4. Íslendingaslóðir – Kansellíið

Borgarrölt

Hallarhólmi

Kanselli & Rentekammer, København

Kanselli & Rentekammer

Við göngum götuna yfir Kauphallarbrú og út á Hallarhólma. Við förum bak við Kauphöllina og göngum Hallarhólmagötu í átt til Kristjánsborgar. Þar er á vegi okkar Kansellíið, en þaðan var Íslandsmálum stjórnað á 18. og 19. öld.

Atvinnumál og fjármál voru í rentukammerinu í vinstri álmu og dóms-, kirkju- og fræðslumál í kansellíinu í hægri álmu.

Hér hafa ótal Íslendingar unnið og sumir komizt til metorða.

Jón Eiríksson var deildarstjóri í rentukammeri frá 1772 til dauðadags og Vigfús Thorarensen varð fulltrúi í kansellíi 1840. Við stofnun Íslandsdeildar 1848 varð Brynjólfur Pétursson forstöðumaður hennar, síðan Oddgeir Stephensen, Jón Hilmar Stephensen og síðastur Jón Sveinbjörnsson, sem varð konungsritari 1919.

Christiansborg, København

Christiansborg

Nú verður fyrir okkur Kristjáns-borg. Þar var utanríkisráðuneytið, sem varð Grími Thomsen tilefni línanna: “…kaldara und rifjum er konungsmönnum hjá, / kalinn á hjarta þaðan slapp ég”. Grímur var þá fluttur heim til Bessastaða, eftir að hafa gengið metorðastigann í utanríkisþjónustunni og endað sem virðulegur “legationsråd”.

Hér undir höllinni sjást enn leifar Bláturns, hins fræga fangelsis, sem hýsti hina fínni afbrotamenn á borð við hirðmenn og drottinsvikara. Þar sat Jón Indíafari fanginn um skeið. Og þar datt niður úr turninum um miðja sautjándu öld Guðmundur Andrésson, er þar sat vegna boðunar fleirkvænis. Hann slapp eins og Jón og lifði að semja íslenzk-latneska orðabók.

Næstu skref