6. Íslendingaslóðir – Nationalmuseet

Borgarrölt
Nationalmuseet, København

Nationalmuseet

Við göngum áfram sömu leið og rakin er í fremri leiðarlýsingu og förum yfir Marmarabrú eftir Nýju Vesturgötu að danska þjóðminjasafninu, sem hefur að geyma fjölda íslenzkra forngripa. Þar eru íslenzkir kaleikar, víravirki, útskurður, drykkjarhorn, mítur, klæði, annar Grundarstóllinn og stóll Ara Jónssonar lögmanns, svo eitthvað sé nefnt.

Í framhaldi af Nýju Vesturgötu er Dantes Plads, þar sem er til húsa sendiráð Íslands.

Ef við förum kringum þjóðminjasafnið og göngum Stormgötu í átt til síkis, sjáum við, að hluti safnsins nær yfir Stormgötu 5, þar sem áður var hús áðurnefnds Jóns Eiríkssonar, deildarstjóra í rentukammeri, meðdómara í hæstarétti og yfirmanns Konunglegu bókhlöðunnar. Jóni varð enn kaldara en Grími konungsmönnum hjá, því að hann hvarf á Löngubrú, saddur valdatafls.

Neðst við Stormgötu, rétt við síkið, var einu sinni kráin Kristín doktor, þar sem Jón Indíafari lenti í barsmíðum og þar sem Halldór Laxness lætur Jón Marteinsson sitja að drykkju með Jóni Hreggviðssyni

Næstu skref

5. Íslendingaslóðir – Proviantgården

Borgarrölt
Proviantgården, København

Proviantgården

Þegar við göngum vinstra megin hallar inn í Þjóðþingsport og þaðan til vinstri inn í rósagarð Konunglegu bókhlöðunnar, fækkar ekki gömlum slóðum Íslendinga. Að baki okkur, tengt höllinni, er Leyndarskjalasafnið, sem var í umsjá prófessoranna Árna Magnússonar 1715-1719, Gríms Thorkelín 1791-1829 og Finns Magnússonar 1829-1847.

Vinstra megin er Próvíanthúsið með Landmælingastofnun danska herforingjaráðsins, sem gerði út ótal liðsforingjaefni til vandaðrar kortagerðar af Íslandi. Í fjarlægari enda þess var Árnasafn til húsa 1957-1981 undir forsjá Jóns Helgasonar prófessors. Það er nú flutt út á Amákur.

Det kongelige Bibliotek, København

Det kongelige Bibliotek

Fyrir enda garðsins er svo Konunglega bókhlaðan, þar sem Sigfús Blöndal orðabókarhöfundur var safnvörður og Jón Eiríksson forstöðumaður. Þar eru geymd merk bréfasöfn Íslendinga, svo sem Finns Jónssonar, Þorvaldar Thoroddsen og Boga Melsted. Ennfremur eru þar ritgerðir um Ísland frá 18. öld.

Fjórða hliðin að garðinum er Týhúsið, þar sem margir Íslendingar þjónuðu áður fyrr í lífverði konungs. Til mestra metorða komust Magnús Arason verkfræði-lautinant á fyrri hluta 18. aldar og Ketill Jónsson lautinant, sem féll í orrustu 1811 undir tignarheitinu “von Melsted”.

Hér þjónuðu þrír Íslendingar, sem áttu það sameiginlegt að hafa komizt alla leið til Indlands á skipum hans hátignar og að hafa ritað ævisögur sínar. Kunnastur þeirra er Jón Ólafsson Indíafari, en hinir eru Eiríkur Björnsson og Árni Magnússon frá Geitastekk

Næstu skref

4. Íslendingaslóðir – Kansellíið

Borgarrölt

Hallarhólmi

Kanselli & Rentekammer, København

Kanselli & Rentekammer

Við göngum götuna yfir Kauphallarbrú og út á Hallarhólma. Við förum bak við Kauphöllina og göngum Hallarhólmagötu í átt til Kristjánsborgar. Þar er á vegi okkar Kansellíið, en þaðan var Íslandsmálum stjórnað á 18. og 19. öld.

Atvinnumál og fjármál voru í rentukammerinu í vinstri álmu og dóms-, kirkju- og fræðslumál í kansellíinu í hægri álmu.

Hér hafa ótal Íslendingar unnið og sumir komizt til metorða.

Jón Eiríksson var deildarstjóri í rentukammeri frá 1772 til dauðadags og Vigfús Thorarensen varð fulltrúi í kansellíi 1840. Við stofnun Íslandsdeildar 1848 varð Brynjólfur Pétursson forstöðumaður hennar, síðan Oddgeir Stephensen, Jón Hilmar Stephensen og síðastur Jón Sveinbjörnsson, sem varð konungsritari 1919.

Christiansborg, København

Christiansborg

Nú verður fyrir okkur Kristjáns-borg. Þar var utanríkisráðuneytið, sem varð Grími Thomsen tilefni línanna: “…kaldara und rifjum er konungsmönnum hjá, / kalinn á hjarta þaðan slapp ég”. Grímur var þá fluttur heim til Bessastaða, eftir að hafa gengið metorðastigann í utanríkisþjónustunni og endað sem virðulegur “legationsråd”.

Hér undir höllinni sjást enn leifar Bláturns, hins fræga fangelsis, sem hýsti hina fínni afbrotamenn á borð við hirðmenn og drottinsvikara. Þar sat Jón Indíafari fanginn um skeið. Og þar datt niður úr turninum um miðja sautjándu öld Guðmundur Andrésson, er þar sat vegna boðunar fleirkvænis. Hann slapp eins og Jón og lifði að semja íslenzk-latneska orðabók.

Næstu skref

Þverstæður Persíu

Punktar

Persía hefur verið menningarríki í þúsundir ára. Þar voru mannréttindi fyrst lögfest á tíma Kýrosar, fyrsta keisarans. Síðan hafa ríki risið og hnigið í því landi, sem nú heitir Íran. Borgir landsins hafa vestrænan brag. Þar er Esfahan, fegursta miðborg heims. Hávaxin tré í röðum á brúnum gangstétta og stórir, vel hirtir garðar á jaðri eyðimerkur. Íran býr við blöndu klerkaveldis og auðræðis. Hinn mikli ayatolla er ofar forseta og ráðherrum, ræður öllu. Allt ritskoðað, allt niður í boðskort til brúðkaups. Samhliða er risin millistétt vel stæðra góðborgara. Ekki veit ég, hversu lengi þessar þverstæður Persíu halda velli.

3. Íslendingaslóðir – Holmens kirke

Borgarrölt

Hólmsinsgata og Brimarhólmur

Þegar íslenzkir námsmenn voru búnir að spássera á Strikinu og fá sér nokkra bjóra við Kóngsins Nýjatorg, læddust freistingarnar að sumum þeirra. Þeir komu sér suður í lastahverfið milli torgs og síkis, þar sem voru hinar illræmdu götur, Hólmsinsgata og Laxagata. Við höldum í humátt á eftir.

Bremerholm, København

Bremerholm

Við göngum Laxagötu út að Hólmsinsgötu, sem nú heitir raunar Brimarhólmur. Við Laxagötu eru hús frá miðri síðustu öld, en við Brimarhólm eru lítil merki um hinn sterka segul, sem á síðustu öld sogaði til sín ótal íslenzka erfiðismenn drykkjuskapar og kynlífs.

Einn þessara erfiðismanna var Ögmundur Sivertsen, sem orti svo, líklega liggjandi í sárasótt á sjúkrahúsi: “Kaupinhafn er slæmur staður,
/ Hólmsinsgötu þý og þvaður / þér af alhug forðast ber”. Annar gestur barnslegri, Eiríkur frá Brúnum, lýsti “kvennabúrum” götunnar með lotningarfullum ævintýraorðum í ferðasögu sinni.

Stundum kom fyrir, að ölóðir Íslendingar féllu eða fleygðu sér í Hólmsinssíki, beint undan Hólmsinsgötu, þar sem nú er komin breiðgata. Þar fundust lík Högna Einarssonar 1832 og Skafta T. Stefánssonar 1836. Lík Jóhanns Halldórssonar fannst nokkru vestar, undan Gömluströnd.

Við förum yfir Hólmsinssíki og inn Hafnargötu. Okkur á vinstri hönd var um langan aldur fangelsi íslenzkra lífstíðarfanga, Brimarhólmur. Það var við lýði frá miðri 16. öld til 1741, er fangarnir voru fluttir í Stokkhúsið. Um tíu af hundraði fanganna voru Íslendingar og unnu við skipasmíðar eða réru á galeiðum.

Þetta var þrælahald, sem undantekningarlítið dró menn til dauða á skömmum tíma. Árni frá Geitastekk var þó svo heppinn að losna og ná að skrifa ævisögu sína um fjölbreytta reynslu frá Indlandi til Brimarhólms.

Holmens Kirke,København 2

Holmens Kirke

Holmens kirke

Skemmtilegri minningar eru tengdar kirkjunni á hægri hönd, Hólmsinskirkju. Þar voru um tíma varðveittar bækur Árna Magnússonar eftir brunann 1728. Og þar var skírður og fermdur Jón Vestmann, 33 ára, 1644 eða 1645, eftir tæplega tveggja áratuga dvöl í barbaríinu, þar sem hann var m.a. skipherra sjóræningja.

Hér í kirkjunni gekk til spurninga tossi nokkur og pörupiltur, sonur Gottskálks frá Miklabæ Þorvaldssonar, Bertel Thorvaldsen, sem síðar varð heimsfrægur listamaður. Og hér voru prestar þeir Þorgeir Guðmundsson 1831-1839 og Haukur Gíslason 1915-1946.

Í Hafnargötu 19 stendur enn húsið, þar sem Tryggvi Gunnarsson Gránufélagsstjóri og síðar bankastjóri hafði aðsetur á mektardögum sínum í Kaupmannahöfn. Þaðan var stutt að ganga til Kauphallarinnar, en þangað hefur Einar Benediktsson þó trúlega meira vanið komur sínar.

Næstu skref

2. Íslendingaslóðir – Hviids Vinstue

Borgarrölt
Østergades Vinhandel, København

Genelli

Við höldum nú af stað frá Angleterre og göngum yfir enda Austurgötu að Østergades Vinhandel. Þar var á síðustu öld veitingahúsið Genelli, sem Íslendingar kölluðu Njál og sóttu stíft.

Hviids Vinstue, bar, København

Hviids Vinstue

Einn af hinum kunnari Njálsmönnum var “Frater”, sem raunar hét Magnús Eiríksson, en fékk viðurnefnið af því að kalla viðmælendur sína “bræður”. Hann var vinsæll og ljúfur maður, sem sat hér með nokkrum kynslóðum Hafnarstúdenta. Hann var guðfræðingur að mennt og skrifaði marga ritlinga, þar sem hann lýsti Martensen Sjálandsbiskupi sem persónugerðum antikristi og fógeta andskotans hér á jörð.

Við förum suður torgið að Litlu Kóngsinsgötu, þar sem enn er í kjallara kráin Hvítur. Þar sat Jónas Hallgrímsson löngum einn að drykkju og þaðan er hann sagður hafa komið, þegar hann fótbrotnaði í stiga heima hjá sér og hafði bana af. Og hér hangir uppi mynd Örlygs Sigurðssonar af Jónasi, Sverri Kristjánssyni, Árna Pálssyni og Jóhanni Sigurjónssyni að tímaskökku sumbli.

Hér við hlið Hvíts, á nr. 21, var Vincent, annar samkomustaður Íslendinga á síðustu öld. Frægari er þó Mini, sem Íslendingar kölluðu Mjóna, hér á horninu á móti Hvíti, þar sem nú heitir Stephan á Porta. Þetta var vinsælasti samkomustaður Íslendinga um miðja síðustu öld, svo vinsæll, að sumir þeirra virðast hafa varið þar lunganum úr deginum.

Einna harðastir Mjónamanna voru Gísli Brynjólfsson og Brynjólfur Pétursson. Aðrir þaulsætnir voru m.a. Jón Sigurðsson forseti, Konráð Gíslason, Grímur Thomsen og Benedikt Gröndal. Yfirleitt voru hér þeir, sem komnir voru til embætta og tekna, og virðast hafa lifað hér í hóglífi í mat og drykk.

Næstu skref

3. Christianshavn – Christiania

Borgarrölt
Christiania, København

Christiania

Handan kirkjunnar beygjum við til vinstri í Prinsessegade og förum hana að innganginum í Kristjaníu (Christiania) á horni Bátsmannsstrætis (Bådmandsstræde). Kristjanía hefur verið eins konar fríríki ungs utangarðsfólks síðan 1971, þegar þessar 170 húsa herbúðir voru teknar úr notkun og ætlaðar til niðurrifs.

Eftir miklar deilur hústökufólks og yfirvalda var Kristjaníutilraunin samþykkt í verki tímabundið. Síðan hefur Kristjanía verið litríkur hluti borgarinnar, með ódýrum veitingahúsum og tilraunaleikhúsum. Borgaralegir gestir með myndavélar eru ekki vel séðir.Christiania, København 2

Síðast þegar við komum til Kristjaníu, virtist staðurinn þreytulegur og sóðalegur, skuggi fyrri frægðar. Aðeins fíknilyfjagrösin voru fersk og litsterk í skarpri birtu sunnudagsmorguns. Og smám saman hefur staðurinn fyllzt af fíkniefnasölum og smáglæpamönnum í stað margra hinna upprunalegu sakleysingja.

Þegar við komum til baka úr Kristjaníu, förum við til vinstri eftir Bátsmannsstræti að borgarvirkjum 17. aldar. 1659 vörðu virkin borgina gegn árás Svía, en nú hefur þeim verið breytt í friðsæla garða. Við röltum rólega um þá og hressum okkur eftir ömurleikann í Kristjaníu.

Þegar við komum að Overgaden Over Vandet, yfirgefum við virkin og höldum áfram eftir síkinu. Hérna megin eru mörg falleg, gömul hús, aðallega reist af kaupmönnum á 18. öld. Í nr. 10 var sýning fornminja frá Kristjánshöfn.

Að lokum lýkur göngunni á Kristjánshafnartorgi við horn Torvegade, þar sem við getum tekið leigubíl, strætisvagn eða gengið yfir Knippelsbro til meginlands Kaupmannahafnar.

Svo liggur leiðin um Íslendingaslóðir í borginni.

Næstu skref

C. Madrid – austurbær – Plaza de España

Borgarrölt, Madrid
Plaza de España, Madrid

Don Quixote og Sancho Panza á Plaza de España

Plaza de España

Við hefjum síðari gönguferðina á Spánartorgi, Plaza de España. Það er svo sem ekkert sérstaklega skemmtilegt torg, girt ljótum skýjakljúfum, en merkilegt fyrir bronzstyttuna af Don Quixote og Sancho Panza, sem er einkennistákn borgarinnar og ljósmyndað á kápu þessarar bókar. Yfir styttunni gnæfir minnismerki um rithöfundinn Miguel de Cervantes Saavedra, sem samdi söguna um þá félaga, hina dæmigerðu Kastilíubúa. Cervantes var uppi fyrir fjórum öldum, samtíðarmaður Shakespeares og sr Einars í Eydölum.

Gran Vía

Úr austurhorni torgsins liggur Gran Vía, helzta ferðamannagata borgarinnar. Við röltum upp brekkuna framhjá skrifstofum flugfélaga og skyndibitastöðum, hótelum og bílaleigum, bönkum og bíóhúsum. Þungamiðja götunnar er við Plaza de Callao, þar sem göngugöturnar tvær, Preciados og Carmen, liggja niður á Plaza Puerta del Sol. Töluvert austar rennur Gran Vía inn í götuna Alcalá. Alla þessa leið er yfirleitt þung umferð bíla með tilheyrandi flauti og taugaveiklun.

Gran Vía skiptir miðborginni í tvennt. Sunnan við er hin hefðbundna miðborg, sem lýst er í þessari bók, þar á meðal veitingastaðir, kaffihús, barir og skemmtistaðir ferðamanna og fullorðinna Spánverja, en norðan við eru staðir unga fólksins í Madrid, með hávaðasamri tónlist, fíkniefnasölu og umræðum um ljóðlist.

Næstu skref

2. Christianshavn – Christianshavn Kanal

Borgarrölt
Overgaden, København

Christianshavn Kanal / Overgaden Neden Vandet

Við lítum inn í bakgarð hússins nr. 44, þar sem áður voru búðir stórskotaliðsins, sem gerðar hafa verið að íbúðum. Síðan höldum við áfram Strandgötu að síkinu, þar sem við snúum til hægri. 

Frelserskirken, København

Frelserskirken

Ef við héldum hins vegar beint áfram Strandgade, mundum við koma á nr. 93 að sendiráði Íslands og hinu heimsfræga veitingahúsi Noma.

En við beygðum til hægri. Hér komum við í hinn amsturdammska hluta Kaupmannahafnar, hannaðan 1618 af hollenzkum arkitektum, sem hinn títtnefndi byggingastjóri og konungur, Kristján IV, kallaði til.

Þegar við komum að horni Overgaden Neden Vandet, fáum við fyrirtaks útsýni eftir Kristjánshafnarsíki (Christianshavn Kanal), þar sem nýmálaðir bátar hvíla við bakka og gömul hús og vöruskemmur kúra við götur. Við tökum eftir gálgum og blökkum efst á mjóum stöfnum húsanna.

Við snúum til vinstri yfir næstu brú, inn í Sankt Annægade, þar sem við virðum fyrir okkur hinn einstæða vindingsturn Frelsarakirkjunnar (Vor Frelsers Kirke). Honum var bætt 1747-52 við hlaðstílskirkjuna, sem er frá 1682. Spíran er 87 metra há, næsthæst í bænum á eftir ráðhústurninum. Við getum klifrað upp turninn að innanverðu og spíruna að utanverðu.

Næstu skref

Niðursoðið á fésbók

Ferðir

Ég bloggaði á ferðum mínum um Íran, en komst hvorki á fésbók né tíst vegna ritskoðunar klerkanna. Gat því ekki fengið viðbrögð við efninu. Það getur haft sína galla að loka fyrir athugasemdir í bloggi. Þær fékk ég áður í fésbók. Til að bæta úr skák ætla ég að sáldra inn í fésbókina tilvísun á þessi nokkura daga gömlu blogg. Einkum til að gefa fólki færi á að segja álit sitt undir nafni. Slíkt skiptir mig máli, því að ég les alltaf athugasemdir nafngreindra. Jafnvel þótt ég svari þeim ekki, enda er ekki markmið mitt að vera í ritdeilum. Mér nægir, að allir fái að setja fram sína skoðun á umræðuefninu hverju sinni.

Klerkar ritskoða mig

Fjölmiðlun

Hef verið þögull á fésbók og tísti í tvær vikur. Var á ferð um Íran, þar sem skrúfað er fyrir þessa miðla. Þurfti að fara á góð netkaffihús til að krókast kringum það. Nennti því ekki, sætti mig við að vera ritskoðaður svona. Í Íran ráða klerkar öllu. Vasast í ríkisrekstri, loka fésbók og tísti, ritskoða allt efni, frá boðskortum yfir í kvikmyndir. Strika út frambjóðendur að vild. Taka lítið mark á ákvörðunum þings og forseta. Þær stöðvast hjá erkiklerkinum mikla, sem veit allt betur um, hvað sé heppilegast fyrir lýðinn. Forskrifar jafnvel, að trúhneigður Saadi sé betra skáld en veraldlegur Omar, er orti um víf og vín.

B. Piazza San Marco

Borgarrölt, Feneyjar
Piazza San Marco, Feneyjar 2

Piazza San Marco

Fyrsta gönguleið okkar um Feneyjar er stutt. Hún liggur um Piazza San Marco = Markúsartorg og mannvirkin umhverfis það. Þetta er þungamiðja Feneyja, glæsilegt torg framan við Markúsarkirkju, 175 metra langt og 58-82 metra breitt, lagt stórum marmaraflísum með reitamynztri, að jafnaði fjölskipað ferðamönnum.

Þar leika hljómsveitir fyrir kaffihúsagesti og þaðan er gengið inn í Markúsarkirkju, Campanile, Torre dell’Orologio og nokkur söfn að auki. Í bogagöngunum, sem umlykja torgið, eru tízkuvöru- og minjagripabúðir. Þar eru frægustu kaffihús borgarinnar, Florian og Quadri. Rétt hjá torginu eru matstaðirnir Al Conte Pescaor, La Colomba, Do Forni, Harry’s Bar and Rivetta.

Í flóðum rennur sjór inn á torgið. Þá eru settar upp göngubrautir kruss og þvers, svo að fólk geti gengið um þurrum fótum. Þá er líka beztur friður fyrir þúsundum útbelgdra dúfna, sem eru helzta myndefni ferðamanna í Feneyjum.

Næstu skref

 

D. Barcelona

Borgarrölt, Madrid

Katalúnía

Barri Gótic, Barcelona

Barri Gótic

Katalúnía hefur löngum verið menningarafl á Spáni. Einkum var það áberandi um og eftir aldamótin 1900, þegar margir frægustu listamenn Spánar voru Katalúníumenn eða fluttust þangað til að njóta hins frjálsa borgarlofts. Hér bjuggu Pablo Picasso, Joan Miró, Gaudí, Salvador Dalí og Pablo (Pau) Casals. Á tímum falangista var Katalúníu haldið niðri, en eftir dauða Francos og endurnýjun lýðræðis hefur Katalúnía verið á fullri ferð í átt til aukins sjálfstæðis, eigin menningar og auðsöfnunar.

Frá Katalúníu koma zarzuela, blanda sjávarrétta, og bullabesa, sem er sjávarréttasúpa í stíl við hina frönsku bouillabaisse, en þó mun bragðsterkari. Skötuselur (rape) er vinsæll. Einn þjóðarrétta Katalúna er crema catalana, mjólkurbúðingur með karamelluskorpu.

Sardana dans, Catedral de Santa Eulalia, Barcelona

Sardana dans fyrir framan Catedral de Santa Eulalia

Katalúnía er land cava, freyðivíns, sem er framleitt á sama hátt og franskt kampavín. Freyðivín er víða selt á gangstéttum Barcelona og á sérstökum Xampanyerias-börum. Vín frá Katalúníu eru að jafnaði ekki eins góð og vín frá Rioja, en eru á uppleið, einkum vín frá Penèdes.

Barcelona

Barcelona er höfuðborg Katalúníu og hafnarborg við Miðjarðarhafið, önnur stærsta borg Spánar, með tæplega tveimur milljónum íbúa. Hún er mesta kaupsýslu- og bankaborg Spánar, miklu stríðari og spenntari en Madrid, líkari Norður-Evrópu, tengiliður Spánar við meginálfuna.

Fólk vinnur í Barcelona, en lifir í Madrid. Í Barcelona hangir fólk minna á kaffihúsum og flýtir sér meira á götunum. Þótt umferðaræðarnar séu mun víðari í Barcelona og breiðgötur skeri miðborgina kruss og þvers, er umferðin þar mun þyngri en í Madrid. Á annatímum virðist bílaþvagan standa nokkurn veginn í stað um allan miðbæ.

Þar sem uppgangur borgarinnar var mestur um og upp úr aldamótum, eru mörg fræg hús í borginni frá þeim skamma tíma, er ungstíll, það er Art Nouveau eða Jugendstil, fór eins og eldur í sinu um Evrópu. Því má sjá í Barcelona bankahallir, sem minna á draumóra úr ævintýrum, gerólíkar þunglamalegum bankakössum annars staðar í álfunni.

Katalúnska er víðast hvar að leysa kastilísku af hólmi í Barcelona. Hún er töluvert ólík kastilísku, undir meiri áhrifum af nábýlinu við Provence í Frakklandi. Ef leigubílar eru lausir, stendur ekki lengur “libre” í framglugganum, heldur “lliure”. Ný götuskilti á katalúnsku eru sem óðast að koma upp. Matseðlar eru í vaxandi mæli á katalúnsku. Í safni Joan Miró eru skýringar ekki á því, sem við þekkjum sem spönsku, heldur á heimatungunni. Allt bendir til, að spönsku verði smám saman rutt til hliðar í höfuðborg Katalúníumanna.

Næstu skref

Opinmynntur í Persíu

Ferðir

Íran kom mér á óvart, einkum vestrænt yfirbragð borganna. Tehran rúmar fimmtán milljónir manna. Umferðarþungi bíla er gífurlegur, en rennslið samt tiltölulega gott. Borgir landsins eru vel hirtar, hvarvetna garðar og gróðureyjar við götur og viðhald samgönguæða er gott. Glæsihótel og loftkældar rútur þjóna túristum, sem vilja skoða rústir fortíðar. Allir virðast vera í viðskiptum. Öðrum þræði er þetta samt hallærisríki undir stjórn klerka. Býr við verðlausan gjaldmiðil eins og Ísland og strangt eftirlit með rétttrúnaði. Opinmynntur fór ég víða um Persaveldi á tveimur vikum undir öruggri fararstjórn Jóhönnu Kristjónsdóttur

Hrunið þúsund-ára-ríki

Punktar

Hafandi verið heimsveldi í tvöþúsund ár hrundi Istanbul í heimsstyrjöldinni fyrri. Eins og fjölþjóðlegt heimsveldi Vínar hrundi á sama tíma. Öldum saman var Istanbul fjölþjóðleg. Í upphafi tuttugustu aldar voru fleiri íbúar mælandi á aðrar tungur en tyrknesku. Grikkir og Ítalir, Armenar og Gyðingar, Spánverjar og Persar, Kúrdar og Egyptar. Með hruni ottómana hrundi fjölþjóðin. Istanbul varð tyrknesk, þótt Kemal Ataturk bannaði fez og slæður, setti inn latínuletur í stað arabísks. Þegar fjölþjóðin hvarf, hvarf framtak og þekking. Heimsborgin glæsilega varð að þriðja heims fátækrahverfi, þar sem aukinn trúarofsi nærist.