Skagafjörður

Öxnadalsheiði

Frá Silfrastöðum í Skagafirði að Bakkaseli í Öxnadal.

1244: Eyfirðingar komu til liðs við Kolbein unga Arnórsson um Öxnadalsheiði. 1253: Eyjólfur ofsi Þorsteinsson fór um heiðina til Flugumýrarbrennu í Skagafirði. Síðar sam ár fór Gissur Þorvaldsson um heiðina með herflokk í aðför að Eyjólfi ofsa. Aðra herför fór Gissur um heiðina árið eftir.

Ytri-Kot í Norðurárdal hétu upphaflega Þorbrandsstaðir eftir landnámsmanninum. Hann var góður heim að sækja, svo sem segir í Landnámu. Lét hann á bæ sínum “gera eldhús svo mikið, að allir þeir menn, sem þeim megin fóru, skyldu þar bera klyfjar í gegnum og vera öllum matur heimill.”

Förum frá Silfrastöðum gamla veginn austur Norðurárdal og yfir gömlu brúna á Norðurá við heiðarsporð Öxnadalsheiðar. Förum síðan línuveg austur heiðina og niður brekkurnar ofan við Bakkasel.

25,9 km
Skagafjörður, Eyjafjörður

Nálægar leiðir: Hörgárdalsheiði, Hraunárdalsheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Ölvesvatn

Frá Hvalnesi á Skaga um syðra Ölvesvatn að Refshalaleið við Fossá.

Byrjum við þjóðveg 745 sunnan við Hvalneslæk á Skaga. Förum til vestsuðvesturs fyrir sunnan Melrakkafell að Fossvatni. Síðan til suðsuðvesturs fyrir austan Ölvesvatn, um Bekki og síðan vestan við Selvatn. Suðsuðvestur um Hnausabrekkur og fyrir vestan Hraunvatn. Síðan á Fossbungu og á Refshalaleið við Fossá.

12,9 km
Skagafjörður, Húnavatnssýslur

Nálægar leiðir: Refshali, Bjarnarfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Þversum Ísland

Sumarið 1255 fór Magnús Jónsson þvert yfir landið frá Vopnafirði til Snæfellsness. Hann var frændi Þorvarðar Þórarinssonar og liðsmaður hans í herferðum. Skyldi hann leita liðveizlu Þorgils skarða Böðvarssonar gegn Hrafni Oddssyni og Eyjólfi ofsa Þorsteinssyni. Sturlunga segir um Magnús: “Hafði hann farið lítt með byggðum, en jafnan um nóttum. Gekk því engin njósn af hans ferðum fyrr en hann kom til Staðar” á Snæfellsnesi. Á bakaleiðinni kom Magnús við á Rauðsgili í Hálsasveit og komst þá upp um fyrirætlan hans. Fengu Hrafn og Eyjólfur þá njósn af ferðum hans. Ferð Magnúsar er dæmi um kjark og þol manna, sem fóru langan veg um óbyggðir snemma á öldum Íslandsbyggðar.

Sennilega hefur Magnús farið frá Hofi í Vopnafirði um Hofsárdal og Brattafjallgarð að Möðrudal. Þar næst að Jökulsá á Fjöllum sunnan Möðrudals við Ferjufjall. Síðan Biskupaveg um Ódáðahraun og Suðurárhraun í Kiðagil og áfram vestur norðanverðan Sprengisand í Laugafell. Því næst um Eyfirðingaveg norðan Hofsjökuls og yfir á Skagfirðingaveg á Stórasandi eða þá um Kráksskarð. Þaðan vestur um Arnarvatnsheiði meðfram Norðlingafljóti til Þverárhlíðar. Síðan Múlaveg um Mýrar norðanverðar og loks um Löngufjörur að Staðastað á Snæfellsnesi.

? km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur, Eyjafjörður, Skagafjörður, Húnavatnssýslur, Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Biskupavegur, Suðurárhraun, Kiðagil, Ingólfsskáli, Skagfirðingavegur, Norðlingafljót, Skarðheiðarvegur, Múlavegur, Löngufjörur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Þverárjökull

Frá Þverá í Svarfaðardal um Þverárjökul að Hólum í Hjaltadal.

Ætíð fáfarinn.

Förum frá Þverá suðvestur upp í Þverárdal og eftir löngum dalnum sunnanmegin inn í botn. Upp botninn förum við vestur í stefnu á Jökulhnjúk. Sveigjum síðan til suðvesturs upp í skarðið fast við hnjúkinn í 1080 metra hæð. Þaðan förum við vestur og niður í Skíðadal, norðan megin í dalnum, og þaðan út í Kolbeinsdal. Vestan Fjallsréttar förum við suður yfir Hálsgróf til Hóla.

29,7 km
Eyjafjörður, Skagafjörður

Mjög bratt

Skálar:
Fjall: N65 46.051 W19 05.581.

Nálægar leiðir: Heljardalsheiði, Héðinsskarð, Hólamannavegur, Tungnahryggur, Hákambur, Skíðadalsjökull, Heiðinnamannadalur, Holárdalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Vindheimar

Frá Lýtingsstöðum meðfram Héraðsvötnum að brúnni á Héraðsvötnum.

Hestamenn hafa gert greiða götu meðfram Héraðsvötnum á þessari leið. Kaflinn milli Vindheima og Stokkhólma hefur enn ekki verið ákveðinn og ekki vitað, hvernig hann mun liggja. Spyrjist fyrir á staðnum.

Förum frá Lýtingsstöðum norðnorðvestur undir Eggjum um Þorsteinsstðakot og Brúnastaði. Þar förum við norður yfir hálsinn og áfram norðnorðaustur undir Hellisási að Stapa við Héraðsvötn. Áfram norður með Héraðsvötnum á móts við Vindheima. Síðan norður að Stokkhólma og eftir þjóðvegi 753 norður Vellina að þjóðvegi 1 vestan brúar á Héraðsvötnum.

18,9 km
Skagafjörður

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Ingimar Ingimarsson

Vindárdalur

Frá Framnesi í Blönduhlíð um Vindárdal og Hvammsdal til Hvamms í Hjaltadal.

Marteinn biskup Einarsson flúði þessa leið 1548 frá Jóni biskupi Arasyni og Steini presti, sem gætti hans á Hólum í Hjaltadal. Marteinn náðist í tjaldi ofarlega í Vindárdal, þar sem heita Tjaldeyrar. Um flóttann orti Jón Arason: “Biskup Marteinn brá sitt tal, / burt hljóp hann frá Steini, / vasaði fram á Vindárdal, / varð honum það að meini.”

Förum frá Framnesi austur að eyðibýlinu Axlarhaga og þaðan norðaustur í Vindárdal. Dalurinn er í krókum, en höfuðátt hans er austur. Við höldum okkar norðan Vindár. Innan við grjóthrunið Hólana eru sléttar Tjaldeyrar og fyrir ofan þær eru Bungur. Þar förum við bratt upp úr dalnum. Þegar upp er komið, í 1040 metra hæð, beygjum við spöl til suðurs til að komast fyrir kletta. Þar náum við greiðri en brattri leið norðaustur í Hvammsdal. Eftir dalnum er bein leið að Hvammi.

17,2 km
Skagafjörður

Nálægar leiðir: Grænuvötn, Kattárdalur, Kotagil, Ranghali, Suðurárdalur, Ullarvötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Vellir

Frá Víðimýri yfir Héraðsvötn að Flugumýri.

Á Sturlungaöld féllu Héraðsvötn í tveimur kvíslum, sem báðar hétu Jökulsá, austari og vestari. Sú vestri var þar, sem nú er Húseyjarkvísl. Yfir hana var farið nálægt Húsey. Farið var um Vallalaug á Völlunum milli kvísla, þar sem ferðamenn hvíldust og fengu sér bað. Hún var þungamiðja héraðsins, mitt á milli Víðimýrar og Flugumýrar. Menn tóku krók þangað suður eftir milli vaða á Héraðsvötnum.

Á Völlum hélt Kolbeinn Tumason fund 1201 og lét kjósa Guðmund Arason til biskups. Víðimýri og Flugumýri voru vel varðir staðir, með virki á Flugumýri og kastala á Víðimýri. 19. apríl 1246 riðu Brandur Kolbeinsson og Ásbirningar yfir Héraðsvötn nálægt gömlu brúnni frá Víðimýri til Djúpadals til orrustu við Þórð kakala Sighvatsson. Var þar háður Haugsnesbardagi. Á Víðimýri gistu höfðingjar Sturlungu. Órækja Snorrason 1235 og Sturla Þórðarson á leið til Flugmýrarveizlu 1253 og aftur 1254. Þorgils skarði Böðvarsson fór yfir Héraðsvötn hjá Löngumýri árið 1255 í aðför að Eyjólfi ofsa Þorsteinssyni og Hrafni Oddssyni. Það vað er um tveim kílómetrum norðan brúar á Héraðsvötnum, nálægt gömlu brúnni. Tveir Hestvígshamrar eru í Skagafirði, annar við Víðimýri og hinn við Flugumýri. Ekki er ljóst, við hvorn er átt í Sturlungu. Þar funduðu Skagfirðingar 1245 til að velja sér Brand Kolbeinsson að leiðtoga. Árið 1253 tóku Skagfirðingar þar við Gissuri Þorvaldssyni sem leiðtoga og þar tóku þeir 1254 við Oddi Þórarinssyni, umboðsmanni Gissurar.

Byrjum við Víðimýri. Förum austur um Hestvígshamar vestari og síðan yfir Húseyjarkvísl á Póstvaði að Húsey. Síðan suðaustur um Vallholt að Vallalaug, þar sem áð var að fornu. Með þjóðvegi 753 norður að þjóðvegi 1 og áfram norður gamla þjóðveginn að gömlu brúnni yfir Héraðsvötn. Yfir brúna og að lokum norðaustur um Róðugrund og Hestvígshamar austari að Flugumýri. Hér er lýst gömlum aðstæðum. Gamla vaðið hefur líklega verið nálægt gömlu brúnni. Nú á tímum eru Héraðsvötn riðin á vaði andspænis Kúskerpi.

10,7 km
Skagafjörður

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Vatnsskarð, Sæmundarhlíð, Héraðsvötn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Sturlunga, Björn Gunnlaugsson

Vatnsskarð

Milli Bólstaðarhlíðar í Svartárdal og Víðimýrar í Skagafirði.

Þetta var allar aldir og er enn höfuðleiðin milli Húnavatnssýslu og Skagafjarðar. Enn má sjá minjar um póstleiðina vestan lækjar við Víðimýri. Hún lá beint milli Arnarstapa og Víðimýrar. 1238: Lið Sturlu Sighvatssonar eltir lið Kolbeins unga Arnórssonar austur yfir Vatnsskarð. 1253: Heinrekur biskup og Þorgils skarði ríða saman á Vatnsskarð. Sama ár ríða Þorgils og Gissur Þorvaldsson saman á skarðið. 1254: Hrafn Oddsson og Eyjólfur ofsi Þorsteinsson fara austur yfir skarðið til að herja á Odd Þórarinsson Svínfelling. 1255: Þorgils skarði ríður Vatnsskarð vestur í Dali eftir Þverárfund.

Förum frá Bólstaðarhlíð upp fyrir þjóðveg 1 og til suðausturs og síðan austurs upp hlíðina ofan þjóðvegar undir Botnastaðafjalli og Gilshálsi. Austan undir hálsinum er þverleið til Laxárdals og að Skarðsá í Sæmundarhlíð. En við förum yfir þjóðveginn og austur að Vatnshlíðarvatni sunnanverðu. Frá horni Vatnshlíðarvatns förum við enn yfir þjóðveginn og til norðausturs ofan við Sæmundará og neðan við þjóðveginn. Áfram beina stefnu yfir þjóðveginn að Arnarstapa og þaðan austur og niður að Víðimýri .

16,4 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Nálægar leiðir: Valadalur, Laxárdalur, Reykjaskarð, Vellir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Vatnaöxl

Frá Gauksstöðum á Skaga suður um Vatnaöxl að Veðramótum við Gönguskörð í Skagafirði.

Þetta er löng leið suður-norður um fjallgarðinn milli Skagafjarðar og Húnavatnssýslu.

Förum frá Gauksstöðum suður með Bjarnarfelli að austanverðu og vestan við Bjarnarvötn. Beygjum suðvestur fyrir Réttarfell og förum suðvestur um Þverárkvíslar í Engjadal vestan við Sandfell. Við förum suðaustur með Sandfelli og þvert yfir þjóðveg 744. Síðan suður Skálahnjúksdal. Áfram til suðurs austan við Fannstóð og síðan vestan við Skálarhnjúk og Vatnsöxl. Þar er fjallaskálinn Trölli. Beygjum síðan til austurs fyrir sunnan Vatnsöxl og förum norðaustur Kálfárdal niður að þjóðvegi 744 hjá Veðramótum.

34,7 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Skálar:
Trölli: N65 42.603 W19 53.163.

Nálægar leiðir: Litla-Vatnsskarð, Kirkjuskarð, Balaskarð, Hallárdalur, Refshali.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Vatnahjalli

Frá Hofsafrétti um Vatnahjalla að Torfufelli í Eyjafirði.

Frá mótum vegar úr byggð í Skagafirði til Laugafells og vegar norðan Hofsjökuls um Ingólfsskála. Þetta er hluti Eyfirðingavegar, sem lá af Kili og norður fyrir Hofsjökul til Eyjafjarðar.

Byrjum á Hofsafrétt á mótum vegar norðan úr byggð í Skagafirði til Laugafells og vegar norðan Hofsjökuls austur um Ingólfsskála. Förum þaðan austur í Hraunlæk og þaðan norður á Eyfirðingavað á Austari-Jökulsá. Frá vaðinu austur að Pollalæk og Eystri-Pollum og síðan norðaustur á mót vegar suður í Laugafell. Við höldum áfram norður og framhjá afleggjara vestur að Grána og Sesseljubúð. Leiðin liggur áfram norður framhjá fjallaskálanum Berglandi og síðan fyrir vestan Vatnahjalla og austan Urðarvötn í 920 metra hæð. Við Vatnahjalla sveigist leiðin til norðausturs. Síðan hjá vörðunni Sankti-Pétri á brekkubrún niður um Hafrárdal að þjóðvegi 821 í Eyjafirði. Við fylgjum þeim vegi norður að Torfufelli.

34,7 km
Eyjafjörður, Skagafjörður

Skálar:
Bergland: N65 11.424 W18 20.163.
Sesseljubúð: N65 06.700 W18 25.840.
Gráni: N65 06.704 W18 25.860.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hofsafrétt.
Nálægar leiðir: Nýjabæjarfjall, Laugafell, Eystripollar, Strompaleið, Gimbrafell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Valadalur

Frá Leifsstöðum í Svartárdal um Valadal að Stóra-Vatnsskarði í Skagafirði.

Ein af leiðum Skagfirðinga suður á Kjalveg.

Förum frá Leifsstöðum norðnorðaustur og upp á Hraun í 500 metra hæð. Síðan norður um Klittur og þaðan norður og austnorðaustur um Valadal og norðaustur að þjóðvegi 1 við Stóra-Vatnsskarð.

11,6 km
Húnavatnssýslur, Skagafjörður

Nálægar leiðir: Vatnsskarð, Járnhryggur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Unadalsjökull

Frá Atlastöðum í Svarfaðardal um Unadalsjökul að Hofi hjá Hofsósi.

Svarfdælingar notuðu þessa leið til verzlunar á Hofsósi, styttri leið og fljótfarnari en til Akureyrar. Oft er farið með hesta þessa leið.

Förum frá Hofsósi eða Hofi fram og austur Unadal norðan Unadalsár. Síðan upp Geldingadal og upp Unadalsjökul að krossgötum á Kömbunum suðaustan undir Einstakafjalli í 930 metra hæð. Þaðan suðaustur og niður í Skallárdal að Atlastöðum.

26,2 km
Eyjafjörður, Skagafjörður

Mjög bratt

Nálægar leiðir: Hákambar, Hvarfdalsskarð, Heljardalsheiði, Sandskarðsleið, Kollugilsbrúnir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Ullarvötn

Frá Miðgrund í Blönduhlíð um Djúpadal og Seljárdal að Hálfdánartungum í Norðurárdal.

Förum frá Miðgrund austur að bænum Djúpadal og þaðan austur í Djúpadal. Þar sem dalurinn klofnar, förum við suðaustur Akradal og síðan austnorðaustur dalinn. Þar sem dalurinn sveigir til suðurs, förum við beint austur upp úr honum um Ullarvötn á fjallið í 1020 metra hæð. Þar uppi sveigjum við til suðausturs í drög Seljárdals. Förum eftir þeim dal suðsuðaustur í Hörgárdal og síðan suðvestur Hörgárdal að Hálfdánartungum.

31,2 km
Skagafjörður

Nálægar leiðir: Grænuvötn, Kattárdalur, Kotagil, Ranghali, Suðurárdalur, Vindárdalur

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Tungnahryggur

Frá Baugaseli í Barkárdal um Tungnahrygg að Fjalli í Kolbeinsdal.

Einn af hæstu fjallvegum landsins í 1170 metra hæð.

Förum frá Baugaseli vestur Barkárdal. Norðan við Lambárhnjúk beygjum við til norðvesturs upp á fjallið vestan við Eiríkshnjúk. Þar á Tungnahrygg náum við 1170 metra hæð. Síðan förum við norðnorðvestur í Austurdal og síðan norðvestur um óralangan Kolbeinsdal alla leið vestur að skálanum Fjalli í Kolbeinsdal.

27,6 km
Eyjafjörður, Skagafjörður

Skálar:
Fjall: N65 46.051 W19 05.581.
Baugasel: N65 39.370 W18 36.640.

Nálægar leiðir: Heljardalsheiði, Þverárjökull, Hólamannavegur, Hákambar, Skíðadalsjökull, Héðinsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Sæmundarhlíð

Frá Víðimýrarseli um Sæmundarhlíð að Dæli í Sæmundarhlíð.

Að Skarðsá bjó Björn Jónsson, sem skrifaði Skarðsárannála um sögu Íslands 1400-1645.

Byrjum hjá vegi 1 hjá Víðimýrarseli. Förum norður um Fjall og Skarðsá að Dæli.

6,8 km
Skagafjörður

Nálægar leiðir: Vatnsskarð, Reykjaskarð, Vellir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort