Loðmulla um Þjórsárver

Greinar

Með nýjum formanni hefur loðmullan minnkað aðeins í afstöðu Samfylkingarinnar til ósnortinna víðerna hálendisins. Nú er sagt, að það sé “álitin spurning, hvort ekki eigi að hætta við framkvæmdir” við Norðlingaölduveitu, sem spillir einni merkustu náttúruvin landsins, Þjórsárverum við Hofsjökul.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tekur þessa afstöðu á grunni þess, að Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Samvinnunefnd miðhálendisins vilja stöðva uppistöðulónið. Landsvirkjun og Skipulagsstjóri ríkisins vilja hins vegar knýja það fram í samræmi við harðpólitískan vilja ríkisstjórnarinnar.

Það er þægilegt fyrir hrædda Samfylkingu að vísa til vilja heimamanna sér til friðþægingar, en eigi að síður betra en ekki neitt. Samfylkingin hefur undanfarin ár verið hörmulega tvístígandi í afstöðu til stórvirkjana á ósnortnum viðernum, einkum til hinnar umdeildu Kárahnúkavirkjunar við Snæfell.

Formaður Samfylkingarinnar minnir á deilur og úfa, sem risu með þjóðinni vegna Kárahnjúkavirkjunar. Hún varar stjórnina við að ganga fram af hörku í Þjórsárverum í beinu framhaldi af fyrri deilum og telur slíkt ekki muni verða þjóðinni til gæfu. Þau orð hennar eru auðvitað hverju orði sannari.

Við höfum um langt árabil orðið að þola ríkisstjórn, sem eindregið telur, að allt sé nýtanlegt, þar á meðal viðkvæm náttúra ósnortinna víðerna landsins. Þessi hugmyndafræði langsoltins búra á ekki heima hjá þjóð, sem komin er inn á nýja öld, þar sem allar hátækniþjóðir heims hafna álverum.

Við þurfum á að halda stjórnmálamönnum, sem hafa kjark og reisn til að berjast gegn stóriðjustefnu, er getur hentað þriðja heims ríkjum, en ekki hátækniríkjum. Við höfum miklar efasemdir um Samfylkinguna, þrátt fyrir ummæli nýs formanns og viljum miklu sterkari sannfæringarkraft þar á bæ.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir talar að hætti refa í pólitík um áleitna spurningu án þess að þora að taka hreina afstöðu í málinu. Eftir yfirlýsinguna er ekki ástæða til að ætla, að Samfylkingin muni standa fast á verndun ósnortinna víðerna, ef hún kemur að myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Hingað til hefur Samfylkingin talið umhverfismál vera eins konar afgangsstærð í pólitíkinni. Í því felst loðmulla, sem hindrar, að landverndarfólk telji Samfylkinguna vera kost.

DV