Höfuðflokkur hræsninnar

Greinar

Sannanlega löngu fyrir daga Baugs var ég sannfærður um, að eitthvað mikið væri athugavert við Sjálfstæðisflokkinn, allt frá áherzlu hans á slagorð frá Benito Mussolini gamla: “Stétt með stétt”, yfir í stuðning hans við harða fáokun kolkrabbans og Sambandsins á viðskiptalífi þjóðarinnar.

Flokkurinn fékk ekki óbeit á auðhringjum fyrr en Hagkaup og Baugur höfðu gert heildsala óþarfa í þjóðfélaginu með því að keyra niður verð frá birgjum og semja beint við framleiðendur. Það var hrun gæludýra flokksins, sem æ síðan hefur valdið hatri flokksins á Baugi og forverum hans.

Flokkurinn hefur aldrei verið þar sem hann er séður. Á sama tíma og hann ályktar á landsþingi um að skipa þurfi enn eina nefndina um að leysa vandamál fjölskyldna er hann að skera niður útgjöld hins opinbera til barnaverndar. Flokkurinn hefur ætíð verið flokkur hræsninnar númer eitt á Íslandi.

Dæmigert fyrir flokkinn er, að forustumenn hans fjölyrða um, hversu kristnir þeir séu. Ef fylgið bilar meira en orðið er, munu þeir líka vefja um sig þjóðfánanum. Alltaf er hræsnin handhæg flokki, sem hvergi er hægt að staðsetja í raun, en gerir þó oftast öfugt við það, sem stendur í stefnuskránni.

Áratugum saman hefur Sjálfstæðisflokkurinn stjórnað þjóðinni, einkum í helmingaskiptum við atvinnumiðlun að nafni Framsóknarflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið duglegri en samstarfsaðilinn við að raða gæludýrum á ríkisjötu embættismanna, alls 58 kvígildum í tíð Davíðs.

Flokkurinn var svo mikið á móti samkeppni í olíuverzlun, að aðgerðir Samkeppnisstofnunar gegn samráði olíufélaganna leiddu til þess, að forstjóri hennar var rekinn og stofnunin lögð niður. Flokkurinn hindrar enn, að olíusamráðsmönnunum verði stungið inn, enda eru þeir höfuðsmenn í kolkrabbanum.

Flokkurinn er fullur af þverstæðum. Hann segist vera fylgjandi viðskiptafrelsi, jafnvel frjálshyggju, en berst samt af hörku fyrir takmörkun á eignarhaldi fjölmiðla. Hann er andvígur gegnsæi, neitar að sýna almenningi bókhald sitt og leynir þar með þætti auðhringjanna í rekstri sínum.

Flokkurinn er háll sem áll. Hann þykist vilja opið þjóðfélag og vera andvígur hringamyndun, en vill samt halda lokuðu bókhaldi. Hann stundar hvorki frjálslyndi né frjálshyggju.

DV