Þjóðleiðir

Andlitið nægði ekki

Þjóðleiðir

Þótt Dagur sé stærri en Samfylkingin, er ekki lengur hægt að selja andlit hans eitt og sér í kosningabaráttu. Andlitinu verður að fylgja eitthvað um mál, sem brennur á borgarbúum, svo sem ódýrt húsnæði og greiðar samgöngur. Þar að auki þarf Dagur betri hóp að baki sér, ekki þessi núll. Því fór sem fór. Fylgi lak til Sósíalista með úrvals beinskeytta kosningabaráttu og eina kraftaverkastúlku. Til Pírata með massífa baráttu og nokkrar kraftaverkastúlkur. Í samanburði við þetta kjarnorkulið var hópurinn bak við Dag gamaldags og jafnvel Blair-ískur. Eins og það væri gefið mál, að meirihluti Dags mundi halda, sambandslaus við almenning.

Byltingartilraun er hafin

Þjóðleiðir

Lægstu taxtar lélegustu stéttarfélaga, t.d. Eflingar, færa launþegum minna en 300 þúsund krónur á mánuði. Sama er að segja um öryrkja og gamlingja. SALEK er bara rugl úr Gylfa Arnbjörnssyni, sendisveini atvinnurekenda. Kominn er tími á byltingu láglaunafólks. Hún er hafin í VR og er að byrja í Eflingu. Vonandi verður gömlu fábjánunum þar kastað út á hafsauga og Sólveig Anna Jónsdóttir og félagar kosin í staðinn. Eðlilegt að bylting byrji hjá þeim mest arðrændu. Sú bylting getur svo færzt yfir á stjórnmálin og eflt fylgi Pírata og Sósíalistaflokksins. Fátækt fólk getur, ef það vill, losað sig við gömlu pólitísku bófaflokkana og brennuvargana.

Þjóðleiðirnar orðnar 1138

Punktar, Þjóðleiðir

Efni bókarinnar „Þúsund og ein þjóðleið“ er komið hér á síðuna, enda er bókin löngu uppseld og ófáanleg í fornbókabúðum. Raunar eru leiðirnar orðnar 1138. Hér eru þær að vísu án flottu bókarkortanna. Um þau gilda réttindi, sem ná ekki til vefs. Farið á bókasafn til að skoða þau. Til að finna texta um leiðirnar slærðu inn fyrstu stafi heitisins í leitarreit heimasíðunnar. Þú kemst líka í textann gegnum orðið Þjóðleiðir í listanum hægra megin á heimasíðunni. Síðan leitað eftir landsvæðum, sem er nýtt, aðallega eftir sýslum. Munir þú ekki heitið eða munir það undir öðru heiti, geturðu fyrst leitað að nálægri leið og síðan fetað þig áfram eftir orðunum í listunum: Nálægir ferlar eða Nálægar leiðir. Með þessari yfirfærslu á vefinn er lokið verki mínu um þjóðleiðir.

Þjóðleiðir á vefnum

Hestar, Punktar, Þjóðleiðir

Efni bókarinnar „Þúsund og ein þjóðleið“ er komið hér á síðuna, enda er bókin fyrir löngu uppseld. Raunar eru leiðirnar orðnar 1132 og verða varla fleiri. Þetta er án bókarkortanna af leiðunum. Um þau vísast til bókasafna. Þú kemst í þennan vef gegnum orðið Þjóðleiðir hægra megin á heimasíðunni. Síðan geturðu skráð heiti leiðarinnar í reitinn, sem merktur er LEITA. Munir þú ekki heitið eða manst leiðina undir öðru heiti, geturðu fyrst leitað að nálægri leið og síðan fetað þig áfram eftir orðunum í listunum: Nálægir ferlar eða Nálægar leiðir. Getur líka gert það með að slá fyrst inn heiti landshlutans, t.d. Vestfirðir. Gott væri að fá leiðréttingar og viðbætur í tölvupósti til: jonas@hestur.is

(Ef einhver WordPress sérfróður gæti sett landshlutana (subcategories) í „drop down“ skrunlista undir orðið Þjóðleiðir (category) á heimasíðunni, mundi það einfalda grúsk lesenda)

Alvöru kortagerð

Punktar, Þjóðleiðir

Alvöru kortagerð var lítil hér í nærri heila öld. Herforingjaráðskortin dönsku voru svo frábær, að litlu var þar við að bæta. Voru fagurlega teiknuð í byrjun 20. aldar og sýndu veruleikann. Í endurprentunum var fljótlega farið að falsa kortin að óskum bænda að sovézkri fyrirmynd. Vildu ekki sjá þjóðleiðir í sínu landi. Með tilkomu GPS gervihnattamælinga undir lok 20 aldar fór þetta svo að lagast. Einnig birtust kort ferða- og útivistarstofa sveitarfélaga, árbækur Ferðafélags Íslands og kortavefur Landssambands hestamanna. Ég safnaði slíkum heimildum 2011 í kortabókina Þúsund og eina þjóðleið, sem er uppseld, en fæst á bókasöfnum.

10. Barcelona – Sagrada Família

Þjóðleiðir
Sagrada Familia, Barcelona

Sagrada Família

Parc Güell, Barcelona

Parc Güell

Ef við beygjum inn þvergötuna við Casa Milá, komum við fljótlega að einkennistákni borgarinnar, umdeildri höfuðsmíði arkitektsins Gaudí. Það er kirkjan Temple Expiatori de la Sagrada Família.

Byrjað var að reisa hana fyrir rúmri öld, en hún er enn ekki fullsmíðuð, en turnarnir mörgu, með marglitum mósaíktoppum, rísa í óskipulegri reisn yfir görðunum í kring. Ekki er hægt að lýsa þessu furðuverki í texta. Það tekst betur með ljósmynd, en bezt er þó að koma á staðinn, standa undir berum himni í kirkjuskipinu og horfa upp til turna Gaudís.

Héðan má taka leigubíl og skreppa til Parc Güell. Það er skemmtigarður, sem er teiknaður af enn hinum sama Gaudí. Upphaflega átti þetta að vera hverfi 60 garðíbúða, en aldrei varð af því. Eftir stendur skemmtigarðurinn með Hans og Grétu piparkökuhúsum og skrautlegum hleðslum af ýmsu tagi, draumaheimur fyrir börn á öllum aldri.

Næstu skref

A. Madrid

Don Quixote & Sancho Panza, Madrid

Don Quixote & Sancho Panza á Plaza de España

Flestir þekkja Costa del Sol, Costa Brava eða Benidorm, enda er þessi bók ekki um þá valinkunnu staði. Handan við sólarstrendur er til annar Spánn, gamall menningarheimur, sem hefur gengið í endurnýjun lífdaganna á nýfengnum lýðræðistíma. Þessi bók er skrifuð fyrir ferðamenn, sem vilja kynnast ánægjulegum raunveruleika utan við ágæta ferðamannaþjónustu sólarstranda. Við munum í yfirreið okkar bæði skoða frjálslegan nútíma og fjölbreytta menningarsögu.

Suma staðina í þessari bók er auðvelt að skoða með því að fá sér bílaleigubíl frá Costa del Sol eða Costa Brava. Aðra er auðvelt að skoða með því að láta eftir sér að taka flugvél frá sólarströnd inn til höfuðborgarinnar í Madrid og gista þar tvær eða þrjár nætur. Þeir, sem ætla að fljúga með Iberia til Spánar geta fengið lítt takmarkað flug innanlands í 60 daga á Spáni fyrir $250, ef þeir panta það fyrirfram.

Næstu skref

Brekknafjöll

Frá Mosaskarði um Brekknafjöll og Farið að fjallaskálanum Hagavatni

Einum kílómetra sunnan vaðsins er göngubrú yfir Farið.

Byrjum í Mosaskarði sunnan Fagradalsfjalls, þar sem Eyfirðingavegur liggur frá Þingvöllum. Höldum kringum Fagradalsfjall og Brekknafjöll, fyrst vestan megin og norður fyrir þau og síðan austan megin. Andsæpnis Einifelli og vestan þess förum við yfir Farið á vaði og síðan norður fyrir Einifell að fjallaskálanum Hagavatni.

10,1 km
Árnessýsla

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Fagriskógur

Frá fjallaskálanum Kletti í Þjórsárdal með Áslákstungnafjall að gamla Sprengisandsveginum.

Förum frá fjallaskálanum Kletti í Þjórsárdal austur fyrir Áslákstungnafjall suður yfir Sandá að gamla Sprengisandsveginum við suðvesturhorn Reykholts í Þjórsárdal.

5,6 km
Árnessýsla

Skrásetjari: Jónas Kristjánson
Heimild: Kortavefur LH

Heljarkinn

Frá fjallaskálanum Hallarmúla á Flóa- og Skeiðamannaafrétt um Heljarkinn að fjallaskálanum Kletti í Þjórsárdal.

Förum austur og síðan norðaustur frá fjallaskálanum Hallarmúla á Flóa- og Skeiðamannaafrétt. Beygjum síðan þvert suður og niður um Heljarkinn að fjallaskálanum Kletti í Þjórsárdal.

9,5 km
Árnessýsla

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Oddsstaðaholt

Frá Sigurðarstaðavatni á Melrakkasléttu um Oddsstaðaholt að Oddsstöðum.

Förum frá Oddsstöðum á Melrakkasléttu austsuðaustur um Oddsstaðaholt að Sigurðarstaðavatni.

4,7 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Klíningskarð, Oddsstaðir.
Nálægar leiðir: Beltisvatn, Grjótnes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Kjalfell

Frá hestarétt við Fúlukvísl um Kjalfell að Grettishelli á Kili.

Þrjár leiðir liggja norður Kjöl. Austast er bílvegurinn. Í miðjunni leiðin, sem hér er lýst sem Svarátbugum, Kjalfelli og Kjalfellsleið. Vestast er svo sú leið, sem fegurst er og oftast farin, hér kölluð Hvítárvatn og Þjófadalir.

Kunn er harmsaga Reynistaðarbræðra og förunauta þeirra. Þeir urðu úti á Kjalvegi árið 1780. Beinhóll er kenndur við beinaleifar af sauðfé og hestum þeirra. Á hólnum er minnisvarði um þá. Látið beinaleifarnar liggja óhreyfðar.

Grettishellir er 2 km sunnan Rjúpnafells, stór hraunhóll með mörgum vörðum. Í honum er hellir, opinn í báða enda, nefndur Grettishellir. Ekki er vitað, hvort Grettir var þar.

Förum frá Fúlukvísl hjá hestarétt austan við Múla. Förum beint austur á miðleiðina um Kjöl. Þegar við komum á hana, beygjum við til norðurs og förum eftir henni austan við Kjalfell og vestan við Beinhól. Síðan norður um Kjalhraun að Grettishelli. Þaðan liggur leið áfram norður á Hveravelli.

13,5 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Þjófadalir, Stélbrattur, Guðlaugstungur, Jökulfall.
Nálægar leiðir: Svartárbotnar

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Skjaldborg

Frá Hofmannaflöt við Þingvelli um Eyfirðingaveg að Hlöðuvöllum.

Þetta er jeppaslóðin, sem yfirleitt er farin. Gamli Eyfirðingavegurinn lá að hluta norðar í landinu, sjá leiðina Eyfirðingaveg.

Förum frá Hofmannaföt til norðausturs fyrir vestan Mjóafell fremra. Síðan austur milli Mjóafells fremra að sunnanverðu og Mjóafells innra að norðanverðu. Gamli Eyfirðingavegurinn lá norðaustur með fremra fellinu, en við förum jeppaslóð austur að Söðulhólum og áfram að Tindaskaga. Þar beygir vegurinn norður með Tindaskaga að fjallaskálanum Skjaldborg við norðurenda skagans. Þaðan förum við austur að Skriðu og meðfram fjallinu norðaustur og austur að Hlöðuvöllum.

28,6 km
Árnessýsla

Jeppafært

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Kortavefur LH

Öxnadalsheiði

Frá Silfrastöðum í Skagafirði að Bakkaseli í Öxnadal.

1244: Eyfirðingar komu til liðs við Kolbein unga Arnórsson um Öxnadalsheiði. 1253: Eyjólfur ofsi Þorsteinsson fór um heiðina til Flugumýrarbrennu í Skagafirði. Síðar sam ár fór Gissur Þorvaldsson um heiðina með herflokk í aðför að Eyjólfi ofsa. Aðra herför fór Gissur um heiðina árið eftir.

Ytri-Kot í Norðurárdal hétu upphaflega Þorbrandsstaðir eftir landnámsmanninum. Hann var góður heim að sækja, svo sem segir í Landnámu. Lét hann á bæ sínum “gera eldhús svo mikið, að allir þeir menn, sem þeim megin fóru, skyldu þar bera klyfjar í gegnum og vera öllum matur heimill.”

Förum frá Silfrastöðum gamla veginn austur Norðurárdal og yfir gömlu brúna á Norðurá við heiðarsporð Öxnadalsheiðar. Förum síðan línuveg austur heiðina og niður brekkurnar ofan við Bakkasel.

25,9 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Hörgárdalsheiði, Hraunárdalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Öxnadalsdrög

Frá Blómsturvöllum við Skjálfandafljót að vegamótum Gæsavatnaleiðar.

Bárðargötu er hér lýst í fimm dagleiðum. Nyrsta leiðin er hér kölluð Réttartorfa. Næst koma Öxnadalsdrög. Síðan Vonarskarð. Þá kemur Hamarskriki. Og loks Fljótsoddi. Réttartorfuleiðin hefst við Svartárkot á Mývatnsheiðum og Fljótsoddaleiðin endar við Miklafell á Síðumannaafrétti. Í þessari útgáfu er ekki gert ráð fyrir, að Bárður hafi farið yfir Hverfisfljót uppi við jökul, sem þó er eins líklegt. Gnúpa-Bárður nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Fann, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann, að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni að kanna það. Þeir fundu gróður í Vonarskarði á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi.

Byrjum á jeppaslóð, sem liggur með Skjálfandafljóti austanverðu, á gatnamótum, þar sem þverleið liggur niður að skálanum Blómsturvöllum við fljótið. Við erum á heiðinni í 730 metra hæð. Við förum suður slóðina um Kvíslárbotna, áfram suður Miðdrag og Surtluflæðu. Þar sveigir slóðin meira til suðvesturs og mætir Gæsavatnaleið í 800 metra hæð.

36,2 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Blómsturvellir: N65 04.836 W17 29.764.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Réttartorfa, Vonarskarð.
Nálægar leiðir: Biskupaleið, Suðurárhraun, Ódáðahraun, Gæsavötn, Kambsfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort