Norður-Múlasýsla

Þversum Ísland

Sumarið 1255 fór Magnús Jónsson þvert yfir landið frá Vopnafirði til Snæfellsness. Hann var frændi Þorvarðar Þórarinssonar og liðsmaður hans í herferðum. Skyldi hann leita liðveizlu Þorgils skarða Böðvarssonar gegn Hrafni Oddssyni og Eyjólfi ofsa Þorsteinssyni. Sturlunga segir um Magnús: “Hafði hann farið lítt með byggðum, en jafnan um nóttum. Gekk því engin njósn af hans ferðum fyrr en hann kom til Staðar” á Snæfellsnesi. Á bakaleiðinni kom Magnús við á Rauðsgili í Hálsasveit og komst þá upp um fyrirætlan hans. Fengu Hrafn og Eyjólfur þá njósn af ferðum hans. Ferð Magnúsar er dæmi um kjark og þol manna, sem fóru langan veg um óbyggðir snemma á öldum Íslandsbyggðar.

Sennilega hefur Magnús farið frá Hofi í Vopnafirði um Hofsárdal og Brattafjallgarð að Möðrudal. Þar næst að Jökulsá á Fjöllum sunnan Möðrudals við Ferjufjall. Síðan Biskupaveg um Ódáðahraun og Suðurárhraun í Kiðagil og áfram vestur norðanverðan Sprengisand í Laugafell. Því næst um Eyfirðingaveg norðan Hofsjökuls og yfir á Skagfirðingaveg á Stórasandi eða þá um Kráksskarð. Þaðan vestur um Arnarvatnsheiði meðfram Norðlingafljóti til Þverárhlíðar. Síðan Múlaveg um Mýrar norðanverðar og loks um Löngufjörur að Staðastað á Snæfellsnesi.

? km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur, Eyjafjörður, Skagafjörður, Húnavatnssýslur, Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Biskupavegur, Suðurárhraun, Kiðagil, Ingólfsskáli, Skagfirðingavegur, Norðlingafljót, Skarðheiðarvegur, Múlavegur, Löngufjörur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Þrívörðuháls

Frá Sauðabanalæk ofan við Bessastaði í Fljótsdal um Þrívörðuháls að Klausturseli í Jökuldal.

Hluti gamla sýsluvegarins af Héraði um Klaustursel og Sænautasel í Möðrudal. Meginleiðin lá hins vegar vestur um Vegkvíslar að Brú á Jökuldal. Milli Hákonarstaða og Klaustursels í Jökuldal er elsta akfæra brú landsins. Sérsmíðuð í Bandaríkjunum, flutt í hlutum hingað, hnoðuð saman á staðnum og sett upp 1908.

Byrjum hjá þjóðvegi 910 við Sauðabanalæk. Förum norðvestur á Vegufs. Við förum norður og síðan norðaustur um Miðheiðarháls og Þrívörðuháls og síðan í Grautarflóa upp af Jökuldal. Þar förum við niður með Fossá, fyrst norðvestur og síðan norðaustur að Jökulsá á Dal við Klaustursel.

21,4 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Vegkvíslar, Fljótsdalsheiði, Eyvindará, Merkisgreni, Sænautafell, Eiríksstaðavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Þjófadalsvarp

Frá Klifi á Tóarvegi um Þjófadalsvarp og Vestdalsheiði til þjóðvegar 93 á Fjarðarheiði.

Þar sem leiðin liggur hjá Vatnshnjúk, er eins kílómetra krókur austur að Fjallkonu, þar sem fundust merkar fornleifar, þar á meðal nælur af kvenbúningi.

Förum frá Klifi suður um Fossbrún og suðsuðvestur um Þófadal í Þjófadalsvarp í 840 metra hæð. Áfram suður úr skarðinu og fyrir austan Vatnshnjúk. Komum að austurenda Vestdalsvatns á Vestdalsheiði. Förum vestur með vatninu norðanverðu og beygjum síðan til suðurs við vesturenda vatnsins. Förum suður um Stafdal fyrir austan Stafdalsfell í 630 metra hæð og áfram til Dísubotns. Endum svo við Stafakverk við þjóðveg 93 á Fjarðarheiði milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða.

15,2 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Tó, Vestdalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Vopnafjörður

Frá Hlíð í Vesturárdal í Vopnafirði upp á hringveg 1 við Langadalsvörðu á Möðrudalsheiði.

Örnefnið Biskupsáfangi minnir á, að þetta var hluti Biskupaleiðar, sem lá vestur um Möðrudal og forna ferju á Jökulsá á Fjöllum við Ferjufjall og síðan vestur yfir Ódáðahraun norðan Kerlingardyngju og síðan um Suðurárbotna vestur í Kiðagil og á Sprengisand. Leiðin liggur norðan við núverandi bílveg til Vopnafjarðar og er ófær jeppum. Á leiðinni er farið hjá ýmsum eyðibýlum, sem fóru úr byggð á 19. og 20. öld. Gunnar Gunnarsson skáld átti Arnarvatn og bjó þar í eitt ár í 400 metra hæð, áður en hann fluttist að Skriðuklaustri. Þar er nú fjallaskálinn Arnarvatnsheiði.

Förum frá Hlíð norðvestur upp á Rjúpnafell og síðan vestsuðvestur á Búrfell. Þaðan til suðvesturs vestan Þverfells og áfram suðvestur fyrir suðaustan Álftavatn. Áfram um Desjamýri suðvestur að skálanum við Arnarvatn. Þaðan suður Möðrudalskvos og vestur með Möðrudalskvísl. Síðan til suðurs vestan við Brunahvammsháls að Banatorfum. Suður fyrir endann á Súlendum og þaðan til suðvesturs austan við Þjóðfell um Biskupsáfanga, á þjóðveg 1 við Langadalsvörðu.

40,3 km
Austfirðir

Skálar:
Arnarvatnsheiði: N65 35.479 W15 24.126.

Nálægar leiðir: Haugsleið, Dimmifjallgarður, Hofsárdalur, Skjöldólfur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Viðvíkurheiði

Frá kauptúninu í Bakkafirði um Viðvík til Strandhafnar.

Förum frá Bakkafirði suðaustur yfir Viðvíkurheiði í 280 metra hæð. Síðan austur og niður fjallið til Viðvíkur. Þaðan suður á fjallið og eftir Vopnafjarðarströnd til Strandhafnar.

20,6 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Selárdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Vesturöræfi

Frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal um Vesturöræfi í Snæfell.

Vesturöræfi eru víðáttumikið votlendi í um og yfir 600 metra hæð, kjörlendi hreindýra. Faxagil er um þremur kílómetrum sunnan við slóðina austur á Grjótöldu. Þar innan við var bær á tíma Hrafnkels sögu Freysgoða. Í gilinu er væntanlega Faxahamar, sem þó hefur ekki verið nákvæmlega staðsettur. Þar var Freyfaxa hrundið fram af hamrinum og út í ána. Á Aðalbóli bjó Hrafnkell Freysgoði, landnámsmaður og vígamaður.

Förum frá Aðalbóli suður Hrafnkelsdal og Glúmsstaðadal, um Dragöldu og vestan við Kofaöldu að Sauðakofa. Þaðan austur um Vesturöræfi, sunnan við Grjótárhnjúk og norðan við Herjólfshóla og svo suðaustur að fjallaskálanum vestan við Snæfell.

32,7 km
Austfirðir

Skálar:
Sauðakofi: N64 49.632 W15 47.914.
Snæfell: N64 48.233 W15 38.569.

Nálægir ferlar: Sænautasel.
Nálægar leiðir: Hölkná, Fljótsdalsheiði, Kárahnjúkar, Snæfell, Eyjabakkar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Vestdalsheiði

Frá Gilsárteigi við Eiða á Fljótsdalshéraði um Vestdalsheiði til Vestdalseyrar í Seyðisfirði.

Fyrir daga bílvegar um Fjarðarheiði var þetta fjölfarin leið til verzlunar á Seyðisfirði. Leiðin er víða góð og með veghleðslum.

Förum frá Gilsárteigi suðaustur brekkurnar með Gilsá að norðan og síðan suður og suðaustur Gilsárdal og um Gunnubrekku upp á Vestdalsheiði í 600 metra hæð. Þaðan niður með Vestdalsá til austurs. Förum norðan við Vestdalsvatn og Bjólf og síðan niður Vatnsbrekku og Bröttubrekku í Vestdal og áfram austur og niður að Vestdalseyri.

20,3 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Tó, Hjálmárdalsheiði, Lagarfljót, Afréttarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Vegkvíslar

Frá Vaðbrekku í Hrafnkelsdal um Fljótsdalsheiði að Sauðabanalækjum ofan Bessastaða í Fljótsdal.

Þetta var þjóðleiðin af Héraði upp á Jökuldal. Við Vegufs lágu hliðarleiðir norðvestur að Klausturseli og suðvestur að Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Leiðin að Klausturseli lá síðan áfram um Sænautasel til Möðrudals.

Förum frá Vaðbrekku austur yfir Hrafnkelu og upp Háurð. Síðan áfram beint austur um Skál fyrir norðurenda nyrðri Eyvindarfjalla. Þar er leið norður að Jökulsá á Dal. Við förum austur um Vegakvíslar innri og ytri. Við förum austur um Sandskeið og Vegufs, þar sem er leið norður að Jökulsá á Dal. Frá þeim slóðamótum förum við suðaustur að þjóðvegi 910 við Sauðabanalæki.

26,0 km
Austfirðir

Nálægir ferlar: Sænautasel.
Nálægar leiðir: Þrívörðuháls, Eyvindará, Fljótsdalsheiði, Aðalbólsleið, Eyvindarkofaver, Eiríksstaðavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Vatnajökulsvegur

Frá Grágæsadal um Hvannalindir og kvíslar Jökulsár á Fjöllum að Gæsavatnaleið austan við Urðarháls.

Í lok átjándu aldar var reynt að finna leið milli Austurlands og Suðurlands. Fyrstur varð Pétur Brynjólfsson árin 1794 og 1797 og reið þá fyrir sunnan Hvannalindir og varð þeirra ekki var. Pétur Pétursson fór leiðina 1833 og var kunnugt um ferð nafna síns. Fann hann Hvannalindir í leiðinni. Síðan reið Björn Gunnlaugsson kortagerðamaður hér um 1838-1839 og færði Vatnajökulsveg inn á kort sitt. Það var samt ekki fyrr en 1880, að menn voru aftur á ferð á þessum slóðum. Biskupaleið, sem sögur voru um, reyndust vera miklu norðar, milli Kerlingardyngju og Ketildyngju. Vatnajökulsvegur hefur allar aldir verið fáfarinn og nánast óþekktur, enda erfiður vegur um slóðir, þar sem allra veðra er von.

Förum frá Einarsskála í Grágæsadal suður með Grágæsavatni vestanverðu að Kverká. Förum vestur yfir Kverká og síðan yfir Kreppu á hestfærum vöðum og síðan á jeppaslóð norður í skála í Hvannalindum. Förum þaðan eftir jeppaslóð suðvestur í Kverkhnjúkaskarð. Vestan skarðsins förum við vestnorðvestur yfir ótal kvíslar Jökulsár á Fjöllum og komum handan kvíslanna á jeppaslóð í Flæðum. Fylgjum henni suðvestur að Gæsavatnaleið austan við Urðarháls.

51,2 km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur

Erfitt fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk
Athuga nýtt Holuhraun

Skálar:
Einarsskáli: N64 52.473 W16 11.640.
Hvannalindir: N64 53.300 W16 18.426.

Nálægir ferlar: Grágæsadalur
Nálægar leiðir: Hvannstóðsfjöll, Brúarjökull, Hvannalindir, Kverkfjöll, Gæsavötn, Ódáðahraun, Dyngjufjalladalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélags Íslands

Upptyppingar

Frá vegamótum þjóðvegar 910 suðaustan við Fremri-Fjallshala yfir Jökulsá til Herðubreiðar og Öskju.

Jeppafær tengileið milli öræfanna vestan og austan Jökulsár á Fjöllum og Kreppu. Brú á Jökulsá sunnan Upptyppinga og á Kreppu í Krepputungu tengja saman öræfi norður- og austurlands. Tungan milli fljótanna er löng, 50-60 km, og mjó, 1-2 km þar sem hún er nyrzt. Upptyppingar eru móbergsfjöll í Ódáðahrauni vestan Krepputungu. Þeir eru tvítyppt fjallaþyrping og eru áberandi kennileiti. Jökulsá á Fjöllum rennur í sveig niður með þeim austanverðum.

Byrjum á þjóðvegi F910 suðaustan við Fremri-Fjallshala. Förum til vesturs á þjóðvegi F910, yfir Dyngjuháls, Kverkfjallaslóð og á brú yfir Kreppu. Suður Krepputungu til Kreppulóns. Síðan norðvestur á brú yfir Jökulsá við Upptyppinga og þaðan norðvestur að Herðubreiðartöglum.

41,0 km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur

Skálar:
Dyngja: N65 09.236 W15 57.400.
Tungubúð: N65 03.623 W16 10.770.

Jeppafært
Athuga nýtt Holuhraun

Nálægir ferlar: Grágæsadalur, Öskjuleið.
Nálægar leiðir: Brattifjallgarður, Miðgötumúli, Hvannalindir, Kverkfjöll, Vatnajökulsvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Tröllabotnar

Frá brú yfir Selfljót á vegi 984 á Fljótsdalshéraði um Tröllabotna að Hvannstóði í Borgarfirði eystra.

Algeng reiðleið milli Fljótsdalshéraðs og Innsveitar í Borgarfirði fyrir lagningu bílvegarins um Vatnsskarð. Norðan Tröllabotna og Lambamúla er Stórurð, eitt af meiriháttar náttúruundrum landsins. Hún varð til við, að klettar hrundu úr fjöllum, sem stóðu upp úr jökli, færðust niður hlíðarnar með jöklaskriði og strönduðu neðar. Svipuð fyrirbæri eru víðar um Dyrfjöll, hæstu fjöll Borgarfjarðar, 1136 metrar. Heita eftir Dyrum, klettaskarði í fjallgarðinum miðjum. Dyrnar eru í 856 m hæð. Jóhannes Kjarval, notaði þau oft sem fyrirmynd, enda uppalinn á Borgarfirði. Finna má í þjóðsögum sagnir um álfakóng, Grýlu og jólasveina í Dyrfjöllum. Neðri hluti þeirra mynda háa móbergshamra. Efstu hraunlögin eru úr basalti.

Byrjum á þjóðvegi 984 á brú yfir Selfljót vestan við Unaós. Förum suðvestur og upp með Selfljóti hjá Hrafnabjörgum. Þaðan sveigjum við suður frá fljótinu upp með Jökulsá að utan, um Sníðakinn og meðfram Lönguhlíð. Við Urðardalsá tökum við krók til austurs inn í Urðardal að Stórurð. Síðan til baka aftur út Urðardal og beygjum suðaustur um Eiríksdal í Tröllabotna. Þar förum við yfir Eiríksdalsvarp til suðausturs vestan við Tindfell í 520 metra hæð og niður á Sandaskarðaleið til Borgarfjarðar.

22,3 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Gönguskarð eystra, Sandaskörð, Kækjuskörð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Frá Klyppstað í Loðmundarfirði um Tó að Gilsárteig í Eiðaþinghá.

Úr Bárðarstaðadal upp á Tó er farið í erfiðum sneiðingum upp Neðraklif og Efraklif. Fjallið sjálft er fremur ógreiðfært, en varðað frá gömlum tíma.

Förum frá Klyppstað suðvestur og vestur Bárðarstaðadal norðanverðan um Úlfsstaði og Bárðarstaði. Upp úr dalbotninum til norðvesturs undir Herfelli. Við erum komin á Tó í 590 metra hæð norðaustan við Tóarhnjúk og suðaustan við Vatnshæðir. Förum vestur með Tóarvatni og yfir drög Tóardals á Múla og áfram vestur og niður að Gilsárteigi.

21,3 km
Austfirðir

Erfitt fyrir hesta

Skálar:
Klyppstaður: N65 21.867 W13 54.051.

Nálægar leiðir: Norðdalsskarð, Vestdalsheiði, Hjálmárdalsheiði, Loðmundarfjörður, Kækjuskörð, Afréttarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Sænautasel

Frá Hrafnkelsdal um Sænautafell að Rangalóni á Jökuldalsheiði.

Við Sænautavatn stendur torfbær, sem hefur verið endurbyggður. Þar er rekin ferðamannaþjónusta á sumrin. Eitt af mörgum heiðarbýlum á Jökuldalsheiði, sem öll eru horfin nema þetta. Leiðin úr Fljótsdal um Vegkvíslar og Hrafnkelsdal til Sænautafells og áfram til Möðrudals er hluti þjóðvegar gamla tímans. Við Brú á Jökulsá í Jökuldal var brú í öndverðu og hafa þar æ síðan verið krossgötur. Halldór Laxness segir í Sjálfstæðu fólki: “Það var ekki sjónarmunur á kotinu og jöklinum; samferðamenn mínir hittu á það með því að fylgja sérstökum miðum. Við geingum mörg þrep niðurí jökulinn til að komast inní bæjardyrnar. Baðstofukytran var á loftinu, niðri var hey og fénaður.” Leiðin liggur líka um eyðibýlin Grunnavatn í 585 m hæð og Netsel.

Byrjum í Hrafnkelsdal í 430 metra hæð, þar sem fjallvegurinn um Fljótsdalsheiði liggur niður í dalinn fyrir norðan Grjótöldu og Kálffell. Förum norður eftir dalnum um Aðalból og Vaðbrekku og síðan yfir í Jökuldal, þar sem við förum hjá Brú yfir Jökulsá. Síðan norður á fjallið vestan við Þverá að Þverárvatni. Þar förum við upp á Jökuldalsheiði í 600 metra hæð og norður með Ánavatni að Sænautavatni. Þar er eyðibýlið Sænautasel og fjallakofi í 520 metra hæð. Við höldum áfram til norðurs austan við vatnið og komum að þjóðvegi 910 vestan við eyðibýlið Rangalón.

39,5 km
Austfirðir

Skálar:
Sænautasel: N65 15.709 W15 31.246.

Jeppafært

Nálægar leiðir: Rangalón, Sænautafell, Brattifjallgarður, Miðgötumúli, Hvannstóðsfjöll, Aðalbólsleið, Vegkvíslar, Kárahnjúkar, Fljótsdalsheiði, Hölkná, Vesturöræfi, Byttuskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Sænautafell

Frá Hákonarstöðum í Jökuldal um Víðirhóla og Sænautasel að þjóðvegi 901 á Jökuldalsheiði.

Milli Hákonarstaða og Klaustursels í Jökuldal er elsta akfæra brú landsins. Sérsmíðuð í Bandaríkjunum, flutt í hlutum hingað, hnoðuð saman á staðnum og sett upp 1908. Í Víðirhólum var tvíbýli. Þar eru minjar um áveitur, brunnhús og myllu við Brandslind. Við Sænautavatn stendur torfbær, sem hefur verið vel við haldið. Þar er rekin ferðamannaþjónusta á sumrin. Eitt af mörgum heiðarbýlum á Jökuldalsheiði, sem öll eru horfin nema þetta. Halldór Laxness segir í Sjálfstæðu fólki: “Það var ekki sjónarmunur á kotinu og jöklinum; samferðamenn mínir hittu á það með því að fylgja sérstökum miðum. Við geingum mörg þrep niðurí jökulinn til að komast inní bæjardyrnar. Baðstofukytran var á loftinu, niðri var hey og fénaður.”

Förum frá Hákonarstöðum vestnorðvestur á heiðina sunnan Þórfells. Erum þar í 580 metra hæð. Síðan norðvestur um Hákonarstaðaflóa að eyðibýlinu Víðirhólum. Við förum vestnorðvestur í skarðið í 600 metra hæð milli Stóra-Svalbarðs að norðanverðu og Litla-Svalbarðs að sunnanverðu. Síðan förum við norðaustur í Sænautasel við Sænautavatn. Frá Sænautaseli förum við norðvestur að Sænautafelli og norður með fellinu að vestanverðu. Að lokum norðvestur að þjóðvegi 901 nálægt Grjótgarðshálsi.

21,7 km
Austfirðir

Skálar:
Sænautasel: N65 15.709 W15 31.246.

Nálægir ferlar: Sænautasel.
Nálægar leiðir: Rangalón, Buskutjörn, Búðarháls, Þrívörðuháls, Merkisgreni.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Stekkás

Frá þjóðvegamótum 925 og 927 við Lagarfljót í Hróarstungu um Stekkás og Fjallssel að Ormarsstöðum við Lagarfljót á Héraði.

Byrjum við þjóðvegamót 925 og 927 við Lagarfljót í Hróarstungu. Förum suður með vegi 925 meðfram Lagarfljóti að vestanverðu. Um Krakagerði, þar sem kemur hliðarleið norðan úr Hróarstungu. Síðan áfram með fljótinu, um Vífilsstaði og áfram með veginum suðvestur um Vörðuás og Stekkás Yfir þjóðveg 1 norðan Þröskuldar og suðvestur um Egilssel að Fjallsseli. Þaðan suður um Þórleifará, Refsmýri og loks Ormarsstaði að vegi 931 við Ormarsstaðarétt.

30,9 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Krókavatn, Fallegiklettur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort