Greinar

Siðareglur á hliðarspori

Greinar

Af fréttum síðustu vikna er ljóst, að fjölmiðlun á við margs konar vanda að stríða. Landsfaðirinn kveður vígvöllinn með þeim ummælum, að hálf blaðamannastéttin sé í vikastörfum hjá auðhringi. Árið 2005 er fjölmiðlun á Íslandi umræðuefni í veigamiklum átökum í heimi stjórnmála og stórviðskipta.

Þannig var það einnig fyrir fjörutíu árum, er blaðamenn settu sér siðareglur. Fyrir blaðamann á Tímanum hét pólitíski vandinn Framsókn og auðhringavandinn hét Samband. Þá ráku fjölmiðlarnir eins konar hóruhús fyrir auglýsendur í sérblöðum og sumir fjölmiðlar reka slík hús enn í dag.

Fyrir fjörutíu árum settu blaðamenn sér ekki siðareglur um form á samskiptum við stjórnmál, auðhringa og auglýsendur, þótt það væru brýnustu verkefnin á þeirra borði. Þeir settu sér hins vegar siðareglur um, að oft megi satt kyrrt liggja, ef einhver teldi að sér vegið, til dæmis með sönnum fréttum.

Þessi siðaregluplága hefur vaxið á fjörutíu árum. Daglega berast mér tölvubréf frá lögfræðingum, sem tjá mér, að viðskiptavinir þeirra séu djúpt særðir af fréttum um, að þeir hafi verið handteknir eða ákærðir, einkum vegna birtingar nafns og myndar og vegna uppsetningar frétta.

DV hefur sett sér ágætar siðareglur, sem fjalla rækilega um allt verklag á ritstjórn, þar á meðal um vandvirkni við gerð frétta. Þessar siðareglur fara stundum að mati siðanefndar blaðamannafélagsins ekki saman við siðareglur blaðamanna og því er DV þar fordæmt fyrir fréttir, sem eru 100% réttar.

Tími er kominn til, að blaðamannafélagið endurskoði reglur sínar og taki tillit til gamalla og nýrra sjónarmiða um ágenga blaðamennsku. Á málþingi félagsins um helgina kom fram, að allir pallborðsmenn töldu tíma vera kominn á slíka endurskoðun, sem gæti sameinað blaðamenn að nýju.

Lykill að slíkri endurskoðun er viðurkenning á, að ekki gildi nein regla um, að ritstjórar meti, hvort hluti upplýsinga eigi erindi til fólks. Allar upplýsingar eiga erindi til fólks, sem síðan getur sjálft metið málið. Það er ekki hlutverk fjölmiðla að ákveða að þegja fréttir.

Ennfremur þurfa fjölmiðlar stuðning af sameiginlegum verklagsreglum um, hvernig haga skuli samskiptum við hugsanlega erfiða pólitíkusa, eigendur og auglýsendur.

DV

Persar vinna kosningar í Írak

Greinar

Kosningarnar í Írak um helgina snúast ekki um stjórnarskrá í hefðbundnum skilningi, heldur um friðarsamning milli Sjíta, Kúrda og Súnna um skiptingu landsins í þrjá hluta. Samkvæmt friðarsamningnum sjá landshlutanir um sín mál að mestu, jafnvel um hluta varnarmála. Írak verður þríklofið ríki.

Þetta var fyrirsjáanleg niðurstaða. Kúrdar og Sjítar hafa lengi þráð eigin ríki og Súnnar eru ekki nógu fjölmennir til að hindra það. Kúrdar verða vinsamlegir vesturveldunum, en Sjítar í suðri hafa þegar hallað sér að Íran, sem er í þann veginn að verða mesta olíu- og stórveldi miðausturlanda.

Þrátt fyrir hernámið ráða ofsatrúarmenn mestu í suðurhluta Íraks, þar sem Sjítar búa. Klerkar þeirra eru menntaðir í Íran. Vopn þeirra koma frá Íran. Skæruliðar þeirra koma frá Íran. Í höfuðborginni Basra fer brezki herinn með völd, en í rauninni ráða vopnaðir hópar róttækra Sjíta lögum og lofum.

Þannig fór stríð vesturveldanna gegn Írak. Það eina jákvæða við stríðslokin er eigið land Kúrda, sem munu áfram verða í þolanlegu sambandi við vesturveldin. Hið neikvæða er, að 60% þjóðarinnar koma sér upp róttæku þjóðskipulagi með litlum mannréttindum, engum kvenréttindum og hatur á vestrinu.

Þótt Saddam Hussein hafi verið skelfilegur, voru þættir mannréttinda betri hjá honum en þeir eru nú hjá arftökunum. Flokkur hans var veraldlegur, ekki trúarlegur, og réttindi kvenna voru mun meiri en þau eru nú að verða. Hann hélt Sjítum niðri, en þeir hafa nú fundið mátt sinn og megin.

Sjítinn og Súnninn hata hvor annan, en hvor um sig hatar þó vesturveldin enn meira. Afleiðing stríðsins, hernámsins og svokallaðrar stjórnarskrár verða aðrar en til var stofnað. Í stað þess að auka áhrif vesturveldanna eru það fyrst og fremst Persar í Íran, sem græða á frumhlaupi George W. Bush.

Hin heimspólitísku áhrif frumhlaupsins felast í minni áhrifum vesturveldanna í heiminum og meiri áhrifum Persa, sem dreymir um að verða að nýju heimsveldi, eins og þeir voru mörgum sinnum áður, einnig eftir daga Alexanders mikla. Öld Persa er að renna upp í hinum ótryggu miðausturlöndum.

Persar stjórna Íran og munu senn stjórna meirihluta Íraks, auk þess sem þeir stjórna nokkrum héruðum í austanverðu Afganistan. Þeir verða mesti höfuðverkur vesturveldanna.

DV

Strætó gerður aðlaðandi

Greinar

Frábært kort um strætisvagnaleiðir á höfuðborgarsvæðinu hefur verið teiknað og var birt í DV á þriðjudaginn. Kortið er miklu betra en kortið, sem Strætó gaf út í sumar, þegar leiðum var breytt. Fyrst og fremst er það svo notendavænt, að fólk skilur það og getur þess vegna notað strætó.

Kortið teiknaði Ingi Gunnar Jóhannsson, landfræðingur og kortagerðarmaður. Það er í sama stíl og við höfum séð í neðanjarðarlestum í London og í strætisvögnum í Höfn. Það er sennilega stíllinn, sem hefur almennt slegið í gegn í Evrópu, einmitt vegna þess að hann er notendavænstur.

Kortið frá Strætó var birt í DV í sumar á heilli opnu og var greinilega óskiljanlegt. Kortið frá Gunnari tók hins vegar ekki nema hálfa síðu í blaðinu á þriðjudaginn og var þar skiljanlegt í einni sjónhendingu. Þetta er skemmtilegt dæmi um, hve hægt er að ná miklum árangri á einfaldan hátt.

Kort Gunnars er svo skýrt, að það gerir strætóferðir aðlaðandi. Það freistar til notkunar á sama hátt og kortið frá Strætó hrindir fólki frá fyrirtækinu. Af því að kort Strætó er notað, en ekki kort Gunnars, eru menn almennt óánægðir með leiðakerfið og telja sig ekki geta notað það.

Kort Gunnars er aðeins lítið stílfært og fylgir landslagi að mestu leyti. Hjá neðanjarðarlestarkerfinu í London og strætó í Kaupmannahöfn eru til enn stílfærðari útgáfur, sem rúmast ofan við glugga í lest og strætó, þar sem landafræðinni er fórnað til að fólk sjái betur, hvar það er statt í kerfinu.

Það furðulega í þessu máli er, að Gunnar hefur verið að biðja Strætó í fjögur ár um að taka upp kort hans af kerfi strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu. Í jafn langan tíma hefur Strætó þráast við að hanna lélegu kortin, sem við þekkjum af raun. Þarna fer saman alkunn heimska og hroki einokunar.

Þetta er í rauninni frábært dæmi um eymd opinbers rekstrar, einkum þess, sem er á vegum Reykjavíkur. Þar er við völd Reykjavíkurlisti, sem vælir stöðugt um, að menn eigi að nota strætó í stað einkabíls, en getur alls ekki hagað málum á þann veg, að sú pólitíska óskhyggja verði að veruleika.

Viðskipti Strætó og Gunnars er skólabókardæmi um opinberan rekstur, þar sem saman fer hroki og heimska, sem síðan kalla á einkavæðingu. Vangeta opinbers rekstrar er náttúrulögmál.

DV

Evra og Evrópusamband leysa málin

Greinar

Ofhitnun atvinnulífsins er gott dæmi um, að evran yrði okkur traustari gjaldmiðill en krónan er um þessar mundir. Með evru þyrfti fólk ekki að verða gjaldþrota af uppsprengdum vöxtum af húsnæðislánum og þjóðfélagið þyrfti ekki að hafa áhyggjur af hruni þjóðarsáttar vinnumarkaðarins um kaupið.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er í hópi þeirra, sem hafa bent á, að ástandið kallar á evru. Krónan ræður ekki við sveiflu og allra sízt, þegar stjórnvöld eru kærulaus í góðærinu og vilja láta hagkerfið sjá um sig sjálft. Seðlabankinn reynir að hækka vexti aftur og aftur, en getur ekki slökkt bálið.

Þótt kalla megi það lúxusvandamál að nöldra út af blússandi gangi í hagkerfinu, hættir það að vera lúxus, þegar mánaðarlegar greiðslur fólks út af húsnæðislánum fara langt fram úr greiðslugetu þess. Það hættir líka að vera lúxus, þegar kjarasamningar verða lausir af völdum verðbólgunnar.

Evran er stór gjaldmiðill, sem heldur jöfnu verðgildi í heiminum. Krónan er lítill gjaldmiðill, sem sveiflast til og frá og veldur háum vöxtum. Fyrir löngu var vitað, að evran mundi lækka vexti í venjulegu árferði um 3 prósentustig. Í núverandi árferði mundi evran lækka vextina langtum meira.

Eins og margt Samfylkingarfólk vill Ingibjörg Sólrún ganga í Evrópusambandið. Það er líka skynsamleg tillaga. Öll ríki vilja ganga inn og fá færri en vilja. Aðild er hins vegar langt ferli og við getum ekki beðið með evruna. Það er líka rangt, að notkun hennar sé háð aðild okkar að sambandinu.

Við þurfum ekki strax að skipta um gjaldmiðil, aðeins að heimila notkun evru í daglegum viðskiptum og hvetja til notkunar hennar. Við þurfum að færa kjarasamninga og lántökur yfir í evru og gera hana gjaldgenga í viðskiptum. Við þurfum ekki einu sinni að biðja um leyfi frá Bruxelles.

Til langs tíma borgar sig líka að taka upp aðild. Við verðum fyrst að ganga frá erfiðum samningum um sjávarútveg, en þeir verða auðveldari en talið hefur verið, af því að stjórnvöld hafa hvort sem er gefið útgerðarmönnum kvótann. Að öðru leyti erum við vel búin undir samninga um evrópuaðild.

Evra og Evrópusamband munu ekki leysa allan vanda okkar, en aðild hefur þó reynzt smáríkjum ágæt aðferð við að bæta hag almennings og koma á betra jafnvægi í daglegu lífi fólks.

DV

Óttinn við Tyrkjann lifir

Greinar

Blaðamaðurinn Nicholas Kulish segir í New York Times frá ferðum sínum um Úkraínu, þar sem lögreglumenn reyndu alls staðar að hafa af honum fé. Mútur voru heimtaðar af honum á klukkustundar fresti á þjóðvegum landsins. Þessi var staða landsins í sumar, eftir appelsínugulu byltinguna í vetur.

Kulish lýsir því, hvernig koman til Rúmeníu og Búlgaríu frá Úkraínu var eins og að koma út úr myrkrinu inn í ljósið. Í Rúmeníu og Búlgaríu eru stjórnvöld nefnilega önnum kafin við að reyna að koma málum sínum í nógu gott lag til þess að þau standist kröfur Evrópusambandsins um viðræður um aðild.

Hvergi var Kulish krafinn um mútur í Rúmeníu og Búlgaríu. Honum leið eins og hann væri í Vestur-Evrópu. Kulish notar samanburðinn við Úkraínu til að benda á, að von Tyrkja um aðild að Evrópusambandinu hefur leitt til mikilla framfara í landinu á síðustu árum. Þannig virkar Evrópusambandið.

Tyrkir hafa afnumið dauðarefsingu, leyft Kúrdum að nota sitt eigið tungumál, sett borgaralega stjórn á herinn, leyst pólitíska fanga úr haldi, afnumið tolla á iðnaðarvörum, mildað afstöðu sína til Kýpur og samþykkt samkeppnislög. Þeir eru á hraðri leið til vesturevrópsks þjóðskipulags.

Margt er enn eftir. Tyrkir þurfa að viðurkenna Kýpur, lina tök hersins á stjórnvöldum, hraða endurbótum í dómsmálum, sanna að mannréttindi séu á sama stigi og í Evrópu, minnka niðurgreiðslur í iðnaði, koma upp evrópskum reglum í heilsu og umhverfi, minnka verðbólgu og halla á ríkisrekstri.

Í þessari viku samþykkti Evrópusambandið að hefja viðræður við Tyrkland um aðild að Evrópu. Það stóð tæpt, af því að kynþátta- og trúarhatur ræður enn miklu í álfunni. Fremst stóð þar Austurríki, þar sem gömlu nazistarnir voru aldrei hreinsaðir. En Evrópusambandinu tókst að kúga Austurríki.

Miklir og erfiðir samningar við Tyrkland munu taka tíu til tuttugu ár. Allan þann tíma mun Tyrkland reyna að verða evrópskara. Gamlir dómarar verða reknir eða siðaðir til. Gamlir skriffinnar ríkisins verða reknir eða siðaðir til. Hætt verður að fangelsa fólk fyrir móðgun við Tyrkland.

Þótt ferlið virðist ófært í árslok 2005, mun hvert skref, sem Tyrkir stíga, færa landið nær Evrópu og færa íslam nær kristni. Óttinn við Tyrki mun vonandi sefast í Vínarborg.

DV

Sumt er enn á huldu

Greinar

Við vitum ekki, hvernig Baugsmálið fer. Við vitum þó, að það er ekki borðleggjandi, úr því að héraðsdómur kastaði því öllu fyrir borð eftir að hafa vakið athygli á þunnu roði í málsefni ríkissaksóknara. Við vitum hins vegar heilmikið um, hvernig málið hófst, um hagsmunina og baktjaldamakkið.

Við vitum úr upptækum tölvupósti, að Styrmir Gunnarsson, Kjartan Gunnarsson og Jón Steinar Gunnlaugsson hittust til að skipuleggja málið. Þar gætti Styrmir einkum hagsmuna vinkonu sinnar, Jónínu Benediktsdóttur, og hinir einkum hagsmuna bláu handarinnar, Davíðs Oddssonar flokksformanns.

Við vitum, að málið snerist upphaflega um, að Baugsfeðgar hefðu farið illa með Gerald Sullenberger, sem var í samstarfi við þá og býr nú í einu fínasta hverfi Flórida, þótt Morgunblaðið skrifi um hann eins og hann búi í bæjarblokk. Við vitum, að málið snýst nú um aðra hluti.

Efnahagsbrotadeild réðst á skrifstofur Baugs og hafði ekki upprunaleg málsefni upp úr krafsinu. Til að lágmarka skaðann dró hún saman ný málsefni, allt niður í kaup á pylsu og hamborgara, sem brezka dagblaðið Guardian grínaðist með. Nú er Berlingske Tidende líka farið að gera grín að málinu.

Við vitum, að deilt er um, hvort birta hafi átt upplýsingar úr tölvupósti milli samsærisaðila og hvort segja hafi átt frá sambandi Styrmis og Jónínu, þótt það varpi ljósi á upphaf málsins. Morgunblaðið og fleiri áberandi aðilar eru ákaflega hneykslaðir á uppljóstrunum af því dónalega tagi.

Þessir aðilar eru hneykslaðir á fréttum, sem enginn efast um, að séu réttar. Þeir hneykslast hins vegar ekki á, að Styrmir velur, hvort hann segi fréttir, þegi fréttir eða búi til fréttir. Þeim finnst meintur dónaskapur í fréttum skipta meira máli en hvort Styrmir lætur þegja mikilvægar fréttir.

Við vitum, að ríkislögreglustjóri og efnahagsbrotadeild hans hafa engum árangri náð fyrir dómstólum í neinum málum og að þessir aðilar eru hallir undir formann flokksins. Við vitum ekki, hvernig sú sambúð fer fram, en þekkjum annað dæmi af grimmum hótunum formannsins í garð umboðsmanns Alþingis.

Við vitum þó, að Baugsmálið hófst í baktjaldamakki á skrifstofu Moggans og lá síðan um duldar slóðir inn á borð efnahagsbrotadeildar hins hlýðna ríkislögreglustjóra.

DV

Ritskoðuð fjölmiðlun eykst

Greinar

Kínverski blaðamaðurinn Sji Tao var nýlega dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að birta nýjar ritskoðunarreglur stjórnvalda á vefnum. Það var netrisinn Yahoo, sem veitti kínverskum yfirvöldum upplýsingar, svo að hægt væri að handtaka manninn. Yahoo er í vasanum á harðstjórninni í Kína.

Google er annar netrisi, sem hefur samið við glæpalýðinn, sem stjórnar Kína um að sía út óþægilegar upplýsingar. Enn einn netrisinn er Microsoft, sem hefur látið sía út vond orð á borð við “lýðræði”, “frelsi” og “mannréttindi”. Stjórnvöld í Kína vilja ekki, að kínverskir notendur sjái blótsyrði.

Yahoo, Google og Microsoft verða sífellt fyrirferðarmeiri fjölmiðlar í heiminum. Yahoo er meira að segja byrjað að ráða blaðamenn. Með þessum netfyrirtækjum hefur spilling í fjölmiðlum vaxið, því að þau líta svo á, að vinsamleg sambúð við harðstjóra og auglýsendur sé mikilvægari en siðferði.

Sameiginlega hefur Yahoo, Google og Microsoft tekizt að loka hlutum veraldarvefsins fyrir Kínverjum. Hið eftirsótta frelsi, sem átti að fylgja netinu og blogginu, hefur ekki rætzt í Kína, þótt það hafi haft jákvæð lýðræðisáhrif í Úkraínu, Georgíu, Kirgistan, Líbanon, Argentínu og Bólivíu.

Forveri risanna þriggja var Rupert Murdoch, sem samdi árið 1993 við Kína um aðgang að sjónvarpsmarkaði gegn því að passa upp á pólitíkina. Ári síðar tók hann BBC út af rásinni til að móðga ekki stjórnvöld. Árið 1997 lét hann hætta við að gefa út sjálfsævisögu Chris Patten, landstjóra Hong Kong.

Fleiri aðilar en Kína reyna að beita fjölmiðla þrýstingi. Til dæmis hafa Morgan Stanley og BP, tóbaksrisar, flugfélög og bílaframleiðendur tilkynnt, að taka verði út auglýsingar þeirra í tölublöðum, sem hafa efni, er þessum aðilum fellur ekki í geð. Þetta er bein ritskoðun eins og hjá Murdoch.

Óbein afleiðing þessara breytinga er, að fleiri blaðamenn snúast eins og skopparakringlur umhverfis valdamikla aðila í auglýsingum og pólitík. Þeir reyna að breiða yfir eymd sína með því að gagnrýna aðra blaðamenn fyrir grófa blaðamennsku, nafn- og myndbirtingar og fyrir brot á úreltum siðareglum.

Ekki verður þess vart innan lands eða utan, að samtök blaðamanna mótmæli meðferð Yahoo á Sji Tao eða lýsi áhyggjum yfir því, að blaðamenn séu að breytast í blaðurfulltrúa.

DV

101-menn ræða úthverfinga

Greinar

Einn þekktasti rithöfundur skrifaði nýlega í bók, að hverfi 101 sé sá hluti borgarinnar, sem máli skipti. Úthverfin séu bara Ameríka. Hann dásamar 101 í greininni og má það allt satt og gott vera. Að minnsta kosti hafa arkitektar landsins ekki fengið að leika þar lausum hala á skipulegan hátt.

Lýsing rithöfundarins á örlögum úthverfinga er harmþrungin. Þar sé engin list og engin sál. Blokkirnar hafi alltaf verið sálarlausar og séu það enn. Þjakaðir af sálarleysi fari úthverfingar niður í bæ að drekka bjór og syngja og láti síðan skutla sér upp í heiðargötur með ömurlegum nöfnum.

Það er útbreidd skoðun bíllausra íbúa í 101, að öllum hljóti að líða illa, sem hafi annan lífsstíl en þeirra, sérstaklega ef þeir fari allra sinna ferða á einkabíl. Þeir hljóti að vera sálarlausir, líkir Bandaríkjamönnum, án alls þess, sem evrópskar kúltúrborgir hafi að bjóða, þar með hverfi 101.

Lýsingin passar ekki nema að hluta við raunveruleikann. Margir úthverfingar fara að vísu aldrei í strætó og ætla ekki að gera það. Margir eru önnum kafnir við að keyra sig í vinnu og börnin milli uppeldisstofnana. Þeir eru raunar líka margir, sem ekki koma einu sinni í 101 til að fá sér bjór.

Engin sálgreining eða félagsgreining hefur sýnt fram á, að úthverfingar séu verr staddir í sálarlífinu eða félagslífinu en menningarvitarnir í 101. Þetta eru bara fullyrðingar, sem málsvarar 101 nota í tíma og ótíma, án þess að þær verði neitt réttari fyrir bragðið. Úthverfingum líður samt vel.

Fólk kemst bærilega af í úthverfunum án prozaks fyrir sig og rítalíns fyrir börnin. Fólk kemst bærilega af, þótt það fari ekki í strætó. Það kemst bærilega af, þótt það búi við götu með hjákátlegu nafni. Það kemst bærilega af, þótt það komi aldrei í kaffihús eða bjórstofu eða yfirleitt í hverfi 101.

Evrópskar borgarmiðjur hafa sína kosti umfram bandarískar borgarmiðjur, en bandarísk úthverfi hafa líka sína kosti umfram evrópsk úthverfi. Ein tegund búsetu hentar öðrum og önnur tegund hentar hinum. Það er ekki hægt að alhæfa um úthverfinga út frá eindreginni ást í garð hverfis 101.

Menningarvitar mega lofa evrópska borgarmiðju Reykjavíkur í hástert, en eru á hálari ís, þegar þeir telja mikinn harm steðja að öllum þeim, sem hafa og vilja annars konar búsetu.

DV

Hvorki víkingar né riddarar

Greinar

Í fornöld ferðuðust Íslendingar mikið um landið og köstuðu miklu af grjóti í bardögum. Þannig er Sturlungasaga og Íslendingasögur í hnotskurn, skrifaðar á þrettándu öld. Með öðrum orðum má orða þetta þannig, að forfeðurnir hafi verið góðir hestaferðamenn, en lélegir riddarar og víkingar.

Þá höfðu lengi verið miðaldir í Evrópu, víkingar voru úr sögunni, en riddarar fóru milli mikilfenglegra kastala og háðu krossferðir, þar sem blóð rann í straumum um Jerúsalem. Þess á milli æfðu þeir sig í burtreiðum. Ekkert bendir til, að yfirstétt Íslands hafi tekið þátt í riddaramennskunni.

Í orrustum þess tíma í Evrópu var mikið barizt á hestbaki. Menn áttu stóra hesta, sem gátu borið þungvopnaða riddara, er munduðu lensur. Minni háttar bardagamenn voru bogmenn, sem gátu gert riddurum skráveifu. Hvorugu virðist vera til að dreifa í bardögum, sem lýst er í samtímasögu Sturlungu.

Sturlungar voru lélegir herfræðingar og kunnu ekki að skipa liði. Andstæðingarnir voru litlu betri. Eftir lýsingum að dæma voru bardagar þess tíma aðallega einstaklingsframtak fótgangandi manna. Forfeður okkar gátu ekki barizt á baki og áttu í erfiðleikum, ef þeir komust ekki af baki í fyrirsát.

Merkilegt er, að bardagahefðir og stríðsrekstur í Evrópu skuli ekki hafa flutzt hingað. Þótt höfðingjar hafi verið hér fátækari en annars staðar, hefðu þeir samt átt að hafa ráð á að koma sér upp fámennu liði riddara og bogmanna og senda syni sína til að læra herstjórnarlist Evrópumanna.

Hins vegar voru höfðingjar Sturlungaaldar feiknarlega duglegir við að ferðast. Þeir eltu hver annan yfir heiðar að vetrarlagi og riðu ár á tæpu vaði holdvotir í frosti. Þeir hafa verið afar þolnir ferðamenn og ónæmir fyrir vosbúð, hafa sennilega treyst mest á hnausþykkan lopa í ferðaföt.

Eini stórbardaginn á sjó átti ekkert skylt við víkinga, heldur hlóðu menn skip sín grjóti og köstuðu. Frægari er þindarlaus þolreið Þórðar kakala og Kolbeins unga í frosti að vetrarlagi. Þar voru hvorki víkingar eða riddarar á ferð, heldur þolgóðir bændur, sem þjösnuðust um heiðar og sanda.

Sögur af þessu fólki virðast skrifaðar í öðrum heimi en sögur af ófriði í Evrópu. Bændasynir skrifuðu um bændasyni, en hvorki um víkinga né riddara, þeir voru ekki hér á landi.

DV

Reykholt er reginhneyksli

Greinar

Snorralaug er merkasta mannvirki okkar. Við eigum fornleifar á borð við Valþjófsstaðahurð og Þórshamar, en Snorralaug er eina heila mannvirkið, sem er að minnsta kosti átta hundruð ára gamalt. Þótt hún hafi stundum verið endurhlaðin, bendir allt til að stíllinn sé óbreyttur og steinninn sá sami.

Mannvirki, sem ætti að vera í skjaldarmerki okkar, húkir bak við afturgafl gamla skólans í Reykholti, þar sem hávaðasamur útblástur loftræstikerfis rýfur kyrrðina. Skólinn var reistur þarna, af því að þar var fjósgrunnur og hvorki arkitekt né ráðherra þess tíma höfðu skilning á fornminjum.

Skóli Guðjóns Samúelssonar kann að vera gott mannvirki út af fyrir sig, en á þessum stað er hann fyrsta og versta ögrunin við Snorralaug. Hann gefur forskrift að síðari mannvirkjum, sem kunna einnig að vera góð út af fyrir sig, en eru ekki í neinu samræmi við það, sem alltaf hefur verið á staðnum.

Nú er gamla kirkjan í miðpunkti Reykholts, rétt slapp við að vera rifin í æði nútímans. Kringum hana eru mannvirkin og snúa öll rassi í laugina, skóli, ný kirkja og hótel. Þessi mannvirki horfa hvert í sína áttina, hvert í sínum stíl, hvert um sig í algeru tillitsleysi við Snorra Sturluson.

Við skulum ekki tala um innihald húsanna. Ekki um furðulegt safnið í kjallara kirkjunnar og enn síður um hótelsafnið, sem er eins konar blanda af Tolkien, Freyjukynórum og ást Hitlers á meintri fortíð Germaníu. Það er pottur af rugli, sem kemur hvorki við Konungasögum Snorra né Eddu hans.

Til þess að finna minjar um Snorra og fortíð sagnamennsku Íslendinga, þarf að ganga bak við nýju Star Wars kirkjuna, ganga fram með anddyri skólans, fara niður tröppur og ganga meðfram langhliðinni unz komið er að afturgaflinum, þar sem hávaðasöm loftræsting fretar af fullum krafti í laugina.

Hjá siðuðu fólki væri Snorralaug miðja svæðisins og önnur mannvirki mundu lúta þeirri miðju. Hér hefur hins vegar orðið svipað slys og á landspítalalóðinni, að hver arkitekt á fætur öðrum kom til skjalanna og reisti minnisvarða um sjálfan sig án nokkurs tillits til sögulegra aðstæðna.

Réttast væri að rífa alla þessa móðgun; skóla, nýja kirkju og hótel, og hanna svæðið að nýju með Snorralaug í miðju, eina mannvirkið á staðnum, sem skiptir þjóðina nokkru máli.

DV

Þriðja heims veldið

Greinar

Bandaríkin eru ofsaríkt þriðja heims ríki. Munurinn á þeim og Sádi-Arabíu er sá, að Bandaríkin eru heimsveldi, sem ryðst um allan heim með vopnavaldi. Heima fyrir hrundi borgaralegt samfélag, þegar fellibylur lagði New Orleans í eyði. Kerfið varð um síðir að senda herinn á vettvang.

Í Bandaríkjunum hafa frosið samgönguleiðir milli stétta. Auðfólkið girðir sig og börn sín af í víggirtum hverfum og keyrir um á skotheldum drekum. Stefna stjórnvalda er að spilla umhverfinu, spilla samstarfi á alþjóðavettvangi og gera hina ríku ríkari. Á kostnað fátækra um heim allan.

Í Bandaríkjunum hefur traust milli manna hrunið. Samningar milli fyrirtækja, sem eru handsalaðir í Evrópu, nema 800 blaðsíðum í Bandaríkjunum, af því að allir eru að reyna að svíkja alla. Fyrir löngu hættu Bandaríkin að leggja fyrir og byggja ofneyzlu sína á lánsfé frá erkióvinum sínum í Kína.

Bandaríkin hafa gefið eftir forustu vestrænna ríkja. Þau hafa sent trylltan andstæðing fjölþjóðasamstarfs sem sendiherra til Sameinuðu þjóðanna. Forsetinn er úti að aka og situr öllum stundum í samræðum við guð almáttugan. Ef vinsældir hans minnka í könnunum, fer hann í nýtt stríð.

Bandarísk heimspólitík felst í að ljúga sökum upp á saklaus ríki í þriðja heiminum, ráðast á þau með vopnavaldi og þykjast vera að frelsa íbúana með því að drepa þá. Framganga Bandaríkjanna í Írak hefur gengið fram af siðuðu fólki, enda eru Bandaríkin ekki búin að drekka Íraksbikarinn í botn.

Þetta er ekki bara vandamál ríkisvaldsins eða einnar ríkisstjórnar í Bandaríkjunum. Þetta er vandi þjóðarinnar allrar, sem hefur endurkosið ríkisstjórnina. Þetta er vandi þjóðarinnar, sem hefur þrjár læsingar á íbúðinni og geymir vopnasafn í náttborðinu. Það er endastöð ofbeldishneigðar.

Enginn getur tekið upp merki Bandaríkjanna í heiminum. Evrópa er í sárum, síðan stjórnarskrá hennar var hafnað af síngjörnum ástæðum í Frakklandi og Hollandi. Evrópa hefur ekki mátt til að hleypa Úkraínu inn og hvað þá Tyrklandi. Evrópa hefur ekki burði til að taka þátt í heimspólitík.

Meðan enginn getur haft hemil á villta vestrinu verðum við að þreyja þorrann og gæta þess í utanríkismálum að gera ekkert til að efla feigðarflan Bandaríkjanna um heiminn.

DV

Flæðir að skerjapólitíkusum

Greinar

Bráðavaktir við Miðjarðarhafið eru farnar að fást við eina afleiðingu hækkunar hitastigs, eitraða þörunga, sem valda sólbaðsfólki háum hita, höfuðverki og táraflóði. Bráðavaktir í Svíþjóð eru farnar að fást við aðra afleiðingu hækkunar hitastigs, eitraðar bjöllur, sem valda heilahimnubólgu.

Nágrannar okkar í Svíþjóð hafa tekið eftir, að ekki er lengur hægt að synda í Mälaren og öðrum vötnum. Vatnið er orðið skítugt af því að það leggur ekki lengur á veturna. Kranavatn er um það bil að hætta að verða drykkjarhæft á ýmsum stöðum þar í landi. Allt er þetta hærri hita að kenna.

Félagsmálayfirvöld í Brescia á Ítalíu eru farin að láta ellilífeyrisþega hafa kælingarkassa. Þar og annars staðar eru menn minnugir þess, að fyrir tveimur árum fórust 20.000 manns af völdum hitabylgju í Evrópu. Skógareldar hafa í sumar farið hamförum í Portúgal vegna þurrara veðurfars.

Víðs vegar um Evrópu er baráttan gegn afleiðingum hækkunar hitastigs komin í fullan gang. Yfirvöld í Norfolk og Essex á Englandi eru farin að gera áætlanir um að leggja strandsvæði í eyði til að forða fólki frá tjóni af völdum stórflóða, sem sækja í auknum og vaxandi mæli að ströndum heimsálfanna.

Í Kaupmannahöfn er verið að lyfta teinum fyrirhugaðrar neðanjarðarbrautar um hálfan metra til að mæta hugsanlegu flóði. Á sama tíma eru bráðheimskir stjórnmálamenn á Íslandi að bulla um heil byggðahverfi og flugvöll úti á skerjum. Það eru sams konar aular og byggðu hverfi á snjóflóðasvæðum.

Flóðin í New Orleans voru fyrirsjáanleg. Varað hafði verið við þeim í umfangsmiklum skýrslum. Þar var rakið, hvernig aukinn útblástur koltvísýrings hefur hækkað yfirborðshita í Mexikóflóa og stóraukið líkur á hvirfilbyljum. Það var pólitísk ákvörðun að taka ekkert mark á þessum vísindum.

Á sama tíma og sannanir hrannast upp um, að hækkun hitastigs er ekki bara væntanleg, heldur byrjuð af fullum krafti, eru margir valdamenn ekki meðvitaðir um þetta, til dæmis ekki íslenzkir. Erlendis eru sumir valdamenn beinlínis andvígir slíkri umræðu, til dæmis George W. Bush Bandaríkjaforseti.

Í Hamborg og Rotterdam er farið að efla stíflur til að verja stærstu hafnir Evrópu gegn flóðum. Er hægt að fá fróða menn þaðan til að hafa vit fyrir íslenzkum skerjapólitíkusum?

DV

Dómarar draga úr gegnsæi

Greinar

Dómstólaráð er ung stofnun, skipuð dómurum, sem hefur reynt að draga úr aðgangi almennings að dómum. Það er liður í víðtækri tízku meðal valdamanna í kerfinu að slá slæðu yfir gangverk ríkisins, draga úr gegnsæi þess og þar með minnka lýðræðið. Fyrirbærið Persónuvernd fer þar fremst í flokki.

Dómstólaráð gerir það með því að setja nýjar reglur um, að héraðsdómstólar skuli nota heimasíðu ráðsins til að birta dóma í útvötnuðu formi, þar sem felld séu út nöfn og önnur atriði, sem mestu máli skipti. Þetta er afsakað með því, að Pétur og Páll hafi ekki þroska til að hafa aðgang að netinu.

Þessar nýju reglur hafa komið til framkvæmda hjá Héraðsdómi Vestfjarða, sem túlkar þær á þann hátt, að þrengingin, útstrikanirnar, niðurfelling nafna og annarra markverðra upplýsinga, gildi líka um fjölmiðla. Héraðsdómur Norðurlands eystra vísar blaðamönnum á skammstafanir á heimasíðu sinni.

Auðvitað reyna blaðamenn að fá þessar upplýsingar með öðrum hætti. Þeir hafa lítið gagn af að vita, að sökudólgurinn NN hafi í götunni PP fyrir framan húsið RR tekið upp hlutinn SS og notað hann til að skaða TT. Frá sjónarmiði blaðamanna er ný reglugerð Dómstólaráðs alvarleg tilraun til meinsemi.

Nú er það spurning, hvaðan Dómstólaráði og héraðsdómum á landsbyggðinni kemur réttur til pólitískrar ákvörðunar um að minnka gegnsæi í dómakerfinu, um að stefna í þá átt, að dómar verði leynilegt samtal milli dómara og málsaðila. Er hægt að taka slíka prinsípákvörðun í einfaldri reglugerð?

Auðvitað eiga Dómstólaráð og héraðsdómstólar ekki að hafa vald til að setja séríslenzkar reglur um aukinn hjúp leyndar yfir dómum, reglur sem eiga sér hvorki stoð í lögum eða stjórnarskrá né í sams konar gögnum ríkja, sem búa við hliðstætt þjóðskipulag, það er að segja lýðræði og gegnsæi.

Vekja þarf athygli stjórnmálaafla, sem eiga að stjórna þessu og verja lýðræðið, að óviðeigandi stofnanir í kerfinu eru kerfisbundið að vinna gegn helztu hornsteinum lýðræðis, einkum gegn því gegnsæi, sem á síðari árum hefur í auknum mæli verið talið vera mikilvægasti hornsteinn lýðræðis.

Því miður er þetta ekki tilviljun. Valdaaðilar í kerfinu, svo sem héraðsdómarar, telja henta sér, að almenningur fái sem minnst að vita um, hvað þeir eru að bralla í vinnunni.

DV

Síðasti einræðisherrann

Greinar

Halldór Ásgrímsson hefur árangursleyst reynt að stjórna umhverfi sínu með því að garga í símann. Menn skulfu, þegar Davíð hringdi, en þeir yppta bara öxlum, þegar Halldór hringir. Davíð var síðasti einræðisherrann á Íslandi, en Halldór er ekki og verður aldrei neinn einræðisherra.

Geir Haarde er ekki heldur einræðisherra og verður það ekki, þótt hann verði formaður í haust og þótt hann kunni síðar að verða forsætisráðherra. Hann getur reynt að neita að tala við fjölmiðla, en menn munu bara yppta öxlum. Eins og Halldór verður Geir bara venjulegur forsætisráðherra.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntaráðherra verður ekki heldur einræðisherra, þótt hún verði varaformaður og geti síðar skákað Geir til hliðar sem formanni. Hún hræðir ekki einu sinni miðaldra karlmenn, svo að notað sé hennar eigið flokkunarkerfi. Tími einræðisherra er einfaldlega liðinn.

Um langan aldur hefur Davíð Oddsson varpað skugga sínum um allt þjóðfélagið. Hann hefur skipt sér af stóru og smáu, utan ríkisgeirans sem innan hans. Margir valdamenn hafa ekki þorað að taka ákvarðanir um mannaráðningar án þess að hafa talað fyrst við Davíð. Svo langur hefur skuggi hans verið.

Bjarni Benediktsson var einræðisherra á sínum tíma, kannski ekki eins mikill og Davíð Oddsson. Hugsanlega reynir nýr Bjarni Benediktsson að verða einræðisherra, þegar hans tími kemur. En það verður að teljast ósennilegt, jafnvel þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi hertogann einan að markmiði sínu.

Við búum við þær sérstæðu aðstæður, að stærsti flokkurinn er að nafninu til hægri flokkur, en rekur í raun stefnu eðalkrata að hætti Svía. Þannig var Ólafur Thors, þannig var Bjarni og þannig var Davíð. Þannig verður líka Geir, þannig verður Þorgerður Katrín og þannig verður nýr Bjarni.

Þetta stafar af, að Sjálfstæðisflokkurinn vill frekar hafa völd en knýja hægri stefnu til sigurs. Flokkurinn hefur alltaf þurft hertoga, sinn Mussolini. Hlutverk formannsins hefur verið að segja flokknum, hvað hann eigi að gera og hvert skuli stefna. Formanninum ber að vera einræðisherra.

Þegar formenn hætta að reyna að vera einræðisherrar, hefst nýtt tímabil í sögu flokks, sem ekki er vanur að hugsa fyrir formann hvers tíma. Þá verður úrslitastund í flokkssögunni.

DV

Allir eru komnir í feitt

Greinar

Brottför Davíðs Oddssonar úr pólitík gerðist á sama feita planinu og hefur einkennt brottför annarra ráðherra. Hann útvegaði sér embætti Seðlabankastjóra, útvegaði sér aukin laun, verandi búinn að útvega sér sérstök ofurellilaun fyrir tæpu ári. Þetta er íslenzk pólitík í hnotskurn, bara ýkt.

Langur ferill Davíðs einkenndist af spillingu, sem hefur þrifizt í valdastéttunum frá ómunatíð. Hann staflaði frænda sínum og einkavini sínum í Hæstarétt. Í tíð hans hefur sjaldan verið farið eftir hæfni í ráðningum í ofurstörf ríkisins. Þau hafa fallið í hlut gæludýra stjórnarflokkanna.

Davíð tók upp þann sið að skrifa bréf og taka upp símann til að ógna mönnum, sem hann taldi vera fyrir sér, svo sem umboðsmann Alþingis, bankastjóra Landsbankans og svo framvegis. Annáluð hefur verið ruddaleg umgengni hans við fólk, sem hann taldi mundu svitna og kikna í hnjáliðunum.

Davíð elti uppi kaupsýslumenn, sem hann taldi sér andvíga, sakaði þá um mútur og bjó til aðstæður, sem embættismenn túlkuðu sem ábendingu um, að lögregluaðgerðir væru æskilegar. Eftir alla þá jóðsótt, fæddist eitthvað, sem virðist vera mús, alténd minna kvikindi en stefnt var að.

Gott er að losna við Davíð úr pólitíkinni. Hann var þar mara, af því að hann notaði völd sín til að ráðskast með hluti, sem eiga ekki að vera pólitískir, til dæmis með mannaráðningar úti í bæ. Hann heimtaði, að menn bugtuðu sig og lét sér vel líka að menn flöðruðu upp um hann.

Það er líka gott, að tómarúm myndist í hirðinni, sem áður valsaði um í krafti guðdóms einræðisherrans. Þar standa eftir aumkunnarverðir menn, sem nú eru ekki neitt neitt, af því að allt, sem þeir voru, gerðist í krafti Davíðs. Nú verða hirðmennirnir að leita sér skjóls annars staðar.

Allir aðrir eru komnir í feitt. Davíð er kominn í feitt í Seðlabankanum, hafandi hækkað laun sín og eftirlaun. Þjóðin er komin í feitt, af því að nú skapast tækifæri til að koma persónulegum þáttum í rekstri ríkisvaldsins í svipað horf og tíðkast meðal siðaðra þjóða í næsta nágrenni við okkur.

Davíð hefur sloppið vel frá þessum vandræðum, af því að þjóðinni hefur vegnað vel. En þeir eru óneitanlega margir, sem hafa verið léttstígari síðustu daga en þeir voru áður.

DV