætti á fundum vesturveldanna. Trump er farinn af fundinum. Það er eins og hann vilji rífa niður allt, sem byggt hefur verið upp í vestrinu eftir kalda stríðið. Eftir brottför hans lýstu leiðtogarnir hver fyrir sig yfir óánægju með hegðun hans á fundinum.

Gera fátækum kleift að lifa

Punktar

Ekki er ég hissa á, að Sósíalistar hafni aðild að meirihluta „Thatcher-light“ í Reykjavík. Flokkurinn vill aðgerðir í þágu fátækra, sem menntaða millistéttin telur ekki vera til. Hann getur því látið svipuna rífa í bakið á Dagsliðinu. Píratar fóru hina leiðina, að vera memm. Þeir hafa náð fram ýmsum breytingum, svo sem opnari stjórnsýslu. Þessar leiðir hafa kosti og galla, að vera memm og ekki vera memm. Borgin verður nú að efla smíði ódýrra íbúða með lægri kostnaði, sem fellur til, áður en hafizt er handa. Minnka áherzlu á þéttingu byggðar, er verður alltaf dýr. Draga úr dýrum kröfum um frágang íbúða. Gera fátækum kleift að lifa.

Lýðræði verður þjófræði

Punktar

Við, sem stóðum að fjölmiðlun á síðari hluta síðustu aldar, brutumst undan oki stjórnmálaflokka. Lentum svo eftir aldamótin undir verra skrímsli, bröskurum hrunsins, sem predikuðu eftirlitslausan markað. Hlutverk hliðvarðarins féll í hendur almennings, almannatengla og nú síðast fréttafalsara. Ég veit ekki lengur, hvað er til í því, sem ég les og heyri. Gamaldags traust á miðlum heyrir sögunni til. Við höfum ekki fundið nýja fjölmiðlun með heilbrigðum rekstrargrundvelli, sem stendur undir rándýrum rannsóknum þrautþjálfaðra fréttamanna. Þeir hrekjast úr starfi og verða jafnvel almannatenglar. Þannig breytist lýðræði í þjófræði.

Málfundafélög pottanna

Punktar

Heitu pottarnir í sundlaugum hafa lengi verið félagsmiðstöðvar málfundaklúbba. Á vissum tímum má ganga að tilteknum hópum. Sumir eru pólitískir, aðrir um íþróttir eða hitt og þetta. Gott væri, að fjölmiðill tæki að sér að kortleggja þessar félagsmiðstöðvar, hvenær hvaða hópar hittast og hvert sé helzta umræðuefnið. Þannig getur áhugafólk hitt annað fólk á svipuðu sviði eða búið til mætingaplan um sundlaugaferðir. Þetta er eins og kaffihúsin í miðausturlöndum, gömul aðferð til samskipta, undanfari fésbókar og í samkeppni við hana. Þarna fréttir þú fyrir löngu, að Viðreisn mundi telja heppilegast að fara í samstarf með Samfylkingunni.

Rasismi dó í kosningunum

Punktar

Kosningarnar grisjuðu smáflokkana og rasisma þeirra, sem felst í að kenna hópum útlendinga um fátækt. Rasismi var fyrst prófaður í moskumálinu í Reykjavík fyrir fjórum árum og síðan gerður að jaðarmáli í síðustu kosningum. Kjósendur taka fólki með annað útlit jafnvel og hefðbundnu útliti Íslendinga. Kjósendur hlusta líka á fólk, sem fætt er handan hafsins. Útlendingar hafa lengi síast inn í samfélagið og ekki verið til neinna vandræða. Fremur hafa þeir auðgað samfélagið með siðum sínum og hugsun. Erlendis hefur rasismi hins vegar breiðst út og komizt yfir 20% fylgi í pólitík. Vegna mistaka í móttöku og aðlögun fárra hópa sérvizku-múslima.

Vinstri græn verja kvótagreifa

Punktar

Vinstri græn eru fremst í vörn fyrir frumvarpi um lækkun auðlindarentu á greifa sjávarútvegs. Lilja Rafney Magnúsdóttir segir lækkunina munu hindra gjaldþrot smáútgerða. Samt nemur arður kvótagreifa hundruðum milljarða og kallar á hækkun rentunnar fremur en lækkun. Eðlilegast væri þó að hætta þessu sífellda rifrildi um rentuna og bjóða fremur út veiðileyfin á frjálsum markaði. Leyfa markaðinum að stjórna, hversu mikið greifar vilja borga fyrir leyfin. Núverandi kerfi sogar hundruð milljarða árlega út úr þjóðfélaginu. Gerir því ókleift að standa undir sómasamlegum lágmarkslaunum, örorku og ellilaunum, svo og ókeypis heilsukostnaði.

Hrista sofandi sauðina

Punktar

Meirihlutaflokkarnir í Reykjavík hafa glatað tengslum sínum við undirstéttina og sinna helzt fyrsta heims vandamálum miðstéttanna. Þeir hafa til dæmis ekki skilið húsnæðisskortinn, sem þeir eiga þátt í að orsaka. Verð íbúða hefur rokið upp úr jarðsambandi við undirstéttina. Fjölgun þeirra hefur eingöngu farið í húsnæði ferðamanna. Undirstéttin getur ekki leigt sér íbúð, er kostar 20 milljónir fyrir fyrstu skóflustungu. Byggja þarf íbúðir, sem kosta 20 milljónir fullbúnar. Borgarstjórn þarf að endurskoða hratt sjúkan ferilinn og kollvarpa honum. Fjölgun pírata og innkoma sósíalista í borgarstjórn eiga að geta hrist sofandi sauðina.

Húsþrælarnir

Punktar

Húsþrælar eru rétta orðið yfir vinstri flokka, sem tóku upp á því að ráfa um í þokunni og enda sem skósveinar bófaflokksins. Hver á fætur öðrum hafa þessir flokkar gengið svipugöngin til kofanna við hallir auðgreifanna. Fyrst til að drepa sig var Framsókn, sem nú er aðeins til í brotabrotum á landsbyggðinni. Næst kom röðin að Samfylkingunni, sem drap sig á Blair-isma í hrunstjórn Geirs Haarde. Hún hefur aldrei síðan ratað heim aftur og hangir eins og hóra á götuhornum hér og þar. Þriðji fjórflokkurinn er sá hvorki Vinstri né Græni, sem nú mannar vígi kvótagreifa og berst hetjulega fyrir sérhagsmunum þeirra og annarra auðgreifa.

Valdalausir áfram valdalausir

Punktar

Flokkur hinna valdalausu hefur ákveðið að taka ekki þátt í meirihlutavöldum í Reykjavík. Nokkuð tvíeggjað, en hefur bæði kosti og galla. Fyrir hina valdalausu getur verið skelfilegt að vera varahjól undir Blair-isma Samfylkingarinnar. En einn fulltrúi getur haft töluvert meiri áhrif en varahjólsins, sé hún stefnuföst og ákveðin. Gamli meirihlutinn mundi til dæmis verða beinskeyttari en áður, ef hann fær blóðgjöf frá Sósíalistum. Fulltrúinn mundi til dæmis oft hafa stuðning af tveimur fulltrúum Pírata. Skipuleggja þarf hraða smíði ódýrra og félagslegra íbúða. Nauðsynlegt er að knýja borgarstjórn inn að beinskeyttri línu Sósíalista.

Borgarstjóri úr Viðreisn

Punktar

Staðan eftir borgarstjórnarkosningar er eins og eftir síðustu alþingiskosningar. Kjósendur hafa sagt sitt og ekki valið oddvita. Þá var oddviti smáflokks gerður að forsætisráðherra og nú er hugsanlegt, að oddviti smáflokks verði gerður að borgarstjóra. Fyrrverandi meirihluti Dags hefur 10 fulltrúa. Minnihluti Eyþórs er í 8 fulltrúum. Hvorugt nægir í meirihluta. Miðflokkurinn og Flokkur fólksins hallast helzt að Sjálfstæðisflokknum og Sósíalistar vilja vera sér á parti. Þá er Dagsfólk orðið 10 og Eyþórsfólk orðið 10. Spurningin er þá einkum sú, hvorn hópinn Viðreisn velur sér. Því gæti nýr borgarstjóri komið úr flokki Viðreisnar.

Gegnherílandi þjóðrembingar

Punktar

Vinstri Græn eru hvorki vinstri né græn. Þetta eru þjóðrembingarnir úr gamla gegnherílandinu. Voru rústuð í kosningunum vegna samstarfs við bófaflokkinn um ríkisstjórn. Framsókn bauð fram í tveimur fylkingum og var sú eldri rústuð, en hin yngri slefaði inn. Samfylkingunni var refsað fyrir óvinsæla skipulagsstjórn og skort ódýrra íbúða. Ekki gengur heldur að ráðast á einkabílisma með offorsi. Sjálfur bófaflokkurinn jók fylgi sitt, enda lítur fólk jákvætt á fjárglæfra og saknar þess eins, að fá ekki að vera með. Flestir nýlegu flokkarnir fengu færri kjósendur en frambjóðendur. Rasismi er búið spil. En Pírötum og Sósíalistum gekk vel, sem er plús fyrir fátæka.

Litlar breytingar

Punktar

Kosningarnar breyta litlu í pólitíkinni. Meirihlutinn í Reykjavík heldur, því að Viðreisn eða Sósíalistar koma í stað Bjartrar framtíðar, sem hætti í pólitík. Líka er athyglisvert, að Sósíalistar fá fulltrúa í fyrstu atrennu. Tvær fréttir eru þó merkastar. Bófaflokkurinn náði ekki niður fyrir 30% fylgi, þótt glæpaeðli hans ætti að vera öllum ljóst. Meðan fólk kýs hann samt, er ekki von á góðu. Hin fréttin er, að Vinstri græn rústuðu sig niður í einn fjórða af fylginu í fyrra. Með því að taka þá upp samstarf í ríkisstjórn við bófaflokkinn. VG á nú kost á að losa sig úr þeirri martröð og fara að hjálpa til við að endurreisa velferðina.