Greinar

Tillitssemin víkur

Greinar

Evrópa er heimshluti, sem hefur farið um úfin höf mikilla hörmunga öldum saman og loksins siglt í heila höfn á síðustu sextíu árum. Allir eru sammála um, að framvegis verði aldrei stríð í Evrópu. Fólk dansar ekki lengur kringum skurðgoð þjóðernis og trúarbragða og hefur ákveðið að lifa í friði hvert við annað. Evrópa hefur meira að segja stofnað Evrópusamband.

Mikilvægur þátur þessa menningarheims Evrópu er, að fólki finnst eðlilegt, að ekki séu allir eins. Þeir, sem eru kristnir, sætta sig við, að í kringum þá séu trúleysingjar og fylgismenn margs konar trúarbragða, þar á meðal múslimar. Evrópa telur sig vera farsæla og umburðarlynda höfn, þar sem fólk kippir sér ekki upp við fjölbreytni og lætur hana ærulaust yfir sig ganga.

Hornsteinn Evrópu er þjóðskipulag frelsis til orða og athafna. Fólk má sitja alls konar fundi og vera í alls konar félögum. Það má fá þær fréttir, sem það kærir sig um. Það má hafa hvaða skoðanir, sem það vill. Það er engin skylda, að öllum líki við þessa fundi, þessi félög, þessar fréttir, þessar skoðanir. Félagslegum réttrúnaði er haldið í skefjum í Evrópu.

Þó eru komnir til sögunnar í Evrópu múslimar, sem telja sér ekki líða vel í öllu þessu frelsi. Þeir heimta til dæmis, að Evrópa taki meira tillit til íslams en hún tekur til annara trúarbragða. Þeir hafa gengið af göflunum út af skrípamyndum af Múhameð spámanni, sem birtust fyrst í Jyllandsposten og síðar í mörgum dagblöðum í Evrópu, þar á meðal í DV hér á Íslandi.

Í lið með múslimum hafa gengið talsmenn félagslegs réttrúnaðar, sem vilja sýna múslimum svo mikla tillitssemi, að hún stríði gegn menningarlegum forsendum Evrópu nútímans. Tillitssemi þessa fólks er svo mikil, að henni nægir, að einhver telji sig vera móðgaðan, þá verði að taka hann trúanlegan og gera eitthvað til að bæta honum upp þá móðgun, sem hann hefur sætt.

Friðurinn í Evrópu hvílir hvorki á tillitssemi né félagslegum réttrúnaði. Hann er afleiðing hins opna og frjálsa þjóðfélags, sem hefur kennt fólki að sætta sig við, að því sé ekki sýnd tillitsemi. Friðurinn hvílir meðal annars á litlum staðreyndum á borð við, að birta má skrípamyndir af Jesú Kristi án þess að kristið fólk ærist. Það sama á að gilda um Múhameð.

Það kann ekki góðri lukku að stýra að setja tillitssemina á stall, hvað þá að setja hana ofar skoðanafrelsinu og upplýsingafrelsinu. Slíkt grefur undan vestrænu þjóðskipulgi. Gott er því, að nokkur dagblöð í Evrópu hafa vikizt undan möru tillitsseminnar og birt skrípamyndir af Múhameð spámanni.

Hvar er vetnislandið?

Greinar

Hlegið var að Kvennalistanum fyrir rúmlega tuttugu árum, þegar hann vildi vetnisvæða landið. Þáverandi pólitíkusum þótti það fyndin hugmynd. Menn hlógu minna, þegar árin liðu. Og árið 1999 ákváðu stjórnvöld hér á landi, að Ísland skyldi verða fyrsta algerlega vetnisvædda hagkerfið í heiminum.

Síðan hafa Daimler Benz, Strætó, Skeljungur, Orkuveitan og nokkrir fleiri aðilar rekið eina vetnisstöð í Reykjavík og nokkra strætisvagna, sem hafa nú gengið fyrir vetni í tæp þrjú ár. Þótt ekkert hafi komið fyrir í þeim rekstri, er orðin nokkur bið á næsta skrefi í vetnisvæðingu landsins.

Aðrir hafa ekki sofið á verðinum. Evrópusambandið ákvað fyrir þremur árum að verða vetnisveldi heimsins á skömmum tíma, enda sjá menn, að senn verða olíulindir aðeins til í Miðausturlöndum. Menn sigla skipum og fljúga flugvélum án benzíns með því að nota vetni og efnarafala eins og Strætó.

Vetni er algengasta frumefni jarðarinnar og tryggir framtíð siðmenningar í heiminum, þótt olían sé á hveranda hveli. Gífurlegar verðhækkanir eru fyrirsjáanlegar á olíu á næsta áratug, svo að menn eru komnir í tímahrak með vetnið, þótt enginn tæknivandi sé lengur í vegi fyrir notkun þess.

Ríkisstjórnin, sem ætlaði að vetnisvæða landið fyrir rúmum sex árum, sólundar ódýrustu vatnsorku landsins í niðurgreitt rafmagn fyrir erlend álver í stað þess að eiga ódýra orku fyrir efnarafala vetnishreyflana. Hún er tvísaga, þykist vilja vetnisvæða, en er blikkföst í úreltum heimi olíunnar.

Ekki eru nema fimmtán ár þangað til Ísland átti að vera endanlega vetnisvætt samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar frá 1999. Hætt er við, að einhverjar tafir verði á því og að við þurfum að borga olíu dýru verði fyrir rest, ef ríkisstjórnin vaknar ekki til lífsins og rifjar vetnismálið upp að nýju.

Ekkert hefur komið upp á, sem á að tefja framgang þessa mesta framfaramáls þjóðarinnar á öldinni. Ekki er beðið eftir neinum uppgötvunum. Það vantar aðeins hagkvæmni fjöldaframleiðslunnar til að ná niður verði á vetnisnotkun. Hvar koma íslenzk stjórnvöld að slíkri vinnu? Hvergi.

Ætlar ríkið, sem fyrir sex árum vildi verða fyrsta vetnisríki Evrópu, að verða síðasta vetnisríkið? Það verða aum endalok á ferli ríkisstjórnarinnar á vordögum 2007.

DV

Sharon á leiðarenda

Greinar

Sharon á leiðarenda

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, er frægastur fyrir fjöldamorð í flóttamannabúðunum Sabra og Chatilla árið 1982, þegar hann smalaði fólki, þar á meðal börnum, inn í hús, sem hann lét síðan sprengja í loft upp. Þetta var hefnd að hætti þýzkra nazista, sem á sínum tíma drápu allt fólk í Lidice.

Sharon verður fáum harmdauði. Hann er hryðjuverkamaður og stríðsglæpamaður, heldur verri en Simon Peres, sem einnig stóð að fjöldamorðum á Palestínumönnum í Líbanon. Þeir illu félagar eru nýlega búnir að stofna stjórnmálaflokk, sem á að starfa á miðju stjórnmála Ísraels, hvað sem það þýðir.

Eini kosturinn við Sharon er, að enn verri menn taka við af honum. Ég átti þess kost fyrir mörgum árum að hlusta á Ehud Olmert í kvöldverðarboði í Jerúsalem, þáverandi borgarstjóra og núverandi forsætisráðherra. Það var froðufellandi geðsjúklingur, sem talaði, minnti mig á bíómyndir af Hitler.

Ég hlustaði við annað tækifæri á Benjamin Netanjahu, sem þá var formaður Likud-flokksins. Hann var ekki eins skelfilegur og Olmert, en eigi að síður fullur af mannhatri. Raunar var vist mín í Jersúsalem eins og vera kominn í tímavél aftur til Berlínar á valdaskeiði herraþjóðar nasizta Hitlers.

Að fara frá Ísrael var eins og að losna úr martröð. Þegar ég fór yfir Allenby-brúna yfir til Jórdaníu fannst mér ég vera kominn til Evrópu. Þar var fólk vingjarnlegt og kurteist, hataði ekki útlendinga. Þar var fólk, sem kunni mannasiði, eins og ég hafði vanizt á ferðum mínum víða um Evrópu.

Ísrael er vandræðaríki, ein af rótum spennunnar, sem ríkir milli íslams annars vegar og krossfara nútímans í stjórnum Bandaríkjanna og Bretlands. Það hefur náð sér í atómvopn og kúgar Palestínu á margvíslegan hátt, nú síðast með miklum múr, sem liggur kruss og þvers yfir akra Palestínumanna.

Vandræðin í alþjóðamálum nútímans stafa af, að Ísrael hefur náð tangarhaldi á Bandaríkjunum, sem fylgja Ísrael í einu og öllu. Persónugervingar þessa illa öxuls eru George W. Bush Bandaríkjaforseti og Ariel Sharon, en rætur öxulsins liggja í hægri sinnuðum, kristilegum ofsatrúarsöfnuðum vestanhafs.

Engin von er til betri tíma í Miðausturlöndum fyrr en Bandaríkin láta af eindregnum stuðningi við sögufræga bófa í stjórnmálum Ísraels, svo sem Ariel Sharon.

DV

Menn bjarga sér á flótta

Greinar

Rétt var hjá Geir H. Haarde að láta vera eitt sitt fyrsta verk sem utanríkisráðherra að kalla íslenzka herinn burt frá Afganistan. Íslenzku hermennirnir voru þar undir fölsku flaggi friðargæzlu. Sumir þeirra slösuðust meira að segja við teppakaup í miðbænum í Kabúl. Og ástandið þar versnar.

Fyrir tæpum fimm árum þóttust Bandaríkin hafa unnið sigur á Afganistan, fyrstir í langri röð heimsvelda, sem höfðu reynt það, fyrst Alexander mikli og síðast Bretland og Sovétríkin sálugu. Markmið þessa meinta sigurs var að klófesta Osama bin Laden, sem hefur gert Bandaríkjamönnum lífið leitt.

Sigurinn yfir Afganistan er ekki meiri en svo, að Bandaríkin og bandamenn þeirra hafa helzt völd í höfuðborginni Kabúl, þarf sem þeir hafa leppinn Hamid Karzai, sem engu ræður í landinu. Annars staðar ráða herstjórar og eiturlyfjasalar, svo og gamlir Talíbanar og ýmsir sjálfsmorðssjúklingar.

Á valdatíma Talíbana fyrir fimm árum hafði tekizt að draga mikið úr eiturlyfjaframleiðslu í Afganistan. Nú blómstrar hún meira en nokkru sinni fyrr. Hálf þjóðarframleiðslan er eiturlyf og nánast allur útflutningurinn. 90% af heróíni í Bretlandi kemur frá þessu afskekkta einskismannslandi.

Nú eru Bandaríkjamenn að leggja á flótta án þess að hafa fundið Osama bin Laden. Þeir vilja skilja boltann eftir hjá Atlantshafsbandalaginu, sem vantar hlutverk í lífinu. Spánn, Frakkland og Þýzkaland vilja þó hvergi koma nærri og Holland er að hætta. Áfram situr Bretland með heróínið í fanginu.

Afganistan er land, sem flýtur á eiturlyfjum. Það er ekki eiginlegt ríki, heldur flókin flétta af fjölskylduerjum og blóðhefndum, duldum bandalögum og leynimakki. Erlendum herjum hefur aldrei tekizt að ná fótfestu í þessu landi, sem lýtur engum lögmálum, sem stýra öðrum löndum í heiminum.

Geir hefur gefizt upp eins og Bandaríkin hafa gefizt upp. Það er gott og enn betra er, að lítið var tekið eftir framlagi Íslands, svo að það mun ekki hafa nein eftirköst að ráði. Ísland á ekki að láta á sér bera í hroka heimsveldanna og allra sízt í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Ef Geir tekst að muldra sig út úr stríðinu um sæti í öryggisráðinu til viðbótar við að losna úr stríðinu við Afganistan, er hann orðinn með beztu utanríkisráðherrum.

DV

Gjá í Atlantshafi

Greinar

“Mér sýnist, að ekki hefði verið svo erfitt að fá heimildir” sagði Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra, um ólögmætar hleranir stjórnvalda á símtölum fólks til útlanda og frá þeim. Honum finnst í lagi að hlera leyfislaust, ef leyfið hefði líklega fengizt, hefði löglega verið unnið.

Sjónarmið Powell sýnir í hnotskurn muninn á Bandaríkjunum og Evrópu. Honum finnst í lagi að brjóta lög, ef hann getur talið sér trú um, að leyfi hefði hvort sem er fengizt. Margt fleira er skrítið í Bandaríkjunum. Þar leyfa menn til dæmis pyndingar með því að skíra þær nýjum nöfnum út í loftið.

Bandaríkjamenn búa við ríkisstjórn, þar sem forsetinn telur sig ekki bundinn af neinum reglum, til dæmis um þrískiptingu valdsins. Hann lítur á sig sem forstjóra stórfyrirtækis, sem er í senn dómari, löggjafi og framkvæmdastjóri. Hann lítur þar á ofan á sjálfan sig sem útsendara guðs á jörðinni.

Að baki framkomu Bandaríkjanna gagnvart útlöndum eru meira eða minna geðveikir menn. Til dæmis Ralph Peters, sem segir í sjónvarpinu að bezti árangur loftárása á borgina Falluja í Írak sé, að “allir verði drepnir”. Eða Thomas Barnett, sem segir bandaríska herinn í Írak vera “afl hins góða.”

Þessir ráðgjafar forsetans og ýmsir kristilegir ofstækismenn beina reiði sinni að Evrópu, þar sem menn eru að reyna að hemja stríðsstefnu Bandaríkjanna. Kringum Bush forseta eru menn, sem þjást af vænisýki og stórmennsku, trúa heimspeki Thomas Hobbes og Levi Strauss og ættu að leita sér lækninga.

Álitsgjafar spá aukinni spennu í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu. Evrópumenn eru fjandsamlegri Bandaríkjunum en nokkru sinni fyrr og neita alveg að lúta forustu þeirra. Evrópskir stjórnmálamenn, sem hafa verið hallir undir Bandaríkin, eru hættir að þora að taka til máls. Sambúðin versnar stöðugt.

Evrópumenn styðja diplómatískar leiðir, alþjóðalög, Sameinuðu þjóðirnar, fjölþjóðasamninga, en Bandaríkjamenn telja sig verða að sjá um sig sjálfir sem þjóð, er geti farið sínu fram að eigin vilja. Himinn og haf eru milli bandarískra og evrópskra sjónarmiða í alþjóðamálum.

Ofan á allt þetta kemur svo ágreiningurinn um tilvist mannkyns á jörðinni, þar sem Evrópa eflir umhverfismál, en Bandaríkin vilja fá frið til að spilla vistkerfi jarðar.

DV

Krotað en ekki kannað

Greinar

Fyrir framan mig er ég með nokkrar bækur eftir Trausta Valsson prófessor. Þær fjalla um skipulag lands og borgar, heita Ísland hið nýja, Land sem auðlind, Borg og náttúra og fleira í þeim dúr. Stundum er ég hvattur til að lesa þær, af því að furðu margir athugulir menn telja þær merkilegar.

Ég kemst alltaf að sömu niðurstöðu: Þessar bækur eru rugl. Bak við þær er engin empíría, nánast engar rannsóknir á þörfum eða vilja almennings hér heima eða erlendis, engin ritaskrá þekktra vísindamanna í skipulagsfræðum erlendis, aðeins nokkurra hugmyndafræðinga. Bækurnar eru bara hugsjón.

Trausti hefur ekki kenningar, heldur tilgátur, sem hann rissar upp í þríhyrningum, kristöllum, hringjum og jafnvel í skozka þjóðfánanum. Þetta minnir mig á karlana, sem mældu göngin í Keops-píramídanum og fengu út úr því alls konar tilgátur um, hvernig mannkyn hefði þróazt og mundi þróast.

Svo virðist sem ruglið í skipulagi Reykjavíkur og hálendis Íslands sé sumpart byggt á tilgátum Trausta og á hliðstæðum tilgátum erlendra skipulagsfræðinga, sem hafa predikað á ráðstefnum hér á landi og snúið skipulagsfólki og arkitektum til trúar á teiknivinnu í stað empíriskra félagsvísinda.

Afleiðing trúarinnar á teiknivinnu er skipulag borgarhverfa út frá því sjónarmiði, hvernig hverfið muni líta út í augum flugmanns. Önnur afleiðing er þétting byggðar, sem tekur of lítið tillit til vilja og hagsmuna þeirra, sem fyrir búa í hverfinu og missa svigrúm eða útsýni eða hvort tveggja.

Þriðja afleiðingin er oftrú á evrópskum borgum, sem eru þröngar, af því að þær voru einu sinni umluktar múrum. Engin vísindi eru til, sem segja, að fólki líði betur í borgum með hárri fermetranýtingu að evrópskum hætti heldur en í borgum að bandarískum hætti. Fullyrðingar um slíkt eru bara rugl.

Fjórða afleiðingin er trú á nauðsyn þess að kvelja þá, sem eiga og nota bíla. Sú firra er risin hjá Reykjavíkurborg, að stöðva beri frekari mislæg gatnamót og breiðgötur af því að þessi mannvirki klippi hverfi borgarinnar hvert frá öðru. Alls engin empírísk vísindi eru að baki, aðeins teikningar.

Reykjavíkurborg og aðrir skipuleggjendur lífsins hér á landi eiga að hætta að trúa á spámenn, sem kúra undir sauðargæru skipulagsfræðinga og byggja ekki á neinum rannsóknavísindum.

DV

Spillt umburðarlyndi

Greinar

Spillt umburðarlyndi er útbreiddara á Íslandi en hjá þjóðum, þar sem kerfið varð til í átökum stétta. Hér tóku borgarar ekki völd af aðli, heldur varð hér átakalaus færsla valds frá erlendum embættismönnum yfir til innlendra. Þess vegna fóru ýmis baráttumál frelsis og lýðræðis fram hjá okkur.

Við höfum því minni efasemdir um valdið en algengt er hjá öðrum auðþjóðum. Við höfum tilhneigingu til að telja, að kerfið sé gott, vilji öllum vel og viti, hvað sé okkur fyrir beztu. Við tökum því af umburðarlyndi, þótt yfirvaldið fari á skjön við það, sem við teljum sjálf vera heppilegast.

Við gerum til dæmis aldrei uppreisn. Við förum ekki í strætó einn dag á árinu til að mótmæla háu benzínverði. Við neitum ekki að kaupa innlenda búvöru í heilan mánuð til að rísa upp gegn þeim umframkostnaði, sem greinir okkur mest frá öðrum þjóðum. Við látum andbyr yfir okkur ganga, við erum þrælar.

Myndir hins spillta umburðarlyndis eru margar fleiri. Því er haldið fram, að bókmenntagagnrýnendur eigi ekki að skamma upprennandi rithöfunda fyrir léleg verk. Þeir eigi þvert á móti að líta jákvæðum augum á málið og gefa höfundunum næði til að þroskast. Þetta er umburðarlyndi gagnvart getuleysi.

Við erum alltaf að afsaka aðra. “Hann var fullur, greyið” segjum við, ef einhver stofnar lífi fjölmargra í hættu með ölvunarakstri, “konan er víst vond við hann”. Við teljum líka, að það sé leyndó, að maður hafi verið dæmdur fyrir nauðgun. Fjölmiðlar eiga ekki að dæma fólk, segir fólk.

Ekkert eitt atriði er eins mikill þröskuldur á vegi okkar til þroskaðs lýðræðisþjóðfélags eins og einmitt allt þetta spillta umburðarlyndi. Við hættum að gera kröfur, kröfur til stjórnmálamanna, embættismanna, samferðamanna. Við sættum okkur við almennt getuleysi valdamanna í þjóðfélaginu.

Hálf þjóðin hefur spillt umburðarlyndi að hornsteini í lífinu. Við finnum það á DV, þegar við erum að hamast gegn aumingjum í stétt stjórnmálamanna og embættismanna. Við finnum það, þegar við segjum frá nöfnum vandræðamanna og birtum myndir af þeim. “Var það nauðsynlegt”, spyrja menn.

DV er sagt “valda sársauka” og hugsa ekki út í, hvort frétt “varði almannaheill”. Okkur er sagt, að “oft megi satt kyrrt liggja”. En hér á DV höfnum við þessu spillta umburðarlyndi.

DV

Jólasveinninn er ekki til

Greinar

Séra Flóki Kristinsson á Hvanneyri á heiður skilið fyrir að reyna að segja börnum í sunnudagaskóla, að jólasveinninn sé ekki til. Foreldrar andmæla Flóka og segja augljóst, að hann hafi ekki fengið í skóinn um langt árabil. Samt eiga allir að vita, að foreldrar gefa í skóinn, ekki jólasveinninn.

Jólasveinninn í eintölu í rauðum búningi er blaðurfulltrúi, ættaður frá Kóka Kóla, upprunninn frá heilögum Nikulási, sem sagður er hafa verið góður við börn. Hann er talinn gefa börnum jólagjafir í Bandaríkjunum, en hér á landi er enn talið, að foreldrar og ættingjar gefi börnum jólagjafir.

Starfsfólk leikskóla hefur samt komið því inn hjá smábörnum, að jólasveinninn gefi þeim í skóinn á hverri nóttu alla jólaföstuna. Þess vegna eru foreldrar eins og útspýtt hundskinn að útvega sér ódýrt dót til að setja í skóinn barnanna í desember. Kenna ber leikskólum um þá vitleysu.

Jólasveinninn er ekki til í kristinni trú, svo að eðlilegt er, að klerkur þjóðkirkjunnar veki athygli barnanna á, að þau séu höfð að fífli. Raunar má segja, að jólin sjálf séu tæplega kristin, því að þau eru hundheiðin hátíð hækkandi sólar, sem kristnin tók yfir til að afla sér vinsælda.

Jólasveinarnir í fleirtölu eru allt annað mál. Þar er ekki á ferðinni tilbúningur úr leikskólum, heldur gamla þjóðtrú um fremur illa innrætta karla af vondu fólki ofan af fjöllum. Deila má um, hvort þeir séu til, en þjóðtrú hefur lengi verið talin gild fyrir hvern þann, sem vill taka hana gilda.

Við eigum semsagt þjóðlega jólasveina, sem deila má um, hvort séu til. Við höfum ekki enn fallizt á, að Kóka kóla jólasveinninn gefi jólagjafirnar. Við höfum hins vegar fallið í þá gryfju og firru leikskólanna, að sá jólasveinn gefi börnunum gjafir á hverjum degi alla jólaföstuna.

Verið getur, að sá jólasveinn spari starfsfólki leikskóla góðar hugmyndir við að hafa ofan af fyrir börnunum á jólaföstunni. En vitleysan gengur of langt, þegar foreldrar eru farnir að gefa börnum gjöf á hverjum degi í fjórar vikur. Þá er kominn tími til, að séra Flóki segi stopp.

Hvort sem íslenzku jólasveinarnir eru til eða ekki, þá er öruggt, að rauðklæddi jólasveinninn er alveg laus við að vera til. Og börnin eiga heimtingu á að fá að vita það.

DV

Ekki lengur óvinir bænda

Greinar

Viðbrögð landbúnaðarráðherra eru mildari en í gamla daga, þegar menn voru kallaðir óvinir bænda og drullusokkar fyrir að leggja fram reikningsdæmi, sem sýndu, að milljarðar króna fóru á hverju ári frá skattgreiðendum og neytendum til að borga niðurgreiðslur, uppbætur og styrki í landbúnaði.

Flestir aðrir tala á svipuðum nótum og áður. Enn eru komnar skýrslur, ein úr Háskóla Íslands, sem sýnir, að ruglið er enn mikið, þótt það hafi minnkað. Önnur skýrsla kom frá útlöndum og sýnir, að ruglið er meira á Íslandi en annars staðar, þótt það hafi minnkað örlítið síðustu áratugina.

Nýr formaður Sjálfstæðisflokksins situr viðskiptaþing úti í Hong Kong, þar sem Ísland er talið til G-10 hópsins, sem nær yfir þau ríki, sem róttækast verja landbúnað sinn gegn breyttri heimsmynd. Hann segir þar, að íslenzkur landbúnaður verði “að búa sig undir meiri samkeppni og breytta tíma”.

Allt er þetta kunnuglegt, ennfremur væg viðbrögð samtaka launþega, sem alltaf hafa verið treg til að taka upp málstað neytenda gegn landbúnaðarkerfinu. Þau vilja heldur flækja málið með því að ræða hugsanlega aðild stórverzlana að of háu verði á landbúnaði. Sannleikurinn er þó öllum ljós.

Guðni Ágústsson fer með löndum og nefnir fá mótrök, vill þó, að “þjóðin brauðfæði sig”, þótt hér sé ekki kornrækt. Enda mundu stríð og hörmungar erlendis leiða í ljós, að Ísland getur aðeins framleitt 50% af matarþörf og ekki framleitt eldsneyti á vélar landbúnaðarins. Við erum ekki sjálfbær.

Guðni vill líka benda á hollustu íslenzkrar búvöru. Ef við viðurkennum hana og að gott sé að framleiða búvöru af öryggisástæðum, komumst við samt ekki að þeirri niðurstöðu, að við þurfum á friðartímum að halda uppi 100% af mjólk og kjöti. Það nægir alveg að framleiða helming af því.

Aðlögun landbúnaðar okkar að veruleikanum gengur allt of hægt. Við þurfum að stefna að tollfrjálsum innflutningi allrar búvöru, einnig á mjólkurvörum og kjöti. Við getum svo borgað á móti búsetustyrki til bænda, en ekki neitt á borð við milljarðana, sem nú fara árlega í veður og vind.

Ísland er alls ekki kornland og er lélegt kvikfjárland. Við eigum að láta aðrar þjóðir sem mest um slíkt og halla okkur frekar að verðmætum, sem dýrast eru seld hverju sinni.

DV

95 ára afturför

Greinar

Þegar forveri DV byrjaði að koma út fyrir 95 árum, var sagt frá komu og brottför þekktra borgara, sem voru í utanferðum. Nánast annan hvern dag skýrði Vísir frá því, hverjir voru svo merkir, að þeir voru í utanferðum. Þetta þótti sjálfsagt í gamla daga. Enginn Stóri Bróðir amaðist við skrifunum.

Forveri DV hóf líka göngu sína með því að segja frá útsvari allra greiðenda í Reykjavík. Engum datt í hug, að eitthvað væri athugavert við slík skrif. Þau voru talinn eðlilegur hluti þjóðfélags, sem var bjartsýnt og opið fyrir tæpri öld, þegar Stóri Bróðir var ekki enn farinn að kúga þjóðina.

Í fyrstu eintöku blaðsins voru auglýsingar matvöruverzlana um áfengi. Á tímum stiftamtmanns og konungkjörinna þingmanna var hvorki amast við því, að brennivín væri við hliðina á mjólkinni í venjulegum búðum, né var amast við því, að fjölmiðlar birtu auglýsingar á þessari vinsælu vörutegund.

Nú er öldin önnur. Stóri Bróðir hélt innreið sína, eyðilagði stríðsgróða í tvígang, magnaði kreppuna miklu og framlengdi hana fram að viðreisnarstjórn. Stóri Bróðir fór að ákveða allt fyrir ósjálfbjarga almenning, sem ekki var talinn hafa vit fyrir sér. Nú á tímum stjórnar Stóri Bróðir þjóðinni.

Nú má ekki birta skrár yfir komu og brottför farþega í flugi, sennilega af ímynduðum öryggisástæðum. Nú má ekki birta heilar útsvarsskrár, af því að stofnun, sem heitir Persónuvernd hefur ákveðið, að það henti þjóðinni bezt, að raunveruleikinn sjáist ekki og að þjóðin viti sem minnst.

Auðvitað má hvorki selja áfengi í matvörubúðum, né auglýsa það í fjölmiðlum. Hálf þjóðin er orðin svo sefjuð af möru Stóra bróður, að hún trúir því beinlínis, að ljótt sé að birta nöfn og myndir af fólki. Í stað stiftamtmanns og konungsfulltrúa er kominn forseti og alþingismenn.

Við höfum ekki gengið götuna fram eftir vegi í þau 95 ár, sem Vísir og arftakar hans hafa sagt þjóðinni fréttir. Tuttugasta öldin hófst í frjálslyndi, sem var ættuð frá Danmörku, og henni lauk í rammíslenzkum sósíalfasisma og félagslegum rétttrúnaði, sem tröllríður þjóðinni núna.

Hér ríkti frelsi fyrir einni öld, en nú ríkir óskapnaður, Stóra bróður. Stofnanir og kerfi, blýantsnagarar og reglugerðir hafa komið í stað eldra gegnsæis og lýðræðis.

DV

Krónan er ekki of há

Greinar

Farðu til Kaupmannahafnar og reyndu að borga fyrir hótel eða veitingahús. Þú kemst að raun um, að gengi krónunnar er ein dönsk á móti tíu eins og það hefur lengst af verið. Farðu til London og þú kemst að raun um, að pundið er 113 krónur og hefur oft verið ódýrara. Gengi krónunnar er ekki of hátt.

Félagslegur rétttrúnaður í þjóðfélaginu segir um þessar mundir, að gengi krónunnar sé of hátt. Þetta er raunar æpt í síbylju. Hagsmunaaðilar á borð við sjávarútveginn væla eins og þeir hafa vælt síðan elztu menn muna. Allir, sem selja afurðir til útlanda, eru að reyna að tala krónugengið niður.

Þið eigið ekki að láta hagsmunaaðila ljúga að ykkur. Ekki Seðlabankann heldur eða greiningardeildir bakanna. Danska krónan kostar samt tíkall og pundið kostar samt miklu meira en hundraðkall, hvað sem allir þessir sérfræðingar segja. Heilbrigð skynsemi segir þér, að þeir hafi rangt fyrir sér.

Þú sérð, að gengi krónunnar er orðið of hátt, ef þér finnst allt vera skyndilega orðið ódýrt, þegar þú ert á ferðinni í einhverri evrópskri borg. Meðan allt er eins og það hefur oftast verið og danska krónan er tíkall, geturðu óhræddur sagt við sjálfan þig, að rétttrúnaðurinn fer með rangt mál.

Allur þorri viðskipta okkar er við Evrópu, þar sem gengi krónunnar er reiknað í evrum, pundum og norrænum krónum. Gengisskráning allra þessara mynta er í kunnuglegum tölum. Ekkert nýtt eða óvænt hefur gerzt, frjálsa markaðshagkerfið sér um að halda krónunni á nokkurn veginn réttu gengi.

Þjóðfélagið er fullt af félagslegum rétttrúnaði, síbylju hagsmunaaðila, sem vilja spara þér ómakið af að hugsa sjálfur. Það er líka verið að segja okkur, að hér eigi að vera fjölmenningarþjóðfélag og ríkisútvarp og að undir yfirskyni persónuverndar skuli ekki birtar mannamyndir.

Hagsmunaaðilar lækkunar á krónugengi eru í rauninni að reyna að telja þér trú um, að launin þín séu orðin of há. Þetta er söngurinn frá síðari hluta tuttugustu aldar: Fólk er komið með svo hátt kaup, að krónan þarf að lækka með handafli, strax í dag. Þessir aðilar hafa þó sjálfir samið um laun.

Sama er, hversu oft félagslegur rétttrúnaður er endurtekinn, hann verður ekki sannari. Og ferðamenn streyma til landsins, þrátt fyrir síbyljuna um, að allt sé hér orðið svo dýrt.

DV

Halldór selur ekki flokkinn

Greinar

Sukkið er eitt helzta einkenni Halldórs Ásgrímssonar sem ráðherra, fyrst utanríkisráðherra og síðan forsætisráðherra. Frægasta dæmið um það eru sendiráð og sendiherrastöður, sem hann hefur stofnað til úti um allar trissur, meðal annars til að stuðla að því gæluverkefni að komast í Öryggisráðið.

Sennilega er ekki auðvelt að ætlast til skilnings á verði peninga hjá ráðherra, sem hagnaðist um tugi milljóna á að láta ríkið gefa sægreifunum kvótann, og um aðra tugi á því að framleiða ofureftirlaun fyrir ráðherra. Slíkur maður getur alls ekki höndlað peninga eins og hagsýn húsmóðir.

Enginn ráðherra hefur aukið útgjöld á sínum vegum eins mikið og Halldór Ásgrímsson. Hann telur, að ríkið hafi peninga eins og skít. Það geti verið með flottræfilshátt á borð við ógrynni sendiráða og sendiherra og á borð við ógnarmikil eftirlaun fyrir ráðherra, innan um eymd fátæklinganna.

Leyndin er annað helzta einkenni Halldórs Ásgrímssonar sem ráðherra. Saman ákváðu þeir Davíð að fara í stríð gegn Afganistan og Írak án þess að leita ráða hjá kóngi eða presti. Á sama tíma tefldu þeir viðræðum um varnarliðið út í mýri, svo að nú er ekki sjáanlegur neinn botn í því máli.

Sukkið og leyndin einkenna ráðherra, sem hafa verið svo lengi við völd, að þeir eru orðnir veruleikafirrtir. Enginn er lengur til, sem getur náð eyra Halldórs, sem getur sagt honum sannleikann um umhverfið. Um langt skeið hafa dansað um hann hirðmenn, sem byrgja honum sýn til almennings.

Hundalógíkin er þriðja einkenni Halldórs Ásgrímssonar. Þegar hann er kominn út í horn grípur hann til fýlulegra kenninga á borð við, að nauðsynlegt sé að sýna Mósambík virðingu með því að hafa þar sendiráð og senda þangað ráðherra. Allt viti borið fólk sér, að hvort tveggja er rándýr firring hans.

Framsóknarflokkurinn hefur lengi verið í vondum málum og mælist ekki með frambærilegt fylgi í skoðanakönnunum. Það er sumpart eðlileg þróun í samræmi við hnignun landbúnaðar, því að flokkur, sem hatar þéttbýlið og ofsækir þéttbýlisfólk, getur varla reiknað með miklu fylgi á höfuðborgarsvæðinu.

Að hluta til er fylgisleysi flokksins hins vegar beint tengt við úreltan formann, sem ekki selur flokkinn, ekki frekar en hann getur troðið Íslandi í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

DV

Vinur Framsóknar

Greinar

Ofsagt er, að forustukreppa sé hjá Samfylkingunni, þótt heldur hafi sigið á ógæfuhliðina í skoðanakönnunum. Össur og Mörður standa sig vel í blogginu á opinberum vettvangi. Og Ingibjörg Sólrún hefur ekki gert neitt sérstakt af sér í þetta hálfa ár, sem hún hefur verið flokksformaðurinn.

Mitt á milli þingkosninga er ekki mikið að gerast í pólitík. Það ber ekki heldur mikið á Geir Haarde þessa dagana. Ekki er hægt að vera af skyldurækni uppi á háa séi vetur eftir haust eftir sumar eftir vor. En hitt er rétt, að framtak Samfylkingarinnar þessa daga felst bara í Össuri og Merði.

Svo er óneitanlega dálítið af óprenthæfu fólki í þingsveit Samfylkingarinnar, gamaldags hagsmunapólitíkusum fyrir Siglufjörð og Kárahnjúka, sem rýra í raun álit flokksins. Mikilvægt er, að forustan reyni að haga málum á þann veg, að sem minnst beri á slíku ómagaliði í pólitísku umræðunni.

Í ádeilunni á Samfylkinguna er það helzt rétt, að Ingibjörg Sólrún kom ekki hlaupandi út á völlinn eftir sigurinn í formannsslagnum. Hún hefur af og til tekið til máls um frekar virðuleg mál og haft lítinn hljómgrunn, því að fólk hefur hvorki skilið mál né málflutning eða þá leiðist bara.

Af gömlum vana hefur Steingrímur Joð verið öflugri í póltík en Ingibjörg Sólrún. Hann er sífellt tilbúinn til að rífa kjaft út af öllu, meðan hún hefur valið sér of fín efni til að tala um. Ég held, að kjósendur vilji, að hún verði kjaftforari. Ríkisstjórnin gefur næg tilefni til þess.

Ingibjörg Sólrún þarf að koma oftar fram og einkum að koma fram af öðru tilefni en þessari hefðbundnu póltík, sem er utan við veruleika venjulegra kjósenda. Hún þarf til dæmis að tala skýrt og afdráttarlaust um gamalt fólk, öryrkja og aðra þá, sem ríkisstjórnin hefur lengi verið að níðast á.

Heftin í málflutningi Ingibjargar Sólrúnar stafar sumpart af misheppnaðri kænsku við að halda samgönguleiðum opnum til ríkisstjórnar með Framsóknarflokknum eftir næstu kosningar. Ef eitthvert mál er til þess fallið að rústa Samfylkingunni eru það grunsemdir kjósenda um einmitt það fúla samstarf.

Ingibjörg Sólrún á þátt í lægð flokksins undanfarna mánuði, af því að hún er að reyna að vera allra vinur, jafnvel Framsóknar. Slík kurteisi selur alls ekki Samfylkinguna.

DV

Golfstraumurinn bilar

Greinar

Fimbulkuldi verður hlutskipti Íslendinga og annarra þjóða við norðanverðar strendur Evrópu næstu áratugina samkvæmt viðvörun brezka hafrannsóknaráðsins, sem birtist í Science í fyrradag. Golfstraumurinn, sem hefur vermt Ísland og þessar strendur, er farinn að gefa sig, hefur þegar minnkað um 30%.

Þetta er meðal annars afleiðing aukinnar mengunar af völdum manna, aukins útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Af þeirri sömu ástæðu hefur sjórinn hitnað í og við Mexikóflóa og valdið miklum fjörkipp í hvirfilbyljum, þar sem frægastur varð sá, sem gerði New Orleans óbyggilega um tíma í haust.

Þungi Golfstraumsins hefur verið mældur síðan 1954 og hélzt hann næsta stöðugur til 2003. Ári síðar linaðist hann og enn frekar á þessu ári. Brezka hafrannsóknastofnunin telur þetta geigvænlegt ferli, sem geti leitt til að andrúmsloftið í Bretlandi kólni á einum áratug um fimm gráður á celcius.

Í lífi jarðar verða alltaf sveiflur, þar á meðal í hita og straumum. Auk náttúrulegra sveiflna eru að koma til sögunnar hastarlegri sveiflur af mannavöldum, sem stafa af aukinni umsýslu mannkyns, aukinni orkunotkun og ýmsum aukaefnum, sem losuð eru frá umferð og iðnaði út í andrúmsloftið.

Golfstraumurinn hefur hingað til vermt strendur Íslands og valdið óvenjulega háu hitastigi í samanburði við norðlæga hnattstöðu landsins og góðum fiskveiðum á mörkum heita og kalda sjávarins. Ef straumurinn er farinn að gefa eftir, getur það haft snögg og geigvænleg áhrif á lífið í landinu.

Heimsendaspár eru ekki nýjar af nálinni og hafa jafnan skotið yfir markið. Fræðilegar heimsendaspár hafa í ýmsum tilvikum leitt til mótaðgerða, sem hafa dregið úr eða eytt óheillaáhrifum. Til dæmis notum við nú mun vistvænni kæliskápa en áður og erum að fikra okkur inn í vetnisöld.

Að þessu sinni er það viðurkennd ríkisstofnun í Bretlandi, sem varar með ýmsum fyrirvörum við hnignun Golfstraumsins. Við þurfum að taka mark á því. Við þurfum að búa okkur undir vond tíðindi og vinna á alþjóðavettvangi að strangari aðgerðum og reyna að yfirbuga andstöðu Bandaríkjanna.

Sagnfræðileg dæmi eru um, að heilar þjóðir hafi neitað að viðurkenna breytingar á umhverfinu og haldið áfram að haga sér eins og ekkert hafi í skorizt. Og hreinlega dáið út.

DV

Blaðamennska 101

Greinar

Ef blaðamennska væri í boði við háskóla hér á landi, mundi fyrsti áfangi hennar heita 101. Í þeim áfanga er ekki kennt neitt annað en setningin: “Hver, hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna, hvað svo.” Þetta er raunar svo þróað námsefni, að bara helmingur íslenzkra blaðamanna kann það.

Um allan hinn vestræna heim, þar sem menn hafa mætur á lýðræði og gegnsæi, þýðir fyrsta orðið í setningunni að birta skuli nöfn og myndir fólks. Annars yrðu vestræn blöð eins og Morgunblaðið og förunautar þess hér á landi, íslenzkar útgáfur af kaþólskum dagblöðum sunnan Rómar.

Þá væru allar fréttir í þessum stíl: “Maður á miðjum aldri er í lífshættu eftir að maður á þrítugsaldri ók á hann á Bíldudal.” Ekkert væri sagt nánar um mennina, sízt um nöfn þeirra, og ekki birtar myndir af þeim. Slíkt kæmi bara fram í símaslúðri, þar sem fólk reyndi að geta í fréttaeyður.

Næsti áfangi væri nr. 201 og hljóðaði svo: “Reyndu að birta báðar/allar afstöður til máls, ef til eru fleiri en ein.” Þessi setning er nóg námsefni í áfanganum, enda er sennilega aðeins fjórðungur starfandi íslenzkra blaðamanna, sem kann sjálfa undirstöðuregluna gegn kranablaðamennskunni.

Við höfum nýtt dæmi um þetta. DV sagði frá, að Ágúst Helgason, sem leigir hjá Ástþóri Magnússyni, hafi kært heimsókn átta handrukkara á vegum Ástþórs. Daginn eftir sögðu allir fjölmiðlar, að Ástþór segðist kæra DV fyrir hreina lygi. En alls enginn fjölmiðill talaði við Ágúst.

Nokkrum dögum síðar bætti Fréttablaðið um betur og hafði eftir mér, að blaðið stæði við fréttina, enda hefðu viðtöl út af henni verið tekin upp á band. En í þessari annarri tilraun láðist Fréttablaðinu samt að tala við hornstein fréttarinnar, manninn, sem upphaflega kærði dólga Ástþórs.

Þriðji áfangi náms í blaðamennsku væri væntanlega nr. 301. Hann varar blaðamenn við röngum spurningum félagslegs rétttrúnaðar utan úr bæ, ávísunum á skálkaskjól, svo sem: “Var NAUÐSYNLEGT að birta þetta. Var það í samræmi við ALMANNAHEILL. Var ekki verið að valda persónu SÁRSAUKA.”

Þegar menn hafa náð áföngunum þremur eru þeir komnir á plan í faginu, sem er hærra en hjá níu af hverjum tíu blaða- og fréttamönnum landsins og hærra en hjá siðanefnd blaðamanna.

DV