Ungir og óþolinmóðir áhrifamenn í Framsóknarflokknum eru farnir að minna ríkisstjórnina á, að einhvern tíma verði hún að byrja þá niðurtalningu verðbólgunnar, sem hún lofaði í stjórnarsáttmála sínum.
Klukkan tifar á ríkisstjórnina í tafli hennar við verðbólgu, lífskjararýrnun og taprekstur. Stundum er eins og stjórnin telji heppilegast að leika alls ekki, ef þannig mætti koma í veg fyrir fingurbrjóta.
Skákin hlýtur þó að hafa einhvern enda, til dæmis þann, að ríkisstjórnin falli á tíma. Hún hefur hingað til teflt mjög hægt. Það þarf þó ekki að leiða til taps, ef þaulhugsaðir leikir birtast meðan klukkan gengur enn.
Áhorfendur eru ekki sammála um gang þessarar skákar. Sumir þeirra hafa sjálfvirkt flokkspólitískt mat á stöðunni. Á útskýringum þeirra verður lítið að græða fyrr en þeir læra mannganginn, sem verður seint.
Almenningur er á báðum áttum. Hann skiptist helzt í þolinmóða og óþolinmóða. Hinir síðarnefndu eru fjölmennir í hópi þess þriðjungs kjósenda, sem ekki hefur afstöðu til ríkisstjórnarinnar, samkvæmt skoðanakönnun Dagblaðsins.
Hinir óákveðnu voru aðeins fimmti hluti kjósenda í febrúarkönnun blaðsins. Fjölgun þeirra upp í þriðjung er til marks um hina óljósu stöðu í skák ríkisstjórnarinnar. Og með vaxandi tímahraki getur þeim fjölgað enn.
Hagstæðar tölur ríkisstjórnarinnar í síðustu skoðanakönnun Dagblaðsins geta horfið eins og dögg fyrir sólu í raunveruleika næstu kosninga, ef mikill hluti hinna óákveðnu áhorfenda sannfærist um, að ríkisstjórnin hafi tapað skákinni.
Hinir þolinmóðu valda því, að ríkisstjórnin hefur nú 41% fylgi meðal kjósenda gegn 26% fylgi stjórnarandstöðunnar. Þetta bendir til, að andstöðunni hafi ekki tekizt að sýna fram á, að allt sé hér á hverfanda hveli.
Almenningur er orðinn næsta ónæmur fyrir þrýstihópum, sem hrópa “úlfur, úlfur”. Slík köll eru orðin svo gamalkunn, að fáir mundu átta sig á komu úlfsins. Það eina, sem menn heyra, er, að stjórnarandstaðan er orðin hás.
Hinir þolinmóðu líta í kringum sig. Þeir sjá alls staðar fulla atvinnu. Þeir sjá vinnudálka smáauglýsinga lengjast. Þeir telja sig langt frá sulti og seyru, þótt vextir og afborganir sígi í eins og fyrri daginn.
Hinir þolinmóðu svipast um eftir atvinnuvegunum, sem margsagðir eru farnir á kúpuna. Þeir sjá ekki gjaldþrotin, heldur vaxandi eftirspurn eftir starfsfólki. Hví skyldu þeir trúa, að úlfurinn sé kominn?
Staðreyndin er þó sú, að ríkisstjórnin hefur einkum leikið biðleiki í tafli sínu við verðbólgu, lífskjararýrnun og taprekstur. Senn verða alvöruleikir nauðsynlegir, hvort sem þeir reynast fingurbrjótar eða leikfléttur.
Að loknum hveitibrauðsdögum má ríkisstjórnin vel við una 41% fylgi á móti 26% andstöðu. En jafnframt á hún mjög svo óvísa hlutdeild í hinum 33% kjósenda, sem ekki hafa tekið afstöðu. Hún má því fara að gæta sín.
Að minnsta kosti má taka undir með þeim, sem telja mjög svo tímabært, að ríkisstjórnin hefji hina margumtöluðu niðurtalningu verðbólgunnar, svo að einhver árangur sjáist á verðbólgutölum þessa árs.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið