Stjórnmálaflokkarnir fjórir eru í þann veginn að taka saman höndum um alvarlegustu og dýrustu mistök síðustu ára. Þeir ætla sér að þjóðnýta Luxemborgarflugið og bæta þannig nýjum “landbúnaði” á herðar skattgreiðenda.
Deilurnar á þingi snúast nærri eingöngu um, á hversu frjálslyndan hátt ríkið skuli grýta peningum skattgreiðenda í þrotabú Luxemborgarflugsius. Fyrir hönd skattgreiðenda er stjórnarandstaðan mun greiðsluglaðari en ríkisstjórnin.
Þingmenn eru auðvitað angurværir út af miklum afla í aldarfjórðungs Luxemborgarflugi. Þar er á ferðinni svipuð rómantík og gagnvart landbúnaði, sem þó hefur verið stundaður ekki í einn aldarfjórðung, heldur fjörutíu.
Útilokað hefur reynzt að berja inn í timburhausa þingmanna, að flugforstjórinn Laker og forsetinn Carter hafa gulltryggt öllum flugfélögum gífurlegan taprekstur á flugi yfir Norður-Atlantshafið um ófyrirsjáanlega framtíð.
Þingmönnum er kannski vorkunn, því að sama ályktunartregða hefur komið í ljós hjá þeim mönnum, sem bezt áttu að þekkja til málanna, stjórnendum Flugleiða. Þeir hafa verið átakanlega úti að aka alla ævi hins sameinaða fyrirtækis.
Fyrir fimm árum sáu þeir ekki, að eldsneyti mundi halda áfram að hækka í verði næstu áratugina og að farþegum mundi fækka vegna dýrari farseðla. Og fyrir þremur árum sáu þeir ekki, að Bandaríkjastjórn var að gefa flugið frjálst.
Fyrir tveimur árum sögðu ráðamenn Flugleiða, að ástandið væri tímabundið og viðráðanlegt. Fyrir einu ári byrjuðu þeir fyrst að segja upp fólki. Og í ár fóru þeir fyrst að ráði að draga úr hinu afdrifaríka flugi yfir Norður-Atlantshafið.
Afleiðingarnar urðu þær, að Flugleiðir töpuðu á núverandi gengi þremur milljörðum króna árið 1978, ellefu milljörðum króna árið 1979 og sex milljörðum króna árið 1980. Samtals eru þetta um tuttugu milljarðar króna.
Stjórnendur Flugleiða mega þó eiga, að í haust ákváðu þeir að leggja niður Luxemborgarflugið og minnka Bandaríkjaflugið niður í þarfir íslenzka markaðsins. Þar með hefðu þeir forðað sér úr frumskógi flugveldanna.
En þá komu stjórnmálin til skjalanna. Ráðamenn þjóðarinnar heimtuðu Luxemborgarflug og engar refjar. Gullið og grænu skógarnir, sem þeir bjóða, eru bara upphafið að botnlausri hít og ríkisrekstri af versta tagi.
Í stað þessa hefði ríkið getað sagt sem svo: Samgönguöryggi þjóðarinnar krefst þess, að ekki séu aðeins daglegar samgöngur til Evrópu, heldur einnig til Ameríku. En það krefst ekki, að við greiðum með flugi annars fólks milli heimsálfa.
Rökrétt framhald slíkrar hugsunar væri að greiða niður farseðla til Bandaríkjanna um t.d. þrjá milljarða á ári, þar sem íslenzki markaðurinn stendur ekki undir daglegu flugi. En sú leið hefur því miður ekki verið valin.
Framþróunarlögmál markaðsins segir, að menn og þjóðir skuli forðast gamlar og þéttsetnar atvinnugreinar á niðurleið, en hins vegar hraða sér sem mest inn í nýjar og fámennar atvinnugreinar á uppleið.
Fyrir 25 árum var Norður-Atlantshafið gullkista flugsins. Eins frábærlega sniðugt og Loftleiðaævintýrið var á þeim tíma, þá er Luxemborgarflugið jafn fáránlegt nú. Menn þurfa líka að kunna að stökkva af á réttum tíma.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið