Skaftafellssýslur

Öldufell

Frá Brytalækjum á Mælifellssandi um Öldufell til Hrífuness í Skaftártungu.

Í Brytalækjum gerðu fjallmenn og bændur sér glaðan dag fram á tuttugustu öld. Öldufell er hátt og hrikalegt fjall í jaðri Mýrdalsjökuls. Sunnan Öldufells eru Einhyrningsfjöll, þar sem svo gróðursælt var á fyrri öldum, að naut og hestar gengu þar úti. Fagurt útsýni er af þessari stórbrotnu leið, en hestamenn fara frekar niður með Hólmsá, þar sem er gróður og fossaniður.

Byrjum á vegamótum Fjallabaksleiðar syðri á Mælifellssandi og Öldufellssleiðar, skammt vestan Brytalækja í 530 metra hæð. Við förum þverleiðina beint suður í Öldudal mlli Öldufells að vestan og Kerlingahnjúka að austan. Síðan förum við suðaustur fyrir Loðnugiljahaus og niður brekkurnar að Hólmsá að fjallaskálanum í Framgili í 190 metra hæð. Síðan förum við áfram með jeppaveginum suður á við og síðan til austurs fyrir sunnan Atlaey og suðurenda Hrísnesheiðar í Hrafnshóli að þjóðvegi 209 um Skaftártungu, í 80 metra hæð, rétt sunnan við Hrífunes.

34,7 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Framgil : N63 42.655 W18 43.259.

Nálægir ferlar: Mælifellssandur.
Nálægar leiðir: Flosavegur, Hólmsá, Mýrdalssandur, Skaftártunguleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Vonarskarð

Frá vegamótum Gæsavatnaleiðar um Vonarskarð að Auröldu við Vatnajökul.

Þessi leið er bönnuð hestum.

Bárðargötu er hér lýst í fimm dagleiðum. Nyrsta leiðin er hér kölluð Réttartorfa. Næst koma Öxnadalsdrög. Síðan Vonarskarð. Þá kemur Hamarskriki. Og loks Fljótsoddi. Réttartorfuleiðin hefst við Svartárkot á Mývatnsheiðum og Fljótsoddaleiðin endar við Miklafell á Síðumannaafrétti. Í þessari útgáfu er ekki gert ráð fyrir, að Bárður hafi farið yfir Hverfisfljót uppi við jökul, sem þó er eins líklegt. Hverfisfljót var þá lítið vatn, kallað Raftalækur. Þannig hefði hann komið suður í Fljótshverfi eins og sagan segir, en ekki suður á Síðu.

Gnúpa-Bárður nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Fann, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann, að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni að kanna það. Þeir fundu gróður í Vonarskarði á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi.

Byrjum á vegamótum Gæsavatnaleiðar og leiðar upp með Skjálfandafljóti að austanverðu, í 800 metra hæð. Við fylgjum ógreinilegri jeppaslóð um Vonarskarð. Förum fyrst suðvestur og síðan beint suður milli Fljótsborgar og Langháls að vestan og Dvergöldu að austan. Norðan við Hnúð og Tindafell beygir leiðin suðvestur milli Stakfells að norðan og Valafells að sunnan. Þar erum við í 1060 metra hæð. Síðan niður Gjóstuklif og krók vestur í Snapadal. Þaðan til suðurs austan við Deili og Svarthöfða. Þar á milli er Vonarskarð í 940 metra hæð. Tæpir þrír kílómetrar eru í beina línu milli Svarthöfða og Vatnajökuls. Við förum áfram suður skarðið um Köldukvíslarbotna nálægt jöklinum, austan við Auröldu. Þar endar þessi leið í 900 metra hæð og við tekur leiðin um Hamarskrika suður í Jökulheima. Héðan eru fimm kílómetrar að fjallaskálanum Hágöngur við Hágöngulón.

42,9 km
Þingeyjarsýsla, Rangárvallasýsla

Ekki fyrir hesta

Skálar:
Hágöngur: N64 34.353 W18 04.238.

Nálægir ferlar: Öxnadalsdrög, Hamarskriki.
Nálægar leiðir: Gæsavötn, Kambsfell, Hágöngulón.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Vítisbrekkur

Frá Hornafirði um Laxárdal í Vítisbrekkur. Byrjum á þjóðvegi 1 við heimreið norðaustur að Meðalfelli. Förum norður að fjöllunum á jeppaslóð norður Laxárdal að Aðgerðará og Vítisbrekkum norðan Árnanesmúla.

9,5 km
Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Endalausidalur, Skógey, Hornafjarðarfljót.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Sveinstindur

Frá Langasjávarleið að Sveinstindi við Skaftá.

Á nat.is segir svo: “Sveinstindur (1090m) er áberandi, keilulagaður tindur í Fögrufjöllum við suðurenda Langasjávar á Skaftártunguafrétti. Hann er hæstur fjalla á þessu svæði, sést víða að og útsýni af honum er mikið. Fjallið er auðgengt. Þorvaldur Thoroddsen gaf því nafn Sveins Pálssonar læknis og náttúrufræðings.”

Förum frá Langasjó til suðurs vestur með Sveinstindi að Hellnafjalli. Til suðausturs norðan við Hellnafjall, og síðan norður að Sveinstindi.

7,6 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Sveinstindur: N64 05.176 W18 24.946.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Langisjór, Breiðbakur, Skælingar.
Nálægar leiðir: Faxasund.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Sultartungur

Frá Smyrlabjörgum í Suðursveit upp á Vatnajökul.

Jeppaslóð upp að jökli.

Byrjað á vegi 1 vestan Smyrlabjargarár í Suðursveit. Förum jeppaveg vestur að Smyrlabjargavirkjun um Smyrlabjörg. Síðan vestur Borgarhafnarheiði að Fremstavatni. Til norðurs fyrir austan Fremstavatn og Innstavatn. Síðan vestur í Eyvindstungur og þaðan norður um Sultartungur að Sultartungujökli og þaðan um Þormóðshnútu vestur í skálann Jöklasel við Skálafellsjökul, í 780 metra hæð.

12,4 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Jöklasel: N64 15.312 W15 51.471.

Jeppafært

Nálægar leiðir: Suðurfjörur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Suðurfjörur

Frá Flatey til Hafnar í Hornafirði.

Af Suðurfjörum er fagurt útsýni yfir fjallahringinn í Hornafirði. Áður var bátur hafður í bátaskýli yzt á sandinum til að ferja fólk til kaupstaðar á Höfn. Þurfti þá að rekja sig eftir ræsum, því að víða er fjörðurinn ekki bátgengur.

Förum frá Flatey suðaustur um grasbakka og sanda út á leirur og niður á fjöruna norðaustan við Skinneyjarhöfða. Síðan austur Suðurfjörur / Vesturfjöru að norðanverðu að Suðurfjörutanga við Hornafjarðarós. Þar er sæluhús. Gaman væri að fá hér bát til að ferja sig og hesta inn til Hafnar í Hornafirði eða yfir í Austurfjörur og halda þar áfram ferðinni.

19,7 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Suðurfjörutangi: N64 13.913 W15 11.942.

Nálægar leiðir: Fláajökull.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Strútslaug

Frá fjallaskálanum við Álftavötn um Strútslaug að Mælifelli á Mælifellssandi.

Á vef Útivistar segir þetta um laugina: “Rangvellingar hafa kallað hana Hólmsárbotnahver en Skaftfellingar kalla hana Strútslaug og virðist sem það nafn hafi unnið sér fastan sess meðal landsmanna. Fyrir tíma sauðfjárveikivarna gekk fé Rangvellinga og Skaftfellinga töluvert saman á þessum slóðum og smöluðu þá þessar tvær fylkingar þetta svæði saman. Á grasbala ofan við Strútslaug var fyrrum náttstaður gangnamanna. Þessi grasbali gegnir enn því hlutverki að hvíla lúin bein göngumanna, en nú eru það tjöld þeirra sem ganga sér til skemmtunar, sem á honum rísa. “

Förum frá fjallaskálanum við Álftavötn vestur sléttuna og sveigjum við Eldgjá til norðvesturs. Förum nálægt suðurfjallinu og sveigjum til vesturs og suðvesturs inn í suðurjaðar Ófærudals. Síðan áfram suðvestur í Hólmsárbotna norðan Hólmsárlóns og þaðan vestur í Strútslaug sunnan við Laugarháls. Þar er fjallaskálinn Hólmsárbotnar. Frá lauginni förum við suðsuðvestur upp úr dalnum og förum síðan til suðurs um Skófluklif norðvestan Strúts og að fjallaskálanum Strúti. Þaðan förum við suður á Mælifellssand og fyrir austurenda Veðurháls og fyrir vestan Mælifell að þjóðvegi F210 yfir Mælifellssand.

24,7 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Álftavatnakrókur: N63 53.851 W18 41.445.
Hólmsárbotnar: N63 52.707 W18 55.905.
Strútur: N63 50.317 W18 58.519.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Mælifellssandur.
Nálægar leiðir: Goðaland, Flosavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skælingar

Frá Hólaskjóli um fjallakofann í Skælingum að Sveinstindi við Langasjó.

Skælingar eru giljóttir og grónir móbergshryggir, sem eru víða seinfarnir vegna mislendis. Þaðan er gott útsýni til Sveinstinds og Lakagíga. Stóragil í Skælingum er þyrping hraundranga.

Förum frá fjallaskálanum í Hólaskjóli í 330 metra hæð og norður Fjallabaksleið upp undir Eldgjá. Beygjum þar inn á þverleið til austurs að Gjátindi. Förum þá leið upp hlíðina og síðan þverleið til suðurs niður á flatlendið við Skaftá. Förum norðaustur með ánni að fjallaskálanum í Skælingum í 460 metra hæð. Förum síðan upp hlíðina til norðausturs og síðan norðurs og loks til vesturs að Blautulónum. Förum norður með austurjaðri lónanna, sums staðar í vatnsborðinu. Komum þar á jeppaveg frá Fjallabaksleið inn að Langasjó. Fylgjum þeim vegi norður og norðaustur, hæst í 700 metra hæð, að Hellnafjalli. Förum þar suður afleggjara vestan og sunnan við Hellnafjöll og síðan norðaustur að Skaftá að fjallaskálanum Sveinstindi undir samnefndu fjalli, í 600 metra hæð.

40,5 km
Rangárvallasýsla, Skaftafellssýslur

Skálar:
Hólaskjól: N63 54.441 W18 36.235.
Skælingar: N63 58.831 W18 31.295.
Sveinstindur: N64 05.176 W18 24.946.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjallabak nyrðra, Landmannaleið, Hólaskjól, Mælifellssandur, Breiðbakur.
Nálægar leiðir: Gjátindur, Sveinstindur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skógey

Frá Borgum í Nesjum um Skógey að brú á Hornafjarðarfljóti.

Í Skógey höfðu menn slægjur síðustu aldir, en lengi hefur þar enginn skógur verið. Byrjum í hesthúsahverfi á Borgum í Nesjum.

Förum vestur að Hoffellsá og yfir í Skógey. Þaðan norðvestur um Skógeyjarsker að brú á þjóðvegi 1 yfir Hornafjarðarfljót.

9,7 km
Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Hornafjarðarfljót, Vítisbrekkur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skaftártunguleið

Frá Höfðabrekku til Hrífuness í Skaftártungu.

Gömul þjóðleið. Ekki er mikið um landslag á leiðinni, bara grár sandurinn, en í fjarlægð sést til fjalla. Ef eitthvað er að veðri, er þetta skyldureið, en ekki sportreið. Í sólskini og hita villa hillingar um fyrir fólki, sem heldur, að styttra sé í áfangastað en raun ber síðan vitni um. Þetta er alvöru eyðimörk.

Byrjum við þjóðveg 1 austan brúar á Múlakvísl austan Höfðabrekku. Frá Múlakvísl fylgjum við slóð norðaustur í átt að austurodda Hafursey og þaðan áfram beina línu norðaustur í Skaftártungu. Við förum yfir Þverkvíslar og Loðinsvíkur að Hólmsá, þar sem við förum yfir á brú við Hrífunes.

27,2 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Hafursey : N63 30.900 W18 44.080.

Nálægir ferlar: Höfðabrekkuheiði.
Nálægar leiðir: Mýrdalssandur, Álftaversleið, Arnarstakksheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Skaftá

Ýmis vöð á Skaftá.

Svonefndir vatnahestar voru eftirsóttir í nágrenni stórfljóta fyrr á öldum. Oftast voru þetta stórir og rólegir hestar sem stigu upp í strauminn. Menn höfðu svo viðbótaraðferðir við að velja hesta. Vatnastingur var talið tákn um traustan vatnahest. Það er sveipur í hári hests aftan við kverkina. Væri hann báðum megin, var sagt, að vatnastingurinn væri í gegn. Trú manna var, að ekki færist maður í vatni af hesti, sem hefði vatnasting gegnum hálsinn. Ferðir um hættuleg vöð voru örlög fyrirmanna allar aldir fyrir öld brúa. Í öllum árum fórust einhverjir. Og margir fleiri lentu í hremmingum á vöðum.

Fyrir öld brúa urðu hestar að vera vel syndir, þegar í harðbakkann sló á erfiðum vöðum. Eða þegar menn vildu stytta sér leið. Skaftfellskir hestar, einkum úr Hornafirði og Öræfum, voru eftirsóttir fyrir einni öld. Kallaðir vatnahestar. Sumir hestar eru svo djúpsyndir, að hættulegt er að sitja þá. Aðrir synda hátt í vatni og eru þægilegir ásetu við þær aðstæður. Einstaka hestar leita botns í sífellu og hoppa því á sundinu. Ég sá einn hoppa þannig í Holtsós. Þeir eru beinlínis hættulegir. Hlutverk mannsins á sundreið er að vera farþegi á baki, standa í ístöðunum og hanga að öðrum kosti í faxinu.

Farið var yfir Skaftá á fimm stöðum, hjá Skaftárdal, Heiði, Hólmi, í Ásgarðshólum og yfir Landbrotsvötn í heild austur af Uppsalahálsi í Landbroti. Eldvatnið hjá Svínadal var ferjuvatn. Yfir Eldvatnið í Meðallandi var farið á ferju hjá Fljótum eða á vaði nálægt Feðgum. Yfir Geirlandsá var farið austur af Geirlandi. Yfir Breiðbalakvísl var farið vestur af Breiðabólstað eða austan við Keldunúp. Tvær leiðir lágu síðan austur, önnur með Síðufjöllum og hin um Tögl og austur sandana. Fara þurfti fyrir Eldvatnstanga á leiðinni austur frá Teygingalæk. Nokkur vöð voru á Hverfisfljóti. Nokkru fyrir vestan brúna er Eldkróksvað og lá að því vörðuð leið um hraunið, Eldkróksgata. Nokkru ofar er Trjábraut og enn ofar er Sauðavað. Algengasta vaðið var sunnar, fyrir vestan Hvol.

2,7 km
Skaftafellssýslur

Erfitt fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Flosavegur, Holtsdalur, Laki.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Skaftafell

Frá Skaftafelli um Bæjarstaðaskóg að Sæluhúsakvísl.

Fá þarf leyfi þjóðgarðsvarðar til að fara með hesta þessa leið. Gönguleiðin er sýnd á kortinu, en reiðleiðin er á aurunum neðan við Skaftafellsbrekkur, yfir varnargarð og upp með Morsá. Ekki er lengur farið yfir Skaftá á jökulsporði, því að áin rennur með jökuljaðri vestur í Sandgígjukvísl.

Bæjarstaðaskógur er ein af perlum landsins með gömlu, hávöxnu og beinvöxnu birki. Nafnið bendir til, að þar hafi verið bær fyrr á öldum.

Byrjum hjá þjóðvegi 1 við Skaftafell í Öræfum. Förum til norðvesturs um þjónustumiðstöðina í Skaftafelli upp að brekkurótum. Síðan norður á Bölta og þaðan vestan í fellinu, að Morsá undir Skerhóli. Þaðan förum við vestur sandinn norðan við Skeiðará í Hamragilsaxlir. Síðan utan í Jökulfelli inn í Hamragil. Út á jökulsporðinn yfir Skeiðará og til suðausturs niður á Skeiðarársand. Að lokum suður sandinn að vegi 1 austan við Sæluhúsakvísl.

17,9 km
Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Flosavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Reipsdalur

Frá Hoffelli í Hornafirði um Reipsdal til Laxár í Laxárdal í Lóni.

Hoffell er gamalt höfuðból í stórbrotinni náttúru.

Förum frá Hoffelli norðaustur yfir Hoffellsdal og upp Mela austan dalsins. Förum þar upp í Selbotn og síðan norður fyrir Seltind upp í Vörp í 620 metra hæð. Síðan austur Reipsdal og áfram Laxárdal í Lóni niður að þjóðvegi 1 hjá Laxárbrú.

22,7 km
Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Dalsheiði, Illikambur, Hellisskógur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Núpsstaðaskógar

Frá Núpsstað í Núpstaðaskóga og til baka aftur.

Núpsstaðaskógar eru fögur skógarvin, sem fáir þekkja. Hún er afskekkt austast í Fljótshverfi á jaðri Skeiðarársands, inn á milli skriðjökuls og hárra fjalla. Jeppavegur þangað er þungur og fara þarf yfir Súlu á grýttu og straumþungu vaði. Betra er að fara þessa leið á hestum. Fram og til baka frá Rauðabergi er það létt dagleið. Mestur er skógurinn í Kálfsklifi og fara má þangað á hestum næstum alla leið.

Förum frá Rauðabergi til austurs undir hlíðum Fögrutungubrúa að Núpsstað. Þaðan inn Fjaðrárdal og yfir Fjaðrá norðan þjóðvegar 1 um Fljótshverfi. Síðan meðfram Lómagnúp, upp í Núpshlíðar og eftir þeim fyrir stafn núpsins og inn með honum að austanverðu. Síðan niður úr hlíðunum niður á aura Núpsvatna við Seldal. Síðan áfram norður aurana á jeppaslóð að Súlu, sem rennur frá Skeiðarárjökli að Núpsá og er þvert á leið okkar. Við förum gætilega yfir Súlu og áfram slóðina inn aurana. Hér þrengist dalurinn, Loftsárhnjúkur er að vesta og Bunki að austan. Skógur er í undirhlíðunum beggja vegna. Við komumst á austurjaðri Núpsár í Staðarhól. Þar verður að skilja hestana eftir og ganga stuttan spöl að Kálfsklifi. Síðan sömu leið til baka að Rauðabergi.

18,7 km
Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Flosavegur, Bárðargata, Núpahraun.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Núpahraun

Frá Rauðabergi í Fljótshverfi um Núpaheiði í Núpahraun.

Núpahraun er þrettánda stærsta hraun á Íslandi, 230 ferkílómetrar.

Förum frá Rauðabergi vestur fyrir mynni Djúpadals og síðan vestur með Kotafjalli og Bakkafjalli upp á Núpaheiði. Síðan norður heiðina i Núpahraun.

18,2 km
Skaftafellssýslur

Nálægar leiðir: Núpsstaðaskógur, Flosavegur, Bárðargata.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson