2. Madrid – austurbær – Paseo de Recoletos

Borgarrölt
Pósthúsið, Paseo de Recoletos, Madrid

Pósthúsið, Plaza de Cibeles

Paseo de Recoletos

Við staðnæmust á næsta torgi, Plaza de Cibeles, og virðum fyrir okkur pósthúsið handan götunnar. Sennilega er þetta virðulegasta pósthús veraldar, enn skrautlegra en gamla pósthúsið í Amsterdam, reist í brúðkaupstertustíl upp úr síðustu aldamótum. Á torginu er átjándu aldar stytta af frjósemisgyðjunni Kýbelu í vagni, sem er dreginn af ljónum.

Recoletos, Madrid

Hermannagrafreitur á Paseo de Recoletos

Við beygjum til vinstri eftir breiðgötunni Paseo de Recoletos til Kólumbusartorgs, Plaza de Cólon. Á þessari leið er allt fullt af útikaffihúsum á grænu eyjunni milli umferðaræðanna, þar á meðal Café d´Espejo í glerhúsi í ungstíl. Við þennan kafla er einnig kaffihúsið Gran Café de Gijón. Hávaðinn í bílunum drukknar í hávaðanum af samræðunum. Og bílaumferðin er á fullu alla daga, öll kvöld og langt fram eftir nóttu.

Næst Kólumbusartorgi að austanverðu er þjóðarbókhlaðan, Biblioteca Naçional, og fornminjasafnið, Museo Arqueológico Naçional. Þjóðarbókhlaðan snýr til vesturs að Paseo de Recoletos og fornminjasafnið til austurs að götunni Serrano, sem við munum ganga á eftir.

Cólon, Plaza de Cólon, Madrid

Cólon, Plaza de Cólon

Næst okkur á Plaza de Cólon gnæfir stytta af Kólumbusi yfir fossaföllum og menningarmiðstöð, sem er neðanjarðar undir torginu. Þar er sýningarsalur og leikhús. Inngangurinn er við styttuna. Innst á torginu eru ljósbrúnir minnisvarðar um fræga spánska landkönnuði.

Næstu skref