Kaupmannahöfn

A. Kaupmannahöfn

Borgarrölt, Kaupmannahöfn

Litla heimsborgin

Ferðamenn úr öllum heimshornum hafa borið Kaupmannahöfn þá sögu, að hvergi sé betra að vera gestur en einmitt þar. Hin lífsglaða borg er ein hin vingjarnlegasta í heimi, opinská og alþjóðleg, án þess að hafa glatað dönskum siðum, hefðum og menningu.

Strøget, København 3

Strøget

Danir hafa tamið sér áhyggjulausa framkomu heimsmanna, stríðnislega gamansemi prakkara og listræna dirfsku handverksmanna. Þeir hafa opnað upp á gátt glugga sína til umheimsins og eru þó engum líkir.

Auðlindir eiga þeir fáar, aðrar en hugvitið, sem bezt kemur fram í heimsfrægum listmunum. Allt verður að gersemi í höndum þeirra, gler, leir og viður, silfur, stál og skinn. Og hvergi er betra að sjá þetta en einmitt í Kaupmannahöfn.

Strøget, København

Strøget

Ekkert er þar stærra eða í sjálfu sér merkilegra en í hvaða annarri heimsborg. Til eru stærri kastalar, söfn og fornminjar, garðar og verzlanir. En slíkir áningastaðir ferðamanna hafa sérstakt, danskt aðdráttarafl í Kaupmannahöfn.

Og svo er það lífið sjálft, sem dregur ferðamenn til borgarinnar, er endurspeglar nútímann, blíðan og stríðan í senn, allt frá vonleysi fíkniefnaneytandans upp í hófsama lífslyst. Í þessari bók munum við einkum staðnæmast við hið síðarnefnda.

Hér flýtur bjór og vín með góðum mat. Hér er samvera og einvera á kaffihúsum og krám, í göngugötum og görðum. Hér er notalegt að vera, því að gestir að utan eru yfirleitt fljótir að finna hinn danska takt.

Næstu skref

C. Gamli miðbærinn

Borgarrölt, Kaupmannahöfn

Gamli miðbærinn

Flest markvert í borgarmiðju Kaupmannahafnar er hægt að skoða í þremur þriggja klukkustunda gönguferðum. Tímalengdin er miðuð við rólegt rölt og ekki talinn með sá tími, sem færi í að skoða innan dyra söfn og mannvirki, sem opin eru almenningi. Áhugamenn þyrftu auðvitað miklu lengri tíma.

Fyrsta gönguleiðin liggur um gamla bæinn milli Kóngsins Nýjatorgs og Ráðhústorgs. Önnur liggur um Friðriksbæ frá Kóngsins Nýjatorgi út að Hafmeyjunni við Löngulínu. Hin þriðja liggur svo um Kristjánshöfn, handan brúnna yfir höfnina.

Kóngsins Nýjatorg

Charlottenborg Museum, København

Charlottenborg, Kongens Nytorv

Við hefjum gönguna á mótum Kóngsins Nýjatorgs og Austurgötu, við enda Striksins, á horninu fyrir framan hótelið Angleterre og lítum þar í kringum okkur. Hér er stærsta torg borgarinnar, yfir þrír hektarar að flatarmáli. Það er líka eitt fegursta torgið, girt mörgum frægum og fallegum húsum og höllum.

Gróðurreitur, kallaður Krinsen, var á miðju torginu, umhverfis riddarastyttu af Kristjáni V Danakonungi. Styttan er nýleg bronsstytta af hinni upprunalegu blýstyttu frá 1688. Í aldanna rás höfðu blýfætur hestsins sigið saman, svo að ráðlegt þótti 1946 að skipta til harðara efnis. Nú er komin þarna neðanjarðarlestastöð.

Det kongelige Teater, København

Det kongelige Teater, Kongens Nytorv

Handan við torgið sjáum við menningarhöllina Charlottenborg, þar sem Listaakademían er til húsa. Höllin var reist í hollenzkum hlaðstíl 1672-83 og ótti á sínum tíma glæsilegasta hús borgarinnar. Akademían hefur verið hér síðan 1754. Að baki hennar er sýningarsalur, þar sem hver merkissýningin rekur aðra.

Til hægri sjáum við Det kongelige Teater, hið mun glæsilegra Konunglega leikhús frá 1872-74, sem einnig hýsir óperuna og balletinn. Aðalsalurinn rúmar 1.500 gesti og hliðarsalurinn 1.000 gesti. Við getum skoðað þessar hallir danskrar menningar í síðari gönguferð og látum nú nægja að átta okkur á staðháttum.

Næstu skref

D. Amalienborg

Borgarrölt, Kaupmannahöfn
Kanneworfske Hus, Kongens Nytorv, København

Kanneworfske Hus, Kongens Nytorv

2. ganga:

Kongens Nytorv

Enn hefjum við göngu á Kóngsins Nýjatorgi, við enda Striksins og byrjum eins og áður á því að ganga yfir Litlu Kóngsinsgötu, en förum svo yfir torgið að Konunglega leikhúsinu. Handan þess er Tordenskjoldsgade með listamannakránni Brönnum. Síðan tekur við Konunglega akademían í Charlottenborg og þá erum við komin að Nýhöfn (Nyhavn).

Framundan, vinstra megin Breiðgötu (Bredgade), er Thottshöll. Á hinu horninu við Breiðgötu er kyndugt hús, “Kanneworffske Hus“. Í framhaldi af því sjáum við svo húsaröð Nýhafnar, sem við skulum virða fyrir okkur, áður en við förum yfir götuna fyrir botni hafnarinnar. Við skulum líka horfa til baka yfir torgið og taka eftir, hvernig hótelið Angleterre ber í hvítum glæsibrag af öðrum höllum torgsins.

Milli Kanneworffske Hus og oddmjóa hússins göngum við inn Store Strandgade, þar sem veitingahúsið væna, Els, er strax á vinstri hönd, á nr. 3. Við göngum þá götu áfram og síðan til baka til hægri eftir Lille Strandgade út að Nýhöfn. Í þessum götum er margt gamalla húsa frá síðari hluta átjándu aldar. Við tökum sérstaklega eftir nr. 3 og 18 við Stóru og nr. 14 og 6 við Litlu Strandgötu.

Næstu skref

E. Christianshavn

Borgarrölt, Kaupmannahöfn
Christianshavn, København

Gömul Kristjánshafnarhús og til hægri Christianskirke

Asiatisk Kompagni, København

Asiatisk Kompagni

Við eigum eftir að skoða eitt hverfi gamla bæjarins innan borgarmúranna. Það er Kristjánshöfn (Christianshavn) handan innri hafnarinnar. Þar er ýmislegt að skoða, svo að við fáum okkur leigubíl eða strætisvagn yfir Knippelsbro að horni Torvegade og Strandgade.

Fyrst lítum við til hægri inn í Strandgade, þar sem Kristjánskirkja (Christianskirke) frá 1755 hvílir fyrir enda götunnar, með smáhöllum á báðar hendur. Á horninu, á nr. 14, er gamla ráðhúsið í Kristjánshöfn.

Við förum í hina áttina og göngum Strandgade til norðurs. Okkur á vinstri hönd, andspænis Sankt Annægade, er höll Asiatisk Kompagni frá 1740, með minningum frá gullöldinni, þegar danski flotinn sigldi um heimshöfin og Danmörk var nýlenduveldi. Nú er utanríkisráðuneytið í höllinni.

Næstu skref

F. Íslendingaslóðir

Borgarrölt, Kaupmannahöfn
Angleterre hotel, København

Angleterre hotel

Kóngsins Nýjatorg

Við stöndum á mótum Striks og Kóngsins Nýjatorgs í sporum ótaldra þúsunda Íslendinga, sem hafa búið í Kaupmannahöfn um langan eða skamman tíma, allt frá því er Arnaldur Íslendingur var á ofanverðri tólftu öld í föruneyti Absalons biskups, stofnanda borgarinnar við sundið.

Við munum nokkurn veginn fylgja sömu leið og við lýstum í fyrstu gönguferðinni um gamla bæinn. Í þetta sinn erum við eingöngu á höttunum eftir slóðum Íslendinga, bæði gömlum og nýjum. Af nógu er að taka, því að Kaupmannahöfn var eftir Þingvöll og fyrir Reykjavík hin raunverulega höfuðborg Íslands í fimm aldir.

Hér verður aðeins stiklað á stóru. Þeim, sem vilja fá meira að vita, er bent á skemmtilega og fróðlega bók Björns Th. Björnssonar listfræðings: “Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn”, sem kom út hjá Máli og menningu árið 1961 og var enn fáanleg fyrir stuttu.

Okkur á vinstri hönd er hótelið Angleterre, þar sem Halldór Laxness hefur stundum gert garðinn frægan og þar sem Vigdís Finnbogadóttir hélt 1000 manna veizluna. Þar sat líka löngum um miðja síðustu öld hinn skapstóri sérvitringur “Repp”, mesti Danahatari Íslandssögunnar.

Repp hét raunar Þorleifur Guðmundsson og var úr Hreppunum. Hann var skarpur og verðlaunaður námsmaður, en missti af meistaratign, þegar hann missti stjórn á skapi sínu í ræðustól. Hann samdi ensk-danska orðabók og enskar þýðingar, var í góðum efnum og bjó hér handan við hornið, í Austurgötu, á dýrasta stað borgarinnar. Hann var vinur Jóns Sigurðssonar, tók mikinn þátt í stjórnmálafundum og gaf út hvert blaðið á fætur öðru, Dagen, Krigen og Tiden, mestmegnis með hóli um sig sjálfan.

Hér í nágrenninu eru fleiri og eldri spor Laxness. Handan torgsins er Stóra Kóngsinsgata, þar sem hann bjó hjá Scheuermann á nr. 96 fyrstu mánuði sína í hinum stóru útlöndum og vakti að eigin sögn nokkra undrun fyrir matvendni.

Gothersgade liggur hér frá torginu í öndverða átt við Nýhöfn. Þar á nr. 15 var til skamms tíma og er kannski enn næturklúbburinn Bonaparte, þar sem Þorsteinn Viggóson veitingamaður hélt úti höfðinglegri stammbúlu fyrir íslenzka nátthrafna.

Charlottenborg Museum, København

Charlottenborg

Handan torgsins, til hægri séð frá Angleterre, sjáum við tvær hallir. Fyrst er þar Charlottenborg, þar sem Konunglega listaakademían hefur lengi verið til húsa. Þar hafa margir íslenzkir listamenn og arkitektar komið við sögu, allar götur síðan séra Sæmundur Hólm var þar við nám 1776.

Det kongelige Teater, København

Det kongelige Teater

Hér lærðu Ásgrímur Pálsson, Einar Jónsson, Jóhannes Kjarval, Muggur, Sigurður málari, Sigurjón Ólafsson, Svavar Guðnason og margir fleiri. Hér drukku til skamms tíma flestir íslenzkir listamenn af brunnum evrópskrar menningar. Charlottenborg er meginþáttur í lista- og húsasögu Íslands.

Þar til hægri er Konunglega leikhúsið, þar sem Anna Borg lék og þar sem stundum eru sett á svið leikrit Jóhanns Sigurjónssonar og Guðmundar Kamban. Íslenzku tengslin eru þó öllu meiri við óperuna í sama húsi, því að hér sungu Einar Kristjánsson, Friðbjörn Björnsson, Magnús Jónsson og Stefán Íslandi.

Næstu skref

G. Sjáland

Borgarrölt, Kaupmannahöfn

Útrás um Sjálandsbyggðir

Við erum nú orðin svo kunnug Kaupmannahöfn, að við höfum dag aflögu fyrir danska sveitasælu. Við fáum okkur bíl á leigu til að skoða á Norður-Sjálandi hið dæmigerða danska landslag, kastala, söfn og dómkirkju. Við getum auðvitað farið í hópferðir til þessara staða, en frjálslegra er að fara með eigin tímaskyni á eigin spýtur.

Ef við ætlum að skoða allt, sem hér er lýst, á einum degi, verðum við að láta hendur standa framúr ermum. Leiðin er 175 kílómetrar og tekur tæpar fjórar klukkustundir í akstur. Vegna takmarkaðs opnunartíma merkisstaða verða þá ekki nema fimm stundir aflögu til skoðunar.

Þá er um að velja að sleppa einhverju og skoða annað lauslega, sem við höfum á minnstan áhuga, eða taka tvo daga í ferðina. Þá gistum við annaðhvort á Hotel Marienlyst á Nordre Strandvej 2, Helsingjaeyri, eða á Hotel Store Kro á Slotsgade 6, Fredensborg.

Lousiana, Henry Moore

Lousiana, Henry Moore í forgrunni

Við leggjum af stað 9 að morgni, finnum Østerbrogade og ökum hana til norðurs. Nafn hennar breytist fljótlega í Strandvejen, enda fylgjum við ströndinni úr borginni. Þetta er engin hraðbraut, heldur mjór vegur, sem bugðast um sjávarpláss, sumarhús og sveitasetur. Í góðu veðri sjáum við til Hveðnar (Ven) og Svíþjóðar.

Louisiana

Með rólegum akstri komum við til þorpsins Humlebæk um 10, þegar Louisiana-safnið er opnað. Þetta er gamalt sveitasetur í stórum og glæsilegum garði nyrzt í þorpinu, heilt völundarhús nútímalistar, bæði úti og inni, í gamla húsinu og í nýjum sölum. Þetta er eitt frjálslegasta safn, sem um getur, umvafið fersku sjávarlofti. Þegar við heimsóttum það síðast, var þar mjög stór sýning á verkum Picasso.

Næstu skref

H. Danmörk

Borgarrölt, Kaupmannahöfn

Danmerkurhringur

Ef við höfum nægan tíma, til dæmis viku, getum við kannað aðdráttarafl sveitanna að baki borginni, ræturnar, sem stórborgarstilkur Kaupmannahafnar rís upp af. Við getum heimsótt gamla kastala og kirkjur og þorp og sveitir, sem hafa ræktað danska “huggu” um aldir. Ef börn eru með í ferð, er auðvelt að láta leiðina liggja um opna dýragarða og Legoland.

Hér er stungið upp á 900 km akstri og fjórum ferjuleiðum um Danmörku. Það felur í sér rólegar, 130 km dagleiðir með nægum tíma til skoðunar og hvíldar. Með meiri flýti má fara þessa hringleið á færri dögum, sérstaklega ef við veljum og höfnum úr því, sem hér verður boðið á næstu síðum.

Køge marked, Sjælland

Køge marked

Køge

Fyrst pöntum við hótel ferðarinnar og leggjum síðan um níuleytið af stað í bílaleigubíl frá gististað okkar í Kaupmannahöfn. Leiðin liggur suður eftir A2/E4  38 km til bæjarins Køge, þar sem við fylgjum vegvísum til bæjarmiðju, unz við komum að aðaltorginu, Torvet. Þar getum við staðnæmzt og ef til vill keypt vistir á torgmarkaðinum.

Á torginu og tveimur strætum, sem liggja að því, Kirkestræde og Vestergade, eru nokkur bindingshús frá 16. öld. Í Kirkestræde má líka líta Sankt Nicolaj kirkju frá 17. öld. Úr turni hennar fylgdist Christian V með sjóorrustu Dana og Svía á Køge-flóa 1677.

Þetta er stutt kynning á því, sem koma skal í þessari ferð, svo að við skellum okkur af stað til Vordingborg á venjulega veginum, ekki hraðbrautinni A2/E4. Eftir um 20 km komum við að síðara skiltinu af tveimur, sem vísa veginn til Haslev til hægri. Við beygjum þar, ef við viljum sjá sveitasetrin Bregentved og Gisselfeld. Að öðrum kosti höldum við áfram og höfum auga með vegvísi til Næstved, 5 km sunnar.

Frá áðurnefndum vegamótum eru 2 km að svifstíls-setrinu Bregentved. Hinn stóri garður þess, með tjörnum og blómabeðum, trjágöngum og víðáttumiklum túnum, er opinn almenningi miðvikudaga, sunnudaga og helgidaga, án aðgangseyris.

Eftir 2 km í viðbót beygjum við til vinstri að endurreisnarhöllinni Gisselfeld, sem var byggð 1547 sem kastali, umkringdur síki. Líka þar er fallegur garður, sem er opinn almenningi.

Á sömu leið komum við brátt að vegvísinum til Næstved. Þegar við höfum farið hjá Holme-Olstrup, beygjum við til hægri að Holmegård gleriðjunni, þar sem dýrasta gler er handblásið eftir hefðbundnum leiðum. Holmegård er ein frægasta gleriðja Danmerkur og sennilega hin bezta, stofnuð 1825.

Næstved

Við setjum bílinn í gang og höldum sem leið liggur allt til Næstved. Þegar við komum að bænum, förum við nokkur hundruð metra krók til gamla klaustursins Herlufsholm, sem er frá 1560. Þar er merkust 12. aldar kirkjan, sem enn ber 13. aldar svip, opin 11-17 á sumrin, 12-14 á veturna.

Nú er kominn tími til hádegisverðar. Við förum beint inn í bæjarmiðju í Næstved og leggjum bílnum undir hæðinni, þar sem rís Sankt Pederskirke, stærsta kirkja Danmerkur í gotneskum stíl, frá 13. og 14. öld. Við göngum upp á kirkjutorgið og förum beint í hádegismat á hótel Vinhuset, Sankt Peders Kirkeplads. Við höfum lagt 59 km að baki frá Køge.

Eftir mat og langvinnt kaffi röltum við út á hitt kirkjutorgið, Akseltorv, förum um Torvestræde til Sankt Mortenskirke frá 12. öld. Þaðan förum við eftir Riddergade, sem ber endurreisnarsvip, vörðuð bindingshúsum frá 1500. Til baka förum við Købmagergade og Sankt Peders Kirkeplads, framhjá gömlu prestssetri frá 1450 og bæjarsafninu, að bílnum.

Næstu skref