Suður-Múlasýsla

Þórdalsheiði

Frá Arnhólsstöðum í Skriðdal um Þórudal og Þórdalsheiði að Áreyjum í Reyðarfirði.

Var fyrrum nefnd Jórunnardalsheiði. Jeppafær línuvegur er um heiðina.

Áður var heiðin víða torfær hestum á vetrum, þótt farið væri þar með fjárrekstra. Slys urðu þar á síðari öldum. Séra Þorleifur Guðmundsson á Hallormsstað féll með hesti sínum 1702 um snjóþak á Yxnagili. Guðmundur Marteinsson frá Reyðarfirði varð þar úti í stórviðri á jólum 1811. Síðast varð þar úti Benedikt Blöndal búfræðingur í janúar 1939, þá kominn niður í Skriðdal.

Byrjum við þjóðveg 1 um Skriðdal hjá Arnhólsstöðum. Förum austur eftir vegi 936 inn í Þórudal. Innarlega í dalnum er þverleið austur í Brúðardal. Við förum þverleiðina austur um Brúðardal milli Brúðardalsfjalls að norðan og Tröllafjalls að sunnan. Upp úr dalbotninum förum við norðaustur á Þórdalsheiði í 500 metra hæð við Hvalvörðu og síðan austur með litríku Yxnagili og um Drangsbrekkur niður í Áreyjardal og sunnan ár að Áreyjum í Reyðarfirði.

9,2 km
Austfirðir

Jeppafært

Nálægar leiðir: Stafdalur, Hjálpleysa, Stuðlaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Víkurheiði

Frá Vík í Fáskrúðsfirði um Hvammsvötn til Bakkagerðis í Stöðvarfirði.

Förum frá Vík í Fáskrúðsfirði skáhallt suður á fjallið og austur fyrir Lambafell. Síðan suður um Hvammsvötn vestanverð, austan við Steðja og suðaustan við Hellufjall. Mest í 420 metra hæð á Vegahrygg á Víkurheiði. Þaðan suðvestur í Klifbotna og að þorpinu Kirkjubóli í Stöðvarfirði.

8,1 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Stöðvarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Viðfjörður

Frá Hofi í Norðfirði um Viðfjörð og Barðsnes og Vöðlavík til Stóru-Breiðuvíkur í Reyðarfirði.

Stikuð leið og greiðfær. Nafn Viðfjarðar stafar af miklum við, sem þar rekur á fjöru. Hér gerðust Viðfjarðarundrin, sem Þórbergur Þórðarson skrifaði um. Þar lýsir hann dularfullum fyrirbærum í æsku Huldu, sem Þórbergur kallaði Viðfjarðar-Skottu. Í frásögn Þórbergs er líka fjallað um fyrirbæri í Viðfirði frá fyrri öldum. Á Sveinsstöðum í Hellisfirði var rekin norsk hvalveiðistöð 1901-1913 og voru þar dregnir á land 1243 hvalir.

Förum frá Hof um jeppaveg suðvestur yfir dalinn í Grænanes og síðan austur fyrir Hellisfjarðarmúla. Þar liggur reiðleið um Norðfjarðarskriður austur á Götuhjalla og síðan niður að eyðibýlinu Sveinsstöðum í Hellisfirði. Förum inn fjörðinn og áfram út með honum að sunnanverðu um Hellisfjarðarströnd undir Viðfjarðarmúla. Síðan yfir Nesháls og suður Viðfjörð að eyðibýlinu Viðfirði við fjarðarbotn. Þaðan tökum við krók með austurströnd Viðfjarðar út Barðsnes að eyðibýlinu Barðsnesi og til baka aftur. Frá Viðfirði förum við síðan á jeppavegi suðvestur með Viðfjarðará og upp í skarðið Dys milli Vindhálsaxlar að vestan og Súlna að austan. Þar erum við i 360 metra hæð. Við förum síðan áfram suður um Lönguhlíð á Víkurheiði. Okkar leið á Víkurheiði sveigir til suðvesturs fyrir norðan Víkurvatn og sunnan við Búrfell, þar sem við förum upp í 400 metra hæð. Síðan til vesturs niður brekkurnar í Reyðarfjörð og loks til suðurs niður að sjó að þjóðvegi 954 við Stóru-Breiðuvík.

43,3 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Tregaskarð, Fönn, Drangaskarð, Sandvíkurskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Vatnsdalur

Frá Þorvaldsstöðum í Norðurdal um Vatnsdal til Vatnsskóga í Skriððdal.

Í Vatnsdal eru gróf berghlaup.

Förum frá Þorvaldsstöðum norðvestur Norðurdal, þangað til hann klofnar til norðurs í Stafsheiðardal, þar sem er leið til Skriðdals, og til vesturs í Vatnsdal. Förum vestur Vatnsdal og síðan vestnorðvestur um vatnaskil í dalnum í 630 metra hæð. Að lokum áfram norðvestur Vatnsdal að Vatnsskógum.

17,2 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Stafdalur, Launárskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Breiddalur.is

Tregaskarð

Frá Viðfjarðarvegi á Víkurheiði um Vöðlavík og Tregaskarð til Sandvíkur.

Mikið klungur og ógreiðfært efst í skarðinu. Stundum var farið aðeins austar, um Gerpisskarð, sem er hærra, um 700 metrar, en greiðfærara og fært hestum. En það er töluverður krókur. Í Vöðlavík strandaði Bergvík 18. desember 1993, en mannbjörg varð. Þremur vikum síðar, 10. janúar, strandaði björgunarskipið Goðinn við að reyna að ná Bergvík á flot. Þá fórst einn maður, en hinum var bjargað upp í þyrlu eftir níu klukkustundir í versta veðri.

Byrjum á Viðfjarðarvegi milli Reyðarfjarðar og Viðfjarðar. Förum jeppaslóð sunnan við Lönguhlíð. Hún liggur austur og niður í Vöðlavík um sæluhús á Karlsstöðum austur að Vöðlum í Vöðlavík. Þaðan förum við norður Tregadal í Tregaskarð í 600 metra hæð. Áfram norður úr skarðinu niður að Sandvíkurá og beygjum þar til norðausturs með ánni. Leiðin endar á Parti í Sandvík eða við sæluhúsið í Sandvík.

12,6 km
Austfirðir

Ekki fyrir hesta

Skálar:
Karlsstaðir: N65 01.803 W13 40.354.
Sandvík: N65 05.350 W13 33.270.

Nálægar leiðir: Viðfjörður, Sandvíkurskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Svínadalur

Frá Þuríðarstöðum í Eyvindardal í Fagradal um Svínadal og meðfram Búðará til Kollaleiru í Reyðarfirði.

Leiðin liggur samsíða Fagradal að austanverðu, milli Fljótsdalshéraðs og Reyðarfjarðar.

Förum frá Þuríðarstöðum til suðurs inn í Svínadal. Hæstur er dalurinn í 580 metrum. Förum áfram til suðurs. Þegar við komum suður úr dalnum, förum við suðvestur yfir Kollaleiruháls að Kollaleiru í Reyðarfirði.

15,6 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Fönn, Eskifjarðarheiði, Hjálpleysa, Þórdalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Stöðvarskarð

Frá Svartagili í Fáskrúðsfirði um Stöðvarskarð til Óseyrar í Stöðvarfirði.

Hér eru fjölskrúðugar jarðmyndanir frá Reyðarfjarðareldstöð. Sunnan við Stöðvarskarð er berghlaup með Einbúa, miklu og litríku bjargi.

Byrjum við þjóðveg 96 austan Svartagils í Fáskrúðsfirði. Förum suðaustur á ská upp hlíðina upp að Merkigili. Þar förum við til suðurs austan undir Þverfelli upp í Stöðvarskarð í 620 metra hæð. Þaðan suðvestur fyrir Þverfell niður í Jafnadal. Þaðan dalinn meðfram Þverá um Ásbrún og út fyrir Stöðvarás og þar suður að Stöð. Að lokum austur að vegi 96 við Flautagerði, skammt frá Óseyri.

9,5 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Hvammsvötn, Reindalsheiði, Gunnarsskarð, Fossdalsskarð, Fanndalsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Stuðlaskarð

Frá Stuðlaá í Reyðarfirði um Stuðlaskarð til Dala í Fáskrúðsfirði.

Leiðin kallast líka Stuðlaheiði. Hún er rudd fyrir hesta, en er illa vörðuð og þótti hættuleg á vetrum.

Um leiðina segir í Árbók FÍ 2005: “Liggur leiðin skammt innan við bæ á Stuðlum yfir Ytri-Þverá og á Neðri-Veghamra (Vegghamra), þá yfir gil Innri-Þverár og upp eftir Langahrygg í Ferðamannabotn. Ofan við botninn er farið um Snið upp á Veghamrabrún, yfir Sniðlæk og Hrútalæk og upp um Efri-Veghamra í Heiðarbotn. Upp úr honum er farið vestur á Heiðarbrún og frá henni suðaustur í skarðið milli Ytri- og Innri-Stuðuls, sem einnig eru kenndir við áttirnar norður-suður.”

Förum frá Stuðlaá sumarhúsaveg suður með Króará, um Stuðla og Þverár suður austurhlíðar Hjálmadals. Efst förum við til suðausturs í Stuðlaskarð í 780 metra hæð milli tveggja Stuðla. Síðan til austurs niður með Hrútá og suðaustur um Stuðlaheiðardal og um Tröllabotna í Daladal. Að þjóðvegi 957 við Dali.

12,3 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Hjálpleysa, Þórdalsheiði, Búðará, Reindalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Stangarskarð

Frá Skriðu eða Skriðustekk í Breiðdal um Stangarskarð til Skála í Berufirði.

Stórbrotin leið á slóðum Breiðdalseldstöðvar.

Förum frá Skriðu eða Skriðustekk suðvestur með Skriðuá upp í Skriðudal. Fyrir botni dalsins er Stöng. Við förum vestan við tindinn um Innra-Stangarskarð í 680 metra hæð. Getum líka farið austan við tindinn um Ytra-Stangarskarð í 710 metra hæð. Úr Innra-Stangarskarði förum við suðvestur að þjóðvegi 1 hjá Skála.

6,8 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Dísastaðahjalli.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Breiddalur.is

Stafsheiði

Frá Víðinesi í Skriðdal um Stafdal til Þorvaldsstaða í Norðurdal í Breiðdalsvík.

Á kortinu er sýnd gamla reiðleiðin, en nú liggur jeppaslóð um dalinn og Stafsheiði, ekki alveg á sama stað og reiðleiðin.

Byrjum við þjóðveg 1 milli Arnhólsstaða og Víðilækjar í Skriðdal norðan við brúna á Jóku. Förum eftir jeppaslóð suðaustur dalinn austan við Hallbjarnarstaðatind og vestan Tröllafjalls. Við förum áfram fyrir mynni Djúpadals og eftir Stafdal suður um brekkuna Staf á skarðið í 680 metra hæð. Síðan förum við suður Stafsheiðardal niður í Norðurdal og síðan suðaustur Norðurdal að Þorvaldsstöðum.

21,3 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Hraungarðsbunga, Þórdalsheiði, Vatnsdalur, Launárskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Staðarskarð

Frá Kolmúla í Reyðarfirði um Staðarskarð til Höfðahúsa í Fáskrúðsfirði.

Fylgt er torfærri jeppaslóð á aflögðum þjóðvegi.

Um skarðið segir svo í Árbók FÍ 2002: “Bílvegurinn yfir skarðið er enn jeppafær, en hann liggur frá Kolmúla út og upp Gvöndarhjalla upp á Hvarf þar sem ferðamenn hurfu sjónum manna á Kolmúla. Við Vindingavörðu yst á Neðri-Sóleyjarhjalla er beygt upp Skarðshjalla í skarðið. Á Gvöndarhjalla miðjum eru Gvöndarsteinar, einn stór og aðrir minni og þar á Gvöndur biskup helgi að hafa sungið tíðir “til að afstýra bráðdauða á mönnum” segir Ólafur á Kolfreyjustað, en þykir það ekki hafa gengið eftir sem skyldi.”

Förum frá Kolmúla suðaustur á fjallið eftir jeppaslóð undir Gvendarmúla og Engihjalla. Síðan í sneiðingum upp hlíðina neðan við Sóleyjartind og suðaustur í Staðarskarð í 420 metra hæð. Vestur brekkurnar niður að Höfðahúsum.

7,0 km
Austfirðir

Jeppafært

Nálægar leiðir: Skildingaskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Skriðdalsvegur

Frá Hallormsstað um Hallormsstaðaháls að Mýrum eða Geirólfsstöðum í Skriðdal.

Þetta eru gamlar og víða skýrar götur.

Byrjum við þjóðveg 931 hjá Hallormsstað í Skógum. Förum frá Hússtjórnarskóla austnorðaustur Skriðdalsveg og síðan austur heiðina um Bjargsenda að Geirólfsstöðum í Skriðdal við þjóðveg 937.

6,6 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Hraungarðsbunga.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Skógaskarð

Frá Seyðisfirði um Skógaskarð til Borgareyrar í Mjóafirði.

Förum frá Seyðisfirði suðaustur og upp með Dagmálalæk og síðan til suðurs utan við Grákamb og neðan við Gullþúfu upp í Skógaskarð í 950 metra hæð. Síðan suður og niður með Borgareyrará að austanverðu til Borgareyrar.

7,6 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Króardalsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skildingaskarð

Frá Selá í mynni Breiðdals í Reyðarfirði um Skildingaskarð til Brimness í Fáskrúðsfirði.

Heitir Hrossadalsskarð að sunnanverðu, Skildingaskarð að norðanverðu. Áður fyrr var leiðin fjölfarin og var síminn lagður yfir skarðið. Sjaldfarin leið nú á tímum. Vestan undir skarðinu er Jónatansöxl, sem þessi saga er um: Jónatan Pétursson var farandkaupmaður á Austurlandi um miðja nítjándu öld. Fór hann höfuðdaginn 1854 drukkinn frá Þernunesi á skarðið og kom ekki fram. Líkið fannst síðan nokkuð skrámað í Hrossadal. Peningar hans, 472 ríkisdalir, fundust á víð og dreif þar beint fyrir ofan, í Miðmundarrák. Var ljóst, að Jónatan hafði hrapað í skarðinu.

Förum frá Selá suður lægðina austan við Hafranesfell austur og upp í Skildingaskarð í 500 metra hæð. Síðan til suðurs um Hrossadalsskarð og niður með Villingaá og loks að vegi 96 vestan við Brimnes.

5,9 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Staðarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Skálanes

Frá Hánefsstöðum í Seyðisfirði með ströndinni til Skálaness.

Förum frá Hánefsstöðum austur með ströndinni undir Hánefi og Flanna að Grund. Þaðan er leið um Dalaskarð til Mjóafjarðar. Við förum áfram út ströndina norðaustur að Skálanesi.

9,0 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Dalaskarð, Brekkugjá.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort