Greinar

Okkar menn dóu út

Greinar

Frændur okkar dóu út eftir að hafa lifað nærri fimm aldir á Grænlandi, hálfa sögu Íslandsbyggðar. Grænlendingar reyndu eins og Íslendingar að lifa af kvikfjárrækt, í stað þess að lifa af veiðum á fiski og sel og hval. Þeir eyðilögðu gróður landsins og hurfu síðan úr sögunni, aðeins okkur harmdauði.

Frændur okkar á Grænlandi lifðu á landinu, ekki í landinu, eins og Ínúítar gerðu. Okkar menn þrjóskuðust við að bera evrópsk klæði, nota trébáta og málmvopn, meðan Ínúítar voru í selskinni, réru kajökum og áttu fullkomnasta veiðivopn í heimi, skutulinn, úr beini. Enda lifðu Ínúítar af kuldann.

Í stað þess að læra af Ínúítum og gera við þá kaup, litu Grænlendingar niður á þá og kölluðu skrælingja. Í hroka sínum fluttu þeir inn kirkjuviði, rauðvín og steinda glugga í stað þess að flytja inn skipaviði og járn. Þeir gengu út í opinn dauðann, að því er virðist með grallarasöng á vör.

Þannig hefur raunar farið fyrir fleiri þjóðum, sem ekki kunnu að umgangast landið sitt. Þekktastir eru íbúar Páskaeyjar og fleiri eyja í Kyrrhafi. Þeir hjuggu og brenndu trén og létu kvikfénað rótbíta grösin. Á endanum sultu þeir í hel, af því að þeir kunnu ekki að laga sig að aðstæðum.

Við Íslendingar höfum fyrr og síðar ekki kunnað að laga okkur að landinu, lifa í því, heldur lifðum við á því alla tíð í hlutverki arðræningjans og nauðgarans. Landnámsmenn brutu skóg og brenndu, létu kvikfénað rótnaga haga og ristu þar á ofan torf af mýrum, allt án tillits til framtíðar.

Spellvirki Íslendinga ágerðust á tuttugustu öld, þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn fundu upp takmarkalausan stuðning við aukna framleiðslu búvöru án tillits til þess, hvort nokkur markaður væri fyrir hana. Nauðgun landvættanna keyrði úr hófi fram á þeirri öld.

Nú hefur þjóðin tekið upp nýja ofvirkni í landspjöllum, undir forustu Framsóknarflokksins. Ráðizt er af kappi á ósnortin víðerni landsins til að leggja þau undir vegi, raflínur, stíflur og miðlunarlón með fokleirsströndum. Kárahnjúkavirkjun þeirra er orðin alþjóðlegt hneyksli.

Næst ætla þeir að ráðast á Þjórsárver og Langasjó og Torfajökul, heimsfrægar náttúruperlur. Við kunnum ekki frekar en frændur okkar í Grænlandi að virða landvætti.

DV

Risaeðla í ríkiskerfinu

Greinar

Við eigum hátæknisjúkrahús, Landspítalann. Við getum stækkað hann, ráðið fleira fólk, keypt betri tæki. Þannig höfum við hátæknisjúkrahús, sem endist og endist. Það er hins vegar ekki bara óþarft, heldur beinlínis skaðlegt að kasta mörgum milljörðum í nýtt hátæknisjúkrahús, sem síðan þarf að reka.

Hátæknisjúkrahús eru staður fyrir flóknar pillugjafir og enn flóknari uppskurði með nýjustu tækjum fyrir tiltölulega fáa sjúklinga. Við erum komin vel á veg á því sviði, sérstaklega ef unnt væri að ná tökum á rekstri Landsspítalans, sem nú er rekinn með of stórri og flókinni yfirbyggingu fínimanna.

Lýður Árnason læknir hitti naglann á höfuðið í stuttri grein í Morgunblaðinu, þar sem hann benti á, að flöskuhálsinn væri ekki fólk með flókna sjúkdóma fyrir hátæknisjúkrahús. “Vandinn er elli, geðsjúkdómar, fíkniefni, hræðsla og leti.” Þetta eru verkefnin, sem heilsugeirinn þarf að ráða við.

“Meðan eldri borgarar liggja hver um annan þveran á ríkisstofnunum, fíklum blandað saman, gömlum sem ungum og allir settir undir sama hatt, geðveikum úthýst, deildum lokað og mannekla viðvarandi, finnst mér ótækt að bjóða upp á óráðshjal eins manns, sem þetta hátæknisjúkrahús … er”

Þetta er stutt og laggóð lýsing Lýðs á óleystum verkefnum í heilbrigðisgeiranum. Í stað þess að verja tiltölulega litlu fé til að leysa þau, þá er hlaupið í milljarðasukk, af því að Davíð Oddsson fékk krabbamein og heimtaði hátæknihús. Hvernig er það, erum við ekki laus við Davíð úr pólitík?

Ruglið um hátæknisjúkrahús hefur sefjað stjórnmálastétt landsins. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja hluta af söluverði Símans í þessa mestu sukkhugmynd síðustu áratuga. Ef ekki verður stungið við fótum, lendum við með nýja risaeðlu í ríkiskerfinu, án þess að heilsufar verði bætt.

Svo virðist sem ráðamönnum lands og borgar, svo og ýmsum valdamönnum í stjórnarandstöðunni á hvorum stað, sé fúlasta alvara í að knýja fram snarvitlausa framkvæmd og glata þar með tækifæri til að bæta heilsu þjóðarinnar, einkum elli hennar, geð hennar, fíknir hennar, hræðslu hennar og leti.

Lýður Árnason læknir hefur séð, að hugmyndin um sérstakt hátæknisjúkrahús er fjarstæða, sem leysir ekki vandræðin í heilbrigðismálum. Þjóðin þarf að stöðva þetta sukk.

DV

Loðmulla um Þjórsárver

Greinar

Með nýjum formanni hefur loðmullan minnkað aðeins í afstöðu Samfylkingarinnar til ósnortinna víðerna hálendisins. Nú er sagt, að það sé “álitin spurning, hvort ekki eigi að hætta við framkvæmdir” við Norðlingaölduveitu, sem spillir einni merkustu náttúruvin landsins, Þjórsárverum við Hofsjökul.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tekur þessa afstöðu á grunni þess, að Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Samvinnunefnd miðhálendisins vilja stöðva uppistöðulónið. Landsvirkjun og Skipulagsstjóri ríkisins vilja hins vegar knýja það fram í samræmi við harðpólitískan vilja ríkisstjórnarinnar.

Það er þægilegt fyrir hrædda Samfylkingu að vísa til vilja heimamanna sér til friðþægingar, en eigi að síður betra en ekki neitt. Samfylkingin hefur undanfarin ár verið hörmulega tvístígandi í afstöðu til stórvirkjana á ósnortnum viðernum, einkum til hinnar umdeildu Kárahnúkavirkjunar við Snæfell.

Formaður Samfylkingarinnar minnir á deilur og úfa, sem risu með þjóðinni vegna Kárahnjúkavirkjunar. Hún varar stjórnina við að ganga fram af hörku í Þjórsárverum í beinu framhaldi af fyrri deilum og telur slíkt ekki muni verða þjóðinni til gæfu. Þau orð hennar eru auðvitað hverju orði sannari.

Við höfum um langt árabil orðið að þola ríkisstjórn, sem eindregið telur, að allt sé nýtanlegt, þar á meðal viðkvæm náttúra ósnortinna víðerna landsins. Þessi hugmyndafræði langsoltins búra á ekki heima hjá þjóð, sem komin er inn á nýja öld, þar sem allar hátækniþjóðir heims hafna álverum.

Við þurfum á að halda stjórnmálamönnum, sem hafa kjark og reisn til að berjast gegn stóriðjustefnu, er getur hentað þriðja heims ríkjum, en ekki hátækniríkjum. Við höfum miklar efasemdir um Samfylkinguna, þrátt fyrir ummæli nýs formanns og viljum miklu sterkari sannfæringarkraft þar á bæ.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir talar að hætti refa í pólitík um áleitna spurningu án þess að þora að taka hreina afstöðu í málinu. Eftir yfirlýsinguna er ekki ástæða til að ætla, að Samfylkingin muni standa fast á verndun ósnortinna víðerna, ef hún kemur að myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Hingað til hefur Samfylkingin talið umhverfismál vera eins konar afgangsstærð í pólitíkinni. Í því felst loðmulla, sem hindrar, að landverndarfólk telji Samfylkinguna vera kost.

DV

Einkalíf er skálkaskjól

Greinar

Orðin persónuvernd og einkalíf koma ekki fyrir í bandarísku stjórnarskránni og ekki í þeirri frönsku heldur. Þessir hornsteinar lýðræðis eru frá þeim tíma, þegar menn vissu, að lýðræði felur í sér opnun þjóðfélagsins, “transparency”, svo að hægt sé að lýsa inn í margvísleg skúmaskot þjóðfélagsins.

Orðin persónuvernd og einkalíf eru skálkaskjól, einkum notuð af embættismönnum, stjórnmálamönnum, fjársýslumönnum og glæpamönnum, sem vilja ráðskast með mál, sem koma við fólki, án þess að fólk sé að skipta sér af. Þessir aðilar hafa t.d. komið upp stofnun, sem heitir Persónuvernd, óvinur lýðræðis.

Íslenzkir blaðamenn hafa tekið þátt í þessari atlögu að lýðræði. Í stað þess að búa til samskiptakerfi milli blaðamanna annars vegar og stjórnmála, fjölmiðlaeigenda og auglýsenda hins vegar, hafa þeir búið til siðareglur, sem miða að lokun þjóðfélagsins, að ótilhlýðilegri tillitssemi.

Lýðræði er orðið svo gamalt fyrirbæri, að menn eru farnir að gleyma hornsteinum þess. Sumir ímynda sér, að lýðræði sé lítið annað en frjálsar kosningar. Fáir muna eftir, að lýðræði er fyrst og fremst gegnsæi og í öðru lagi einföld aðferð við að skipta um ráðamenn án þess að beita byltingu.

Síðustu árin hefur orðið vart markvissra aðgerða til að draga úr lýðræði og gegnsæi með því að efla persónuvernd og búa til einkalíf, þar sem það var ekki áður. Nú nær einkalíf ekki bara til heimila, heldur einnig til bíla á almannafæri, til peninga, jafnvel til útgáfu diplómatapassa til gæludýra.

Hvarvetna tala andstæðingar lýðræðis um persónuvernd og einkalíf. Utanríkisráðuneytið felur diplómatapassa á bak við einkalíf. Stofnunin Persónuvernd gerir sér tíðrætt um svonefndan Karólínudóm, sem fól í sér útfærslu einkalífs í eins konar blöðru, sem fylgi fólki á leið um opinbera staði.

Jafnvel dómarar eru farnir að kveða upp úrskurði um einkalíf dómhúsa. Eiga þeir þó að vera öðrum kunnugri þeirri staðreynd, að lýðræði fól upphaflega í sér, að dómarar starfi fyrir opnum tjöldum og að dómar séu gegnsæir. Ef kveða á upp dóma í leyni, verða dómstólar að herdómstólum.

Kominn er tími til að spyrna við fótum, auglýsa framferði þeirra, sem reyna að draga úr lýðræði með því að búa sér til skálkaskjól undir yfirskini persónverndar og einkalífs.

DV

Íslendingar í súpunni

Greinar

Bandaríski herinn er að undirbúa brottför frá Afganistan. Donald Rumsfeld stríðsráðherra ætlar að lýsa yfir sigri og flýja með skottið milli fótanna. Brezki herinn ætlar að taka við vandræðunum með 4.800 hermönnum til viðbótar og aðstoð frá Atlantshafsbandalaginu, þar á meðal frá Íslandi.

Ástandið í Afganistan er að flestu leyti verra en það var fyrir innrás engilsaxa. Uppskera eiturlyfja er mörgum tugum sinnum meiri en hún var á valdatíma talíbana. Kvenréttindi eru nánast engin eins og þá. Stríðsherrar ráða lögum og lofum um nærri land allt og sitja þar að auki á þjóðþinginu.

Að forminu til stjórnar leppur Bandaríkjanna, Hamid Karazi, en hefur engin völd nema sums staðar í höfuðborginni. Völd hans ná til dæmis ekki til Kjúklingastrætis, þar sem íslenzkir gervihermenn voru sprengdir, þegar þeir voru að vernda teppakaup herforingja, sem síðan var kallaður heim.

Enginn getur rökstutt, hvernig 4.800 brezkir hermenn eiga að hafa stjórn á neinu í Afganistan. Bretar hafa gamla reynslu heimsveldis af, að slíkt er ófært með öllu. Þeir geta ekki knúið bændur í Afganistan til að láta af uppskeru, sem er eina lifibrauðið. Ætla þeir að borga bændum til að hætta?

Atlantshafsbandalaginu er stjórnað af Bandaríkjunum. Leppur þeirra var til skamms tíma Robertson lávarður og er nú Jaap de Hoop Scheffer. Þeir fylgja báðir bandarískri stríðsstefnu og reyna að draga treg Evrópuríki inn í styrjaldarævintýri í þriðja heiminum, fyrst í Afganistan og síðan í Írak.

Brezka stjórnin gerir allt, sem sú bandaríska segir henni að gera. Þess vegna mun Bretland sitja með vanda Afganistans í kjöltunni, þegar bandaríski herinn flýr burt á næsta ári. Forstjóri NATÓ er farinn að reyna að fá ríki bandalagsins til að létta undir með Bretum. Senn verður kallað á Ísland.

Afskipti Breta og Atlantshafsbandalagsins af Afganistan eru tóm vitleysa, enda er átakasvæðið kallað Langtburtistan, langt utan formlegs verksviðs NATÓ. Þar að auki er stefna styrjalda við þriðja heiminn vonlaus aðgerð, sem er að reka Bandaríkin á flótta fyrst frá Afganistan og næst frá Írak.

Verst er, að Ísland skuli vera flækt inn í skandalinn með því að senda gervihermenn. Á næsta ári verða þeir enn meira skotmark heimamanna, sem munu losa sig við allt útlent pakk.

DV

Hornsteinn hræsninnar

Greinar

Staksteinar eru áberandi yzt í hægri kanti á öftustu opnu Morgunblaðsins, eindreginn flokkspólitískur dálkur, sem gefur góða mynd af stöðu blaðsins. Það er málgagn flokksins enn þann dag í dag, þótt það hleypi inn öðrum skoðunum og víki örlítið af flokkslínu í leiðurum um afmörkuð mál.

Hræsni Moggans felst í að viðurkenna ekki stöðu sína. Það er svo aftur á móti hræsni þjóðfélagsins alls, þar á meðal vinstri manna, að hafa gert blaðið að leiðtoga lífs síns og meta ópólitísk mál á sama hátt og það. Þannig hefur orðið til séríslenzk skoðun á, hvernig fjölmiðlun eigi að vera.

Íslenzk fjölmiðlun má samkvæmt þessu ekki taka á neinum alvörumálum, sem valda sárindum einhverra, nema þá í sérstökum úttektum, sem koma sjaldan fyrir í blaðinu. Til dæmis má ekki segja frá einkamálum frægra Íslendinga, en hins vegar má segja frá einkamálum frægra útlendinga.

Að tilhlutan Morgunblaðsins hefur hálf þjóðin komið á fót siðaskoðun, sem viðurkennir aðeins gelda fréttamennsku, þar sem allt er slétt og fellt, nafnlaust og myndarlaust. Í þessum heimi er samþykkt, að rétt sé að sleppa svari við fyrstu spurningu vestrænnar blaðamennsku, sem er: Hver?

Auðvitað hafa fleiri aðilar en Mogginn komið að hræsninni. Fréttastofa ríkisvaldsins notar gamlar reglur, þar sem gæftir og aflabrögð eru ennþá hornsteinn tilverunnar. Inn hafa komið útvarp, sjónvarp og aðrir miðlar, sem eru í eðli sínu lamaðir, af því að þeir lifa bara á auglýsingum.

Það kostar meiri háttar átök í þjóðfélaginu að segja frá lækni, sem lék lausum hala á Landspítalanum og drap ófædd börn með misheppnuðum legvatnsprufum. Allir lögðust á eitt um að verja lækninn, þar á meðal siðanefnd blaðamanna, sem er orðin ein helzta vörn hræsninnar í þjóðfélaginu.

Morgunblaðið er raunar stofnun, ekki fjölmiðill. Þar liggja fréttir í skúffum, ef ekki er talið heppilegt að birta þær. Þar er ákveðið, að tölvupóstur sé gagnleg heimild, þegar blaðið skrifar um andstæðinga Sjálfstæðisflokksins, en hins vegar sé hann ónothæf heimild um fulltrúa flokksins.

Til skamms tíma gerðu flestir menningarvitar þjóðarinnar hræsni Moggans að sinni. En nú er Ingibjörg Sólrún farin að efast opinberlega. Og menningarvitarnir farnir að tvístíga.

DV

Ellin vann æskuna

Greinar

Um nokkurra ára skeið hefur æskudýrkun gegnsýrt samfélagið. Fólk hefur verið afskrifað um fimmtugt, svo sem sjá má á auglýsingum um lestur og áhorf yngra fólks, 20-45 ára. Þessi tími hefur runnið sitt skeið. Fólk er aftur farið að taka mark á reynslunni, samanber prófkjör Sjálfstæðisflokksins.

Auglýsendur hafa undanfarið ekki sinnt þeim, sem komnir eru um miðjan aldur. Auglýsingar miðast við yngra fólk, þótt kaupgeta hinna eldri sé almennt meiri. Auglýsendur vita kannski, að þeir, sem eru komnir á miðjan aldur, eru ekki ginkeyptir fyrir ýkjum og vafasömum fullyrðingum auglýsinga.

Satt að segja er sumt ungt fólk fákunnandi um lífið og tilveruna. Gísli Marteinn gat endurtekið í síbylju sömu innihaldslausu klisjunq um nýtt fólk fyrir nýja tíma, meðan Vilhjálmur rakti málefnastöðu sína í smáatriðum. Svo virtist sem síbyljan væri einkum talin henta ungum kjósendum.

Áfram munum við sjá unga frambjóðendur, sem hafa fátt til málanna að leggja, en fjölyrða um ungan aldur eins og í því felist einhverjar lausnir á verkefnum stjórnmálanna. Prófkjör Sjálfstæðisflokksins sýndi dæmi um, að fólk hallast að annarri og raunsærri sýn á lífið og tilveruna.

Við nálgumst óðum þann tíma, að svonefndir eldri borgarar verði gildir borgarar. Þeir munu þá hafa lengi greitt í lífeyrissjóð og hafa peninga til ráðstöfunar. Þá mun enn eflast skilningur fólks á mikilvægi reynslunnar, þegar leitað verður svara við pólitískum eða öðrum viðfangsefnum.

Mörg dæmi eru þess, að ungt fólk hafi ferskari sýn á ýmis mál en þeir, sem lengi hafa verið aldir upp við gömul og úrelt viðhorf. Hitt er að minnsta kosti jafn algengt, að reynsla hinna eldri geti hindrað ýmsa vitleysu, sem borin er á borð í viðskiptum og stjórnmálum, fjölmiðlun og menningu.

Eðlilegt er, að átök séu í þjóðfélaginu milli sjónarmiða, sem koma frá ungu fólki og frá gömlu fólki. Við höfum um nokkurt skeið búið við óeðlilegt ástand, þar sem álit hinna ungu hefur verið tekið fram yfir álit hinna eldri. Nú er þessu tímabili að ljúka og meira jafnvægi að komast á.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins er gott dæmi um, að í náinni framtíð verður meira mark tekið á reynslu en áður og minna mark á glamri hinna, sem ekki skilja takmörk æskunnar.

DV

Mislæg gatnamót eru góð

Greinar

Mislæg gatnamót eru eðlisgóð. Þau hreyfa umferðina hraðar en ella og spara þannig kjósendum tíma. Þau hindra líka mengun, sem fylgir ljósum, þar sem stöðva þarf bíla og koma þeim aftur á ferð. Mislæg gatnamót henta á öllum hornum Sæbrautar Miklubrautar, Kringlumýrarbrautar og Reykjanesbrautar.

Ekki er sama, hvernig mislæg gatnamót eru gerð. Bezt er að hafa þau sem mest neðanjarðar, þar sem þau trufla útsýni minna en ella og draga úr einangrun borgarhluta. Umferð í göngum gefur kost á þægilegum gönguleiðum í láréttum í fleti í stað lítið notaðra göngubrúa, sem einkenna Reykjavík.

Umferðaræðar verða óhjákvæmilega eins konar umferðarræsi, sem gott er að hafa neðanjarðar. Því er heppilegt að leggja þær í stokka og göng, þar sem aðstæður leyfa. Þetta var því miður ekki gert, þegar Hringbraut var færð suður fyrir Umferðarmiðstöðina og Vatnsmýrin var einangruð frá borginni.

Frá upphafi hefur verið vitað, að mislæg gatnamót á einum stað kalla á mislæg gatnamót á öðrum stað. Þess vegna á að klippa á gatnamót Lönguhlíðar og Miklubrautar, þegar mislæg mót koma á Miklubraut og Kringlumýrarbraut. Þess vegna þarf Miklabrautin að enda í vestri í góðu bílastæði við Kvosina.

Skynsamlegt er að grafa göng undir Skólavörðuholtinu frá hraðbrautinni Miklabraut-Hringbraut að Sæbraut, þar sem gengið verði upp úr bílastæðum neðanjarðar. Því meira sem bílaumferðin er sett í holræsi, þeim mun betur nýtist sjálft yfirborð jarðar fyrir gangandi fólk og ýmis mannvirki.

Vitlaust er að reyna að spara kostnað við samgöngur með því að bregða fæti fyrir einkabílinn. Eina leiðin til að fá fólk í strætó er að hafa ókeypis í hann. Eigi að síður munu bara börn og gamalmenni nota þjónustuna. Það stafar bara af því að einkabíllinn er hluti af persónu hins frjálsa borgarbúa.

Við skulum því tala í alvöru um gott skipulag bílaumferðar í Reykjavík og hætta að tala um einkabílinn sem vandamál. Við skulum því berjast fyrir mislægum gatnamótum, fyrst og fremst á Miklubraut og Kringlumýrarbraut og síðan á öllum hornum helztu samgönguæða alls höfuðborgarsvæðisins.

Við skulum því reka Reykjavíkurlistann frá völdum í vor. Hann skaðar hagsmuni borgarbúa með draumórum gegn mislægum gatnamótum. Hann er læstur inni í úreltri hugmyndafræði.

DV

Valdhafar stýrðu þrælahaldinu

Greinar

Árni Magnússon félagsmálaráðherra hefur loksins tekið við sér eftir að hafa stutt starfsmannaleigur leynt og ljóst með langvinnu aðgerðarleysi. Þótt svindlið hafi staðið nokkur misseri við Kárahnjúka og víðar, hefur ráðuneyti hans sett kíkinn fyrir blinda augað. Þangað til í þessari viku.

Sama er að segja um flokksbróður hans í Vinnumálastofnun ríkisins. Gissur Pétursson hefur misserum saman daufheyrzt við ábendingum um mannréttindabrot í starfsmannaleigum, en hefur nú í vikunni skyndilega birzt á vettvangi með stírur í augum og tölvupóst með glannalegu orðalagi úr bíómyndum.

Það var ekki fyrr en óvenjulega firrtur og hrokafullur eigandi starfsmannaleigu kom fram í fjölmiðlum í síðustu viku, að framsóknarmenn kerfisins hættu að hylma yfir starfsmannaleigum og fóru yfir á hin götuvígin. Við skulum muna, að þeir eru óvenjulega síðbúnir mannréttindavinir.

Starfsmannaleigur hér á landi virðast hafa starfað utan við lög og rétt, meðal annars af því, að félagsmálaráðuneyti Árna Magnússonar hefur ekki enn lagt fram lagafrumvarp um slíkan rekstur, þrátt fyrir Kárahnjúka. Þess vegna hafa starfsmannaleigur litið á Ísland sem fríríki þrælahaldara.

Það er deginum ljósara, að forstöðumenn starfsmannaleiga hafa brotið mannréttindi erlends verkafólks kruss og þvers og síðan rifið kjaft, þegar fréttir hafa birzt. Það stafar auðvitað af, að þeir hafa talið sig starfa í traustu skjóli framsóknarmanna í félagsmálaráðuneyti og vinnumálastofnun.

Þáttur launþegasamtaka hefur lengi verið tvíræður. Við höfum ekki áttað okkur á, hvort þau væru að reyna að gæta hagsmuna hinna leigðu starfsmanna eða hvort þau væru að reyna að losna við þá úr landinu. Nú loksins virðist vera að koma í ljós, að samtökin vilji reyna að starfa fyrir þrælana.

Fleiri valdaaðilar í þjóðfélaginu taka þátt í ábyrgðinni, þótt hún sé mest hjá félagsráðuneyti og vinnumálastofnun. Skattayfirvöld bera ábyrgð á umfangsmiklum skattsvikum í tengslum við starfsmannaleigur og lögreglan hefur tregðazt við að rannsaka mál, sem bent hefur verið á í fjölmiðlum.

Orsök fjölbreyttrar tregðu er, að valdhafar Framsóknar hafa undir niðri verið hlynntir því, að starfsmannaleigur brjóti niður vinnumarkaðinn og lækki laun verkafólks í landinu.

DV

Við erum enn í stríði

Greinar

Skrítið er, hversu reiðir málsmetandi menn eru út af flugi bandarísku leyniþjónustunnar um Keflavíkurflugvöll með fanga á leið til pyndingar á vegum bandarísku þjóðarinnar. Við verðum að líta á þessa aðstoð okkar við pyndingar sem rökréttan hluta af aðild okkar að stríðinu gegn Írökum.

Við getum ekki verið í fínimannsleik hér á Íslandi og þvegið blóðið í sífellu af höndum okkar. Við fórum í stríð, að vísu án þess að vera spurð. En við höfum síðan ítrekað staðfest í skoðanakönnunum, að við styðjum eindregið höfuðflokk ríkisstjórnarinnar, sem kom okkur í þennan sérstæða vanda.

Við höfum ákveðið að vera í nánu hernaðarbandalag við þjóð, sem er mjög herská og illskeytt. Ég er ekki bara að tala um George W. Bush og ríkisstjórn hans eða um stjórnkerfið í Bandaríkjunum, heldur bandarísku þjóðina, sem hefur í kosningum staðfest dálæti sitt á stjórnarháttum Bush.

Enginn hádegisverður er ókeypis. Við verðum eins og Danir að taka á afleiðingum ákvörðunar, sem Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson tóku fyrir hönd þjóðarinnar. Við erum í stríði gegn saklausu fólki, þar sem tugir þúsunda, sennilega eitt hundrað þúsund manns hafa verið myrt af vinum okkar.

Við verðum að gera ráð fyrir að þurfa að vinna einhver skítverk í stríðinu, ekki bara kaupa teppi á bazar í Kabúl. Það þýðir ekki að vera í stríði, en heimta svo, að glæpalýðurinn, sem við styðjum svo eindregið, fari með fanga sína um aðra flugvelli en þann, sem óvart er hér á landi.

Við þurfum ekki bara að sætta okkur við aðild að pyndingum, heldur þurfum við líka að undirbúa okkur gegn hugsanlegum gagnaðgerðum fátæka mannsins í þriðja heiminum. Stríð fátæka mannsins heitir hryðjuverk og við munum fyrr eða síðar fá að kenna á því. Við getum þá auðvitað sjálfum okkur um kennt.

Ekki er ógeðslegra eða ógeðfelldara að stunda hryðjuverk fátæka mannsins en að reka stríð ríka mannsins. Hvor tveggja er glæpamaður, Bandaríkjamaðurinn og Íslendingurinn annars vegar og hryðjuverkamaðurinn hins vegar. Hver um sig rekur stríðsglæpi með tiltækum vopnum miðað við stríðsgetu sína.

Ef við heyjum stríð hinum megin á hnettinum, getum við ekki farið að gráta, þótt stríðið verði flutt til okkar. Við skulum því bíta á jaxlinn og borga sjálf rekstur Vallarins.

DV

Allir verða þeir seldir

Greinar

Allir fjölmiðlar verða einhvern tíma seldir. Það er eðli markaðsbúskapar, að fyrirtæki og blokkir fyrirtækja ganga kaupum og sölum. Ríkisútvarpið verður líka selt, því að ekki gengur lengi, að ríkisstjórnin eigi fjölmiðil 100% meðan hún reynir að meina öðrum að eiga meira en 25% í fjölmiðli.

Hversu ánægðir, sem sumir eru með núverandi eignarhald, þá gildir það ekki til eilífðar. Mun Roman Abramovits kaupa 365-miðla og mun Rupert Murdoch kaupa fyrirhugaða blokk Moggans, Blaðsins, Símans og Skjás eitt? Þá er hætt við, að erfitt verði að finna sannleikann í fjölmiðlum landsins.

Sambúð ritstjórna við eigendur hefur alltaf verið vandamál og verður enn erfiðari í framtíð auðhringja, hvenær sem hún kemur. Sambúðin verður eins erfið og hún hefur verið við pólitík og auglýsendur. Flestir hafa þessir aðilar viljað stýra fjölmiðlunum, að minnsta kosti á sínum sviðum.

Athyglisvert er, að áratugum saman hefur Blaðamannafélag Íslands ekkert gert til að draga upp á blað atriði, sem varða þessa sambúð. Hún var þó mikill vandi fyrir fjörutíu árum, þegar siðareglur stéttarinnar voru smíðaðar. Þar er í engu fjallað um þessi mikilvægustu atriði fjölmiðlunar.

Í staðinn voru settar í siðareglur ákvæði, sem fela í sér, að spillt tillitssemi við umhverfi fjölmiðla sé æðra leiðarljós en staðreyndir frétta. Síðan var sett upp siðanefnd, sem úrskurðar jafnan, að engan megi særa, þótt satt og rétt sé sagt frá. Þessar siðareglur eru spilltar.

Hornsteinn fjölmiðlunar er að segja hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo. Blaðamannafélagið reynir að skammta fyrstu spurninguna með því að leggjast gegn nöfnum og myndum, en sinnir ekki brýnustu hagsmunum fjölmiðlunga í heimi pólitískra dólga og auðhringja.

Pólistísk sátt varð í vor um fjölmiðlafrumvarp, sem fól í sér takmörkun á eignarhaldi. Sjálfsagt er það vel meint af sumum þingmönnum, en skiptir engu máli um gæði fjölmiðla eða um hugsanlega aðkomu manna af tagi Davíðs eða Halldórs, Abramovits eða Murdoch. Frumvarpið verndar ekki fjölmiðla.

Meðan á öllu þessu gengur eru fjölmiðlar varnarlausir gegn breytingum, sem munu koma í kjölfar þess einfalda þáttar í markaðshagkerfinu, að fjölmiðlar munu ganga kaupum og sölum.

DV

Ei má satt kyrrt liggja

Greinar

Ef Yoko Ono hefði farið frá John Lennon og farið að búa með öðrum manni, hefði það verið stórfrétt í dagblöðum á borð við New York Times og Guardian. Þegar Brynja fer frá Bubba er það hins vegar tabú, sem ekki má segja frá hér á landi, jafnvel þótt Bubbi hafi sífellt borið einkalíf sitt á torg.

Hin séríslenzka skoðun á þessu máli er partur af hugarfari, sem nær frá félagslegum rétttrúnaði yfir í sósíalfasisma. Hinn félagslega rétttrúaði var á móti Sovétríkjunum er nú á móti Bandaríkjunum, styður femínisma og málflutning allra hugsjóna- og hagsmunasamtaka, en viðurkennir aðrar skoðanir.

Hinn íslenzki sósíalfasisti viðurkennir hins vegar engar aðrar skoðanir en félagslegan rétttrúnað. Fremstir fara þar í flokki spjallþáttastjórar og álitsgjafar þeirra. Verst haga sér starfsmenn Talstöðvarinnar, sem skrifuðu undir mótmælaplagg og játuðu þar með sinn eigin sósíalfasisma.

Á Talstöðinni setjast sósíalfasistar að konum og reyna að telja þeim trú um, að þær eigi að vera femínistar, þótt þær kæri sig ekki um það og segi það. Þetta geta sósíalfasistar ekki samþykkt og héldu áfram að þjarka, í stað þess að hætta í fjölmiðlun, hvar þeir eiga ekki heima, og fara í pólitík.

Í haust var ég á ferð milli spjallþátta að verja birtingu mynda. Þáttarstjórinn var einn fegurðarkónga sjónvarpsins. Hann var á undan mér og eftir að plögga vörur og þjónustu. Milli þess sem hann tróð marvaðann í spillingunni, spurði hann mig, hvort mér væri ekkert heilagt. Mér varð orðfall.

Frumstæðar siðferðishugmyndir úr félagslegum rétttrúnaði hafa of lengi ráðið ríkjum í fjölmiðlum, enda er svo komið að meirihluti stéttarinnar stundar ekki fréttamennsku, heldur spjallþáttastjórn og blaðursmíði fyrir stofnanir. Fáir þeirra hafa kynnt sér fréttaval erlendra stórblaða.

Kominn er tími til að endurskoða siðferðishugmyndir í fjölmiðlum, kasta út sósíalfasisma gegn birtingum nafna og mynda og innleiða í staðinn reglur um samskipti við stjórnmál, fjölmiðlaeigendur og auglýsendur. Á fundi í Blaðamannafélaginu kom fram eindreginn breytingavilji.

Fjölmiðlungum ber að leggja niður félagslegan rétttrúnað þeirrar stefnu að oft megi satt kyrrt liggja. Kominn er tími til að menn segi í staðinn: Ei má satt kyrrt liggja.

DV

Þjóð hræsni og helgislepju

Greinar

Við þykjumst vilja vera góð við útlendinga, en undir niðri erum við rasistar. Við höfum notað þá sem afgangsstærð í fiskvinnslu og rekum þá umsvifalaust, þegar okkur hentar. Við sættum okkur við þrælahald í starfsmannaleigum við Kárahnjúka undir verndarvæng Vinnumálastofnunar Framsóknar.

Við viljum, að alþingismenn noti hálsbindi í vinnunni, þótt margt ungt fólk hafi þá viðmiðunarreglu að treysta engum, sem hefur hálsbindi. Við tölum á hátíðarstundum um starf kennara og fóstra sem hornstein þjóðfélagsins, en tímum ekki að borga þeim kaup. Þannig eru vegir hræsninnar á Íslandi.

Við megum ekki vatni halda yfir ást okkar á kvenréttindum. Samt gengur ríkið fram fyrir skjöldu með því að skilgreina kvennastéttir sem láglaunafólk. Þetta er ein birtingarmynd þess, að ráðherrar hafa tvö Janusarandlit. Hjá borginni lofa menn ókeypis leikskólum, en geta samt ekki mannað skólana.

Við jesúsum okkur yfir neyzlu fíkniefna, meðan ríkið sjálft selur fíkniefni á okurverði, sum í sérstökum verzlunum og önnur undir diskinum í sjoppum. Apótekurum er svo falið að dreifa fíkniefnum, sem læknar ávísa. Aðalatriði ríkisins er, að einungis það sjálft eða viðurkenndir aðilar selji efnin.

Við höfum stjórnmálaflokk, sem dásamar einkaframtakið og markaðshagkerfið, en hefur samt ofurtrú á kommissörum og reglugerðum og ræður skipulega ónytjunga í ríkisembætti til að passa upp á hagsmuni sína. Þessi flokkur vill eindregið skipa velferðarnefndir, en sker framlög við niður við trog.

Öll tölum við um, að landið sé fagurt og frítt, loftið sé heilnæmt og vatnið bezt í heimi, en höfum engan áhuga á náttúrinni annan en þann að nýta hana sem mest og nauðga, samanber áhugann á risavirkjunum, raflínum og opnum sandnámum. Við höfum afstöðu nauðgarans til náttúrunnar.

Við segjumst elska sannleikann, en blaðamenn eru samt í hreinum erfiðleikum í viðtölum, af því að sumir viðmælendur tala tóma lygi, ekki sízt þeir, sem fremst standa í viðskiptum og stjórnsýslu. Við erum samsafn lygalaupa, sem segjum bara “gengur betur næst”, ef upp um okkur kemst.

Hér þykjast allir vera góðir, elska guð og náttúruna, fátæka fólkið og sjálfan sannleikann, en gerum hið gagnstæða. Á íslenzku heitir allt líf okkar hræsni og helgislepja.

DV

Höfuðflokkur hræsninnar

Greinar

Sannanlega löngu fyrir daga Baugs var ég sannfærður um, að eitthvað mikið væri athugavert við Sjálfstæðisflokkinn, allt frá áherzlu hans á slagorð frá Benito Mussolini gamla: “Stétt með stétt”, yfir í stuðning hans við harða fáokun kolkrabbans og Sambandsins á viðskiptalífi þjóðarinnar.

Flokkurinn fékk ekki óbeit á auðhringjum fyrr en Hagkaup og Baugur höfðu gert heildsala óþarfa í þjóðfélaginu með því að keyra niður verð frá birgjum og semja beint við framleiðendur. Það var hrun gæludýra flokksins, sem æ síðan hefur valdið hatri flokksins á Baugi og forverum hans.

Flokkurinn hefur aldrei verið þar sem hann er séður. Á sama tíma og hann ályktar á landsþingi um að skipa þurfi enn eina nefndina um að leysa vandamál fjölskyldna er hann að skera niður útgjöld hins opinbera til barnaverndar. Flokkurinn hefur ætíð verið flokkur hræsninnar númer eitt á Íslandi.

Dæmigert fyrir flokkinn er, að forustumenn hans fjölyrða um, hversu kristnir þeir séu. Ef fylgið bilar meira en orðið er, munu þeir líka vefja um sig þjóðfánanum. Alltaf er hræsnin handhæg flokki, sem hvergi er hægt að staðsetja í raun, en gerir þó oftast öfugt við það, sem stendur í stefnuskránni.

Áratugum saman hefur Sjálfstæðisflokkurinn stjórnað þjóðinni, einkum í helmingaskiptum við atvinnumiðlun að nafni Framsóknarflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið duglegri en samstarfsaðilinn við að raða gæludýrum á ríkisjötu embættismanna, alls 58 kvígildum í tíð Davíðs.

Flokkurinn var svo mikið á móti samkeppni í olíuverzlun, að aðgerðir Samkeppnisstofnunar gegn samráði olíufélaganna leiddu til þess, að forstjóri hennar var rekinn og stofnunin lögð niður. Flokkurinn hindrar enn, að olíusamráðsmönnunum verði stungið inn, enda eru þeir höfuðsmenn í kolkrabbanum.

Flokkurinn er fullur af þverstæðum. Hann segist vera fylgjandi viðskiptafrelsi, jafnvel frjálshyggju, en berst samt af hörku fyrir takmörkun á eignarhaldi fjölmiðla. Hann er andvígur gegnsæi, neitar að sýna almenningi bókhald sitt og leynir þar með þætti auðhringjanna í rekstri sínum.

Flokkurinn er háll sem áll. Hann þykist vilja opið þjóðfélag og vera andvígur hringamyndun, en vill samt halda lokuðu bókhaldi. Hann stundar hvorki frjálslyndi né frjálshyggju.

DV

Hvað þurfa menn að vita?

Greinar

Hæstiréttur Þýzkalands hefur úrskurðað, að tilgangur fjölmiðla sé sá einn að vera til. Það sé jafngott, að fjölmiðlar skemmti fólki og segi persónulegar fréttir og að þeir hafi einhver sérstök markmið með útgáfunni. Hæstiréttur Þýzkalands hvílir á grundvelli frjálslyndrar lífsskoðunar.

Hæstarétti Þýzkalands mundi finnast einkennilegt, að talið væri gott, að fjölmiðlar hefðu sérstök hlutverk á borð við, að láta satt kyrrt liggja, af því að birting gæti sært einhvern. Honum mundi finnast einkennilegt að spyrja fjölmiðla, hvort nauðsyn hafi borið til myndbirtingar.

Frjálslynd viðhorf sköpuðu hugmyndir um lýðræði á nítjándu öld. Þau gera ráð fyrir, að gegnsæi sé meiri hornsteinn lýðræðis heldur en frjálsar kosningar. Það er nefnilega ekki lýðræði í Egyptalandi, þótt þar séu frjálsar kosningar, því að þar er ekki gegnsæi, sem er sjálfur lykillinn að lýðræði.

Hér á landi ramba menn hins vegar milli sósíalfasisma og félagslegs rétttrúnaðar. Siðanefnd blaðamanna er hluti af þessari lífsstefnu og telur engu máli skipta, hvort satt og rétt sé sagt frá í fjölmiðlum. Hún miðar eingöngu við, hvort einhver segist vera særður og úrskurðar í samræmi við það.

Fjölmiðlar eru ekki hluti af ríkiskerfinu, til dæmis ekki hluti af dómstólum. Nafn- og myndbirting er ekki hluti af dómi. Fjölmiðlar eiga ekki að ákveða að þegja fréttir eða þegja hluta af fréttum vegna meintra sárinda úti í bæ, því að í slíku hlýtur alltaf að felast spillt umburðarlyndi.

Fjölmiðill spyr ekki sjálfan sig: Var nauðsynlegt að birta þessa mynd? Fjölmiðill spyr ekki sjálfan sig: Mátti ekki satt kyrrt liggja? Fjölmiðill telur sig ekki vera slíkan hliðvörð. Það er hlutverk lesandans, hlustandans eða áhorfandans að meta, hvort málið eigi erindi við sig.

Blaðamaður hlýtur að vinna eftir skólabókinni: Hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo. Ef hann strikar yfir fyrsta liðinn af tillitssemi við einhvern, þá rambar hann strax yfir í spillt umburðarlyndi og hræsni, sem einkennt hafa félagslegan rétttrúnað hér á landi.

Kenningin um, að takmarka eigi upplýsingar við það eitt, sem ritstjóri eða einhver annar telur vera notendum nauðsynlegt, á ekki nokkurt erindi til fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi.

DV