Ei má satt kyrrt liggja

Greinar

Ef Yoko Ono hefði farið frá John Lennon og farið að búa með öðrum manni, hefði það verið stórfrétt í dagblöðum á borð við New York Times og Guardian. Þegar Brynja fer frá Bubba er það hins vegar tabú, sem ekki má segja frá hér á landi, jafnvel þótt Bubbi hafi sífellt borið einkalíf sitt á torg.

Hin séríslenzka skoðun á þessu máli er partur af hugarfari, sem nær frá félagslegum rétttrúnaði yfir í sósíalfasisma. Hinn félagslega rétttrúaði var á móti Sovétríkjunum er nú á móti Bandaríkjunum, styður femínisma og málflutning allra hugsjóna- og hagsmunasamtaka, en viðurkennir aðrar skoðanir.

Hinn íslenzki sósíalfasisti viðurkennir hins vegar engar aðrar skoðanir en félagslegan rétttrúnað. Fremstir fara þar í flokki spjallþáttastjórar og álitsgjafar þeirra. Verst haga sér starfsmenn Talstöðvarinnar, sem skrifuðu undir mótmælaplagg og játuðu þar með sinn eigin sósíalfasisma.

Á Talstöðinni setjast sósíalfasistar að konum og reyna að telja þeim trú um, að þær eigi að vera femínistar, þótt þær kæri sig ekki um það og segi það. Þetta geta sósíalfasistar ekki samþykkt og héldu áfram að þjarka, í stað þess að hætta í fjölmiðlun, hvar þeir eiga ekki heima, og fara í pólitík.

Í haust var ég á ferð milli spjallþátta að verja birtingu mynda. Þáttarstjórinn var einn fegurðarkónga sjónvarpsins. Hann var á undan mér og eftir að plögga vörur og þjónustu. Milli þess sem hann tróð marvaðann í spillingunni, spurði hann mig, hvort mér væri ekkert heilagt. Mér varð orðfall.

Frumstæðar siðferðishugmyndir úr félagslegum rétttrúnaði hafa of lengi ráðið ríkjum í fjölmiðlum, enda er svo komið að meirihluti stéttarinnar stundar ekki fréttamennsku, heldur spjallþáttastjórn og blaðursmíði fyrir stofnanir. Fáir þeirra hafa kynnt sér fréttaval erlendra stórblaða.

Kominn er tími til að endurskoða siðferðishugmyndir í fjölmiðlum, kasta út sósíalfasisma gegn birtingum nafna og mynda og innleiða í staðinn reglur um samskipti við stjórnmál, fjölmiðlaeigendur og auglýsendur. Á fundi í Blaðamannafélaginu kom fram eindreginn breytingavilji.

Fjölmiðlungum ber að leggja niður félagslegan rétttrúnað þeirrar stefnu að oft megi satt kyrrt liggja. Kominn er tími til að menn segi í staðinn: Ei má satt kyrrt liggja.

DV