Okkur finnst núna broslegt að hugsa til þess, að fyrir nokkrum árum var mjólkursölubann í matvöruverzlunum afsakað sem sérstök umhyggja fyrir neytendum. Bannið átti að tryggja neytendum betri og ódýrari mjólkurvörur.
Neytendur kærðu sig auðvitað ekki um þessa forsjá og börðust fyrir mjólkursölufrelsi. Þeim tókst að koma forsjármönnum á kné og hnekkja einkasölu í sérstökum mjólkurbúðum. En slagurinn stóð lengi og var harður á köflum.
Mjög víða í valdakerfi landsins eru menn, sem eru sannfærðir um, að þeir viti, hvað sé fólki fyrir beztu. Auðveldast er að finna þá í valdakerfi landbúnaðarins, því að þar er íslenzkt skrifræði á holdugasta stigi.
Sem lítið dæmi má nefna eggja-, kjúklinga- og svínarækt. Forsjármenn þykjast vita, hvernig bú heppilegast sé að reka. Þau skulu vera fjölskyldubú í stíl hins hefðbundna landbúnaðar. Stórbúin skulu hins vegar ofsótt.
Forsjármenn þykjast líka sjá, að heppilegt sé að jafna niður flutningskostnaði, svo að ekki þurfi að hafa áhyggjur af, hvort búin séu nálægt markaði eða fjarri. Þar kemur blessuð byggðastefnan til skjalanna.
Í öllum smáatriðum þykjast forsjármenn vita, hvernig skipuleggja skuli eggja-, kjúklinga- og svínarækt. Draumur þeirra er, að koma megi þessum greinum inn í lokað kerfi á sama hátt og hinn hefðbundni landbúnaður er í.
Hér hafa verið tekin dæmi úr landbúnaði, því að hann er sú grein, sem fjarlægust er þróunarlögmáli frjálsa markaðsins. En af nógu öðru er að taka, til dæmis spottprísaflugi með útlendinga milli Luxemborgar og New York.
Stjórnvöld fóru fram á, að þessu gersamlega vonlausa flugi yrði haldið áfram og buðust til að borga tapið. Ekkert mark er tekið á hinum frjálsa markaði, sem segir, að fátt sé til fáránlegra en þátttaka í þessu flugi.
Við mættum gjarna velta fyrir okkur, hvernig færi fyrir sjálfstæði Íslendinga, ef hugsunarháttur forsjármanna réði í sjávarútvegi, fiskvinnslu og fisksölu. Þá mundi molna sá hornsteinn, sem á að bera alla vitleysuna.
Hinn frjálsi markaður ákveður, hversu mikið neytendur í Bandaríkjunum borga fyrir freðfiskinn. Á þeim grundvelli vita menn hér heima, hvað hagkvæmt er að gera og hvað ekki. Þeir þykjast ekki vita betur en neytendur.
Í fiskinum eru engir búnaðarmálastjórar og ráðunautar, sem ákveða, hvernig fisk bandarískir neytendur skuli borða og á hvaða verði. Sannleikurinn kemur bara í ljós í hinum harða skóla lífsins, á hinum frjálsa markaði.
Þeir, sem læra á slíkar aðstæður, verða samkeppnishæfir. Þannig hefur sjávarútvegurinn gert Íslendinga að auðugri þjóð. En það er ekkert, sem bannar okkur að beita markaðshugsun á fleiri sviðum, sem að gagni gætu komið.
Draga þarf úr valdi forsjármanna á opinberum og hálfopinberum skrifstofum. Þeir ganga með þá grillu, að þeir sjálfir geti hugsað betur og hraðar en frjálsi markaðurinn. Þeir segja allt í einu, að nú þurfum við prjónastofur.
Kennslubókardæmið um dragbítana sjáum við í stofnunum landbúnaðarins. Þar sitja menn, sem jafnan eru reiðubúnir að ákveða, hvað sé framleiðendum og neytendum fyrir beztu, og óttast ekki neitt meira en einmitt frjálsan markað.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið