Veitingar

Komið á kortið

Veitingar

Þótt Michelin sé fremur snobbaður mælikvarði á gæði matarhúsa, hefur hann mest gildi í augum þeirra, sem eiga húsin og matreiða þar. Ísland hefur, um leið og Færeyjar, fengið sinn fyrsta stað með einni Michelinstjörnu af þremur mögulegum. Það eru Dill í Reykjavík og Koks í Kirkjubæ í Færeyjum. Ekki er minna virði, að Matur & drykkur fær einn Michelin-karl, Bib Gourmand, fyrir hágæða mat á hóflegu verði. Fram að þessu hefur Íslands hvergi verið getið í bókum Michelin. Nú er kominn Michelin Nordic, þar sem Ísland er komið á blað með minnisstæðum hætti. Dregur ekki úr straumi ferðamanna, þótt flestir noti alþýðlegri leiðbeiningar.

Matur – þjónusta – umhverfi

Veitingar

Eftir áramótin eru tíu veitingahús á gæðalista mínum. Fyrst og fremst vegna eðalgóðrar matreiðslu, vingjarnlegrar þjónustu og notalegs umhverfis. Hóflegt verð í hádeginu (1900-2700 kr) skiptir líka máli, ég tími ekki að borga 9.000 kr að kvöldi. Þrír nýliðar eru á listanum, Matwerk, Matarkjallarinn og Essensia. Sjávargrillið trónir á toppnum eins og verið hefur undanfarin ár. Röðin á listanum skiptir þó minna máli en veran á listanum. Þetta eru allt frábær hús:

1. Sjávargrillið
2. Matur & drykkur
3. Fiskfélagið
4. Kopar
5. Matwerk
6. Matarkjallarinn
7. Holt
8. Essensia
9. Kaffivagninn
10.Ostabúðin
10.Grillmarkaðurinn

Inspektorinn vantar

Veitingar

Brugghúsið Bryggjan er risavaxin „gastro-pub“, bjórkrá með metnað í eldamennsku. Þar var hægt að fá ágætar rækjur, reyktan lax, egg og skyr í hádeginu (2.690 kr). Mér leizt hins vegar lakar á egg, beikon og pylsur félaga minna (2.890 kr). Það telst varla metnaður. Þjónusta var óörugg og án yfirsýnar. Okkar pöntun týndist í kerfinu og við þurftum að ítreka hana. Ég held það vanti inspektor í matsalinn. Bryggjan er ofurhönnuð eins og flestir matstaðir eru nútildags, fremur „konsept“ en innihald. Stórir gluggar ættu að veita útsýni yfir gömlu höfnina, ef ekki flæktist fyrir skipsskrokkur við gluggana. Sé varla fram á frekari heimsókn hér.

Ljúft við Laugaveg

Veitingar

Matwerk er faglega hannaður veitingastaður á þremur gólfum innst á Laugavegi, þar sem einu sinni var Stjörnubíó. Grunsemdir um enn eina túristagildruna hurfu eins og dögg fyrir sólu, þegar maturinn kom á borð. Frábærlega mátulega steikt bleikja  með maukaðri og ljúfri blöndu af kartöflum, grænkáli og jógúrt, borin fram í pönnu, 2.250 krónur í hádeginu. Sama hagstæða verðið og á öðrum góðmetisstöðum miðbæjarins. Raunar líka hagstætt fyrir túristana á kvöldin, 2.950 krónur. Ísland er ekki dýrt. Yfirkokkurinn kemur frá öndvegisstaðnum Fiskfélaginu, Stefán Hlynur Karlsson. Matwerk fer beint á listann minn yfir tíu beztu matarhús borgarinnar.

Hreindýrasúpan góða

Veitingar

Bezta lækningin við vetrarkulda á Laugavegi er súpa í brauði á Svarta kaffinu. Slík matarhús eru víða í Bandaríkjunum, en bara eitt hér á landi og búið að vera lengi. Ég valdi hreindýrasúpu fram yfir sveppasúpu, en get ekki lofað sama úrvali næst, því daglega er skipt um súpu. Upplagt til að ná úr sér hrollinum fyrir 1.850 krónur. Þú ræður, hvort þú skilur brauðið eftir eða borðar það líka. Á fyrstu hæð í svartmáluðu timburhúsi að Laugavegi 54. Svo sem engin uppljóstrun, því 1491 ferðamaður hrósar staðnum í skilaboðum á TripAdvisor. Þar er nánast einróma lof, enda telst Svarta kaffið þar 14. bezta veitingahús borgarinnar.

Hér vantar Tomma

Veitingar

Hard Rock var merkt matarhús og rokkminjasafn í Kringlunni fyrir aldamót, þegar Tommi réð þar ríkjum. Þá sagði Steve Wozniak, höfundur Apple og Macintosh, það vera bezta Hard Rock í heimi. Steve hafði þá selt hlutabréfin sín og fór um heim milli Hard Rock staða. Síðan fór Tommi í Búlluna, seldi Hard Rock, sem svo fór á hausinn fyrir hrun. Nú er komið nýtt Hard Rock í Lækjargötu. Ekki Rokkminjasafn, allt innbú upp á amerísku. Maturinn er so-so, barbeque kjúklingur með Chili-dósabaunum sem sósu, á 2.700 kr, þjónusta í lagi og tónahávaði furðulega lítill. Ekki einn af tíu beztu, en þolanlegur fyrir miðaldra hippa. Hér vantar Tomma.

Fútúrísk Essensia

Veitingar

Essensia neðst við Hverfisgötu gegnt Arnarhóli er fyrsta dæmið, sem ég sé um vel heppnað þema-matarhús. Allt innihaldið, stórt og smátt, kemur frá Ítalíu í fútúrískum stíl úr silfruðu stáli og speglum. Mjög róttækt, mjög flott, slípuð útgáfa af Mat & drykk og Von. Hákon Már Örvarsson býður í eldhúsinu upp á einfalda nútímamatreiðslu Miðjarðarhafsins. Steinbíturinn var rétt grillaður, borinn fram í undursamlegri sósu með kjúklingabaunum. Fyrstu vikurnar var þjónustan lakari, skafin ómenntuð upp af götunni og sigað á gestina. Nú hefur hún jafnað sig og kann betur til verka. Verð er sanngjarnt i hádeginu, 2.200 krónur fiskréttur dagsins. Eitt af fimm beztu matarhúsum borgarinnar.

Svipað mat á mat

Veitingar

Smekkur TripAdvisor álitsgjafa fyrir veitingahúsum hefur nálgast minn smekk. Sjö af tíu beztu matarhúsum borgarinnar eru hin sömu á báðum listum.

Jónas:
1. Sjávargrillið
2. Matur & drykkur
3. Holt
4. Fiskfélagið
5. Kopar
6. Kaffivagninn
7. Grillmarkaðurinn
8. Restó
9. Ostabúðin
10.Múlakaffi

TripAdvisor:
1. Messinn
2. Matur & drykkur
3. Restó
4. Ostabúðin
5. Old Iceland
6. Fiskmarkaðurinn
7. Kaffivagninn
8. Forréttabarinn
9. Fiskfélagið
10.Sjávargrillið

Gamalt og gott

Veitingar

Lönsaði í Múlakaffi í hádeginu eftir of langt hlé. Traustur staður einstæðra leigubílstjóra og núna líka löggumanna. Í boði þríréttað á 2000-2007 krónur. Í dag mátti velja ýsu, plokkfisk, nautapottrétt eða kótilettur. Rósakálssúpa á undan og á eftir rabbarbaragrautur. Minnti á gamla matargerð í mötuneytum fyrir hálfri öld, þegar ég gróf skurði við Írafossvirkjun. Þetta var eftir væntingum. Ýsan fersk og hóflega elduð, ágætis matur, sömuleiðis nýjar hýðiskartöflur. Hrásalat ómerkilegt. Verðið er svipað og á öðrum hádegisstöðum. Innréttingar eins og í mötuneytum fyrir hálfri öld. Megi gamla Múlakaffi lifa sem lengst.

Stinkandi rauðspretta

Veitingar

Ýmis mathús hafa verið í kjallaranum á Lækjargötu 6b, andspænis Menntaskólanum í Reykjavík. Nú er þar Messinn, sem segist vera sjávarréttastaður. Samt ekki með neinn fisk dagsins. Mest verkaðir réttir, franskt bouillabaisse fisksúpa, franskur ratatouille fiskigrautur og couscous Norður-Afríku, auk íslenzks fiskiborgara og plokkfisks. Ég prófaði allt of gamla, stinkandi rauðsprettu, borðaði meðfylgjandi kartöflur, tómata og klettasalat. Rauðspretta eldist hratt og er vandmeðfarin á mathúsum. Hefði betur valið eldisbleikjuna, hún geymist lengur. Já, eða saltfiskfroðuna. Innrétting hugguleg og þjónusta frambærileg.

Eigendur ofmetnist ekki

Veitingar

Eigandi matarhúss á að vera á staðnum. Ofmetnist ekki af velgengni og freistist til að opna fleiri. Þá fer allt í steik. Því hætti ég að leita nýrra staða, rúnta milli sjö-átta, sem bjóða festu, jafnan í hádegi. Þar er úrvalsmatur með persónulegri þjónustu. Svo sem Sjávargrillið, Matur og drykkur, Kopar og Verbúð 11. Einnig Restó, sem má kasta gamalli innréttingu úr frauðplasti. Minnka þrengsli í básum og afskaffa lóðrétt sætisbök. Fiskfélagið og Grillmarkaðurinn þurfa festu í sal og nærveru eiganda, ekki síný andlit inspektora. Holt er líka gott. Átta gæðastaðir alls, þarf að nefna fleiri? Kannski Tilveruna og Von í Hafnarfirði, varla fleiri.

Góð Von í Hafnarfirði

Veitingar

Frambærilegu veitingahúsin í Hafnarfirði eru orðin tvö. Auk Tilverunnar í miðbæ er komin Von við fiskihöfnina. Von er skemmtilegar hönnuð sem matarhús og með opið inn í eldhús. Bæði feta troðnar slóðir í matreiðslu. Tilveran með fleiri fisktegundir. Bæði hafa þau fisk dagsins. Á Von fékk ég léttsaltaðan þorsk og í annað skipti lauksteikta löngu, hvort um sig á 1900 krónur í hádegi, gott verð. Hvort tveggja var lítillega ofsteikt, en bara lítillega. Bergmál er á Von og hávær tónlist í samkeppni við skvaldrið. Mætti gjarna fá hljóðdempandi plötur í loftið. Fullt hús í hádeginu, mjög gott í miðri viku í 27.000 manna svefnbæ.

Verbúð 11 poppuð upp

Veitingar

Fyrrum Verbúð 11 er orðin „Lobster & Stuff“, líklega að undirlagi markaðsstofu. Staðurinn poppaður upp með skrítnu veggfóðri, skipt út eigendum og starfsliði. Samt er maturinn áfram góður. Fiskur dagsins í hádeginu var ágæt langa á 2.300 krónur, frekar naumt skömmtuð. Gæðin á pari við ýmsa aðra góða fiskistaði í miðborginni. Hægt væri að kalla staðinn Humar á íslenzku, en tæpast Lobster á ensku, því hér er enginn Lobster, bara Langoustines. Samt á staðurinn einkum að höfða til túrista. Á kvöldin er dágóð umferð þeirra, en lítil í hádeginu, en þá slæðist inn heimafólk. Starfsfólk í sal talar núna íslenzku, sem er gott fyrir okkur gamla fólkið, en úr eldhúsinu heyrist amerískan.

Þar sem frægir faðmast

Veitingar

Því miður er falinn frá bezti matarrýnandi vorra tíma, Seymour Britchky. Gaf þetta ráð: Kíktu, hvort þú sérð einhvern frægan úr fjölmiðlum, þá er maturinn vondur. Frægir forðast góða staði. Þar starir fólk á matinn og lítur í sælu upp til himins. Tekur ekki eftir frægu fólki. Það líkar þeim frægu stórilla. Þeir vilja, að horft sé á sig. Því fara þeir á dýra tema-staði með lélegum mat og vondri þjónustu. Þangað fer enginn nema til að horfa á fræga. Þar fær fólk sér plokkara sem fisk dagsins, 1000 krónum dýrari en glóandi þorskur á góðum stað. Fáir hugsa um, hvað þeir snæða, en frægir ramba milli borða til að faðmast.

Frambærileg bílgeymsla

Veitingar

Lítið fer fyrir Bergsson Mathúsi við Templarastund. Sem hver önnur bílgeymsla með rustalegum borðum. Temað er í tízku, enda alltaf fullt hér á matmálstímum. Flestir eru túristar, en heimafólk sækir hingað mat að fara með á skrifstofuna. Maturinn er blanda af góðri matreiðslu og hollum skyndibita. Hér fékkst fiskur dagsins á 2400 kr. Svipað verð og á fínni stöðum og matreiðslan frambærileg, en þó ekki í sama klassa. Meðlæti fólst í bragðdaufum hýðishrísgrjónum, góðu brauði hússins, sítrónusósu og þríeinu hrásalati hússins, sem fylgir öllum aðalréttum. Allt fremur staðlað að hætti skyndibita, en þó var vinaigrette á salatinu. Vel í sveit sett á hlaupum milli valdastofnana samfélagsins. Kræki samt ekki yfir götuna til að komast hingað.