Rangárvallasýsla

Þríhyrningur

Frá Goðalandi í Fljótshlíð að Gunnarsholti á Rangárvöllum.

Hér eru Njáluslóðir um allt. Á leiðinni upp í Vatnsdal er Höskuldslág, þar sem Höskuldur Njálsson var veginn í Njálssögu. Úr Vatnsdal er farið upp í Þríhyrning, þar sem Flosi Þórðarson er talinn hafa hulizt með mönnum sínum eftir Njálsbrennu. Norðan Þríhyrnings voru áður margir bæir, en þeir eru allir komnir í eyði. Keldur eru einn sögufrægasti sveitabær landsins, miðstöð Oddaverja. Þar bjó Jón Loftsson og síðar Hálfdán Sæmundarson, sem kemur mjög við sögu í Sturlungu. Gamli torfbærinn á Keldum er með merkari menningarsögulegu minjum í landinu.

Byrjum við réttina hjá Kirkjulæk í Fljótshlíð. Förum eftir þjóðvegi 261 til vesturs að mótum fjallvegar um Vatnsdal. Förum þann veg til norðurs, framhjá skógræktinni á Tumastöðum, síðan norður og upp Tungu milli Fjallgarðs að austan og Sléttafells að vestan. Þar komum við að eyðibýlinu Vatnsdalskoti undir Vatnsdalsfjalli. Förum síðan til norðausturs með fjallinu, í stefnu á norðurhlið Þríhyrnings. Förum síðan norður Engidal, yfir Fiská, norður með vesturhlið Reynifellsöldu að eyðibýlinu Reynifelli. Þaðan förum við til norðvesturs á brú yfir Eystri-Rangá og síðan með þjóðvegi um Keldur vestur að þjóðvegi 264 um Rangárvelli. Með þeim vegi förum við til vesturs að Gunnarsholti.

25,8 km
Rangárvallasýsla

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fljótshlíð, Hungurfit, Grasleysufjöll, Knafahólar, Heklubraut.
Nálægar leiðir: Kirkjustígur, Reynifell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Þóristindur

Frá Hrauneyjum um Þóristind að slóðum til Jökulheima og Veiðivatna.

Tengileið milli hótelsins í Hrauneyjum og Veiðivatna.

Förum frá hótelinu í Hrauneyjum meðfram þjóðvegi til austurs og síðan áfram austur á vegi 228 fyrir norðan Fellsendavatn og Þóristind að vegamótum til Botnavers. Á vegamótunum beygjum við til suðausturs að öðrum vegamótum til Veiðivatna og Jökulheima.

26,9 km
Rangárvallasýsla

Jeppafært

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Þjórsá

Frá Varghóli á þjóðvegi 286 hringferð með Þjórsá að Varghóli.

Tveimur kílómetrum suðvestan Akvegar er Kirkjuhóll. Þar hafa fundizt minjar um kirkju, sem hefur brunnið. Þar er líka kirkjugarður, hlaðinn úr tveggja metra háum sexstrendum stuðlum, minnisvarði um meiriháttar framkvæmd. Rústirnar eru frá því fyrir árið 1200.

Förum frá Varghóli suðvestur um Þverlæk og Hreiður að Kvíarholti. Þaðan vestur yfir þjóðveg 286 á þjóðveg 284. Eftir honum vestur fyrir suðurenda Gíslholtsvatns, síðan norður um Gíslholt og vestur fyrir Kamb. Þaðan norður með Þjórsá um Kostholt og Ártangaeyri í Kaldárholt. Þaðan austur um Stóra-Dímon og Lambhaga að Þjórsá og áfram austur í Akbraut. Þaðan suður með Þjórsá um Hestaklett og Hestafoss og síðan suður um Bjalla að Læk. Þaðan suðvestur að þjóðvegi 286 og með þeim vegi suður að Varghóli.

30,6 km
Rangárvallasýsla

Nálægar leiðir: Eyjavað.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Vonarskarð

Frá vegamótum Gæsavatnaleiðar um Vonarskarð að Auröldu við Vatnajökul.

Þessi leið er bönnuð hestum.

Bárðargötu er hér lýst í fimm dagleiðum. Nyrsta leiðin er hér kölluð Réttartorfa. Næst koma Öxnadalsdrög. Síðan Vonarskarð. Þá kemur Hamarskriki. Og loks Fljótsoddi. Réttartorfuleiðin hefst við Svartárkot á Mývatnsheiðum og Fljótsoddaleiðin endar við Miklafell á Síðumannaafrétti. Í þessari útgáfu er ekki gert ráð fyrir, að Bárður hafi farið yfir Hverfisfljót uppi við jökul, sem þó er eins líklegt. Hverfisfljót var þá lítið vatn, kallað Raftalækur. Þannig hefði hann komið suður í Fljótshverfi eins og sagan segir, en ekki suður á Síðu.

Gnúpa-Bárður nam Bárðardal og bjó að Lundarbrekku. Fann, að sunnanáttir voru hlýrri og þurrari en norðanáttir. Því ætlaði hann, að betri lönd væru sunnanlands. Sendi syni sína suður á góunni að kanna það. Þeir fundu gróður í Vonarskarði á þessum kalda árstíma. Þarnæsta vor lét hann hvert húsdýra sinna bera byrðar suður yfir og nam allt Fljótshverfi.

Byrjum á vegamótum Gæsavatnaleiðar og leiðar upp með Skjálfandafljóti að austanverðu, í 800 metra hæð. Við fylgjum ógreinilegri jeppaslóð um Vonarskarð. Förum fyrst suðvestur og síðan beint suður milli Fljótsborgar og Langháls að vestan og Dvergöldu að austan. Norðan við Hnúð og Tindafell beygir leiðin suðvestur milli Stakfells að norðan og Valafells að sunnan. Þar erum við í 1060 metra hæð. Síðan niður Gjóstuklif og krók vestur í Snapadal. Þaðan til suðurs austan við Deili og Svarthöfða. Þar á milli er Vonarskarð í 940 metra hæð. Tæpir þrír kílómetrar eru í beina línu milli Svarthöfða og Vatnajökuls. Við förum áfram suður skarðið um Köldukvíslarbotna nálægt jöklinum, austan við Auröldu. Þar endar þessi leið í 900 metra hæð og við tekur leiðin um Hamarskrika suður í Jökulheima. Héðan eru fimm kílómetrar að fjallaskálanum Hágöngur við Hágöngulón.

42,9 km
Þingeyjarsýsla, Rangárvallasýsla

Ekki fyrir hesta

Skálar:
Hágöngur: N64 34.353 W18 04.238.

Nálægir ferlar: Öxnadalsdrög, Hamarskriki.
Nálægar leiðir: Gæsavötn, Kambsfell, Hágöngulón.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Víkingslækur

Frá Steinkrossi á Heklubraut um Víkingslæk að Þingskálum við Ytri-Rangá.

Víkingslækur er landnámsjörð. Bæjarhús voru þar færð undan sandfoki af Hekluhrauni. Þegar núverandi Víkingslækur, sem hér er getið, fór í eyði, fluttist fólkið að Þingskálum við Ytri-Laxá.

Förum frá Steinkrossi vestnorðvestur um Botnahraun og síðan norðnorðvestur að eyðibýlinu Víkingslæk. Þaðan vestnorðvestur yfir þjóðveg 268 og áfram að Þingskálavaði á Ytri-Rangá.

6,8 km
Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Heklubraut, Knafahólar.
Nálægar leiðir: Kirkjustígur, Réttarnes, Stóruvallaheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Veiðivötn

Frá Skyggnisvatnsleið um Veiðivötn að Austurbjallavötnum.

Á veidivötn.is segir m.a.: “Veiðivötn er vatnaklasi norðan Tungnaár á Landmannaafrétti. Alls eru vötn og pollar á svæðinu 50 talsins. Vötnin liggja í aflangri dæld sem er breiðust um 5 km og um 20 km löng frá Snjóölduvatni í suðvestri að Hraunvötnum í norðaustri. Þau eru í 560-600 m hæð yfir sjávarmáli. Austan Veiðivatna liggur Snjóöldufjallgarður en Vatnaöldur vestan þeirra. Mörg Veiðivatnanna eru gígvötn mynduð í Veiðivatnagosinu 1477. Þau eru flest lítil um sig, innan við 1 km2, en oft hyldjúp. Eskivatn og Nýjavatn eru dýpst, um og yfir 30 m djúp. Stærstu vötnin eru Litlisjór, Grænavatn, Ónýtavatn og Snjóölduvatn. Litlisjór er langstærstur um 9,2 km2, Grænavatn 3,3 km2 og Snjóölduvatn 1,6 km2. Þessi vötn eru ekki gígvötn og voru til fyrir 1480.”

Byrjum á mótum Veiðivatnaleiðar og Skyggnisvatnsleiðar. Förum suðaustur um Fossvatnakvísl að Litla-Fossvatni. Síðan til suðvesturs norðan og vestan við Langavatn og Eskivatn. Næst suður og síðan vestur að Nýjavatni, suður með Nýjavatni austanverðu og vestur að Ampapolli. Þaðan suður að Snjóölduvatni og síðan suðvestur með því að vestan. Suðsuðvestur frá því að Austurbjallavötnum norðanverðum.

21,3 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Veiðivötn: N64 07.982 W18 47.665.
Tjarnarkot: N64 07.982 W18 47.665.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Jökulheimar.
Nálægar leiðir: Skyggnisvötn, Snjóalda, Grænavatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Valafell

Frá fjallaskálanum í Áfangagili um Tagl og Valagjá að Landmannaleið.

Valagjá er risavaxin sprengigjá í stefnunni norðaustur-suðvestur, sem skerst inn í Valahnúk. Þarna eru úfið hraun og skarpir litir.

Förum frá fjallaskálanum í Áfangagili til norðvesturs norður fyrir Valafell og síðan austur að Tagli. Þaðan suðaustur að þverleið í Valagjá. Förum þá leið suðvestur um Valagjá í 500 metra hæð og síðan áfram suðvestur og síðast vestur á Landmannaleið undir Valahnjúkum.

23,5 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Áfangagil: N64 06.051 W19 34.499.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hraunin, Rangárbotnar, Rauðkembingar, Fjallabaksleið nyrðri, Sauðleysur, Dyngjur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Tröllaskógur

Frá Koti á Heklubraut um Hekluhraun að eyðibýlinu Árbæ við Eystri-Rangá.

Tröllaskógur heitir eitt 16-18 eyðibýla, sem staðið hafa norðan og norðaustan Keldna, þar sem nú er Hekluhraun.

Förum frá Koti á Heklubraut suðaustur um Pálssteinshraun og um Herjólfshíði að eyðibýlinu Tröllaskógi. Þaðan suðvestur að eyðibýlinu Litla-Skógi og loks suður að eyðibýlinu Árbæ við Eystri-Rangá.

13,1 km
Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Knafahólar, Hungurfit, Grasleysufjöll.
Nálægar leiðir: Geldingavellir, Reynifell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Sveinstindur

Frá Langasjávarleið að Sveinstindi við Skaftá.

Á nat.is segir svo: “Sveinstindur (1090m) er áberandi, keilulagaður tindur í Fögrufjöllum við suðurenda Langasjávar á Skaftártunguafrétti. Hann er hæstur fjalla á þessu svæði, sést víða að og útsýni af honum er mikið. Fjallið er auðgengt. Þorvaldur Thoroddsen gaf því nafn Sveins Pálssonar læknis og náttúrufræðings.”

Förum frá Langasjó til suðurs vestur með Sveinstindi að Hellnafjalli. Til suðausturs norðan við Hellnafjall, og síðan norður að Sveinstindi.

7,6 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Sveinstindur: N64 05.176 W18 24.946.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Langisjór, Breiðbakur, Skælingar.
Nálægar leiðir: Faxasund.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Strútslaug

Frá fjallaskálanum við Álftavötn um Strútslaug að Mælifelli á Mælifellssandi.

Á vef Útivistar segir þetta um laugina: “Rangvellingar hafa kallað hana Hólmsárbotnahver en Skaftfellingar kalla hana Strútslaug og virðist sem það nafn hafi unnið sér fastan sess meðal landsmanna. Fyrir tíma sauðfjárveikivarna gekk fé Rangvellinga og Skaftfellinga töluvert saman á þessum slóðum og smöluðu þá þessar tvær fylkingar þetta svæði saman. Á grasbala ofan við Strútslaug var fyrrum náttstaður gangnamanna. Þessi grasbali gegnir enn því hlutverki að hvíla lúin bein göngumanna, en nú eru það tjöld þeirra sem ganga sér til skemmtunar, sem á honum rísa. “

Förum frá fjallaskálanum við Álftavötn vestur sléttuna og sveigjum við Eldgjá til norðvesturs. Förum nálægt suðurfjallinu og sveigjum til vesturs og suðvesturs inn í suðurjaðar Ófærudals. Síðan áfram suðvestur í Hólmsárbotna norðan Hólmsárlóns og þaðan vestur í Strútslaug sunnan við Laugarháls. Þar er fjallaskálinn Hólmsárbotnar. Frá lauginni förum við suðsuðvestur upp úr dalnum og förum síðan til suðurs um Skófluklif norðvestan Strúts og að fjallaskálanum Strúti. Þaðan förum við suður á Mælifellssand og fyrir austurenda Veðurháls og fyrir vestan Mælifell að þjóðvegi F210 yfir Mælifellssand.

24,7 km
Skaftafellssýslur

Skálar:
Álftavatnakrókur: N63 53.851 W18 41.445.
Hólmsárbotnar: N63 52.707 W18 55.905.
Strútur: N63 50.317 W18 58.519.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Mælifellssandur.
Nálægar leiðir: Goðaland, Flosavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Stóruvallaheiði

Frá Þingskálum á Rangárvöllum um Stóruvallaheiði að Leirubakka í Landssveit.

Góður moldarvegur svigar um hólana.

Förum frá Þingskálum vestur að Ytri-Rangá og norður um vað á ánni. Þaðan norður í Hrólfsskálahelli og vestur í Gróf og norður í Bjalla. Þaðan norðaustur um Stóruvallaheiði að Stóruvöllum og síðan að þjóðvegi 26 austan Skarðs. Förum með þjóðveginum austur að Leirubakka.

18,1 km
Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Knafahólar, Heklubraut, Rangárbotnar.
Nálægar leiðir: Víkingslækur, Réttarnes, Skarfanes.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Sprengisandur

Frá Suðurlandi til Norðurlands milli Hofsjökuls og Tungnafellsjökuls.

Allar aldir hafa verið tvær leiðir um Sprengisand fyrir utan Bárðargötu. Önnur leiðin lá úr byggð vestan Þjórsár og hin austan Þjórsár. Vestari leiðin hefur einkum verið notuð af hestafólki, því að hún er grónari. Hér er vestari leiðinni lýst frá suðri til norðurs undir heitunum Þjórsárdalur, Skúmstungur, Kóngsás, Tjarnarver, Fjórðungssandur, Arnarfell, Þjórsárkvíslar, Háumýrar, Háöldur og Kiðagil. Austurleiðinni er lýst undir heitunum Nýidalur og Fjórðungsalda. Sjáið leiðarlýsingar Sprengisands á viðkomandi stöðum. Sprengisandur var kallaður Gásasandur og Sandur í Sturlungu. Á fyrsta nákvæma Íslandskortinu frá 1849 eru vestari og eystri leiðirnar tengdar saman um Sóleyjarhöfðavað.

Sjá að öðru leyti texta um einstakar leiðir á Sprengisandi. Eldra nafn á Sprengisandi er Gásasandur, sem margir telja að hefjist norðan Háumýra, efsta gróðurlendis á Holtamannaafrétti. Á Sturlungaöld var oft farinn Sandur, sem kallað var. Leiðin yfir Sprengisand er forn, þótt þar hafi ætíð verið færri á ferð en yfir Kjöl og Kaldadal. Það er vegna þess að mun lengra er á milli áfangastaða. Vegalengdin milli byggða á Norður- og Suðurlandi er líka lengri á Sprengisandi. Sprengir er talinn vera suðvestan Fjórðungsvatns, þar sem hestar sprungu á reiðinni, þegar fólk reið eins hratt og það gat til að komast hjá því að hitta illar vættir, útilegumenn, drauga eða álfa.

? km
Þingeyjarsýslur, Rangárvallasýsla

Nálægir ferlar: Háöldur, Háumýrar, Nýidalur, Fjórðungsalda.
Nálægar leiðir: Þjórsárdalur, Skúmstungur, Kóngsás, Tjarnarver, Fjórðungssandur, Arnarfell, Þjórsárkvíslar,Kiðagil, Gásasandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Sóleyjarhöfðavað

Frá fjallaskálanum í Tjarnarveri að fjallaskálanum Bólstað við Sóleyjarhöfða.

Hluti vörðuðu Sprengisandsleiðarinnar. Kaflarnir eru, taldir frá suðri: Þjórsárdalur, Skúmstungur, Kóngsás 1, Tjarnarver, Sóleyjarvað. Handan Sóleyjarvaðs tekur við slóðin Háumýrar og síðan Háöldur til Laugafells eða Gásasandur til Þingeyjarsýslu.

Sóleyjarhöfði er austan vaðsins. Nafnið stafar af gulum mosagróðri.

Förum frá fjallaskálanum í Tjarnarveri vörðuðu reiðleiðina norður með Þjórsá að vaði hjá fjallaskálanum Bólstað við Sóleyjarhöfða. Vaðið er traust, en djúpt. Það er riðið í tveimur kvíslum um eyri í miðri ánni. Vestari kvíslin er miklu meiri. Á vaðinu sjálfu er góður hraunbotn, en ofan og neðan þess er hætt við sandbleytum.

3,5 km
Árnessýsla, Rangárvallasýsla

Erfitt fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Tjarnarver : N64 31.948 W18 49.139.
Sóleyjarhöfði: N64 33.110 W18 46.270.

Nálægir ferlar: Háumýrar.
Nálægar leiðir: Tjarnarver, Blautakvísl, Arnarfellsalda.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Vörðuvinafélagið og Herforingjaráðskort

Snjóalda

Frá Veiðivatnaleið um Snjóöldufjallgarð að Tungnaá.

Í skarðinu milli Snjóöldu og Snjóöldufjallgarðs fundust mannvistarleifar útilegumanna, tveir kofar með svefnbálkum og ýmsir smáhlutir, einkum til veiðiskapar.

Byrjum á Veiðivatnaleið hjá Polli milli Arnarpolls að norðan og Snjóölduvatns að sunnan. Förum til austnorðausturs norðan við Ónýtavatn og Skálafell. Beygjum til suðurs fyrir austan Skálafell og förum suður og suðaustur yfir Snjóöldufjallgarð, að Tröllunum suðaustan við Snjóöldufjallgarð. Að lokum norðaustur meðfram Tungnaá.

12,7 km
Rangárvallasýsla

Jeppafært

Nálægar leiðir: Veiðivötn, Grænavatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort

Skælingar

Frá Hólaskjóli um fjallakofann í Skælingum að Sveinstindi við Langasjó.

Skælingar eru giljóttir og grónir móbergshryggir, sem eru víða seinfarnir vegna mislendis. Þaðan er gott útsýni til Sveinstinds og Lakagíga. Stóragil í Skælingum er þyrping hraundranga.

Förum frá fjallaskálanum í Hólaskjóli í 330 metra hæð og norður Fjallabaksleið upp undir Eldgjá. Beygjum þar inn á þverleið til austurs að Gjátindi. Förum þá leið upp hlíðina og síðan þverleið til suðurs niður á flatlendið við Skaftá. Förum norðaustur með ánni að fjallaskálanum í Skælingum í 460 metra hæð. Förum síðan upp hlíðina til norðausturs og síðan norðurs og loks til vesturs að Blautulónum. Förum norður með austurjaðri lónanna, sums staðar í vatnsborðinu. Komum þar á jeppaveg frá Fjallabaksleið inn að Langasjó. Fylgjum þeim vegi norður og norðaustur, hæst í 700 metra hæð, að Hellnafjalli. Förum þar suður afleggjara vestan og sunnan við Hellnafjöll og síðan norðaustur að Skaftá að fjallaskálanum Sveinstindi undir samnefndu fjalli, í 600 metra hæð.

40,5 km
Rangárvallasýsla, Skaftafellssýslur

Skálar:
Hólaskjól: N63 54.441 W18 36.235.
Skælingar: N63 58.831 W18 31.295.
Sveinstindur: N64 05.176 W18 24.946.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Fjallabak nyrðra, Landmannaleið, Hólaskjól, Mælifellssandur, Breiðbakur.
Nálægar leiðir: Gjátindur, Sveinstindur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort