2. Íslendingaslóðir – Hviids Vinstue

Borgarrölt
Østergades Vinhandel, København

Genelli

Við höldum nú af stað frá Angleterre og göngum yfir enda Austurgötu að Østergades Vinhandel. Þar var á síðustu öld veitingahúsið Genelli, sem Íslendingar kölluðu Njál og sóttu stíft.

Hviids Vinstue, bar, København

Hviids Vinstue

Einn af hinum kunnari Njálsmönnum var “Frater”, sem raunar hét Magnús Eiríksson, en fékk viðurnefnið af því að kalla viðmælendur sína “bræður”. Hann var vinsæll og ljúfur maður, sem sat hér með nokkrum kynslóðum Hafnarstúdenta. Hann var guðfræðingur að mennt og skrifaði marga ritlinga, þar sem hann lýsti Martensen Sjálandsbiskupi sem persónugerðum antikristi og fógeta andskotans hér á jörð.

Við förum suður torgið að Litlu Kóngsinsgötu, þar sem enn er í kjallara kráin Hvítur. Þar sat Jónas Hallgrímsson löngum einn að drykkju og þaðan er hann sagður hafa komið, þegar hann fótbrotnaði í stiga heima hjá sér og hafði bana af. Og hér hangir uppi mynd Örlygs Sigurðssonar af Jónasi, Sverri Kristjánssyni, Árna Pálssyni og Jóhanni Sigurjónssyni að tímaskökku sumbli.

Hér við hlið Hvíts, á nr. 21, var Vincent, annar samkomustaður Íslendinga á síðustu öld. Frægari er þó Mini, sem Íslendingar kölluðu Mjóna, hér á horninu á móti Hvíti, þar sem nú heitir Stephan á Porta. Þetta var vinsælasti samkomustaður Íslendinga um miðja síðustu öld, svo vinsæll, að sumir þeirra virðast hafa varið þar lunganum úr deginum.

Einna harðastir Mjónamanna voru Gísli Brynjólfsson og Brynjólfur Pétursson. Aðrir þaulsætnir voru m.a. Jón Sigurðsson forseti, Konráð Gíslason, Grímur Thomsen og Benedikt Gröndal. Yfirleitt voru hér þeir, sem komnir voru til embætta og tekna, og virðast hafa lifað hér í hóglífi í mat og drykk.

Næstu skref