2. Barcelona – Barri Gótic

Borgarrölt
Catedral de Santa Eulalia, Barcelona

Catedral de Santa Eulalia

Gamla hverfið í miðbænum, Barri Gòtic, er sérstaklega skoðunarvert.

Plaça de Catalunya

Við hefjum gönguferðina um gömlu Barcelona á Katalúníutorgi, Plaça de Catalunya, sem er miðtorg borgarinnar. Það er stórt, með gosbrunnagarði í miðju. Við austurhlið þess er vöruhúsið El Corte Inglés. Við göngum meðfram vöruhúsinu og áfram niður göngugötuna Portal de l’Ángel. Smám saman þrengist gatan og endar á Plaça Nova, þar sem dómkirkjuturnar blasa við.

Catedral de Santa Eulalia

Á vinstri hönd okkar er nútímalegt hús með stórri lágmynd eftir Picasso, sem sýnir Katalúna dansa þjóðdans sinn, Sardana. Framundan eru tveir turnar, leifar vesturports rómverska borgarmúrsins frá 4. öld. Hægra megin turnanna er biskupshöllin, Palau Episcopal, og vinstra megin er hús erkidjáknans, Casa de l’Ardiaca, upprunalega frá 11. öld, en endurnýjað á 16. öld.

Catedral de Santa Eulalia var reist á 14. öld og fyrri hluta 15. aldar í gotneskum stíl, en með því katalúnska sérkenni, að kirkjuskipið er aðeins eitt, án hliðarskipa. Inn á milli útveggjastoðanna er skotið ótal smákapellum. Kirkjan var gerð upp á 19. öld og ber að mestu upprunalegan svip. Inni í henni má meðal annars sjá 16. aldar kórhlíf úr hvítum marmara. Hægt er að ganga hægra megin úr dómkirkjunni inn í lítinn og friðsælan klausturgarð frá 15. öld, þar sem gæsir ganga á beit.

Skemmtilegast er að vera hér eftir kl. 12 á sunnudögum, þegar Sardana dansinn byrjar framan við dómkirkjuna. Það er katalúnskur hringdans, nokkuð flókinn, sem er eins konar sjálfstæðisyfirlýsing Katalúna. Á tímum Francos var dansinn bannaður og iðkaður í kyrrþey. Nú er hann framinn af aðvífandi kirkjugestum, ungum sem öldnum. Þessi óskipulagða uppákoma hefur jafnan mikil áhrif á ferðamenn.

Næstu skref