Ellin vann æskuna

Greinar

Um nokkurra ára skeið hefur æskudýrkun gegnsýrt samfélagið. Fólk hefur verið afskrifað um fimmtugt, svo sem sjá má á auglýsingum um lestur og áhorf yngra fólks, 20-45 ára. Þessi tími hefur runnið sitt skeið. Fólk er aftur farið að taka mark á reynslunni, samanber prófkjör Sjálfstæðisflokksins.

Auglýsendur hafa undanfarið ekki sinnt þeim, sem komnir eru um miðjan aldur. Auglýsingar miðast við yngra fólk, þótt kaupgeta hinna eldri sé almennt meiri. Auglýsendur vita kannski, að þeir, sem eru komnir á miðjan aldur, eru ekki ginkeyptir fyrir ýkjum og vafasömum fullyrðingum auglýsinga.

Satt að segja er sumt ungt fólk fákunnandi um lífið og tilveruna. Gísli Marteinn gat endurtekið í síbylju sömu innihaldslausu klisjunq um nýtt fólk fyrir nýja tíma, meðan Vilhjálmur rakti málefnastöðu sína í smáatriðum. Svo virtist sem síbyljan væri einkum talin henta ungum kjósendum.

Áfram munum við sjá unga frambjóðendur, sem hafa fátt til málanna að leggja, en fjölyrða um ungan aldur eins og í því felist einhverjar lausnir á verkefnum stjórnmálanna. Prófkjör Sjálfstæðisflokksins sýndi dæmi um, að fólk hallast að annarri og raunsærri sýn á lífið og tilveruna.

Við nálgumst óðum þann tíma, að svonefndir eldri borgarar verði gildir borgarar. Þeir munu þá hafa lengi greitt í lífeyrissjóð og hafa peninga til ráðstöfunar. Þá mun enn eflast skilningur fólks á mikilvægi reynslunnar, þegar leitað verður svara við pólitískum eða öðrum viðfangsefnum.

Mörg dæmi eru þess, að ungt fólk hafi ferskari sýn á ýmis mál en þeir, sem lengi hafa verið aldir upp við gömul og úrelt viðhorf. Hitt er að minnsta kosti jafn algengt, að reynsla hinna eldri geti hindrað ýmsa vitleysu, sem borin er á borð í viðskiptum og stjórnmálum, fjölmiðlun og menningu.

Eðlilegt er, að átök séu í þjóðfélaginu milli sjónarmiða, sem koma frá ungu fólki og frá gömlu fólki. Við höfum um nokkurt skeið búið við óeðlilegt ástand, þar sem álit hinna ungu hefur verið tekið fram yfir álit hinna eldri. Nú er þessu tímabili að ljúka og meira jafnvægi að komast á.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins er gott dæmi um, að í náinni framtíð verður meira mark tekið á reynslu en áður og minna mark á glamri hinna, sem ekki skilja takmörk æskunnar.

DV