D. Barcelona

Borgarrölt, Madrid

Katalúnía

Barri Gótic, Barcelona

Barri Gótic

Katalúnía hefur löngum verið menningarafl á Spáni. Einkum var það áberandi um og eftir aldamótin 1900, þegar margir frægustu listamenn Spánar voru Katalúníumenn eða fluttust þangað til að njóta hins frjálsa borgarlofts. Hér bjuggu Pablo Picasso, Joan Miró, Gaudí, Salvador Dalí og Pablo (Pau) Casals. Á tímum falangista var Katalúníu haldið niðri, en eftir dauða Francos og endurnýjun lýðræðis hefur Katalúnía verið á fullri ferð í átt til aukins sjálfstæðis, eigin menningar og auðsöfnunar.

Frá Katalúníu koma zarzuela, blanda sjávarrétta, og bullabesa, sem er sjávarréttasúpa í stíl við hina frönsku bouillabaisse, en þó mun bragðsterkari. Skötuselur (rape) er vinsæll. Einn þjóðarrétta Katalúna er crema catalana, mjólkurbúðingur með karamelluskorpu.

Sardana dans, Catedral de Santa Eulalia, Barcelona

Sardana dans fyrir framan Catedral de Santa Eulalia

Katalúnía er land cava, freyðivíns, sem er framleitt á sama hátt og franskt kampavín. Freyðivín er víða selt á gangstéttum Barcelona og á sérstökum Xampanyerias-börum. Vín frá Katalúníu eru að jafnaði ekki eins góð og vín frá Rioja, en eru á uppleið, einkum vín frá Penèdes.

Barcelona

Barcelona er höfuðborg Katalúníu og hafnarborg við Miðjarðarhafið, önnur stærsta borg Spánar, með tæplega tveimur milljónum íbúa. Hún er mesta kaupsýslu- og bankaborg Spánar, miklu stríðari og spenntari en Madrid, líkari Norður-Evrópu, tengiliður Spánar við meginálfuna.

Fólk vinnur í Barcelona, en lifir í Madrid. Í Barcelona hangir fólk minna á kaffihúsum og flýtir sér meira á götunum. Þótt umferðaræðarnar séu mun víðari í Barcelona og breiðgötur skeri miðborgina kruss og þvers, er umferðin þar mun þyngri en í Madrid. Á annatímum virðist bílaþvagan standa nokkurn veginn í stað um allan miðbæ.

Þar sem uppgangur borgarinnar var mestur um og upp úr aldamótum, eru mörg fræg hús í borginni frá þeim skamma tíma, er ungstíll, það er Art Nouveau eða Jugendstil, fór eins og eldur í sinu um Evrópu. Því má sjá í Barcelona bankahallir, sem minna á draumóra úr ævintýrum, gerólíkar þunglamalegum bankakössum annars staðar í álfunni.

Katalúnska er víðast hvar að leysa kastilísku af hólmi í Barcelona. Hún er töluvert ólík kastilísku, undir meiri áhrifum af nábýlinu við Provence í Frakklandi. Ef leigubílar eru lausir, stendur ekki lengur “libre” í framglugganum, heldur “lliure”. Ný götuskilti á katalúnsku eru sem óðast að koma upp. Matseðlar eru í vaxandi mæli á katalúnsku. Í safni Joan Miró eru skýringar ekki á því, sem við þekkjum sem spönsku, heldur á heimatungunni. Allt bendir til, að spönsku verði smám saman rutt til hliðar í höfuðborg Katalúníumanna.

Næstu skref