Risi á brauðfótum.

Greinar

Við venjulegar aðstæður hefði mátt búast við, að stjórnarandstaða formanns Sjálfstæðisflokksins og alls þorra þingflokksins mundi leiða til stjórnarandstöðu almennra sjálfstæðismanna og einangrunar ráðherra flokksins.

Klofningur flokksins í afstöðu til ríkisstjórnarinnar hefur nú staðið tæpa átta mánuði. Skoðanakönnun, sem Dagblaðið birtir í dag, sýnir, að flokkurinn skiptist nokkurn veginn jafnt í stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga.

Af þessu má sjá, að engan veginn eru aðstæður venjulegar. Ekkert samræmi er milli stjórnarandstöðu alls þorra þingflokks sjálfstæðismanna og hinnar jöfnu skiptingar almennra stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins.

Stjórnarandstaðan í þingflokknum á sér ekki sterkar rætur meðal stuðningsmanna flokksins. Hún hefur að vísu Morgunblaðið að bakhjarli. En sá bakhjarl er mun minna virði en áður var, þrátt fyrir allan berserksganginn.

Enn alvarlegri eru viðhorf sjálfstæðismanna til formanns flokksins. Skoðanakönnun Dagblaðsins sýnir, að í hugum stuðningsmanna flokksins er hann aðeins hálfdrættingur á við uppreisnarmanninn og forsætisráðherrann.

Þetta þýðir, að valdastofnanir flokksins endurspegla flokkinn enn síður en þingflokkurinn gerir. Formaðurinn hefur aðeins tæplega 30% fylgi á móti rúmlega 50% fylgi varaformannsins og forsætisráðherrans.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins skiptast raunar í fjóra hópa. Í einum eru þeir, sem ekki hafa tekið afstöðu til vandamála flokksins. Í öðrum eru þeir, sem styðja formanninn og eru fylgjandi stjórnarandstöðu hans.

Í þriðja hópnum eru þeir, sem styðja varaformanninn, en eru andvígir ríkisstjórn hans. Í fjórða og langstærsta hópnum eru svo þeir, sem bæði styðja varaformanninn og ríkisstjórn þá, sem hann hefur myndað í trássi við þingflokkinn.

Ofan á þennan klofning er líklegt, að í forsetakosningunum hafi þjappazt saman fimmti hópurinn, sem sé að einhverju leyti öðruvísi en hinir fjórir. Slíkt þyrfti að reyna að mæla í síðari skoðanakönnunum um afstöðu sjálfstæðismanna.

Af öllu þessi má sjá, að Sjálfstæðisflokkurinn riðar á brauðfótum. Hann er ekki lengur neitt þjóðfélagsafl og verður ekki, fyrr en hann hefur greitt úr þeim innri flækjum, sem hér hefur verið lýst og sannaðar eru.

Merkilegast af öllu er þó, að þessir hópar telja sig allir eiga heima í Sjálfstæðisflokknum fremur en annars staðar. Klofningurinn hefur ekki klofið neinn frá flokknum. Þvert á móti sogar flokkurinn að sér fylgi.

Samkvæmt skoðanakönnun Dagblaðsins telur næstum hálf þjóðin sig standa næst Sjálfstæðisflokknum af stjórnmálaflokkunum. Hann gæti því orðið mikið þjóðfélagsafl, ef hann rúmaði sína mislitu hjörð í sama friði og áður var.

Sjálfstæðisflokkurinn á nú ýmissa kosta völ. Hann getur hreinsað flækjurnar á þann hátt, að eftir standi fámennur leiftursóknarflokkur undir forustu núverandi formanns og arftaka hans, með um það bil 15% fylgi meðal þjóðarinnar.

Hann getur líka endurnýjað sig undir forustu utanklíkumanna, sem hafa lag á að rúma hina mislitu hjörð undir einu þaki. Það yrði enginn leiftursóknarflokkur, en ætti aftur á móti von í 40-50% fylgi meðal þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið