Hornsteinn hræsninnar

Greinar

Staksteinar eru áberandi yzt í hægri kanti á öftustu opnu Morgunblaðsins, eindreginn flokkspólitískur dálkur, sem gefur góða mynd af stöðu blaðsins. Það er málgagn flokksins enn þann dag í dag, þótt það hleypi inn öðrum skoðunum og víki örlítið af flokkslínu í leiðurum um afmörkuð mál.

Hræsni Moggans felst í að viðurkenna ekki stöðu sína. Það er svo aftur á móti hræsni þjóðfélagsins alls, þar á meðal vinstri manna, að hafa gert blaðið að leiðtoga lífs síns og meta ópólitísk mál á sama hátt og það. Þannig hefur orðið til séríslenzk skoðun á, hvernig fjölmiðlun eigi að vera.

Íslenzk fjölmiðlun má samkvæmt þessu ekki taka á neinum alvörumálum, sem valda sárindum einhverra, nema þá í sérstökum úttektum, sem koma sjaldan fyrir í blaðinu. Til dæmis má ekki segja frá einkamálum frægra Íslendinga, en hins vegar má segja frá einkamálum frægra útlendinga.

Að tilhlutan Morgunblaðsins hefur hálf þjóðin komið á fót siðaskoðun, sem viðurkennir aðeins gelda fréttamennsku, þar sem allt er slétt og fellt, nafnlaust og myndarlaust. Í þessum heimi er samþykkt, að rétt sé að sleppa svari við fyrstu spurningu vestrænnar blaðamennsku, sem er: Hver?

Auðvitað hafa fleiri aðilar en Mogginn komið að hræsninni. Fréttastofa ríkisvaldsins notar gamlar reglur, þar sem gæftir og aflabrögð eru ennþá hornsteinn tilverunnar. Inn hafa komið útvarp, sjónvarp og aðrir miðlar, sem eru í eðli sínu lamaðir, af því að þeir lifa bara á auglýsingum.

Það kostar meiri háttar átök í þjóðfélaginu að segja frá lækni, sem lék lausum hala á Landspítalanum og drap ófædd börn með misheppnuðum legvatnsprufum. Allir lögðust á eitt um að verja lækninn, þar á meðal siðanefnd blaðamanna, sem er orðin ein helzta vörn hræsninnar í þjóðfélaginu.

Morgunblaðið er raunar stofnun, ekki fjölmiðill. Þar liggja fréttir í skúffum, ef ekki er talið heppilegt að birta þær. Þar er ákveðið, að tölvupóstur sé gagnleg heimild, þegar blaðið skrifar um andstæðinga Sjálfstæðisflokksins, en hins vegar sé hann ónothæf heimild um fulltrúa flokksins.

Til skamms tíma gerðu flestir menningarvitar þjóðarinnar hræsni Moggans að sinni. En nú er Ingibjörg Sólrún farin að efast opinberlega. Og menningarvitarnir farnir að tvístíga.

DV