Punktar

Dagleg framlenging okkar

Punktar

Tölvur og símar eru mikilvæg framlenging okkar. Heimurinn ferst ekki, þótt margir drepi tímann við leiki og annað skemmtiframboð. Þarna gleymist ekki dagbókin. Í Google flettir þú upp rétt skrifuðum tilvitnunum, föðurnöfnum fólks og rithætti á ótal tungumálum. Þú notar gagnagrunna umfram flata töflureikna til að finna samhengi upplýsinga í fleiri víddum. Bankaviðskipti eru orðinn leikur einn og taka engan tíma. Öpp halda utan um viðskipti við Strætó. Þetta eru okkar hversdagsnot. Sérfræðingar fara dýpra í mál með því að tengja kynslóðir fyrir þúsundum ára við nútímafólk. Og nú tefla tölvur margfalt flóknari skákir en snillingar gátu áður.

Ráðherra fyrir einmana

Punktar

Bretland er fyrsta ríkið til að fá sérstakan ráðherra um vanda, sem ekki þekktist fyrir einni öld. Tracey Crouch er nýr „minister for loneliness“ í ríkisstjórn Theresu May. Staðan í landinu er sú, að hálf milljón manns talar einu sinni í viku eða sjaldnar við annan mann. Slík einvera er talin vera jafn heilsuspillandi og 15 sígarettur á dag. Hluti vandans er, að margir vilja ekki viðurkenna einmannaleika sinn. Draga þarf þetta fólk úr skelinni. Þetta er dæmi um, að alls konar atferli, sem lítið þekktist áður fyrr, er orðið að stórfelldum heilsuvanda. Nútíminn er erfiður, veldur streitu, kvíða, þunglyndi, drykkjusýki og ótal öðrum sjúkdómum.

Stefna er einskis virði

Punktar

Fjölmiðlarnir eiga nokkra sök á, hversu illa er komið fyrir þjóðinni í pólitík. Helzta efni þeirra í tvær vikur fyrir kosningar er að leggja fram vefspurningar, þar sem kjósendur geta borið sig saman við stefnu stjórnmálaflokkanna. Svo veltir fólk fyrir sér niðurstöðunni og ber afstöðu sína síðan saman við annarra. Engin virðist gera fyrirvara um tilgangsleysi þessa. Algengt er að flokkar hafi allt aðra kosningastefnu en ríkisstjórnarverk. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi hafa sósíaldemókratíska kosningastefnu en dólgafrjálshyggju í stjórnarverkum. Í vetur höfðu Vinstri græn þveröfuga stefnu við þá, sem síðan kom í ljós í ríkisstjórn.

Íslenzka er víkjandi

Punktar

Í háskólum okkar er ensk tunga 90% námsefnisins. Enska hefur tekið við sem tunga sérfræðinga. Nánast allar skýrslur eru hér á ensku. Raunar er það nauðsynlegt, því að annars eru þær ekki teknar gildar. Ég hef tekið eftir, að á barnaskólaaldri tala mörg börn ensku sín í milli með réttu hljómfalli. Ólíkt þeirri skriflegu ensku, sem við lærðum fyrir hálfri öld. Þessa ensku fá þau úr tónlistinni, sem flæðir um heiminn. Ferðamenn undrast, að „allir“ skuli tala ensku hér og finnst það auðvitað hentugt. Við þurfum að margfalda áherzlu á íslenzku sem talmál í tölvum, svo að umheimurinn valti ekki yfir hana eins og hvern annan óþarfa.

Staurar Landsnets brotna

Punktar

Landsnet er eitt af fyrirbærum einkavæðingar á ríkisstofnun. Hefur umturnast úr verkfræðistofnun í eins konar stjórnmálaflokk. Vill áfram reisa staura og möstur um allt land. Hatar jarðlínur eins og pestina. Prófar ýmis brögð til að láta þær líta verr úr í kostnaði. Fræg dæmi um það eru á Reykjanesskaga. Nú berst Landsnet fyrir Hvalárvirkjun og segir hana auka orkuöryggi á Vestfjörðum. Það er rangt. Staurar brotna í hvassviðri. Jarðlínur auka öryggið, ekki staurar. Hvalárlína mun koma á Vestfjarðalínu í Bitrufirði. Liggur svo yfir stormbeljandi heiðar Vestfjarða. Nauðsynlegt er að ríkisvæða Landsnet að nýju sem þjónustu.

Einkavæðing er dýrari

Punktar

GUARDIAN skoðar útkomu einkavæðingar í heilbrigðisgeiranum, járnbrautarlestum og skólum Breta. Alls staðar er sama sagan. Kostnaður verður meiri í einkavæðingu ríkiseinokunar. Hleypur upp úr öllu valdi vegna viðgerða á lélegu húsnæði, sem bætt er á húsaleiguna. Á heilsugæzlustöðvum hækkar kostnaður, einkum vegna óþarfra aðgerða. Lestakerfið í Bretlandi hefur nánast hrunið vegna einkavæðingar. Komið er í ljós þar í landi og á Norðurlöndum, að grunnþjónustan á ekki bara að vera kostuð af ríkinu, heldur einnig rekin af ríkinu. Nýfrjálshyggja Vinstri grænna og annarra stjórnarflokka hér á landi er einnig orðin að úreltum trúarbrögðum sérvitringa.

Isavia slefar af græðgi

Punktar

Isavia er dæmi um einkavædda ríkiseinokun. Hefur breytt Leifsstöð úr landkynningu í alþjóðlegt skrímsli. Þú veizt ekki, hvar þú ert í heiminum, þegar þú lendir þar. Jafnvel kaffið er alþjóðleg gervivara. Einkaeinokunin skattar viðkomur rútubíla við stöðina. Það er fimmfalt dýrara að stanza þar heldur en við Heathrow í London. Stanzið er raunar ókeypis víðast á Norðurlöndum, þar sem flugstöðvum hefur ekki verið breytt í einkaskrímsli. Gray Line kærði Isavia til Samkeppniseftirlitsins fyrir græðgina, en eftirlitið þar er, eins og annað eftirlit með einkavinavæðingu, í skötulíki. Ríkisvæða þarf Isavia, svo að þjónusta verði græðginni yfirsterkari.

Tvær fyrirvinnur

Punktar

Hér þurfa fjölskyldur tvær fyrirvinnur til að koma sér fyrir í lífinu, til að koma upp húsnæði og börnum. Í Evrópu dugar ein og hálf fyrirvinna víðast hvar. Það þýðir, að hér komast öryrki og gamlingi, einstætt foreldri með barn ekki af. Mikill minnihluti að vísu, en samt fáránlegur. Þjóðarauður okkar er einn hinn mesti í Evrópu, en samt er þetta svona. Stafar af, að allt of miklum auði er stolið undan skatti og stungið undan skiptum. Ránið hefur staðið áratugum saman að frumkvæði bófaflokksins, Sjálfstæðisflokksins. Með traustum stuðningi Framsóknar og síðast en ekki sízt með þögn Samfylkingar og Vinstri grænna, nú undir forsæti Katrínar.

Þjóðin er sífellt rænd

Punktar

Birtar hafa verið tölur, er sanna margt af því, sem ég hef haldið fram undanfarið. Við erum á hraðferð til auðvalds, þar sem 1000 manns eða 0,3% eiga nú nánast allt, viðskiptalíf, pólitík og fjölmiðlun. Vinstri grænum var kippt upp í stjórnarsæng, þar sem þau samþykkja allt. Auknir eru afslættir af auðlindarentu kvótagreifa. Velferð er skorin niður með verðbólgu. Peningastefnan öll er í eigu allra þrengstu hagsmuna. Kvótagreifar eiga tvo ráðherra með húð og hári. Tilfærsla peninga og eigna hindrar, að við getum haldið jöfnu við Norðurlönd og Þýzkaland í velferð.

Flekahlaup Vinstri grænna

Punktar

Katrín Jakobsdóttir segir „að það geti komið undantekningartilvik þar sem eðlilegt er að fara í samstarf með einkaaðilum“. Hún hefur rétt svartasta hægrinu meira en litla fingurinn. Við stefnum því að algeru rofi milli hópa, þeirra 0,3%, sem eiga nánast allt viðskiptalífið, og svo hinna 99,7%, sem eiga nánast ekkert eða eru í mínus. Vinstri græn eru ekki bara íhaldsflokkur, heldur hægri íhaldsflokkur, sem á sínum fyrstu stjórnarvikum hefur stutt lægri skatta ríkra og hærri skatta fátækra og ýmis sérfríðindi fyrir þá ríkustu. Þetta eru flekahlaup í pólitíkinni, þegar Vinstri græn sýna sína réttu hlið misskiptingar í þjónustu við 1000 ofsaríka.

Sáttin rofin

Punktar

Þegar ég var ungur, var meiri sátt í samfélaginu. Öll Evrópa tók upp velferð, sem meginmarkmið. Flokkar unnu saman frá vinstri til hægri. Ólafur Thors hóf samstarf við Sósíalistaflokkinn og Ísland færðist inn á norræna velferðarlínu. Bjarni Ben eldri var að vísu tuddi, en hélt góðu sambandi við verkalýðshreyfinguna. Flokkur Ólafs og Bjarna sagði: Stétt með stétt. Fór að breytast með Davíð í átt til flokks allra ríkustu gegn almenningi. Eftir hrun var sáttin rofin og jaðrarnir styrktust á kostnað miðjunnar. Nú er svo komið, að Katrín er gluggaskraut hjá óargastjórn Bjarna yngri. Baráttan er harðari, enda oft um líf og dauða fátæklinga að tefla.

Fjölbreytt Rok á holtinu

Punktar

Ný veitingahús eru innréttuð hvert á fætur öðru í miðborginni. Fæst þeirra eru svo áhugaverð, að ég nenni að gagnrýna. Undantekningar leynast inn á milli. Ein er lítið, notalegt og fagurlegt Rok andspænis Hallgrímskirkju. Hefur þá sérstöðu að bjóða þrjátíu rétti á um 1700 krónur hvern eða 2800 krónur fyrir tvo. Þarna eru ýmsir réttir, sem ég hef ekki séð annars staðar, margir fiskréttir, ostrur, önd og nokkur salöt. Svona margir réttir eru annars vegar spennandi, en geta yfirkeyrt álagið á eldhúsið við fullt hús gesta. En gott var það, sem ég fékk. Beztur var þorskurinn, sem var hárfínt rétt eldaður. Þetta er einn af tíu beztu í borginni.

Skerðing lífsgæða

Punktar

Þétting byggðar rýrir lífsgæði þeirra, sem búa þar fyrir. Nýju húsin eru oft turnar, sem takmarka útsýni eldri húsa. Þétting byggðar dregur úr sólskini á jarðhæð. Kallar á þrengsli og hávaða og mengun á umferðarhornum. Fækkun bílastæða eykur álag á bílastæði við gömlu húsin. Þegar fólk fattar þetta, verður að reisa bílastæðahús. Þar, sem stormgjár hafa þar að auki verið framkallaðar í áður lágreistum hverfum, rýrna lífsgæði. Fyrirsjáanlegar breytingar á aflvélum, stærðum bíla, sjálfakstri og fjölbreyttri flóru farartækja kalla á varfærni í velja eina samgöngutækni umfram aðrar. Skipulag Reykjavíkur er farið að markast af ofstæki.

Dagur og Hjálmar hjóla

Punktar

Getur ekki einhver góður ljósmyndari tekið myndir af þeim Degi Eggertssyni og Hjálmari Sveinssyni ríða á hjóli í vinnuna í þessu veðri. Borgarstjórn þarf að átta sig á, að ekki er alltaf Kaupmannahafnarveður í Reykjavík. Borgarbúar munu halda fast í einkabílismann, þótt hann verði rafknúinn og jafnvel sjálfekinn. Við þurfum Miklubraut í stokk frá Landspítalareitnum austur fyrir Grensásveg. Kannski má hafa hjólreinar i stokknum. Þurfum stórt bílastæðahús við Umferðarmiðstöðina og víðar. Ekki verður hægt að svæla Reykvíkinga upp í Borgarlínu. Yfirleitt á að forðast að kúga fólk til að neyðast til að fylgja trúarofstæki skipulagsfólks.

Borgarbúar ofsóttir

Punktar

Meirihluti borgarstjórnar hyggst á næsta kjörtímabili endurheimta hraðferðirnar sálugu hjá Strætó með fáránlegum kostnaði. Þær eiga nú að heita Borgarlína. Hún verður svo dýr, að engar aðrar samgöngur verða bættar og einkabílistar verða ofsóttir. Markmiðið er að svæla þá upp í Borgarlínuna. Hún lengir ferðatíma fólks um 15-20 mínútur, bæði þeirra, sem nota hana og hinna sem ekki nota. Jafnframt er stefnt að töfum á bílaumferð, einkum á álagstímum. Þessi martröð mun ekki auka lífgæði borgarbúa. Fækkun bílastæða er önnur aðferð til að minnka lífsgæði einkabílista. Alveg eins og þétting núverandi byggðar minnkar lífsgæði íbúanna.