Digur svör og gisin

Greinar

Mikið og frítt lið hefur á síðustu vikum í kjallaragreinum Dagbllaðsins snúizt til varnar hinni opinberu landbúnaðarstefnu. Höfundarnir eru orðnir átta og greinarnar tíu. Þær eiga því sennilega að vera tilraun til gagnsóknar.

Höfundarnir eru fyrrverandi aðstoðarráðherrar landbúnaðar, búnaðarmálastjórar, formenn framkvæmdastjórar, blaðafulltrúar og aðrir starfsmenn samtaka og stofnana landbúnaðarins. Þeir eru allir úr einum og sama þrýstihópnum.

Í hópinn hafa nú bætzt menn með nýjan tón. Þeir Hákon Sigurgrímsson og Ólafur Dýrmundsson hafa ekki birt leikmannsþanka í sálgreiningu, né fjallað í uppnámi um hið voðalega hugarfar, sem hljóti að ríkja á ritstjórn Dagblaðsins.

Þar sem þeir tveir hafa eingöngu fjallað um efni málsins, verður að telja þá viðræðuhæfa. Það verður reynt við fyrstu hentugleika, en hér má fyrst afgreiða restina af hópnum í einni kippu, svo að hún sé ekki að flækjast fyrir.

Um kippumenn má segja í mjög grófum dráttum, að greinar þeirra séu að þriðjungi sálgreining og hugarfarshneykslun, að þriðjungi hreint rugl og að þriðjungi andstæðar skoðanir við Dagblaðið á því, hvernig beri að túlka staðreyndir.

Aðeins á tveimur stöðum í tíu greinum hafa í alvöru verið dregin í efa atriði, sem sett hafa verið fram sem tölustaðreyndir í leiðurum Dagblaðsins. Þau eru fjármunamyndun í landbúnaði á þessu ári og fækkun bænda á undanförnum áratugum.

Á blaðsíðu 41 í skýrslu Þjóðhagsstofunnar, “Úr þjóðarbúskapnum”, sem gefin var út 8. júlí í sumar, er því spáð, að fjármunamyndun í landbúnaði muni nema 16 milljörðum króna á þessu ári. Búnaðarmálastjóri telur þetta of háa tölu. Hann um það.

Dagblaðið notaði tölur Þjóðhagsstofnunar og mun nota áfram, unz annað reynist sannara. Sama er að segja um tölur, sem Reynir Hugason tók saman úr Árbók landbúnaðarins um fækkun bænda á Norðurlöndum árin 1960-75.

Ágreiningur Dagblaðsins og talsmanna þrýstihóps hinnar opinberu landbúnaðarstefnu um þessar tvær tölur skiptir þó litlu í heildarmyndinni. Þær eru hvort eð er ekki nema brot af þeim staðreyndum, sem æpa á nýja landbúnaðarstefnu.

Meira máli skiptir ágreiningurinn um túlkanir eins og þá, hvort Ísland sé eða sé ekki vel fallið til landbúnaðar, hvort niðurgreiðslur komi landbúnaði við eða ekki og hvort stefnan hér eigi að vera hin sama og í nágrenninu eða ekki.

Dagblaðið hefur rökstutt í nokkru máli, að Ísland sé mun verr til landbúnaðar fallið en þau lönd, sem ráða heimsmarkaðsverði, svo og að hér sé landbúnaður í senn þrældómur og rányrkja. Þessu mótmæla talsmenn þrýstihópsins.

Dagblaðið hefur rökstutt í nokkru máli, að niðurgreiðslur falsi matvælamarkaðinn og dylji hinn ofboðslega, sumpart margfalda framleiðslukostnað kjötvara og mjólkurafurða. Þessu virðast talsmenn þrýstihópsins mótmæla, þótt óljóst sé.

Dagblaðið hefur rökstutt í nokkru máli, að heppilegra sé að nota, fremur en stæla, mistök annarra þjóða í landbúnaði, hagnast á lágu heimsmarkaðsverði, fremur en tapa á því. Þessu mótmæla talsmenn þrýstihópsins.

Niðurstaða Dagblaðsins er, að í áföngum beri að hætta stuðningi við fjárfestingu í hefðbundnum landbúnaði, svo og útflutningsuppbótum og niðurgreiðslum og gefa loks frjálsan innflutning landbúnaðarafurða. Að slíku hníga staðreyndir og rök.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið