3. Íslendingaslóðir – Holmens kirke

Borgarrölt

Hólmsinsgata og Brimarhólmur

Þegar íslenzkir námsmenn voru búnir að spássera á Strikinu og fá sér nokkra bjóra við Kóngsins Nýjatorg, læddust freistingarnar að sumum þeirra. Þeir komu sér suður í lastahverfið milli torgs og síkis, þar sem voru hinar illræmdu götur, Hólmsinsgata og Laxagata. Við höldum í humátt á eftir.

Bremerholm, København

Bremerholm

Við göngum Laxagötu út að Hólmsinsgötu, sem nú heitir raunar Brimarhólmur. Við Laxagötu eru hús frá miðri síðustu öld, en við Brimarhólm eru lítil merki um hinn sterka segul, sem á síðustu öld sogaði til sín ótal íslenzka erfiðismenn drykkjuskapar og kynlífs.

Einn þessara erfiðismanna var Ögmundur Sivertsen, sem orti svo, líklega liggjandi í sárasótt á sjúkrahúsi: “Kaupinhafn er slæmur staður,
/ Hólmsinsgötu þý og þvaður / þér af alhug forðast ber”. Annar gestur barnslegri, Eiríkur frá Brúnum, lýsti “kvennabúrum” götunnar með lotningarfullum ævintýraorðum í ferðasögu sinni.

Stundum kom fyrir, að ölóðir Íslendingar féllu eða fleygðu sér í Hólmsinssíki, beint undan Hólmsinsgötu, þar sem nú er komin breiðgata. Þar fundust lík Högna Einarssonar 1832 og Skafta T. Stefánssonar 1836. Lík Jóhanns Halldórssonar fannst nokkru vestar, undan Gömluströnd.

Við förum yfir Hólmsinssíki og inn Hafnargötu. Okkur á vinstri hönd var um langan aldur fangelsi íslenzkra lífstíðarfanga, Brimarhólmur. Það var við lýði frá miðri 16. öld til 1741, er fangarnir voru fluttir í Stokkhúsið. Um tíu af hundraði fanganna voru Íslendingar og unnu við skipasmíðar eða réru á galeiðum.

Þetta var þrælahald, sem undantekningarlítið dró menn til dauða á skömmum tíma. Árni frá Geitastekk var þó svo heppinn að losna og ná að skrifa ævisögu sína um fjölbreytta reynslu frá Indlandi til Brimarhólms.

Holmens Kirke,København 2

Holmens Kirke

Holmens kirke

Skemmtilegri minningar eru tengdar kirkjunni á hægri hönd, Hólmsinskirkju. Þar voru um tíma varðveittar bækur Árna Magnússonar eftir brunann 1728. Og þar var skírður og fermdur Jón Vestmann, 33 ára, 1644 eða 1645, eftir tæplega tveggja áratuga dvöl í barbaríinu, þar sem hann var m.a. skipherra sjóræningja.

Hér í kirkjunni gekk til spurninga tossi nokkur og pörupiltur, sonur Gottskálks frá Miklabæ Þorvaldssonar, Bertel Thorvaldsen, sem síðar varð heimsfrægur listamaður. Og hér voru prestar þeir Þorgeir Guðmundsson 1831-1839 og Haukur Gíslason 1915-1946.

Í Hafnargötu 19 stendur enn húsið, þar sem Tryggvi Gunnarsson Gránufélagsstjóri og síðar bankastjóri hafði aðsetur á mektardögum sínum í Kaupmannahöfn. Þaðan var stutt að ganga til Kauphallarinnar, en þangað hefur Einar Benediktsson þó trúlega meira vanið komur sínar.

Næstu skref