Þjóðleiðir

Katrín er ógnin

Þjóðleiðir

Ekki að ástæðulausu beinist kosningabarátta bófaflokksins sérstaklega að Katrínu Jakobsdóttur. Í fyrsta lagi hefur hún mun meiri kjörþokka en Bjarni Benediktsson fjárglæframaður. Í öðru lagi kemur á óvart, að fylgi skefst af bófunum beint til Vinstri grænna, án viðkomu í öðrum flokkum. Vinstri græn hafa nefnilega hagað kosningabaráttunni þannig, að hún er alls staðar og hvergi. Ekki mikið fyrir nýja stjórnarskrá, ekki heldur uppboð á veiðileyfum. Mestu máli skiptir þó, að bófaflokkurinn er eins skattafíkinn og hann sakar Katrínu um. Munurinn er sá, að bófarnir vilja leggja á fátæka, en Katrín vill færa byrðina yfir til hinna ríku.

Grafið undan rekstri

Þjóðleiðir

Þrettán hundruð störf eru laus við leikskóla landsins. Mikill skortur er líka á kennurum á skyldunámsstigi. Fólk með réttindi fær sér vinnu annars staðar. Það stafar auðvitað af, að kjörin eru of bág í samanburði við aðra hópa. Eru þetta þó brýnni störf fyrir þjóðfélagið en ýmis önnur, til dæmis stjórnunarstöður í bönkum. Þetta er eins og í heilbrigðiskerfinu. Þar vantar víða réttindafólk til starfa, auðvitað af bágum kjörum í samanburði við aðra. Þegar þannig er búið að svíða ríkisrekstur til óbóta og gera óvinsælan, koma nýfrjálshyggjugaurar á borð við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Hún kallar eftir einkarekstri á óvinsælum ríkisrekstri.

Í átt til þrælahalds

Þjóðleiðir

Aukin stéttaskipting í kjölfar nýfrjálshyggju er í fyrsta lagi óréttlát. Í öðru lagi hefur hún slæm áhrif á samfélagið, minnkar límið í því, eykur ósætti og deilur. Heilsa heilla stétta verður lakari en annarra, menntun þeirra lakari og tekjur versnandi. Við hverfum í átt til gamla vistarbandsins, sem var framlenging fyrra þrælahalds. Fólk er hneppt í fjötra skulda og mánaðarlegs yfirdráttar. Bankarnir veifa 90% lánum og klófesta þig síðan í vaxtaokri. Aukin stéttaskipting er fráhvarf frá lýðræði eins og það hefur verið túlkað eftir frönsku byltinguna. Til að auka lýðræði þurfa öll ríki að auka jöfnuð í tekjum og eignum borgaranna.

Íslenzkur talgervill

Þjóðleiðir

Washington Post hefur í tvígang undanfarið birt fréttir af vaxandi líkum á dauða íslenzkrar tungu. Yngsta fólkið er tvítyngt, jafnfært á ensku og á íslenzku. Nota jafnvel ensku sín á milli. Þar á ofan fara samskipti við innflutt starfsfólk að mestu leyti fram á ensku. Foreldrar og skólar hafa ekki sinnt skyldum sínum við það, sem einkennir og sérkennir þjóðina, málið. Svo vel vil til, að Íslendingar í ábyrgðarstörfum risafyrirtækja hugbúnaðar hafa unnið forvinnu fyrir íslenzka talgervla. Í framtíðinni munu samskipti milli þjóða fara um talgervla. Getur kostað milljarð að búa til íslenzkan. Ríkisvaldinu ber hér að taka frumkvæðið.

Washington Post

Washington Post

Skætingur Brynjars

Þjóðleiðir

Brynjar Níelsson er einn þeirra þingmanna, sem fullyrðir á færibandi, að farið sé að lögum, þegar vafi leikur á, að svo sé. Hefur tekið við hlutverki Vigdísar Hauksdóttur fyrrverandi þingmanns. „Þetta er ruglumræða“ segir hann um kröfuna um endurbætt lög um forsendu úrskurða Kjararáðs. Björn Leví Gunnarsson bendir á, að frá Kjararáði vanti útskýringar á, hvers vegna það kemst að einni útkomu um laun þingmanna, en ekki annarri. Ný lög þurfi að skerpa skilgreiningar á starfi Kjararáðs, svo úrskurðir þess fari ekki út af korti almennrar launaþróunar. Því svarar Brynjar með óútskýrðum skætingi um „galið“ „óþolandi“ „þetta rugl“.

Þjóðleiðirnar orðnar 1138

Punktar, Þjóðleiðir

Efni bókarinnar „Þúsund og ein þjóðleið“ er komið hér á síðuna, enda er bókin löngu uppseld og ófáanleg í fornbókabúðum. Raunar eru leiðirnar orðnar 1138. Hér eru þær að vísu án flottu bókarkortanna. Um þau gilda réttindi, sem ná ekki til vefs. Farið á bókasafn til að skoða þau. Til að finna texta um leiðirnar slærðu inn fyrstu stafi heitisins í leitarreit heimasíðunnar. Þú kemst líka í textann gegnum orðið Þjóðleiðir í listanum hægra megin á heimasíðunni. Síðan leitað eftir landsvæðum, sem er nýtt, aðallega eftir sýslum. Munir þú ekki heitið eða munir það undir öðru heiti, geturðu fyrst leitað að nálægri leið og síðan fetað þig áfram eftir orðunum í listunum: Nálægir ferlar eða Nálægar leiðir. Með þessari yfirfærslu á vefinn er lokið verki mínu um þjóðleiðir.

Þjóðleiðir á vefnum

Hestar, Punktar, Þjóðleiðir

Efni bókarinnar „Þúsund og ein þjóðleið“ er komið hér á síðuna, enda er bókin fyrir löngu uppseld. Raunar eru leiðirnar orðnar 1132 og verða varla fleiri. Þetta er án bókarkortanna af leiðunum. Um þau vísast til bókasafna. Þú kemst í þennan vef gegnum orðið Þjóðleiðir hægra megin á heimasíðunni. Síðan geturðu skráð heiti leiðarinnar í reitinn, sem merktur er LEITA. Munir þú ekki heitið eða manst leiðina undir öðru heiti, geturðu fyrst leitað að nálægri leið og síðan fetað þig áfram eftir orðunum í listunum: Nálægir ferlar eða Nálægar leiðir. Getur líka gert það með að slá fyrst inn heiti landshlutans, t.d. Vestfirðir. Gott væri að fá leiðréttingar og viðbætur í tölvupósti til: jonas@hestur.is

(Ef einhver WordPress sérfróður gæti sett landshlutana (subcategories) í „drop down“ skrunlista undir orðið Þjóðleiðir (category) á heimasíðunni, mundi það einfalda grúsk lesenda)

Alvöru kortagerð

Punktar, Þjóðleiðir

Alvöru kortagerð var lítil hér í nærri heila öld. Herforingjaráðskortin dönsku voru svo frábær, að litlu var þar við að bæta. Voru fagurlega teiknuð í byrjun 20. aldar og sýndu veruleikann. Í endurprentunum var fljótlega farið að falsa kortin að óskum bænda að sovézkri fyrirmynd. Vildu ekki sjá þjóðleiðir í sínu landi. Með tilkomu GPS gervihnattamælinga undir lok 20 aldar fór þetta svo að lagast. Einnig birtust kort ferða- og útivistarstofa sveitarfélaga, árbækur Ferðafélags Íslands og kortavefur Landssambands hestamanna. Ég safnaði slíkum heimildum 2011 í kortabókina Þúsund og eina þjóðleið, sem er uppseld, en fæst á bókasöfnum.

10. Barcelona – Sagrada Família

Þjóðleiðir
Sagrada Familia, Barcelona

Sagrada Família

Parc Güell, Barcelona

Parc Güell

Ef við beygjum inn þvergötuna við Casa Milá, komum við fljótlega að einkennistákni borgarinnar, umdeildri höfuðsmíði arkitektsins Gaudí. Það er kirkjan Temple Expiatori de la Sagrada Família.

Byrjað var að reisa hana fyrir rúmri öld, en hún er enn ekki fullsmíðuð, en turnarnir mörgu, með marglitum mósaíktoppum, rísa í óskipulegri reisn yfir görðunum í kring. Ekki er hægt að lýsa þessu furðuverki í texta. Það tekst betur með ljósmynd, en bezt er þó að koma á staðinn, standa undir berum himni í kirkjuskipinu og horfa upp til turna Gaudís.

Héðan má taka leigubíl og skreppa til Parc Güell. Það er skemmtigarður, sem er teiknaður af enn hinum sama Gaudí. Upphaflega átti þetta að vera hverfi 60 garðíbúða, en aldrei varð af því. Eftir stendur skemmtigarðurinn með Hans og Grétu piparkökuhúsum og skrautlegum hleðslum af ýmsu tagi, draumaheimur fyrir börn á öllum aldri.

Næstu skref

A. Madrid

Don Quixote & Sancho Panza, Madrid

Don Quixote & Sancho Panza á Plaza de España

Flestir þekkja Costa del Sol, Costa Brava eða Benidorm, enda er þessi bók ekki um þá valinkunnu staði. Handan við sólarstrendur er til annar Spánn, gamall menningarheimur, sem hefur gengið í endurnýjun lífdaganna á nýfengnum lýðræðistíma. Þessi bók er skrifuð fyrir ferðamenn, sem vilja kynnast ánægjulegum raunveruleika utan við ágæta ferðamannaþjónustu sólarstranda. Við munum í yfirreið okkar bæði skoða frjálslegan nútíma og fjölbreytta menningarsögu.

Suma staðina í þessari bók er auðvelt að skoða með því að fá sér bílaleigubíl frá Costa del Sol eða Costa Brava. Aðra er auðvelt að skoða með því að láta eftir sér að taka flugvél frá sólarströnd inn til höfuðborgarinnar í Madrid og gista þar tvær eða þrjár nætur. Þeir, sem ætla að fljúga með Iberia til Spánar geta fengið lítt takmarkað flug innanlands í 60 daga á Spáni fyrir $250, ef þeir panta það fyrirfram.

Næstu skref

Brekknafjöll

Frá Mosaskarði um Brekknafjöll og Farið að fjallaskálanum Hagavatni

Einum kílómetra sunnan vaðsins er göngubrú yfir Farið.

Byrjum í Mosaskarði sunnan Fagradalsfjalls, þar sem Eyfirðingavegur liggur frá Þingvöllum. Höldum kringum Fagradalsfjall og Brekknafjöll, fyrst vestan megin og norður fyrir þau og síðan austan megin. Andsæpnis Einifelli og vestan þess förum við yfir Farið á vaði og síðan norður fyrir Einifell að fjallaskálanum Hagavatni.

10,1 km
Árnessýsla

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Fagriskógur

Frá fjallaskálanum Kletti í Þjórsárdal með Áslákstungnafjall að gamla Sprengisandsveginum.

Förum frá fjallaskálanum Kletti í Þjórsárdal austur fyrir Áslákstungnafjall suður yfir Sandá að gamla Sprengisandsveginum við suðvesturhorn Reykholts í Þjórsárdal.

5,6 km
Árnessýsla

Skrásetjari: Jónas Kristjánson
Heimild: Kortavefur LH

Heljarkinn

Frá fjallaskálanum Hallarmúla á Flóa- og Skeiðamannaafrétt um Heljarkinn að fjallaskálanum Kletti í Þjórsárdal.

Förum austur og síðan norðaustur frá fjallaskálanum Hallarmúla á Flóa- og Skeiðamannaafrétt. Beygjum síðan þvert suður og niður um Heljarkinn að fjallaskálanum Kletti í Þjórsárdal.

9,5 km
Árnessýsla

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Oddsstaðaholt

Frá Sigurðarstaðavatni á Melrakkasléttu um Oddsstaðaholt að Oddsstöðum.

Förum frá Oddsstöðum á Melrakkasléttu austsuðaustur um Oddsstaðaholt að Sigurðarstaðavatni.

4,7 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Klíningskarð, Oddsstaðir.
Nálægar leiðir: Beltisvatn, Grjótnes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kjalfell

Frá hestarétt við Fúlukvísl um Kjalfell að Grettishelli á Kili.

Þrjár leiðir liggja norður Kjöl. Austast er bílvegurinn. Í miðjunni leiðin, sem hér er lýst sem Svarátbugum, Kjalfelli og Kjalfellsleið. Vestast er svo sú leið, sem fegurst er og oftast farin, hér kölluð Hvítárvatn og Þjófadalir.

Kunn er harmsaga Reynistaðarbræðra og förunauta þeirra. Þeir urðu úti á Kjalvegi árið 1780. Beinhóll er kenndur við beinaleifar af sauðfé og hestum þeirra. Á hólnum er minnisvarði um þá. Látið beinaleifarnar liggja óhreyfðar.

Grettishellir er 2 km sunnan Rjúpnafells, stór hraunhóll með mörgum vörðum. Í honum er hellir, opinn í báða enda, nefndur Grettishellir. Ekki er vitað, hvort Grettir var þar.

Förum frá Fúlukvísl hjá hestarétt austan við Múla. Förum beint austur á miðleiðina um Kjöl. Þegar við komum á hana, beygjum við til norðurs og förum eftir henni austan við Kjalfell og vestan við Beinhól. Síðan norður um Kjalhraun að Grettishelli. Þaðan liggur leið áfram norður á Hveravelli.

13,5 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Þjófadalir, Stélbrattur, Guðlaugstungur, Jökulfall.
Nálægar leiðir: Svartárbotnar

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH