Offramleiðslan er varanleg.

Greinar

Varnir hins hefðbundna landbúnaðar gegn kröfum um kúvendingu komust á hærra og raunar umræðuhæft stig með nýlegri kjallaragrein í Dagblaðinu eftir Hákon Sigurgrímsson, fyrrum aðstoð- arráðherra landbúnaðarmála.

Hákon vefengir, að verðlagsþróun landbúnaðarafurða á heimsmarkaði verði með þeim hætti, sem haldið hefur verið fram í leiðurum Dagblaðsins. Er þetta í fyrsta skipti, sem talsmaður þrýstihópsins fjallar af viti um kjarna málsins.

Hákon telur miklar líkur á, að landbúnaðarstefnu Efnahagsbandalagsins verði fljótlega breytt í þá átt, að offramleiðslufjöllin fari að rýrna. Bendir hann á, að bandalagið hafi þegar lækkað niðurgreiðslur á korni til Íslands.

Enginn vafi er á, að ráðamenn bandalagsins vildu gjarna losna úr viðjum landbúnaðarstefnu, sem minnir mjög á hina íslenzku. Hins vegar er ekki ástæða til að vera eins bjartsýnn fyrir hönd bandalagsins og Hákon er.

Við getum tekið sem dæmi hinn nýja og mjög svo stórtæka niðurskurð á fjárlagafrumvarpi bandalagsins. Þar voru allir liðir skornir miskunnarlaust, nema landbúnaðarfarganið. Það eitt reyndist ekki hægt að skerða.

Staðreyndin er sú, að þrýstihópar landbúnaðarins eru svo öflugir í löndum Efnahagsbandalags Evrópu, að þeir ráða ferðinni í öllum atriðum, sem varða landbúnað. Á því er ekki fyrirsjáanleg nein breyting á næstu árum né áratugum.

Væntanleg innganga Portúgals, Spánar og Grikklands í bandalagið mun enn breyta hlutföllum í því, þrýstihópum landbúnaðar í hag. Þessi þrjú lönd eru öll fremur lönd landbúnaðar en iðnaðar, einkum þó Portúgal og Grikkland.

Ef við víkkum svo sjóndeildarhringinn frá Efnahagsbandalaginu, getum við séð, að niðurgreiðslur þess og útflutningsuppbætur eru að verulegu leyti neyðarsvör gegn gífurlegri framleiðni og lágu afurðaverði bandarísks landbúnaðar.

Meðan íslenzkur starfsmaður í landbúnaði brauðfæðir 10 manns og vesturevrópskur 20 manns, brauðfæðir hinn bandaríski 60 manns. Þennan aðstöðumun eru Efnahagsbandalagið og Ísland að reyna að brúa með útflutningsuppbótum.

Þess vegna er hér því enn haldið fram, að um ófyrirsjáanlega framtíð muni heimsmarkaðsverð á kjöti, grænmeti og mjólkurvörum mótast af lágum framleiðslukostnaði í Bandaríkjunum og offramleiðslu beggja vegna Atlantshafsins.

Í þessum afurðum verður ekki mikið um verðsveiflur upp á við. Talsmönnum íslenzkrar landbúnaðarstefnu dugir ekki að benda á sveiflur í korni, sykri og kaffi, því að þar er um að ræða vörur, sem við framleiðum ekki.

Hákon Sigurgrímsson er einn þeirra, sem telur, að innlend framleiðsla landbúnaðarafurða eigi að vera í samræmi við svokallaðar þarfir þjóðarinnar. Miðar hann þá vafalaust við hinn lokaða búvörumarkað hér á landi, en ekki frjálsan markað.

Dagblaðið telur hins vegar, að innlend framleiðsla hefðbundinna landbúnaðarafurða eigi að vera mjög miklu minni en þarfir hins lokaða markaðar. Við aðstæður offramleiðslu á heimsmarkaði er mun betra að vera kaupandi en seljandi.

Af öryggisástæðum er ekki rétt að leggja hinn hefðbundna landbúnað niður. En framleiðsla hans ætti þó ekki að vera meiri en svo, að hún standist frjálsan innflutning án annarrar verndar en fjarlægðarverndar þeirrar, sem felst í mismuni flutningskostnaðar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið