Mislæg gatnamót eru góð

Greinar

Mislæg gatnamót eru eðlisgóð. Þau hreyfa umferðina hraðar en ella og spara þannig kjósendum tíma. Þau hindra líka mengun, sem fylgir ljósum, þar sem stöðva þarf bíla og koma þeim aftur á ferð. Mislæg gatnamót henta á öllum hornum Sæbrautar Miklubrautar, Kringlumýrarbrautar og Reykjanesbrautar.

Ekki er sama, hvernig mislæg gatnamót eru gerð. Bezt er að hafa þau sem mest neðanjarðar, þar sem þau trufla útsýni minna en ella og draga úr einangrun borgarhluta. Umferð í göngum gefur kost á þægilegum gönguleiðum í láréttum í fleti í stað lítið notaðra göngubrúa, sem einkenna Reykjavík.

Umferðaræðar verða óhjákvæmilega eins konar umferðarræsi, sem gott er að hafa neðanjarðar. Því er heppilegt að leggja þær í stokka og göng, þar sem aðstæður leyfa. Þetta var því miður ekki gert, þegar Hringbraut var færð suður fyrir Umferðarmiðstöðina og Vatnsmýrin var einangruð frá borginni.

Frá upphafi hefur verið vitað, að mislæg gatnamót á einum stað kalla á mislæg gatnamót á öðrum stað. Þess vegna á að klippa á gatnamót Lönguhlíðar og Miklubrautar, þegar mislæg mót koma á Miklubraut og Kringlumýrarbraut. Þess vegna þarf Miklabrautin að enda í vestri í góðu bílastæði við Kvosina.

Skynsamlegt er að grafa göng undir Skólavörðuholtinu frá hraðbrautinni Miklabraut-Hringbraut að Sæbraut, þar sem gengið verði upp úr bílastæðum neðanjarðar. Því meira sem bílaumferðin er sett í holræsi, þeim mun betur nýtist sjálft yfirborð jarðar fyrir gangandi fólk og ýmis mannvirki.

Vitlaust er að reyna að spara kostnað við samgöngur með því að bregða fæti fyrir einkabílinn. Eina leiðin til að fá fólk í strætó er að hafa ókeypis í hann. Eigi að síður munu bara börn og gamalmenni nota þjónustuna. Það stafar bara af því að einkabíllinn er hluti af persónu hins frjálsa borgarbúa.

Við skulum því tala í alvöru um gott skipulag bílaumferðar í Reykjavík og hætta að tala um einkabílinn sem vandamál. Við skulum því berjast fyrir mislægum gatnamótum, fyrst og fremst á Miklubraut og Kringlumýrarbraut og síðan á öllum hornum helztu samgönguæða alls höfuðborgarsvæðisins.

Við skulum því reka Reykjavíkurlistann frá völdum í vor. Hann skaðar hagsmuni borgarbúa með draumórum gegn mislægum gatnamótum. Hann er læstur inni í úreltri hugmyndafræði.

DV