Suður-Þingeyjarsýsla

Öxnadalsdrög

Frá Blómsturvöllum við Skjálfandafljót að vegamótum Gæsavatnaleiðar.

Bárðargötu er hér lýst í fimm dagleiðum. Nyrsta leiðin er hér kölluð Réttartorfa. Næst koma Öxnadalsdrög. Síðan Vonarskarð. Þá kemur Hamarskriki. Og loks Fljótsoddi. Réttartorfuleiðin hefst við Svartárkot á Mývatnsheiðum og Fljótsoddaleiðin endar við Miklafell á Síðumannaafrétti. Í þessari útgáfu er ekki gert ráð fyrir, að Bárður hafi farið yfir Hverfisfljót uppi við jökul, sem þó er eins líklegt. Gnúpa-Bárður nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Fann, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann, að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni að kanna það. Þeir fundu gróður í Vonarskarði á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi.

Byrjum á jeppaslóð, sem liggur með Skjálfandafljóti austanverðu, á gatnamótum, þar sem þverleið liggur niður að skálanum Blómsturvöllum við fljótið. Við erum á heiðinni í 730 metra hæð. Við förum suður slóðina um Kvíslárbotna, áfram suður Miðdrag og Surtluflæðu. Þar sveigir slóðin meira til suðvesturs og mætir Gæsavatnaleið í 800 metra hæð.

36,2 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Blómsturvellir: N65 04.836 W17 29.764.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Réttartorfa, Vonarskarð.
Nálægar leiðir: Biskupaleið, Suðurárhraun, Ódáðahraun, Gæsavötn, Kambsfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Öskjuleið

Frá Hrossaborg á Mývatnsöræfum um Herðubreiðarlindir að fjallaskálanum Dreka við Dyngjufjöll.

Fjölfarin sumarleið til nokkurra þekktra staða, Herðubreiðarlinda, Dyngjufjalla, Kverkfjalla og Gæsavatna. Herðubreiðarlindir eru margar og renna saman í Lindá. Þar er mikið blómaskrúð með nærri hundrað háplöntum. Einn fegursti staður landsins. Ólafur Jónsson segir: “Í Herðubreiðarlindun eru töfrar öræfa og eyðimarka dásamlega ofnir saman við klið svalandi linda og ilm af gróandi grasi.”

Byrjum við þjóðveg 1 um Mývatnsöræfi, rétt austan við Hrossaborg, í 380 metra hæð. Þar er jeppavegur suður í Öskju, sem við fylgjum. Fyrst um Grjót suður að Jökulsá á Fjöllum, suður að Ferjuási og meðfram honum vestanverðum, síðan vestan við Yztafell og aftur að Jökulsá norðan við Miðfell. Þar er fjallakofi. Við förum austan við Miðfell og Fremstafell að Grafarlöndum, þar sem við förum yfir Grafarlandaá. Síðan förum við vestan við Ferjufjall og um Grafarlönd austari að Þorsteinsskála í Herðubreiðarlindum í 470 metra hæð. Frá skálanum förum við áfram suður með Jökulsá. Þegar við nálgumst Hlaupfell, sveigir leiðin til vesturs að Herðubreiðartöglum. Við förum suður með töglunum austanverðum og síðan vestur yfir Vikursand fyrir sunnan Vikrafell. Þar sem við komum að Dyngjufjöllum, er fjallaskálinn Dreki í 780 metra hæð.

33,4 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Miðfellskofi: N65 23.630 W16 07.929.
Herðubreiðarlindir: N65 11.560 W16 13.390.
Dreki: N65 02.493 W16 35.710.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Péturskirkja.
Nálægar leiðir: Almannavegur, Veggjafell, Biskupaleið, Upptyppingar, Dyngjufjalladalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Þversum Ísland

Sumarið 1255 fór Magnús Jónsson þvert yfir landið frá Vopnafirði til Snæfellsness. Hann var frændi Þorvarðar Þórarinssonar og liðsmaður hans í herferðum. Skyldi hann leita liðveizlu Þorgils skarða Böðvarssonar gegn Hrafni Oddssyni og Eyjólfi ofsa Þorsteinssyni. Sturlunga segir um Magnús: “Hafði hann farið lítt með byggðum, en jafnan um nóttum. Gekk því engin njósn af hans ferðum fyrr en hann kom til Staðar” á Snæfellsnesi. Á bakaleiðinni kom Magnús við á Rauðsgili í Hálsasveit og komst þá upp um fyrirætlan hans. Fengu Hrafn og Eyjólfur þá njósn af ferðum hans. Ferð Magnúsar er dæmi um kjark og þol manna, sem fóru langan veg um óbyggðir snemma á öldum Íslandsbyggðar.

Sennilega hefur Magnús farið frá Hofi í Vopnafirði um Hofsárdal og Brattafjallgarð að Möðrudal. Þar næst að Jökulsá á Fjöllum sunnan Möðrudals við Ferjufjall. Síðan Biskupaveg um Ódáðahraun og Suðurárhraun í Kiðagil og áfram vestur norðanverðan Sprengisand í Laugafell. Því næst um Eyfirðingaveg norðan Hofsjökuls og yfir á Skagfirðingaveg á Stórasandi eða þá um Kráksskarð. Þaðan vestur um Arnarvatnsheiði meðfram Norðlingafljóti til Þverárhlíðar. Síðan Múlaveg um Mýrar norðanverðar og loks um Löngufjörur að Staðastað á Snæfellsnesi.

? km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur, Eyjafjörður, Skagafjörður, Húnavatnssýslur, Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Biskupavegur, Suðurárhraun, Kiðagil, Ingólfsskáli, Skagfirðingavegur, Norðlingafljót, Skarðheiðarvegur, Múlavegur, Löngufjörur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Þríhyrningsleið

Frá Öskju yfir Dyngjufjalladalsleið að Öxnadalsá á Bárðargötu.

Byrjum við skálann Dreka við Öskju. Förum suður með Dyngjufjölum og austur fyrir Dyngjuvatn og vestan við Vaðöldu. Þar beygjum við til suðvesturs, síðan til vesturs og norðvesturs, unz við komm á Dyngufjallaleið sunnan við Kattbekking. Förum norðvestur og síðan vestur jeppaslóðina F910 fyrir norðan Þríhyrning og Trölladyngju, mest í 800 metra hæð. Komum að Bárðargötu við Öxnadalsá.

67,9 km
Þingeyjarsýslur

Jeppafært
Athugið nýtt Holuhraun

Nálægir ferlar: Öxnadalsdrög.
Nálægar leiðir: Dyngjufjalladalur, Gæsavötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Þegjandadalur

Frá Hvoli í Aðaldal um Þegjandadal að Þverá í Laxárdal.

Byrjum hjá vegi 856 við Hvol í Aðaldal. Förum suður Þegjandadal og suðaustur um Halldórsstaðaskarð að Þverá.

11,2 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Nafarvað, Hvammsheiði, Vatnshlíð.
Nálægar leiðir: Máskot, Ljótsstaðir, Hrossanúpar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Vonarskarð

Frá vegamótum Gæsavatnaleiðar um Vonarskarð að Auröldu við Vatnajökul.

Þessi leið er bönnuð hestum.

Bárðargötu er hér lýst í fimm dagleiðum. Nyrsta leiðin er hér kölluð Réttartorfa. Næst koma Öxnadalsdrög. Síðan Vonarskarð. Þá kemur Hamarskriki. Og loks Fljótsoddi. Réttartorfuleiðin hefst við Svartárkot á Mývatnsheiðum og Fljótsoddaleiðin endar við Miklafell á Síðumannaafrétti. Í þessari útgáfu er ekki gert ráð fyrir, að Bárður hafi farið yfir Hverfisfljót uppi við jökul, sem þó er eins líklegt. Hverfisfljót var þá lítið vatn, kallað Raftalækur. Þannig hefði hann komið suður í Fljótshverfi eins og sagan segir, en ekki suður á Síðu.

Gnúpa-Bárður nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Fann, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann, að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni að kanna það. Þeir fundu gróður í Vonarskarði á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi.

Byrjum á vegamótum Gæsavatnaleiðar og leiðar upp með Skjálfandafljóti að austanverðu, í 800 metra hæð. Við fylgjum ógreinilegri jeppaslóð um Vonarskarð. Förum fyrst suðvestur og síðan beint suður milli Fljótsborgar og Langháls að vestan og Dvergöldu að austan. Norðan við Hnúð og Tindafell beygir leiðin suðvestur milli Stakfells að norðan og Valafells að sunnan. Þar erum við í 1060 metra hæð. Síðan niður Gjóstuklif og krók vestur í Snapadal. Þaðan til suðurs austan við Deili og Svarthöfða. Þar á milli er Vonarskarð í 940 metra hæð. Tæpir þrír kílómetrar eru í beina línu milli Svarthöfða og Vatnajökuls. Við förum áfram suður skarðið um Köldukvíslarbotna nálægt jöklinum, austan við Auröldu. Þar endar þessi leið í 900 metra hæð og við tekur leiðin um Hamarskrika suður í Jökulheima. Héðan eru fimm kílómetrar að fjallaskálanum Hágöngur við Hágöngulón.

42,9 km
Þingeyjarsýsla, Rangárvallasýsla

Ekki fyrir hesta

Skálar:
Hágöngur: N64 34.353 W18 04.238.

Nálægir ferlar: Öxnadalsdrög, Hamarskriki.
Nálægar leiðir: Gæsavötn, Kambsfell, Hágöngulón.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Víðiker

Frá Stóru-Völlum í Bárðardal til Víðikera.

Leið meðfram vegi.

Förum frá Stóru-Völlum austur yfir brúna á Skjálfandafljóti og síðan suður þjóðveg 843 í Víðiker. Fyrst meðfram Skjálfandafljóti og síðan upp í Fljótsheiði norðan Svartár og endum við rétt hjá Víðikeri.

13,8 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Kiðagil: N65 30.117 W17 27.375.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hellugnúpsskarð, Engidalur, Suðurá.
Nálægar leiðir: Hörgsdalur, Kleifarsund, Hrafnabjargavað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Veggjafell

Frá Bræðraklifi í Ódáðahrauni að Ferjufjalli við Jökulsá á Fjöllum.

Þetta er síðasti hluti Biskupaleiðar yfir Ódáðahraun, framhald Suðurárhraunsleiðar og Kerlingardyngjuleiðar. Hafragjá er mikilúðleg gjá með hamrabeltum, sem virðast ófær hestum, að undanskildu Bræðraklifi. Rétt norðan Bræðraklifs hefur stundum fundizt vatnsból. Öll leiðin yfir Ódáðahraun er vörðuð. Jón Sigurgeirsson frá Helluvaði leitaði að vörðunum og fann þær. Mynda misjafnlega gisinn leiðarvísi um þennan forna þjóðveg, sem var í greiðri notkun fram á sautjándu öld, en týndist síðan að mestu. Ingvar Teitsson færði vörðurnar í GPS-net og skrifaði góðan bækling, sem heitir “Biskupaleið yfir Ódáðahraun”.

Byrjum við Bræðraklif í vesturkanti þúsund metra breiðrar Hafragjár í Ódáðahrauni á Biskupaleið, í 540 metra hæð. Hestfær sandbrekka er upp úr gjánni að austanverðu. Við förum til suðausturs undir fjöllunum, en þó sunnan við Veggjafell. Leiðin er að mestu bein, en landið misjafnt undir hóf. Fyrst er þokkaleg leið norðan við Herðubreiðarfjöll. Síðan tekur við ógreiðfært hraun sunnan við Veggjafell að jeppaslóð við Fjallagjá, þar sem gróður heilsar okkur, grávíðir og krækiberjalyng. Síðan förum við um gróðurlita mela að unaðslegu gróðurríki við Grafarlandaá að veginum til Herðubreiðarlinda. Þar verða allir ferðalangar fegnir, sem koma Biskupaleið úr vestri. Við beygjum þar til austurs undir Ferjufjalli, þar sem er elzta ferjustæðið á Jökulsá á Fjöllum.

22,3 km
Þingeyjarsýslur

Nálægar leiðir: Biskupaleið, Almannavegur.

Skrásetjari: Ingvar Teitsson
Heimild: Ingvar Teitsson

Vatnshlíð

Frá Einarsstöðum í Reykjadal um Vatnshlíð og Vestmannsvatn að Hraunsrétt í Aðaldal.

Skógurinn í Vatnshlíð hefur mjög látið á sjá, enda ekki friðaður.

Förum frá Einarsstöðum austur yfir sléttlendið, yfir Reykjadalsá og upp á þjóðveg 846. Við förum með þeim vegi til norðurs að Ökrum, þar sem við förum áfram með fjallshlíðinni ofan við Halldórsstaði. Síðan beint áfram norður Vatnshlíð meðfram Vestmannsvatni að austanverðu, um hlað í Fagranesi og áfram heimreið að þjóðvegi 854. Við förum austur þann veg um einn kílómetra og síðan norður um Fögrufit að Þúfuvaði á Laxá í Aðaldal. Handan árinnar förum við norðaustur að Hraunsrétt.

13,5 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Hvammsheiði, Nafarvað.
Nálægar leiðir: Kinnarfell, Fljótsheiði, Heiðarsel, Máskot.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Vatnajökulsvegur

Frá Grágæsadal um Hvannalindir og kvíslar Jökulsár á Fjöllum að Gæsavatnaleið austan við Urðarháls.

Í lok átjándu aldar var reynt að finna leið milli Austurlands og Suðurlands. Fyrstur varð Pétur Brynjólfsson árin 1794 og 1797 og reið þá fyrir sunnan Hvannalindir og varð þeirra ekki var. Pétur Pétursson fór leiðina 1833 og var kunnugt um ferð nafna síns. Fann hann Hvannalindir í leiðinni. Síðan reið Björn Gunnlaugsson kortagerðamaður hér um 1838-1839 og færði Vatnajökulsveg inn á kort sitt. Það var samt ekki fyrr en 1880, að menn voru aftur á ferð á þessum slóðum. Biskupaleið, sem sögur voru um, reyndust vera miklu norðar, milli Kerlingardyngju og Ketildyngju. Vatnajökulsvegur hefur allar aldir verið fáfarinn og nánast óþekktur, enda erfiður vegur um slóðir, þar sem allra veðra er von.

Förum frá Einarsskála í Grágæsadal suður með Grágæsavatni vestanverðu að Kverká. Förum vestur yfir Kverká og síðan yfir Kreppu á hestfærum vöðum og síðan á jeppaslóð norður í skála í Hvannalindum. Förum þaðan eftir jeppaslóð suðvestur í Kverkhnjúkaskarð. Vestan skarðsins förum við vestnorðvestur yfir ótal kvíslar Jökulsár á Fjöllum og komum handan kvíslanna á jeppaslóð í Flæðum. Fylgjum henni suðvestur að Gæsavatnaleið austan við Urðarháls.

51,2 km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur

Erfitt fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk
Athuga nýtt Holuhraun

Skálar:
Einarsskáli: N64 52.473 W16 11.640.
Hvannalindir: N64 53.300 W16 18.426.

Nálægir ferlar: Grágæsadalur
Nálægar leiðir: Hvannstóðsfjöll, Brúarjökull, Hvannalindir, Kverkfjöll, Gæsavötn, Ódáðahraun, Dyngjufjalladalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélags Íslands

Vaðlaheiði

Frá Svalbarðseyri í Eyjafirði um Vaðlaheiði að Skógum í Fnjóskadal.

Þórður kakali Sighvatsson kom 1242 út í Eyjafjörð og fór síðan um Vaðlaheiði í Fnjóskadal og um Sprengisand suður að Keldum. 1254 fóru Hrafn Oddsson og Eyjólfur ofsi Þorsteinsson í herferð yfir Vaðlaheiði og um Þingeyjarsýslur. 1255 fóru þeir Hrafn og Eyjólfur um Vaðlaheiði í Eyjafjörð í aðför að Þorgils skarða Böðvarssyni og Þorvarði Þórarinssyni.

Förum frá Svalbarðseyri austur um Túnsberg og upp Steinsskarð norðan gamla þjóðvegarins. Síðan suðaustur yfir Vaðlaheiðarveg og austur brekkurnar sunnan þjóðvegarins að Skógum.

9,2 km
Eyjafjörður, Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Fnjóskadalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Uxaskarð

Frá Þverárrétt í Dalsmynni um Uxaskarð að Nípá í Köldukinn.

Í Árbók FÍ 1992 segir: “Upp í Uxaskarð, frá Fnjóskadal, er nokkuð brött, gróin skriða. Fram í nær mitt skarðið gengur fjallsrani, skriðurunninn með fáein klettabelti í toppi. Klýfur hann skarðið í tvö grunn dalverpi. Gamla leiðin um Uxaskarð lá um nyrðri dalinn, en þar hvílir lítill jökull. Þrátt fyrir jökulinn og miklar fannir má yfirleitt komast með hesta um Uxaskarð seinni hluta sumars. Mjög gott útsýni er frá efsta hluta skarðsins … Frá Uxaskarði má velja leiðir til margra átta, til dæmis niður með Nípá í Köldukinn eða norður Austurdal og Kotadal til Náttfaravíkna og hefur sú leið verið farin á hestum.”

Förum frá Þverárrétt eftir jeppaslóð norður á Flateyjardalsheiði. Sunnan fjallaskálans Funa förum við af slóðinni austur yfir dalinn og síðan suðaustur á fjallið neðan við Uxaskarðsöxl. Förum upp með Ytri-Uxaskarðsá upp í Uxaskarð austnorðaustur í 1000 metra hæð . Þaðan austnorðaustur yfir skarðið og sunnan Austurdalsvatna niður með Nípá í Nípárdal. Áfram norðaustur að Nípá.

19,6 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Gönguskarð, Skuggabjörg.
Nálægar leiðir: Draflastaðafjall, Flateyjardalsheiði, Naustavík, Skjálfandi.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Suðurárhraun

Frá Kiðagilsdrögum í Krákárbotna.

Einn af þjóðvegum landsins fram á sautjándu öld. Framhald Sprengisandsleiðar og upphaf Biskupaleiðar yfir Ódáðahraun að Jökulsá á Fjöllum. Hér við Skjálfandafljót beið Barna-Þórður eftir biskupi og orti: “Biskups hef ég beðið af raun / og bitið lítinn kost / áður ég lagði á Ódáðahraun / át ég þurran ost”. Leiðin liggur fyrst um melöldur, síðan um litlar gróðurvinjar við kvíslar Sandár og svo um úfið hraun milli Sandár og Suðurár. Þann hluta þarf að fara gætilega á hestum um einstigi. Við Suðurá mætir okkur einstæð og víðáttumikil gróðurvin í eyðimörk Ódáðahrauns. Loks liggur leið okkar eftir jeppaslóð í örfoka landi sunnan og austan undir gróðurtorfum í áttina að vegamótum sunnan við Sellandafjall. Við taka leiðirnar Kerlingardyngja og síðan Veggjafell.

Byrjum við Skjálfandafljót við Þingmannavað í Kvíahrauni, rétt norðan við ármót Öxnadalsár. Förum til norðausturs upp undirhlíðar Bálabrekku á slóð um Ytri-Lambármosa. Fylgjum þeirri slóð af norðurenda fellsins niður í Krossárgil og að eyðibýlinu Hafursstöðum við Sandmúladalsá. Við förum norðaustur og á ská upp Hafursstaðahlíð, þar sem sjá má ferlegan uppblástur. Áfram eftir varðaðri Biskupaleið um melöldur að kvíslum Sandár. Þar sem Sandá beygir þvert til vesturs sunnan undir Móflárhnausum leggjum við í Suðurárhraun norðaustur í Suðurárbotna. Beygjum þar suður og austur fyrir kvíslar Suðurár eða förum yfir Suðurá hjá eyðibýlinu Hrauntanga og síðan norðvestur með ánni í Botnaflesjur. Fylgjum þaðan þverslóð til norðausturs frá ánni í átt að Sellandafjalli. Þegar við komum að þverbeygju til austurs á landgræðslugirðingu í Krákárbotnum, liggur jeppaslóðin áfram norður með Sellandafjalli vestanverðu, en framhald Biskupaleiðar liggur beint áfram sunnan við Sellandafjall.

35,7 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Kvíakofi: N65 06.739 W17 31.179.
Botni : N65 16.164 W17 04.061.
Stóra-Flesja: N65 18.407 W17 08.804.

Nálægir ferlar: Fjórðungsalda, Réttartorfa, Suðurá, Suðurárbotnar, Krákárbotnar.
Nálægar leiðir: Kiðagil, Dyngjufjalladalur, Íshólsvatn, Biskupaleið, Kerlingardyngja.

Skrásetjari: Ingvar Teitsson
Heimild: Ingvar Teitsson

Suðurárbotnar

Frá Stóru-Flesju við Suðurá að Botna við Suðurá og sömu leið til baka.

Sportleið í Suðurárbotnum. “Suðurá er vatnsmest áa, sem falla frá Ódáðahrauni. … Suðurárbotnar eru efstu drög hennar á yfirborði en vatnasvið hennar nær alla leið til Dyngjufjalla og Herðubreiðarfjalla. Vatnið af öllu þessu svæði safnast fyrir á tiltölulega litlu lindasvæði, þannig að uppspretturnar verða vatnsmiklar. Gróður er allmikill í Suðurárbotnum. Þar er valllendi og víðigrundir. Merki uppblásturs eru samt áberandi. Jarðvegsraki er engu að síður nægur til þess, að land grær hægt og sígandi á ný. Nokkur mannvirki eru á þessum slóðum, m.a eyðibýlið Hrauntunga, gömul tótt, sem gæti verið leifar sæluhúss. Þarna hafa fundizt nokkrar beinagrindur …” (www.nat.is)

Förum frá Stóru-Flesju upp með Suðurá norðaustan árinnar inn í fjallaskálann Botna í Suðurárbotnum. Sömu leið til baka.

14,9 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Stóra-Flesja: N65 18.407 W17 08.804.
Botni : N65 16.164 W17 04.061.

Nálægir ferlar: Suðurá
Nálægar leiðir: Biskupaleið, Suðurárhraun, Dyngjufjalladalur, Íshólsvatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Suðurá

Frá Víðikeri í Bárðardal til Stóru-Flesju í Suðurárbotnum.

Farið er með vegi til Svartárkots og síðan eftir moldarslóð í mjög þýfðu landi til Suðurárbotna. Farið er um vel gróið kvistaland alla leiðina. Svartárkot er með afskekktari jörðum landsins, í 400 metra hæð. Þar er einn af upphafsstöðum silungsræktar í landinu. Mikið útsýni er frá bænum til fjarlægra fjalla. Suðurá er lygn bergvatnsá með grónum bökkum og hólmum. Í Suðurárbotnum eru vel grónar flesjur. Þetta er blómlegasta vinin í útjaðri Ódáðahrauns. Við erum þarna komin á Biskupaleið. Hér er eyðibýlið Hrauntunga, þar sem mannabein hafa fundizt, en býlisins er ekki getið í heimildum. Er þar þó túngarður utanum 4 hektara flöt. Í nágrenninu fundust sverð og laskaðar beinagrindur fallinna. Þegar Biskupaleið lá hér um garða, hefur þetta verið mikil vin og viðkomustaður.

Förum frá rétt við Víðiker með bílvegi beint suður í Svartárkot, síðan um hlaðið á bænum og áfram til suðurs. Tökum síðan syðri slóðina, því að sú nyrðri liggur að Kráká. Syðri slóðin fylgir Suðurá alla leið í Suðurárbotna, en við nemum staðar við fjallaskála í Stóru-Flesju. Þar erum við komin á Biskupaleið yfir Ódáðahraun.

16,9 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Stóra-Flesja: N65 18.407 W17 08.804.

Nálægir ferlar: Víðiker, Engidalur, Krákárbotnar, Suðurárbotnar.
Nálægar leiðir: Hrafnabjargavað, Kráká, Biskupaleið, Suðurárhraun, Íshólsvatn, Dyngjufjalladalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson