Þjóð hræsni og helgislepju

Greinar

Við þykjumst vilja vera góð við útlendinga, en undir niðri erum við rasistar. Við höfum notað þá sem afgangsstærð í fiskvinnslu og rekum þá umsvifalaust, þegar okkur hentar. Við sættum okkur við þrælahald í starfsmannaleigum við Kárahnjúka undir verndarvæng Vinnumálastofnunar Framsóknar.

Við viljum, að alþingismenn noti hálsbindi í vinnunni, þótt margt ungt fólk hafi þá viðmiðunarreglu að treysta engum, sem hefur hálsbindi. Við tölum á hátíðarstundum um starf kennara og fóstra sem hornstein þjóðfélagsins, en tímum ekki að borga þeim kaup. Þannig eru vegir hræsninnar á Íslandi.

Við megum ekki vatni halda yfir ást okkar á kvenréttindum. Samt gengur ríkið fram fyrir skjöldu með því að skilgreina kvennastéttir sem láglaunafólk. Þetta er ein birtingarmynd þess, að ráðherrar hafa tvö Janusarandlit. Hjá borginni lofa menn ókeypis leikskólum, en geta samt ekki mannað skólana.

Við jesúsum okkur yfir neyzlu fíkniefna, meðan ríkið sjálft selur fíkniefni á okurverði, sum í sérstökum verzlunum og önnur undir diskinum í sjoppum. Apótekurum er svo falið að dreifa fíkniefnum, sem læknar ávísa. Aðalatriði ríkisins er, að einungis það sjálft eða viðurkenndir aðilar selji efnin.

Við höfum stjórnmálaflokk, sem dásamar einkaframtakið og markaðshagkerfið, en hefur samt ofurtrú á kommissörum og reglugerðum og ræður skipulega ónytjunga í ríkisembætti til að passa upp á hagsmuni sína. Þessi flokkur vill eindregið skipa velferðarnefndir, en sker framlög við niður við trog.

Öll tölum við um, að landið sé fagurt og frítt, loftið sé heilnæmt og vatnið bezt í heimi, en höfum engan áhuga á náttúrinni annan en þann að nýta hana sem mest og nauðga, samanber áhugann á risavirkjunum, raflínum og opnum sandnámum. Við höfum afstöðu nauðgarans til náttúrunnar.

Við segjumst elska sannleikann, en blaðamenn eru samt í hreinum erfiðleikum í viðtölum, af því að sumir viðmælendur tala tóma lygi, ekki sízt þeir, sem fremst standa í viðskiptum og stjórnsýslu. Við erum samsafn lygalaupa, sem segjum bara “gengur betur næst”, ef upp um okkur kemst.

Hér þykjast allir vera góðir, elska guð og náttúruna, fátæka fólkið og sjálfan sannleikann, en gerum hið gagnstæða. Á íslenzku heitir allt líf okkar hræsni og helgislepja.

DV