Ritvélin er penni nútímans, enda er farið að kenna vélritun í grunnskólum og framhaldsskólum. Samtök verzlunarmanna hafa ekki krafizt einkaréttar eða forgangs að öllum hinum margvíslegu störfum, sem fela í sér vélritun.
Þannig hafa verzlunarmenn t.d. ekki heimtað, að blaðamenn hættu vélritun og færu að lesa verzlunarlærðu fólki efni sitt fyrir til vélritunar. Verzlunarmenn hafa ekki heldur krafizt forgangs að tölvuritvélum prentsmiðjanna.
Samtök prentara hafa aftur á móti krafizt aðgangs að núverandi störfum félagsmanna Blaðamannafélags Íslands og Landssambands íslenzkra verzlunarmanna. Þeir vilja forgang að skermaritvélum á ritstjórnum og auglýsingadeildum.
Skermaritvélar eru komnar í notkun í blaðamennsku og kunna síðar að verða teknar í notkun hjá starfsfólki auglýsingadeilda. Samkvæmt gildandi kjarasamningi bókagerðarmanna má utanstéttarfólk nota þessi tæki.
Nú vilja samtök bókagerðarmanna hins vegar ná forgangi að þessum tækjum, einkum þó í auglýsingadeildum. Um það stendur mesti styrinn í kjarasamningunum. Allt sáttastarf á vinnumarkaðnum strandar á þessu atriði.
Málmþræðir flytja hið vélritaða efni skermaritvélanna inn í tölvuminni. Þaðan er hægt að kalla efnið og viðbótarupplýsingar tölvunnar til skermaritvéla verkstjóra, handritalesara og hönnuða til breytinga og fullvinnslu.
Hönnuðir velja efninu letur og mál á skermaritvélum, senda það síðan aftur til tölvunnar og láta hana skrifa efnið í formi, sem er tilbúið til umbrots. Þannig hverfur úr sögunni eiginleg setning í gömlum stíl.
Í auglýsingadeildum gegna þessar tölvur víðtækara hlutverki. Þær eru bókhaldsvélar og ganga frá auglýsingareikningum. Þær höggva ekki aðeins á setningu, heldur einnig á bókhaldsvinnu og vélritun reikninga.
Talsmenn prentara hafa haldið því fram, að meðferð skermaritvéla sé flóknari en meðferð venjulegra ritvéla og sé á þeirra verksviði. Samt eru lærðir bókagerðarmenn ófáanlegir til að vinna við tölvuritvélar prentsmiðjanna.
Formaður Blaðamannafélags Íslands hefur sagt, að vinnan við skermaritvélarnar geri starf blaðamanna mun auðveldara en áður var. Byggir hann þar á þeirri reynslu, sem þegar hefur náðst hjá blaðamönnum hér á landi.
Þá hefur formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur lýst undrun sinni yfir, að samtök bókagerðarmanna skuli seilast til starfa, sem hingað til hafa verið unnin af félagsmönnum í samtökum verzlunarmanna.
Í ljósi þessara ummæla er ekki auðvelt að sjá, hvernig samtök prentiðnaðarins geta staðið í viðræðum við samtök bókagerðarmanna um störf blaðamanna og verzlunarmanna, um vélritun, sem bókagerðarmenn hafa ekki viljað læra hingað til.
Í gildandi kjarasamningum um þessa tækni, sem þýddir eru úr norrænum samningum, eru ákvæði um atvinnuöryggi bókagerðarmanna og endurhæfingu, þeim að kostnaðarlausu. Þessi ákvæði eiga að hindra atvinnuskort bókagerðarmanna.
Hingað til hefur ófaglært fólk orðið að taka að sér störf við tölvuritvélar prentsmiðja vegna skorts á vilja lærðra bókagerðarmanna. Það er því mikið spé, ef gera á vélritun að löggiltri iðngrein hinna áhugalausu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið