2.Markúsartorg – San Marco

Borgarrölt
San Marco, Feneyjar 6

San Marco

Við byrjum á því að skoða Markúsarkirkju.

Ævintýrahöll úr Þúsund og einni nótt, austræn kirkja í vestrænni kristni, reist 1063-1094 í býzönskum stíl, jafnarma kross að grunnfleti, með fimm hvelfingum á þaki. Hún er bezta dæmi Feneyja um hin miklu og aldalöngu sambönd borgríkisins við hinn gríska eða býzanska heim, löndin um austanvert Miðjarðarhaf og Miðausturlönd.

Öldum saman var hún hlaðin skarti og dýrgripum að innan sem utan. Þó varð hún ekki dómkirkja Feneyja fyrr en 1807, en hafði fram að því verið einkakirkja hertogans, oft notuð við móttöku sendiherra og annarra borgaralegra athafna. Í henni var val nýs hertoga kynnt fyrir borgurunum og frá henni var farið í skrúðgöngur um víðáttumikið Markúsartorg.

Steinfellumyndir einkenna kirkjuna að utan og innan, í veggjum, lofti og jafnvel gólfi. Þær eru frá ýmsum tímum, en flestar þó frá miðöldum, yfirleitt eftir óþekkta listamenn. Núverandi útlit fékk kirkjan á síðari hluta 15. aldar og fyrri hluta 16. aldar. Fræg eru bronzhrossin, sem voru áður yfir aðalinngangi, en eru nú geymd í hliðarsal að baki núverandi eftirlíkinga.

Næstu skref