Dalir-Snæfellsnes

Öndverðarnes

Frá Gufuskálum á Snæfellsnesi um Öndverðarnes til Beruvíkur.

Í Wikipedia segir: “Öndverðarnes er vestasti tangi Snæfellsnes og um leið Neshrauns, sem runnið er úr Öndverðarneshólum og Saxhólum. Á Öndverðarnesi var á árum áður mikil útgerð og margar þurrabúðir, en hún hefur nú verið í eyði frá árinu 1945. Jörðin er ríkisjörð og má sjá nokkrar rústir, auk þess sem að þar er rekinn viti. Þar má og finna haglega hlaðinn djúpan og að nokkru yfirbyggðan brunn, er ganga má niður í eftir nokkrum steinþrepum. Brunnurinn, sem nefndur er Fálki var áður eina vatnsból Öndverðarness og er hann ævaforn og friðaður með öllu. Sagan segir og var sú trú manna, að í Fálka væri að finna þrjár ólíkar lindir. Var ein með fersku vatni, önnur bar með sér einkenni ölkeldu og sú þriðja keim af salti.”

Förum frá Gufuskálum með ströndinni vestur á Öndverðarnes og síðan suður um Neshraun og Öndverðarneshóla til eyðiþorpsins í Beruvík.

16,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Beruvík.
Nálægar leiðir: Ennisdalur, Ólafsvíkurenni.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Þversum Ísland

Sumarið 1255 fór Magnús Jónsson þvert yfir landið frá Vopnafirði til Snæfellsness. Hann var frændi Þorvarðar Þórarinssonar og liðsmaður hans í herferðum. Skyldi hann leita liðveizlu Þorgils skarða Böðvarssonar gegn Hrafni Oddssyni og Eyjólfi ofsa Þorsteinssyni. Sturlunga segir um Magnús: “Hafði hann farið lítt með byggðum, en jafnan um nóttum. Gekk því engin njósn af hans ferðum fyrr en hann kom til Staðar” á Snæfellsnesi. Á bakaleiðinni kom Magnús við á Rauðsgili í Hálsasveit og komst þá upp um fyrirætlan hans. Fengu Hrafn og Eyjólfur þá njósn af ferðum hans. Ferð Magnúsar er dæmi um kjark og þol manna, sem fóru langan veg um óbyggðir snemma á öldum Íslandsbyggðar.

Sennilega hefur Magnús farið frá Hofi í Vopnafirði um Hofsárdal og Brattafjallgarð að Möðrudal. Þar næst að Jökulsá á Fjöllum sunnan Möðrudals við Ferjufjall. Síðan Biskupaveg um Ódáðahraun og Suðurárhraun í Kiðagil og áfram vestur norðanverðan Sprengisand í Laugafell. Því næst um Eyfirðingaveg norðan Hofsjökuls og yfir á Skagfirðingaveg á Stórasandi eða þá um Kráksskarð. Þaðan vestur um Arnarvatnsheiði meðfram Norðlingafljóti til Þverárhlíðar. Síðan Múlaveg um Mýrar norðanverðar og loks um Löngufjörur að Staðastað á Snæfellsnesi.

? km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur, Eyjafjörður, Skagafjörður, Húnavatnssýslur, Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Biskupavegur, Suðurárhraun, Kiðagil, Ingólfsskáli, Skagfirðingavegur, Norðlingafljót, Skarðheiðarvegur, Múlavegur, Löngufjörur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Þverdalur

Frá Hvammi í Dölum um Þverdal og Traðardal til Kjarlaksvalla í Saurbæ.

Þessarar leiðar er getið í Sturlungu, en hefur sjaldan verið farin.

Förum frá Hvammi norðaustur Skeggjadal og áfram norðaustur Þverdal. Upp úr dalbotninum á leið um Nónborg norðvestur undir Skeggaxlarskarð. Þaðan norðnorðaustur um Dragatungur niður í Traðardal og síðan norðaustur Traðardal að Kjarlaksvöllum.

19,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Nónborg, Hvammsá, Náttmálahæðir, Flekkudalur, Sælingsdalur, Sælingsdalsheiði, Búðardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga

Þórarinsdalur

Frá Langadal um Þórarinsdal að Hólmi í Hítardal.

Byrjum á jeppaslóð um Langadal við norðurenda Langavatns. Förum vestur í heiðarskarðið og síðan beint norðvestur í Þórarinsdal. Förum norðvestur og síðan vestur dalinn að Hólmi. Fylgjum jeppaslóð sunnan Hólms að jeppavegi í Hítardal.

14,5 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Ytrafell

Frá Hjallanesi á Fellsströnd að Kjallaksstöðum á Fellsströnd.

Við Hjallanes er talið gott hafnarstæði og voru um tíma áætlanir um hafnargerð. Á Kjallaksstöðum bjuggu Kjalleklingar, sem deildu við Ljótólfssyni á Ljótólfsstöðum, sem voru milli Staðarfells og Skóga. Um þau vígaferli er fjallað í Landnámu.

Byrjum við þjóðveg 590 við Harastaði milli Hjallaness og Sótaness á Fellsströnd. Förum rudda slóð norður hlíðina. Förum norðnorðvestur um Ytrafell og komum að Flekkudalsá. Förum norðvestur með henni með veiðivegi að vaði yfir Kjallaksstaðaá norðan brúar á þjóðvegi 590 sunnan Kjallaksstaða.

5,9 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Fellsströnd, Galtardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Villingadalur

Frá Haukadal um Villingadal á Krossbrúnarleið að Sanddal.

Förum frá Kirkjufellsrétt suður allan Villingadal og síðan suðsuðaustur upp úr dalbotninum að Krossbrúnarleið suður í Sanddal.

8,8 km
Snæfellsnes-Dalir, Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Haukadalsskarð, Tröllháls.
Nálægar leiðir: Krossbrún, Haukadalsá, Jörfamúli.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Vatnaheiði

Frá Dal við Straumfjarðará til Helgafellssveitar.

Árið 1228 riðu Snorri Sturluson, Þorleifur Þórðarson, Þórður Sturluson og Böðvar Þórðarson norður heiðina til að ná völdum í Dölum úr höndum Sturlu Sighvatssonar og láta menn segjast í þing með Snorra.

Förum frá Dal norður að Seljafelli og síðan vestur og norðvestur með fellinu, nálægt þjóðvegi 56. Förum að austurjaðri Baulárvallavatns og síðan norðaustur á Kistu. Þaðan norðaustur að eyðibýlinu Selvöllum við Selvallavatn. Förum austan við vatnið og austan við Grákúlu að vegamótum þjóðvega 56 og 54 norðaustan við kúluna.

14,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Kerlingarskarð, Hraunsfjörður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Valshamar

Frá Háskerðingsleið niður að Valshamri á Skógarströnd og aftur á Háskerðingsleið.

Á Valshamri leyndist haustið 1224 vígamaðurinn Aron Hjörleifsson í lambhúshlöðu á Valshamri fyrir Sturlu Sighvatssyni. Aron var sekur skógarmaður fyrir stuðning við Guðmund biskup Arason. Slapp hann naumlega undan flokki Sturlu og fór frá Valshamri suður Flatnahryggi og Flatnadal. Þar hvarf hann eftirreiðarmönnum í þoku og komst til móður sinnar á Syðra-Rauðamel.

Byrjum á Háskerðingsleið hjá Hrappsá á Skógarströnd. Förum þaðan austnorðaustur um Húsalæk og Sámsstaði að Valshamri. Þaðan suður yfir þjóðveg 54 að Háskerðingsleið suðaustan Kláffells.

5,7 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Kvistahryggur
Nálægar leiðir: Háskerðingur, Sátudalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Tungumúli

Frá Flekkudal á Fellsströnd um Tungumúla að Galtardal á Fellsströnd.

Tengileið milli leiða um Flekkudal og Galtardal.

Förum frá Galtardal til austurs með Suðurdalsá upp úr botni Galtardals upp í skarðið norðaustan við Tungumúla. Sveigjum þar til suðsuðausturs utan í Tungumúla og vestan við Færugil og Seljamúla. Komum niður í Flekkudal.

5,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Flekkudalur, Galtardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Tröllháls

Frá Engihlíð í Laxárdal um Tröllháls til Giljalands í Haukadal.

“Frá Svarfhóli í Laxárdal er farið upp fjallið og yfir það. Farið er um hlið á mæðiveikigirðingu undir Bjarnarfelli og áfram hjá Hesthallarvatni en þaðan er vegarslóði niður að Smyrlhóli í Haukadal. Þetta er sennilega ekki gömul reiðleið en hefur verið mikið farin á undanförnum árum.” (Hestamannafélagið Glaður)

Förum frá Engihlíð við Svarfhól hundrað metra norðaustur með þjóðvegi 59 að Kollugili. Förum suðaustur og upp hlíðina hjá Kollugili, síðan áfram á fjallinu milli Svarfhólshnjúka að norðan og Lágafells að sunnan. Förum þar austur, í 380 metra hæð undir Bjarnarfell og síðan suður á Svínafell, vestan Hesthallarvatns, og áfram á austurbrún Tröllháls í 420 metra hæð. Förum síðan sneiðinga suður og niður fjallið vestan Fanngils niður að Haukadalsá austan við eyðibýlið Smyrlahól. Þar erum við komin á leiðina um Haukadalsskarð milli Haukadals og Hrútafjarðar.

16,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Haukadalsskarð.
Nálægar leiðir: Villingadalur, Krossbrún.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Tröllaháls

Fá Hlöðuvogi í Kolgrafarfirði um Tröllaháls og Hraunsfjörð að vegamótum þjóðvega 56 og 54.

Tröllaháls er djúpt skarð milli Öxarhamars að sunnanverðu og Gjafa að norðanverðu. Þar var fyrrum aðalleiðin milli Kolgrafarfjarðar og Hraunsfjarðar. Fremur bratt er upp á hálsinn að vestanverðu og liggur gatan þar í sneiðingum, en er aflíðandi að austanverðu. Árnabotn er talið argasta kot sýslunnar. Þar sér ekki til sólar mikinn hluta ársins. Um Árna Ólafsson í Botni er þessi vísa: “Árni í Botni allur rotni, / ekki er dyggðin fín. / Þjófabæli, það er hans hæli, / þar sem að ekki sólin skín.”

Förum frá Hlöðuvogi austur um Hrauntungur á Tröllaháls og síðan austur Hálskinnar í Árnabotn í Hraunsfirði vestan undir Krákuhyrnu. Síðan norðaustur um Berserkjahraun að vegamótum þjóðvega 56 og 54.

13,3 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Vatnaheiði, Kerlingarskarð, Berserkjagata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sölvamannagötur

Frá Fjarðarhorni í Hrútafirði að Sámsstöðum í Laxárdal.

Sölvamannagötur fóru menn af Norðurlandi að tína söl í Saurbæ. Hólamenn gerðu út stórar lestar vestur. Göturnar eru lítið farnar nú á tímum. Að ráði Njáls á Bergþórshvoli fór Gunnar á Hlíðarenda Norðurárdal og Holtavörðuheiði til Hrútafjarðar og svo Sölvamannagötur og Laxárdalsheiði til Hrúts á Höskuldsstöðum vegna Hallgerðar langbrókar. Þórður kakali reið heiðina 1238 með lið sitt á leið til Skagafjarðar að leita Kolbeins unga. Enn fór Þórður heiðina eftir yfirreið um Suðurland og Vesturland. Árið 1463 fór Einar Þorleifsson hirðstjóri um heiðina ásamt tólf öðrum. Vonzkuveður skall á og sumir örmögnuðust og urðu úti, en tveir riðu steindauðir og helfrosnir niður í Hrútafjörð. Einar sjálfur komst við illan leik til byggða.

Förum frá Fjarðarhorni beint norðvestur og upp heiðina nánast beina línu fyrir suðvestan Djúputjörn og um eyðibýlið Kvíslasel. Síðan meira til vesturs upp að þjóðvegi 59 yfir Laxárdalsheiði og fylgjum síðan þeim vegi. Til vesturs milli Sólheimabungu að sunnanverðu og Laxárvatns að norðanverðu. Áfram vestur með Laxá, framhjá Sólheimum og eyðibýlunum Pálsseli og Hólkoti að Sámsstöðum í Laxárdal.

22,6 km
Vestfirðir, Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Fáskrúð, Haukadalsskarð, Húnaþing.
Nálægar leiðir: Hólmavatnsheiði, Hrútafjarðará.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Sælingsdalur

Frá Sælingsdalstungu um Sælingsdal að Skeggaxlarskarði.

Rétt innan við Sælingsdal eru gamlar tóftir, sem kallast Bollatóftir. Þar vó Helgi Harðbeinsson Bolla Þorleiksson í hefndarskyni fyrir víg Kjartans Ólafssonar. Í Sælingsdalstungu var löngum höfuðból. Þar bjó Snorri goði Þorgrímsson eftir að hann flutti frá Helgafelli. Þar bjuggu síðar afkomendur Snorra lögmanns Þórðarsonar. Lengi var hún í ætt Lofts hirðstjóra Ormssonar. Guðrún Ósvífursdóttir bjó að Laugum í Sælingsdal. Þar er sú hin fræga laug, sem var miðstöð félagslífs í Hvammssveit og Saurbæ að fornu. Hún hefur nú verið endurbyggð.

Förum frá Sælingsdalstungu norðvestur Sælingsdal um Ránarskriðu og Ránarvelli að bænum Sælingsdal og þaðan til norðvesturs fyrir austan Skálatind. Norðan Skálatinds er leið norður á Sælingsdalsheiði til Staðarhóls. En við förum áfram vestur dalbotninn og um Merkjahrygg vestur og upp í Skeggaxlarskarð. Frá Skeggaxlarskarði eru margar leiðir í ýmsa dali.

12,1 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Skeggaxlarskarð, Sælingsdalsheiði, Villingadalur, Hvarfdalur, Búðardalur, Hvammsdalur, Hólafjall, Hvammsá, Náttmálahæðir, Skothryggur, Flekkudalur, Þverdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Sælingsdalsheiði

Frá Sælingsdalstungu um Sælingsdalsheiði að Staðarhóli í Dölum.

Innst úr Sælingsdal liggur leið um Sælingsdalsheiði niður í Hvammsdal, annars vegar að Múlabæjum og hins vegar að Staðarhóli þar sem Sturla Þórðarson bjó. Þarna er sögusvið Laxdælu. Guðrún Ósvífursdóttir bjó að Laugum í Sælingsdal. Í Sælingsdal eru Bollatóftir skammt frá Sælingsdalsá. Þar var Bolli Þorleiksson drepinn í hefndarskyni vegna vígs Kjartans Ólafssonar. Mág-Snorri drukknaði á Snorravaði í Sælingsdalsá. Sighvatur Úlfsson, mágur hans, fór við fimmta mann að leita líksins, en þeir fórust allir í snjóskriðu. Einar Þorgilsson og menn hans flúðu upp heiðina undan Hvamm-Sturlu og mönnum hans árið 1171. Varð orrusta milli þeirra á heiðinni.

Förum frá Sælingsdalstungu norðvestur Sælingsdal um Ránarskriðu og Ránarvelli að bænum Sælingsdal og þaðan til norðvesturs fyrir austan Skálatind. Þar förum við beint norður á Sælingsdalsheiði í 420 metra hæð. Síðan beint norður af heiðinni niður í Víðibotna í Hvammsdal. Áfram norðvestur dalinn, hjá Kjarlaksvöllum og Þverfelli og loks norður í Staðarhól.

17,4 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Skeggaxlarskarð, Ásólfsgata, Búðardalur, Þverdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Glaður, hestamannafélag

Svínbjúgur

Frá Hóli í Hörðudal um Svínbjúg að Hítardal á Mýrum.

Þetta er skemmtilegasta leiðin um hálendið milli Mýra og Dala, enda er hún með öllu ófær jeppum. Tignarlegt er að koma á brún Svínbjúgs og horfa yfir Hítarvatn og fjallahringinn. Í Hólmi suðvestan vatnsins bjó Björn Hítdælakappi og þar var hann veginn í Hvítingshjöllum. Hítardalur er ein af sögufrægum jörðum landsins. Þar bjó Snorri Sturluson um skeið. Og þar varð mannskæðasti bruni landsins árið 1148, þegar Magnús biskup Einarsson brann þar inni með 80 manns. Hítardals er víða getið í Sturlungu. Í Selárdal er áin Skrauma, heitir eftir tröllskessu, sem missti son í ána. Því lagði hún svo á, að tuttugu manns skyldu drukkna í henni. Nú munu nítján hafa farizt þar, síðast 1806, þegar feðgar frá Gautastöðum drukknuðu í henni.

Förum frá Hóli vestur Hólsskarð yfir í Selárdal og síðan suður þann dal meðfram ánni Skraumu, vestan Hólsfjalls og austan Selárdalsborgar, síðan inn þverdalinn Burstardal sunnan við Hellufjall og vestan við Burst. Við förum dalinn til enda upp á Svínbjúg, grýttan hrygg á vatnaskilum. Beygjum til vesturs norðan við Svínbjúg og förum síðan niður sneiðinga um grónar brekkur að eyðibýlinu Tjaldbrekku við Hítarvatn. Förum niður með vatninu norðan- og vestanverðu, um eyðibýlið Gínanda, yfir Hítará og að eyðibýlinu Hólmi, þar sem er fjallaskáli. Síðan með vegi frá Hólmi, milli Hróbjarga að vestan og Bæjarfells að austan, suður að Hítardal.

29,7 km
Snæfellsnes-Dalir, Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Fagraskógarfjall, Sópandaskarð, Rauðamelsheiði, Lækjarskógarfjörur.
Nálægar leiðir: Hítardalur, Lambahnúkar, Hallaragata, Eyðisdalur, Miðá, Klifháls.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Jónas Kristjánsson