Feneyjar

A. Feneyjar

Borgarrölt, Feneyjar
San Marco & Palazzo Ducale, Feneyjar 5

San Marco & Palazzo Ducale

Feneyjar eru einstæðar. Helzta umferðaræðin er stórfljót með röðum glæsihalla á bakkanum. Bátar eru farartæki allra vöruflutninga og almenningssamgangna. Að öðru leyti er umferðin fótgangandi. Engin hávaða- eða loftmengun er frá bílum, sem engir eru. Hressandi sjávarloftið í borginni fyllist ölduniði náttúrunnar og orðaniði mannlífsins. Streita nútímans á hér hvergi heima.

Þótt borgin sé orðin að safni um stórveldistíma liðinna alda, búa þar enn tugir þúsunda, um helmingur af því, sem mest var. Annað eins kemur af fólki af landi til starfa á morgnana og hverfur heim til sín á kvöldin. Þar við bætast ferðamennirnir. Feneyjar eru lifandi borg, þótt henni hafi hnignað á síðustu öldum. En hún er ekki fjörug, heldur bæði morgunsvæf og kvöldsvæf.

Borgin er samfellt listaverk og samfelld listasaga. Hver kirkja er full af dýrgripum gömlu meistaranna. Sumar gömlu hallirnar eru orðnar að listasöfnum og önnur að hótelum. Hún er full af veitingahúsum, sem bjóða gott sjávarfang úr Adríahafi. Hún er full af bátum, allt frá einærum gondólum yfir í hraðskreiða leigubáta. Hún er menningarsinnuðum ferðamanni samfelld slökun.

Sjá meira

B. Piazza San Marco

Borgarrölt, Feneyjar
Piazza San Marco, Feneyjar 2

Piazza San Marco

Fyrsta gönguleið okkar um Feneyjar er stutt. Hún liggur um Piazza San Marco = Markúsartorg og mannvirkin umhverfis það. Þetta er þungamiðja Feneyja, glæsilegt torg framan við Markúsarkirkju, 175 metra langt og 58-82 metra breitt, lagt stórum marmaraflísum með reitamynztri, að jafnaði fjölskipað ferðamönnum.

Þar leika hljómsveitir fyrir kaffihúsagesti og þaðan er gengið inn í Markúsarkirkju, Campanile, Torre dell’Orologio og nokkur söfn að auki. Í bogagöngunum, sem umlykja torgið, eru tízkuvöru- og minjagripabúðir. Þar eru frægustu kaffihús borgarinnar, Florian og Quadri. Rétt hjá torginu eru matstaðirnir Al Conte Pescaor, La Colomba, Do Forni, Harry’s Bar and Rivetta.

Í flóðum rennur sjór inn á torgið. Þá eru settar upp göngubrautir kruss og þvers, svo að fólk geti gengið um þurrum fótum. Þá er líka beztur friður fyrir þúsundum útbelgdra dúfna, sem eru helzta myndefni ferðamanna í Feneyjum.

Næstu skref

 

C. Canal Grande

Borgarrölt, Feneyjar
Grand Canale, Feneyjar 5

Canal Grande

Breiðstræti og aðalgata borgarinnar er í rauninni fljót. Þar sem Canal Grande bugðar sig núna, var áður fyrr áll í Feneyjalóni. Á bökkum hans varð borgin til og frá upphafi hefur hann verið helzta samgönguæð hennar. Hann er varðaður um það bil 200 margra alda gömlum höllum á tæplega 4 kílómetra leið sinni um borgina.

Canal Grande er iðandi af lífi frá morgni til kvölds. Almenningsbátar og leigubátar, lögreglubátar og sjúkrabátar, flutningabátar og útfararbátar, sorpbátar og gondólar eru sífellt á ferðinni fram og aftur. Á bökkunum bíður fólk eftir fari yfir vatnsgötuna eins og á rauðu ljósi í öðrum borgum.

Bátaleið 1 stanzar á flestum viðkomustöðum við Canal Grande. Flestar leiðarlýsingar hér eru miðaðar við bátastöðvarnar. Og fáir staðir í Feneyjum eru í meira en eins kílómetra göngufjarlægð frá einhverri bátastöðinni.

Við siglum frá járnbrautarstöðinni Santa Lucia, sem tengir Feneyjar við meginlandið, og ætlum til Markúsartorgs. Við förum auðvitað með leið 1, svokallaðri hraðferð, Accelerato, sem þekkist á því, að hún er hægari og kemur víðar við en aðrar leiðir.

Næstu skref

D. San Marco

Borgarrölt, Feneyjar

Sestiere San Marco

Rio San Moise, Feneyjar

Rio San Moise

Tanginn, sem Canal Grande sveigist umhverfis frá Rialto brú að Markúsartorgi, myndar hverfi, sem kennt er við kirkjuna San Marco og er hjarta miðborgarinnar. Við förum nú í hringferð um hverfið og raunar einnig lítillega inn í aðliggjandi hverfi.

Calle Vallaresso

Við hefjum ferð okkar við suðvesturhorn Markúsartorgs, göngum út af torginu tæpa 100 metra leið eftir Salizzada San Moisè, þar sem við komum að hliðargötunum Calle Vallaresso til vinstri og Frezzeria til hægri. Við göngum þá fyrrnefndu á enda, um 150 metra leið, þar sem hún kemur fram á bakka Canal Grande.

Ein helzta gondólastöðin er þar sem Calle Vallaresso mæti
r bakkanum. Þar er oft mikill ys og þys og stundum raðir fólks, sem bíður eftir að kynnast einkennisfarartækjum Feneyja.

Merkar stofnanir eru hér á horninu, öðrum megin hinn kunni Harry’s Bar, sem Hemingway gerði frægan, og hinum megin hótelið Monaco, sem býður fjölmörg herbergi með útsýni yfir Canal Grande.

Í götunni eru einnig dýrar tízkuverzlanir og listmunaverzlanir, svo og eitt leikhús.

Næstu skref

 

 

E. Castello

Borgarrölt, Feneyjar
Riva degli Schiavoni, Feneyjar

Castello og Riva degli Schiavoni

Castello

Við byrjum á Molo framan við Palazzo Ducale hjá Markúsartorgi.

Riva degli Schiavoni, breiði lónsbakkinn frá hertogahöllinni til austurs í átt að borgargarðinum, er sá hluti hverfisins Castello, sem flestir ferðamenn kynnast. Að baki hans eru róleg og fáfarin húsasund og hinar fornu skipasmíðastöðvar borgarinnar.

Við skoðum hluta hverfisins í annarri gönguferð, svæðin við San Zanipolo og Santa Maria Formosa. Í þessari ferð skoðum við aðra hluta hverfisins.

Riva degli Schiavoni

Við hefjum gönguna á Molo, bakkanum fyrir framan hertogahöllina, göngum til austurs yfir Ponte della Paglia út á Riva degli Schiavoni.

Vesturhluti bakkans er viðkomu- og endastöð margra áætlunarbáta á Feneyjasvæðinu. Ferðamenn koma margir hverjir hér að landi og ganga inn á Markúsartorg. Oft er því margt um manninn á vesturenda bakkans, á leiðinni milli báta og torgs. Hér eru ferðavöruvagnar og gangstéttarkaffihús.

Hér hefur jafnan verið mikið um skip og báta. Fyrr á öldum var þetta löndunarsvæði kaupmanna frá ströndinni handan Adríahafs, Dalmatíu, þar sem nú eru Slóvenía, Króatía og Bosnía. Feneyingar höfðu mikil áhrif á þeim slóðum. Þeir kölluðu íbúana Schiavoni og af því er nafn breiðbakkans dregið.

Bakkinn liggur í mjúkum sveig að lóninu og veitir gott útsýni til eyjarinnar San Giorgio Maggiore og skipaumferðarinnar á lóninu. Hann er mikið notaður til gönguferða og skokks. Hann tengir saman Bíennalinn og miðborgina. Oft eru þar sett upp tímabundin listaverk í tengslum við Bíennalinn og aðrar listsýningar í borginni.

Næstu skref

F. Dorsoduro & San Polo

Borgarrölt, Feneyjar
Guggenheim: Joan Miró, Feneyjar

Guggenheim: Joan Miró

Sunnanverður tanginn milli Canal Grande að norðanverðu og Feneyjalóns að sunnanverðu. Nafnið þýðir, að jarðvegur er hér þéttari og traustari en víðast annars staðar í borginni. Þungamiðja hverfisins er listasafnið Accademia og brúin, sem er fyrir framan safnið og tengir hverfið við meginhluta miðborgarinnar.

Á sjálfum tanganum vestan við Accademia er rólegt íbúðahverfi vel stæðra Feneyinga og útlendinga. Austan við safnið er fjörugra hverfi miðstéttafólks og allra austast við hafskipahöfnina er verkamannahverfi. Suðurbakkinn við lónið er vinsæll slökunarstaður með útikaffihúsum, þar sem fólk sameinar sólskinið, útsýnið og sjávarloftið.

Við tökum bát frá Palazzo Ducale yfir Canal Grande til Dorsoduro og byrjum gönguna austast, við bátastöðina Salute, fyrir framan kirkjuna.

Næstu skref

 

G. Cannaregio

Borgarrölt, Feneyjar
Cannaregio, Feneyjar

Cannaregio

Nyrzti hluti hverfisins er fyrst og fremst íbúðabyggð með litlum verzlunum og verkstæðum í bland, næsta upprunalegur að útliti. Víða eru þar tiltölulega beinir og breiðir skurðir með gangfærum bökkum. Syðsti hluti hverfisins er líkari öðrum hverfum Feneyja og einkennist af samgöngum milli brautarstöðvar og Rialto-brúar, bæði á Canal Grande og á tiltölulega greiðfærri gönguleið.

Í annarri gönguferð fórum við um suðausturhorn hverfisins til að skoða kirkjurnar San Giovanni Crisostomo og Santa Maria dei Miracoli, svo að við sleppum þeim hluta í þessari gönguferð.

Við hefjum ferðina við Fondamente Nuove bátastöðina á norðurströnd Feneyja. Þangað komumst við með almenningsbátum 23 og 52. 

Næstu skref

H. Isole

Borgarrölt, Feneyjar
Sana Maria Assunta, Torcello, Feneyjar

Sana Maria Assunta, Torcello, ein elzta kirkja Feneyja

Gaman er að gefa sér tíma til að skoða eyjarnar umhverfis miðborgina í Feneyjum. Þær hafa hver sína sérstöðu.

Klaustureyjan San Giorgio er andspænis hertogahöllinni og hin langa og mjóa Giudecca er andspæns borgarhverfinu Dorsoduro. Austan borgar er baðstrandareyjan Lido. Norðan borgar eru kirkjugarðseyjan San Michele, glergerðareyjan Murano, blúndugerðareyjan Burano og svo eyðieyjan Torcello, sem kemur mest á óvænt.

Næstu skref