Megrun

Leitin að fíkninni

Megrun, Punktar

Trúverðug er kenning læknanna Kára Stefánssonar og Þórarins Tyrfingssonar um, að fíkn sé harðvíruð í heilabúi efnisfíkla. Þeir staðsetja vandann í arfgengum taugabrautum í heila, sem magnist upp við notkun áfengis eða annarra fíkniefna. Fíkn á sér þannig arfgengar rætur og magnast síðan við aðstæður og aðgengi í umhverfi fíkilsins. Fíkillinn fær ekki ánægju hins venjulega manns nema með því að pumpa sig upp með fíkniefninu. Verkefni meðferðar felst þá í að endurstilla arfgengar taugabrautir, sem oft er harðsnúið. Lengi hefur verið beðið eftir lyfjum til að létta meðferð, en þau hafa látið á sér standa. Mjög athyglisvert.

Svei þér Skjár einn

Fjölmiðlun, Megrun

Mér finnst hráslagalegt að draga einfeldninga á svið til að skopast að þeim. The Biggest Loser kitlar eineltishneigð áhorfenda. Megrunaraðferðin er fráleit, sérfræðingar vara eindregið við henni. Megrun er flókin og gerist ekki svona. Eftir þrjú ár verða nærri allir þáttakendur orðnir feitari en áður. Það skiptir siðblinda stjóra engu máli, áskrifendur hafa fengið sitt kikk. Hafa hlegið að fitubollum, sem prófa nýjasta trikkið í langri örvæntingu. Þarna er reynt að ná alltof hröðu og hættulegu þyngdartapi með öskrum og ógeði siðblindra þjálfara. Þetta eru hættulegir og annarlegir öfgar í sirkuslátum. Svei þér Skjár einn.

Grautar henta meltingu

Megrun, Punktar

Áreiðanlega er hollt að sníða fæði að steinaldarmönnum. Þeir höfðu milljón ár til að þróa meltinguna. Akuryrkjufæði hefur aðeins haft tíuþúsund ár til þess og verksmiðjufæði nútímans bara hundrað. Kenningar matarkúra um steinaldarfæði eru samt rangar. Fólk át eftir aðstæðum, kjöt norðan heimskautsbaugs, grænmeti sunnan hvarfbaugs. Fornleifagröftur sýnir, að steinaldarmenn þekktu ekki annað brauð en steinasteikt flatbrauð úr villikorni. Átu kjöt soðið, en ekki grillað. Þekktu ekki ávexti og grænmeti nútímans, heldur fornar útgáfur, sem nútímafólk mundi telja óætar. Fólk lifði mest á grautum úr villikorni blönduðu fiski, skordýrum og villigrænmeti.

Krukkur-pakkar-dósir-dunkar

Megrun

Virði stundum fyrir mér fjölda glerskápa í inngangi heilsuræktar, sem ég stunda. Þar er eingöngu á boðstólum ýmis óþverri, einkum próteindrykkir og kolvetnisdrykkir, próteinstengur og fæðubótarefni. Hundamat er haldið að líkamsræktarfólki, líklega af því að það talið undir lélegri meðalgreind Íslendinga. Þekktir þjálfarar í líkamsrækt mæla með slíkum óþverra og selja jafnvel undir eigin merki. Þetta er eins og að fara í dæmigerða heilsubúð. Þar bíða þín tugir lengdarmetra af krukkum og dósum, pökkum og dunkum. Það er eins og fólk ímyndi sér, að góð heilsa sé göldruð upp úr verksmiðjum.

Hættulegir hristingar

Megrun

Sykur í ávaxtadrykkjum, einkum sonefndum smoothies, leysist hraðar upp í meltingarveginum en sykur í ávöxtum. Veldur þannig meiri sveiflu í blóðsykri og er beinlínis hættulegur. Þú borðar ekki nema tvær appelsínur án þess að verða saddur. En þú getur léttilega drukkið tvo smoothies, sem innihalda sex appelsínur, án þess að finna seddu. Samt komust þessir skæðu drykkir í tízku sem heilsudrykkir fyrir áratug. Einkenndu heilsubari á líkamsræktarstöðvum. Um þessa heilsuspillandi drykki má lesa í Guardian í dag og þar er óspart vitnað í rannsóknir. Vonandi sér maður senn fyrir endann á smoothies-æðinu.

Sannleikur í matarkúrum

Megrun

Oft er sannleikskjarni í matarkúrum, þótt þeir séu jafnframt hættulegir. Til dæmis gamla kenningin um fitusnauðara fæði. Fita í mat í gamla daga hjálpaði útivinnandi fólki í stöðugri vosbúð, en skiptir minna máli við skrifborðið. Að baki er breyting á lífsháttum. Kenningin um kolvetnasnauðara fæði byggist á, að kolvetni hafa breytzt. Til sögunnar hafa komið einföld kolvetni á borð við sykur og einföld brauðgerð á borð við gerbakstur úr sigtuðu mjöli. Þarna eru að baki breyttir atvinnuhættir, fyrst akuryrkja og síðan matargerð í verksmiðjum. Um það m.a. fjalla ég á námskeiði mínu um yfirþyngd og megrun.

Sykurbomban meinholla

Megrun

Þótt ýmsir hneigist að trúgirni hér um slóðir, eru engir blankari í kollinum og sumt líkamsræktarfólk. Sést af vöruframboði í anddyri líkamsræktarstöðva. Þar er hver kínalífs-elixírinn upp af öðrum, lofaður af þjálfurum, sem hafa fólk að féþúfu. Eitt nýjasta dæmið um snákaolíu líkamsræktar er gotterí, sem heitir Aktíf, próteinblönduð sykurstöng, 38% sykur. Hún ætti að vera á nammibörum stórmarkaða, en er sett með meintri hollustuvöru, þar sem engin sykurbomba á að vera. Sumt líkamsræktarfólk notar ekki aðra fæðu en slíkar stangir eða hliðstætt duft og drykki í dós. Sykurbomban er úr gotterís-gerð.

Nigella og Jamie

Megrun

Matreiðsluþættir Nigellu Lawson gæla við þróun virkra matarfíkla. Við slefum yfir öllum þeim hundruðum kaloría, sem hún slengir í matinn af fullkomnu ábyrgðarleysi. Ef þetta væri daglegt fæði hennar og þú værir þar í fæði, mundirðu hreinlega springa. Og ef þú mundir elta hana niður í eldhús á nóttunni og opna ísskápinn, værir þú kominn á lokastig matarfíknar. Þættir Nigellu hafa áreiðanlega hraðað vítahring margs matarfíkilsins. Þeir eru sjónvarp, en ekki veruleiki. Lokaðu fyrir Nigellu og horfðu heldur á Jamie Oliver, sem hefur tilfinningu fyrir hollari mat og æsir síður matarfíknir.

 

Of brött markmið

Megrun

Flestir kúrar forskrifa of brött markmið í megrun. Brött markmið eru röng og hættuleg. Leiða til varnaraðgerða líkamans gegn viðvarandi sulti. Leiða til vonbrigða og síðan til uppgjafar, þegar megrunin stöðvast óvænt. Flestir kúrar bjóða þar á ofan skaðlega sérvizku í mataræði. Dæmi um það eru efni, sem sumir þjálfarar mæla með á líkamsræktarstöðvum. Orkudrykkir og orkubuff eru ónáttúruleg fæða. Þú átt fremur að borða venjulegan mat og sem allra minnst meðhöndlaðan í verksmiðjum. Fæðubótarefni eru af sömu ástæðu lítt til bóta og beinlínis skaðleg í ýmsum tilvikum. Kínalífselixírar virkuðu aldrei.

Hátíð ofneyzlunnar

Megrun

Jólin eru erfiðasti tími sumra, hátíð ofneyzlunnar. Matarveizlur keppa við tertuveizlur. Þá er hætt við ofáti í matar- og kaffitímum. Freistingarnar bylja á fólki daginn út og daginn inn. Það vildi helzt kveðja jólin og halda á jólalausan stað, svo sem til Istanbul. Margur hefur bjargað sér á flótta, þegar öll sund virðast lokuð. Sumir taka því með æðruleysi að bæta á sig tveimur kílóum yfir jól, en reikna með að ná þeim til baka í janúar. Flestir matarfíklar þjást þó í þögulu vonleysi, taka hverju jólaboðinu á fætur öðru eins og hverju öðru hundsbiti. Jól eru sannkölluð ögrun hverjum matarfíkli.

Villandi megrunarráð

Megrun

Oft eru gefin villandi ráð um kaloríumagn hjá fólki, sem vill grenna sig. Fólk, sem fylgir ráðum þeirra, rekur sig fyrr eða síðar á, að það hættir að léttast. Það stafar sumpart af, að léttari líkami þarf færri kaloríur sér til viðhalds en þyngri líkami. Og sumpart af því, að líkaminn grípur til varna í viðvarandi sulti. Hann dregur úr brennslu. Þess vegna máttu ekki fara of bratt í megrunina. Þetta þarftu að hafa huga. Láttu þér nægja að minnka um eitt kíló á mánuði. Og gættu þín á, að jafnvægisstaða í daglegum kaloríufjölda lækkar í kjölfar megrunar. Forðastu þannig sár vonbrigði.

Staldraðu aðeins við

Megrun

Stundum verða lítil og einföld atriði til mestrar hjálpar, þegar þú þarft mest á henni að halda. Vendu þig á að staldra við í hálfa mínútu, þegar fíknin sverfur að. Spurðu sjálfan þig, hvort einn konfektmoli sé einmitt það, sem þú þarft á að halda akkúrat núna. Nægir þér kannski vatnsglas eða kaffibolli? Eða væri bezt að skreppa í 10 mínútna göngutúr eða að sökkva þér niður í bók? Stundum gerir fíkn vart við sig snöggt, en hverfur líka snöggt, þegar þú dreifir huganum annað. Þú ert þá ekki að gera annað en að staldra við og gefa þér færi á að gera eitthvað annað en að láta undan fíkninni.

Orrusta en ekki stríð

Megrun

Á jólum er þrautaráð að taka tapaðri orrustu sem aðeins einni orrustu, ekki heilu stríði. Þú mátt ekki gefast upp, þótt dagurinn hafi farið hátt yfir ráðlagðan dagskammt. Á morgun kemur nýr dagur með nýrri orrustu, sem þú getur unnið. Og síðan koma nýir dagar, hver á fætur öðrum. Þú getur unnið stríðið að lokum, þótt ein orrusta tapist. Um er að gera að missa ekki móðinn, þótt einn dagur fari forgörðum. Sumir láta mótlætið hvolfast yfir sig og gefast hreinlega upp. Aðrir láta það efla sig til dáða. Þú vilt vera í sigurliðinu og lætur hverjum nýjum degi nægja sína orrustu við átfíknina.

Bókhaldið hrynur ekki

Megrun

Mikilvægt er að láta matardagbókina ekki hrynja á jólunum. Þú verður að færa allt til bókar, hverja tertusneið og hverja smáköku, hvern konfektmola og hvert kókglas. Annars hefurðu takmarkaða sýn yfir vondu stöðuna á vígvelli ofátsins. Af bókhaldinu sérðu í síðdegiskaffinu, að þú ert búinn með kvótann og verður að sleppa kvöldveizlunni. Bókhaldið gerir þér kleift að standa andspænis vali um hegðun. Án bókhaldsins ertu á skipulagslausu undanhaldi frá því lífi, sem þú vilt lifa. Þú verður að vita um stöðuna til að geta tekið á vandamálum, sem fylgja vondri stöðu. Færðu því bókhaldið alveg rétt.

Matreiðsla skiptir máli

Megrun

Matreiðsla skiptir miklu. Betra er að steikja en djúpsteikja. Betra er að sjóða eða baka í ofni eða grilla en að steikja. Steikingu fylgir olía eða smjör og djúpsteikingu fylgir meiri olía en venjulegri steikingu. Kleina hefur fleiri kaloríur en jafnþung kökusneið. Djúpsteiktur fiskur hefur fleiri kaloríur en steiktur fiskur, sem hefur fleiri kaloríur en soðinn fiskur, bakaður eða grillaður. Á sama hátt hefur steikt grænmeti fleiri kaloríur en hrátt grænmeti. Sósur og froður eru oft kaloríubombur, svo og hveitiþykktar og rjómavæddar súpur. Gættu þín vel á litlu hliðaratriðunum.