Fjölmiðlun

Ítrekað upp í kok

Fjölmiðlun

Einu sinni skrifaði ég mikið um landbúnað. Ætli það hafi ekki verið á æviskeiði Dagblaðsins. Því meira, sem ég skrifaði, þeim mun skrautlegra varð ástandið á þessu gæludýri undralandsins. Ég gat bara ekki skrifað meira, hvergi var heil brú í veruleikanum. Löngu síðar skrifaði ég mikið um Ísrael. Því meira, sem ég skrifaði, því skrautlegri varð firring Ísraels. Þar kom, að ég gat ekki skrifað meira, veruleikinn versnaði sífellt. Hef nú verri óþægindi í vélindanu eftir að hafa skrifað ógrynni um skrautlegustu ríkisstjórn sögunnar. Búinn er að segja allt ótal sinnum um ríkisstjórn bófaflokkana, sem hraðversnar samt með hverri viku.

Fréttamiðlaflóran í lagi

Fjölmiðlun

Mogginn, DV, Viðskiptablaðið, Saga, Ínn og Pressan eru áróður auðgreifa. Framboð nothæfra frétta er að öðru leyti bærilegt. Fremst er útvarp Ríkisútvarps, þar er sjónvarp lakara. 365 hafa nothæfa útgerð á Fréttablaðinu og Vísi. Galli frétta er, hversu auðveldlega siðblindingjar skammta upplýsingar í almenna fréttamenn. Stakir haukar standa þó fyrir sínu. Nýir fréttamiðlar, Hringbraut, Stundin, Fréttatíminn og Kjarninn kafa oft betur í mál. Verri er staða skoðana. Leiðarar Fréttablaðsins oftast marklausir. Vænisjúkir pólitíkusar geltu Ríkisútvarpið. Frambærilegt álit er hins vegar gefið í fólksmiðlum á vefnum, bloggi og fésbók.

Óhófleg kurteisi blaðamanna

Fjölmiðlun

Almennir blaðamenn treysta sér tæplega til að halda til jafns við yfirgnæfandi viðmælanda. Þekkjum dæmi um, að ráðherra tali ekki við suma fjölmiðla (SDG) eða jafnvel enga fjölmiðla (IG). Eða hafni tilteknum viðtalsformum, svo sem að vera í hóp með öðrum á öndverðum meiði (DO). Blaðamenn þurfa þó að halda persónu sinni til hlés, auglýsa ekki eigin viðhorf með barmmerki eða látbragði. Staðan er lík og hún var á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Þá voru pólitíkusar vandinn. Svo varð ástandið betra með auknum styrk og sjálfstrausti blaðamanna. Eftir aldamót versnaði það aftur með aukinni fátækt fjölmiðla og yfirtöku auðgreifa. Valdamenn eru aftur vandamál fjölmiðlunar.

Bloggið blífur

Fjölmiðlun

Ég lét gabba mig yfir á Tsú og er þar enn í eyðimörkinni. Tsú keppir ekki við fésbókina, heldur við tístið og tekst það ekki. Twitter er fyrir þá, sem vilja fylgjast með atburðum frá mínútu til mínútu gegnum vitni á vettvangi. Skiptir máli í óeirðum og borgaralegri óhlýðni. Hvorugt keppir við fésbókina, sem axlar hlutverk pólitískrar umræðu. Pólitísk umræða er á fésbók pírata og restin hjá fáum bloggurum. Fésbók virkar vel í samspili við blogg. Ég á bloggið sjálfur. Í því samspili er og verður bloggið áfram mitt heimili. Mig skiptir engu, hvort Sykurbergur hafi tekjur af gallaðri fésbók eða skrúfi fyrir mig. Hún er flott, en bara sem útibú.

Trúverðugar kannanir

Fjölmiðlun

Ábyrgar og vísindalegar skoðanakannanir helztu aðila síðustu daga hafa allar sýnt svipaða stöðu. Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar eru 29% flokkar, Vinstri græn eru 18% flokkur, Framsókn og Samfylkingin eru 8% flokkar og Björt framtíð úr leik með 4%. Tölurnar hafa sveiflast um ± tvö prósentustig í þessum mánuði. Fylgi lekur frá Framsókn yfir til Sjálfstæðis og frá Pírötum yfir til Vinstri grænna. Allt hefur það sínar skýringar. Sigmundur Davíð fór verr en Bjarni Benediktsson út úr skattaskjólsmálum aflendinga. Píratar lentu í innra kífi við sérvitra Ögmunda sína eins og Vinstri grænir gerðu í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Illugi missti málið

Fjölmiðlun, Punktar

Illugi Gunnarsson lenti í vanda eins og Hanna Birna. Hún í valdníðsluvanda og hann í mútuvanda. Sambúð Illuga og Orku HS komst í hámæli, hagsmunagæzla hans í Kína, húsnæðisreddingar og undarlegar ofurgreiðslur Orku til hans. En þróunin var önnur hjá Illuga. Hanna Birna laug og þagði á víxl. Þegar fyrri lygi var götuð af fjölmiðlum, bauð hún upp á nýja lygi, sem einnig var götuð. Þannig drap hún sig pólitískt á rúmu ári. Illugi hefur annan háttinn á. Varð málstola, þegir út í eitt. Talar aðeins við fjölmiðla með því skilyrði, að þeir nefni ekki Orku HS. Hann kemst upp með það, því að fjölmiðlar eru orðnir fótaþurrka.

Mogginn er öfgablað

Fjölmiðlun, Punktar

Pawel Bartoszek bendir réttilega á, að Mogginn hafi tekið upp stefnu öfgaflokka á hægri jaðri. Líkist National Front í Frakklandi og Fidesz í Ungverjalandi, er vilja haga seglum eftir vindi í alþjóðamálum. Í áratugi var blaðið kjölfestan í stefnu vestrænnar samvinnu, en hefur kúvent í makrílnum. Ræðst af ofsa á Gunnar Braga Sveinsson í einróma kór kvótagreifa, sem raunar eiga blaðið. Að venju er Elliði Vignisson í Eyjum vanstilltastur. Á sömu öfgalínu eru nokkrir þingmenn flokksins, að minnsta kosti Ásmundur Friðriksson, Brynjar Níelsson og Valgerður Gunnardóttir. Flokkurinn kann að klofna í vestrænan og tækifærissinnaðan flokk. Athyglisvert er svo, að Seðlabankinn telur makríldeiluna ekki alvarlegt áfall.

Pawel Bartoszek

Ást og friður á fésbók

Fjölmiðlun

Þegar ég renni yfir fésbók, ber mest á færslum, er ég kalla Ást og friður. Fólk býður góðan daginn, sýnir myndir af afabörnum, segir frá grillun með vinum og örum dásemdum tilverunnar. Fésbókin er afar „jákvæður“ miðill, sem hvetur okkur til að vera góð. Þarna er líka fjölmennur hópur, sem vill breyta þjóðfélaginu. Mér sýnist flest af því vera af hinu góða. Tröllin birtast þó í athugasemdum. Mest einnar setningar hrópendur, sem trufla lítið. Almennt er fésbókin miðill, sem gefur innsýn í lífið. Snýst lítið um almannatengsli hliðvarða hefðbundinna miðla. Nöldur um fésbók byggist mest á hatri valdafólks á frjálsum samskiptum.

Ört þverrandi Moggi

Fjölmiðlun

Lesendum Morgunblaðsins hefur fækkað um helming á einum áratug, 2006-2015. Áður gat blaðið skrifað söguna og lagt hinar pólitísku línur. Ekki lengur. Moggi er orðinn að fremur hvimleiðri en um leið áhrifalausri sérhagsmunastofnun. Getur ekki ritskoðað sögu síðustu ára til að fegra þátt Davíðs sjálfs og ofstækishóps brauðmolatrúar. Hannes Hólmsteinn er bara neðanmálsgrein og Davíð verður áfram martröð á þjóðarsálinni. Hossar núna Pútín gegn vestrænni samvinnu. Auðgreifum þjóðarinnar mun þó ekki duga Mogginn til lengdar. Hefðbundnir fjölmiðlar víkja hægt og öruggt fyrir samfélagsmiðlum fólksins sjálfs, sem höndla sannleikann.

Dauðadæmdir flokkar

Fjölmiðlun

Haukur Arnþórsson fésbókar viturlega um innreið samfélagsmiðla og vangetu manna við að átta sig á mikilvægi þeirra. Gamaldags almannatengsli virka ekki lengur. Bloggið og fésbókin eru samfellt streymi góðra og illra skoðana, góðra og illra upphrópana, góðra og illra palladóma. Pólitíkusar geta ekki lengur beðið ráða almannatengla og verða að bregðast við hér og nú. Fólkið fattar samskiptatækni, en gamlir pólitíkusar ekki. Hér láta pólitíkusar sig dreyma um ný orkuver, þótt tölvutækni sé sú auðlind, er máli skiptir. Nú kemur lýðræðið að neðan og krefst samráðs og gegnsæis. Gömlu flokkarnir eru dauðadæmdir og ríkisstjórnin er dauð.

Texti Hauks

Hótanir í sjónvarpinu

Fjölmiðlun

Hádegisfréttir ríkisins dóu margsinnis í tölvunni hjá mér í gær. Grínið fór svo á fullt í sjónvarpsfréttum gærkvöldsins. Erdoğan hótaði fyrst Kúrdum eldi og brennisteini. Síðan hótaði indælis frönsk ráðherra Kúrdum eldi og brennisteini. Þá kom dýralæknir í pöndugarði og hótaði Kúrdum eldi og brennisteini. Að lokum hótaði íslenzkur veðurfréttamaður Kúrdum eldi og brennisteini. Á fésbók kvarta notendur yfir ítrekuðum vandræðum á heimasíðu Ríkisútvarpsins. Er ekki gott ráð fyrir Magnús Geir að skipta út tölvuliði fjölmiðilsins. Frekar en að ráðast á helztu heimilisvini notenda fjölmiðilsins? Í tölvum er miðillinn úti á túni.

Hlutverkið er að birta

Fjölmiðlun

Í byrjun júní játuðu systur að hafa reynt að kúga fé af konu forsætisráðherra. Að öðrum kosti mundu þær birta gögn um tengsli hans við Björn Inga Hrafnsson og aðild að yfirtöku hans á DV. Malín Brand var þá blaðamaður á Morgunblaðinu og Hlín Einarsdóttir hafði verið ritstjóri Bleikt.is. Málið var kært og sefur í kerfinu. Að mínu viti er einsdæmi, að blaðamaður reyni að misnota aðstöðu sína til að kúga fé af fólki. Ég sagði í pistli 2. júní, að Blaðamannafélagið þyrfti stéttarvirðingar vegna að taka afstöðu. Hlutverk blaðamanna væri að birta, ekki að kúga fé. Ingimar Karl Helgason stýrir lélegu áróðursriti Samfylkingarinnar, Reykjavík. Í blaði þessa dags er hann ósáttur við skoðun mína og falsar hana.

(Greinin 2. júní)

Raskið laskar blöðin

Fjölmiðlun

Lestur prentfréttamiðla, sem eru á lygnum sjó, hélzt að mestu óbreyttur frá sumrinu 2014 til sumarsins 2015. Þau, sem lentu í hreinsunum á ritstjórn, létu hins vegar undan síga. Ritstjóra- og yfirmannarask rýrði lestur Fréttablaðsins um 5% og lestur DV um 3%. Sennilega gildir svipað um raskið á Ríkisútvarpinu. Áminning um, að ókleift er að breyta stjórn fjölmiðla áfallalaust. Enda verður ekki séð, að breytingarnar hafi verið tiltakanlega málaefnalegar. Hefðbundnir fjölmiðlar hafa látið undan síga alla þessa öld og mega ekki við frekara raski. Miðlun almennings magnast örar hér en nágrenninu og valtar yfir gömlu miðlana.

(DataMarket)

Málgögn bjarga engu

Fjölmiðlun

Flokkar ríkisstjórnarinnar hafa sterk tök á fjölmiðlum. Reka Moggann og DV sem málgögn sín og hafa Ríkisútvarpið undir smásjá. 365 miðlar styðja auðgreifana. Stjórnarandstaðan hefur þarna lítinn séns og píratar alls engan. Samt sýna kannanir, að þorri fólks fyrirlítur ráðamenn stjórnarinnar og hafnar flokkum þeirra. Birgir Guðmundsson dósent hefur komið auga á „vandann“: Samfélagsmiðlar stjórni fjölmiðlum meira en pólitíkusarnir. Kannski getur Birgir bent ríkjandi stétt á leiðir til að koma betri húsaga yfir blaðamenn. En kannski er samt ferlið svo langt komið, að vinveittir fjölmiðlar geta ekki bjargað Sigmundi Davíð.

Mengun fjölmiðla

Fjölmiðlun

Eftir aldamót hafa skilin dofnað milli ritstjórnarefnis og auglýsinga. Kostun fór að tíðkast í sjónvarpsþáttum, svo og staðsetningar söluvöru í sjónvarpssal. Hafin er bein sala á ritstjórnarefni, svokallað plögg, samanber auglýsingu MS á Stöð 2. Í framhaldinu er þar boðað aukið plögg. Í  Fréttablaðinu er miðja blaðs oftast lögð undir efni með einhliða áróðri fyrir vöru og þjónustu. Til dæmis er þar stöðugt lof um alls kyns kínalífselixíra, fæðubótarefni og galdrakrem. Allt stríðir þetta gegn fyrri verklagsreglum í blaðamennsku. Við erum á hraðri leið til ástands, þar sem efni fjölmiðla felst aðallega í illa dulbúnum auglýsingum.