Hvað þurfa menn að vita?

Greinar

Hæstiréttur Þýzkalands hefur úrskurðað, að tilgangur fjölmiðla sé sá einn að vera til. Það sé jafngott, að fjölmiðlar skemmti fólki og segi persónulegar fréttir og að þeir hafi einhver sérstök markmið með útgáfunni. Hæstiréttur Þýzkalands hvílir á grundvelli frjálslyndrar lífsskoðunar.

Hæstarétti Þýzkalands mundi finnast einkennilegt, að talið væri gott, að fjölmiðlar hefðu sérstök hlutverk á borð við, að láta satt kyrrt liggja, af því að birting gæti sært einhvern. Honum mundi finnast einkennilegt að spyrja fjölmiðla, hvort nauðsyn hafi borið til myndbirtingar.

Frjálslynd viðhorf sköpuðu hugmyndir um lýðræði á nítjándu öld. Þau gera ráð fyrir, að gegnsæi sé meiri hornsteinn lýðræðis heldur en frjálsar kosningar. Það er nefnilega ekki lýðræði í Egyptalandi, þótt þar séu frjálsar kosningar, því að þar er ekki gegnsæi, sem er sjálfur lykillinn að lýðræði.

Hér á landi ramba menn hins vegar milli sósíalfasisma og félagslegs rétttrúnaðar. Siðanefnd blaðamanna er hluti af þessari lífsstefnu og telur engu máli skipta, hvort satt og rétt sé sagt frá í fjölmiðlum. Hún miðar eingöngu við, hvort einhver segist vera særður og úrskurðar í samræmi við það.

Fjölmiðlar eru ekki hluti af ríkiskerfinu, til dæmis ekki hluti af dómstólum. Nafn- og myndbirting er ekki hluti af dómi. Fjölmiðlar eiga ekki að ákveða að þegja fréttir eða þegja hluta af fréttum vegna meintra sárinda úti í bæ, því að í slíku hlýtur alltaf að felast spillt umburðarlyndi.

Fjölmiðill spyr ekki sjálfan sig: Var nauðsynlegt að birta þessa mynd? Fjölmiðill spyr ekki sjálfan sig: Mátti ekki satt kyrrt liggja? Fjölmiðill telur sig ekki vera slíkan hliðvörð. Það er hlutverk lesandans, hlustandans eða áhorfandans að meta, hvort málið eigi erindi við sig.

Blaðamaður hlýtur að vinna eftir skólabókinni: Hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo. Ef hann strikar yfir fyrsta liðinn af tillitssemi við einhvern, þá rambar hann strax yfir í spillt umburðarlyndi og hræsni, sem einkennt hafa félagslegan rétttrúnað hér á landi.

Kenningin um, að takmarka eigi upplýsingar við það eitt, sem ritstjóri eða einhver annar telur vera notendum nauðsynlegt, á ekki nokkurt erindi til fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi.

DV