Allir verða þeir seldir

Greinar

Allir fjölmiðlar verða einhvern tíma seldir. Það er eðli markaðsbúskapar, að fyrirtæki og blokkir fyrirtækja ganga kaupum og sölum. Ríkisútvarpið verður líka selt, því að ekki gengur lengi, að ríkisstjórnin eigi fjölmiðil 100% meðan hún reynir að meina öðrum að eiga meira en 25% í fjölmiðli.

Hversu ánægðir, sem sumir eru með núverandi eignarhald, þá gildir það ekki til eilífðar. Mun Roman Abramovits kaupa 365-miðla og mun Rupert Murdoch kaupa fyrirhugaða blokk Moggans, Blaðsins, Símans og Skjás eitt? Þá er hætt við, að erfitt verði að finna sannleikann í fjölmiðlum landsins.

Sambúð ritstjórna við eigendur hefur alltaf verið vandamál og verður enn erfiðari í framtíð auðhringja, hvenær sem hún kemur. Sambúðin verður eins erfið og hún hefur verið við pólitík og auglýsendur. Flestir hafa þessir aðilar viljað stýra fjölmiðlunum, að minnsta kosti á sínum sviðum.

Athyglisvert er, að áratugum saman hefur Blaðamannafélag Íslands ekkert gert til að draga upp á blað atriði, sem varða þessa sambúð. Hún var þó mikill vandi fyrir fjörutíu árum, þegar siðareglur stéttarinnar voru smíðaðar. Þar er í engu fjallað um þessi mikilvægustu atriði fjölmiðlunar.

Í staðinn voru settar í siðareglur ákvæði, sem fela í sér, að spillt tillitssemi við umhverfi fjölmiðla sé æðra leiðarljós en staðreyndir frétta. Síðan var sett upp siðanefnd, sem úrskurðar jafnan, að engan megi særa, þótt satt og rétt sé sagt frá. Þessar siðareglur eru spilltar.

Hornsteinn fjölmiðlunar er að segja hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo. Blaðamannafélagið reynir að skammta fyrstu spurninguna með því að leggjast gegn nöfnum og myndum, en sinnir ekki brýnustu hagsmunum fjölmiðlunga í heimi pólitískra dólga og auðhringja.

Pólistísk sátt varð í vor um fjölmiðlafrumvarp, sem fól í sér takmörkun á eignarhaldi. Sjálfsagt er það vel meint af sumum þingmönnum, en skiptir engu máli um gæði fjölmiðla eða um hugsanlega aðkomu manna af tagi Davíðs eða Halldórs, Abramovits eða Murdoch. Frumvarpið verndar ekki fjölmiðla.

Meðan á öllu þessu gengur eru fjölmiðlar varnarlausir gegn breytingum, sem munu koma í kjölfar þess einfalda þáttar í markaðshagkerfinu, að fjölmiðlar munu ganga kaupum og sölum.

DV