3. Christianshavn – Christiania

Borgarrölt
Christiania, København

Christiania

Handan kirkjunnar beygjum við til vinstri í Prinsessegade og förum hana að innganginum í Kristjaníu (Christiania) á horni Bátsmannsstrætis (Bådmandsstræde). Kristjanía hefur verið eins konar fríríki ungs utangarðsfólks síðan 1971, þegar þessar 170 húsa herbúðir voru teknar úr notkun og ætlaðar til niðurrifs.

Eftir miklar deilur hústökufólks og yfirvalda var Kristjaníutilraunin samþykkt í verki tímabundið. Síðan hefur Kristjanía verið litríkur hluti borgarinnar, með ódýrum veitingahúsum og tilraunaleikhúsum. Borgaralegir gestir með myndavélar eru ekki vel séðir.Christiania, København 2

Síðast þegar við komum til Kristjaníu, virtist staðurinn þreytulegur og sóðalegur, skuggi fyrri frægðar. Aðeins fíknilyfjagrösin voru fersk og litsterk í skarpri birtu sunnudagsmorguns. Og smám saman hefur staðurinn fyllzt af fíkniefnasölum og smáglæpamönnum í stað margra hinna upprunalegu sakleysingja.

Þegar við komum til baka úr Kristjaníu, förum við til vinstri eftir Bátsmannsstræti að borgarvirkjum 17. aldar. 1659 vörðu virkin borgina gegn árás Svía, en nú hefur þeim verið breytt í friðsæla garða. Við röltum rólega um þá og hressum okkur eftir ömurleikann í Kristjaníu.

Þegar við komum að Overgaden Over Vandet, yfirgefum við virkin og höldum áfram eftir síkinu. Hérna megin eru mörg falleg, gömul hús, aðallega reist af kaupmönnum á 18. öld. Í nr. 10 var sýning fornminja frá Kristjánshöfn.

Að lokum lýkur göngunni á Kristjánshafnartorgi við horn Torvegade, þar sem við getum tekið leigubíl, strætisvagn eða gengið yfir Knippelsbro til meginlands Kaupmannahafnar.

Svo liggur leiðin um Íslendingaslóðir í borginni.

Næstu skref