Veitingar

Engar skrautfroður

Veitingar

Þrír Frakkar hjá Úlfari hafa gengið upp og niður. Meira upp að undanförnu. Hér er meira úrval af fiski dagsins en á öðrum fiskistöðum. Rauðsprettan er ætíð fín og lyktarlaus og þorskur er á hverjum degi. Einnig er á boðstólum hrefnukjöt og frábær svartfugl. Innréttingar hafa verið óbreyttar frá upphafi, einstaklega notalegar. Úlfar Eysteinsson er að mestu hættur að elda, en sonur hans, Stefán Úlfarsson, heldur uppi merkinu. Eldamennskan er að mestu leyti hefðbundin án mikillar áherzlu á nouvelle. Engar skrautfroður, fremur kartöflur og hrásalat í meðlæti. Frekar dýrt í hádeginu, um það bil 3.050 krónur fiskréttur í hádeginu.

Yfirþjónn með stífa vör

Veitingar

Geiri Smart er smart veitingastaður á tveimur hæðum við Hverfisgötu, andspænis danska sendiráðinu. Humarsúpan (1900 kr) var mjög góð og matarleg. Langa dagsins (1900) var rétt elduð eins og á beztu stöðum borgarinnar. Þjónustan var íslenzk og elskuleg eins og vera ber. Er þar þó undanskilin yfirþjónninn. Stíf efri vör og yfirlæti hafa ekki sést í áratugi á íslenzkum veitingahúsum. En þarna var útlendingur yfir galtómum matsal. Við settumst við borð, sem ekki var merkt frátekið. Hún amaðist við okkur og sagðist kanna, hvort pláss væri laust! Kom svo og sagðist hafa getað fært pöntun annars fólk að öðru borði. Fleiri gestir birtust aldrei.

Olíuvæddur Ítali

Veitingar

Mat Bar er lítið og notalegt veitingahús á horni Hverfisgötu og Smiðjustígs. Þjónusta er góð og einföld í sniðum, ekki með neinn æsing. Í hádeginu er allt gott um verðið að segja, tiltölulega lágt. Fiskur dagsins innan við 2000 kall og með súpu dagsins fer verðið bara upp undir 2500 kall. Matreiðslan er sögð vera ítölsk og býður meðal annars upp á indælis risotto. Súpa dagsins reyndist vera pipar/tómatsúpa, bragðsterk og hress. Fiskur dagsins eldisbleikja, rétt elduð og jóðlandi í olífuolíu. Brokkál og blómkál var of hart undir tönn, en annað meðlæti við hæfi, mjög olíuvætt. Staður, sem ég hef áhuga á að heimsækja aftur.

Takk, Jamie

Veitingar

Jamie Oliver búinn að opna á Borginni og slöngva geisla af heimsfrægð sinni yfir á gamla gleðihúsið. Enn nýtt útlit er komið á elzta matsal landsins. Ég er ekki frá, að þetta sé þeirra bezt. Hönnunin er alþjóðlegt brassière. Afgreiðsla úr eldhúsi afar sein, kúnnar orðnir óþolinmóðir. Risotto í innbökuðum kúlum, umvafið tómötum, olífum og chili, mjög gott og mjög Jamie. „Þorskur“ reyndist saltfiskur, örlítið ofeldaður, umvafinn tómötum og olífum. Jamie elskar tómata. Íslenzkir eru nákvæmari í eldunartíma fiskjar, þar hefur hann ekkert að kenna. Eitt af beztu eldhúsum landsins. Kærar þakkir, Jamie, og mundu að lækka verðið í hádeginu.

Blessuð bílastæðin

Veitingar

Matarhúsið Marshall er á jarðhæð í háa gluggahúsinu úti á Granda, þar sem einu sinni var fiskverkun Bæjarútgerðarinnar. Hátt til lofts og vítt til veggja, útsýni á trukka og fiskikassa. Matreiðslan fremur slöpp, fiskitvenna dagsins hvorki ný né nógu lítið steikt. Fiskur dagsins á að vera fiskur dagsins. Þjónusta ekki útlærð, en hins vegar vingjarnleg. Hádegisseðillinn er með skemmsta móti og lítið spennandi. Efast um, að ég verði tíður gestur næstu vikur. Eru þó bílastæði næg, sem er að verða eitt af brýnustu atriðunum við val á veitingahúsi í borg kalins og saltstorkins reiðhjólafólks.

Landsbyggðin skánar

Veitingar

Víða eru veitingahús að skána úti á landsbyggðinni. Aðalatriðið er að forðast benzínstöðvarnar, þar sem afleitir skyndibitar eru boðnir af ófaglærðum og áhugalausum unglingum. Sjálfstæðir veitingastaðir eru betri, einkum ef þeir eru ekki of stórir. Þar er oft skaplegt verð og gæði. Í stóru sölunum hefur fólk meiri tilhneigingu til að selja matinn eins og þetta væri Holt eða Grill. Við þurfum að koma upp gæðamati veitingahúsa á landsbyggðinni. TripAdvisor er að gott upp að vissu marki, en tekur samt víða feilspor. Hótel eru oft ekki eins full og haldið er, víða hægt án fyrirvara að fá pláss. Enn er margt þolanlegt við Ísland.

Komið á kortið

Veitingar

Þótt Michelin sé fremur snobbaður mælikvarði á gæði matarhúsa, hefur hann mest gildi í augum þeirra, sem eiga húsin og matreiða þar. Ísland hefur, um leið og Færeyjar, fengið sinn fyrsta stað með einni Michelinstjörnu af þremur mögulegum. Það eru Dill í Reykjavík og Koks í Kirkjubæ í Færeyjum. Ekki er minna virði, að Matur & drykkur fær einn Michelin-karl, Bib Gourmand, fyrir hágæða mat á hóflegu verði. Fram að þessu hefur Íslands hvergi verið getið í bókum Michelin. Nú er kominn Michelin Nordic, þar sem Ísland er komið á blað með minnisstæðum hætti. Dregur ekki úr straumi ferðamanna, þótt flestir noti alþýðlegri leiðbeiningar.

Matur – þjónusta – umhverfi

Veitingar

Eftir áramótin eru tíu veitingahús á gæðalista mínum. Fyrst og fremst vegna eðalgóðrar matreiðslu, vingjarnlegrar þjónustu og notalegs umhverfis. Hóflegt verð í hádeginu (1900-2700 kr) skiptir líka máli, ég tími ekki að borga 9.000 kr að kvöldi. Þrír nýliðar eru á listanum, Matwerk, Matarkjallarinn og Essensia. Sjávargrillið trónir á toppnum eins og verið hefur undanfarin ár. Röðin á listanum skiptir þó minna máli en veran á listanum. Þetta eru allt frábær hús:

1. Sjávargrillið
2. Matur & drykkur
3. Fiskfélagið
4. Kopar
5. Matwerk
6. Matarkjallarinn
7. Holt
8. Essensia
9. Kaffivagninn
10.Ostabúðin
10.Grillmarkaðurinn

Inspektorinn vantar

Veitingar

Brugghúsið Bryggjan er risavaxin „gastro-pub“, bjórkrá með metnað í eldamennsku. Þar var hægt að fá ágætar rækjur, reyktan lax, egg og skyr í hádeginu (2.690 kr). Mér leizt hins vegar lakar á egg, beikon og pylsur félaga minna (2.890 kr). Það telst varla metnaður. Þjónusta var óörugg og án yfirsýnar. Okkar pöntun týndist í kerfinu og við þurftum að ítreka hana. Ég held það vanti inspektor í matsalinn. Bryggjan er ofurhönnuð eins og flestir matstaðir eru nútildags, fremur „konsept“ en innihald. Stórir gluggar ættu að veita útsýni yfir gömlu höfnina, ef ekki flæktist fyrir skipsskrokkur við gluggana. Sé varla fram á frekari heimsókn hér.

Ljúft við Laugaveg

Veitingar

Matwerk er faglega hannaður veitingastaður á þremur gólfum innst á Laugavegi, þar sem einu sinni var Stjörnubíó. Grunsemdir um enn eina túristagildruna hurfu eins og dögg fyrir sólu, þegar maturinn kom á borð. Frábærlega mátulega steikt bleikja  með maukaðri og ljúfri blöndu af kartöflum, grænkáli og jógúrt, borin fram í pönnu, 2.250 krónur í hádeginu. Sama hagstæða verðið og á öðrum góðmetisstöðum miðbæjarins. Raunar líka hagstætt fyrir túristana á kvöldin, 2.950 krónur. Ísland er ekki dýrt. Yfirkokkurinn kemur frá öndvegisstaðnum Fiskfélaginu, Stefán Hlynur Karlsson. Matwerk fer beint á listann minn yfir tíu beztu matarhús borgarinnar.

Hreindýrasúpan góða

Veitingar

Bezta lækningin við vetrarkulda á Laugavegi er súpa í brauði á Svarta kaffinu. Slík matarhús eru víða í Bandaríkjunum, en bara eitt hér á landi og búið að vera lengi. Ég valdi hreindýrasúpu fram yfir sveppasúpu, en get ekki lofað sama úrvali næst, því daglega er skipt um súpu. Upplagt til að ná úr sér hrollinum fyrir 1.850 krónur. Þú ræður, hvort þú skilur brauðið eftir eða borðar það líka. Á fyrstu hæð í svartmáluðu timburhúsi að Laugavegi 54. Svo sem engin uppljóstrun, því 1491 ferðamaður hrósar staðnum í skilaboðum á TripAdvisor. Þar er nánast einróma lof, enda telst Svarta kaffið þar 14. bezta veitingahús borgarinnar.

Hér vantar Tomma

Veitingar

Hard Rock var merkt matarhús og rokkminjasafn í Kringlunni fyrir aldamót, þegar Tommi réð þar ríkjum. Þá sagði Steve Wozniak, höfundur Apple og Macintosh, það vera bezta Hard Rock í heimi. Steve hafði þá selt hlutabréfin sín og fór um heim milli Hard Rock staða. Síðan fór Tommi í Búlluna, seldi Hard Rock, sem svo fór á hausinn fyrir hrun. Nú er komið nýtt Hard Rock í Lækjargötu. Ekki Rokkminjasafn, allt innbú upp á amerísku. Maturinn er so-so, barbeque kjúklingur með Chili-dósabaunum sem sósu, á 2.700 kr, þjónusta í lagi og tónahávaði furðulega lítill. Ekki einn af tíu beztu, en þolanlegur fyrir miðaldra hippa. Hér vantar Tomma.

Fútúrísk Essensia

Veitingar

Essensia neðst við Hverfisgötu gegnt Arnarhóli er fyrsta dæmið, sem ég sé um vel heppnað þema-matarhús. Allt innihaldið, stórt og smátt, kemur frá Ítalíu í fútúrískum stíl úr silfruðu stáli og speglum. Mjög róttækt, mjög flott, slípuð útgáfa af Mat & drykk og Von. Hákon Már Örvarsson býður í eldhúsinu upp á einfalda nútímamatreiðslu Miðjarðarhafsins. Steinbíturinn var rétt grillaður, borinn fram í undursamlegri sósu með kjúklingabaunum. Fyrstu vikurnar var þjónustan lakari, skafin ómenntuð upp af götunni og sigað á gestina. Nú hefur hún jafnað sig og kann betur til verka. Verð er sanngjarnt i hádeginu, 2.200 krónur fiskréttur dagsins. Eitt af fimm beztu matarhúsum borgarinnar.

Svipað mat á mat

Veitingar

Smekkur TripAdvisor álitsgjafa fyrir veitingahúsum hefur nálgast minn smekk. Sjö af tíu beztu matarhúsum borgarinnar eru hin sömu á báðum listum.

Jónas:
1. Sjávargrillið
2. Matur & drykkur
3. Holt
4. Fiskfélagið
5. Kopar
6. Kaffivagninn
7. Grillmarkaðurinn
8. Restó
9. Ostabúðin
10.Múlakaffi

TripAdvisor:
1. Messinn
2. Matur & drykkur
3. Restó
4. Ostabúðin
5. Old Iceland
6. Fiskmarkaðurinn
7. Kaffivagninn
8. Forréttabarinn
9. Fiskfélagið
10.Sjávargrillið

Gamalt og gott

Veitingar

Lönsaði í Múlakaffi í hádeginu eftir of langt hlé. Traustur staður einstæðra leigubílstjóra og núna líka löggumanna. Í boði þríréttað á 2000-2007 krónur. Í dag mátti velja ýsu, plokkfisk, nautapottrétt eða kótilettur. Rósakálssúpa á undan og á eftir rabbarbaragrautur. Minnti á gamla matargerð í mötuneytum fyrir hálfri öld, þegar ég gróf skurði við Írafossvirkjun. Þetta var eftir væntingum. Ýsan fersk og hóflega elduð, ágætis matur, sömuleiðis nýjar hýðiskartöflur. Hrásalat ómerkilegt. Verðið er svipað og á öðrum hádegisstöðum. Innréttingar eins og í mötuneytum fyrir hálfri öld. Megi gamla Múlakaffi lifa sem lengst.