Ferðir

Skömmtun á ferðafólki

Ferðir, Punktar

Forstjóri Icelandair er farinn að spá fimm milljónum ferðamanna á ári. Þar með er ljóst, að íslenzka geðveikin hefur tekið völdin. Í þrjú ár hefur ráðherra ferðamála snúizt kringum sjálfa sig með ónothæfan ferðapassa, sem enginn vill. Þrjú ár hafa farið í súginn. Nú síðast segir Business Insider, að Ísland sé einn af tólf ferðastöðum, sem senn geti ekki tekið við fleiri ferðamönnum. Taka verði þar upp skömmtun til að ná jafnvægi. Bezta leiðin til að auka tekjur og fækka ferðamönnum er komugjald og/eða gistináttagjald. Ekki seinna en núna er brýnt að losna við Ragnheiði Elínu og koma þessari skömmtun á um næstu áramót.

Business Insider

Göngur um ferðaborgir

Ferðir

Tímabilið 1981-1996 skrifaði ég um erlendar ferðaborgir um það bil tug bóka, sem lengi hafa verið ófáanlegar. Upplýsingar um hótel og veitingar eru orðnar úreltar. Öðru máli gegnir um lýsingar á gönguferðum um borgirnar. Hafa gagnast fólki fram á þennan dag. Mér til skemmtunar í ellinni er ég að færa göngurnar í stafrænt form, texta og myndir. Byrjaði á Amsterdam, sem má skoða hér á vefnum hægra megin undir orðinu Borgargöngur. Þar er fjallað um bátsferð um síkin, lýst þremur gönguleiðum og útrás um Holland í bílaleigubíl. Ég hyggst halda þessu áfram með fleiri, Dublin-Írland eru komin og fljótt birtast Feneyjar.

Konan og karlinn

Ferðir, Veitingar

Á suðurleið minni í vikunni heimsótti ég tvö dæmi um farsæla ferðaþjónustu. Hef séð sömu formúlu víðar. Aðkomufólk flytur í pláss, konan er fyrirmyndar vert og kokkur, karlinn er handlaginn. Þau kaupa sér stórt og gamalt hús fyrir lítinn pening. Hann innréttar og hún sér um gestina. Á persónumiðlum spyrst fréttin og viðskipti bólgna. Á Blönduósi opnaði Yolanda hótel Kiljuna, fyrst í einu húsi og síðan öðru. Nú er verið að innrétta það þriðja. Pólskt framtak hleypir lífi í þreytt þorp við nyrzta haf. Svo kom ég í Borgarnes, hvar Svava Víglundsdóttir frá Vopnafirði klófesti gamla sýslumannskontórinn, setti upp Blómasetrið, síðan Kaffi Kyrrð og loks samnefnt hótel. Rífandi gangur eins og á Blönduósi.

Kiljan bjargar mér

Ferðir, Veitingar

Loks hef ég fundið gistingu við þjóðveg 1, sem sker Þingeyjarsýslur-Reykjavík í tvær dagleiðir. Blönduós hefur hingað til ekki verið frægt fyrir ferðaþjónustu. Hótel Kiljan bjargar öllu á sjávarkambinum í gamla þorpinu vestan brúar. Er komið yfir í tvö hús og á leið í það þriðja. Hvílíkur munur frá gamla og fúna Hótel Blönduós. Hér brakar í gömlu húsi, herbergi einföld og ódýr, matur fyrsta flokks. Yolanda hin pólska er allt í öllu, mjög leikin í pönnusteikingu. Ýmis fiskur eða kjöt með brúnuðum kartöflum á beði af léttsteiktu grænmeti, á ljúfu verði. Kaka úr eplareimum einstök í sinni röð. Morgunmatur til fyrirmyndar. Gisting, kvöld- og morgunmatur fyrir tvo á 22 þúsund kr.

Næsti bær við helvíti

Ferðir, Punktar

Flugstöð Leifs Eiríkssonar á að vera hlý, bjóða gesti velkomna með íslenzkum vörum og góðri þjónustu. Ekki næsti bær við helvíti með froðufellandi græðgi við hvert fótmál, löngum biðröðum og skítalykt. Leifsstöð á ekki að vera þriðji heimurinn, heldur næsti bær við himnaríki. Þetta mundi stofnunin skilja, væri hún ríkisstofnun. En hún hefur verið hlutafélagavædd, ráðið sér snarvitlausan forstjóra, sem froðufellur af græðgi, hatar starfsfólkið og skilur ekki bofs í gildi íslenzkrar menningarsögu. Isavia er gangandi auglýsing gegn einkavæðingu, rétt eins og Strætó. Eruð þið ekki orðin langþreytt á vitfirringu hlutfélaga?

Siglufjörður er tromp

Ferðir, Punktar

Nýja hótelið á Siglufirði er aðstandendum og yfirvöldum til sóma. Fellur alveg að mannvirkjum, sem fyrir eru í miðbænum. Lágreist eins og gömlu húsin, einfalt og látlaust eins og þau. Passar við skemmur og vinnslustöðvar. Allt önnur Ella en tilsvarandi hótel í Reykjavík, sem lýsa frati á umhverfi sitt. Siglufjörður er orðinn eitt mesta aðdráttarafl landsins, skemmtilegri en Akureyri, sem býður sundurtætt Hafnarstræti. Á Siglufirði er það allur pakkinn, söfn, kaffihús, matarhús og hótelið. Eftir dýrð Siglufjarðar er óneitanlega dapurlegt að keyra gegnum Ólafsfjörð og Dalvík á hæsta löglega hraða. Þar stoppar mann ekki neitt.

Himneskt Lónkot

Ferðir, Veitingar

Norður við yzta haf er eitt bezta veitingahús landsins. Lónkot rétt norðan við Hofsós býður nýfranska matreiðslu, jafnvel franskan kokk. Salat og magnað krydd úr haga og túni. Við hjónin fengum tættan Fljótasilung og léttsteiktan lunda í forrétt, ljúfan þorsk og meyrt lambafillet í aðal. Lambið var himneskt kryddað. Að lokum pannacotta búðing með brenndri sykurskán. Stórbrotið útsýni til eyja og höfða Skagafjarðar. 10.000 á mann og vel þess virði. Gistingin var fátækari. Lítil, án baðs, en tandurhrein herbergi á 27.000 krónur, voru of dýr. Bezt er að borða bara hér og halda síðan áfram stuttan veg til gistingar á Siglufirði.

Endalausir ferðaþættir

Ferðir

Ferðaþættir Dennis Callan og Rick Steves eru beztu, sem ég finn á netinu. Ekki fullkomnir, en betri en sjálfhverfir nútímaþættir, þar sem ég-um-mig-frá-mér-til-mín skyggir á útsýnið. Steves er með 50 klukkutíma og Callan með 250 tíma. Hef skoðað þetta allt og hafði raunar séð flest áður í raunheimi. Til viðbótar eru svo ótal ferðaþættir annarra um einstök atriði. Til dæmis um Uffizi-safnið í Flórens og jafnvel um einstök málverk á safninu. Útkoman er sú, að mig langar ekki lengur til að ferðast í hremmingum flugvéla og flugstöðva. Þægilegra er að sitja kyrr á sama stað heima í hægindastólnum og samt að vera að ferðast.

Sögumenn án sjálfhverfu

Ferðir

Hef lengi leitað að myndskeiðum, sem sýna ferðaáhugafólki lönd, sögu og þjóðir, án þess að sjálfhverfur sögumaður skyggi á Eiffelturninn eða Péturskirkju. Ian Smith og Michael Palin vita fátt og flækjast fyrir á mynd. Datt niður á Rich STEVES, sem er minna sjálfhverfur. Hann lýsir Evrópu ókeypis í 100 þáttum eða 50 klukkutímum. Enn betri er Dennis CALLAN, formaður Hawai Geographic Society. Á YouTube er hann með ókeypis 1100 þætti eða 250 klukkustundir frá flestum heimshornum. Ferðaborgir fá hjá honum klukkutíma hver og sumar fara upp í fimm klukkutíma. Fínar hægindastóls-ferðir í skammdeginu. Eins og að vera á staðnum.

Ferðin eða dvölin

Ferðir

Ungur eignaðist ég bíl. Varð frjáls, gat ferðast. Ferðin skipti mig meira máli en koman og dvölin á öðrum stað. Í útlöndum voru bílaleigur. Ég gat þá farið án skipulags hvert á land sem var. Á Gullfossi var fyrsti klassi með hanastéli fyrir matinn, það var lífsstíll. Svo komu þotur með ævintýri, allt frá barnum í horninu á gömlu flugstöðinni yfir í ilm af víðum heimi í erlendum flugstöðvum. Að lokum komu svo hestaferðir með langvinnu flökkulífi, þar sem ferðin var komu og dvöl mikilvægari. Smám saman breyttist þetta, koma og dvöl urðu markmiðin. Ferðin sjálf varð að kvöl, einkum í biðröðum og í flugi. Eins og síld í tunnu.

Sjálfhverfa sögumanns

Ferðir, Fjölmiðlun

Vænti þess, að sjónvarpsþættir um fjarlæga staði í nútíð eða fortíð snúist um þá, en ekki um sjálfhverfan þáttarstjórnanda. Í þætti um Róm vil ég sjá Róm og Rómverja, en ekki Michael Palin eða Ian Smith. Þegar ríkissjónvarpið gerir út þáttaröð um Færeyjar, vænti ég Færeyja og Færeyinga. Hef hins vegar engan áhuga á Andra. Vil ekki, að hann fylli út myndflötinn. Vil ekki sjá Andra á kendiríi. Vil ekki sjá hann keyra bíl. Vil ekki heyra fimmaurabrandara hans á ensku í Færeyjum. Fráleitt er, að dýrir þættir snúist um sjálfhverfu fáfróðs sögumanns. Má þó sjást í mynd, ef hann er gamlingi, heitir Attenborough og veit bara allt.

Þrjár þjófaborgir

Ferðir

Þrjár borgir í Evrópu eru þekktar fyrir þjófnað á eigum ferðafólks, Róm, Madrid og Barcelona. Sú síðasta er verst og þar er minnstan stuðning að hafa af hálfu lögreglunnar. Tíðastur þar er töskuþjófnaður á breiðgötunni Rambla. Í Madrid er hann tíðastur við torgið Porta del Sol og í Róm nálægt aðaljárnbrautarstöðinni. Þessar þrjár borgir hafa löngum verið erfiðar, sennilega vegna skorts á áhuga borgarstjórnar. Tvisvar reyndu sígaunabörn að ræna mig í Róm, í kirkjunni Santa Maria dei Angeli og á götunni Coronari. Á Rambla horfði ég á rán og gat brugðið fæti fyrir þjófinn. Hann missti fótanna og ferðakonan endurheimti töskuna sína.

Hættuleg Barcelona

Ferðir

Hafði lengi ímugust á Barcelona eftir að hótel þar reyndi að hafa af mér fé. Tók við fyrirframgreiðslu upp í gistingu og kannaðist svo ekki við neitt, þegar ég veifaði kvittun. Það tók mig ár að slíta endurgreiðslu út úr því. Margir á sömu ráðstefnu urðu fyrir því á ýmsum hótelum. Félagið hefur síðan ekki haldið aðra ráðstefnu þar í borg. Löggan í Barcelona nennir ekki að sinna ræningjum á götum úti. Er líklega á mútum hjá sígaunum. Reynt var árangurslaust að ná af mér tösku á Rambla og ég horfði í tvígang upp á hið sama í sömu götu. Ræningjar starfa fyrir opnum tjöldum í Barcelona og eru mikilvirkir í hótelrekstri þar.

Valsað milli góðbúanna

Ferðir

Ég hef áður sagt ykkur frá fínni gistingu í Bruxelles á Chez Dominique, rétt hjá Grand Place, á €100 nóttin. Frábær gisting er líka á Carmelites Guesthouse, rétt við Manniken Pis á €110 og á Art de Sejour á sömu slóðum á €140. Einnig má líta á stærri hótel, Esperance á €115 eða Residence Les Ecrins aðeins lengra frá, á €100. Fortíðarþrá mín leiðir mig til borðs á Aux Armes des Brussels að éta þríréttað með kræklingapottrétti á €40. Enn betri matstaðir eru Comme Chez Soi á €150 og Sea Grill á €120, en þá er maður kominn upp í Michelin-verðlag. Kíkið á ódýrari Fin de Siecle, Ogenblik, Belle Maraichere og Switch. Góða ferð.

Kræklingur og pissustrákur

Ferðir

Einkennistákn Bruxelles er bronsstyttan eftir Hiëronymus Duquesnoy frá 1618 af pissustrák, sem mígur í brunn. Hin 400 ára gamla stytta er falin í Maison du roi við Grand Place, þar sem 600 ára gömul hús tróna í öllu sínu veldi. Á gamla staðnum er kópía af stráknum frá 1965. Út frá torginu liggja matargötur. Borgin er fræg fyrir feita útgáfu af fræga franska eldhúsinu. Þar má rölta dögum saman milli matarhúsa og hvílast þess á milli í súkkulaðibúðum. Mitt uppáhald þarna er kræklingapottur í fornfrægu Aux Armes des Brussels, þríréttað á €40. Flott gisting á €100 fæst á Chez Dominique. Báðir staðirnir eru rétt við Grand Place.